Ertu nokkuð svona konu kona?

Sá í 10 fréttum RUV í gærkvöldi frétt um dóm í Þýskalandi þar sem konu var neitað um skilnað frá eiginmanni sínum á grundvelli þess að Kóraninn leyfði barsmíðar eiginmanna á eiginkonum. Þar sem þau voru bæði frá Marakkó þótti við hæfi að láta Kóraninn vera rétthærri en þýsk lög. Sem er reyndar áhugavert í ljósi þess að ég veit ekki til þess að Kóraninn sé svona ofbeldisfullur... Held þetta snúist frekar um túlkun eiginmanna á Kóraninum heldur en því sem þar stendur! 

En hvað um það. Dómarinn í þessu máli var kona. Ég held reyndar að hún hafi beðist afsökunar á dómnum og kennt álagi um þessa dómgreindarvillu. Í tilefni af dómnum finnst mér við hæfi að velta upp spurningunni um hvers vegna við viljum fleiri konur í áhrifastöður - og hvort það skiptir máli hvernig konur það eru. Er kona sama og kona?

Svona til að einfalda málið má segja að það séu 2 ástæður á bak við að fjölga konum í áhrifastöðum. Sú fyrri að ekki sé mismunað á konum á leið á toppinn frekar en annars staðar - þ.e. að konur eigi að hafa jöfn tækifæri og karlar til áhrifa. Hin ástæðan, sem mér finnst mun veigameiri, er sú að vonir eru bundnar við að konur sem komast í áhrifastöður muni beita sér í þágu jafnréttis, þ.e. beita sér í þá veru að útrýma kynjamisrétti. Til dæmis með því að passa upp á að launin séu þau sömu, veita konum sama framgang í starfi og körlum, hækka lægstu launin, innleiða fjölskyldustefnur og þar fram eftir götum. En þetta er auðvitað ekki sjálfgefið - síður en svo - og umræðan nú undanfarið hefur einmitt beinst að því hvernig konur það eru sem komast í gegnum glerþakið. Eru það konur sem afneita kvennabaráttunni og gerast undirgefnar við hin karllægu gildi? Eru það konur sem spá bara alls ekkert í þessi mál? Eða eru það konur sem eru með jafnréttishugsjónina á hreinu og vinna opinskátt í því að auka jafnrétti kynjanna?

Svarið er sennilega að þarna sé um einhvers konar blöndu að ræða... þær konur sem komast til áhrifa eru ekki allar eins. Hins vegar væri gaman að rannsaka þetta betur... Sérstaklega til að skoða hvort að gerð sé sú krafa á konur sem vilja komast til áhrifa að þær gerist varðhundar karlaveldisins - og taki þá "skyldu" í sumum tilfellum alvarlegar heldur en meðalkarlmaðurinn myndi gera!

ps. Fyrirsögnin er fengin að láni úr ræðu mikils metinnar konu í viðskiptalífinu sem er meðvituð um jafnréttismálin... Þetta er spurning sem hún fékk frá vel meinandi karlmanni sem var að gefa henni ráð um hvernig hún ætti að haga sér í viðskiptum... Hvað eru margir karlar sem hafa fengið þá spurningu hvort þeir séu nokkuð svona karla karlar? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Athyglisverður pistill.  Er þetta bara ekki dæmi um að konur eru konum verstar?  Og eru konur sem komast til áhrifa nokkuð betri en karlar í sömu stöðu?   Það er allavegana ekki mín reynsla.  Þær geta bæði vera slæmar og góðar líkt og karlar sem gegna sömu stöðum.

Hitt er hinsvegar mjög alvarlegt mál ef það á að fara vera með eitthvert umburðarlyndi gagnvart minnihlutahópum svo sem trúarhópum og láta trúarrit þeirra vera æðri lögum þess lands sem fólkið býr í.  Oft eru trúarrit notuð sem réttlæting á ofbeldi gagnvart konum.  Slíkt má bara ekki eiga sér stað.

Örninn (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 11:09

2 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Er stundum að spá í hvernig karlar myndu bregðast við ef við kæmum fram með slagorð um að "karlar eru konum verstir"... Care to comment? Anyone?

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 23.3.2007 kl. 11:32

3 Smámynd: Steindór J. Erlingsson

Eins og gamla testamentið er kóraninn uppfullur af ofbeldi.  Ef þig langar að kynna þér málið er bókin Fighting Words: The Origins Of Religious Violence góð kynning á þessu efni.

Steindór J. Erlingsson, 23.3.2007 kl. 11:42

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Konur eru konum verstar er lífseig mýta og notuð í tíma og ótíma. Ég segi að konur séu yfirleitt konum góðar og bendi á hið þéttriðna vinkonu- og systranet sem yfirleitt eru í kringum okkur.  Þetta er marklaus klisja en segir meira en þúsund orð um viðhorfið gagnvart konum.

Mér finnst, án þess að ég hafi annað fyrir mér í því nema sterka tilfinningu, að margar af þeim konum sem komast í gegnum glerþakið séu "karlakonur" þe haldi því fram að þetta sé spurning um hæfni einstaklingsins og hafi ekki með kyn að gera.

Varðandi þetta með Kóraninn þá held ég að þetta sé bara spurning um túlkunaratriði.  Ljótt ef þeir eru farnir að leggja "túlkanir á Kóraninum" til grundvallar dómsúrskurðum í Þýskalandi.  Þetta er þó vætnanlega einangrað tilfelli.  Varla er Kóraninn að verða þýskum lögum æðri?

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.3.2007 kl. 11:46

5 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Æ Eyja vertu ekki svona vond við mig... þú veist hvað ég er treg í þessu

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 23.3.2007 kl. 11:49

7 Smámynd: Tryggvi H.

Frábærlega spennandi mál að skoða, svo vel þekkt að konur sem komast til valda tileinka sér "karllæg gildi" í meira mæli.  Þessi umræða fór af stað þegar Angela Merkel komst til valda í þýskalandi, og bar keim af orðum sem látin hafa verið falla um Margaret Thatcher, Condoleeza Rice og Madeleine Albright.  Sagði mér eitt sinn kennari í HÍ, að helsta ástæða þess að samkennari sinn-nokkur væri svo hrifinn af Thatcher, væri vegna þess hún væri svo karlmannleg.

Tryggvi H., 23.3.2007 kl. 13:37

8 identicon

Konur beita ALDREI oflbeldi sé þeim sjálfrátt. Þær beita ýmsum ráðum til að verja börnin sín, það veit ég, en ofbeldi beita þær ekki. Alvarlega málið í þessari frétt er enn eitt dæmið um að Islam er farið að ráða ferðinni í þýsku samfélagi, meira en maður hefði trúað að óreyndu. Að vísu hefur vel meinandi fólk í Þýskalandi haft af þessu áhyggjur, en það má ekki hafa orð á því, þá er fólk nefnilega rasistar!

beast (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 14:35

9 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Alhæfingar alltaf varasamar... Konur beita stundum ofbeldi, rétt eins og karlar. Það er þó kynbundinn munur þarna á. 

Fjölmenningarumræðan er viðkvæm og ekki sama hvernig að henni er staðið. Auðvitað þarf að vera hægt að ræða menningarmun og hvernig á að samlaga mismunandi menningarheima. Við ættum þó aldrei að samþykkja ofbeldi... hvort sem það er á grundvelli íslamskra eða vestrænna hefða. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 23.3.2007 kl. 14:58

10 identicon

Til Eyju Margrétar.

Ég var ekki að alhæfa neitt, heldur kom ég fram með spurningu.  Þessi spurning mín hefur greinilega farið fyrir brjóstið á þér (ó - afskaðu orðbragðið, ætlaði að segja fyrir hjartað á þér).  Þetta er ekki klisja sem ég kom fram með, þetta er nokkuð sem ég hef heyrt frá konum sjálfum.

Jenný bendir á systra- og vinkonunet, en þá get ég sagt ykkur reynslusögu af konu sem ég þekki:

  • Kona þessi var í saumaklúbbi (vinkonu/systraklúbbi).  Hópur þessi varð til þegar konur þessar bjuggu í Danmörku á meðan konur þessar dvöldu þar við námsdvöld o.þ.h.
  • Þegar heim var komið héldu konurnar sambandinu áfram og hittust reglulega og allt var gott og gaman.  Síðar meir fékk  kona þessi gott starf.  Hún var gerð að sölustjóra hjá þekktu fyrirtæki hér á landi sem er í mikilli útrás.  Starfið bauð upp á góð laun og mikið af ferðalögum til útlanda á fundi og ráðstefnur, auk þess að kona þessi fékk talsverð völd og áhrif samfara starfinu.  Hin mörgu ferðarlög erlendis gáfu henni m.a. tækifæri á að versla töluvert og á hagstæðu verði, m.a. föt á hana sjálfa og fjölskyldu hennar. 
  • Ætli vinkonur hennar hafi ekki verið ánægðar fyrir hennar hönd?????
  • Öðru nær!!!  Afstaða vinkvenna þessarar konu í saumklúbbnum breyttist mikið við þessa velgengni hennar.  Framkoman sömuleiðis og sumar hættu nánast að yrða á hana.  Smá saman fóru þær að minnka samband sitt við hana og "gleymdu" stundum að bjóða henni með sér t.d í systraferðir oþh. 
  • Konu greyið varð náttúrlega miður sín út af þessu og hvernig svokallaðar vinkonur hennar nánast frystu hana úti.
  • Seinna komst hún að hinu sanna þegar hún spurði eina úr saumaklúbbnum hvað væri í gangi.
  • Jú, hinar konurnar öfunduðu hana af velgengni hennar, því þær voru ekki eins vel settar og hún fannst þeim.  Með velgengni sinni hafði hún brotið "normið" í saumklúbbnum.  Hún var allt í einu orðin "jafnari" en vinkonur hennar og að þeim fannst, hún var orðin betur settari bæði stöðulega og efnahagslega.

Hver er svo lærdómurinn af þessu?  Dæmi hver fyrir sig.  Ekki það að ég sé að segja að karlar séu eitthvað öðru vísi eða betri.  Þetta er bara mannlegt/kvenlegt (ó)eðli.  Öfundin er drifkrafturinn í þessu.

Ég hef reyndar fleiri svona sorgarsögur, en ætla ekki að fara að bera þær á borð hér í þessu svari.

Örninn (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 17:05

11 identicon

Meira til Eyju!

Þú virðist halda því fram að konur séu alltaf góðar við aðrar konur, og að karlar séu alltaf vondar við konur.  Er þetta ekki sýn öfgafemínista?  Geta karlar þá ekki verið góðir við konur??

Örninn (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 17:13

12 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Örn minn. Það varst þú sem byrjaðir með þessa fáránlegu klisju "konur eru konum verstar" og ættir því ekki að búast við húrrahrópum fyrir vikið... Einstaka saga um konur sem er ekki vinkonur í gegnum súrt og sætt rennir ekki stoðum undir svona klisjur. Eða viltu bera þessa sögu saman við sögurnar um eiginmennina sem börðu eiginkonur sínar sundur og saman og hótuðu að drepa þær ef þær færu frá þeim? Eða við hópnauðgarana og barnaníðingina - ja eða bara nauðgarana?

Þeir sem vilja halda fast í þessa klisju ættu einmitt að rökstyðja sitt mál út frá því hvað er það versta sem hægt er að gera manneskju og koma með dæmi sem sýna að þetta eigi við rök að styðjast. Nú - eða bara kasta þessum asnalega frasa á haugana...

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 23.3.2007 kl. 17:48

13 identicon

Rasisimi??

Ég held að fólk verði að hugsa aðeins áður en það ritar og sérstaklega áður en það ritar um áhrif annarar trúar en það aðhyllist sjálft. Hér að ofan ritar ónafngreindur: 

"Alvarlega málið í þessari frétt er enn eitt dæmið um að Islam er farið að ráða ferðinni í þýsku samfélagi, meira en maður hefði trúað að óreyndu."

Er það eitthvað verra en að kristin trú eða önnur trú ráði ferðinni?

Það er hægt að túlka öll trúarrit þannig að það réttlæti hvað sem er í rauninni.

Viðkomanid ritar síðan.

"Að vísu hefur vel meinandi fólk í Þýskalandi haft af þessu áhyggjur, en það má ekki hafa orð á því, þá er fólk nefnilega rasistar!"

Er hér veið að segja án rasískrar meininar að vel meinandi fólk sé ekki til innan múslímatrúar?

Vandamálið er einfallt. Lög eru lög og eiga ekki að lúta neinni trú (vona að viðkomandi hafi verið að meina þetta). Mönnum á að vera heimilt að trúa því sem það vill, en þá á það vera þeirra mál. Ef trúin skarast á við lög þess lands sem það hefur kosið að búa í þá er það bara þeirra vandamál, ekki dómstóla. 

ótrúaður.is (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 20:56

14 Smámynd: Björn Heiðdal

Það skemmtilega við margt vinstrisinnað fjölmenningarfólk er allt þetta umburðarlyndi.  Sem mætti kalla minnihlutinn ræður stefnuna.  Þessi stefna kemur skýrt fram í þýska dómnum.  Hún á ekkert skylt við lýðræði eða eðlileg samskipti ólíkra menningarheima. 

Björn Heiðdal, 24.3.2007 kl. 21:54

15 identicon

"vonir eru bundnar við að konur sem komast í áhrifastöður muni beita sér í þágu jafnréttis, þ.e. beita sér í þá veru að útrýma kynjamisrétti. Til dæmis með því að passa upp á að launin séu þau sömu"

Það er almennt viðurkennt að karlar eru yfir heildina kröfuharðari þegar kemur að launum. Setjum þá upp dæmi: Kona er atvinnurekandi, karlkyns starfsmaður kemur til hennar og biður um launahækkun, vill fá 300 þúsund krónur á mánuði. Kvenkyns starfsmaður sem vinnur samskonar starf og karlinn biður ekki um launahækkun og er með 250 þúsund krónur á mánuði. Hvað gerir konan ef hún fellst á hækkun til karlsins? Hækkar laun konunnar af því að þær eru konur? Við lifum ekki í draumaheimi.

Magnús (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 10:14

16 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Magnús almennt viðurkennt er ekki það sama og almennt sannað... og ef þú lest tilvitnunina aftur sérð þú að þar stendur "vonir eru bundnar við" Einnig koma þessar vangaveltur sem þú setur fram að vissu leyti fram í pistlinum - það er engin sönnun fyrir því að kvk stjórnandi muni ekki mismuna eftir kyni í launum... það er þetta blessaða kynjakerfi sem við búum í - en, og þetta hafa rannsóknir sýnt, konur eru meðvitaðari um jafnréttimál og virkari í baráttunni... þannig að vonirnar eru kannski ekki alveg úr lausu lofti gripnar - svona tölfræðilega séð

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 26.3.2007 kl. 11:54

17 identicon

Rólegar stelpur!  Þið látið eins og ég hafi búið til klisjuna um að konur séu konum verstar. 

Ég veita líka dæmi um að frændur geta verið frændum verstir.  Það eru bara því miður til dæmi um að þetta sé stundum svona.  Ég þykist vita að hjá femínistum sé þetta kannski ekki svona, þær líta á karlmenn sem sína ógnvalda.   Því miður kemur þetta bara fram í ýmsu samskiptamynstri fólks. 

Ég veit líka að klisjan; "konur eru konum verstar" er bönnuð meðal femínista og túlkast sem algjört guðlast hjá þeim.

Af svörum ykkar að dæma þá neitið þið því að "konur séu konum verstar", og það var bara það sem ég vildi fá staðfest með spurningu minni, þó svo að dæmin sýni annað. 

Því miður er það svo að ef einhver finnur að einhver annar sé ógn við viðkomandi, þá bregst sá/sú þannig við að rægja þann aðila sem hugsanlega getur verið ógn við stöðu viðkomandi og þannig að ústkúfa þeim er hugsanlega getur verið ógn.  Þannig hefur klisjan "konur eru konum verstar" eða "frændir eru frændum verstir" líklega orðið til.  Nú hef ég ekki gert neina vísindalega rannsókn á þessu, en þetta er mín tilgáta.

Varðandi árekstra menningarheima: 

Katrín Anna, þú ert jú markaðsfræðingur.  Hvenær ætlið þið femínistar að fara í útrás með boðskap og hugmyndafræði ykkar um jafnrétti kynjanna og kvenfrelsi til Mið-Austurlanda?  Það virðist vera langt í landa að karlmenn í þessum löndum meðhöndli konur þar eins og manneskjur, en ekki eins og húsdýr.  Samkvæmt greininni sem þessi bloggfærsla varð tilefni til, eiga karlmenn frá Mið-Austurlöndum langt í land með að koma fram við konur á verðugan og jafnréttislegan hátt.  Katrín Anna gæti verið starfandi stjórnarformaður í slíku fyrirtæki, Eyja gæti orðið forstýra, og svo einhverjar femínstavinkonur gætu svo skipt með sér stjórnunarstörfum í slíku fyrirtæki.  Þannig gæti draumurinn um fleiri konur til áhrifa orðið að veruleika hjá ykkur.

Ps.  Ég ætla ekki að segja ykkur klisjuna um konur sem einn karlkyns gestur í nokkuð fjölmennu samkvæmi sem ég var staddur í sagði.  Það sem þessi gestur sagði um konur í þessu samkvæmi fór svo fyrir brjóstið á kvenkyns gestum þess að samkvæmið leystist upp í illindum og var næstum því orðið upphafið að 3ju heimstyrjöldinni.

Þetta gæti verið upplagt viðskiptatækifæri fyrir ykkur að stofna útrásarfyrirtæki á þessum vettvangi.  Þá gæti

Örninn (sem er reyndar mjög jafnréttissinnaður) (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 12:28

18 identicon

Til Katrínar

Ég ætla að bera þessu sögu saman við sögu um Tyrkjann sem giftist íslenskri konu og meira að segja hér á landi.   Saga sú er þessi að þegar þau voru gift, leið ekki á löngu fyrr en hann var farinn að berja hana af því að hún gerði ekki eins og hann vildi.  Þegar bræður og faðir stúlkunnar skárust í leikinn sagði Tyrkinn bara; "að hann mætti þetta, hann væri giftur henni og hún væri nú konan hans, þannig er þetta í mínu landi" (sick!).

Örninn (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 12:33

19 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Og pointið væntanlega að konan hafi átt vinkonur sem voru henni miklu verri en eiginmaðurinn sem barði hana???

Af hverju er ekki til frasi um að karlar séu körlum verstir??? Standa karlar alltaf saman no matter what, verða aldrei abbó eða öfundsjúkir út í hvorn annan...????? Eða neitt slíkt? Þessi frasi "konur eru konum verstar" er bara helbert kjaftæði út í eitt... og þú þú hafir ekki fundið frasann upp þá varst það þú sem komst með hann inn í þessa umræðu... 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 26.3.2007 kl. 12:42

20 identicon

Til Katrínar.  Ekki spyrja mig, ég stend ekki í því að búa til frasa, en  eins og ég benti á að þá er til frasi um karlmenn sem eru andstyggilegir við aðra karlmenn og hann er svona; "frændur eru frændum verstir" - eins og ég benti á að ofan.  En ég heyri að konur eru mjög viðkvæmar um frasann; "konur eru konum verstar" þó svo að frasinn sé reyndar kominn frá konum sjálfum, en femínistar hafa ákveðið að útrýma þessum frasa allaveganna að neita því að hann sé til að eigi við um konur almennt.  Þetta er svolítið Sovést hjá ykkur, í gömlu Sovétríkjunum var ákveðið að neita tilvist ýmislegs sem var Sovét-ráðamönnum ekki þóknanlegt, hvort sem að það voru hugtök, óæskilegar persónur, eða eitthvað sem miður fór hjá Sovétríkjunum.

Til Elísabetar:  Ég hef ekki kynnt mér hvers þjóðernis menn þeirra kvenna sem þangað komu eru, hvort það sé íslenskir eiginmenn eða af erlendu bergi brotnir.  Hvað sem öllu líður er um ógæfufólk að ræða sem lent hefur í kringumstæðum sem skabar af sér neyð og eymd.   Þú lætur í það skýna að það sé karlmönnum að kenna að konur leiti til Kvennaathvarfsins.  En hefur þú hugleitt "að það þarf tvo í tangó" og "að sjaldan veldur einn þá tveir deila"? - hvernig sem þetta er túlkað.

Katrín Anna markaðsfræðingur, hvernig líst þér á viðskiptahugmyndina sem ég kom með varðandi að fara í útrás með boðskap ykkar til Mið-Austurlanda og markaðsetja hann þar? 

PS, svona áður en að ég fer að hætta að ergja ykkur: 

Ég vil taka það fram að ég styð jafnrétti og er jafnréttissinnaður.  Sjálfur tek ég virkan þátt í rekstri heimilisins og uppeldi barna minna og tók með gleði feðraorlof á sínum tíma þegar við hjónin áttum seinna barn okkar og hafði mjög mikið gagn og gaman af. 

En mér finnst (eins og svo mörgum öðrum bæði konum og körlum) málflutingur femínista hér á landi vera of þröngsýnn og öfgakenndur, og er því sannfærður um að þið eyðiðleggið meira fyrir ykkur og kynsystrum ykkar en þið ætlið að bæta.  Þegar maður les pistlana ykkar (og greinar Katrínar í Viðskiptablaðinu), þá skín í gegn hjá ykkur að öll vandræði kvenna og staða þeirra (eða stöðuleysi þeirra) í þjóðfélaginu sé karlmönnum að kenna. 

Ég spyr t.d bara; hvað er svona eftirsóknarvert við það að komast í stjórnir fyrirtækja eða í topsstöður hjá fyrirtækjum?  Eru það launin eða eru það völdin?  Ef þið svarið þessum spurningum játandi, þá eruð þið ekkert betri en þeir karlmenn sem þið eruð að gagngrýna.

Toppstjórnendur vinna mikið og eru undir miklu álagi sem slítur þeim upp.  Dæmi frá Skandinavíu sýna að konur sem eru í toppstöðum fá líka þessa "atvinnusjúkdóma" sem karlmenn í sömu stöðu fá, t.d. of háan blóðþrýtsing, hjartasjúkdóma, áfengismisnoktun og jafnvel lyfjamisnotkun, og það að brenna upp fyrr en ella, auk þess að mega þola það að líf þeirra verður á einhvern hátt opinbert fyrir almenningi.   Er þetta þess virði??? 

Ég veit um margar konur sem eru jafnréttissinnaðar, en frábiðja sig um að vera tengdar femínistum hér á landi því þeim finnst þið veru svo öfgakenndar og eins og ein sagði; "þær eru svo miklar brussur".

Stelpur mínar, dempið ykkur nú aðeins og verið ekki svona þröngsýnar og einstrengislegar og hættið að kenna karlmönnum um allt sem fer miður hjá ykkur.  Skoðið ykkur sjálfar og athugið hvað þið hafið gert rangt eða getið gert til að bæta hag kvenna.  

Gangi ykkur vel í baráttunni!

Örninn (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 17:11

21 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Örninn... þarna stimplaðir þú þig endanlega út úr umræðunni. Maður sem telur að konur sem eru beittar heimilisofbeldi beri einhverja sök á því sjálfar ætti að fara í ítarlega naflaskoðun. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 26.3.2007 kl. 18:39

22 identicon

Kata mín róleg, það eru til margar hliðar á þessu máli.  Þetta sem þú segir er enn eitt dæmið um hversu einstrengislegar þið femínistar eru.  Annað hvort er veröldin svört eða hvít hjá ykkur og ekkert þar á mill.

Örninn (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 17:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 332511

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband