Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Metnaður eða misskilningur?

Ég hugsa stundum um hvað það er sem drífur mig áfram í jafnréttisbaráttunni. Ég veit alveg að það er ekki bara réttlætiskenndin. Það þarf eitthvað annað til, enda þekki ég fullt af fólki með sterka réttlætiskennd sem á fullt í fangi með lífið og tilveruna þannig að hvers konar barátta verður aukaatriði. Ég veit að ábyrgðarkenndin spilar einhvern þátt. Er með afar sterka ábyrgðarkennd og finnst þar af leiðandi að það sé á mína ábyrgð að stuðla að auknu jafnrétti, rétt eins og annarra. Stundum þegar ég les sögubækur hugsa ég líka um hvernig verður skrifað um okkar samtíma og þá rennur mér kalt vatn á milli skins og hörunds. Skammast mín alveg niður í tær því ég veit að við fáum ekki góða útreið þar. Höfum allt til alls, upplýsingar, þekkingu og gáfur - en það virðist koma að litlu gagni. Mannréttindabrotin, kynjamisréttið og alls kyns misrétti grasserar út um allt. Svo ég komst loksins að þeirri niðurstöðu að metnaður á stóran þátt í því að ég stend í baráttunni. Metnaður fyrir hönd mannkynsins. Þetta kristallast eiginlega í þeirri setningu sem ég endaði síðasta Viðskiptablaðspistil á - við erum nógu gáfuð en ekki nógu vitur. Ég trúi því að mannkynið sé nógu gáfað að upplagi til að gera heiminn betri. Hins vegar er ég líka á því að gáfurnar eru stórlega vannýttar og oft á tíðum notum við þær hreinlega ekki. Það er oft þægilegra að hjakka í sama farinu heldur en að nota það sem okkur er gefið. Minn metnarður er að breyta þessu. Við lestur þessarar fréttar hjá mbl runnu hins vegar á mig tvær grímur. Það skyldi þó aldrei vera að ég hafi misskilið þetta með gáfurnar? FootinMouth
mbl.is Vísbending um að menn séu gáfaðri en apar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleði

Ég hef verið svo heppin að hitta nokkrum sinnum á ævinni fólk sem hefur haft djúpstæð áhrif á líf mitt, lífssýn eða skoðanir. Þegar ég rétt um tvítugt hóf nám í University of Kansas í Lawrence eignaðist ég góða vinkonu frá Japan. Eftir að námi lauk héldum við sambandi í nokkur ár og ég fór einu sinni til Frakklands að heimsækja hana. En hún skellti sér svo í ferðalög víðs vegar um heiminn og þá rofnaði sambandið. Núna fyrir tilstilli internetsins er ég búin að finna hana aftur. Hér ríkir því mikil hamingja, Smile enda 10 ár síðan ég heyrði í henni síðast. Hún er ein af þessum manneskjum sem breytti mér, eingöngu með því að vera hún sjálf. Aldrei, fyrr né síðar, hef ég hitt eins óþvingaða manneskju sem er bara blátt áfram hún sjálf. Það voru mikil viðbrigði fyrir manneskju frá Íslandi þar sem allir reyna að falla inn í hópinn og gera ekkert út fyrir rammann... 

Anyways, hér ríkir sem sagt mikil gleði SmileLoLGrin


Hvernig rækta á býflugur

Ég fjárfesti nýlega í bókinni The Rough Guide to Ethical Shopping. Hún er stútfull af alls kyns fróðleik um „siðferðileg kaup“ á vörum eins og mat, fötum, fjárfestingum, heimilisvörum og ferðalögum. Það kom mér á óvart að sjá að bókin er gefin út árið 2004 og í framhaldi af því velti ég fyrir mér hvort við Íslendingar séum ekki ansi aftarlega á merinni hvað varðar viðskiptasiðferði í samhengi við umhverfið, hvort sem litið er á það frá neytendahliðinni eða að sjá ónýtt viðskiptatækifæri á markaði sem á væntanlega bara eftir að stækka.

5 aðferðir
Fjallað er um 5 aðferðir við siðferðileg kaup. Fyrstu tvær eru að kaupa Fairtrade vörur eða hreinlega að sniðganga ákveðnar vörur (boycott). Hins vegar er ómögulegt að versla allt þannig og því er stungið upp á að velja ábyrgasta aðilann sem er í boði af stóru aðilunum. Heimurinn á mest undir því að stóru aðilarnir, þar sem veltan er mest, taki upp betri viðskiptahætti og því getur verið áhrifaríkt að setja meiri pressu á þá. Síðast en ekki síst er stungið upp á því að fólk hreinlega dragi úr innkaupum og kaupi minna og einnig að kaupa vörur sem eru ræktaðar eða framleiddar á heimaslóðum til að spara flutningskostnað langar leiðir.

Skór fyrir grænmetisætur
Eitt sem hefur stoppað marga í að spá í hvaða vörumerki er best að kaupa er skortur á upplýsingum. Þetta virðist vera óendanlegur frumskógur og fólk hefur hreinlega ekki tíma til að berjast í gegnum hann. Þess vegna tel ég mig einstaklega heppna að hafa dottið niður á bókina því einhver annar er búinn að vinna vinnuna og ég get auðveldlega flett upp hvaða fyrirtæki eru á plús listanum og hver eru á svarta listanum. Internetið er líka gagnlegt hjálpartæki. Ég skoðaði nokkrar vefsíður sem bent er á í bókinni. Á www.fishonline.org er hægt að skoða ástand fiskitegunda og hvort er mælt með þeim eða ekki. Íslenski þorskurinn kemur sem betur fer ágætlega út. Vefsíður eins og www.corporatewatch.org.uk  eru gagnlegar til að skoða stórfyrirtæki og sögu þeirra. Á www.onevillage.co.uk er hægt að fjárfesta í dásamlegu hengirúmi og fleiri vörum framleiddum af handverksfólki frá sumum fátækustu ríkjum heimsins. Ef þig vantar far þá geturðu athugað www.freewheelers.com sem gengur út á að draga úr bílanotkum með því að tengja saman bílstjóra og farþega. Ef þú ert til dæmis að fara frá Amsterdam til Prag þann 8. júlí á næsta ári geturðu fengið far með Jesper. Á www.vegetarian-shoes.co.uk er hægt að finna skó sem ekki eru gerðir úr leðri eða öðrum dýraafurðum.

Nei takk, ekki býflugnabú í garðinn minn
Tímaritið The New Consumer, sem fjallar aðallega um Fairtrade heldur einnig úti spennandi vefsíðu. Ég get vel hugsað mér að gerast áskrifandi að blaðinu og reyna að fylgjast betur með hvernig ég get orðið meðvitaður neytandi. Ég set hins vegar fótinn niður þegar kemur að nýjasta æðinu sem kynnt er á forsíðu vefsins www.newconsumer.com. Þar er að finna leiðbeiningar fyrir borgarbúa um hvernig setja á upp býflugnabú út í garði svo hægt sé að framleiða eigið hunang. Þó ég voni heitt og innilega að við getum tekið okkur á og breytt lífsháttum svo jörðin verði byggileg fyrir komandi kynslóðir þá vona ég líka að nágrannar mínir sleppi býflugnaræktinni.

**

Þessi pistill birtist í Viðskiptablaðinu þann 1. ágúst 2007. 


Spurning

Af hverju eru svona margir strákar í Stelpunum?

Sammála og ósammála

Ég er mjög hlynnt því að ríkið sjái um almenna póstdreifingu og því sem henni fylgir. Póstdreifing á alla staði er ekki endilega fjárhagslega hagkvæm en eitt af því sem við höfum skilgreint sem réttindi í nútímasamfélagi, þ.e. að fá póstinn sinn daglega. 

Hins vegar er ég sammála þeim hjá Heimdalli í því að Íslandspóstur er að teygja sig langt út fyrir sitt starfssvið - inn á starfssvið sem á betur heima á einkamarkaði. Mér fannst slæmt að Pósturinn skyldi fjárfesta í prentsmiðju á sínum tíma og leitt að heyra að frekari landvinningar eru fyrirhugaðir. Ef ég væri hrifin af samsæriskenningum myndi ég segja að kannski væri þetta meðvituð ákvörðun til að þrýsta á um að fyrirtækið verði einkavætt sem fyrst, eða þá að stjórnendur séu sannfærðir um einkavæðingu og séu að styrkja stöðu Póstsins áður en til þess kemur. 


mbl.is Segja Íslandspóst kominn langt út fyrir hlutverk sitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um höfðatölujafnrétti

Á vefritinu eggin.is er að finna áhugaverða grein (í ísl. þýðingu) eftir Zoe Williams. Greinin gagnrýnir áherslu á höfðatölujafnrétti í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna. Í greininni eru margir góðir punktar - þó mér finnist höfundur full sofandi fyrir þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um að höfðatölujafnrétti er ekki forsenda fyrir jafnrétti heldur þurfi heilan helling annað til. Hér eru nokkrar hugleiðingar varðandi það:

Þetta er áhugaverð grein – fullt af góðum punktum. Finnst hún reyndar full hörð á því að femínistar einblíni eingöngu á höfðatölujafnréttið. Mér finnst það ekki eiga við hér í það minnsta... Hefur m.a. verið rætt á umræðupóstlista FÍ nokkrum sinnum. Þorgerður Einars hefur líka verið ötul í fræðilegri umræðu um akkúrat þetta. Annars er mín forgangsröðun svona þegar kemur að ýmsu, sérstaklega röðun á prófkjörslista og þess háttar:

Kvenkyns femínisti
Karlkyns femínisti
Kona sem ekki er femínisti
Karl sem ekki er femínisti

Hins vegar er ég alveg sammála því að höfðatalan ein og sér þarf ekki að þýða mikið fyrir jafnrétti. Væri t.d. gaman að rannsaka hvernig konur það eru sem komast í gegnum glerþakið – eru það konur sem eru líklegastar til að rugga ekki karlakerfinu, konur með karllæga eiginleika eða konur sem komast áfram á eigin forsendum? Þetta síðasttalda er ekki einfalt – enda er ég mótfallin því að eigna karlkyninu karllæga eiginleika á máta sem segir að sumir karllægir eiginleikar séu ekki á forsendum sumra kvenna (og öfugt).

Ef að höfðatala tryggði okkur jafnrétti þá væri jafnrétti á Íslandi – eru kynin hér í nokkurn veginn jöfnum hlutföllum. Það væri einnig jafnrétti í heiminum því kynjahlutföllin eru líka ca í jafnvægi í heildina litið. Eins væri jafnrétti í gagnkynhneigðum samböndum því þar er höfðatalan líka í jafnvægi. Hvort sem við lítum á smæstu eða stærstu eininguna þá er höfðatalan í lagi – en samt er ekki jafnrétti (eða kynjaréttlæti, sem er orð sem ég verð alltaf hrifnari og hrifnari af).

Ég vil reyndar halda því fram að innan femínismans sé besta vitundin um að kynið eitt skiptir ekki öllu máli. Sjaldan, ef nokkurn tímann, grípa femínistar til réttlætinga eins og “en það var kona sem gerði þetta og þar af leiðandi hlýtur þetta að vera bæði jafnréttissinnað og í lagi”. Þvert á móti útskýra femínistar valdamisræmið í gegnum kynjakerfið þar sem bæði konur og karlar taka þátt í að viðhalda kerfinu. Femínisminn gerir því kynin samábyrg fyrir breytingum á kerfinu á meðan hið fyrrnefnda finnst mér vera smitað af eðlishyggju og þeirri hugsun að karlar séu vondir en konur góðar – eða hvað annað þýðir það ef konur geta ekki gert neitt rangt? Ef konur sem gerendur eru notaðar sem réttlæting á hlutum sem eru í anda kynjamisréttis þá er þar með ýjað að því að aðeins karlar geti beitt kynjamisrétti – sem er alrangt.

En, að þessum orðum sögðum, þá finnst mér líka að umræðan sé stundum notuð til að varpa allri ábyrgð yfir á konur en fría karla sömu ábyrgð. Konur þurfa bara... Konur gætu breytt þessu ef þær bara... Það er leyfilegt að segja upphátt allt sem konur geta gert til að breyta stöðunni en ef minnst er á hvað karlar geta gert er það umsvifalaust stimplað sem karlahatur. Þessi sameiginlega ábyrgð vill því þvælast fyrir mörgum.

Sem sagt – mjög áhugavert umræðuefni með alls kyns flækjum og krúsídúllum :)


Tilnefning til jafnréttisviðurkenningar

Jafnréttisráð er nú að auglýsa eftir tilnefningum til Jafnréttisviðurkenningar 2007. Linda Blöndal hjá Síðdegisútvarpi Rásar 2 bjallaði í mig áðan til að tékka á hverja ég myndi tilnefna. Ég var nú reyndar aðeins búin að spá í að senda inn tilnefningar en þetta var kærkomið tækifæri til að tékka á fyrri handhöfum og rifja upp það sem vel hefur verið gert. Mér brá smá þegar ég sá að það hefur ekki enn verið veitt viðurkenning fyrir baráttuna gegn kynferðisofbeldi. Þar eru Stígamót fremst í flokki og þau eru númer 1 á listanum mínum. Nú er bara að krossa fingur...

En þó Stígamót séu efst á blaði þá eru fleiri sem eiga viðurkenninguna skilið að mínu mati. Rúna á Stígamótum væri t.d. vel að viðurkenningunni komin sem einstaklingur. Sömuleiðis Dr. Þorgerður Einarsdóttir, dósent í kynjafræði hjá HÍ. RIKK mætti líka alveg fá viðurkenningu - þó það sé kannski ólíklegt akkúrat í augnablikinu í ljósi þess að HÍ fékk viðurkenninguna fyrir 2 árum.

Fleiri samtök sem vinna að jafnrétti eru líka ofarlega í huga. Femínistafélagið, að sjálfsögðu! Smile, Kvennaathvarfið, Kvennahreyfingin eins og hún leggur sig fyrir magnaða samstöðu... og margir fleiri. Hins vegar duttu mér engin fyrirtæki í hug!

En... það er Jafnréttisstofa sem tekur á móti formlegum tilnefningum - netfang jafnretti@jafnretti.is. Sjá nánar á heimasíðu Jafnréttisstofu.

ps. og fyrst talið berst að Jafnréttisstofu - aldeilis frábært viðtal við Kristínu Ástgeirsdóttur í Fréttablaðinu á sunnudaginn.  

 


Fallegt

Ég verð seint sökuð um að vera mikill Eurovision aðdáandi. Það gæti þó breyst með tilkomu danskeppninnar. Horfði á keppnina í endursýningu á sunnudaginn og var yfirmáta ánægð með vinningshafana. Lang flottasta atriðið. Yndislega fallegt.

 


Ísland best í heimi

Hér er pistillinn minn sem birtist í Viðskiptablaðinu síðastliðinn miðvikudag. Birti hann hér til að bæta mér aðeins upp allt sem ég missti af að blogga um í fríinu! 

Ísland best í heimi?
Þjóðarstolt okkar Íslendinga getum við að hluta til útskýrt með því að við teljum okkur komin nokkuð langt í átt að siðmenntuðum heimi í samanburði við aðrar þjóðir. Viljum við þó ekki að innistæða sé fyrir þjóðarstoltinu? Að það sé byggt á bjargi en ekki sandi? Nokkra atburði síðustu daga má líta á sem beina atlögu að þjóðarstoltinu.

Í hverju felst frelsið?
Öll viljum við vera frjáls og teljum það til grundvallarmannréttinda. Við verjum hins vegar ekki nægum tíma í að ræða hvað frelsi er. Á stundum virðist umræðan snúast upp í að lög og reglur séu hömlur á frelsi. Sumir vilja líka meina að frelsi sé að geta gert allt sem ekki er ólöglegt og hafna þannig gagnrýnni hugsun og ábyrgð einstaklingsins. Með öðrum orðum að frelsinu fylgi engin ábyrgð. 

Sjálfsbjargarviðleitni?
Kannski vegna þess að við viljum trúa á hið góða eða einfaldlega vegna þess að við erum of löt þá dettur manneskjan stundum í að vilja réttlæta ranglæti heimsins á þeirri forsendu að kannski sé það ekki svo slæmt, eða hreinlega af hinu góða. Það gengur jafnvel svo langt að sumu vel meinandi fólki dettur í hug að réttlæta valdbeitingu við þvagsýnatöku. Tilgangurinn helgar meðalið er sagt. Hins vegar gleymist að ein af meginástæðunum fyrir baráttunni gegn kynferðisofbeldi er að það hefur langvarandi áhrif á þann sem fyrir verður. Vissulega gætum við leyst fjölmörg mál með pyntingum. Hversu margir grunaðir kynferðisbrotamenn myndu halda fast í sakleysi sitt við yfirheyrslur ef þeir væru pyndaðir til frásagnar? Mannréttindasamningar sem Ísland er aðili að kveða á um að tilgangurinn helgar ekki meðalið, sama hversu alvarlegur glæpurinn er. Stjórnarskráin okkar kveður á um að hér megi aldrei innleiða dauðarefsingu og ekki virðist vanþörf á að bæta við að hér megi heldur ekki innleiða kynferðisofbeldi sem refsingu fyrir ölvunarakstur.

Stærstu mistökin iðulega gerð þegar vel gengur
Annar atburður sem kemur við kauninn á þjóðarstoltinu eru erlendu verkamennirnir sem lentu í rútuslysi. Þeir eiga á hættu að fá ekki sjúkratryggingar og bætur vegna þess að atvinnurekendur þeirra skráðu þá ekki með löglegum hætti. Hér koma hin neikvæðu áhrif hnattvæðingarinnar til sögunnar. Við Íslendingar, sem töldum okkur vera búna að berjast fyrir og ná mannsæmandi árangri í verkalýðsbaráttunni, beitum nú okkar víðfræga „þetta reddast einhvern veginn“ hugsunarhætti á aðstæður. Aðstæður sem ætti að vera löngu búið að grípa inn í. Oft er sagt að stærstu mistökin séu iðulega gerð þegar vel gengur og það á svo sannarlega við hér. Smátt og smátt erum við að skipta bjarginu út fyrir sand.

Nógu gáfuð…
Áunninn réttindi og hugarfar eru ekki endilega komin til að vera. Leiðin fram á við er búin alls kyns hindrunum og stundum villumst við, förum í hringi eða hröpum. Áttaviti, GPS staðsetningartæki og leiðsögukort geta komið að ómetanlegu gagni, rétt eins og lög, reglur og almenn skynsemi. Við þurfum að fara eftir þeim leikreglum sem við erum búin að koma okkur saman um og halda áfram að semja um hvernig er sanngjarnast að halda áfram. Niðurstaðan verður sú að mannkynið er nógu gáfað til að geta skapað paradís á jörð en ekki nógu viturt til að hrinda því í framkvæmd.
 


« Fyrri síða

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 332499

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband