Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Gleðilegt nýtt ár

Þjóðin var ekki á borgarafundinum um daginn. Þjóðin var ekki að mótmæla fyrir utan Hótel Borg í dag. Þjóðin mótmælir ekki. Punktur. Hver er þá þjóðin? Þessi spurning hefur leitað á mig en auðvitað lá svarið í augum uppi allan tímann. Þjóðin eru peningamenn og stjórnmálamenn. Við hin erum bara skríllinn ;) Þetta útskýrir auðvitað margt. 

Gleðilegt nýtt ár. Óska öllum farsældar á komandi ári. Takk fyrir allt gamalt og gott.  


Lúxus?

Skandall. Þarf að segja meira um þetta mál? Nú þegar við erum ekki lengur rík þurfum við að forgangsraða og þá skiptir máli að við forgangsröðum rétt. Til að okkur takist að rétta úr bakinu sómasamlega þurfa vissar grunnstoðir að vera til staðar í samfélaginu, svona eins og heilbrigðiskerfi, menntakerfi og velferðarkerfi. Niðurskurður í þessum efnum er afar varasamur - nú nema ef um einhvern lúxus er að ræða. Hann má svo sem fjúka á krepputímum. Ég vona þó að fáum detti í hug að geðheilbrigðisþjónusta sé lúxusvara. Er það nokkuð? Það væri þá helst að heilbrigðsráðherra og fjármálaráðherra myndi detta slík vitleysa í hug! Miðað við allar þær röngu ákvarðanir sem nú er verið að taka er það kannski einmitt málið - að það verði lúxus að halda geðheilsunni í kreppunni?
mbl.is Uppsagnir á geðdeild FSA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþjóðasamfélagið verður að grípa inn í

Mér er gjörsamlega fyrirmunað að skilja hvernig yfirvöldum í Ísrael dettur í hug að alþjóðasamfélagið hafi skilning á þeim óhæfuverkum sem þau nú fremja á Gazasvæðinu. Grimmdin er svo yfirgengileg að orð fá því ekki lýst. Skilningur er mér er ekki efst í huga þegar ég sé og heyri fréttir af þessum fjöldamorðum. Þvert á móti þá dettur mér orðið ekki í hug og ég hygg að svo sé um mörg okkar. Það er skylda alþjóðasamfélagsins að grípa inn í og skikka Ísrael og Palestínu til að finna friðsamlega lausn á stríðinu. Það er þó engan vegin nóg. Aðstæður íbúa á Gaza svæðinu eru skelfilegar. Þar skortir bæði vatn og mat. Ísrael hefur lokað Gaza svæðinu og alþjóðasamfélagið hefur látið það viðgangast. Það er löngu tímabært að þessu linni.


Mótmæli í dag

Jæja þá eru jólin búin og kreppan tekin aftur við! Sit hér og hlusta á Valgerði Sverrisdóttur og Magnús Stefánsson í Vikulokunum. Þau keppast þar við að fría bæði stjórnvöld og Framsóknarflokkinn á kreppunni. „Við bara lentum í þessu alveg óvart og án þess að stjórnvöld gætu rönd við reist“. Við áttum ekki - við máttum ekki - við gátum ekki... mantran heldur áfram. Enn og aftur er undirstrikað hvað við eigum máttlaus stjórnvöld. Hér er engin þrískipting ríkisvalds, framkvæmdavaldið hefur hér um bil öll völd á hendi sér. Það eru 12 manneskjur. Hálfgert einræði. Alþingi er afgreiðsla og dómsmálaráðherra skipar einn dómara í Hæstarétt.

Kona getur látið sig dreyma um önnur viðbrögð. Mikið væri nú ágætt að heyra einhvern stjórnmálamann sem var við völd segja t.d. „Já, við vorum kjörin í lýðræðislegum kosningum til að gæta að hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Við brugðumst því hlutverki. Við höfðum völdin og þess vegna var það í okkar verkahring að koma í veg fyrir kreppuna. Við hefðum átt að hlusta á viðvaranir um íslenska bankakerfið. Við hefðum átt að hlusta á sérfræðinga sem sögðu okkur að hér væri allt of mikið tekið af lánum. Við hefðum átt að fara eftir grunnhagfræðireglum um að hvorki skapa þenslu né auka þenslu með ríkisframkvæmdum á uppgangstímum. Við hefðum átt að upplýsa þjóðina um gang mála í stað þess að ljúga að henni um að hér væri allt í hvínandi uppgangi og erlendir sérfræðingar væru bara afbrýðsamir. Við hefðum átt að setja lög þannig að íslenskur almenningur væri ekki í ríkisábyrgð fyrir skuldum einkafyrirtækja. Við hefðum átt að breyta skipan mála til að tryggja þrískiptingu valdsins. Já, við hefðum einfaldlega átt að gera margt öðruvísi, við hefðum átt að standa okkur betur, við hefðum átt að standa undir þeirri ábyrg sem okkur var falin. Það gerðum við því miður ekki. Á því biðst ég afsökunar og til að axla ábyrgð segi ég af mér og hleypi öðrum að.“

En... þetta verður væntanlega bara draumur lengi enn. Það lítur ekki út fyrir að neinn stjórnmálamaður ætli að axla sína ábyrgð. Aðgerðir til að koma okkur út úr kreppunni lofa heldur ekki góðu. Ég hef töluverðar áhyggjur af því að þær aðgerðir munu dýpka kreppuna og að almenningur verði sá sem þarf að taka á sig allar byrðarnar, og þau sem minnst hafa þær allra mestu - auðvaldið mun halda sínu og ekki þurfa að skila neinu tilbaka af auðæfunum sem þau sköffuðu sér sjálf á okkar kostnað...

Við munum þó vonandi ekki sitja þegjandi og aðgerðarlaus hjá. Ég ætla í hið minnsta á fund hjá Neyðarstjórn kvenna núna kl. 1 og síðan á mótmælin á Austurvelli kl. 3 þar sem Ragnhildur Sigurðardóttir, sagnfræðingur og Björn Þorsteinsson, heimsspekingur verða með ræður.

Vona að ég sjái ykkur sem flest þar! 


Gleðilega hátíð

Gleðilega hátíð og takk fyrir ánægjulegar samverustundir á árinu sem er að líða.

Hátíðarkveðjur

Kata og Grétar 


Þögnin

Hvet okkur öll til þess að fara á Austurvöll kl. 3 í dag og mótmæla!

Hvað heita stjórnmálaflokkarnir á þingi?

Mikið hlakka ég til þegar íslenskir fjölmiðlar hafa lært nöfnin á öllum stjórnmálaflokkunum sem eru á þingi! Svona fyrst trúverðugleiki fjölmiðla er títt nefndur þessa dagana er ekki úr vegi að minna á að það hjálpar til að vita hvað stjórnmálaflokkarnir heita. RUV, Mogginn og Fréttablaðið virðast einungis kunna 4 nöfn af 5.

Peningurinn er atkvæðisréttur

Í fréttum RUV í gær var sagt frá því hvar hægt væri að kaupa bækur á lægsta verðinu. Líka í neytendahorni Dr. Gunna í Fréttablaðinu í dag. Það er sem sagt í Bónus og í Krónunni, þó það sé reyndar krónu dýrara en í Bónus. Fréttin á RUV var algjörlega gagnrýnislaus. Sagði bara frá verðinu og engu öðru. Dr. Gunni hnippir aðeins á því að aðrir bóksalar muni væntanlega segja að Bónus fleyti bara rjómann af bóksölunni, selji bara vinsælustu bækurnar og standi aðeins í þessu stússi fyrir jólin. Honum finnst samt freistandi að kaupa ódýrari bækur...

Stöldrum aðeins við. Peningurinn er okkar atkvæðisréttur og það er ekki hægt að eltast bara við ódýrustu tilboðin án umhugsunar. Við verðum að hugsa um hvað við viljum í raun og veru. Stóru matvörukeðjurnar gerðu atlögu bæði að heildsölum og kaupmanninum á horninu. Afleiðingin er sú að nú höfum við afskaplega lítið val (= frelsi) ef við viljum kjósa með fótunum (= peningunum). Auðmennirnir eru harðlega gagnrýndir fyrir að koma okkur á kúpuna en ætlum við að styðja þá í því að koma bókaútgáfu líka illa? Fleyta rjómann af en skilja þau sem þjónusta okkur allt árið um kring og leggja sig fram um að hafa úrval góðra titla á boðstólnum án aðalvertíðarinnar? Ódýrar bækur geta kostað okkur sitt þegar upp er staðið. Verðið sem við borgum getur falist í fákeppni, minna úrvali og afsali á valdi yfir til auðmanna sem enginn kaus í lýðræðislegum kosningum.

Þó ég vilji hér með benda á ábyrgð og val neytenda þá vil ég einnig benda á ábyrgð fjölmiðla sem upplýsandi afls í þjóðfélaginu. Að birta gagnrýnislaust verð á ódýrustu bókunum er ókeypis auglýsing fyrir auðvaldið. Fréttamiðlun hefði falist í því að kanna stöðuna allan hringinn.  


Hugmyndaauðgi

Er það ekki dásamlega séríslenskt fyrirbrigði að fara í snjókast við þá sem komu okkur á kúpuna?

Á röngunni

Ég horfði á viðtal Boga Ágústssonar við Göran Person fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar um daginn. Það er tvennt sem mér finnst ágætt að taka inn í íslenskt samhengi úr viðtalinu. Annars vegar að Göran sagði að allar aðgerðir í niðurskurði yrðu óvinsælar og þess vegna yrðu mótmæli og hins vegar að aðgerðir ríkisstjórnarinnar yrðu að vera þannig að allir leggðu sitt af mörkun en þeir sem ættu mest yrðu að leggja mest af mörkum en þeir sem ættu minnst yrðu þó eitthvað að leggja af mörkum líka. Ef við skoðum þetta aðeins nánar og berum saman við hvað er að gerast hér þá...

1. Ráðherrar virðast taka mótmælunum með stóískri ró. Sjálfsagður partur af lýðræðinu, við þessu að búast í hremmingum sem þessum, o.s.frv., o.s.frv. Ég hef einungis heyrt Þorgerði Katrínu segja að það sé mikilvægt að ráðamenn hlusti. Hins vegar hef ég ekki séð neina hlustun í framkvæmd. Ráðherrarnir setja frekar línurnar varðandi mótmælin - leggja blessun sína yfir sum, segja önnur skemma fyrir. Skilaboðin eru þau að við megum alveg sprikla friðsamlega á Austurvelli, svona til að sýna að við mótmælum en ríkisstjórnin vill samt sem áður fá vinnufrið og ætlar að halda sínu striki óháð því sem þjóðin vill. Eina teiknið sem er á lofti um að ráðamenn ætli hugsanlega að hlusta smá... pínku pons... er að hugsanlega á að gera breytingar á ráðherraliðinu fljótlega. Það er þó ekki endilega svo að það sé í anda þess að hlustað sé á mótmælendur. Þannig er t.d. sagt að Þórunn Sveinbjarnar verði hugsanlega látin víkja. Þórunn er eini ráðherrann sem hefur staðið vörð um sinn málaflokk, hún er í alvörunni umhverfisráðherra sem er annt um umhverfið og er ekki til í að fórna landinu á altari gróðærisins. Það er kannski þess vegna sem á að koma henni í burtu? Fá einhvern í staðinn sem er tilbúinn til að álvæða landið, hvað sem það kostar. Það er nú einu sinni búið að hneppa framtíðarkynslóðir í skuldafjötra - af hverju ekki að taka af þeim landið og valkostina líka??? Græðgisvæðingin er enn í algleymingu. Núlifandi kynslóðir reyna hvað þær geta til að blóðmjólka allt. En Þórunn hefur gert meira en standa sig í starfi. Hún hefur líka tekið undir þær raddir að það sé sjálfsagt að kjósa. Það er kannski hin ástæðan fyrir því að hugsanlega eigi hún að fara? Svona til að sýna ráðherrum sem ekki eru nógu undirgefnir undir valdið að þeim sé hollast að hlýða or else...! 

Allavega - ef Þórunn fer mun ég líta á það sem skýr skilaboð til þjóðarinnar um að ríkisstjórnin líti ekki svo á að hún sé að starfa í okkar þágu heldur auðvaldsins. 

2. Svo er það hitt atriðið - þetta með að þeir sem eigi mest eigi að leggja mest af mörkum. Það eru engin teikn á lofti um það heldur þvert á móti. Þeir sem mest eiga eru að fá skuldir sínar niðurfelldar, enginn er hátekjuskatturinn, ekkert á að gera í þeim sem lifa á fjármagnstekjum og borga litla sem enga skatta - leggja ekki sitt af mörkum til samfélagsins en nýta sér alla þjónustuna sem þjóðin borgar fyrir eins og t.d. skóla... Á þjóðina sjálfa eru hins vegar lagðar þungar byrðar og aðförð gerð að velferðarkerfinu. Sjúklingar eiga nú að borga fyrir að fá náðarsamlegast að fara á sjúkrahús. Heilbrigðiskerfið á sem sagt fyrst og fremst að þjóna þeim sem eiga pening. Það á ekki jafnt yfir alla að ganga heldur er mantran sú að sumir séu jafnari en aðrir. Samningar við bændur eru brotnir, verðtrygging á lánum já en ekki á búvörusamningunum. Slæm staða bænda á sem sagt að verða verri. Ekkert spáð í að fæðuöryggi er þjóðaröryggismál (rétt eins og að gæta að því að bankakerfið verði ekki of stórt...). Fjármagn til menntunar er skorið niður akkúrat þegar fleiri munu sækja í skólana. Sótt er að Jafnréttisstofu og svona mætti lengi áfram telja. 

Reynslan hefur sýnt að afleiðingar kreppu eru að misrétti og stéttskipting eykst. Með þessa þekkingu í farteskinu ættum við að geta gert betur. Því miður er ríkisstjórn okkar gjörsamlega vanhæf. Hún kann bara þá hugmyndafræði sem kom okkur á hausinn. Ef aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru bornar saman við orð Görans Person sjáum við að hún gerir flest þveröfugt... þetta sjáum við hin líka. Við vitum betur. Spurningin er af hverju ríkisstjórnin bregst svona rangt við?


Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 332460

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband