Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Frétt

Nektardansmeyjar á súlustaðnum Goldfinger upplýsa í Ísafold sem dreift verður á morgun að erlendir dansarar hafi sætt meðferð sem einna helst líkist mansali. Stúlkunum var jafnvel óheimilt að fara frjálsar ferða sinna. Í tímaritinu er einnig sagt frá tengslum Gunnars I. Birgissonar, bæjarstjóra í Kópavogi, og því að hann hafi verið tíður gestur á staðnum. Því til sönnunar er birt mynd af honum með tveimur dansmeyjum. Mikill titringur er þegar vegna málsins og hafa áhrifamenn reynt að stöðva birtingu greinarinnar ...

Ofangreint er að finna á vef Mannlífs. Fréttin er dagsett í gær og blaðið er komið í sölu. Þetta er fréttaefni en samt tekst mér ekki að finna þetta inn á neinum af veffréttamiðlunum.   


Hver tekur við af Ólafi?

Alveg þætti mér yndislegt ef Mogginn myndi nú koma auga á allar þær hæfu blaðakonur sem geta tekið við af Ólafi sem aðstoðarritstjórar! Smile Svolítið einsleitt að vera með karlkyns aðalritstjóra og tvo karlkyns aðstoðarritstjóra...

Óska Ólafi til hamingju með nýja starfið. Bíð samt enn eftir að kona setjist í ritstjórastól einhvers dagblaðsins!


mbl.is Ólafur Þ. Stephensen ráðinn ritstjóri Blaðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynferðisleg áreitni

never_give_upÁ heimasíðu the f-word eru oft áhugaverðar greinar um femínisma. Hér er ein um hina bráðfyndnu Jacky Fleming sem berst fyrir jafnrétti með skrýtlum! Hún á heiðurinn af myndinni hérna til hliðar.

***

Fannst annars merkilegt að hlusta á Ómar Valdimarsson verja Imreglio í morgun. Það hafa komið upp nógu margar frásagnir af slæmum aðbúnaði á Kárahnjúkum til að það sé full ástæða til rannsóknar. Í eitt augnablik datt mér í hug að lýsa málaflutningi Ómars sem barnalegum... en svo fannst mér það eiginlega móðgandi gagnvart börnum svo ég hætti við. Ómar fullyrðir t.d. að ásakanir um kynferðislega áreitni séu rógburður. Málið er bara að Ómar getur engan veginn fullyrt það nema hann hafi verið á staðnum sjálfur. Alltaf. Með öllum yfirmönnum og öllum kínverskum konum sem eru farnar heim... Segir sig sjálft að það er ómögulegt. Svo skilst mér að hann hafi sett saman sem merki á milli kynferðislegrar áreitni og þess að stíga í vænginn við einhvern! Shocking Ómar hefði örugglega gott af því að skoða skrýtlurnar hennar Jacky Fleming.


Krónprinsessan

Spurning hvort ég verði krónprinsessa Sjálfstæðisflokksins í framtíðinni???? Whistling Var að enda við að lesa bókin Krónprinsessan. Var búin að heyra að þetta væri æðisleg bók um hvernig það er að vera kona í pólitík. Sumir segja að bókin sé byggð á aðförinni að Mona Sahlin sem endaði með því að hún sagði af sér ráðherraembætti. En Mona kom aftur og er nú mjög vinsæl sem formaður sænska Jafnaðarmannaflokksins. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að sjá hana flytja ræðu á opnun landsfundar Samfylkingarinnar og hún er í einu orði sagt frábær. Flutti innihaldsríka ræðu og hafði mjög kröftuga návist. 

En aftur að bókinni. Hún stendur vissulega undir nafni sem forvitnileg saga um þá aðför sem konur í pólitík geta lent í, auk togstreitunnar um frama vs fjölskyldulíf, ólíkar aðstæður kynjanna þegar það er pabbinn sem þarf að velja að setja sinn frama á bið o.s.frv. Margt í bókinni passar líka við lýsingar Karen Ross, sem hefur rannsakað fjölmiðlaumfjöllun um konur í pólitík í yfir áratug. Stundum er unnið gegn þeim bæði innan flokks og utan. Fjölmiðlarnir fá ábendingar frá "samherjum" og alls konar djúsí stöff... Ég veit hins vegar ekki hvort að ég mæli sérstaklega með bókinni fyrir konur sem hyggja á pólitískan frama. Held að hún geti haft vissan fælingarmátt ef út í það er farið. Stundum er bara best að henda sér út í djúpu og synda...  Kannski er samt gott að lesa bókina þegar fólk er komið út í djúpu Halo

Mér skilst að búið sé að framleiða sjónvarpsþætti byggða á bókinni. Vona að þeir verði bráðum sýndir á RUV.  


Ofbeldi að aukast segir löggan

Samkvæmt fréttum RUV í morgun er ofbeldi að aukast. Hvernig ætli standi á því? Við höfum nú tölvuert rætt um áhrif kláms á kynferðisofbeldi... og einnig að tengslin eru ekki einföld heldur flókin og sambland af fleiri þáttum. Sú ofbeldisdýrskun sem tröllríður samfélaginu hlýtur að hafa einhver áhrif. Hvað er það annars sem heldur okkur "innan marka", ef svo má að orði komast? Jú, það er einmitt siðferðið, lögin og þau gildi að vilja ekki meiða eða skaða aðra. Því miður er ofbeldi nátengt sumum karlmennskuímyndum nútímans (og svona til að árétta fyrir þá sem ekki ennþá skilja... þá eru orðin karlmaður, karlmennska og karlmennskuímynd ekki samheiti).

Ofbeldisdýrkun er haldið að karlmönnum, hvort sem það er í gegnum leikföng, öskudagsbúninga, ofurhetjur, action myndir, ævintýri, tölvuleiki og fleira í þeim dúr. Þetta hlýtur að hafa áhrif. Að sama skapi er ekki ólíkegt að ofbeldi kvenna aukist þegar áherslan er á að konur eigi að taka upp karlmennskuímyndir til að vera töff... Það ætti líka að vera kommon sense... 

Besta leiðin til að berjast gegn ofbeldi er að hafna ofbeldi og ofbeldisdýrkun... held samt að við séum allt of sjálfhverf sem samfélag til að vera fær um það!


Gott gaman að lítillækka konur?

Svíar eru langflottastir í jafnréttismálum og hafa enn eina ferðina sýnt að þeir eru í forystu. Svíar ákváðu að senda ekki keppanda í keppnina um Ungfrú Alheim þar sem keppnin lítillækki konur. Í fréttinni á ruv.is kom líka fram að Svíar hafa breytt fyrirkomulaginu á keppninni þannig að nú geta konur einfaldlega sótt um titilinn - eins og sótt er um starf. Svíar fá mörg prik fyrir þetta. Ruv aftur á móti fær mínus stig fyrir fréttaflutninginn því með fréttinni er sett mynd af 4 konum í bikiní og myndatextinn segir "Ungfrú Svíþjóð verður fjarri góðu gamni í kvöld". Þar með hefur þeim gjörsamlega tekist að hunsa innihald fréttarinnar þar sem stendur að ástæðan fyrir fjarveru Ungfrú Svíþjóðar er að keppnin lítillækki konur... en svo má auðvitað líka túlka myndatextann þannig að þeim hjá ruv.is þyki það gott gaman að lítillækka konur!? Whistling  

Kolefnisjöfnun, endurvinnsla og neysla

Það verður að segjast eins og er að við erum ekkert sérstaklega umhverfisvæn á þessu heimili. Við erum jú vissulega hætt að henda dagblöðum og því gífurlega magni af ruslpósti sem berst inn á heimilið og uppi eru fögur fyrirheit um að ná að endurvinna mun meira af því rusli sem til fellur. Eins höfum við breytt innkaupum að einhverju leyti og erum meðvituð um halda keyrslu á einkabílnum innan einhverra marka... Og svo höfum við auðvitað hjólað einu sinni í vinnuna! Wink

En betur má ef duga skal. Við höfum aðeins velt fyrir okkur kolefnisjöfnuninni sem mikið er auglýst og talað um þessa dagana. Það hefur verið tvennt sem við höfum verið að spekúlera í því sambandi. Annars vegar að það væri nú eiginlega skynsamlegra að verja fé í uppbyggingu regnskóga, allavega að hluta til, og hins vegar hvort að kolefnisjöfnun yrði notuð sem afsökun til að draga ekki úr mengun. Rétt í þessu kíkti ég á heimasíðu Kolviðs, sem er fyrirtækið sem heldur utan um kolefnisjöfnunina og fjárfestir í skógrækt. Mér til mikillar gleði er báðum þessum spurningum svarað þar. Lögð er áhersla á að fólk átti sig á að það þarf að draga úr mengun samhliða því að byggja upp. Eins er tekið fram að í framtíðinni standi til að fjárfesta í sjóðum og taka þannig þátt í verkefnum varðandi uppbyggingu regnskóga. 

En betur má ef duga skal. Heimasíða Sorpu er mjög fróðleg og gagnleg fyrir þau sem eru í endurvinnsluhugleiðingum. Svo er þetta sniðugt verkefni.


Hamingjuóskir óskast

Á föstudaginn hjóluðum við í vinnuna og aftur heim. Mér reiknast svo til að ég hafi hjólað í 2 klst og 43 mínútur. Tekið er á móti hamingjuóskum í kommentakerfinu... 


Sirkús á Broadway

Eftirfarandi pistill birtist í Viðskiptablaðinu síðastliðinn miðvikudag.  Set hann hér inn í tilefni dagsins.

Sirkús á Broadway

Sóley Tómasdóttir birti nýlega á blogginu sínu samantekt yfir kynjahlutföll í Silfri Egils í vetur. Það kemur væntanlega fáum á óvart að meirihluti viðmælenda Egils voru karlar, eða rúmlega 70%. Í athugasemd við innleggið stakk Hafrún Kristjánsdóttir upp á því að Sóley horfði á Ungfrú Ísland keppnina til að jafna kynjahlutföllin. Ég held að Hafrún hafi hitt naglann betur á höfuðið en hún ætlaði með þessari athugasemd.

Hann fékk bók en hún fékk nál og tvinna
Kynjahlutverkin í gegnum tíðina hafa verið mjög skýr. Hefðbundið hlutverk karlmanna var að vera fyrirvinna og taka þátt í pólitík. Opinbera svæðið var þeirra. Staður konunnar hins vegar var á heimilinu. Hún átti að sjá um uppeldi barnanna og halda sér vel til fyrir karlinn. Í dag hefur staðan breyst að hluta til. Konur eru í meirihluta þeirra sem sækja háskólanám, tiltölulega lítill munur er á
atvinnuþátttöku karla og kvenna.

Upphaflega sirkussýning
Kynin eru hins vegar langt frá því að sitja við sama borð þegar kemur að lýðræðislegri þátttöku. Á meðan strákarnir karpa í Silfri Egils, eru um 70% þingmanna og meirihluti fjölmiðlaumfjöllunar er um karla, þá eru fegurðarsamkeppnir sagðar ala af sér konur sem eru æðstu fyrirmyndir ungra stúlkna. Nokkuð merkilegt í ljósi uppruna konusýninga. Í bók Sæunnar Ólafsdóttur um fegurðarsamkeppnir á
Íslandi, Brosað gegnum tárin, kemur fram að upprunann í hinum vestræna heimi megi rekja til sirkusstjóra sem hafði á dagskrá hunda-, fugla- og blómasýningar. Við þessa flóru vildi hann bæta konusýningum.

Atvinnutækifæri
Miðað við ójafna stöðu kynjanna í lýðræðislegri þátttöku er einkennilegt að sjá fegurðarsamkeppnum hampað. Það er eins og einhver firring sé í gangi varðandi á hvaða forsendum kynin eigi að njóta framgöngu. Sumir sem mótmæla að settir séu kynjakvótar á lýðræðislega ákvarðanatöku finnst ekkert athugavert við að konur öðlist frægð og atvinnutækifæri út á að vera tilbúnar til að tipla fyrir framan dómnefnd á bikiníi og háum hælum í þeim tilgangi að hægt sé að meta líkama þeirra
til einkunna.

Góð auglýsing?
Enn furðulegra er að sjá að fyrirtæki eru tilbúin til að leggja nafn sitt við keppnina og leggja þar með blessun sína yfir fyrirbærið. Samt er vitað að fegurðarsamkeppnir eru umdeildar og mörgum finnst þær í besta falli hallærislegar. Það er kannski skiljanlegt að fyrirtæki sem starfa í bjútí bransanum séu styrktaraðilar en hvað með fyrirtæki eins og Lýsi, KEA, Pennann og Hátækni? Hvernig
samræmist þátttaka í konusýningum starfsemi þessara fyrirtækja? Eigum við kannski von á að sjá atvinnuauglýsingu bráðlega frá Pennanum þar sem auglýst er eftir ungri konu til að skreyta sófa í húsgagnadeildinni? Eða Hátækni að auglýsa eftir ungri konu sem fylgihlut við gsm síma? Lýsi hf. sem leggur upp með að lýsi sé gott fyrir heilsuna styrkir keppni sem gengur út á að steypa allar konur í sama mót og kenna þeim að það sé hræðilegur glæpur að vera í kjörþyngd. Keppnin vill hafa á sér ímynd hreystis en af hverju eru þá KFC og áfengistegundir leyfð sem styrktaraðilar? Sumar
stúlknanna hafa ekki náð löglegum drykkjaraldri en eru engu að síður notaðar til að selja áfengi. Er það til fyrirmyndar?

Samfélagsleg ábyrgð
Okkar samfélagslega ábyrgð felur í sér að meta manneskjuna að verðleikum og veita öllum sömu tækifæri óháð kyni, kynhneigð, uppruna, trúarbrögðum o.s.frv. Að ala stúlkur upp í að þeirra æðsta takmark sé að vera orðin fyrrverandi fegurðardrottning við 23 ára aldur og að virði þeirra og tækifæri í lífinu felist í útlitinu er ekki líklegt til árangurs við að jafna lýðræðislega þátttöku kynjanna.


Ofbeldi karla gegn konum

Svona í sannleika sagt þá finnst mér að karlmenn eigi að gera þetta mál að sínu og útrýma svona tölvuleikjum. Hér koma stundum karlmenn og kvarta yfir því að þeirra kyn sé gagnrýnt. Okkur konunum er sagt að við eigum að treysta karlmönnum. Ekki virðist samt vera gerð krafa um að traustið sé byggt á einhverju áþreifanlegu - eins og að geta stólað á að karlmenn fordæmi svona tölvuleiki og hatur gegn konum. Karlar hljóta að átta sig á því að ef þeir "skemmta" sér við tölvuleiki sem þessa þá geta þeir ekki litið framan í okkur konurnar kinnroðalaust og sagt að þeim þyki vænt um konur og séu á móti öllu ofbeldi gegn konum. Ef að karlkynið ætlar að skemmta sér við að beita hitt því versta ofbeldi sem hægt er þá hefur það auðvitað áhrif á samskipti kynjanna - segir sig sjálft.

Fyrir þá sem ekki skilja af hverju mætti prófa að setja þetta upp fyrir aðra hópa. Hvað ef til væru tölvuleikir þar sem hvítir menn skemmta sér við að elta uppi svertingja og hengja þá? Hvað ef vinsælir tölvuleikir fælust í því að gagnkynhneigðir karlmenn eltu uppi samkynhneigða karlmenn og lemdu þá? Hvað ef kristnir menn eltu uppi múslima og sprengdu þá? Flestir átta sig á að þegar einn hópur gerir svona gagnvart öðrum hóp þá er um hate-speach að ræða. Karlmenn, hvort sem þeir eru hlynntir nauðgunartölvuleikjum eða ekki, eiga hagsmuna að gæta því útbreiðsla og vinsældir svona leiks hefur áhrif á viðhorf til karlkynsins sem hóps.

Ég hef spurt áður hvort að það sé kvenmannsverk að verja heiður karlmanna. Ég segi nei... að karlmenn verða að taka þátt í umræðunni í meira mæli til að segja til um hvernig viðhorf þeir hafa til kvenna. Í því felst líka að gagnrýna og stöðva þá karlmenn sem vilja skemmta sér við að beita konur kynferðislegu ofbeldi.


mbl.is Nauðgunarþjálfun á Netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband