Samfélagsmein eða mannvonska?

Nú er hart deilt um hvort blanda megi samfélagsgerð og hugmyndakerfum samfélaga inn í umræðuna um umskurð kvenna í Sómalíu. Margir hafa hneykslast á því að nokkrum skuli detta í hug að kalla þetta ekki mannvonsku framkvæmda af einstaklingum heldur frekar viljað skoða umskurð sem samfélagsmein. Mig langar að taka þessa hugsun aðeins lengra og varpa fram spurningu til þeirra sem halda því fram fullum fetum að þarna sé um pjúra mannvonsku að ræða:

Staðreyndir: 

1. Um 95 - 98% allra kvenna eru umskornar í Sómalíu.

2.  Mæðurnar telja oft á tíðum að sársaukinn og afleiðingarnar af umskurði sé bærilegri en andlegar og efnahagslegar afleiðingar þess að vera ekki umskorin. 

3. Sómalskir karlmenn krefjast þess að tilvonandi eiginkonur þeirra séu umskornar.

Fyrsta spurningin er þá: Að ykkar áliti, er þá öll sómalska þjóðin hreinlega illa haldin af mannvonsku? 

Önnur spurningin er síðan: Að ykkar áliti, eru Íslendingar þá betra fólk að eðlisfari en það sómalska fyrst íslenskar konur eru ekki umskornar?

Þriðja spurning: Nú er sómalska þjóðin svört, en sú íslenska hvít. Er fólk þá á því að hvítt fólk sé betra en svart fólk?

**

Vona að allir sjái þann brjálæðislega rasisma og hroka sem fylgir því að dæma heilu þjóðirnar á grundvelli mannvonsku í staðinn fyrir að skoða mismunandi samfélagsgerðir.

Lokaspurningin er síðan:

Öldum saman höfðu íslenskar konur ekki kosningarétt. Er það fólk sem er á því að umskurður sé gjörningur mannvonsku á því að forfeður okkar hafi að sama skapi verið illa haldnir af mannvonsku?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þó svo að maður gagnrýni þessa stefnu og þessa (ó)menningu, að í ákveðnu þjóðfélagi tíðkist að umskera stúlkubörn, þá vona ég að maður sé ekki sjálfkrafa að halda því fram að fólk þeirrar þjóðar sé verra fólk en annað fólk. Það á heldur ekki endilega að þurfa að taka því þannig. Hverjar verða framfarirnar ef við útskýrum allt á þá leið að "þetta sé bara þeirra menningu"? Það má færa rök fyrir því að á miðöldum hafi það einfaldlega bara verið "evrópsk menning" að brenna fólk á báli fyrir galdra og grýta konur fyrir lauslæti. En sem betur fer er það ekki í menningu Evrópu nútímans. Þá þurfti fólk að rísa upp gegn óréttlætinu.

Þess vegna þarf líka að sýna sómölskum mannréttindafrömuðum samstöðu gegn þessum ósóma í stað þess að grípa í menningarlega afstæðishyggju eða benda á að Sómalir séu ekkert endilega verra fólk heldur en annað. Umskurður er ekkert minna sársaukafullur þó svo að menningunni sé kennt um hann.

Hildur Edda (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 18:45

2 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Nei, en það er heldur ekki ætlunin að leggja blessun sína yfir eitt eða neitt. Þess vegna er þetta flokkað sem samfélagsMEIN - og það er baráttufólk að berjast gegn umskurði. Hirsi Ali nærtækasta dæmið Það að skilgreina eitthvað sem samfélagsmein er ekki það sama og að leggja blessun sína yfir það. Samfélagsmein þarf að uppræta og berjast gegn með öllum tiltækum ráðum. Einstaklingar oft drifkrafturinn í því. Nefni Hirsi Ali aftur. 

Það að gagnrýna eitthvað er heldur ekki það sama og að segja að fólkið sé vont. Það ættum við femínistar að vita manna (og kvenna) best - enda sí og æ sakaðar um karlahatur og að ætla karlmönnum að vera vondir þegar við berjumst gegn því misrétti sem viðgengst í okkar samfélagi. Hins vegar eru sumir (ekki þú) sem hafa gagnrýnt að samfélagnu sé bendlað inn í þessa umræðu heldur eigi að einblína á gjörðir einstaklinganna og bendla þetta við mannvonsku. 

Við erum vonandi (örugglega) öll sammála um að umskurður er hræðilegt mannréttindabrot sem þarf að berjast gegn með öllum tiltækum ráðum. Eina sem Sóley gerði í þessari umræðu var að taka undir með Hirsi Ali í skilgreiningu á meininu - þetta er ekki einstaklingsmein heldur samfélagsmein. Samfélagsmeinið er hins vegar framkvæmt af einstaklingum - og það er tilvalið að beina baráttunni að þeim í því skyni að breyta samfélaginu. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 15.9.2007 kl. 19:10

3 Smámynd: halkatla

Katrín Anna, það sem ég hef aðallega gagnrýnt er að í landi einsog t.d Noregi, þá láta tugir innflytjenda umskera dætur sínar árlega, annaðhvort í Noregi eða fara með þær til "móðurlandsins" hvert svo sem það er. Þú setur þetta örlítið einfeldningslega upp. Spurningin er, á að leyfa þessu að vera í það miklum felum í upplýstum þjóðfélögum, að hægt sé að komast upp með að fremja þennan glæp gegn manneskju, sem þessi tegund umskurnar er? 

halkatla, 15.9.2007 kl. 19:20

4 identicon

Já vissulega er þetta alveg réttur punktur. Auðvitað er þetta samfélagsmein alveg eins og það er samfélagsmein að í Íran er heimilisofbeldi löglegt og allt það. Við deilum ekki um það.

Hins vegar finnst mér allt of margir grípa til þessarra afsakana -fyrst þetta viðgengst í samfélaginu eigum við ekki að fordæma þetta. Ég ætla ekki að gera ráð fyrir því að það hafi verið það sem Sóley var að meina -en hvernig á að taka á málunum ef allt er afstætt? Mér finnst það því miður hafa loðað allt of mikið við vinstrimenn og/eða femínista. Aðalvandamálið er held ég það að heimsvaldssinnar nota hvert tækifæri til þess að stjórna umræðunni og grípa hvern gagnrýnispunkt á lofti sínum vonda málstað til framdráttar.

Annars verð ég að skilja að ég átta mig ekki alveg á spurningu Önnu Karenar. Heldur hún að það sé mál manna að umskurðir kvenna séu eitthvað minna samfélagsmein ef þeir eru framkvæmdir innan fjölskyldna sem búa á vesturlöndunum?

Hildur Edda (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 19:51

5 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Hildur Edda - ég þekki engan femínista sem hefur afsakað umskurð, boðað umburðarlyndi gagnvart umskurði eða eitthvað þvíumlíkt. Þetta er einmitt málefni sem femínistar sammælast um að er eitt af grófustu mannréttindabrotunum sem eru framin á konum.

Ég skil vel hvað þú ert að tala um með afstæðishyggjunni, og tek undir gagnrýni á hana - er ekki alveg inn á þessari póstmódernísku hugmynd um að hafa ekki skoðun á neinu. Það er að mínu mati hins vegar önnur umræða heldur en umræðan um umskurðin núna. Það sem Sóley gerði var að taka undir orð Hirsi Ali um að orsakana væri að leita í samfélaginu en ekki í einstaka fjölskyldum. Sóley afsakaði aldrei umskurð, boðaði aldrei umburðarlyndi gagnvart honum eða hvatti til þess að ekki væri barist gegn umskurði, ekki frekar en Hirsi Ali sjálf. Framsetningin í þessu blogginnleggi er í framhaldi af þeim nornaveiðum sem nokkrir bloggarar eru í gagnvart Sóley - þeirra sem gera henni grimmt upp skoðanir og reyna að afbaka eða rangtúlka allt sem hún segir. Sumir þeirra eiga harma að hefna eftir slæma útreið úr Pálu frænku málinu... öðrum er einfaldlega mikið í mun að gera hana ótrúverðuga til þess að koma í veg fyrir að hún hafi of mikil áhrif. 

Það áhugaverða við málið er - ef við skoðum innleggið frá Sóley:

Það hlýtur að vera lykilatriði svo umræðan sé konum í hag og heimsvaldastefnunni síður, að ræða um stöðu kvenna út frá samfélögum og hugmyndakerfum þeirra. Alveg er það fráleitt að ætla einhverjum að kúga aðra af mannvonsku einni saman (nema kannski heimsvaldarsinnunum sjálfum :o/ ). Þetta kom t.a.m. skýrt fram þegar Egill Helgason fullyrti fyrir fullum sal af fólki að fjölskylda Hirsi Ali hefði gert henni hræðilega hluti. Hún þvertók fyrir það, enda gerði fjölskylda hennar það sem hún taldi vera henni fyrir bestu. Vegna ríkjandi hugmyndafræði samfélags þeirra.

Hún er sem sagt að lýsa sig sammála Hirsi Ali - en þeir sem eru sammála Hirsi Ali finnst þetta stórglæpur þegar Sóley tekur undir þetta. Sem sagt - ekki sama úr hvers munni hlutirnir koma.

Þetta kemur vinstri/hægri pólitík ekkert við - þ.e. ekki akkúrat þessi tilvitnun. Hirsi Ali er til hægri. Sóley er til vinstri. Sóley er að taka undir skoðanir Hirsi Ali - en við það verða íslensku karlarnir sem eru fullir aðdáunar á Hirsi Ali alveg brjál... og birta innleggið með svaðalega neikvæðum formerkjum. Um það snýst málið. 

Anna Karen - auðvitað á ekki að láta þessi mál vera í felum. Það var meira að segja VG, flokkur Sóleyjar (fyrir tilstilli Kolbrúnar Halldórsdóttur) sem fengu í gegn að umskurður væri gerður ólöglegur á Íslandi. Ég segi því eins og Hildur Edda að ég á bágt með að skilja hvaðan þessi spurning kemur. Hún á kannski við gagnvart einhverjum karlrembum en þú átt aldrei að þurfa að spyrja neinn femínista að þessari spurningu.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 15.9.2007 kl. 20:39

6 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

ps. Hér er lagaákvæðið um umskurðin:

218. gr. a. Hver sem með líkamsárás veldur tjóni á líkama eða heilsu stúlkubarns eða konu með því að fjarlægja kynfæri hennar að hluta eða öllu leyti skal sæta fangelsi allt að 6 árum. Nú hefur árás í för með sér stórfellt líkams- eða heilsutjón eða bani hlýst af, eða hún telst sérstaklega vítaverð vegna þeirrar aðferðar sem notuð er, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 15.9.2007 kl. 20:54

7 identicon

1. Held að þegar þú reynir í huganum að færa þetta eina atriði úr menningu Sómalíu yfir í íslenska menningu sé auðvelt að sjá mannvonskuna í þessu. Hinsvegar held ég að sómalska samfélagið sjái þetta ekki sem mannvonsku heldur sem eðlilegann hlut. 

2. Ég held að fólkið sé ekkert endilega betri á Íslandi en ég Íslenskt samfélag betra en það sómalska (ekki marktækt kannski þar sem ég get ekki verið hlutlaus).

3. Ég er búinn að lesa einhverjar greinar og umræður um þetta og hef ekki séð neinstaðar talað um húðlit sem hluti af neinu. Af hverju ert þú að minnast á húðlit sem hugsanlegann áhrifaþátt fyrst enginn annar minnist á það? Væri ekki alveg eins hægt að segja að þeir sem hafa sig mest í frami vegna mannvonskunar finni til svo svakalega mikillar samkenndar með svörtum konum? Myndu þeir vera jafn háværir ef að konurnar væru hvítar? Eða er þetta af því að sómalskar konur eru oftar í opnum skóm en þær íslensku? Eða af því að sómalska þjóðin er með stíft hár? 

En kannski hef ég ekki lesið sömu greinar og umræður og þú?

Lokaspurning. Það sem í dag er eðlilegt gæti verið túlkað seinna sem mannvonska. En fáfræði og mannvonska er ekki sami hluturinn.  

manuel (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 01:59

8 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

"Öldum saman höfðu íslenskar konur ekki kosningarétt."

Öldum saman höfðu íslenzkir karlar ekki heldur kosningarétt.

Hjörtur J. Guðmundsson, 16.9.2007 kl. 02:43

9 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Góður pistill og umræðurnar ekki síðri en skil ekki hvað Hjörtur er að reyna!

Edda Agnarsdóttir, 16.9.2007 kl. 09:56

10 identicon

Nei bíðum nú aðeins við.  Er þá niðurstaðan sú að heimska og vanþekking réttlæti einstaklinginn ef hann fremur afbrot?   Að ábyrgðin sé bara hjá samfélaginu?   Það er nákvæmlega þetta hættulega viðhorf sem viðheldur skelfilegum siðum, eins og þeim að umskera stúlkubörn.

Ingvar Guðmundsson (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 12:04

11 identicon

Árið 1839 eyddu kínverskir embættismenn ópíumförmum breskra kaupmanna í Guangzhou. Breska stjórnin brást við með því að hefja stríð. Hin yfirlýsta ástæða var sú að Kínverjar hefðu ráðist gegn breskum eignum og frjálsum viðskiptum. Auðvitað voru sumir á móti stríðinu en þetta var gjaldgeng stríðorsök í augum stórs hluta Breta á þessum tíma. Samfélagið var þannig á þeim tíma. Var það þá ekki ámælisverð ákvörðun að hefja þetta stríð?

Ef að þú hafnar siðferðilegri afstæðishyggju þá verður þú að samþykja að fólk sé ekki bara viljalaust fall af samfélaginu sem það býr í.

Ég held að það séu fáir sem vilja ganga svo langt að taka menningarlegan bakgrunn ekki til greina þegar fjallað er um þessi mál, hann getur vel dregið úr ábyrgð viðkomandi. En það er staðreynd að fólk getur getur gagnrýnt þau viðhorf sem það erfir. Með því kemur valfrelsi og með valfrelsinu ábyrgð.

Það eru fáir sem vilja meina að Sómalar séu allir saman vont fólk. Fæst fólk er beinlínis vont eða gott. Hinsvegar viðgengst ákveðin mannvonska í stórum stíl í Sómalíu og Sómalar hljóta að bera einhverja ábyrgð á henni. Eða hver annar ætti eiginlega að breyta sómölsku samfélagi?

Það er ekki hægt að afskrifa siðferðilega ábyrgð á öllu sem fólk gerir í félagslegu samhengi (þ.e öllum hlutum). Nasisminn, t.d, átti sér félagslega orsakaþætti. Þýðir það að Þjóðverjar sem horfðu aðgerðalausir á uppgang hans, eða jafnvel þeir sem studdu hann, séu fríaðir allri siðferðilegri ábyrgð? 

Eða er það bara svart fólk sem ber enga ábyrgð á sjálfu sér? (þessa aumu smjörklípu geta allir notað).

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 12:06

12 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Uppsetningin af þessu kemur í framhaldi af bloggumræðunni og kommentunum sem hafa komið fram - þegar fólk argast yfir því að minnst sé á samfélagsgerðina í þessu samhengi. Ég hef ekki gagnrýnt viðtal Egils Helgasonar við Hirsi Ali (nema eina spurningu), enda fannst mér viðtalið gott og áhugavert. Ég hef gagnrýnt að enginn fjölmiðill fór þá leið að spyrja hana út í hvað væri eftir hér á Vesturlöndum - heldur er það látið liggja á milli hluta. Nú er ég alveg sammála í því sem fram kom á blogginu þínu Eyja að stundum eigum við að geta rætt bara einn hlut - og ekki verið að blanda öðru saman við. Í þessu tilfelli finnst mér hins vegar afar varhugavert að láta standa að vestræn menning sé betri en önnur menning án þess að neitt sé kafað ofan í það. Það minnir óþægilega mikið á white male supremacy og annað þess háttar - og kemur illa inn í stöðu heimsmála í dag þar sem harkalega er gagnrýnt að Vesturlöndin séu á fullu við að troða sinni heimssýn upp á allan heiminn.

* *

Hitt, sem er tilefni allra þessara bloggskrifa, er síðan aðför þeirra félaga að Sóley. Þeir geta ekki unnt henni að segja neitt án þess að snúa því upp á versta veg, og í þessu tilfelli - gera henni upp skoðanir í þeim tilgangi að mér sýnist, að þagga niður í því sem hún er að segja. Gera hana ótrúverðuga... sem er afar mikið í takt við hina karllægu sýn sumra vesturlandabúa á jafnrétti. Taka femínista frá öðrum menningarheimi - upphefja hann (sem hún á alveg skilið, ekki að gagnrýna það), en nota hana á sama tíma til að segja "við góð, hin vond" og reyna þar með að draga úr vægi kvenréttindabaráttu í þeirra eigin menningarheimi (sem er það sem ég er að gagnrýna). 

Mikið afskaplega held ég nefnilega að heimurinn væri betri ef Aglar og Pétrar okkar tíma myndu hlusta með sömu andukt á það sem konur í þeirra eigin menningarheimi hafa að segja um stöðu jafnréttismála - en það er aftur á móti eitthvað sem þeir skella skollaeyrum við og hamast við að segja að allt sé í allra fínasta lagi. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.9.2007 kl. 12:08

13 Smámynd: Þorvaldur Blöndal

Ég held að það gæti verið gagnlegt fyrir þig að pæla í þessu:

 - Eru "mannvonska" og "samfélagsmein" gagnkvæmt útilokandi?

 - Er mannvonska kvarði eða rofi?

Þorvaldur Blöndal, 16.9.2007 kl. 13:28

14 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Neibb Þorvaldur - þetta er ekki gagnkvæmt útilokandi. Hins vegar ef þú skoðar land eins og Sómalíu þar sem svona stór hluti kvenþjóðarinnar er umskorinn þá er alveg ljóst að þetta liggur í samfélagsgerðinni en ekki vegna þess að þjóðin er haldin mannvonsku. Hugsanlega eru samt einhverjir sem umskera eða gera kröfu um umskurð og hluti þeirra sem eru umskornar haldnar mannvonsku, það er bara allt annar hluti af umræðunni. 

Veit ekki alveg hvað þú ert að fara með seinni spurningunni, en ég myndi svara að hún væri frekar kvarði. 

Varðandi það komment sem kom hér fyrir ofan varðandi það þegar einstaklingar fremja lögbrot - þá má benda á það að umskurður er ekki lögbrot í Sómalíu. Það er nánast "samfélagsleg skylda" þar að umskera. 

**

Til umhugsunar. Af hverju kaupa karlmenn í vestrænum samfélögum vændi?

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.9.2007 kl. 13:52

15 identicon

er ekki misvísandi að tala um "umskurð" kvenna?

eins og þetta sé eitthvað sambærilegt við umskurð karla

lgf (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 13:57

16 Smámynd: Þorvaldur Blöndal

Ég drep stundum geitunga sem þvælast fyrir mér.  Það er svolítil mannvonska.  Ég myndi samt ekki segja að ég væri vondur maður.  Það þarf ákveðið magn af mannvonsku til að vera vondur.  Svo má líka kannski draga manngæsku frá mannvonskunni?  Það er kannski ekki svo einfalt.

"Af hverju kaupa [sumir] karlmenn í vestrænum samfélögum vændi?"

 - Það eru örugglega misjafnar ástæður fyrir því.

Þorvaldur Blöndal, 16.9.2007 kl. 14:01

17 identicon

það er náttúrulega brjálæðislegur rasismi og hroki að fyrilíta samfélagsgerðir og sína þannig samfélögum ekki skilning sem umber það að kynfæri stúlkubarna séu skorin af þeim, oft með talsvert frumstæðum verkfærum.

lgf (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 14:10

18 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

lgf - það umber enginn hér umskurð á stúlkubörnum. Það ætti að vera öllum ljóst - nema kannski þeim sem vilja snúa út úr og beina umræðunni inn á aðrar brautir.

Varðandi orðanotkun þá er umskurður villandi orð... talað um genital mutilation á enskunni. Ég var að reyna að muna íslenska orðið í gær en sá að orðið umskurður er ennþá notað víða. Eflaust nær að tala um limlestingu á kynfærum kvenna.

Annars er umskurður á kynfærum karla ekki sárasaklaus þar sem hann oft framkvæmdur við frumstæðar aðstæður - ekki með góðum verkfærum og ósótthreinsuðum.  Leiðir stundum af sér sýkingar, bólgur og ýmsa aukakvilla. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.9.2007 kl. 14:18

19 identicon

já já svei mér þá ef það vottar ekki fyrir hæðni í svari þínu fyrir ofan

lgf (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 14:29

20 identicon

Sammála síðasta ræðumanni. Í því samhengi sem orð Sóleyjar voru skrifuð vekur furðu að í þeim kom þrátt fyrir allt ekki fram nein fordæming á þeim ógeðfellda verknaði sem umskurður stúlkubarna er.

Vandamálið við skrif Sóleyjar er held ég bara fyrst og fremst það að hún orðar hlutina oft ekki alveg nógu skýrt og vel. Ég myndi aldrei trúa því upp á yfirlýstan femínista að hann liti á umskurð sem léttvægan eða afstæðan verknað. En þótt fáum dyljist að slíkur verknaður, sem og grýtingar og "sæmdarmorð" séu óásættanlegir, þá er það því miður of algengt að fólk falli í þá gryfju að halda uppi hálfgerðum vörnum fyrir pólitískt íslam af ótta við að vera annars komnir í lið með heimsvaldssinnum. Slíkt væri alls ekki einsdæmi.

Hildur Edda (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 16:51

21 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Góðir punktar Eyja og Hildur Edda. Það er greinilegt að fólk túlkar sama textann á mjög mismunandi hátt. Ég las t.d. upphafsinnleggið inn á póstlistann aðeins öðruvísi en Eyja. Stúdera það betur þegar ég hef betri tíma...

Varðandi skrif Sóleyjar - inn á femínistapóstlistann - þá kannski munar um að þeir sem þekkja Sóley velkjast ekki í vafa um að hún myndi aldrei bera í bætifláka fyrir limlestingar á kynfærum kvenna. Ég er eiginlega líka á því að hún eigi ekki að þurfa að tiltaka það á femínistapóstlistanum. Þar gefur maður sér kannski að fólk geti gengið að ýmsum hlutum/skoðunum sem vísum. Tengist kannski líka aðeins inn á umræðuna um traust... og það er líka þess vegna sem ég er svona pirruð út í þríeykið á eyjunni... þeirra helsta markmið virðist vera að grafa undan trausti á femínistum, sérstaklega Sóley, og það er tilraun til þöggunar - að raddirnar heyrist ekki þó fólk tjái sig. Sóley hefur verið í opinberri umræðu sú sem hefur verið hvað ötulust og harðorðust gagnvart öllu sem tengist ofbeldi gegn konum. Mér finnst hún eiga skilið að fá bæði stuðning og traust út á það - hvort sem fólk er sammála öllu sem hún segir eða ekki (enda, eins og ég hef sagt oft, það eru engir 2 sammála um allt). 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.9.2007 kl. 17:22

22 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

ps. þetta síðastnefnda á að vera vísun í það að taka ekki þátt í aðför þeirra sem vilja halda uppi merkjum karlaveldisins að femínistum - hvort sem það birtist í aðför gegn öllum femínisma eða einstaka málsvörum.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.9.2007 kl. 17:23

23 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

ps.ps. set hér inn vísun í þrenns konar kenningar um kynferðisofbeldi - sem kannski er ágætt að rifja upp í þessari umræðu:

1.    Sálfræðilegar kenningar. Skýringar á ofbeldinu er að finna hjá einstaklingum, hvort sem það eru gerandur eða þolendur.
2.    Fjölskyldukerfiskenningar. Fjölskyldan öll er ábyrg fyrir ofbeldinu.
3.    Kvennapólitískar kenningar. Skýringar á ofbeldi finnast í samfélagsgerðinni. Ofbeldi er notað sem tæki til að viðhalda yfirráðum karla yfir konum.

(úr greininni Kvenfrelsi og kynferðislegt ofbeldi eftir dr. Guðrúnu Jónsdóttur) 

Ath að hér er vísað í samfélagsgerðina - en án þess að ofbeldið sé réttlætt. Frekar notað sem tæki til að átta sig á hvernig hægt er að berjast gegn ofbeldinu. 

Rétt eins og sumir hér hafa kvartað yfir því að ábyrgðin sé tekin af einstaklingunum ef þetta er kallað samfélagsmein þá hafa ýmsir áhyggjur af því að ef fókusað er á þetta sem einstaklingsmein þá er samfélagið fríað ábyrgð og þar með er engin krafa eða þrýstingur um að samfélagið breytist.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.9.2007 kl. 17:33

24 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Fyrst gestaritstjórar eru komnir með ítök hjá Sóley er ekki úr vegi að fólk lesi hvað hún hefur um málið að segja - svona sérstaklega fyrst ég er búin að gera henni upp skoðanir til hægri og vinstri... Alltaf með puttann á púlsinum...

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.9.2007 kl. 21:22

25 identicon

íslenska orðið sem mér finnst réttast að nota um "umskurð" kvenna er afskurður. Limlesting kynfæra finnst mér óþægilegt vegna orðstofnsins "limur". Þú notaðir það orð sjálf á gamla góða blogginu þínu.

Annars held ég að eyjan.is ætti að heita soley.is héðan í frá

Silja (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 22:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 332499

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband