Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Sumarfrí

Jæja. Þá er kominn tími til að fara í sumarfrí. Á reyndar eftir að klára eitt verkefni svo fríið smellur ekki á strax - en svo ég geti klárað það sem fyrst byrjar bloggfríið mitt fyrr. Sem sagt núna. Hugsa að ég verði í ca mánaðar pásu frá blogginu.

Hafið það sem allra best það sem eftir er af sumri. Hlakka til að "hitta" ykkur aftur hér á blogginu seinna.


Mesta karlremban verðlaunuð

Stundum er sagt að ein af ástæðunum fyrir því hversu hægt gengur í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna sé sú að kynjamisrétti sé svo samþykkt í samfélaginu og hefðirnar svo rótgrónar. Ein sönnun þess birtist í Morgunvakt Rásar 1 í morgun. Ólöf Rún tók þar viðtal við karlmann sem var afskaplega stoltur af því að hafa unnið bikar - sem mesta karlremban. Mörgum finnst þetta eflaust léttvægt. Bara gott grín... Hins vegar myndu hinum sömu ekki finnast það léttvægt ef bikarinn snerist um annað misrétti. Segjum sem svo að hann hefði unnið bikar sem mesti rasistinn, mesti hommahatarinn eða sá sem níðist hvað mest á öryrkjum og fötluðum. Hvað með þann sem brýtur mest á börnum? Neibb, flestum þætti þetta langt yfir strikið og alls ekki við hæfi. Enda dytti fáum í hug að verðlauna fólk fyrir þess konar mismunun og fordóma. Hins vegar dettur fólki í hug að verðlauna þann sem hatar konur mest, sýnir mestu kvenfyrirlitninguna og lítur á konur sem annars flokks. Það er samþykkt í okkar samfélagi. Það er ein af ástæðunum fyrir því að jafnrétti er ekki handan við hornið heldur eigum við óravegu í land - og stundum er eins og við höfum ekki einu sinni árar til að róa með. 

Beint á eftir viðtalinu við stoltu karlrembuna var kaffispjallið frá því fyrr um morguninn endurtekið. Þar var sagt frá alheimsmóti skáta á Englandi sem miðar að því að kenna börnum að þetta sé einn heimur og auka þeirra víðsýni og umburðarlyndi þannig að allir geti búið í sátt og samlyndi. Mikið væri nú gott að þetta væri gert fyrir kynin líka. Samfélagið ætlast nefnilega til þess að kynin búi í sátt og samlyndi - eitt af hvoru kyni saman. Eignist saman börn. Ali þau upp saman. Í sátt og samlyndi. Sem jafningar er sagt - en samt þykir sniðugt að vera karlremba.  


Mæli með...

Mæli með frábærri grein Silju Bára í Fréttablaðinu í dag. Þar fjallar hún um mansal. Kann að koma mörgum á óvart að skv Sameinuðu þjóðunum er mansal ekki lítið á Íslandi og ekki heldur ekki neitt - heldur miðlungs. Væri ágætt að hafa það bak við eyrað... sérstaklega þeir sem telja að frelsisskerðing í 8 klst eftir hefðbundin vinnudag sé hluti af "eðlilegum" ráðningarsamningi. 

Hvað er hið sanna í málinu?

Screenshot_10Nýlega var sagt frá því í fréttum að bíómyndin um Simpson fjölskylduna verður heimsfrumsýnd í Springfield, Vermont. Í Fréttablaðinu í dag er auglýsing þar sem fullyrt er að myndin verði heimsfrumsýnd með íslensku og ensku tali þann 27. júlí. Hvað er í gangi? Er verið að meina að myndin verði heimsfrumsýnd með íslensku tali þennan dag? Shocking

Spurning hvort verið er að ganga aðeins og langt í markaðssetningu í þessu tilviki? Heimsfrumsýning verður ekki nema einu sinni og spurning hvort Springfield eða Reykjavík er staðurinn?


Svona lærði ég að hlýða!

Eitt sinn þegar ég var lítil stelpa, 6 eða 7 ára, ákváðum við frænka mín að stelast í heimsókn til ömmu hennar sem bjó á Kársnesbrautinni. Við vorum hjá ömmu okkar sem bjó í Holtagerðinu. Við báðum um leyfi en fengum ekki. Við ákváðum nú samt að fara og röltum þessa óralöngu leið (að okkur fannst þá) sem þarna var á milli. Þar sem við gengum eftir malarstígnum á Kársnesbrautinni á leiðinni heim kom bíll aðvífandi fyrir hornið, ætlaði að leggja fyrir framan húsið sem við vorum að ganga fram hjá en ekki vildi betur til en svo að hann keyrði á mig. Ég man reyndar ekkert eftir högginu og heldur ekki því að lenda á götunni en fann svo skerandi verki í fingrunum eftir að hafa lent á götunni. Ég fékk að dúsa á spítala í 3 daga og ber fagurt ör á enninu til minja um óþekktina. 

** 

Mér þykir samt vænt um Kársnesið og sendi íbúum stuðningskveðjur í baráttunni!

Bara spyr...

Ætli Bílabúð Benna hefði dottið í hug að láta frá sér svona auglýsingu? Bara spyr...

porsche


Hverfispöbbinn

Kíktum á hverfispöbbinn í gærkvöldi í fyrsta skipti. Mættum um kl. 9 og vorum einu kúnnarnir á svæðinu. Á risastórum skjá var Stöð 2 í gangi - með hljóði og alles. Eftir 10 mín vorum við spurð hvort við vildum horfa á Stöð 2, eitthvað annað eða hvort við vildum tónlist. Við völdum tónlist og eftir augnablik hljómaði þungarokkið.... akkúrat okkar tónlistarsmekkur og ég er ekki frá því að það hafi sést á okkur! Whistling Sem betur fer voru önnur lög líka í bland og eftir því sem leið á kvöldið fjaraði þungarokkið út. 

Ég er annars hrifin af svona hverfispöbbum. Ef við ætluðum að skjótast niður í bæ til að fá okkur smá bjór myndi það þýða að við þyrftum að skilja bílinn eftir (með tilheyrandi fyrirhöfn að ná í hann daginn eftir) og rándýru leigubílafargjaldi aftur heim. Það er eiginlega ekki hagkvæmt kostnaðarlega séð nema fyrir ærlegt fyllerí... sem er sjaldan á dagskránni. Þá er betra að hafa hverfispöbb þar sem hægt er að rölta í rólegheitum, fá sér 1 eða 2 öllara og rölta svo aftur heim. Umhverfið á okkar hverfispöbb er bara alveg ágætt en við höfðum smá áhyggjur af því hvað það var lítið að gera. Kannski fjöldinn komi ekki fyrr en í kringum miðnætti. Gæti vel verið. Vonandi. Við viljum nefnilega ekki missa hverfispöbbinn... þó við förum þangað sjaldan.   


Ljóti freki úlfurinn

Heyrðu Sóley hér kemur uppskriftin. Fannst súkkulaðikaka ljóta freka úlfsins hæfa á svona degi Cool Mín er í ofninum! Wizard

2 egg

1 1/2 dl sykur

150 gr smjör

50 gr dökkt súkkulaði

2 dl hveiti

1 dl saxaðar möndlur eða hnetukjarnar

**

Hitaðu ofninn í 175°C

Stífþeyttu egg og sykur saman í skál. Bræddu smjörið og súkkulaðið saman í skaftpotti við lítinn hita. Hrærðu því út í eggjahræruna. Sáldraðu svo hveiti með lyftidufti út í skálina og bættu möndlunum út í líka. Hrærðu þessu öllu saman.

Helltu deiginu í smurt ferkantað kökumót.  Bakaðu í 15 mín (skv uppskrift - ég hef mína mun lengur, allt að hálftíma).

Kældu kökuna í mótinu og skerðu hana svo í bita. Rosagott að búa til súkkulaðibráð úr flórsykri, kakó og mjólk og setja yfir...

Þetta er uppáhaldsuppskriftin mín úr Matreiðslubókinni minni og Mikka. 


Á ég að gæta systur minnar?

Las bókina Á ég að gæta systur minnar? í gærkvöldi. Hún fjallar um fjölskyldu sem samanstendur af foreldrum og 3 börnum. Miðjubarnið, Kate, er með bráðahvítblæði og þess vegna var 3. barnið, Anna, búið til. Hún er "hönnunarbarn" og hefur fram að 13 ára lifað sem varahlutur fyrir systur sína. En nú finnst henni nóg komið og hún neitar að gefa systur sinni nýra. Hún fær sér lögfræðing og fer fram á sjálfræði yfir líkama sínum. 

Siðferðismálin í bókinni eru bæði áleitin og mörg. Er ok að hanna barn? Velja sérstaklega barn sem passar við veika barnið til að geta notað það sem varahluti? Hvernig verður líf þessa barns og annarra í fjölskyldunni? Á barnið að fara með líkamlegt sjálfræði varðandi svona aðgerðir eða mega foreldrarnir skikka barnið til að gangast undir alls kyns meðferðir og jafnvel líffæragjöf? Höndlar 13 ára barn svona mikla ábyrgð? Hvað með siðanefndir sjúkrahúsa - eiga þær að fjalla eingöngu um meðferðir veika barnsins eða eiga þær líka að fjalla um hlutverk "varahlutarins"?

Bókin var alls ekki eins þung og erfið lesning og ég bjóst við. Hún kafaði heldur ekki eins djúpt undir yfirborðið og ég hafði vænst.  En það er samt af nógu að taka. Kannski er það einmitt kostur að hún er ekki erfiðari í lesningu - sérstaklega fyrir foreldra. En hún er mjög áhugaverð og ég mæli hiklaust með henni fyrir alla sem vilja láta pota aðeins í heilann á sér og spá aðeins í allar þessar spurningar. 


Kemur ekki á óvart

Kemur þessi niðurstaða nokkrum á óvart? Frá því súlustaðamenningin hófst á Íslandi hefur verið klikkuð tregða hjá hinu opinbera til að taka á málum. Bann við einkadansi náði þó í gegn í sumum sveitarfélögum - en er ekkert framfylgt. Löggan gerði sér nú samt ferð á Goldfinger og ákært var í málinu en auðvitað fannst leið til að sýkna. Klám- og kynlífsiðnaðurinn virðist vera Mekka karlmanna. Þar geta þeir óhindrað niðurlægt og keypt konur. Sumum finnst það sport. Ég er löngu hætt að líta þannig á að við séum siðmenntað samfélag sem lifum á upplýstum tímum. Jújú, við fáum yfirgengilegt magn upplýsinga en misréttið og kvenfyrirlitningin eru svo rótgróin að þessi andskoti viðgengst enn. Vonandi breytist það í framtíðinni, þegar karlmenn ákveða að gefa skít í svona staði og taka upp á því að bera virðingu fyrir konum. Hugsa jafnvel svo langt að þeir vilji betri framtíð fyrir dætur sínar. En nei... þeir tímar eru víst ekki komnir enn. 
mbl.is Eigandi Goldfinger og dansari á staðnum sýknuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband