Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Sármóðguð!

Þrátt fyrir leit á vef Háskólans í Reykjavík tókst mér ekki að finna rannsóknina sem var kynnt á 19. júní og er að gera allt vitlaust. Ég ætla að tjá mig sem minnst um þá rannsókn þangað til ég er búin að skoða framkvæmdina og spurningar. Eina sem ég ætla að segja þangað til að er að það ætti ekki að koma neinum á óvart að konur taki þátt í að viðhalda kynjakerfinu. Það eru engin ný sannindi og allir sem hafa tekið einhverja kynjafræði ættu að vera með það á hreinu. 

Hins vegar er annað sem gerist þegar svona rannsókn er birt. Hið óskilgreinda batterí tekur við sér og nú má sjá frasann "konur eru konum verstar" út um allt. Ég hef oft bloggað um þennan frasa áður, enda fer hann rosalega mikið í taugarnar á mér. Ég hef reynt að útskýra þetta en fann nýjan vinkil á þessu áðan. Ég fór að skoða meiðyrðakaflann í hegningarlögum. Þessa klausu finnst mér fínt að draga fram í tilefni af "konur eru konum verstar" umræðunni:

233. gr. a. Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á [mann eða hóp manna]1) vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, [kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar]1) sæti sektum …2) eða fangelsi allt að 2 árum.

Þarna vantar auðvitað tilfinnanlega kynferði í upptalninguna... Ef kynferði væri með í þessar klausu held ég að það væri vel hægt að rökstyðja að frasinn "konur eru konum verstar" sé rógur og smánun gagnvart konum.  

Hér er önnur grein:

234. gr. Hver, sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, skal sæta sektum eða [fangelsi]1) allt að 1 ári.

Svo er líka þessi klausa:

Ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út, þá varðar það sektum eða [fangelsi]1) allt að 1 ári

Ef við ímyndum okkur nú í eitt augnablik að konur séu maður... Virðing kvenna bíður hnekki við að segja að þær séu öðrum konum verstar.  Ég er líka sármóðguð vegna þess að ég þekki svo margar stórkostlegar konur sem eru alltaf að gera stórkostlega hluti fyrir hver aðra.

Anyways... vona að fólk íhugi að með því að nota þennan frasa er verið að taka þátt í að viðhalda ríkjandi ástandi og kynjakerfinu - rétt eins og ef konum eru ráðlögð lægri laun...  og staðreyndin er bara sú að við tökum öll þátt á einhvern hátt. Síðan er bara spurning hvort við viljum leggja eitthvað á okkur til að breyta... Að henda út þessari ósönnu klisju um grimmd og illvirki kvenna gagnvart hvor annarri væri gott skref.


Um hlýðna karla og konur...

Takk fyrir allar hugmyndirnar um hvað er til ráða í jafnréttismálum. Ég hefði nú samt kannski átt að taka það fram í færslunni að ekki yrði hlustað á neinar hugmyndir sem ganga út á að halda KJ eða vera stilltar Wink Ég er reyndar á því að ein ástæðan fyrir hægum framgangi er vegna þess að við erum allt of stilltar. Ingibjörg Sólrún talaði um hlýðni kvenna í 19. júní ræðunni sinni og það er nokkuð til í því. Allt of margar konur gangast þegjandi og hljóðalaust undir karlaveldið og mega ekki til þess hugsa að vera nokkurn tímann á öndverðum meiði við karlmann... Þetta er kannski einhver hræðsla við eigin skoðanir. Í það minnsta held ég að sjálfsbjargarviðleitni spili stóran þátt. Það getur verið þægilegra að grafa vandamálin, láta eins og þau séu ekki til, setja bara upp brosið og vera ligeglad í öllu. Lynda vel við alla, taka aldrei fighting og þá lítur allt út fyrir að vera slétt og fellt. Vandamálið er að það er bara á yfirborðinu. Ég held að ef við gætum skapað þannig andrúmsloft að konur geti óhræddar sagt skoðanir sínar - eða bara skoðað og fundið út hvað þeim raunverulega finnst - án þess að verða fyrir heiftarlegum nafnaköllum og persónulegum blammeringum þá myndi margt breytast. Að sama skapi þá trúi ég því líka að það sé alveg hægt að taka fighting og vera samt vinir. Talandi út frá eigin reynslu þá get ég alveg vottað að það er mjög frelsandi að fylgja sinni eigin sannfæringu og komast að því hvað konu raunverulega finnst um málin. Það er farsælast að koma til dyranna eins og maður er klæddur. Jörðin ferst ekki við það. Í versta falli eignast maður nýja vini... Cool

En... having said that. Ef konur eru hlýðnar við karlaveldið þá er ekki annað hægt en að segja að karlar séu enn hlýðnari við það. Mun færri karlar en konur þora að bjóða karlaveldinu birginn! Er þá ekki við hæfi að spyrja næst hvað karlar geti gert til að bjóða karlaveldinu birginn? Getur verið að fullt af atriðunum yrðu þau sömu og það sem konur geta gert. Það er allt í lagi. Ég hlakka allavega til að heyra sögur af karlmönnum sem rífast um að fá að vaska upp, skúra, skrúbba og bóna ... og skipta á kúkableijum! Ekki hægt að ætlast til að karlmenn fái öll þessi hlutverk sjálfkrafa upp í hendurnar án þess að þurfa að hafa fyrir því sjálfir LoL


Auglýst eftir hugmyndum

Mörgum okkar finnst okkur miða allt of hægt í jafnréttismálum. Auglýsi hér með eftir hugmyndum um hvernig við getum látið hlutina gerast strax!

Kvennaslóðir opna á ný

Á morgun, fimmtudag, opnar RIKK (Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum)
nýjan vef Kvennaslóða.

Kvennagagnabankinn Kvennaslóðir inniheldur upplýsingar um
kvensérfræðinga á ýmsum sviðum. Markmið Kvennaslóða er að gera
þekkingu og hæfni kvenna sýnilega og aðgengilega.

Kvennaslóðir er vettvangur fjölmiðla, fyrirtækja og stjórnvalda til
þess að finna hæfar konur til margvíslegra starfa með skjótvirkum
hætti. Við hjá Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla
Íslands höfum endurhannað gagnagrunninn, gert nýtt útlit og bætt við
nýjum efnisflokkum á nýja vefnum.

Opnunin verður fimmtudaginn, 21. júní, kl. 12 í sal
Þjóðminjasafns Íslands.

Dagskrá opnunarinnar:

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra opnar vefinn og
flytur ávarp.
Margrét Kristmannsdóttir formaður Félags kvenna í atvinnurekstri
flytur erindi.
Pallborðsumræður undir stjórn Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur.

Þátttakendur í pallborði:
Karl Blöndal
Steinunn Stefánsdóttir
Sveinn Helgason
Valgerður Jóhannsdóttir
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir

Fundurinn er öllum opinn og það væri sönn ánægja að sjá ykkur
sem flest. :)

Hvað er til ráða?

Vona að það verði fluttar fleiri fréttir af þessu og að þá komi fram til hvaða leiða þarf að grípa til að sporna gegn kynferðisbrotum gagnvart börnum. Eftir að kynferðisbrot gegn börnum urðu opinbert mál, þ.e. byrjað að tala um þau opinberlega og gripið til úrræða gegn þeim hefur okkur eingöngu miðað eitthvað áfram hvað varðar lagaleg réttindi og úrræði fyrir þolendur eftir að brotið hefur átt sér stað. Einhverjar framfarir hafa orðið í réttarkerfinu en það er ennþá handónýtt og ekkert hefur gengið í að fækka ofbeldisverkunum. Skýrsla Ameríska sálfræðifélagsins, sem ég hef minnst á áður, telur að einhverjar líkur séu á aukningu á kynferðisbrotum gegn börnum í kjölfar klámvæðingarinnar. Einnig er greint frá þar að kynferðislegar tilvísanir í börn hafi aukist á undanförnum árum og spáð enn meiri aukningu í því. Þetta er mjög ógnvekjandi framtíðarspá og ég er enn að vona að þjóðin geti tekið sig saman, verið á varðbergi og hafnað öllum kynferðistengingum í börn.

Í þessu samhengi langar mig að minnast á bloggið hennar Ellýar Ármanns. Þar er núna færsla um fertuga konu sem tælir dreng sem "er í mesta lagi 16". Í mesta lagi þýðir hámark - en gefið er í skyn að hann geti jafnvel verið yngri. Kynferðislegur lögaldur á Íslandi er 14 ár sem er lægra en í löndunum í kringum okkur. Einstaklingar hér eru skilgreindir sem börn til 18 ára aldurs. Þegar kynferðisbrotakafli hegningarlaganna var endurskoðaður voru nokkur samtök sem lögðu fram tillögu þess efnis að kynferðislegur lögaldur yrði hækkaður í þeim tilgangi að vernda börn gegn kynferðislegu ofbeldi/ágangi af hálfu fullorðinna einstaklinga. Það gekk ekki í gegn og rökin sem voru gefin voru að börn á þessum aldri væru sum hver byrjuð að stunda kynlíf með hvort öðru. Tillögurnar miðuðu samt allar við að gefinn væri sveigjanleiki fyrir þessu þannig að t.d. væri ákvæðið þannig að þetta gilti um einstaklinga sem væru einhverjum x árum eldri en viðkomandi barn. Slíkt hefði verið auðvelt að setja í lögin en var ekki gert. Því var haldið fram að þessi grein verndaði börn að hluta til gegn fullorðnum:

Hver sem með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt tælir ungmenni [yngra en 18 ára]1) til samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi allt að 4 árum

Þessi klausa er einfaldlega ekki nóg. Það er áhugavert að skoða hegningarlögin út frá bloggfærslu Ellýar Ármanns um fertugu konuna og drenginn sem er í mesta lagi 16 ára. Mín skoðun er sú að með því að samþykkja svona færslur sem "saklausa skemmtun" sé fullorðið fólk að bregðast skyldum sínum um að vernda börn gegn kynferðisofbeldi. Það getur vel verið að málið sem Ellý setur fram myndi standast gagnvart lögum ef þetta væri sönn saga en þarna er verið að normalisera kynlíf eldri kvenna með drengjum sem eru ennþá börn. Í raun er verið að normalisera kynlíf fullorðinna með börnum. Veldur það fáum áhyggjum að þetta er vinsæla efnið sem selur?


mbl.is Rætt um hvernig hægt er að sporna við kynferðisbrotum gagnvart börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira bleikt... en líka blátt

Bleiki dagurinn gekk vel. Ég fór reyndar ekki að versla rándýr föt eins og Sóley Halo en fann hérna forláta bleikan hatt. Leið eins og ég væri alvöru Blues Brother með hattinn á kollinum. Fór í gönguna um miðbæ Reykjavíkur. Kristín Ástgeirs leiddi gönguna og það er hreint yndi að hlusta á hana segja hana frá. Það er óhætt að segja að hún sé hafsjór af fróðleik. Kaffið hjá KRFÍ lukkaðist vel. Pönnsurnar og kleinurnar frá mömmu hennar Þorbjargar Ingu runnu ljúft niður, ég hlakka ógó mikið til að lesa 19. júní blaðið en... best fannst mér ræðan hennar Ingibjargar Sólrúnar. Hún bar saman fullveldi Íslands og fullveldi kvenna. Þetta var ein besta ræða sem ég hef heyrt lengi. Algjörlega frábær. Vona að hún setji hana á netið því mig langar að lesa hana yfir í rólegheitum.

Eitt veldur mér þó nokkrum heilabrotum. Í dag sýnum við stuðning við jafnrétti með því að bera eitthvað bleikt. Sumir fjölmiðlar voru meira að segja bleikir í dag, t.d. mbl.is og visir.is. Hins vegar var skrýtið að sjá frétt á visir.is um að þeir hafi ráðið 2 karla í stjórnunarstöður, annars vegar sem varafréttastjóra og hins vegar sem ritstjóra Vísis. Efast ekki um að þetta séu fínir kallar, báðir tveir en það er hreinlega eins og karlarnir sjái ekki allar hæfu, gáfuðu og reynslumiklu konurnar sem eru á hverju strái. Þær fá  ekki sömu tækifæri sem sést á þessum endalausu karlaráðningum. Ég velti líka fyrir mér af hverju fréttin birtist í dag? Það hljómar pínkulítið eins og jafnrétti í orði en ekki á borði þegar bleiki borðinn er settur á vefinn en sama tækifæri notað til að senda út skýr skilaboð um að það séu karlarnir sem ráða... aðra karla í stjórnunarstöður. Hefði nú ekki verið betra að bíða með þessa frétt þangað til á morgun? Wink 


Bleikar konur á bleikum degi

 

Til hamingju með daginn. Í dag eru liðin 92 ár síðan íslenskar konur, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt. Mig langar að tileinka daginn í dag 2 konum sem eru mér kærar. Það er auðvitað hún Auður Magndís sem er gáfuð, skemmtileg, málefnaleg, kjörkuð og svo ótal margt fleira. Hún tók við af mér sem talskona. Reyndar verður hún meira og minna í útlöndum þar til í september, en það er allt í lagi. Nægur tími samt til að láta til sín taka Smile Núna er hún samt á fróninu í sumarfríi. Síðan er það hún Benedikta mín sem var sú besta vinkona sem kona getur eignast. Hugmyndarík, áræðin, hreinskilin og sagði það sem hún var að hugsa. Eiginleiki sem ég met mikils. Svo var hún auðvitað líka gáfuð og skemmtileg. Smile

Reyndar á þriðja konan skilið að við höldum upp á daginn fyrir hana. Það er hún Elín sem á hugmyndina að Málum bæinn bleikan. Það er rosalega gaman að sjá hvað fólk er samstíga í að sýna hug sinn til jafnréttis í verki í dag með því að bera eitthvað bleikt eða gera eitthvað bleikt. mbl.is er bleikt í dag. DV gerir deginum góð skil, Morgunútvarpið var með frábæra umfjöllun í morgun. Meira að segja morgunþátturinn Zúber var bleikur í morgun. Ég heyrði reyndar ekki umræðurnar þar en náði þegar þau voru að kveðja og skilst að sitthvað hafi gengið á í umræðunni þar. Bleikar kveðjur til Siggu Lund! Heyrðist henni ekki veita af Wink


Það er næstum kominn 19. júní...

Hér er dagskráin fyrir bleikasta dag ársins - 19. júní:

Svona fögnum við 19. júní – auk þess að bera eitthvað bleikt allan daginn!

10:00 Afhending Bleiku steinanna, hvatningarverðlauna Femínistafélagsis
13:00 Opið hús á Jafnréttisstofu, Borgum á Akureyri
16:15 Kvennasöguganga undir leiðsögn Kristínar Ástgeirsdóttur, sagnfræðings. Gangan hefst við Kvennaskólann í Reykjavík, gengið verður um Þingholtin og Kvosina og endað á Hallveigarstöðum
17:15 Hátíðardagskrá í samkomusal Hallveigarstaða í boði Kvenréttindafélags Íslands, Kvenfélagasambandisins og Bandalags kvenna í Reykjavík. Ávörp flytja Þorbjörg Inga Jónsdóttir, formaður KRFÍ, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Steingerður Steinarsdóttir, ritstjóri 19. júní
18:00 Veitingar og kaffispjall á Hallveigarstöðum
20:30 Kvennamessa Kvennakirkjunnar í samvinnu við Kvenréttindafélag Íslands og Kvenfélagasamband Íslands. Messan er haldin við þvottalaugarnar í Laugardal
22:00 Samkoma Ungliðahóps Femínistafélagsins á Cultura, Hverfisgötu

Kvenréttindafélag Íslands dreifir tímaritinu 19. júní frítt
UNIFEM selur bleik armbönd til styrktar kvennamiðstöðvum í Afghanistan

Aðstandendur Málum bæinn bleikan eru:
Bríet, Kvenréttindafélag Íslands, Stígamót, Femínistafélag Íslands, Kvennaráðgjöfin, Kvenfélagasamband Íslands, Samtök um Kvennaathvarf, Kvennasögusafn, Kvennakirkjan, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræði (RIKK) og UNIFEM

***

En svo er líka fleira í gangi. Dagný Matthíasdóttir ætlar t.d. að opna myndlistarsýninguna "19" í tilefni dagsins! Sýning er á DaLí Gallery á Akureyrir. Lesa má allt um sýninguna hér.  


Ímyndir karla og kvenna

Las í Fréttablaðinu í dag að ofbeldi gegn samkynhneigðum er að aukast. Þó er tekið fram að það sé ekki endilega að marka vegna þess að ofbeldi sé að aukast í samfélaginu almennt. Skyldi einhvern undra í okkar ofbeldisdýrkandi umhverfi? Ég veit að það er viðkvæmt mál að brydda upp á ofbeldi og karlmennskuímyndum á sama tíma. Það er hins vegar ekkert öðruvísi heldur en að brydda upp á t.d. gegndarlausri útlitsdýrkun og kvenleikaímyndum. Okkar samfélag reynir sitt besta til að troða kynjunum í sitthvort boxið og úthluta okkur hlutverkum samkvæmt því. Á meðan stelpur eiga að vera stilltar og sætar eiga strákar að vera ágengir og ofbeldisfullir. Rétt eins og það er full ástæða til að berjast gegn því að stelpur eigi að vera skoðanalausir skrautmunir er full ástæða til að berjast gegn því að strákar eigi að vera ofbeldisfull óargardýr. Það hefur ekkert með það að gera að vera alvöru karl eða kona. Það er nefnilega allt annað að vera karl eða kona eða taka upp ímyndir af því hvað það er að vera karl eða kona. Ímyndir eru ekki samofnar okkar eðli eða náttúrulögmál. Ímyndir eru tilbúið fyrirbæri sem við höfum getu til að hugsa um, móta, taka þátt í eða berjast á móti. 

Konur halda uppi hálfum himninum

Ég óska nýjum fálkaorðuhandhöfum til hamingju. Ég er hins vegar óhress með að forseti Íslands skuli aldrei meta framlag kvenna og karla til samfélagsins jafnt. 4 konur og 6 karlar fá orðuna að þessu sinni. Það er allt í lagi þó slík slagsíða sé endrum og eins - en hún ætti þá líka að vera í báðar áttir, stundum fleiri konur, stundum fleiri karlar. Mynstrið að útnefna fleiri karla en konur er hins vegar fast í sessi sem segir okkur að framlag karla til samfélagsins er metið meira en framlag kvenna. Þetta sjáum við víða. Karlar fá hærri laun, fleiri orður, meiri styrki og fleiri nafngreindar styttur, svo dæmi séu tekin. 

Er ekki kominn tími til að breyta? Konur halda uppi hálfum himninum og það á að sjást þegar framlag fólks til samfélagsins er viðurkennt með einhverjum hætti. 


mbl.is Fálkaorðan veitt á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband