Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Vonandi tapar hann áfrýjun...

Ég vil ekki setja bloggara og blaðamenn í sama flokk. Ég áskil mér rétt til að láta í ljós sjálfstæðar skoðanir og láta hlutleysi lönd og leið... 
mbl.is Bloggarar ekki blaðamenn að mati litháískrar þingnefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá um vændið

Góður leiðarinn hennar Steinunnar í Fréttablaðinu í dag - um vændið. Málið er nefnilega ekki eins klippt og skorið varðandi lögleiðingu/ekki lögleiðingu. Í sjálfu sér er vændi ekki orðið löglegt heldur ekki refsivert. Ef við viðurkennum vændi sem eina tegund kynferðisofbeldis þá er einmitt mjög rökrétt að afnema refsingu á seljendum... maður refsar ekki þeim sem beitt eru kynferðisofbeldi. Hins vegar er er líka jafn órökrétt að segja þá að ekki sé neinn ofbeldismaður í tengslum við verknaðinn. Þrátt fyrir að ég sé ánægð með að fólk í vændi eigi ekki lengur á hættu að enda í jailinu þá er ekki góð staða að vera með vændið í einhverju limbói þar sem enginn er sekur. Lögleiðing á vændi er ein besta gjöf sem hægt er að færa þeim sem stunda mansal. Limbóið er sennilega næst besta gjöfin. Við verðum að stíga skrefið til fullst og gera kaupin refsiverð. Svíar eru þeir einu sem hafa þorað hingað til. Finnar fóru hænuskref og það er ólöglegt að kaupa þegar viðkomandi manneskja er í mansali... Ég lít á Svía sem algjöra forystuþjóð í þessum efnum. Þeir eru núna eins og þjóðin sem fyrst veitti konum kosningarétt. Vonandi fylgja fleiri þjóðir í kjölfarið og afskaplega væri gaman ef Ísland gæti orðið land #2 í heiminum til að fara þessa leið! Smile

Meira um þetta seinna...  


Ég elska peninga

Já það vantar svo sannarlega fleiri konur í fyrirtækjarekstur hér á landi og áhugavert að velta fyrir sér hvernig stendur á því að færri konur en karlar "leiðast út á þessa braut". Eitt af því sem hefur verið nefnt í skólaumræðunni - og uppeldisumræðunni - er að kjarkurinn er svolítið dreginn úr konum. Það er svo mikið kapp lagt á að vernda okkur fyrir öllu illu að við erum ekki hvattar eins mikið til að taka áhættu. Svo er auðvitað þetta með að konur eiga að kunna sér hóf - og passa sig á að hafa ekki of sjálfstæðar skoðanir og þar fram eftir götum... (sjá hér fyrir þau sem eru búin að gleyma). 

Ein af skýringunum sem er tilgreind fyrir færri frumkvöðlakonum á frétt RUV um sama mál er að konum sé hugsanlega illa við peninga. Af þessu tilefni vil ég lýsa því yfir að ég elska peninga og vil gjarnan eiga mikið af þeim. Ég er líka frumkvöðull (með lítið og krúttlegt fyrirtæki) en ég er alveg til í að stækka það í stórt og mikið veldi. Ég er með business hugmyndina og allt á hreinu... eina sem mig vantar er þolinmótt fjármagn - og það mikið af því... Þannig að - ef þú átt mikið af þolinmóðum peningum þá hefurðu bara samband! Wink

ps. leiðrétting - setti inn ekki-ð sem vantaði... þetta virðist ætla að fylgja mér! 


mbl.is Fáar konur en margir ómenntaðir taka þátt í frumkvöðlastarfsemi á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugalín og umræðan

Horfði á hetjuna hana Baugalín í Kastljósinu áðan. Vona að þau sem misstu af þættinum kíki á endursýninguna á eftir eða skoði þáttinn á netinu. Nokkur atriði sem stóðu upp úr:

1. Ein af ástæðunum fyrir nafnleynd er að hún óttaðist meiðyrðamál ef hún segði frá... Kynferðisbrotamál eru enn að miklu leyti í þögninni. Að eiga meiðyrðamál yfir höfði sér fyrir að segja frá er ekki ásættanlegt. Finnst að þetta þurfi líka að hafa í huga í sambandi við umræðu um að herða meiðyrðalöggjöfina... sem var einhvern tímann í vetur (en ég hef ekki hugmynd um hvernig fór - var meiðyrðalöggjöfinni eitthvað breytt?)

2. Viðbrögð aðstandenda og fjölskyldu. Enn ein ástæða fyrir þögninni. Sumir eiga auðveldara með að standa með ofbeldismanninum heldur en þeim sem fyrir verður. Brotið verður svo margfalt verra þegar afleiðingar brotsins eru m.a. að missa hluta fjölskyldumeðlima.

3. Hvað Baugalín var frábær og kjörkuð í frásögninni. Eva María spurði hana margra erfiðra spurninga - væntanlega í þeim tilgangi að fá fram svörin fyrir efasemdarmennina... Baugalín er hetja.

Í þessu samhengi langar mig líka til að benda á frábæran pistil aftan á Fréttablaðinu í dag. Þar er umfjöllunarefnið hvernig talað er um þolendur kynferðisofbeldis. Pistlahöfundur hnýtir í orðalag eins og sálarmorð og að tala um að þolendur geti ekki alið upp börnin sín... Eins hræðilegar og afleiðingar kynferðisofbeldis eru fyrir þá sem fyrir verða þá eru afleiðingarnar ekki að þolendur verði óhæfar manneskjur eða geti ekki fúnkerað í samfélaginu á eftir. Þolendur þurfa að vinna úr afleiðingunum og brotin hafa alvarleg áhrif á þeirra líf. Það er ekki það sama og að fólk fúnkeri ekki eða sé ekki yndislegir foreldrar, manneskjur, vinir, makar, námsmenn, launþegar, atvinnurekendur eða þar fram eftir götum. Eins og það er mikilvægt að átta sig á hversu stórt brot ofbeldismenn fremja þá er líka mikilvægt að hafa í huga að það er líf fyrir þolendur eftir brotin... og að þrátt fyrir að þeir þurfi að bera þyngri byrðar en þeir sem ekki verða fyrir kynferðisofbeldi þá er það ekki áfellisdómur yfir manneskjunni sjálfri eða getu hennar til að takast á við þau verkefni sem lífinu fylgja. 


Íþróttaandinn!

Langar að blogga um svo margt... en á eftir að horfa á Kastljósið með Oddnýju og Heiðrúnu þar sem launamálin voru til umræðu... og er enn að vinna í vændispistlinum... en tek fram að mér finnst ömurlegt hvernig breytingunni var smyglað inn með kynferðisbrotakaflanum... Reyndar á vændið heima í kynferðisbrotakaflanum - en á þá líka að meðhöndla sem slíkt, þ.e. gerandanum (kaupandanum) á að refsa. 

En það eru nýjar fréttir af sportinu. Hér er bréf sem FÍ sendi áðan á ÍSÍ og Landssamband hestamanna.

Femínistafélagi Íslands barst ábending vegna nýafstaðins karlakvölds á vegum hestamannafélags sem er aðili að ÍSÍ. Okkur skilst að á karlakvöldinu hafi konur verið keyptar til að bera sig fyrir framan karlahóp. Uppákoma sem þessi er ekki við hæfi íþróttafélags sem vill vera til fyrirmyndar í íslensku samfélagi. Framkoma sem þessi er öllum hlutaðeigandi til minnkunar og dregur úr trúverðugleika ÍSÍ sem íþróttahreyfingar þar sem jafnrétti, virðing og íþróttamannsleg framkoma ætti að vera í heiðri höfð.
 
ÍSÍ hefur sent frá sér yfirlýsingar varðandi vændi í tengslum við Olympíuleikana í Aþenu og heimsmeistaramótið í knattspyrnu 2006, auk þess að vera með stefnu í jafnréttismálum og kröfu á aðildarfélög sem sækjast eftir að vera fyrirmyndarfélög um jafnréttisstarf. Ekki verður betur séð en að uppákoma sem þessi sé á skjön við stefnu félagsins og leikur okkur forvitni á að vita til hvaða aðgerða félagið hyggst grípa til að tryggja að stefnunni sé framfylgt. Einnig spyrjum við hvort það sé mögulegt fyrir aðildarfélög ÍSÍ að bera titilinn "fyrirmyndarfélag" þegar uppákomur sem þessar tíðkast á atburðum á þeirra vegum?  

Við tökum að lokum undir þá ósk sem birtist í bréfi þeirrar sem kom málinu af stað, þ.e. að óska eftir umræðu um þá staðreynd að slík kvenfyrirlitning þrífst á opinberum skemmtunum innan íþróttahreyfingarinnar, auk þess að óska eftir viðbrögðum frá Landssambandi hestamanna og ÍSÍ.

Hér er linkur á pistil eftir Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóra ÍSÍ, um svona uppákomur. Ég er ennþá bjartsýn - og eiginlega bara bjartsýnni en áður - um að ÍSÍ muni taka þetta föstum tökum! Smile


Ertu nokkuð svona konu kona?

Sá í 10 fréttum RUV í gærkvöldi frétt um dóm í Þýskalandi þar sem konu var neitað um skilnað frá eiginmanni sínum á grundvelli þess að Kóraninn leyfði barsmíðar eiginmanna á eiginkonum. Þar sem þau voru bæði frá Marakkó þótti við hæfi að láta Kóraninn vera rétthærri en þýsk lög. Sem er reyndar áhugavert í ljósi þess að ég veit ekki til þess að Kóraninn sé svona ofbeldisfullur... Held þetta snúist frekar um túlkun eiginmanna á Kóraninum heldur en því sem þar stendur! 

En hvað um það. Dómarinn í þessu máli var kona. Ég held reyndar að hún hafi beðist afsökunar á dómnum og kennt álagi um þessa dómgreindarvillu. Í tilefni af dómnum finnst mér við hæfi að velta upp spurningunni um hvers vegna við viljum fleiri konur í áhrifastöður - og hvort það skiptir máli hvernig konur það eru. Er kona sama og kona?

Svona til að einfalda málið má segja að það séu 2 ástæður á bak við að fjölga konum í áhrifastöðum. Sú fyrri að ekki sé mismunað á konum á leið á toppinn frekar en annars staðar - þ.e. að konur eigi að hafa jöfn tækifæri og karlar til áhrifa. Hin ástæðan, sem mér finnst mun veigameiri, er sú að vonir eru bundnar við að konur sem komast í áhrifastöður muni beita sér í þágu jafnréttis, þ.e. beita sér í þá veru að útrýma kynjamisrétti. Til dæmis með því að passa upp á að launin séu þau sömu, veita konum sama framgang í starfi og körlum, hækka lægstu launin, innleiða fjölskyldustefnur og þar fram eftir götum. En þetta er auðvitað ekki sjálfgefið - síður en svo - og umræðan nú undanfarið hefur einmitt beinst að því hvernig konur það eru sem komast í gegnum glerþakið. Eru það konur sem afneita kvennabaráttunni og gerast undirgefnar við hin karllægu gildi? Eru það konur sem spá bara alls ekkert í þessi mál? Eða eru það konur sem eru með jafnréttishugsjónina á hreinu og vinna opinskátt í því að auka jafnrétti kynjanna?

Svarið er sennilega að þarna sé um einhvers konar blöndu að ræða... þær konur sem komast til áhrifa eru ekki allar eins. Hins vegar væri gaman að rannsaka þetta betur... Sérstaklega til að skoða hvort að gerð sé sú krafa á konur sem vilja komast til áhrifa að þær gerist varðhundar karlaveldisins - og taki þá "skyldu" í sumum tilfellum alvarlegar heldur en meðalkarlmaðurinn myndi gera!

ps. Fyrirsögnin er fengin að láni úr ræðu mikils metinnar konu í viðskiptalífinu sem er meðvituð um jafnréttismálin... Þetta er spurning sem hún fékk frá vel meinandi karlmanni sem var að gefa henni ráð um hvernig hún ætti að haga sér í viðskiptum... Hvað eru margir karlar sem hafa fengið þá spurningu hvort þeir séu nokkuð svona karla karlar? 


Ef allir dagar gætu verið eins og gærdagurinn!

Byrjaði daginn á því að halda námskeið um kynferðislega áreitni. Eftir hádegi kenndi ég upp í Listaháskóla - spjölluðum heilmikið um annars vegar um hið gagnkynhneigða norm í auglýsingum og hins vegar um klámvæðinguna og áhrif hennar. Endaði svo kvöldið í hópi hugsandi karlmanna þar sem ég skemmti þeim með sögum af bloggi, klámi og klámvæðingu! Það var skemmtilegt og þeir voru skemmtilegir.

Yndislegur dagur! Smile 


Sportið... ætlar það að standa undir nafni sem fyrirmynd?

Mér barst eftirfarandi bréf í pósti:

Undanfarið hefur nokkuð verið að veltast í huga mér sem ég held að þurfi að fá að flögra um í fleiri kollum og þarfnist almennrar umræðu.

Þannig er að ég er félagi í íþróttafélagi, nánar tiltekið hestamannafélagi, á höfuðborgarsvæðinu. Reyndar er öll fjölskyldan í þessu félagi enda er hestamennskan frábært fjölskyldusport. Það sem að veldur áðurnefndum vangaveltum er sá siður sem haldinn er í heiðri í mínu félagi, og sjálfsagt fleirum, að á árlegum karlakvöldum félagsins er haft til skemmtunar að horfa á nektardans. Ekki var undantekning á þessari hefð í ár og voru konur keyptar til að skemmta körlunum með því að dansa erótískan dans og hátta sig um leið. Ég hef hugsað mikið um þennan dularfulla sið og skil hann alls ekki? Í hverju liggur skemmtunin? Er tilgangurinn kynörvun? Og þá fjölda karla saman???

Minn skilningur á tilgangi slíkrar skemmtunar er reyndar aukaatriði. Annað er það að eiginmanni mínum, sem þarna var, fannst nektarsýningin ekki mikil skemmtun frekar fannst honum hún óþægilegt áreiti og því er væntanlega eins farið með fjölda karlmanna sem þurfa að sitja undir slíkri niðurlægingu á ungum stúlkum.

Það sem er þó mjög athugavert er að slíkar “stripp” sýningar séu taldar sjálfsagðir viðburðir á skemmtunum sem haldnar eru á vegum íþróttafélags og í félagsheimili þess. Það félag sem hér um ræðir er að vinna að því að fá gæðastimpilinn “Fyrirmyndarfélag ÍSÍ” og því vil ég beina þeirri spurningu til ÍSÍ hvernig slíkar skemmtanir falla að jafnréttismarkmiðum ÍSÍ? Ég veit að Fyrirmyndarverkefnið snýr að barna- og unglingastarfi en þeir sem skipuleggja það starf þurfa þó væntanlega að sýna samkvæmni í störfum sínum og vera til fyrirmyndar, líka eftir klukkan átta á kvöldin. Svona uppákomur eru allavega afleit fyrirmynd fyrir börnin í félaginu og niðurlægjandi fyrir konurnar.

Ég veit að ég tala fyrir hönd margra kvenna og karla og óska eftir umræðu um þá staðreynd að slík kvenfyrirlitning þrífist á opinberum skemmtunum innan íþróttahreyfingarinnar. Ég óska líka eftir viðbrögðum frá Landsambandi hestamanna og ÍSÍ.

Mér finnst margt til umhugsunar í þessum efnum. Margir hrópa "frjálst val, frjálst val" í umræðunni um súlustaði, stripp, vændi, klám og allan þann pakka. En er raunverulega hægt að tala um frjálst val þegar svona er hluti af karlakvöldi? Er ekki greinilegt að einhver hluti karlmanna kærir sig hreinlega alls ekki um þetta en sitja uppi með ákvörðun þeirra sem vilja troða þessu upp á alla og gera þá kröfu að það sé merki um karlmennsku að hlutgera konur og kaupa líkama þeirra? Hvað með hjónabandssáttmála og traust á milli hjóna? Hvaða val eiga eiginkonurnar? Það virðist vera erfitt að koma því til skila að ef ekki er til staðar frelsi til að hafna - þá er ekki heldur frelsi til að velja... Vil að lokum taka það fram að mér finnst karlmenn sem standa upp og yfirgefa svæðið þegar svona "skemmtiatriði" eru í boði töff. Mér finnst karlar sem hreinlega mæta ekki á samkomur þar sem þetta er í boði töff. Mér finnst karlmenn sem sækja ekki súlustaði töff. Mér finnst karlar sem virða konur og líta á þær sem jafninga sína flottastir af öllum! 

Er annars bjartsýn á að ÍSÍ geri eitthvað í málinu... Bíð spennt eftir að sjá hvað það verður Smile


Karlmenn óskast...

... í baráttuna gegn vændi!

Ættu konur ekki að borga minna?

Í ljósi þess að konur fá á heildina litið lægri laun fyrir sömu störf, hefðbundin kvennastörf eru metin minna en hefðbundin karlastörf og konur vinna meira af ólaunaðri vinnu á heimilinu á meðan karlinn vinnur launaða yfirvinnu á vinnumarkaði... ættu þá konur ekki að borga minna en ekki meira??? 

Bara spyr. Langar annars að gauka því að Gísla Tryggvasyni að skoða líka tryggingar hér á landi. Kyn hefur áhrif á verð líf- og sjúkdómatrygginga...  

ps. Aðgerðir annarrar bylgju kvennabaráttunnar fólu meðal annars í sér aðgerðir þar sem neitað var að borga fullt verð fyrir vöru eða þjónustu - eða jafnvel lögreglusektir! Tounge


mbl.is Neytendum mismunað eftir kyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband