Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Sjálfstæðir unglingar

Oh hvað ég vona að þetta fari vel... Las viðtal í Fréttablaðinu við unglingana sem voru að mótmæla og fannst þau koma með nokkuð góð rök varðandi það að þau ættu að hafa kosningarétt í málinu. Þau eru komandi kynslóð sem landið skulu erfa. Leiðinlegast fannst mér að sjá að einhver var í því að sletta á þau skyri. Vona að það hafi verið aðrir unglingar - þ.e. þannig að þetta hafi verið jafningar að takast á sín á milli, en ekki fullorðið fólk að reyna að þagga niður í unglingum og berja niður í þeim sjálfstæðar raddir. Þrátt fyrir lagalegt skoðanafrelsi og málfrelsi þá hefur ekki tekist sérstaklega vel að skapa samfélag sem virkilega fagnar ólíkum skoðunum og sjónarmiðum. Fólk sem er ekki nógu hlýðið við ríkjandi skoðanir er mjög fljótt að læra að tilraunir til að berja slíkt niður geta verið ofsafengnar. Það er hópsálin sem blívur... 

Má til með að nefna í þessu samhengi auglýsingu frá Póstinum sem var framan á Fermingarblaði Fréttablaðsins í dag. Textinn hljómaði svona:

Halla fékk 43 skeyti - flest af öllum í bekknum! 

Heillaskeyti á fermingardaginn er persónleg leið til að tjá vináttu og væntumþykju. Sendu skeyti - ...

Þá vita fermingarbörnin það - flest skeyti eru merki um að þau eigi vini og að einhverjum þyki vænt um þau. Grey börnin sem fá fæst skeyti... En þetta eru auðvitað ekki skilaboð barna á milli. Ég geri allavega fastlega ráð fyrir því að markaðsdeildin hjá Póstinum sé fullorðin! En svona ölum við sem sagt upp sjálfstæða einstaklinga með sínar eigin skoðanir. Shocking


mbl.is Yfir 8.500 manns hafa kosið í Hafnarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súkkulaðiþrælkun

Í tilefni af fréttum í gær um slaka frammistöðu súkkulaðiframleiðenda við að koma í veg fyrir barnaþrælkun á kakóbaunaökrum set ég hér pistil um málið sem birtist í Viðskiptablaðinu 13. sept 2006 eftir mig.

 

Vaknað upp við vondan draum

Við fáum reglulega fréttir erlendis frá af námuslysum. Nú síðast voru fréttir af rússneskum karlmönnum sem lokuðust inn í gullnámu eftir að eldur kom þar upp. Fréttirnar fengu mig til að hugsa um aðstæðurnar á bak við lúxusvörur, vörur sem við notum til að gleðja okkur og aðra án þess að velta því fyrir okkur að þessar sömu vörur geta verið upprunnar við ómannúðlegar aðstæður. Gullið er vara sem greinilega kostar blóð, svita, tár og mannslíf. Vörur sem við neytum daglega, eins og súkkulaði, kaffi og sykur falla líka í þennan flokk.

Þrælkuð börn á bak við súkkulaðið okkar

Fyrir nokkrum árum var gerð heimildarmynd um barnaþrælkun á kakóbaunabýlum á Fílabeinsströndinni. Þetta var í fyrsta skipti sem flestir Vesturlandabúar heyrðu af því að hugsanlega séu þrælkuð börn vinnuaflið á bak við hið ljúffenga súkkulaði sem við verðlaunum okkur reglulega með. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og neytendur þrýstu á um úrbætur, enda ekki gleðilegt að hugsa um litla þrælkaða drengi við hvern súkkulaðibita. Í Bandaríkjunum var lagt fram frumvarp þess efnis að merkja ætti súkkulaði sem laust við þrælahald að uppfylltum skilyrðum. Frumvarpið var samþykkt í fulltrúadeild þingsins. Við þetta tóku súkkulaðiframleiðendur loksins við sér því þeir vissu að það væri nánast útilokað að sýna fram á að súkkulaðið þeirra væri ekki framleitt með hráefni sem ætti rætur að rekja í þrælahald. Iðnaður sem áður hafði kosið að hvorki sjá né heyra neitt illt varðandi hráefnið sitt settist niður með stjórnvöldum, félagasamtökum gegn þrælahaldi og fleiri hagsmunaaðilum og gerðu aðgerðaráætlun um hvernig mætti útrýma barnaþrælkun við framleiðslu á þessu vinsæla sælgæti.

Soðsteiktir bananar í öll mál

Aðgerðir síðustu ára hafa borið einhvern árangur en er samt sem áður langt frá því fullnægjandi. Nær helmingur allra kakóbauna eru frá Fílabeinsströndinni. Þar sem baunirnar eru seldar á mörkuðum sem sambland frá mörgum plantekrum, blandast baunir sem ræktaðar eru af barnaþrælum við aðrar baunir. Aðstæður barnanna sem verða fórnarlömb þrælkunnar eru hræðilegar. Meirihluti þeirra eru drengir á unglingsaldri. Stundum koma þeir til Fílabeinsstrandarinnar frá löndunum í kring í þeirri trú að verið sé að ráða þá í vinnu. Þess í stað eru þeir seldir á býlin þar sem þeir eru barðir og sveltir til að brjóta þá niður. Mánuðum saman getur verið að eina fæðan sem þeir fá séu soðsteiktir bananar, en úr þeim fá þeir að sjálfsögðu ekki næg næringarefni. Vinnan á plantekrunum er líkamlega mjög erfið, vinnudagurinn langur og kröfuharkan mikil.

Hvert er umfang barnaþrælkunnar

Það virðist ætla að verða erfitt fyrir mannkynið að hætta þrælahaldi. Samtökin iAbolish sem berjast gegn mansali áætla að um 27 milljónir karla, kvenna og barna séu í þrælahaldi í dag og er það meiri fjöldi en nokkurn tíma áður í sögu mannkynsins. Erfitt er að áætla fjölda þeirra barna sem eru þrælkuð við ræktun kakóbauna. Í heimildarmyndinni sem minnst er á hér fyrir ofan er viðtal við mann sem sagði að um 90% af öllum kakóbaunabýlum á Fílabeinsströndinni notuðu þræla. Þessi áætlun vakti hörð viðbrögð súkkulaðiiðnaðarins sem véfengdu tölurnar, enda mikið í húfi. Ef áætlunin er rétt myndi það þýða að nánast allt súkkulaði sem við látum inn fyrir okkar varir sé tengt þrælahaldi. Í framhaldi af myndinni og sem partur af þeim aðgerðum sem súkkulaðiframleiðendur hétu að grípa til var gerð rannsókn á umfanginu. Niðurstöður hennar voru að tæplega 300 þúsund börn ynnu við ómannúðlegar aðstæður á kakóbaunabýlum í Vestur-Afríku. Vinnan var of erfið fyrir þeirra unga aldur auk þess sem þau unnu óvarin með hættuleg skordýraeitur. Af þessum börnum var áætlað að 2.500 væru í barnaþrælkun. Sú tala er dregin í efa af ýmsum samtökum sem segja hana vanmeta ástandið og gagnrýna framkvæmd rannsóknarinnar. Samtök sem berjast gegn þrælahaldi segja þar að auki að loforð um að gera gögn og aðferðarfræði rannsóknarinnar opinber hafi verið svikin.

Er Fairtrade málið?

Meðal leiða sem nefndar hafa verið til að stöðva barnaþrælkunina er að auka almenningsvitund, efla menntun og búa til lagaumhverfi sem innifelur hegningarákvæði. Viðskiptabönn hafa einnig verið nefnd til sögunnar en margir hafa varað við þeim af þeirri ástæðu að kakóbaunaframleiðsla er lífæð landa eins og Fílabeinsstrandarinnar og óttast er að minnkandi neysla myndi koma illa niður á þeim sem starfa löglega. Svo virðist sem víðtækt samstarf á milli stjórnvalda, framleiðenda og félagasamtaka hafi leitt til þess að samstaða hafi náðst um að hvetja ekki til viðskiptabanna. Þó er ljóst er að súkkulaðiframleiðendur þurfa aukið aðhald frá neytendum og stjórnvöldum til að þeir taki málin föstum tökum en varpi ekki frá sér ábyrgð. Eitt þeirra kerfa sem reynt hefur verið að koma á laggirnar er Fairtrade en það gengur út á að greiða verð fyrir baunirnar sem dugar fyrir sómasamlegum launum, setja hluta af verðinu í samfélagsverkefni, greiða fyrirfram fyrir vöruna þegar þörf er á og skrifa undir langtímasamninga um kaup þannig að hægt sé að skipuleggja framleiðslu langt fram í tímann í stað þess að vera háð sveiflum á markaði. Gallinn er sá að eftirspurn eftir vörum sem merktar eru Fairtrade er ekki nógu mikil.

Er okkur sama – eða vitum við bara ekki hvað við getum gert?

Barnaþrælkun í súkkulaðiiðnaðinum er enn eitt dæmið um hvernig betur sett ríki eiga velmegun sína að hluta til að þakka bágum aðstæðum og þrælkun fólks í öðrum heimshlutum. Þrátt fyrir aðgerðir síðustu ára er vandamálið langt frá því að vera leyst. Fyrir okkur neytendur getur verið erfitt að vita í hvorn fótinn við eigum að stíga. Erum við að gera rétt með því að hætta að versla vörur sem við vitum að tengjast þrælahaldi eða erum við að kippa lífsviðurværi undan fótunum á fólki með því? Hvaða vörur er óhætt að neyta? Kaffi, sykur og súkkulaði – vörur sem við neytum í miklum mæli eru tengdar þrælkun. Við getum byrjað á að kynna okkur málin og ekki varpað frá okkur ábyrgð. Við getum beint viðskiptum okkur þangað sem tryggt er að viðskiptahættirnir eru í lagi og keypt Fairtrade vörur. Eins og áður sagði hefur þrælahald aldrei verið meira en á okkar tíma. Er það þannig sem við viljum að okkar sé minnst?

 


Er ekki Apple bara fínt?

Ég spái því að tölvan mín andist á næstunni. Fyrirboðar eru þegar farnir að gera vart við sig í formi blue screen of death og einhverjum bluetooth villum... en það er nákvæmlega það sem gerðist í hin 2 skiptin sem harði diskurinn fór. Lífgunartilraunir verða ekki reyndar þar sem ábyrgðin er útrunnin og ég orðin leið á endurteknum andlátum. Ég er því byrjuð að líta í kringum mig eftir álitlegum staðgenglum. Apple lítur afskaplega aðlaðandi út akkúrat í augnablikinu (ætla ekki að segja Macintosh eftir að ég hringdi í vinkonu mína og spurði hana hvort hún væri ekki örugglega Macintosh manneskja og hún var ekki alveg viss um hvort ég væri að tala um konfekt eða tölvu!). 

Er eitthvað sem mælir gegn því að ég skipti PC út fyrir Apple? Og hvernig epli ætti ég að fá mér - fartölvu eða borðtölvu? Og hvort á ég að kaupa Office pakkann með eða iWorks? Ef ég kaupi iWorks get ég þá áfram búið til glærukynningar og notað í PC?

Svei mér þá - spurningarnar eru margar! Einhver sem á svörin? 

 


Samúðarkveðjur

Æ - þetta var leiðinlegt. Þó ég hafi ekki verið búin að gerast áskrifandi keypti ég blaðið í lausasölu og hefði viljað sá það lifa áfram. Hins vegar er ég nokkuð hissa á að ekki skuli hafa verið búið að tryggja meira fjármagn heldur en til 7 vikna útgáfu. Það tekur tíma að byggja upp svona markað og lesendahóp. Ég einhvern veginn gekk út frá því sem vísu að rekstrarplan gerði ráð fyrir bullandi tapi í 1-2 ár...

En sendi samúðarkveðjur til aðstandenda! Tilraunin var allavega góð og gild.  


mbl.is DV kaupir Krónikuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auglýst eftir vændiskaupendum

Í þetta sinn ætla ég að auglýsa eftir vændiskaupendum - að þeir gefi sig fram í athugasemdum við þessa færslu. Skilyrði að fullt nafn fylgi - og frábært ef mynd fylgdi með. Það eru nefnilega svo margir sem tala um að með því að hafa vændi refsilaust eða löglegt þá verði það allt upp á yfirborðinu. Hér er tækifæri til að sýna það og sanna! 

ps. Innleggjum frá nafnlausum vændiskaupendum verður eytt - enda eru þeir ekki upp á yfirborðinu heldur "neðanjarðar". Jafnframt skal tekið fram að þessi færsla er ekki sett fram í "viðskiptalegum" tilgangi - heldur bara til að sjá hversu margir vændiskaupendur eru tilbúnir til að koma fram undir nafni.

Af gefnu tilefni... þeir sem vilja tjá sig um málið en eru ekki að stíga fram í dagsljósið sem vændiskaupendur - er bent á að tjá sig hér


Eiga konur ekki líkama sinn sjálfar?

Íslenskt dómskerfi hefur enn eina ferðina virt kynfrelsi og yfirráðarétt kvenna yfir eigin líkama að vettugi. Jafnréttisbaráttan í dag snýst að töluverðu leyti um líkama kvenna - eiga konur líkama sína sjálfar eða eiga karlmenn líkama kvenna? Klám, klámvæðing, vændi, mansal, kynferðisofbeldi - allt er þetta aðför að eignarétti kvenna yfir líkama sínum. Líkami konunnar verður almenningseign - eða eign karlmanna, sem þá eiga greiðan aðgang að líkömum kvenna. Svona myndataka og að sýna öðrum er hluti af valdabaráttu - hluti af því að karlmaður sýnir vald sitt yfir konunni - hann tekur eitthvað sem hún á ófrjálsri hendi og gerir við það sem hann vill... 
mbl.is Sýknaður af ákæru fyrir að taka mynd af naktri konu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr íslenskum hegningarlögum II

220. gr. Hver, sem kemur manni í það ástand, að hann er án bjargar, eða yfirgefur mann, sem hann átti að sjá um, í slíku ástandi, skal sæta fangelsi allt að 8 árum.
Hafi móðir yfirgefið barn sitt bjargarvana þegar eftir fæðingu þess, og ætla má, að það sé gert af sams konar ástæðum og í 212. gr. getur, má beita vægari refsingu að tiltölu og jafnvel láta refsingu falla niður, ef barnið hefur ekkert teljanlegt tjón beðið

Úr íslenskum hegningarlögum

212. gr. Ef móðir deyðir barn sitt í fæðingunni eða undir eins og það er fætt, og ætla má, að hún hafi gert það vegna neyðar, ótta um hneisu eða sökum veiklaðs eða ruglaðs hugarástands, sem hún hefur komist í við fæðinguna, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum.
Ef aðeins er um tilraun að ræða, og barnið hefur ekki beðið neitt tjón, má láta refsingu falla niður.

Auglýst eftir karlmönnum

... í baráttuna gegn vændi! Nú eru umræðurnar komnar á fullt - og mikið afskaplega væri ég glöð ef þetta væri ekki barátta kvenna á móti körlum heldur gætu sem flestir sameinast í baráttuna gegn vændi - sérstaklega karlmenn! 

Ég er mikið að spá í að stinga upp á því að konur haldi sig fjarri umræðunni... og eingöngu karlar taki þátt! Hvernig lýst ykkur á það? Smile

Pointið er þá að sjá hvað þetta er mikið hitamál hjá karlmönnum.

Eru konur þær sem sjá um þessa baráttu með stuðningi einstaka karlmanns - en restin sáttir við vændið?  Eða er meirihluti karlmanna á móti vændi og eru þeir tilbúnir til að berjast gegn því?

Ég er nokkuð forvitin að fá að vita hvernig slíkt kæmi út, þ.e.a.s. ef þetta væri karla á milli!


Aðeins meira um vændi

Það var beðið um fræðslu - svo hér kemur fræðsla.

Skv rannsókn á vændi í Rússlandi: Markmiðið var að skoða tilfinningalegan bakgrunn vændis og beina sjónum að hinum svokallaða “frjálsa vali” og “vinnu” – sem notuð eru til að réttlæta vændi.

Ástæður fyrir því að konurnar enduðu í vændi:

 

nFátækt og skortur á tækifærum til að sameina móðurhlutverkið og vinnu, nám og vinnu auk þess sem það getur verið ómögulegt að afla nógu hárra tekna í venjulegri vinnu og með góðri menntun
nAuðvelt að leiðast út í vændi – eftirspurn alls staðar, mikið auglýst eftir stúlkum í vændi, melludólgar
q“fyrsti ungi maðurinn minn (núna veit ég að hann var dólgur) neyddi mig til að sofa hjá honum þegar ég vildi það ekki og síðan gaf hann mér peninga fyrir það”
 
nFlestar viðmælenda höfðu þolað síendurtekið líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi.
 
Hvað sögðu þær um kynlíf með kúnnum?
 
nFá enga ánægju út úr því
nVakti með þeim viðbjóð – svo framarlega sem þær voru færar um tilfinningar
q“Kynlíf var aldrei ánægjulegt fyrir mig”
q"Vændiskonur fá ekki ánægju út úr því”
 
Hvað um manneskjuna?
nÍ byrjun reyna konurnar að hafa tilfinningar
nÞróa með sér varnarviðbrögð snemma og verða líkari reyndari vændiskonum
q“Allar tilfinningarnar dóu, visnuðu”
q“Það er ekkert pláss fyrir einlægar tilfinningar í heimi vændisins ef þú vilt afla góðra tekna”
q
 
Með alla þessa vitneskju... af hverju kaupa karlar vændi? Með alla vitneskjuna um hversu stór og öflugur mansalsiðnaðurinn er, hversu stór hluti vændiskvenna hafa verið kynferðislega misnotaðar og tengsl við fíkniefnaneyslu - hvernig stendur á því að fjöldi breskra karla sem kaupa vændi hefur tvöfaldast á síðustu 10 árum? 
 
************+ 
 
Hér eru nokkur atriði frá Sven Axel Månsson - sem hefur rannsakað vændisiðnaðinn mikið.
 
Hvaða karlar kaupa vændi?
nKarlar í sambandi sem leita að einhverju öðru
(qSambandið virkar ekki og þeir fá ekki allt sem þeir vilja í sambandinu)
nKarlar sem eiga í erfiðleikum með samskipti við konur – sem “geta ekki náð í konur eftir öðrum leiðum”
nKarla sem misnota kynlíf
n“Taparar” – karlar sem eru pirraðir á því að hefðbundin samskipti kynjanna eru að breytast og leita í yfirráð/undirgefni
n“Fiktarar” – karlar sem eru ófærir um raunverulegt samband við konur og líta á kynlíf sem hverja aðra neyslu. Venjulega yngri kk – litaðir af viðhorfum kláms og ofbeldis.
 
Hvert er hlutverk lagasetningar um að kaupin séu ólögleg:
nLög gegn ofbeldi – vernda berskjölduðustu konurnar
nNeyða karla til að hætta að líta á konur og kvenlíkamann sem réttindi karla
nHið þögla samþykki meirihlutans er stærra vandamál en einstakir and-femínistar
 
Hvað er vændi?
n“Vændi er sérstakt samband og aðstæður sem enduróma almenn samskipti milli kynjanna”
nYfirráð og undirgefni í gegnum aldirnar hafa átt sameiginlegt:
qViðhorf um eignarétt karla á líkömum kvenna
qÁ okkar tímum sést þetta í:
nKynferðisofbeldi og öðru ofbeldi, klámi og kaupum á kynlífi
nSænsku lögin véfengja frelsi karla frá ábyrgð og tengir vandamál við karlmennskuímyndina – staðsetur karla sem kyn.
 
********* 
Ég sé ekki hvers vegna kaupendur vændis ættu að vera undanþegnir og fríaðir af allri ábyrgð... Vitneskjan er til staðar.
 
 
 
 

 


Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband