Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Hvað er femínasisti?

Því var skellt framan í Betu (sem by the way var að setja inn brilliant færslu um hvað það er að vera femínisti) um daginn að hún væri forréttindafemínisti. Forréttindafemínisti - hvað er nú það? Ég held að það hljóti að vera femínisti sem nýtur þeirra forréttinda að þekkja aragrúa af öðrum femínistum. Allavega leið mér þannig í gær eftir að hafa spjallað við fjölmargar súpervitrar konur sem allar eiga það sameiginlegt að vera femínistar.

Sumir eiga það til að vilja tengja femínisma saman við eitthvað slæmt - eins og t.d. nasista. Úr þeirra herbúðum heyrast orð eins og femínasistar og fasískur femínisti. Ég hef löngum velt fyrir mér hver væri hin "rétta" skilgreining á því að vera femínasisti, svona fyrir utan að það er augljóst að einhverjum er ógnað af femínismanum og telur að það sé til mikils að vinna að reyna að þagga niður í skilaboðum femínista. Ekki erum við með útrýmingarbúðir á Hellisheiðinni né annars staðar... og þó. Það eru ýmsir eiginleikar sem við femínistarnir viljum útrýma úr samfélaginu. Við viljum nefnilega ekki sjá kynferðisofbeldi af neinu tagi og teljum að refsa eigi þeim sem slík brot fremja. Miðað við málflutning sem finnst á eyjunni virðist sem  skilgreining á orðinu femínasisti sé að líta dagsins ljós. Ekki verður betur séð en að í augum þeirra sé femínasisti = femínisti sem berst á móti kynferðisofbeldi. 


Sagan hálf sögð

Greinilegt að ég hef verið dugleg að láta auglýsingar fram hjá mér fara. Ég missti allavega af því að nýtt tímarit er komið á markað, Sagan öll. Mér finnst frábært að svona tímarit sé til og vona að það haldi velli. En... eins og venjulega er eitthvað sem má bæta. Miðað við þær upplýsingar sem fram koma á heimasíðunni ætti annaðhvort að breyta nafni tímaritsins úr Sagan öll í Sagan hálf sögð - eða breyta efnistökum og segja sögu beggja kynja. HIS-story er ekki sagan öll. HER-story er helmingurinn því eins og allir vita þá halda konur uppi hálfum himninum.

Ekki deginum eldri en 12!

Hér til hliðar er könnun þar sem spurt er hvort fólk telji þörf á að berjast gegn klámvæðingunni. Væntanlega dylst fáum hvaða skoðun ég hef á því máli, enda tel ég klámvæðinguna mjög stóran orsakaþátt í að viðhalda viðhorfum misréttis - og þeirri hugsun að hlutverk kvenna í heiminum sé að vera undirgefnar karlmönnum. Ein af afleiðingum klámvæðingarinnar sem nefnd hefur verið er að börn verða sífellt meira kyngerð, sér í lagi stúlkubörn. Um þessar mundir er allt vitlaust í Ástralíu þar sem 12 ára gömul stúlka var valin andlit tískuvikunnar þar í landi. Stúlkan er að sjálfsögðu stríðsmáluð og stíliseruð - fullorðinsgerð langt fyrir aldur fram - en hún gegnir einnig því hlutverki að eiga að vera viðmið fyrir fullorðnar konur. Æskudýrkunin er gengin svo langt að nú eiga konur að keppast við að vera ekki deginum eldri en 12!

Hissa?

Fyrir örfáum vikum sagði vinkona mín Beta Ronalds við mig að þessi æskudýrkun væri komin út í svo miklar öfgar að þegar fólk spyrði hana hvernig henni liði ætlaði hún að segja "ekki deginum eldri en 12!" Sumir femínistar eru nefnilega ekki hissa. Við vitum hvert stefnir.


Samfélagsmein eða mannvonska?

Nú er hart deilt um hvort blanda megi samfélagsgerð og hugmyndakerfum samfélaga inn í umræðuna um umskurð kvenna í Sómalíu. Margir hafa hneykslast á því að nokkrum skuli detta í hug að kalla þetta ekki mannvonsku framkvæmda af einstaklingum heldur frekar viljað skoða umskurð sem samfélagsmein. Mig langar að taka þessa hugsun aðeins lengra og varpa fram spurningu til þeirra sem halda því fram fullum fetum að þarna sé um pjúra mannvonsku að ræða:

Staðreyndir: 

1. Um 95 - 98% allra kvenna eru umskornar í Sómalíu.

2.  Mæðurnar telja oft á tíðum að sársaukinn og afleiðingarnar af umskurði sé bærilegri en andlegar og efnahagslegar afleiðingar þess að vera ekki umskorin. 

3. Sómalskir karlmenn krefjast þess að tilvonandi eiginkonur þeirra séu umskornar.

Fyrsta spurningin er þá: Að ykkar áliti, er þá öll sómalska þjóðin hreinlega illa haldin af mannvonsku? 

Önnur spurningin er síðan: Að ykkar áliti, eru Íslendingar þá betra fólk að eðlisfari en það sómalska fyrst íslenskar konur eru ekki umskornar?

Þriðja spurning: Nú er sómalska þjóðin svört, en sú íslenska hvít. Er fólk þá á því að hvítt fólk sé betra en svart fólk?

**

Vona að allir sjái þann brjálæðislega rasisma og hroka sem fylgir því að dæma heilu þjóðirnar á grundvelli mannvonsku í staðinn fyrir að skoða mismunandi samfélagsgerðir.

Lokaspurningin er síðan:

Öldum saman höfðu íslenskar konur ekki kosningarétt. Er það fólk sem er á því að umskurður sé gjörningur mannvonsku á því að forfeður okkar hafi að sama skapi verið illa haldnir af mannvonsku?


Dæmisaga

Dæmisaga:

Ef einhver myndi stela útvarpi af konu sem heitir Sóley og gefa manni að nafni Pétur það, væri hann rosa góður gaur ef hann notaði útvarpið og neitaði að skila því til Sóleyjar? Eða getur Pétur bara krafist þess að vera réttmætur eigandi útvarpsins vegna þess að hann stal því ekki sjálfur? Væri Sóley fasisti ef hún gerði þá kröfu að fá útvarpið sitt tilbaka?

Bara spyr...


Tjáningarfrelsi

Tjáningarfrelsi er einn af hornsteinum lýðræðisins. Hins vegar er ekki nóg að hafa það sem stjórnarskrárbundinn rétt, ef tjáningarfrelsið á virkilega að þrífast þá þarf að vinna að því að skapa umhverfi þar sem fólk þorir að tjá skoðanir sínar. Það eru til ýmsar leiðir til að þagga niður í fólki án þess að ríkisvaldið komi þar nokkurs staðar nálægt. Ayaan Hirsi Ali skilgreindi tjáningarfrelsið sem réttinn til að móðga aðra... og mér finnst allt í lagi að taka undir að það er einn af þáttum tjáningarfrelsisins - þó það sé auðvitað mun víðtakara en rétturinn til að móðga. Tjáningarfrelsið ætti samt ekki að vera án ábyrgðar eða án skoðana. Við höfum t.d. höft á tjáningarfrelsi hér varðandi ærumeiðingar. 

Síðan má líka velta fyrir sér hversu langt tjáningarfrelsið nær. Segjum sem svo að ég fái inn um lúguna persónulegt sendibréf sem er ætlað nágranna mínum. Er það partur af mínu tjáningarfrelsi að opna bréfið, lesa það og birta það hér á blogginu, hvort sem er í heild sinni eða valda kafla?

Ástæðan fyrir því að ég spyr er að nú eru í gangi mjög áhugaverðar umræður um íslam, kristni, karlaveldi og annað því tengt í tilefni af heimsókn áðurnefndar Hirsi Ali og Maryam Namazie. Reglur póstlistans kveða skýrt á um að ekki megi birta efni af póstlistanum annars staðar. Það hafa hins vegar 2 bloggarar gert og eru hvorugir búnir að fjarlægja færslurnar þrátt fyrir beiðnir slíks efnis þar birtingin er brot á reglunum. Það kæmi mér síðan ekki á óvart ef fjölmiðlar tækju þetta upp líka og birtu. Allt er þetta síðan tilraun til að þagga niður í einni konu. Femínista. Og jú, kannski fleirum femínistum líka. Allavega lýsa þeir ekki aðdáun sinni á þeirri frábæru og gáfulegu umræðu sem þarna á sér stað. Kemur það á óvart í karlaveldi þar sem raddir kvenna í fjölmiðlum eru rétt rúm 20%? Skyldi þöggunin vera ein af ástæðunum fyrir því? Ég vona allavega að viðkomandi menn setji tjáningarfrelsi sitt líka í samhengi við siðferði og traust - og æru (sína og annarra). 


Völd fara konum vel

Pistillinn minn úr Viðskiptablaðinu frá því á miðvikudaginn er kominn inn á heimasíðu FKA. Ætli sé þá ekki best að ég setji hann hér inn líka? Smile Titillinn er útfærsla á slagorði sem Elísabet Ronaldsdóttir fann upp fyrir eina af aðgerðum Femínistafélagins: "Föt fara konum vel". 

Völd fara konum vel

Fann ekki stæði við Alþingishúsið og þurfti að leggja í Hafnarstrætinu. Var aðeins of sein svo ég strunsaði áfram í regnúðanum. Félag kvenna í atvinnurekstri, FKA, hóf vetrarstarf sitt með heimsókn í Alþingishúsið og því ætlaði ég ekki að missa af. Ég náði sem betur fer í tæka tíð, akkúrat þegar Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir bauð um 130 FKA konur velkomnar á þing.

Konur í 63 þingsætum
Við fengum að setjast í þingsætin. Ég lenti í sæti Guðfinnu Bjarnadóttur og var alsæl með það. Þar hlustaði ég á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra miðla okkur af reynslu sinni sem konur á þingi. Þær voru báðar á því að staðan hefði breyst til batnaðar með auknum fjölda kvenna á þingi en nóg væri eftir enn. Þær voru magnaðar báðar tvær og valdið fer þeim afskaplega vel. Ég játa að ég dauðöfundaði Margréti Kristmannsdóttur formann FKA sem flutti jómfrúarræðuna sína fyrir fullum þingsal af konum. Ætli þetta sé ekki einsdæmi? Fjölmargir karlar hafa flutt sínar jómfrúarræður fyrir þingsal skipuðum einvörðungu karlmönnum. Ætli hitt eigi nokkurn tímann eftir að gerast þegar þing er starfandi?

Konurnar ekki þar sem völdin eru
Íslenskar konur fengu kjörgengi árið 1915. Kjörgengi og kosningaréttur héldust hönd í hönd. Fyrsta konan settist þó ekki á þing fyrr en árið 1922 og var það Ingibjörg H. Bjarnason. Fram til ársins 1983 voru aldrei fleiri en þrjár konur á þingi í einu. Núna eru þær 21, karlarnir 42. Kristín Ástgeirsdóttir, sem nýverið tók við starfi framkvæmdastýru Jafnréttisstofu, vitnaði í orð SÞ frá 1975 í viðtalið við Fréttablaðið þann 2. september: „Þar sem völdin eru, þar eru konurnar ekki“. Þess vegna er athyglisvert að fylgjast með því að á sama tíma og konum fjölgar á þingi, þá eru völdin að færast í síauknum mæli út í atvinnulífið. Þar er óhætt að segja að konurnar séu ekki við völd.

FKA stofnað fyrir 8 árum
Þrátt fyrir lítinn mun á atvinnuþátttöku kvenna og karla á Íslandi eru konur nánast ósýnilegar á toppi atvinnulífsins. Einungis 22 konur eru forstjórar 300 stærstu fyrirtækja landsins, þær eru 3% stjórnarformanna í 100 stærstu og 8% stjórnarmanna, sem er fækkun frá 2005. Staðan er þannig að konur í atvinnurekstri sáu ástæðu til að stofna eigið félag fyrir átta árum þar sem hægt er að byggja upp tengslanet, efla frumkvöðlakraft kvenna og stuðla að auknum sýnileika kvenna í viðskiptalífinu.

Ekkert að marka Aristóteles
FV&H birti í gær niðurstöður úr launakönnun sinni sem sýnir að kynbundinn launamunur fyrir sömu störf er að aukast, ef eitthvað er. Það kemur reyndar ekki á óvart og hefur dr. Lilja Mósesdóttir hagfræðingur meðal annars bent á þessa þróun. Vesturlöndin eru að upplifa bakslag í jafnréttismálum sem birtist í auknu misrétti, valdatilfærslu, þrýstingi á að fá konurnar aftur inn á heimilin, klámi, klámvæðingu og kynbundnu ofbeldi. Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti íslenska lýðveldisins hefur margoft bent á að konur eru ein vannýttasta auðlind okkar. Fólk sem heldur fast í þær hugmyndir Aristótelesar að annað kynið eigi að vera æðra hinu og það kyn eigi að stjórna og hinu að vera stjórnað fær vonandi einhvern tímann tækifæri til að mæta á samkomu eins og þá í Alþingishúsinu á mánudaginn þar sem kraftur kvenna mettaði andrúmsloftið og auðséð var að völd fara konum vel.

 


Góð byrjun

Óhætt að segja að vikan hafi byrjað vel. Á mánudaginn fór ég á fyrsta atburð vetrarins hjá FKA. Það var heimsókn í Alþingishúsið, síðan var móttaka í Iðnó og endað á kvöldverði á Fiskmarkaðnum. Mjög vel lukkað í alla staði. Ingibjörg Sólrún og Þorgerður Katrín fóru á kostum í ræðustól Alþingis og sérstaklega gaman að sjá hvað valdið fer þeim vel! Margrét Kristmannsdóttir formaður FKA flutti síðan jómfrúarræðu sína á þingi - fyrir fullum þingsal af konum. Ekki amalegt það og spurning hvort slíkt eigi nokkurn tímann eftir að gerast þegar þing er að störfum - þó oft hafi það gerst á hinn veginn. En ég efast um að margir hafi flutt jómfrúarræðu sína eins skörunglega og Margrét gerði enda er hún eindæma góð ræðukona. 

Í gærkvöldi var fyrsta Hitt Femínistafélagsins - og jafnframt fyrsta Hittið sem ég fer á án þess að vera talskona. Játa að það var afskaplega notalegt að bara mæta og hlusta Joyful Þær Jóhanna Sigurðardóttir og Kristín Ástgeirsdóttir gáfu okkur fullt tilefni til bjartsýni - nú fer vonandi eitthvað að gerast í jafnréttismálunum. Krossa bara fingur um að þær eigi ekki við ofurefli að etja þegar kemur að því að fá fé í verkefni. Launamálin voru efst á baugi en einnig var mikið rætt um fræðslu, bæði í kynjafræði og almenna mannréttindafræðslu. Síðan var auðvitað komið inn á fjölmörg önnur mál en tveggja tíma fundur dugar auðvitað ekki til að kryfja þetta til mergjar - en var svo sannarlega gott start.  Við sátum síðan við allt of lengi frameftir en það var vel þess virði. Fátt kemur heilanum á flug eins og skoðanaskipti við femínista. Veit ekki hvernig ég fór að áður en Femínistafélagið var stofnað...!


Svörin á Hittinu

Þá er enn ein launakönnunin komin sem sýnir að launamunur kynjanna er ekki að minnka - heldur er hann að aukast. Þessi þróun á væntanlega eftir að halda áfram næstu árin. Hvað er til ráða?

Ja þegar stórt er spurt er fínt að tékka á svörunum hjá Femínistafélaginu. Fyrsta Hitt vetrarins er í kvöld:

Hvað á að gera í þessu?

Fyrsta Hitt Femínistafélags Íslands veturinn 2007-2008

Femínistafélag Íslands heldur fyrsta Hitt vetrarins þriðjudaginn 11. september næstkomandi kl. 20 á Bertelstofu Thorvaldsen bars, Austurstræti 8. Þar munu Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra og Kristín Ástgeirsdóttir, nýskipuð framkvæmdastýra Jafnréttisstofu halda stutt erindi. Að framsöguerindum loknum er opnað fyrir umræður, en dagskráin stendur í tvo tíma.

Fundarstýra er Auður Magndís Leiknisdóttir, talskona Femínistafélags Íslands.

Á hittinu bjóðum við ráðherra jafnréttismála og framkvæmdastýru Jafnréttisstofu velkomnar til starfa en spyrjum þær um leið hvernig þær hyggist vinna að jafnrétti kynjanna, hvaða verkefni þær vilji setja í forgang og hvert þær sæki innblástur í starfi sínu að jafnrétti kynjanna.

Femínistar leita svara við því hvert hlutverk stjórnvalda eigi að vera í jafnréttisbaráttunni og hvernig megi vinna að jafnrétti á þeim sviðum sem erfitt er að mæla, t.d. kynfrelsi kvenna og virðingu fyrir störfum þeirra, innan heimilis og utan. Þá er launamunur kynjanna að því er virðist óendanlegt vandamál sem leita þarf nýrra og varanlegra lausna á. Bæði ráðherra og framkvæmdastýra Jafnréttisstofu eru nýjar í starfi og er Hittið því tilvalinn vettvangur til umræðu um framtíð mála.

Hitt Femínistafélags Íslands eru haldin mánaðarlega yfir vetrartímann. Þau eru vettvangur fyrir femínista af báðum kynjum til að skiptast á skoðunum og ræða það sem er á döfinni hverju sinni.
 


mbl.is Viðvarandi kynjabundinn launamunur hjá FVH
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Keppninni hætt?

Afskaplega væri nú yndælt ef þessari frétt hefði fylgt eftirfarandi yfirlýsing frá Arnari Laufdal, eiganda konusýningarinnar:

Við höfum seint og um síðir áttað okkur á þeim fáránleika sem fylgir því að keppa um hver er sætasta stelpan. Við höfum loksins áttað okkur á því að við viljum aðra framtíð fyrir dætur okkar. Við viljum að þær séu metnar að verðleikum og virtar sem manneskjur. Þess vegna hættum við nú þegar að halda keppni þar sem dætur landsins eru vegnar og metnar eins og nautgripir á leið í slátrun. Keppnin minnir okkur óþægilega mikið á uppoð sem haldin voru á ambáttum hér áður fyrr. Við viljum helst vera álitnir hafa tekið einhverjum framförum síðan þá, öðrum en að pakka konunum inn í síðkjól í sumum atriðanna. Við hvetjum alla áhugamenn um keppnina að snúa sér frekar að því að kjósa konur á þing, velja þær í ábyrgðarstöður í viðskiptalífinu og hækka við þær launin. Þær eiga það nefnilega skilið.


mbl.is Elínu Gestsdóttur sagt upp störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 332474

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband