Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Ættum við ekki að taka á móti nokkrum flóttamönnum?

Mér finnst það nú ansi skítt að vera á lista hinna vígreifu þjóða en neita svo að takast á við afleiðingarnar. Er ekki lágmark að taka á móti nokkrum flóttamönnum frá Írak?

Ég fór á ráðstefnu fyrir nokkrum árum þar sem málefni flóttafólks var til umfjöllunar. Það var áberandi þar í erindi hversu neikvæðum augum íslensk yfirvöld líta flóttafólk. Orðalagið var eitthvað á þá leið að ef ekki væri hægt að vísa fólkinu úr landi skv tilteknu ákvæði þá væri hægt að leita á náðir annars ákvæðis og ef það brygðist líka þá væri hægt að skoða þriðja ákvæðið.... Markmiðið var sem sagt greinilega að leita allra leiða til að vísa fólkinu úr landinu. Vegna landfræðilegrar staðsetningar og samgönguleiða er það tiltölulega einfalt þegar Ísland á í hlut því hingað eru ekki beinar samgöngur frá þeim löndum sem flóttafólkið kemur frá.  


Ísland árið 2050

Innihald mallans ákvað að gera uppreisn og koma upp á yfirborðið kl. 4 í nótt. Það varð því ekkert úr því að ég kæmist á fundinn um launmun kynjanna í morgun Crying Sé í fréttum að ég hef misst af miklu - sem ég reyndar vissi strax því ég hef lengi beðið eftir tækifæri til að fara og hlusta á Lilju Mósesdóttur. Á fundinum kom sem sagt fram að við Íslendingar eigum Evrópumet í launamun kynjanna og ef eitthvað er, sé hann að aukast...

Heilsan fór sem betur fer skánandi þegar leið á daginn og ég ákvað að skella mér á fund Samtaka atvinnulífsins eftir hádegi. Sé ekki eftir því, enda stórfínn fundur. Mjög góð mæting og slatti af konum. SA sendi fundarboð til allra kvenna sem mættu á ráðstefnuna Kraftur kvenna, sem haldin var í vetur - stórgóð hugmynd og hefur örugglega aukið þátttöku kvenna á fundinum þó kynjahlutföllin hafi verið skökk. 

Anyways... á fundinum var kynnt könnun sem gerð var á hvernig fólk heldur að Ísland verði árið 2050.  Skemmtileg nálgun til að fá fólk til að hugsa fram í tímann Smile Spáð er að lífslíkur okkar eigi eftir að aukast og fæðingartíðni að lækka. Mér skyldist að lífeyrissjóðakerfið okkar væri hannað með það í huga að fólk væri á eftirlaunum í 17 ár en framtíðarspáin er að fólk verði á eftirlaunum í 24 ár - m.v. að fólk hætti að vinna 67 ára. Háskólamenntun á eftir að aukast og í pallborði talaði Guðfinna Bjarnadóttir um að við ættum að setja okkur markmið um að 60% þjóðarinnar hefði háskólapróf. Meirihluti fólks telur að árið 2050 verði Ísland þekkt fyrir fagra náttúru og hreint land. Það skýtur því skökku við að hér er allt grasserandi í plönum um álver og olíuhreinsunarstöðvar - fyrir land þar sem 60% þjóðarinnar ætlar að vera með háskólamenntun og landið þekkt fyrir hreinleika...! Exkjús mí - en þetta fer bara ekki saman. Og það er kannski það góða við að horfa svona langt fram í tímann. Fyrir hvað viljum við vera þekkt eftir 43 ár? 

Ef ég mætti ráða yrðum við þekkt fyrir hreint og fallegt land, gott velferðarkerfi, hátt menntunarstig, fjölbreytt atvinnulíf og jafnrétti. Til að ná þessum markmiðum þurfum við að láta af stóriðjustefnu, styðja betur við frumkvöðlastarfsemi, nýsköpun og rannsóknir, halda áfram að stuðla að auknum gæðum menntunar og taka okkur tak í jafnréttismálum.... þýðir líka að við þurfum að láta duga að hafa hér 3 álver og sleppa olíuhreinsunarstöðinni!  Væri ekki nær að Ísafjörður samþykkti tillögu Ólínu Þorvarðardóttur og stofnaði háskóla???


Konur vilja frelsi til að segja frá laununum sínum!

Um daginn spurði ég hvort það skiptir máli hvað við segjum - og fjallaði um mátt orðanna. Mig langar að halda aðeins áfram með þá umræðu. Í morgun var fyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins sem hljómaði svona: "Konur vilja banna launaleynd". Bann þykir afskaplega neikvætt orð á okkar tímum. Það þykir bera vott um skerðingu á frelsi eða forræðishyggju að banna eitthvað. Femínistar eru t.d. oft áskaðir um að vilja banna hitt og þetta - alls konar hluti sem femínistar vilja alls ekki banna - en þetta orð er tilvalið til að snúa út úr og skapa neikvæða ímynd. 

Þess vegna finnst mér athyglisvert þegar talað er um að banna launaleynd. "Bannið" snýst nefnilega um að afnema bann. Með öðrum orðum - konur vilja banna að það sé bannað að segja frá laununum sínum. Tveir mínusar gera plús - þetta lærðum við öll í skóla og það á við um þetta tilfelli. Það er verið að fara fram á aukið frelsi, frelsi til að mega segja frá. Það er verið að auka tjáningarfrelsi með því að aflétta banninu. Að tala um bann í því samhengi er eitthvað svo afstætt...

Ég er líka að velta því fyrir mér af hverju Sjálfstæðisflokkurinn og Frjálshyggjufélagið eru ekki fremst í flokki með að afnema launaleynd. Við erum oft að tala um frjálsan markað... en forsendur frjáls markaðar eru að fólk hafi upplýsingar fyrir hendi til að taka upplýstar ákvarðanir. Launaleynd er stýrður markaður þar sem upplýsingaleynd ríkir. Fólk sem vill í alvörunni skapa frjálsan markað ætti því að vera fylgjandi því að fólk sé frjálst til að segja frá laununum sínum.

En kjarni málsins er sem sagt - það að banna að eitthvað sé bannað - það er ekki bann! 


Karlatímarit

Tímarit um viðskipti og efnahagsmál var að detta inn um lúguna hjá mér. Tímaritið er gefið út af viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og markmið þess er "að vera vettvangur fyrir fræðilega umræðu í viðskiptafræði og hagfræði". 

Í ár var ákveðið að vera með karlatímarit. Ritstjóri blaðsins er karlmaður. Tæknileg ritstjórn er reyndar í höndum konu og hún skemmir svolítið fyrir hinni allt-um-lykjandi karlastemningu. Í ritstjórn eru 3 karlar.  Í tímaritinu eru 4 greinar og þær eru allar eftir karla.

Kynjahlutföll í viðskipta- og hagfræðideild HÍ eru nokkuð jöfn. Það er til aragrúi kvenna með viðskiptafræðimenntun í samfélaginu. Get ekki sagt að ég fagni því neitt sérstaklega að fá bara rödd karla inn um lúguna hjá mér.... ég vil fá raddir bæði karla og kvenna.  


Vilt þú afnema launamisrétti?

Hér er kjörið tækifæri til að gera eitthvað í málinu. Ég má til með að koma því að að karlar eru afar sjaldséðir á svona samkomum. Hér er fínt tækifæri til að bæta þar úr! Wink

***

Launamisrétti kynjanna – úr sögunni árið 2070 eða hvað?

Ellefu kvennasamtök efna til morgunverðarfundar með stjórnmálaflokkunum þriðjudaginn 17. apríl kl. 8.00-9.30 á Grand hótel Reykjavík. Til umræðu verður launamisrétti kynjanna og aðgerðir til að útrýma því. Erindi flytja Lilja Mósesdóttir hagfræðingur og Þórey Laufey Diðriksdóttir formaður Kennarafélags Reykjavíkur. Á eftir sitja fulltrúar stjórnmálaflokkanna fyrir svörum. Fundarstjóri Tatjana Latinovic.

Fyrir tæpum tveimur árum söfnuðust tugþúsundir kvenna saman í miðborg Reykjavíkur til að minnast þess að 30 ár voru liðin frá kvennafrídeginum 24. okt. 1975 og til að krefjast launajafnréttis kynjanna. Í kjölfar kvennaársins 1975 var gerð könnun á launamun kynjanna sem leiddi í ljós að konur í þéttbýli höfðu að meðaltali 45% af launum karla. Nú rúmum 30 árum síðar hafa konur að meðaltali um 62% af launum karla þrátt fyrir að hafa bætt við sig mikilli menntun og vinna sífellt lengri vinnudag. Með sama áframhaldi verður launabilinu útrýmt upp úr 2070. Þolinmæði okkar er á þrotum, við ætlum ekki að bíða svo lengi.

Meðallaun segja ekki alla söguna en þau spegla þá staðreynd að staða kvenna er önnur en staða karla. Íslenskur vinnumarkaður er mjög kynskiptur og lítur út fyrir að svo verði áfram ef marka má nýja könnun á framtíðarstarfsvali 15  ára unglinga. Sú staðreynd blasir við að störf sem konur vinna í mun ríkara mæli en karlar eru láglaunastörf. Stór hópur kvenna vinnur afar mikilvæg störf, t.d. við kennslu barna, en þau eru illa launuð þrátt fyrir mikla ábyrgð og kröfur um sífellt meiri menntun. Hluti kvenna vinnu hlutastörf til að geta sinnt börnum sínum. Hvers vegna bera þær meiri ábyrgð á umönnun barna en feðurnir? Svarið felst að miklu leyti í launamun kynjanna. Hluti kvenna er heimavinnandi, af hverju ekki pabbarnir? Svarið er það sama.

Rannsóknir hafa margsýnt fram á að hér á landi er verulegur launamunur milli kynjanna, konum í óhag, sem eingöngu verður skýrður með kynferði.
Samkvæmt könnun Capacent frá árinu 2006 var kynbundinn launamunur 15,7%.
Hver ríkisstjórnin á fætur annarri hefur heitið því að útrýma launamun kynjanna en hvar eru efndirnar? Það hvorki gengur né rekur. Við svo búið má ekki standa. Íslenskar kvennahreyfingar spyrja því stjórnmálaflokkana nú í aðdraganda alþingiskosninga til hvaða aðgerða þeir ætla að grípa til að útrýma launamisréttinu og stöðva þar með þau mannréttindabrot sem konur sæta á íslenskum vinnumarkaði.

Bríet - félag ungra femínista
Femínistafélag Íslands
Kvenfélagasamband Íslands
Kvennaathvarfið
Kvennaráðgjöfin
Kvenréttindafélag Íslands
Rannsóknastofa í kvenna og kynjafræðum
Samtök kvenna af erlendum uppruna
Stígamót
V-dagssamtökin
UNIFEM á Íslandi


Enn um kynjakvóta

Ég er loksins búin að komast í því í hvaða kjördæmi ég er Smile Síðast var ég í Reykjavík norður, þrátt fyrir að hafa búið hér um bil á sama stað og núna - í húsinu við hliðina á, en núna er ég í Reykjavík suður. Ástæðan er sú að búið er að skipta Grafarholtinu í tvennt og við þann gjörning fluttist ég í nýtt kjördæmi. Það segir sig auðvitað sjálft að hagsmunir mínir sem þjóðfélagsþegn eru gjörólíkir eftir því hvar ég bý í Grafarholtinu! Shocking Ég tala nú ekki um ef að ég myndi búa í Mosó eða jafnvel í Grafarvoginum! 

Kvótakerfi byggt á póstnúmerum þykir við hæfi í dag en kynjakvóti ekki. Ekki að ég sé brjálæðsilega fylgjandi kynjakvótum sjálf - þætti mun betra ef við værum jafnréttissamfélag og hlutirnir væru í lagi. En svo er ekki... og þess vegna hlýtur að vera þess virði að ræða kynjakvóta. Ég spái því nú reyndar að eftir því sem konum fjölgar á þingi þá verði karlar hlynntari kynjakvótum.... svona til að tryggja að þeir verði aldrei í minnihluta á þingi Wink

Kynjakvótinn hefur kosti og galla. Hann neyðir flokkanna til að hleypa hæfu konunum sínum að... og að ekki sé hægt að kjósa eftir kyni. Þannig stuðlar kynjakvótinn að auknu lýðræði og kynin búa við aukið jafnræði. Kynjakvóti læknar hins vegar ekki rót vandans - en það er spurning hvort hann sé nauðsynlegur plástur þar til rótin hefur jafnað sig og er komin í lag?

Stærsti ókosturinn við lögbundinn kynjakvóta hlýtur hins vegar að vera sá að hann kemur í veg fyrir nýtt kvennaframboð!!! W00t


Yes!

8 konur og 3 karlar kjörin í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins um helgina. Þetta hlýtur að teljast saga til næsta bæjar og full ástæða til að óska Sjálfstæðisfólki til hamingju með þetta. Gott hlutfall kvenna í miðstjórn vegur upp á móti skorti kvenna í valdastöðum á vegum flokksins. 

Í borgarstjórn sitja 4 karlar og 3 konur sem borgarfulltrúar á vegum flokksins. Á alþingi eru 23 þingmenn Sjálfstæðisflokksins, 16 karlar og 7 konur. Ráðherrar eru 6, þar af einungis 1 kona. Útlit fyrir komandi alþingiskosningar er ekki gott varðandi kynjahlutföll flokksins. 5 karlar og 1 kona leiða lista flokksins og úrslit prófkjara voru ekkert til að hrópa húrra fyrir þegar jafnrétti kynjanna er haft til hliðsjónar. Flokksmenn virðast þó sjá að þetta er eitthvað til að skammast sín fyrir og hafa vaknað aðeins á landsþingu og reynt að bæta úr - sem er frábært, enda hafa skoðanakannanir sýnt að flokkurinn nýtur mun meira fylgis meðal karla en kvenna. 

Óska Sjálfstæðisflokknum til hamingju með þetta. Vona að flokkurinn bíði ekki skaða af öllum þessa kvennafans í miðstjórninni Wink og fari vonandi bráðum að jafna kynjahlutföllum á öðrum vígstöðum. 


mbl.is Kjartan fékk flest atkvæði í miðstjórnarkjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skin og skúrir

Fyrst sería #4 af 24 var ekki til á vídeóleigunni varð Little Miss Sunshine fyrir valinu. Scary movie, svo það sé orðað mildilega. Augljóslega er ég ekki fylgjandi fullorðins konusýningum en ég myndi samt ekki vilja banna þær. Ég held samt að ég væri alveg fylgjandi banni á fegurðarsýningum barna. Ég hef aldrei skoðað þetta fyrirbæri, vissi bara að litlu stelpurnar eru "grossly overdone" með meik-upi, hárgreiðslu og pífukjólum. Ef eitthvað er að marka myndina er þetta enn verra en ég bjóst við. Fölsk augnahár, brúnkumeðferð, hártoppar og sundfataatriði með pínkulitlum stelpum.

En þetta er ágætismynd. Ádeilan sett upp sem gamanmynd með nóg af drama... Uppáhaldssetningin mín úr myndinni er "Í skottinu á bílnum okkar" 

Auglýst eftir 24

Vill svo vel til að einhver sem ég þekki eigi fjórðu seríuna af 24 og langar ógeðslega mikið til að lána mér hana? Smile

Alltaf bjartsýn! Tounge


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband