Völd fara konum vel

Pistillinn minn úr Viðskiptablaðinu frá því á miðvikudaginn er kominn inn á heimasíðu FKA. Ætli sé þá ekki best að ég setji hann hér inn líka? Smile Titillinn er útfærsla á slagorði sem Elísabet Ronaldsdóttir fann upp fyrir eina af aðgerðum Femínistafélagins: "Föt fara konum vel". 

Völd fara konum vel

Fann ekki stæði við Alþingishúsið og þurfti að leggja í Hafnarstrætinu. Var aðeins of sein svo ég strunsaði áfram í regnúðanum. Félag kvenna í atvinnurekstri, FKA, hóf vetrarstarf sitt með heimsókn í Alþingishúsið og því ætlaði ég ekki að missa af. Ég náði sem betur fer í tæka tíð, akkúrat þegar Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir bauð um 130 FKA konur velkomnar á þing.

Konur í 63 þingsætum
Við fengum að setjast í þingsætin. Ég lenti í sæti Guðfinnu Bjarnadóttur og var alsæl með það. Þar hlustaði ég á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra miðla okkur af reynslu sinni sem konur á þingi. Þær voru báðar á því að staðan hefði breyst til batnaðar með auknum fjölda kvenna á þingi en nóg væri eftir enn. Þær voru magnaðar báðar tvær og valdið fer þeim afskaplega vel. Ég játa að ég dauðöfundaði Margréti Kristmannsdóttur formann FKA sem flutti jómfrúarræðuna sína fyrir fullum þingsal af konum. Ætli þetta sé ekki einsdæmi? Fjölmargir karlar hafa flutt sínar jómfrúarræður fyrir þingsal skipuðum einvörðungu karlmönnum. Ætli hitt eigi nokkurn tímann eftir að gerast þegar þing er starfandi?

Konurnar ekki þar sem völdin eru
Íslenskar konur fengu kjörgengi árið 1915. Kjörgengi og kosningaréttur héldust hönd í hönd. Fyrsta konan settist þó ekki á þing fyrr en árið 1922 og var það Ingibjörg H. Bjarnason. Fram til ársins 1983 voru aldrei fleiri en þrjár konur á þingi í einu. Núna eru þær 21, karlarnir 42. Kristín Ástgeirsdóttir, sem nýverið tók við starfi framkvæmdastýru Jafnréttisstofu, vitnaði í orð SÞ frá 1975 í viðtalið við Fréttablaðið þann 2. september: „Þar sem völdin eru, þar eru konurnar ekki“. Þess vegna er athyglisvert að fylgjast með því að á sama tíma og konum fjölgar á þingi, þá eru völdin að færast í síauknum mæli út í atvinnulífið. Þar er óhætt að segja að konurnar séu ekki við völd.

FKA stofnað fyrir 8 árum
Þrátt fyrir lítinn mun á atvinnuþátttöku kvenna og karla á Íslandi eru konur nánast ósýnilegar á toppi atvinnulífsins. Einungis 22 konur eru forstjórar 300 stærstu fyrirtækja landsins, þær eru 3% stjórnarformanna í 100 stærstu og 8% stjórnarmanna, sem er fækkun frá 2005. Staðan er þannig að konur í atvinnurekstri sáu ástæðu til að stofna eigið félag fyrir átta árum þar sem hægt er að byggja upp tengslanet, efla frumkvöðlakraft kvenna og stuðla að auknum sýnileika kvenna í viðskiptalífinu.

Ekkert að marka Aristóteles
FV&H birti í gær niðurstöður úr launakönnun sinni sem sýnir að kynbundinn launamunur fyrir sömu störf er að aukast, ef eitthvað er. Það kemur reyndar ekki á óvart og hefur dr. Lilja Mósesdóttir hagfræðingur meðal annars bent á þessa þróun. Vesturlöndin eru að upplifa bakslag í jafnréttismálum sem birtist í auknu misrétti, valdatilfærslu, þrýstingi á að fá konurnar aftur inn á heimilin, klámi, klámvæðingu og kynbundnu ofbeldi. Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti íslenska lýðveldisins hefur margoft bent á að konur eru ein vannýttasta auðlind okkar. Fólk sem heldur fast í þær hugmyndir Aristótelesar að annað kynið eigi að vera æðra hinu og það kyn eigi að stjórna og hinu að vera stjórnað fær vonandi einhvern tímann tækifæri til að mæta á samkomu eins og þá í Alþingishúsinu á mánudaginn þar sem kraftur kvenna mettaði andrúmsloftið og auðséð var að völd fara konum vel.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég er sammála þér eða öllu heldur Elísabetu að völd fara konum vel, en þú segir að, eða réttara sagt hefur eftir FVeitthvaðH, að launamunur fyrir sömu störf er að aukast og er það auðvitað hið versta mál en ég velti þessu "sömu störf" fyrir mér, eru strákar sem eru orðnir sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar og leikskólakennarar á hærri launum en konur í þessum störfum, ég velti þessum störfum upp af því að strákar eru tiltölulega ný farnir að sækja í þessi störf.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 13.9.2007 kl. 23:24

2 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Fv&H er Félag viðskipta- og hagfræðinga þannig að þetta eru ekki sjúkraliða, hjúkrunarfræðingar eða leikskólakennarar... Hins vegar voru að berast góðar fréttir frá VR og Hafnarfirði. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 13.9.2007 kl. 23:58

3 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Já ok ég sá ekki hvað stóð þarna en sé það auðvitað núna.

Enn í sambandi við þessi störf þar sem karlmenn eru svo nýútskrifaðir í, er vitað um launamun þar?

Högni Jóhann Sigurjónsson, 14.9.2007 kl. 10:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 332500

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband