Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Hvað finnst þér?

Ég er stundum að velta fyrir mér þátttöku karla í baráttunni fyrir jafnrétti. Allt í einu fannst mér tilvalið að spyrja einfaldlega hér - kommentakerfið fínt til að taka á móti svörum. 

Spurningin er:

Hvert finnst þér að eigi að vera framlag karlmanna til baráttunnar fyrir jafnrétti kynjanna?


Ungfrú heimur og SuperGirl

Hvað á þetta dagatal skylt við klámkeppnina á Pravda um helgina? Jú, allt er þetta af sama meiði - bara stigsmunur. Eitt markar veginn og hitt fylgir í kjölfarið.

Blaðið fjallar í dag um superman.is keppnina á Pravda. Endilega kíkið á það. Pistillinn minn í Viðskiptablaðinu fjallar um tengingu á milli dagatalsins og keppninnar á Pravda. Rósa Erlings er með flotta líkingu um tengslin á milli en hún segir á blogginu sínu:

 

“En svona í allri alvöru er mér efst í huga kvennaárið 2005 en í lok þess var ungfrú Ísland sem er í aðalhlutverki á þessu dagatali krýnd ungfrú heimur. Við vorum þrjár sem gagnrýndum opinberlega að forsætisráðherra landsins skildi óska henni til hamingju í nafni íslensku þjóðarinnar. Það voru ekki allir ánægðir með þá gagnrýni okkar ekki einu sinni margar af helstu baráttukonum fyrir kynjajafnrétti í íslensku samfélagi. Þjóðarstoltið er oft sterkara en hugsjónir á borð við femínisma. Við fjölluðum einmitt sérstaklega um staðalmyndir og hættulegar fyrirmyndir fyrir ungar stúlkur á tímum klámvæðingar í gagnrýni okkar.”

Ég var ein af þessum 3 sem skrifaði undir skeytið - við mikla vinsældir Tounge Ég hef ekki skipt um skoðun. Ef Unnur Birna er á þeirri skoðun að það eigi ekki við hana að halda kjafti og vera sæt (eins og hún hefur lýst yfir í viðtölum) þá vaknar sú spurning hvers vegna hún samþykkir að sitja fáklædd fyrir á dagatali sem selt er fyrir skitna 4 dollara undir þeim formerkjum að þarna sé um "himneska líkama" að ræða. Manneskja með sál skiptir þar engu máli - hvað þá hennar skoðanir. Eru þetta óskafyrirmyndirnar fyrir ungar stúlkur í dag? Eru skilaboðin sem þær eiga að fá að það flottasta sem þær geta gert í lífinu sé að sitja hálfnaktar fyrir á dagatali? Klárlega ef þetta þykja bestu fyrirmyndirnar. Stúlkurnar sem beruðu sig á Pravda gera það í kjölfarið á ofur dýrkun á fáklæddum konum. 

Er svo einhver hissa á að kona hafi aldrei verið forsætisráðherra, fjármálaráðherra, biskup eða bankastjóri?


mbl.is Íslenskar fyrirsætur kallaðar "sjóðheitar"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veröld sem ég vil

Langar að senda síðbúnar afmæliskveðjur til KRFÍ. Félagið varð 100 ára á laugardaginn. Ég kom ekki heim fyrr en á sunnudag svo ég missti af afmælisveislunni. 

KRFÍ hefur verið öflugt í kvennabaráttunni frá því árið 1907. Fyrir einhverjum árum var gefin út bókin Veröld sem ég vil. Þar er að finna sögu félagsins frá upphafi. Þetta er fróðleg og skemmtileg bók sem ég mæli eindregið með, enda KRFÍ stór hluti af sögu okkar Íslendinga. Titillinn á bókinni er líka í sérstöku uppáhaldi. Veröld sem ég vil - hljómar fallega og passar svo vel inn í baráttu femínista fyrir samfélagi sem við viljum.

KRFÍ á miklar þakkir skildar fyrir jafnréttisbaráttu á Íslandi og víðar til að stuðla að veröld sem við viljum.


Markaðsvörurnar okkar

Jæja. Af því að Halla er í framboði til formanns KSÍ hefur áhugi minn á sportinu haldist það mikið að ég horfði á annan handboltaleik! (Og fyrir ykkur sem haldið í alvörunni að sumar konur viti ekki að það er munur á handbolta og fótbolta og KSÍ og HSÍ þá lofa ég að ég þekki muninn... - bíð samt spennt eftir færslum víðs vegar á blogginu frá gaurum sem eru handvissir um að það sé líffræðilega og andlega ómögulegt að fá aukinn áhuga á handbolta í gegnum eitthvað sem er að gerast í fótboltanum!)

Leikurinn fannst mér reyndar ekkert sérlega skemmtilegur framan af. Það var ekki fyrr en ca 10 mín voru eftir af venjulegum leiktíma sem ég fór að verða eitthvað spennt. Síðustu 10 mín og framlengingin voru frábærar - fyrir utan síðustu 5 sekúndurnar, eins og gefur að skilja. Hefði verið gaman ef strákarnir hefðu unnið. 

Ég spáði mikið í búninga strákanna - eða réttara sagt allar auglýsingarnar á þeim. Strákarnir "okkar" voru með Samskip á rassinum, Herbalife á lærinu, Flugleiðir á mallanum, Skoda/Audi einhversstaðar og eitthvað fleira sem ég man ekki. Ég var fljót að komast að því að það er eins gott að ég er ekki íþróttakona - yrði rekin úr liðinu eins og skot því ég myndi aldrei samþykkja að auglýsa Herbalife og þaðan af síður vera með eitthvað prentað á botninn...

Búningar Dananna voru ekki eins crowded af auglýsingum. Ég sá enga auglýsingu á rassinum á þeim. Hins vegar voru þeir með orðið FAG á erminni. Nú hef ég ekki hugmynd um hvað þetta stendur fyrir í Danaveldi en í Bretlandi er þetta notað yfir rettur og í USA sem skammaryrði yfir homma.


mbl.is Draumurinn úti í Hamborg - Danir sigruðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynferðisbrotakafli hegningarlaga

Það var hringt í mig kl. 4 í gær og ég boðuð á fund hjá allsherjarnefnd alþingis kl. 10:15 í morgun til að ræða nýtt frumvarp Björns Bjarnasonar um kynferðisbrotakafla hegningarlaga. Fyrirvarinn auðvitað enginn og ég velti því fyrir mér í smá stund hvort markmiðið væri að við sem vorum boðaðar kæmum illa undirbúnar á fundinn... Ég var búin að ráðstafa gærkvöldinu í pistlaskrif og greinargerðin og frumvarpið er nær 50 bls.

Þetta hafðist nú allt samt og við mættum margar frá kvennahreyfingunni þó þau í allsherjarnefnd hafi verið fáliðuð eða 5 þegar mest var. Hefði verið gaman ef hægt hefði verið að ganga til atkvæðagreiðslu um þau mál sem voru rædd Smile

Frumvarpið nýja felur í sér mörg skref fram á við, eins og að misneytingarákvæðið fellur út og það sem áður féll undir það flokkast nú undir nauðgunarákvæðið. Með frumvarpinu verður það sem sagt að lögum að það að nýta sér t.d. ölvunarástand annarrar manneskju verður nauðgun en ekki misneyting eins og það var áður.  Fyrningafresturinn lengist örlítið með frumvarpinu en best væri að afnema hann alveg fyrir kynferðisbrot gegn börnum - rétt eins og morð og landráð fyrnast aldrei. 

Stærsti gallinn á lögunum er varðandi vændi. Það á ekki að gera kaup á vændi ólögleg. Afleiðingar þess að vera í vændi eru svipuð og fyrir annað kynferðisofbeldi. Þess vegna eiga kaupin að vera ólögleg. Kaupandinn á að fá skýr skilaboð um að með því að kaupa vændi er hann að skaða aðra manneskju fyrir lífstíð og slíkt á ekki að vera liðið í nútímasamfélagi.  Með því að hafa vændismálin í algjöru limbói þar sem það er hvorki ólöglegt né löglegt (fyrir utan milliliðinn) þá skilur það lögregluna og önnur yfirvöld eftir með engin verkfæri í höndunum til að sporna gegn vændi.

Aðrar breytingar sem ég myndi vilja sjá á frumvarpinu er að kynferðislegur lögaldur verði hækkaður - þó með þeim fyrirvara að kynlíf milli unglinga á sama aldri sé ekki ólöglegt. Lögunum ætti fyrst og fremst að vera ætlað að vernda unglinga fyrir eldri einstaklingum.

Auglýsingaákvæðið sem kveður á um að bannað sé að auglýsa kaup og sölu á vændi er einnig óskýrt og þyrfti að fínpússa. Eins þarf að taka á klámvæðingunni með einhverjum hætti. Í greinargerðinni sem fylgir með frumvarpinu er tiltekið að til að sporna við vændi þurfi að grípa til aðgerða gegn þeim viðhorfum til kynlífs sem birtast í gegnum súlustaðina og fleira. Það sem skortir er þessi úrræði. Nú virðist ríkisstjórnin ekki ætla að gera kaup á vændi ólögleg - en ætlar hún þá að grípa til hinna aðgerðanna sem tiltekið er í greinargerðinni að eru nauðsynleg? Þetta er spurning dagsins og nú er bara að bíða og sjá!

Allavega - það að allsherjarnefnd er að boða alla á fund þýðir væntanlega að frumvarpið verður bráðum afgreitt út úr nefnd... og þá styttist í að lögin breytist. Þá færumst við nokkur skref fram á við - get ekki annað en verið glöð yfir því Smile


Frekar leiður en ekki mjög

Guðjón er "frekar leiður" en greinilega ekki mjög... Hann á augljóslega bágt með tjá sig um Margréti. Ég  er mest hissa á að hann hafi ekki bara sagt "farið hefur fé betra". Er viss um að hann segir það í lokuðum hópi Whistling

Held að úrsögn úr flokknum hafi verið eina lausnin fyrir Margréti. Þó það sé aðdáunarvert að taka slaginn í miðjum úlfahópnum var þetta orðið full mikið af því góða. Bíð spennt eftir að sjá hvað Margrét tekur sér fyrir hendur og hvaða flokk hún velur næst. Hvað sem verður er ekki annað hægt en að segja að hún hafi staðið í hetjulegri baráttu og í raun furðulegt hvað hún hélt þetta lengi út. 

Frjálslyndir geta nú óhindrað starfað með sína kvenna- og kynþáttafordóma. Svo er bara að sjá hversu miklu fylgi sú stefna á að fagna í samfélaginu. Þar sem hér ríkir ekki mikið jafnrétti í raun er aldrei að vita hvað verður. 


mbl.is Guðjón Arnar: Frekar leitt að Margrét skyldi taka þessa afstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf í boltanum... þ.e.a.s. fótboltanum en ekki handboltanum!

Hér er pistillinn minn úr Viðskiptablaðinu frá því 24. janúar: 

Alltaf í boltanum
KSÍ var stofnað 26. mars 1947. Eggert Magnússon er fæddur 20. febrúar 1947. KSÍ og Eggert fagna því bæði sextugsafmæli á árinu. KSÍ ber þess á margan hátt merki að vera sextugt félag. Viðhorf sem þar hafa birst til jafnréttismála eru barn síns tíma og löngu kominn tími til að hrista almennilega upp í sportinu. Sem kunnugt er mun Eggert láta af starfi formanns á næsta ársþingi. Til skamms tíma leit út fyrir að baráttan yrði á milli tveggja miðaldra karlmanna en í síðustu viku bættist við valkostur úr allt annarri átt. Halla Gunnarsdóttir, þingfréttaritari Morgunblaðsins, ákvað að taka slaginn og bauð sig fram á móti Geiri Þorsteinssyni og Jafeti Ólafssyni.

Gáleysi í tíðarandanum
Fyrirfram hefði Halla þótt ósennilegur kostur. Fyrir það fyrsta er hún kona og konur hafa nú ekki náð sérstökum framgangi innan KSÍ hingað til. Það sést vel á hverjir skipa stjórn KSÍ. Í aðalstjórn eru 8 karlar og 1 kona. Til viðbótar eru 4 landsfjórðungsfulltrúar og eru það allt karlmenn. Varamenn bæði aðalstjórnar og landsfjórðungsfulltrúa eru allt karlar. Aðalsmerki félagsins er karlaboltinn. Þangað fer megnið af peningunum, áhorfið og peppið. Það er ekki nema rúm vika síðan að stjórn KSÍ ákvað að jafna dagpeningagreiðslur kvenna til jafns á við karla. Eggert Magnússon sagði í viðtali við Morgunblaðið um helgina að ástæðan fyrir því að dagpeningagreiðslurnar væru ójafnar stafaði af gáleysi og að menn hefðu ekki áttað sig á tíðarandanum. Þarna liggur einmitt kjarni málsins – í tíðarandanum.

Útsending rofin fyrir vítaspyrnukeppni
Það er margt sem sýnir svart á hvítu að jafnrétti í íþróttum er jafnvel enn minna en á flestum öðrum sviðum þjóðfélagsins, jafnt innan KSÍ sem utan. Fjölmiðlaumfjöllun um íþróttir er mjög vilhöll karlmönnum. Í rannsókn sem gerð var árið 2004 kom fram að einungis 16% íþróttafrétta fjölluðu eingöngu um konur. Flestum er einnig í fersku minni þegar RUV ákvað að stöðva útsendingu í úrslitaleik bikarkeppni kvenna þegar vítaspyrnukeppnin var að hefjast vegna þess að klukkan var 7 og fréttir áttu að byrja þá. Svona gerist aldrei í karlaboltanum. Þá munar ekki um að færa fréttatímann eins og hann leggur sig yfir á nýjan tíma.

Hvernig á að draga úr virðingu fyrir boltanum?
Kynferðislegur undirtónn í sportinu er á karlrembulegu nótunum. Á síðasta ári var KR með “herrakvöld” þar sem þeir fengu nokkrar konur til að vera berbrjósta innan um 300 karlmenn. Fleiri fótboltafélög eru sek um viðlíka uppákomur. Myndbirtingar í fjölmiðlum af íþróttakonum eru mun oftar með kynferðislegum undirtóni heldur en myndbirtingar af körlum. Síðast en ekki síst ber að nefna að KSÍ neitaði að taka undir gagnrýni vegna vændis og mansals á HM í Þýskalandi á síðasta ári. Allt þetta hefur áhrif. Bæði ýtir þetta undir staðalmyndir kynjanna og dregur úr virðingu fyrir íþróttinni. Í þessu andrúmslofti er kannski ekki furða að meira að segja landsliðskonurnar ákváðu að prófa þá leið fyrir nokkrum árum að sitja fáklæddar fyrir og auglýsa landsleik undir kjörorðinu “stelpuslagur”.

Margt vel gert
Staðan er þó ekki svo svört að ekkert hafi verið að gert. Íslenskar knattspyrnukonur hafa verið ötular í baráttunni og tekist að lyfta grettistaki þrátt fyrir að hafa mætt mikilli andstöðu. KSÍ var til dæmis ekki tilbúið til að jafna verðlaunafé í Landsbankadeildinni þegar upp komst árið 2004 að sigurliðið í kvennaflokki átti að fá töluvert lægri upphæð heldur en þau 2 lið í karladeildinni sem voru í fallsæti. Eftir miklar umræður frá knattspyrnukonum og afhendingu Bleiku steinanna frá Femínistafélaginu var verðlaunaféið að lokum jafnað fyrir tilstuðlan stærsta styrktaraðila deildarinnar, Landsbankans. Aðstæður í kvennaboltanum eru mun betri nú en fyrir nokkrum árum. Lögð er meiri áhersla á að fá stelpur til að æfa fótbolta og kvennalandsliðið hefur staðið fyrir hugmyndaríkum auglýsingaherferðum til að auglýsa landsleiki, ef frá er talin ofangreind auglýsing. Með sinni baráttu hefur þeim tekist að vekja athygli þjóðarinnar á mikilvægi þess að auka jafnrétti í boltanum. 

Rétti tíðarandinn
Það er einmitt í þessum tíðaranda sem Halla býður sig fram. Tíðarandanum þar sem almenningur er farinn að átta sig á karlaslagsíðunni í boltanum. Og fólk vill breytingar. Þær breytingar eru líklegastar til að gerast með Höllu í formannssætinu vegna þess að þá mun andstaðan við jafnrétti hverfa úr formennskunni. Í staðinn mun skipa sætið kona sem hefur hugsjónir til að breyta boltanum í þá átt að slagorðið “fótbolti fyrir alla” verði að veruleika fyrir alla þjóðinna en ekki bara helming hennar. Markmið íþrótta er ekki einöngu að útvega hreyfingu og efla liðsheild. KSÍ hefur það markmið að fótbolti eigi að stuðla að líkamlegum, félagslegum og sálrænum þroska barna og unglinga. Í öllu bakslaginu sem nú á sér stað í jafnréttismálum er framboð Höllu bjartasta vonin um að hægt sé að stíga stórt skref fram á við. Í sönnum keppnisanda vona ég að Halla mali formannslaginn – svo hægt verði að tala um Ísland best í heimi í boltanum.


Löglegir viðskiptahættir?

Í desember poppaði inn um lúguna hjá mér greiðsluseðill fyrir áskrift að Stöð 2 upp á 5.700 kr. Ég er ekki með áskrift að Stöð 2 svo ég hringdi í þjónustuverið til að spyrja hvað væri í gangi. Útskýringin var sú að fyrirtækið tók upp á því að senda öllum sem eru með gamlan myndlykil frá þeim en ekki áskrift greiðsluseðil í þeirri von að fólk myndi skila myndlyklinum. Mér var tjáð að ég þyrfti ekki að borga greiðsluseðilinn en gæti skilað myndlyklinum. Ef ég gerði hvorugt átti að senda þetta til innheimtu hjá Intrum. Nú er ég ekki búin að skila myndlyklinum og ekki búin að borga. Rétt í þessu poppaði inn annar greiðsluseðill frá 365 upp á 5.700 kr fyrir febrúaráskrift. Ég er búin að hugsa málið síðan síðast og er verulega ósátt við að fá greiðsluseðil fyrir þjónustu sem ég hef ekki keypt, pantað eða hugsað mér að kaupa. Mér er stórlega til efs að þetta sé löglegt. Ég bjallaði því aftur í þjónustuverið. Í þetta sinn var mér sagt að Intrum hótunin væri bull og vitleysa - þetta yrði ekki sett í innheimtu og ekki væri greiðsluskylda á seðlinum. Ef ég vildi losna við greiðsluseðlana gæti ég skilað myndlyklinum og málið væri afgreitt. 

Ok. Nú finnst mér gott að vita að ég get losnað við greiðsluseðlana á einhvern hátt. Hins vegar er hlaupin í mig þrjóska vegna þess að ég efast um að þetta sé löglegt. Ég sagði því stúlkunni í þjónustuverinu að þeim væri frjálst að ná í myndlykilinn til mín en ég vildi ekki fá fleiri greiðsluseðla - hvort sem ég geri mér ferð með lykilinn eða ekki. Nú er bara að bíða og sjá hvað gerist.

Síðan er spurning hvaða fyrirtækjum dettur næst í hug að senda rukkun fyrir vöru sem enginn hefur pantað. Ef þetta er löglegt gæti alveg farið svo að greiðenda bíði hörkuvinna um hver mánaðarmót að finna út hvaða reikningar eru raunverulegir og hvaða reikningar eru sendir svona að gamni í þeirri von að einhver borgi!

Bankanum þínum er sama um þig

Vinkona mín þurfti 2m kr. bankalán um daginn til að kaupa sér íbúð. Bankinn hennar neitaði henni um bankalán með veði í íbúðinni á þeim forsendum að þeir vildu ekki auka á þensluna í þjóðfélaginu. Í staðinn var henni boðið 2m kr. yfirdráttarlán á yfir 20% vöxtum. Það er fyrir ofan minn skilning hvernig þeir reikna út að hið síðarnefnda auki síður þenslu en hið fyrrnefnda - nema þeir hugsi sem svo að þessar 400.000 kr sem hún hefði borgað í vexti á einu ári kæmu í veg fyrir að hún keypti eitthvað fyrir peninginn... Akkúrat þegar hún stóð í þessu bankastappi fór ég í kaffi Hljómalind og sá þar bol með áletruninni "Bankanum þínum er sama um þig". Ég keypti auðvitað eitt stk með det samme og gaf vinkonu minni í innflutningsgjöf. 

Bankarnir eru að græða ofurháar upphæðir þessa dagana. Þess vegna er erfitt að skilja hvers vegna þörf er á svona háum vöxtum og þjónustugjöldum. Íbúðarlánin sem við fáum eru verðtryggð og með vöxtum. Bankarnir fá lán í erlendri mynt án verðtryggingar og á lægri vöxtum. Það er eitthvað skakkt við þetta kerfi.

Í gærkvöldi sagði Grétar mér frá auglýsingu frá einum bankanum sem hljómaði eitthvað á þá  leið að  við ættum að láta peningana vinna fyrir okkur með því að færa yfirdráttinn okkar yfir til þeirra því þeir væru með lægri vexti en samkeppnisaðilarnir. Ég auglýsi hér með eftir útskýringu á því hvernig skuldir vinna fyrir fólk! Er ekki einhver firring í gangi?


Ég vil vera frænka Soffíu

Sofia þýðir viska og dætur hennar eru trú, von og kærleikur.

Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband