Sirkús á Broadway

Eftirfarandi pistill birtist í Viðskiptablaðinu síðastliðinn miðvikudag.  Set hann hér inn í tilefni dagsins.

Sirkús á Broadway

Sóley Tómasdóttir birti nýlega á blogginu sínu samantekt yfir kynjahlutföll í Silfri Egils í vetur. Það kemur væntanlega fáum á óvart að meirihluti viðmælenda Egils voru karlar, eða rúmlega 70%. Í athugasemd við innleggið stakk Hafrún Kristjánsdóttir upp á því að Sóley horfði á Ungfrú Ísland keppnina til að jafna kynjahlutföllin. Ég held að Hafrún hafi hitt naglann betur á höfuðið en hún ætlaði með þessari athugasemd.

Hann fékk bók en hún fékk nál og tvinna
Kynjahlutverkin í gegnum tíðina hafa verið mjög skýr. Hefðbundið hlutverk karlmanna var að vera fyrirvinna og taka þátt í pólitík. Opinbera svæðið var þeirra. Staður konunnar hins vegar var á heimilinu. Hún átti að sjá um uppeldi barnanna og halda sér vel til fyrir karlinn. Í dag hefur staðan breyst að hluta til. Konur eru í meirihluta þeirra sem sækja háskólanám, tiltölulega lítill munur er á
atvinnuþátttöku karla og kvenna.

Upphaflega sirkussýning
Kynin eru hins vegar langt frá því að sitja við sama borð þegar kemur að lýðræðislegri þátttöku. Á meðan strákarnir karpa í Silfri Egils, eru um 70% þingmanna og meirihluti fjölmiðlaumfjöllunar er um karla, þá eru fegurðarsamkeppnir sagðar ala af sér konur sem eru æðstu fyrirmyndir ungra stúlkna. Nokkuð merkilegt í ljósi uppruna konusýninga. Í bók Sæunnar Ólafsdóttur um fegurðarsamkeppnir á
Íslandi, Brosað gegnum tárin, kemur fram að upprunann í hinum vestræna heimi megi rekja til sirkusstjóra sem hafði á dagskrá hunda-, fugla- og blómasýningar. Við þessa flóru vildi hann bæta konusýningum.

Atvinnutækifæri
Miðað við ójafna stöðu kynjanna í lýðræðislegri þátttöku er einkennilegt að sjá fegurðarsamkeppnum hampað. Það er eins og einhver firring sé í gangi varðandi á hvaða forsendum kynin eigi að njóta framgöngu. Sumir sem mótmæla að settir séu kynjakvótar á lýðræðislega ákvarðanatöku finnst ekkert athugavert við að konur öðlist frægð og atvinnutækifæri út á að vera tilbúnar til að tipla fyrir framan dómnefnd á bikiníi og háum hælum í þeim tilgangi að hægt sé að meta líkama þeirra
til einkunna.

Góð auglýsing?
Enn furðulegra er að sjá að fyrirtæki eru tilbúin til að leggja nafn sitt við keppnina og leggja þar með blessun sína yfir fyrirbærið. Samt er vitað að fegurðarsamkeppnir eru umdeildar og mörgum finnst þær í besta falli hallærislegar. Það er kannski skiljanlegt að fyrirtæki sem starfa í bjútí bransanum séu styrktaraðilar en hvað með fyrirtæki eins og Lýsi, KEA, Pennann og Hátækni? Hvernig
samræmist þátttaka í konusýningum starfsemi þessara fyrirtækja? Eigum við kannski von á að sjá atvinnuauglýsingu bráðlega frá Pennanum þar sem auglýst er eftir ungri konu til að skreyta sófa í húsgagnadeildinni? Eða Hátækni að auglýsa eftir ungri konu sem fylgihlut við gsm síma? Lýsi hf. sem leggur upp með að lýsi sé gott fyrir heilsuna styrkir keppni sem gengur út á að steypa allar konur í sama mót og kenna þeim að það sé hræðilegur glæpur að vera í kjörþyngd. Keppnin vill hafa á sér ímynd hreystis en af hverju eru þá KFC og áfengistegundir leyfð sem styrktaraðilar? Sumar
stúlknanna hafa ekki náð löglegum drykkjaraldri en eru engu að síður notaðar til að selja áfengi. Er það til fyrirmyndar?

Samfélagsleg ábyrgð
Okkar samfélagslega ábyrgð felur í sér að meta manneskjuna að verðleikum og veita öllum sömu tækifæri óháð kyni, kynhneigð, uppruna, trúarbrögðum o.s.frv. Að ala stúlkur upp í að þeirra æðsta takmark sé að vera orðin fyrrverandi fegurðardrottning við 23 ára aldur og að virði þeirra og tækifæri í lífinu felist í útlitinu er ekki líklegt til árangurs við að jafna lýðræðislega þátttöku kynjanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Eins og talað frá mínu hjarta.  Fegurðarsamkeppnir eru ekki bara hallærislegar þær eru, niðurlæging fyrir þá  og þær sem taka þátt. 

Það er heimskulegra en orð fá lýst að ætla að keppa í fegurð. 

Það er heimskulegra en orð fá lýst að telja fólki trú um að stúlkur sem ekki ná tiltekinni hæð eða málum geti ekki talist fallegar. 

Það er heimskulegra en orð fá lýst að styðja slíkar keppnir.

 Hættum að borða Kea vörur og Lýsi, kaupum ekki bækur í Pennanum, svo einfalt er það.

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 25.5.2007 kl. 13:15

2 identicon

Meirihluti stjórnmálamanna og þingheims er karlar. Það er því rökrétt að meirihluti í umræðunum séu einmmitt karlar. Það er ekki við Egil Helgason að sakast. Svona er þetta bara. Menn voru kosnir til þings af almenningi (körlum og konum) og þar áður af almenningi í prófkjörum og útkoman varð að konur eru færri.   Það er ekkert karlasamsæri í þessu í að meina konum þátttöku.

Fjölmiðlamenn tala einnig um að það sé erfiðara að fá konur í viðtal, þær hafi minna sjálfstraust til að fara í fjölmiðla.

kalli (IP-tala skráð) 25.5.2007 kl. 13:28

3 Smámynd: Þóra Kristín Þórsdóttir

Sammála, fegurðarsamkeppnir eru hreinlega vandræðalegar fyrir samtímann finnst mér. Svo hrikalega úr takti - eða kannski í takt en ég bara með einhver óskhyggjugleraugu?

Svo verður líka að hafa í huga að stelpurnar eru ekki bara dæmdar af "dómurunum" og áhorfendum í salnum, heldur sitja þúsundir áhorfenda við sjónvarpið og dæma þær... þessi er með sellólít, þessi með of feit læri, þessi með... Og halda svo með sinni "uppáhalds". Þetta er sick á svo mörgum levelum. 

Annars skilst mér að það sé nú ekki einfalt að boykötta Pennann, þar sem Penninn eigi allar bókabúðir á landinu eða því sem næst. Að boykötta Pennann þýðir þannig að versla við amazon einungis og svo Bónus um jólin...

Þóra Kristín Þórsdóttir, 25.5.2007 kl. 14:57

4 Smámynd: Benedikt Halldórsson

"Okkar samfélagslega ábyrgð felur í sér að meta manneskjuna að verðleikum og veita öllum sömu tækifæri óháð kyni, kynhneigð, uppruna, trúarbrögðum o.s.frv." 

 Geri þessi orð að mínum!

Sjálfum finnst mér fegurðarkeppnir, karla eða kvenna, það allra hallærislegasta af öllu sem fyrirfinnst, en þó er af nógu að taka, maður fær fjórfaldan skammt af aulahrolli þegar stelpurnar eða strákarnir eftir atvikum eru kynnt en ég horfi stundum pínu pons, en bíð þess alltaf að einhver kynnirinn fari að skella upp úr...finnst þeim þetta ekki að minnsta kosti fyndið eða segi eins og Auðun Blöndal: "Tekinn" þetta var bara djók!

Benedikt Halldórsson, 25.5.2007 kl. 16:15

5 identicon

Ég er alveg sammála þér með fegurðarsamkeppnir. 

Nú skulum við bæði hætta öllum viðskiptum við ÖLL fyrirtæki sem styrkja fegurðarsamkeppnina.

Ég á samt eftir að sakna hugsadu.blog.is sem er í boði eins styrktaraðila Ungfrú Íslands.

Ragnar (IP-tala skráð) 25.5.2007 kl. 16:55

6 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

"Okkar samfélagslega ábyrgð felur í sér að meta manneskjuna að verðleikum og veita öllum sömu tækifæri óháð kyni, kynhneigð, uppruna, trúarbrögðum o.s.frv."

Tækifæri er lykilorðið í þessari setningu.  Ef stelpur eða strákar vilja taka þátt í fegurðarsamkeppnum þar sem þær/þeir fá þjálfun í að koma fram og ýmiss konar ævintýri að kljást við þá verða þau að fá að ráða því.  Alveg eins og þegar fólk ákveður að taka þátt í misasnalegum raunveruleikaþáttum, lætur steggja/gæsa sig og gengur í bleiku blúndupilsi með Mexíkanahatt niður Laugaveginn eða bloggar út í loftið á Mbl.is - stundum tóma vitleysu að mörgum öðrum finnst.  Fólkið verður að fá að velja sjálft og aðrir verða að virða valið þótt þeir sjálfir hafi kosið að fara aðra leið.

Unnur Birna er ágætisdæmi um öfluga eldklára stelpu sem tók rispu í þessum fegurðarbransa í nokkur ár.  Ekki af því að hún sé vitlaus eða af því að hún hafi ekki getað gert neitt annað eða ekki séð neina aðra framtíð, auðvitað ekki.  Þetta er þvert á móti stelpa sem virðist vera að ná ágætisárangri í flestu því sem hún tekur sér fyrir hendur, hvort sem það er fegurðarsamkeppni, nám í erfiðu fagi eins og lögfræði, keppni í hestamennsku, að vera kynnir á atburðum, koma fram fyrir hönd Íslendinga eða annarra o.s.frv.  Þarna er sterk stelpa á ferð sem hefur farið þá leið sem hún velur og náð árangri og ætti því að vera ein þeirra sem femínistafélagið hampar.

Það að einhverjum þyki fegurðarsamkeppnir asnalegar þýðir ekki að allir aðrir verði að vera á sömu skoðun.

Allir verða að hafa sömu tækifæri til að gera það sem ÞEIM finnst spennandi svo lengi sem það hefur ekki neikvæð áhrif á tækifæri annarra.  Það er lykilatriði.  Svona bókabrennuofstækishugsun um þau fyrirtæki sem eru nefnd hér að ofan er auðvitað ekki eitthvað sem telst eðlilegt í frjálsu samfélagi.  Það að fólk velji aðra leið í lífinu en ég er auðvitað bara merki um fjölbreytileika samfélagsins og gerir heiminn litríkari.  Tækifæri til að velja sjálf(ur) án þess að vera dæmdur og rakkaður niður af einhverjum með aðra skoðun er lykilatriði í frjálsu samfélagi.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 25.5.2007 kl. 18:07

7 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Sæll Sigurður, að sjálfsögðu á ekki að banna fegurðakeppnir, að sjálfsögðu getur fólk aldrei orðið sammála um þær. En sá leiði misskilningur er í gangi, ég veit svo sem ekki hvort þú sért haldin honum, að þeim sem finnist fegurðarsamkeppnir aulaleg iðja, hljóti að vilja banna þær og fá aðra á sitt band. Þannig gerast sumir verjendur fegurðakeppna í nafni frelsisins! Þótt við getum við verið sammála um ágæti frelis er fráleit krafa að við eigum að vera sammála um allar afurðir þess. Eiga allir að vera sammála öllu sem er leyft, af því það er leyft, eiga allir að vera sammá um ágæti dvergakasts af því það er leyft.

Í Ástralíu fer fram árlegt dvergakast, sem felst í því að stórir og stæðilegir menn reyna að kasta dvergum sem lengst. Að sjálfsögðu eru skiptar skoðanir um slíkar "aulaíþróttir" en atvinnutækifæri fyri dverga eru ekki mörg.

Það þarf sterk bein og gott sjálfsmat til að vera þátttakandi í dvergakasti eða fegurðakepnn og Unnar Birna sem er fín kona og á allt gott skilið, kemur almennri umræðu um ágæti fegurðakeppna ekkert við.

Benedikt Halldórsson, 25.5.2007 kl. 19:50

8 identicon

Það er ansi hvimleitt þegar maður ætlar að taka sig til og taka þátt í umræðunni þegar við manni blasa of margir hlutir þar sem tilfinningarök og þröngsýni ráða ríkjum, þannig að manni fallast hendur.

 Í fyrsta lagi þá finnst mér bara allt í lagi að prósentan hjá Agli sé 70% 30%. Finndist það allt í lagi líka ef hún væri 100% og 0% konum í vil. Hann er að stjórna þætti og ræður bara algjörlega hverjum hann bíður. Ekki vera að alhæfa að þetta sé endurspeglun á heilu samfélagi. Auk þess heyrði ég fleygt einvherstaðar að hann hefði samband við alveg jafn marga kvennmenn en erfiðara reyndist að fá þær í þáttinn. Sem er mjög forvitnilegt þegar lok þessa stutta innleggs er skoðað, þeas ef rétt reynist.

Í sambandi við "konusýningarnar" sem þú talar um þá virðist eins og þú vitir ekki að það sé til Herra Ísland og þú sért einnig fáfróð um þá staðreynd að Chippendales kom til landsins fyrir ek svo löngu. Ég sé bara ekkert athugavert við þetta. Ef fólk, hvort sem það eru konur eða kallar vilja sýna á sér líkamann, sem hefur líklega lagt hart að sér til að hafa hann eins og hann er, og fá pening fyrir þá er það bara allt í lagi. Alveg eins finnst mér allt í lagi ef fólk vill horfa á þetta þó mér þyki að með eindæmum leiðinlegt, enda sit ég hér fyrir framan sjónvarpið, með það slökkt, á meðan "konusýning" er í gangi. Ég skil ekki hvernig fólk getur setið fyrir framan tölvuna og talið sig svo réttsýnt og yfir allt hafið að það getur ákveðið fyrir einhvern annan hvað sé rétt og hvað sé rangt. Það er bara frekja og yfirgangur.

Eitt að lokum sem á við almennt, ekkert sérstaklega þessa færslu. Öll rök verða að byggja á forsendum. Okkur er gefin forsenda , við gerum röklegar aðgerðir við forsendurnar, og fáum út ályktun. Það vill svo til að með fölskum eða ófullnægjandi forsendum getur maður fengið út hvað sem vera skal. Forsendunar sem þið(og á þá við feminista) gefið ykkur eru án alls vafa alltaf ófullnægjandi. Þið lítið statt og stöðugt aðeins á samfélagslegar ástæður en aldrei anatómískar. Sem er fáranlegt í ljósi þess að við erum ekkert nefna efnasúpa sem er stýrt af rafeindaboðum og því er allt í eðli sínu, hvort sem þú kallar það sál eða hugsun , anatómískt fyribæri. Gæti ekki verið að sumir hlutir séu þannig einfaldlega vegna þess frá því neanderdalsmennirnir þrömmuðu hér um hafi orðið þróun í þessa átt sem ekki er hægt að breyta á einni mannsævi. Gæti ekki verið að það sé ekki samfélagsleg ástæða fyrir því að konur gráti oftar yfir kvikmyndum og karlar fá útrás fyrir bældar tilfinningar með ofbeldi. Enginn vill óréttlæti, nema einhverskonar alvarleg geðræn vandamál séu í spilinu, hinsvegar er það ekki alltaf það sama sem er rétt og rangt og í því liggur munurinn. Og þessvegna líkar mér oft á tíðum illa við predikanir feminista, þið vitið ekkert betur en bókstafstrúa múslimar hvað er rétt og hvað er rangt né víkinga forfeður ykkar sem drápu og nauðguðu eins og ekkert væri sjálfsagðara. Reyndar er komin upp ný vitneskja um víkinga sem bendir til þess að þeir hafi stundað meiri viðskip en berskerksgang, en það er nú önnur saga.

Lifið heil. 

 Biðst fyrirfram afsökunar á stafsetningar og málfræðivillum á þessum óyfirfarna texta sem varð alltof langur og leiðinlegur :)

blæ (IP-tala skráð) 26.5.2007 kl. 00:56

9 identicon

Hérna er merkilegt video sem ætti að vökva þurrar kverkar fróðleiks. Hérna endurspeglast skemmtilega hvenrig fáfræði hans á heilastarfsemi og ályktanir hans útfrá samfélagslegum athugunum ásamt fyrirfram ákveðnu sjónarmiði geta valdið heimskulegum hugmyndum.

blæ (IP-tala skráð) 26.5.2007 kl. 01:02

10 identicon

Ég hef nokkra reynslu af því að setja saman nefndir, og ég verð að viðurkenna að það er yfirleitt mun erfiðara að fá konur í nefndir.  Hinsvegar er það mín skoðun að við þurfum konur í þessar nefndir, svo ég reyni bara aðeins meira. Í flestum tilvikum fæ ég 50% af hvoru kyni (ég nenni ekki að skrifa um það hér en það eru ákveðnir eiginleikar kynjanna sem ég tel vera ákaflega mikilvæga í nefndum sem þurfa að taka ákvarðanir um erfiða hluti)

baddi (IP-tala skráð) 26.5.2007 kl. 23:41

11 identicon

Stefán Þórarinsson varpar hér fram hugrenningum sínum varðandi röksemdarfærslur feminista almennt.
Ég er sammála því að í röksemdarfærslum gefum við okkur að jafnaði forsendur. Og oftar en ekki gengur röksemdarfærsla út á að hrekja forsendurnar sem ályktunin er byggð á.

En það sem mér finnst áhugaverðast er síðan að falla í sína eigin gryfju. Hann gefur sér þá forsendu að feministar líti fram hjá því að við séum efnasúpa og gefur þannig í skyn að heimurinn eins og hann er í dag sé rökrétt niðurstaða efnafræðilegra ferla (eðlishyggja í sinni tærustu mynd) eða anatómísk afleiðing.
Eins og ég skil margar ályktanir femíniskra fræða þá er þeirri forsendu hafnað að efnasúpan ein geti útskýrt það samfélag sem við sjáum í dag. Við stjórnumst af ýmsum hugmyndafræðum í lífi okkar og fróðlegt væri að sjá einhvern komast að rökréttri ályktun um hvernig efnasúpa háð eðlisfræðilögmálum skilar af sér til dæmis lýðræði án þess að gefa sér 'ófullnægjandi' forsendur (ég er á því að lýðræði hafi töluverð áhrif á atferli þeirra sem lifa innan þess).
Feministar, sem ég þekki, hafna ekki að eðli hafi áhrif, en þeir hafna því að eðli hafi eins stór áhrif og margir í okkar samfélagi trúa og nota jafnvel sem afsökun fyrir ýmisskonar meiðandi atferli.

Annað dæmi um ófullnægjandi forsendur sem Stefán gefur sér er ályktun um þekkingu bloggara út frá þessu bloggi - hvernig er annars hægt að lesa úr þessu að bloggarinn viti ekkert um Herra Ísland eða Chippendales (tilfinningarök?).

Það eru nefnilega forsendurnar sem feministar gagnrýna. Ég er viss um að Stefán hefði gaman af því að skoða það sem hefur verið ritað í femíniskum fræðum svona til að kynna sér betur hvaða forsendur verið er að gagnrýna og þá með hvaða forsendum.

gretar (IP-tala skráð) 27.5.2007 kl. 19:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband