Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Ert þú með rifu?

Mæli með stórfínum pistli Karenar aftan á Fréttablaðinu í dag. Þar fjallar hún um hvernig fólk á enn þann dag í dag erfitt með að kalla kynfæri kvenna píku... en að sama fólk virðist ekki eiga í neinum erfiðleikum með orðið typpi yfir kynfæri karla. Hún bendir á nýútkomna bók þar sem talað er um typpi og rifu...!! ShockingShockingShocking

Annars man ég eftir í gamla daga þegar fólki var sagt að halda KJ með orðunum "lokaðu á þér (þver)rifunni". Það er einhvern veginn að öðlast nýju merkingu... Pinch


Noregur - gera á kaup á vændi refsiverð

Nú ætla Norsarar að gera kaup á vændi refsiverð! Frábært! Lítur út fyrir að Íslendingar ætli að gulltryggja að við verðum ekki í fararbroddi heldur eftirbátar... Eins gott að þetta verði tekið fyrir á næsta þingi, eftir allt saman þá sýndi skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði að 82,5% kvenna og 57% karla eru hlynnt því að kaupin séu refsiverð. Björn Bjarnason er því algjörlega úr takt við vilja meirihluta þjóðarinnar - enda var hann of hræddur til að hleypa vændisákvæðinu í atkvæðagreiðslu á þingi... 

Drekinn sjálfur

Eins gott að rektornum í þessum skóla var ekki boðið í afmælið hennar Silju Báru... límband, sígaretta, gaffall og já, meira að segja penni voru notuð sem morðvopn þar. Reiðhjólahjálmur reyndist hins vegar ekki koma að neinu gagni...

Aðgát skal höfð... en þetta er too much fyrir mína parta. Umræðan um þetta er og verður alltaf óþægileg, sérstaklega svona fljótt eftir nýliðna atburði en einn penni til eða frá mun ekki skipta höfuðmáli. Ég segi þetta auðvitað með þeim fyrirvara að ég var ekki á staðnum og eina sem ég veit um málið er að maðurinn var rekinn fyrir að veifa tússpenna. Kannski er til önnur hlið á málinu og kannski er hann líka ömurlegur kennari sem skólinn gat varla beðið eftir að losna við. Kannski. Kannski ekki. 

ps. Silja til hamingju með afmælið... svo þú fáir nú netkveðju frá mér líka!


mbl.is Bandarískur háskólakennari rekinn eftir að hann þóttist skjóta á nemendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðgöngumæður

Mér skilst á fréttum RUV að auglýst hafi verið eftir staðgöngumóður í Mogganum í dag. Ég veit nú ekki alveg hversu hrifin ég er af þessu koncepti... ég er allavega hrifnari af ættleiðingum, enda ótalmargar siðferðisspurningar sem vakna. T.d. við hvaða aðstæður búa þær konur sem taka að sér að vera staðgöngumæður? Einnig er ekki fyrirséð hvaða tengsl staðgöngumóðirin myndar við barnið á meðgöngu og ekki finnst mér ólíklegt að hún þurfi að glíma við mjög erfiða tíma í kjölfar fæðingar og að gefa barnið frá sér.... Erlendis hafa allavega komið upp nokkur mál þar sem staðgöngumæðrunum hefur snúist hugur um að láta barnið frá sér og allt endað í málaferlum. Hef reyndar ekki hugmynd um hvernig þau málaferli hafa endað. 

Ég get skilið að fólk hafi þessa ógurlegu löngun til að eignast barn með eigin genum upp að vissu marki... en ég get samt ekki gúdderað að allar leiðir eigi endilega að standa fólki opnar...no matter what. Þetta býður óneitanlega upp á að hinir efnameiri nái að nota hinar efnaminni konur... Annars ímynda ég mér að kynjafræðin hljóti að hafa gert einhverjar rannsóknir á þessu. Væri áhugavert að skoða þær!


6 femínistar myrtir í Vesturbænum!

Hafði smá samviskubit yfir að setja þessa fyrirsögn inn þar sem hjörtu einhverra gætu tekið aukslög að óþörfu... en fyrirsögnin var ákveðin í matarboði í gær, þar sem hin meintu morð voru framin. Silja Bára bauð okkur nokkrum í mat til sín í tilefni af því að hún á afmæli á morgun (munið endilega að skella á hana afmæliskveðjum). Af einhverjum ástæðum fannst Höllu ógó sniðugt að láta myrða okkur allar. Rósa Björk kom á óvart sem illræmdur fjöldamorðingi og áður en við vissum af lágu 5 okkar í valnum. Fífa kom þá til bjargar og náði Rósu Björk óvænt þegar Rósa átti síst von á... og stóð uppi sem sigurveigari þrátt fyrir að hafa framið bara eitt morð!!! Ég var drepin með sígarettu... rétt eftir að ég var búin að undirbúa snilldarlegt morð á gesgjafanum með gaffli... 

Anyways. Fyrir utan morðin var mikið spjallað, etið og drukkið. Eitt af því sem við ræddum var klæðnaður stjórnmálamanna, t.d. að það að karlkyns þingmenn séu í jakkafötum og með bindi þyki nauðsynlegur þáttur í að viðhalda virðingu alþingis. Já, svo sem alveg hægt að taka undir það að því betur klæddir sem þingmenn eru, af hvoru kyninu sem þeir eru, því auðveldara er að halda uppi ímynd virðingar. Hins vegar skýtur skökku við þegar fyrrum þingmaður og ráðherra fer í sjónvarpið og lýsir kvenkyns ráðherra sem "ljóskunni í menntamálaráðuneytinu". Ég veit ekki með ykkur en mér finnst orð og athafnir skipta enn meira máli en föt til að viðhalda ímynd virðingar alþingis. Einhvern veginn finnst mér það hvorki málefnalegt né vitsmunalegt að tala svona um sitjandi ráðherra, svo ekki sé minnst á karlrembuna sem felst í þessum orðum, en Jóni Baldvini virðist mikið í mun þessa dagana að rakka niður forystukonur í stjórnmálum... 


Skemmtilega færslan

Hæ hó og jibbí jei... það er komin ný tölva Smile svo nú eru jólin hjá mér! Lofar góðu enn sem komið er. Auðvitað lítið á henni sem stendur en hún er margfalt hraðvirkari en gamli jálkurinn... sem er orðinn ansi úr sér genginn. Eina sem ég hef lent í vandræðum með er að setja upp 2 e-mail accounts. Af einhverjum ástæðum gengur bara sá fyrri en forritið harðneitar að kannast neitt við seinni póstþjóninn... Vonandi skýrist sú ráðgáta á næstu dögum! 

En sem sagt - til hamingju ég með nýja leikfangið Smile

ps Og það var ekkert mál að venjast að fara úr pc yfir í mac. Aðlögun gengur allavega vel enn sem komið er!


Skondnar fyrirsagnir

"Ísfélagið kaupir Þórunni Sveinsdóttur"

Í hvaða tilgangi? Er þetta ekki mansal??? Shocking

Hefði kannski verið betra að láta VE 401 fylgja með í fyrirsögn? Wink


mbl.is Ísfélagið kaupir Þórunni Sveinsdóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru hinir sterku að vernda hina veikburða?

Eftirfarandi pistill birtist í Viðskiptablaðinu 8. mars 2006 

bushweb

Eru hinir sterku að vernda hina veikburða?

Fyrstu lögin sem heimiluðu fóstureyðingar á Íslandi voru samþykkt á alþingi árið 1935. Lögin tóku einhverjum breytingum næstu árin en þau heimiluðu fóstureyðingu ef líf móður væri í hættu, ef líkur væru á að barnið væri vanheilt eða ef um nauðgun væri að ræða. Skilyrði fyrir því síðastnefnda voru að konan hefði kært strax og sökudólgurinn hefði náðst og játað glæpinn. Núgildandi lög um fóstureyðingar eru frá árinu 1975. Þau voru samþykkt að undangenginni einni erfiðustu jafnréttisbaráttu á Íslandi. Þær konur sem í forsvari stóðu máttu þola ýmsar svívirðingar, allt upp í það að vera kallaðar barnamorðingjar. Að lokum náðist þó sátt á þingi um að heimila fóstureyðingar á fyrstu þrem mánuðum meðgöngu ef um félagslegar eða læknisfræðilegar ástæður væri að ræða eða ef konunni hefði verið nauðgað.

Fóstureyðingar bannaðar

Ástæðan fyrir því að ég rifja þetta hér upp eru lög sem voru undirituð í vikunni af Mike Rounds, ríkisstjóra Suður-Dakota fylkis í Bandaríkjunum. Lögin eru í andstöðu við hæstaréttardóminn Roe v. Wade, sem heimilaði fóstureyðingar í Bandaríkjunum fyrir 33 árum. Með nýju lögunum verða allar fóstureyðingar ólöglegar í Suður-Dakota nema þar sem lífi móður stafar bein hætta af þungun. Konum er ekki heimilt að láta eyða fóstri verði þær fyrir nauðgun eða ef um sifjaspell er að ræða. Það mun eflaust verða látið á þessi lög reyna fyrir hæstarétti Bandaríkjanna og þá reynir á að lögleiðingin frá 1973 haldi.

Kvenmannslausir í kulda og trekki

Lögin í Suður-Dakota eru ekki eina aðförin að rétti kvenna til að ráða yfir eigin líkama. Eitt fyrsta verk Bush Bandaríkjaforseta eftir að hann tók við embætti var að afnema alla opinbera fjármögnun til alþjóðlegra samtaka sem greiddu leið kvenna að fóstureyðingu. Árið 2003 takmarkaði hann enn frekar rétt kvenna til fóstureyðinga er hann undirritaði lög um bann við ákveðinni tegund fóstureyðinga (Partial Birth Abortion Ban). Fréttaljósmynd af þessum viðburði barst eins og eldur í sinu um heimsbyggðina en þar má sjá Bush forseta umkringdan níu brosandi karlmönnum að undirrita lögin. Engin kona er á myndinni.

Við undirritun laganna tók Bush forseti það fram að nauðsynlegt væri að hinir sterku vernduðu hina veikburða. Mike Rounds viðhafði svipuð orð þegar hann skrifaði undir lögin í Suður-Dakota og sagði að ófædd börn væru varnarlausust allra í þjóðfélaginu og það væri skylda að vernda þau. Það vekur hins vegar upp spurningar þegar hinir sterku eru augljóslega allir  karlmenn og konur eru þar hvergi nærri. Eru þessir karlmenn að vernda hin varnarlausu börn gegn hinum illu mæðrum? Afstaða Bush til fóstureyðinga er skýr. Hann er á móti fóstureyðingum nema þegar um nauðgun, sifjspell eða ógn við líf móður er að ræða. Hann var einnig á móti því að notkun “frönsku pillunar” (RU486) væri leyfð í Bandaríkjunum.

Jafnrétti eða bræðralag?

Bush hefur lýst því yfir að eitt af mikilvægustu embættisverkum forseta Bandaríkjana sé að útnefna hæstaréttardómara. Hann hefur haft tækifæri til að útnefna tvo í sinni forsetatíð og hefur hann í bæði skiptin útnefnt íhaldssama karlmenn sem eru á móti fóstureyðingum. Annar þeirra kom í staðinn fyrir fyrstu konuna sem tók sæti í Hæstarétti Bandaríkjanna en hún var ötul í að gæta hagsmuna kvenna. Í Hæstarétti Bandríkjanna sitja níu hæstaréttardómarar og því er ljóst að þessar tvær útnefningar Bush forseta munu hafa mikil áhrif og munu þær styrkja karlaveldið í sessi. Í fyrsta sinn í 33 ár er nú gerð aðför að Roe v. Wade en jarðvegurinn hefur verið undirbúinn með útnefningum manna með “réttar” skoðanir í Hæstarétt.

Kyn skiptir máli

Í dag er mikið talað um bakslag í jafnréttisbaráttunni og að framundan sé mikil varnarbarátta. Staðan í Bandaríkjunum sýnir okkur að þetta er raunin. Eftir harða baráttu kvenna fyrir réttinum til fóstureyðinga er smátt og smátt verið að reyna að afnema þann rétt. Það er ljóst að í Bandaríkjunum er í gangi herferð gegn rétti kvenna til að ráða yfir líkama sínum sjálfar. Aðförin sýnir glöggt hversu mikilvægt það er að bæði kyn sitji við stjórnvölin. Á meðan karlar eru í meirihluta þeirra sem með völdin fara eru konur í raun undir hæl karlmanna því þeir hafa möguleikann til þess að setja lög og reglur sem takmarka réttindi kvenna yfir sínum eigin líkama. Það er ekki þar með sagt að karlar notfæri sér þann möguleika en hann er engu að síður til staðar. Þegar við hugsum um hvort það sé mikilvægt að konur og karlar eigi jafnmarga fulltrúa í hinu þrískipta valdi lýðræðisþjóðfélagsins er ágætt að hafa mál eins og þessi í huga.



Finnland vs BNA

Þetta er dæmi um málaflokk sem er gjörsamlega, algjörlega, fáránlega út í hött að karlar geti setið einir að, eða í meirihluta, að ákveða! 

Annars eru Finnarnir langflottastir núna - 12 konur af 20 ráðherrum.... Við höfum ekki náð að hafa konur sem helming ráðherra, hvað þá meirihluta! 
mbl.is Hæstiréttur Bandaríkjanna staðfestir bann við ákveðnum aðferðum fóstureyðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjaldséðir hrafnar

Nei, sko fréttaumfjöllun um útlit karlkynsframbjóðanda! Já, þetta gerist þó það sé sé sjaldséðara en hjá konum... Að vísu vantar í fréttina alla umfjöllum um hvernig klippingin þótti til takast! 

Að mínu mati eru þetta svona "ekki fréttir" og ég vona að þetta rati í dálkinn Fólk. 


mbl.is Dýrt fyrir frambjóðandann að líta vel út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 332476

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband