Um höfðatölujafnrétti

Á vefritinu eggin.is er að finna áhugaverða grein (í ísl. þýðingu) eftir Zoe Williams. Greinin gagnrýnir áherslu á höfðatölujafnrétti í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna. Í greininni eru margir góðir punktar - þó mér finnist höfundur full sofandi fyrir þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um að höfðatölujafnrétti er ekki forsenda fyrir jafnrétti heldur þurfi heilan helling annað til. Hér eru nokkrar hugleiðingar varðandi það:

Þetta er áhugaverð grein – fullt af góðum punktum. Finnst hún reyndar full hörð á því að femínistar einblíni eingöngu á höfðatölujafnréttið. Mér finnst það ekki eiga við hér í það minnsta... Hefur m.a. verið rætt á umræðupóstlista FÍ nokkrum sinnum. Þorgerður Einars hefur líka verið ötul í fræðilegri umræðu um akkúrat þetta. Annars er mín forgangsröðun svona þegar kemur að ýmsu, sérstaklega röðun á prófkjörslista og þess háttar:

Kvenkyns femínisti
Karlkyns femínisti
Kona sem ekki er femínisti
Karl sem ekki er femínisti

Hins vegar er ég alveg sammála því að höfðatalan ein og sér þarf ekki að þýða mikið fyrir jafnrétti. Væri t.d. gaman að rannsaka hvernig konur það eru sem komast í gegnum glerþakið – eru það konur sem eru líklegastar til að rugga ekki karlakerfinu, konur með karllæga eiginleika eða konur sem komast áfram á eigin forsendum? Þetta síðasttalda er ekki einfalt – enda er ég mótfallin því að eigna karlkyninu karllæga eiginleika á máta sem segir að sumir karllægir eiginleikar séu ekki á forsendum sumra kvenna (og öfugt).

Ef að höfðatala tryggði okkur jafnrétti þá væri jafnrétti á Íslandi – eru kynin hér í nokkurn veginn jöfnum hlutföllum. Það væri einnig jafnrétti í heiminum því kynjahlutföllin eru líka ca í jafnvægi í heildina litið. Eins væri jafnrétti í gagnkynhneigðum samböndum því þar er höfðatalan líka í jafnvægi. Hvort sem við lítum á smæstu eða stærstu eininguna þá er höfðatalan í lagi – en samt er ekki jafnrétti (eða kynjaréttlæti, sem er orð sem ég verð alltaf hrifnari og hrifnari af).

Ég vil reyndar halda því fram að innan femínismans sé besta vitundin um að kynið eitt skiptir ekki öllu máli. Sjaldan, ef nokkurn tímann, grípa femínistar til réttlætinga eins og “en það var kona sem gerði þetta og þar af leiðandi hlýtur þetta að vera bæði jafnréttissinnað og í lagi”. Þvert á móti útskýra femínistar valdamisræmið í gegnum kynjakerfið þar sem bæði konur og karlar taka þátt í að viðhalda kerfinu. Femínisminn gerir því kynin samábyrg fyrir breytingum á kerfinu á meðan hið fyrrnefnda finnst mér vera smitað af eðlishyggju og þeirri hugsun að karlar séu vondir en konur góðar – eða hvað annað þýðir það ef konur geta ekki gert neitt rangt? Ef konur sem gerendur eru notaðar sem réttlæting á hlutum sem eru í anda kynjamisréttis þá er þar með ýjað að því að aðeins karlar geti beitt kynjamisrétti – sem er alrangt.

En, að þessum orðum sögðum, þá finnst mér líka að umræðan sé stundum notuð til að varpa allri ábyrgð yfir á konur en fría karla sömu ábyrgð. Konur þurfa bara... Konur gætu breytt þessu ef þær bara... Það er leyfilegt að segja upphátt allt sem konur geta gert til að breyta stöðunni en ef minnst er á hvað karlar geta gert er það umsvifalaust stimplað sem karlahatur. Þessi sameiginlega ábyrgð vill því þvælast fyrir mörgum.

Sem sagt – mjög áhugavert umræðuefni með alls kyns flækjum og krúsídúllum :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Pálsson

 Aðeins að spinna við þetta: 

Mér finnst oftsinnis svo mögnuð aðskilnaðarhyggja sem fylgir feminismanum sem gerir hann oft svo óaðlaðandi. Mig grunar að margir séu sama sinnis. En það er samt ekki talað mikið um þetta opinberlega.  Konur og karlar eru flokkaðir af feministum eins og rollur í rétt: Feministi - eða ekki feministi. Í sovét hér í den var sagt kommunist eða njet kommunist alveg opið og þessi aðgreining þótti sjálfsögð. Það átti jú að breyta heiminum. En þessi aðgreining var grafalvarleg. Og svo voru menn meðhöndlaðir eftir því. Ég kalla þetta Míkró-fasískar tilhneigingar feminista.

Mér finnst að feministar og þá sérstaklega róttækir feministar þurfi að læra að vinna með öðrum og hlusta á aðra sem eru algerlega á öndverðum meiði. Eins og hver önnur pólitísk stefna í lýðræðislegu samfélagi sem á sér auðvitað andstæðinga sem tekist er á við. Í dag er þetta ekki þannig. Feministar eru sniðgengnir af andstæðinum sínum. Góðar stundir.

Guðmundur Pálsson, 6.9.2007 kl. 14:08

2 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Er gjörsamlega ósammála þessu öllu og finnst þú alls ekki sanngjarn í garð femínista í þessu kommenti...! 

Femínistar vinna hörðum höndum að því að útrýma þeirri aðskilnaðarstefnu kynjanna sem er í gangi í samfélaginu í dag. Prófaðu að fletta í gegnum leikfangabækling og þar sérðu alvöru aðskilnaðarstefnu - strákadót og stelpudót. Femínistar vilja líka breyta vinnumarkaðinum þannig að þar sé ekki þessi kynjaskipting í störf.

Einhvern veginn þarf að aðgreina á milli þess fólks sem vill halda í kynjakerfið og kynjamisréttið og þeirra sem vilja það ekki. Femínisti er karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því. Orðið femínisti er því besta orðið í íslensku máli til að greina á milli. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 6.9.2007 kl. 15:25

3 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Komdu sæl.

Mér finnst  grundvallaratriði í okkar þjóðfélagi að hver einstaklingur karl eða kona velji sér það líf sem hann vill. Og hafi þær skoðnir sem honum eru kærastar. Samspil kynjanna, ólíkur hugsunarháttur þeirra, ólíkar stefnur í lífinu, draumar og langanir er eitt af því skemmtilegasta í lífinu.

Ekki einungis það, heldur er það meira eða minna drifkrafturinn í samfélaginu.

 

Ég held að í vissum skilningi geti það verið skaðlegt að berja í fólk annarlegt gildismat róttæks feminisma. Ég segi róttæks taktu eftir því. Því róttækir feministar hafa þann boðskap helstan ( eftir því sem ég best veit) að umbylta öllu lífi kvenna, hvort sem konurnar vilja það eða ekki. Afleitt er það.

 Það gerir þær margar reiðar og bitrar.  Það gerir líf þeirra erfitt, því sinna þarf verkefnum á öllum sviðum ? utan og innan heimilis. Og stundum verður það hörkulegt og fráhverft fjölskylduhugsjónum, barnauppeldi og fleiru fögru kvenlegu sem margir karlmenn meta mjög mikils. Þetta er auðvitað gömul hugmynd en hún er klassísk og falleg. Og ég held við ættum að hafa hugrekki til þess að halda í þá hluta hennar sem eru áhugaverðir. Svona í lokin: hvað gerir það til þó strákar hafi gaman af bílum og kljást öðru vísi á leikvellinum?

Guðmundur Pálsson, 6.9.2007 kl. 15:58

4 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Já það er grundvallaratriði að hver einstaklingur velji sér það líf sem hann/hún vill. Sú aðskilnaðarstefna kynjanna sem er ríkjandi í samfélaginu er ekki í þeim anda. Athugasemdin þín er því full af mótsögnum og ósamræmanlegum hlutverkum. Ef þú skilgreinir heimilsverk og uppeldi sem kvenmannsverk og bíladellu sem karlmannsverk ertu að skikka kynin í ákveðin box en ekki að leyfa þeim að velja sér það líf sem einstaklingarnir vilja. 

Skil vel að margir karlmenn skuli meta mikils hin hefðbundnu kvenhlutverk. Það er auðvitað afskaplega þægilegt að þurfa ekki að hugsa um að vaska upp, skúra, þrífa klósett, skipta á bleium, versla inn eða elda matinn heldur hafa einhvern sem gerir þetta ókeypis fyrir mann... Þetta er hins vegar gamaldags hugsunarháttur sem byggir ekki á jafnrétti kynjanna eða frjálsu vali einstaklingins. Sem betur fer hafa þessi kynhlutverk breyst töluvert síðustu áratugi - bara ekki nándar nærri nóg.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 6.9.2007 kl. 16:08

5 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Þetta sem þú útskýrir svo fimlega í síðasta pistli kalla ég skúringafötujafnrétti og þú mátt eiga þetta nýyrði Katrín Anna og nota að vild. Það tekur engu tali hvað það er púkalegt að messa sífellt yfir hausamótunum á fólki að mikilvæg heimilis- og uppeldisstörf þeirra séu lágkúruleg. Með því niðurlægir þú venjulegt fólk en sérstaklega formæður okkar og feður; og fólki mislíkar það.

Alltaf fylgir með í mussupoka feministanna andstaða við karlmenn, hjónabönd, fjölskyldulíf, samvinnu og vandað uppeldi. En hrópað er húrra fyrir einstæðum foreldrum, illdeilum, skilnöðum, fóstureyðingum og stofnanauppeldi.

Ég elti ekki ólar við dæmi þín hér að ofan enda eru þau gamaldags; uppvask og skúringar.  Þú veist eins vel og ég að menn og konur sinna heimilisstörfum og viðhaldi heimila jöfnum höndum nú til dags. Eitt dæmi nefnir þú sem allir taka eftir. Að skipta á bleyjum!? Að skipta á bleyjum er afleitt dæmi Katrín. Hvort sem maður eða kona gerir það er það partur af því að sinna eigin barni – ertu að kvarta yfir því? Það var feministum líkt.

Myndarlegar konur, alvörukonur sem eru fyrirmyndir heilla þjóðfélaga ( og sérstaklega barna okkur ) um dugnað, kvenleika, hjálpsemi, ást, framsýni, umhyggju og ýmsar aðrar dyggðir - eru einfaldlega ekki feministar.

Guðmundur Pálsson, 7.9.2007 kl. 11:31

6 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Guðmundur það er einfaldlega rangt hjá þér að kynin sinni heimilisstörfum jafnt í dag. Konur axla ábyrgð á meirihluta heimilisstarfa. Það er þín eigin túlkun að lesa út úr því sem ég skrifa fyrirlitningu á þessum störfum - en ég er hörð á því að þetta eru störf sem kynin eiga að taka sameiginlega ábyrgð á - en að þetta eigi ekki að vera þjónustustörf sem konur sinni fyrir karla. Getur vel verið að þú lítir á það sem andstöðu við karlmenn að ætlast til að þeir sinni börnunum sínum. Það er eitthvað sem þú verður að eiga við sjálfan þig. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 7.9.2007 kl. 11:41

7 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Þetta eru ágætis svör hjá þér en þú lest ekki rétt, eða mistúlkar. Jöfnum höndum þýðir ekki 50:50, heldur merkir það að fólk gengur í verkin eftir þörfum. Þetta er bara venjuleg íslenska. Ég er ekkert svo viss um að það eigi heldur að vera hnífjafnt að öllu leiti. Það er ekki okkar mál Katrín Anna að organisera heimilislíf annars fólks. Konur vilja gera vissa hluti heima við og karlar annað. Það er mjög algengt og hið besta mál.

 

Opinberir aðilar, jafnréttisstofur eða lobbíistar eiga ekki að vera með puttana í þessu. Og allra sýst míkrófasískt kontrólapparat femínista (gegnum endalausan fjölmiðlaáróður) sem gerir fólk ruglað í ríminu.

Mig minnir að sk einhverri könnun sé skipting heimilisverka ekki langt frá 40:60 svolítið eftir verkum. Það þýðir fyrir mér, að báðir aðilar koma að verkunum með afgerandi hætti. Að hafa áhyggjur af þessu finnst mér þráhyggjukennt “skúringafötujafnrétti” sem er fyrst og fremst leiðinlegt og nýskulegt.

Gagnrýni mín er skyld hugmynd Sue Williams um höfðatölujafnrétti og undirstrikar að viðmiðin eiga að vera heilbrigð en minna máli skiptir hvort “höfðatalan” er eins eða ”mínútur til heimilisverka” þær sömu.  

Aðalatriðið ætti að vera að hver einstaklingur geti lifað nokkurn vegin eftir sýnu höfði og að báðum kynjum sé sýnd virðing.

Guðmundur Pálsson, 7.9.2007 kl. 12:50

8 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

The personal is political er slagorð sem rauðsokkurnar kynntu til sögunnar á sínum tíma. Það á enn við í dag. Konur bera meirihluta ábyrgð á heimilisstörfum og það hefur víðtæk áhrif á allt samfélagið - og er notað sem afsökun bæði til að greiða konum lægri laun og veita þeim ekki framgang í starfi. Það að kynin velji sín hlutverk í samfélaginu óháð fyrirframúthlutuðum kynhlutverkum væri óskastaðan en við erum órafjarri þeirri stöðu. Margar konur sitja uppi með heimilisábyrgðina án þess að vilja það. Til þess er einfaldlega ætlast af þeim. Þú ert líka greinilega að misskilja hugmynir Sue Williams með höfðatölujafnréttið. Hún segir nefnilega:

"Lítið í staðinn á aðstæðurnar sem halda konum út úr stjórnmálum, sem eru þær sömu og halda þeim á botninum í hvaða hrúgu sem er. Munurinn á laununum, á barnaumsjá, fæðingarorlofi, allt þetta steinrunna misrétti sem halda konum í girðingu erfiðleikanna. Það er þetta sem lokar fyrir tækifærin."

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 7.9.2007 kl. 12:56

9 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Þetta er rétt hjá þér. The personal is political. Þessi pólitíska hugmynd ( femínisminn) er gríðarlega afskiptasöm og seilist miskunnalaust inn í eldhús og svefnherbergi manna.

Inn í hugarhólf einkalífsins læðist rödd þegar minnst varir: Konan þykist heyra sjálfa sig segja, þegar hún er að afþýða ískápinn. “Af hverju í ansk. er ég að gera þetta einu sinni enn!! Hvar er maðurinn! “ Jú, hann er úti á bletti að slá grasið, sem auðvitað ekki telst heimilisverk. Svo kemur hann inn. Sér á konu sinni að hún er blússandi reið en skilur ekki alveg hvers vegna. Með þessum hætti eiga femínistar sérlega greiðan aðgang að hugarfylgsnum kvenna og tekst að rækta upp sundurþykkju. Eins og hvíslarar í leikhúsi.

 

Mér finnst síðasta setning þín bera vitni um þetta leikhúshvísl, er þú segir: “Lítið í staðinn á aðstæðurnar sem halda konum út úr stjórnmálum, sem eru þær sömu og halda þeim á botninum í hvaða hrúgu sem er”. Þetta er undarleg setning en dæmigerð.

Nær sannleikanum er að konum eru allir vegir færir í stjórnmálum á Íslandi og er sérlega hampað – ef þær bara vilja.

Seinni hluti setningar þinnar um “konur á hrúgubotni” er einnig dæmigerð til að auka á óánægju og vansæld kvenna. Konur eru auðvitað ekki á neinum botni; það er algjör firra.  Henni er ekki beint til okkar karlmanna heldur til kynsystra þinna auðvitað til að styrkja niðurlægingartilfinningu þeirra. Alveg að ástæðulausu. Svona er feminisminn.  

Guðmundur Pálsson, 7.9.2007 kl. 15:36

10 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Ég er heimilislæknir. Á stofu minni hitti ég oftsinnis ungar konur sem hafa beðið skipsbrot í einkalífi sem eru augljóslega afkvæmi feminiskra hugsjóna.

Þeim líður illa, eru einar, fráskildar, fátækar og stundum í átökum um börnin. Stunda kynferðislegt óreglulíf, oft aðra hverja helgi; hafa fengið kynsjúkdóm, sumar jafnvel margoft. Undir blundar kvíði og depurð, öryggisleysi og ásakanir.

Engin tími er til neins í lífi þessarra kvenna og barnið/ börnin jafnvel á amfetamíni og þær sjálfar á róandi. Nú kann einhver að spyrja; hvernig veistu að róttækar feminískar hugmyndir eigi afgerandi þátt í óförum þessarra kvenna? Svar mitt er: Með því að hlusta á þær. Þær segja mér það. Börn þessarra kvenna lifa mörg hver í sorglegri symbíosu við erfiðleika og neikvæðni. Það er ógerningur að styðja stefnu sem gerir fólki svona erfitt fyrir og er í raun svona mikill svona andstæðingur kvenna og barna.  

Guðmundur Pálsson, 8.9.2007 kl. 13:13

11 identicon

Guðmundur. Leið konum eitthvað betur þegar þær voru fastar heimavið af því að þær máttu ekki vinna? Óánægðar með líf sitt.

Held að þeir sem halda að líf kvenna hafi verið eitthvað fullkomið þegar þær voru heimavinnandi séu ekki alveg með tilfinningu fyrir hvernig konum líður.

Ástæða fyrir kvíða kvenna í dag er sá að karlar sjá ekki um heimilið til jafns við konur. Þær eru að vinna úti og sjá svo um heimilið þegar þær koma heim úr vinnunni. Auðvitað eru þær svo að drepast úr stressi. Lausnin við þessu er ekki sú að konurnar fari aftur inn á heimilin heldur sú að karlarnir fari nú að sjá um heimilið til jafns við konurnar. Að þau vinni bæði úti og sjái svo um heimilið og börnin til jafns.

Guðrún (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 09:15

12 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Tek undir þetta. Þær aðstæður sem þú lýsir Guðmundur eiga rætur sínar að rekja til kynjamisréttis - og eru einmitt hluti af ástæðunni fyrir því að við erum femínstar og berjumst fyrir jafnrétti. Mæli með að þú aflir þér betri þekkingar um jafnrétti og þá vanlíðan sem kynjamisréttið veldur. Þú talar um að þínir skjólstæðingar finni fyrir kvíða, depurð og öryggisleysi. Undirrótin að slíku getur verið kynferðisofbeldi. Einnig getur undirrótin verið sú að hafa aldrei verið metin að verðleikum - aldar upp til að vera þægar en ekki verðlaunar sem slíkar á fullorðinsaldri. Dæmdar í láglaunastörf þar sem framlagið er ekki metið. Sumar hafa kannski keypt hugmyndina um hina hamingjusömu heimavinnandi húsmóður - sem hjálpar þeim svo sannarlega ekki úti á vinnumarkaði ef til skilnaðar kemur. Rótin að annarri bylgju femínismans - rauðsokkunum - má einmitt rekja til þeirra fjölmörgu húsmæðra sem spurðu sjálfar sig "er þetta allt og sumt?" þegar á hólminn var komið. 

Ef þú vilt hjálpa þínum skjólstæðingum að einhverju ráði þá gætirðu fundið fullt af leiðum og svörum innan femínismans.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 11.9.2007 kl. 09:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband