Súkkulaðiþrælkun

Í tilefni af fréttum í gær um slaka frammistöðu súkkulaðiframleiðenda við að koma í veg fyrir barnaþrælkun á kakóbaunaökrum set ég hér pistil um málið sem birtist í Viðskiptablaðinu 13. sept 2006 eftir mig.

 

Vaknað upp við vondan draum

Við fáum reglulega fréttir erlendis frá af námuslysum. Nú síðast voru fréttir af rússneskum karlmönnum sem lokuðust inn í gullnámu eftir að eldur kom þar upp. Fréttirnar fengu mig til að hugsa um aðstæðurnar á bak við lúxusvörur, vörur sem við notum til að gleðja okkur og aðra án þess að velta því fyrir okkur að þessar sömu vörur geta verið upprunnar við ómannúðlegar aðstæður. Gullið er vara sem greinilega kostar blóð, svita, tár og mannslíf. Vörur sem við neytum daglega, eins og súkkulaði, kaffi og sykur falla líka í þennan flokk.

Þrælkuð börn á bak við súkkulaðið okkar

Fyrir nokkrum árum var gerð heimildarmynd um barnaþrælkun á kakóbaunabýlum á Fílabeinsströndinni. Þetta var í fyrsta skipti sem flestir Vesturlandabúar heyrðu af því að hugsanlega séu þrælkuð börn vinnuaflið á bak við hið ljúffenga súkkulaði sem við verðlaunum okkur reglulega með. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og neytendur þrýstu á um úrbætur, enda ekki gleðilegt að hugsa um litla þrælkaða drengi við hvern súkkulaðibita. Í Bandaríkjunum var lagt fram frumvarp þess efnis að merkja ætti súkkulaði sem laust við þrælahald að uppfylltum skilyrðum. Frumvarpið var samþykkt í fulltrúadeild þingsins. Við þetta tóku súkkulaðiframleiðendur loksins við sér því þeir vissu að það væri nánast útilokað að sýna fram á að súkkulaðið þeirra væri ekki framleitt með hráefni sem ætti rætur að rekja í þrælahald. Iðnaður sem áður hafði kosið að hvorki sjá né heyra neitt illt varðandi hráefnið sitt settist niður með stjórnvöldum, félagasamtökum gegn þrælahaldi og fleiri hagsmunaaðilum og gerðu aðgerðaráætlun um hvernig mætti útrýma barnaþrælkun við framleiðslu á þessu vinsæla sælgæti.

Soðsteiktir bananar í öll mál

Aðgerðir síðustu ára hafa borið einhvern árangur en er samt sem áður langt frá því fullnægjandi. Nær helmingur allra kakóbauna eru frá Fílabeinsströndinni. Þar sem baunirnar eru seldar á mörkuðum sem sambland frá mörgum plantekrum, blandast baunir sem ræktaðar eru af barnaþrælum við aðrar baunir. Aðstæður barnanna sem verða fórnarlömb þrælkunnar eru hræðilegar. Meirihluti þeirra eru drengir á unglingsaldri. Stundum koma þeir til Fílabeinsstrandarinnar frá löndunum í kring í þeirri trú að verið sé að ráða þá í vinnu. Þess í stað eru þeir seldir á býlin þar sem þeir eru barðir og sveltir til að brjóta þá niður. Mánuðum saman getur verið að eina fæðan sem þeir fá séu soðsteiktir bananar, en úr þeim fá þeir að sjálfsögðu ekki næg næringarefni. Vinnan á plantekrunum er líkamlega mjög erfið, vinnudagurinn langur og kröfuharkan mikil.

Hvert er umfang barnaþrælkunnar

Það virðist ætla að verða erfitt fyrir mannkynið að hætta þrælahaldi. Samtökin iAbolish sem berjast gegn mansali áætla að um 27 milljónir karla, kvenna og barna séu í þrælahaldi í dag og er það meiri fjöldi en nokkurn tíma áður í sögu mannkynsins. Erfitt er að áætla fjölda þeirra barna sem eru þrælkuð við ræktun kakóbauna. Í heimildarmyndinni sem minnst er á hér fyrir ofan er viðtal við mann sem sagði að um 90% af öllum kakóbaunabýlum á Fílabeinsströndinni notuðu þræla. Þessi áætlun vakti hörð viðbrögð súkkulaðiiðnaðarins sem véfengdu tölurnar, enda mikið í húfi. Ef áætlunin er rétt myndi það þýða að nánast allt súkkulaði sem við látum inn fyrir okkar varir sé tengt þrælahaldi. Í framhaldi af myndinni og sem partur af þeim aðgerðum sem súkkulaðiframleiðendur hétu að grípa til var gerð rannsókn á umfanginu. Niðurstöður hennar voru að tæplega 300 þúsund börn ynnu við ómannúðlegar aðstæður á kakóbaunabýlum í Vestur-Afríku. Vinnan var of erfið fyrir þeirra unga aldur auk þess sem þau unnu óvarin með hættuleg skordýraeitur. Af þessum börnum var áætlað að 2.500 væru í barnaþrælkun. Sú tala er dregin í efa af ýmsum samtökum sem segja hana vanmeta ástandið og gagnrýna framkvæmd rannsóknarinnar. Samtök sem berjast gegn þrælahaldi segja þar að auki að loforð um að gera gögn og aðferðarfræði rannsóknarinnar opinber hafi verið svikin.

Er Fairtrade málið?

Meðal leiða sem nefndar hafa verið til að stöðva barnaþrælkunina er að auka almenningsvitund, efla menntun og búa til lagaumhverfi sem innifelur hegningarákvæði. Viðskiptabönn hafa einnig verið nefnd til sögunnar en margir hafa varað við þeim af þeirri ástæðu að kakóbaunaframleiðsla er lífæð landa eins og Fílabeinsstrandarinnar og óttast er að minnkandi neysla myndi koma illa niður á þeim sem starfa löglega. Svo virðist sem víðtækt samstarf á milli stjórnvalda, framleiðenda og félagasamtaka hafi leitt til þess að samstaða hafi náðst um að hvetja ekki til viðskiptabanna. Þó er ljóst er að súkkulaðiframleiðendur þurfa aukið aðhald frá neytendum og stjórnvöldum til að þeir taki málin föstum tökum en varpi ekki frá sér ábyrgð. Eitt þeirra kerfa sem reynt hefur verið að koma á laggirnar er Fairtrade en það gengur út á að greiða verð fyrir baunirnar sem dugar fyrir sómasamlegum launum, setja hluta af verðinu í samfélagsverkefni, greiða fyrirfram fyrir vöruna þegar þörf er á og skrifa undir langtímasamninga um kaup þannig að hægt sé að skipuleggja framleiðslu langt fram í tímann í stað þess að vera háð sveiflum á markaði. Gallinn er sá að eftirspurn eftir vörum sem merktar eru Fairtrade er ekki nógu mikil.

Er okkur sama – eða vitum við bara ekki hvað við getum gert?

Barnaþrælkun í súkkulaðiiðnaðinum er enn eitt dæmið um hvernig betur sett ríki eiga velmegun sína að hluta til að þakka bágum aðstæðum og þrælkun fólks í öðrum heimshlutum. Þrátt fyrir aðgerðir síðustu ára er vandamálið langt frá því að vera leyst. Fyrir okkur neytendur getur verið erfitt að vita í hvorn fótinn við eigum að stíga. Erum við að gera rétt með því að hætta að versla vörur sem við vitum að tengjast þrælahaldi eða erum við að kippa lífsviðurværi undan fótunum á fólki með því? Hvaða vörur er óhætt að neyta? Kaffi, sykur og súkkulaði – vörur sem við neytum í miklum mæli eru tengdar þrælkun. Við getum byrjað á að kynna okkur málin og ekki varpað frá okkur ábyrgð. Við getum beint viðskiptum okkur þangað sem tryggt er að viðskiptahættirnir eru í lagi og keypt Fairtrade vörur. Eins og áður sagði hefur þrælahald aldrei verið meira en á okkar tíma. Er það þannig sem við viljum að okkar sé minnst?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Þór Guðmundsson

Snilldar pistill !

Loksins hætt að einblína á mansal og ofbeldi eingöngu í kynlífsiðnaðinum, heldur horft á hlutina í víðara samhengi og einnig öðrum iðnaði.

Þetta líst mér á !

Það þarf að ganga á rót vandans.

Ingólfur Þór Guðmundsson, 30.3.2007 kl. 12:35

2 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Já, það getur verið flókið að finna fairtrade vörur og ég segi fyrir mig, það er líklegra að ég falli fyrir súkkulaðistykki í Hagkaup í leiðinni þegar ég er að versla heldur en að ég fari sérstaklega í Maður lifandi til að kaupa fairtrade súkkulaði.

En stór hluti þess súkkulaðis sem við Íslendingar borðum er frá íslenskum framleiðendum. Hugsanlega væri auðveldara að reyna að skora á þá um að versla fairtrade. Er það ekki reynandi?

Sóley Björk Stefánsdóttir, 30.3.2007 kl. 13:42

3 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Jú það er snilldarhugmynd! Hagkaup er reyndar líka með súkkulaði sem er ok - allt lífrænt ræktað súkkulaði á að vera safe (skilst mér) og þau eru með súkkulaði frá Rapunzel einhvers staðar. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 30.3.2007 kl. 13:45

4 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Frábær pistill. Alltaf gott að minna á þessi mál. Mig langar líka að koma með þá ábendingu að Fairtrade-vörur eru gjarnan dýrari en aðrar. Er ekki frekar málið að fá þessar vörur niðurgreiddar, eða tolla fellda niður af þeim svo þær séu ódýrari? Þetta brýtur náttúrlega örugglega í bága við samkeppnislög, en eitthvað hlýtur að vera hægt að gera í þessa átt. Kannski þrýsta á verslunareigendur til að lækka álagninguna á þessar vörur... Það á ekki að vera lúxus að styðja mannréttindi!

Laufey Ólafsdóttir, 30.3.2007 kl. 19:00

5 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Ég held að þessar vörur verði alltaf aðeins dýrari, þó ekki sé nema vegna þess að hærra verð er greitt fyrir hráefnið - verð sem gerir það að verkum að hægt er að greiða verkafólki laun sem hægt er að lifa af. 

Annað sem ég komst að þegar ég var að grúska í súkkulaðibransanum er að ríku vestrænu löndin byggja tollakerfið sitt upp þannig að ódýrast er að flytja inn hráefni en mjög dýrt er að flytja inn unnar vörur, þ.e. þá er bætt við viðbótargjöldum eða tollum. Þetta er gert til þess að vinnsla vörunnar fari fram hér á vesturlöndunum. Þetta er mjög slæmt fyrir lönd eins og t.d. Fílabeinsströndina og Gana þar sem þau sjá þá aðeins um frumvinnsluna en geta ekki aukið virði vörunnar fyrir útflutning með frekari vinnslu. Ég held að það hafi eitthvað verið gert til að liðka fyrir verslun með unnar vörur og að einhverjir súkkulaðiframleiðendur séu að setja upp vinnslu í löndunum sjálfum - og sum meira að segja á ábyrgan hátt þannig að hluti af hagnaðinum verður eftir í landinu sjálfu og skilar sér út í samfélagið. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 30.3.2007 kl. 19:13

6 identicon

Mjog gódur pistill.  Thad sem gaeti verid snidugt vaeri ad thrýsta á einhvern íslenskan súkkuladi framleidanda til ad framleida 1-2 súkkuladi tegundir thar sem hráefnid vaeri  orugglega fair trade.  Viss um ad fólk mundi kaupa thad, enda er thessi vakning í orum vexti. 

Kristín Hildur (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 19:50

7 Smámynd: Kolgrima

Mjög góður pistill, takk.

Kolgrima, 31.3.2007 kl. 14:17

8 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Óskar það verður gleðiefni þegar þú hættir að gera mér og öðrum femínistum upp skoðanir Annars furðulegt hvað þú telur þig þekkja vel fólk sem þú þekkir ekki neitt...!

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 31.3.2007 kl. 17:39

9 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

ps. Út af hugmyndunum um að hvetja íslenska súkkulaðiframleiðendur til að bjóða Fairtrade súkkulaði þá sendi ég póst á forsvarsmenn 3 íslenskra súkkulaðifyrirtækja með þessari tillögu. Væri gott að geta keypt íslenskt fairtrade... 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 31.3.2007 kl. 17:40

10 Smámynd: Björn Heiðdal

Það hlýtur að vera í lagi að leyfa smá þrælahald.  Auður heimsins hefur verið byggður á þrælum.  Pýramídararnir voru byggðir með þrælum, Englendingar byggðu sinn auð á þrælum og ekki má gleyma Bandaríkjunum sem eiga sennilega heimsmet í þessu.

Ef við Íslendingar ætlum að ná í skottið á USA og Englandi er þrælahald eina leiðin.  Lögleiðum þrælahald á Íslandi eða a.m.k. leyfum innflutning á ódýru vinnuafli óhindrað.

Björn Heiðdal, 1.4.2007 kl. 03:37

11 identicon

Já flott hjá þér að senda póst á íslensku fyrirtækin.  Ég veit að það var gert mjög sniðugt átak í Noregi, búin voru til póstkort, þar sem á stóð eithvað á þessa leið "  mér finnst súkkulaði rosalega gott, en ég fæ samt dálítið óbragð þegar ég hugsa til þess hvernig það er framleitt.  Mér fyndist skemmtilegra og betra að njóta súkkulaðisins ef ég hefði borgað fyrir það á sómasamlegu verði og það væri tryggt að engin væri búin að þjást til ég fengi það í hendur...(man nú ekki alveg hvernig þetta var orðað, en eithvað á þessa leið).  Svo var þessum póstkortum dreift um allt og fólk hvatt til að setja þau í póst á ákveðinn norskann súkkulaði framleiðanda.  Væri sniðugt að koma þessu í verk á Íslandi !

Kristín Hildur (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 10:32

12 identicon

Þar sem þetta með póstkortin kostar dálítinn pening og fyrirhöfn, væri sennilega auðveldara að útbúa fínan tölvupóst og láta hann ganga og fólk hvatt til að send hann á súkkulaði framleiðendur.

Óskar, þrátt fyrir að það sé margt ljótt í þessum heimi, er það varla afsökun fyrir því að láta hlutina með öllu afskiftalausa og gera ekki neitt.... 

Kristín Hildur (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 11:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 332474

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband