Vilt þú afnema launamisrétti?

Hér er kjörið tækifæri til að gera eitthvað í málinu. Ég má til með að koma því að að karlar eru afar sjaldséðir á svona samkomum. Hér er fínt tækifæri til að bæta þar úr! Wink

***

Launamisrétti kynjanna – úr sögunni árið 2070 eða hvað?

Ellefu kvennasamtök efna til morgunverðarfundar með stjórnmálaflokkunum þriðjudaginn 17. apríl kl. 8.00-9.30 á Grand hótel Reykjavík. Til umræðu verður launamisrétti kynjanna og aðgerðir til að útrýma því. Erindi flytja Lilja Mósesdóttir hagfræðingur og Þórey Laufey Diðriksdóttir formaður Kennarafélags Reykjavíkur. Á eftir sitja fulltrúar stjórnmálaflokkanna fyrir svörum. Fundarstjóri Tatjana Latinovic.

Fyrir tæpum tveimur árum söfnuðust tugþúsundir kvenna saman í miðborg Reykjavíkur til að minnast þess að 30 ár voru liðin frá kvennafrídeginum 24. okt. 1975 og til að krefjast launajafnréttis kynjanna. Í kjölfar kvennaársins 1975 var gerð könnun á launamun kynjanna sem leiddi í ljós að konur í þéttbýli höfðu að meðaltali 45% af launum karla. Nú rúmum 30 árum síðar hafa konur að meðaltali um 62% af launum karla þrátt fyrir að hafa bætt við sig mikilli menntun og vinna sífellt lengri vinnudag. Með sama áframhaldi verður launabilinu útrýmt upp úr 2070. Þolinmæði okkar er á þrotum, við ætlum ekki að bíða svo lengi.

Meðallaun segja ekki alla söguna en þau spegla þá staðreynd að staða kvenna er önnur en staða karla. Íslenskur vinnumarkaður er mjög kynskiptur og lítur út fyrir að svo verði áfram ef marka má nýja könnun á framtíðarstarfsvali 15  ára unglinga. Sú staðreynd blasir við að störf sem konur vinna í mun ríkara mæli en karlar eru láglaunastörf. Stór hópur kvenna vinnur afar mikilvæg störf, t.d. við kennslu barna, en þau eru illa launuð þrátt fyrir mikla ábyrgð og kröfur um sífellt meiri menntun. Hluti kvenna vinnu hlutastörf til að geta sinnt börnum sínum. Hvers vegna bera þær meiri ábyrgð á umönnun barna en feðurnir? Svarið felst að miklu leyti í launamun kynjanna. Hluti kvenna er heimavinnandi, af hverju ekki pabbarnir? Svarið er það sama.

Rannsóknir hafa margsýnt fram á að hér á landi er verulegur launamunur milli kynjanna, konum í óhag, sem eingöngu verður skýrður með kynferði.
Samkvæmt könnun Capacent frá árinu 2006 var kynbundinn launamunur 15,7%.
Hver ríkisstjórnin á fætur annarri hefur heitið því að útrýma launamun kynjanna en hvar eru efndirnar? Það hvorki gengur né rekur. Við svo búið má ekki standa. Íslenskar kvennahreyfingar spyrja því stjórnmálaflokkana nú í aðdraganda alþingiskosninga til hvaða aðgerða þeir ætla að grípa til að útrýma launamisréttinu og stöðva þar með þau mannréttindabrot sem konur sæta á íslenskum vinnumarkaði.

Bríet - félag ungra femínista
Femínistafélag Íslands
Kvenfélagasamband Íslands
Kvennaathvarfið
Kvennaráðgjöfin
Kvenréttindafélag Íslands
Rannsóknastofa í kvenna og kynjafræðum
Samtök kvenna af erlendum uppruna
Stígamót
V-dagssamtökin
UNIFEM á Íslandi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hans Jörgen Hansen

Þyrfti líka að setja þessa ábyrgð á þá stjórnendur sem ákveða laun starfsmanna. Þeir hljóta að þurfa axla ábyrgð í því að mismuna ekki fólki innan sinna raða.  eða er það ekki?? 

Hans Jörgen Hansen, 16.4.2007 kl. 11:03

2 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Jú, lagalega skyldan fyrir sömu laun fyrir sambærileg störf er á herðum atvinnurekenda. En svo þarf meira til. Það þarf líka að jafna launin í hefðbundnum karla- og kvennastörfum, konur þurfa að fá betri (lesist jafnan) aðgang að hærra launuðum störfum og ólaunaða vinnan við heimilisstörf og uppeldi þarf að skiptast jafnar á milli kynja. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.4.2007 kl. 11:19

3 identicon

Get kvennasamtökin nefnt eitt fyrirtæki sem greiðir ekki jöfn laun fyrir sömu vinnu?

Bara eitt.

Ef ekki þá hljótum við að álykta að verið sé að berjast við vindmyllur.

Kalli (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 11:27

4 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Öll sveitarfélögin og ríkið. Dugar það þér? Síðan getur þú skoðað launakannanir frá stéttarfélögum sem allar sýna fram á launamun fyrir sömu störf, ca 15%. Könnun frá í fyrra, framkvæmd af Capacent leiddi í ljós 15,7% launamun. Launamunurinn er því til staðar. Launaleynd og það að launaupplýsingar eru ekki hluti af opinberum gögnum gera það hins vegar að verkum að launatölur einstakra fyrirtækja eru ekki aðgengilegar. Þessi rökhugsun gengur því ekki upp hjá þér... 

Könnun frá 2003 leiddi í ljós að flestir launþegar voru meðvitaðir um launamun en flestir voru líka á því að launamismunun viðgengist ekki á þeirra vinnustað... Flestir launþegar eru því í "góðri trú" einfaldlega af því að þeir treysta greinilega atvinnurekandandum til að mismuna ekki. Launakannanirnar sjálfar leiða hins vegar annað í ljós. Mikilvægt tæki í baráttunni gegn launamisrétti er að gera launatölur aðgengilegar - aflétta launaleyndinni svo fólk geti borið laun sín saman. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.4.2007 kl. 11:35

5 identicon

Öll sveitafélögin og ríkið stunda semsagt það að greiða konum lægri laun fyrir sömu vinnu?

Tugir þúsunda íslendinga vinna hjá ríki og sveitafélögum.  Það ætti þá að vera einfalt mál að nefna eitt dæmi um launamisrétti þar.

Kalli (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 11:42

6 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Kalli minn ertu að lesa það sem ég er að skrifa? Ég er búin að vísa þér á launakannanir - sem er mun marktækara heldur en ef ég myndi segja "já t.d. hún Sigga í bókhaldinu sem vinnur hjá X fær lægri laun en hann Jón". Þú getur líka skoðað niðurstöður frá Kærunefnd jafnréttismála ef þú vilt skoða einstök dæmi. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.4.2007 kl. 11:50

7 identicon

Ef þú álitur að Sölumaður A og Sölumaður B eigi að fá sömu laun óháð árangri, getu og vinnuframlagi þá ríkir svo sannarlega gífurlegt launamisrétti á Íslandi. 

Það sem launakannanir segja er það að konur hafa að meðaltali lægri laun en karlar.  Ályktunin sem feminístar og fleiri draga af því er að munurinn sé vegna þess að konur séu misrétti beittar.

Sú ályktun er röng

Ástæða þess að meðallaun kvenna eru lægri er að stórum hluta sama ástæða og veldur því að konur stofna hlutfallslega fá fyrirtæki á Íslandi.

Kalli (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 13:01

8 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Dæsus Kalli, þér er ekki viðbjargandi. Það eru til fjölmargar kannanir sem sýna fram á launamisrétti kynjanna, hefur að minnstum hluta með hversu mörg fyrirtæki konur stofna. Ef þú heldur að launamunurinn stafi af því að karlar eru svona miklu gáfaðari, duglegri og hæfari en konur þá ertu argasta karlremba. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.4.2007 kl. 13:34

9 identicon

Heiðrún Lind gerði nú verulegar athugasemdir við aðferðafræði þessara kannanna með góðum rökum. Ég held að það sé engin kynbundin launamunur fyrir sömu störf. Hins vegar held ég að miklu færri konur sem fái "góðu" störfin, það er að segja þau sem eru betur borguð og er það verulegt umhugsunarefni. Á hvern það skrifast er svo önnur saga, en ábyrgð valdhafa á því hlýtur að vera einhver. Fyrsta skrefið ætti að vera hækka laun "kvennastéttana" eins og R-listinn gerði, leikskólakennara, hjúkrunarfræðinga, kennara osfrv. Þó ekki nema bara til að losna við þessa eilífu umræðu.

Andri Gunnarsson (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 14:39

10 Smámynd: Hans Jörgen Hansen

Þó má gera betur ef duga skal, ef hjúkrunarfræðingar eru teknir sem dæmi þá er það 4 ára háskólanám og þar er engan vegin verið að borga eftir getu né ábyrgð.  Og í sjálfu sér ótrúlegt að þessar starfsstéttir séu  láglaunastéttir miðað við það traust og ábyrgð sem við setjum á þetta fólk.    

Hans Jörgen Hansen, 16.4.2007 kl. 14:51

11 identicon

Ég verð að fá að koma með svolítið gamalt dæmi um mun á launagreiðslu til einstaklinga í samskonar starfi hjá sama fyrirtæki.

Þetta var árið 1985 og ég er með það á hreinu að svona viðgengst enn þann dag í dag.

Ég vann á skrifstofu og fór þaðan að vinna í ónefndum banka hér í borg. Á sama tíma var ráðin stelpa sem var ný útskrifuð með stúdentspróf og ein önnur sem hafði verið heimavinnandi í einhver ár. Við fórum allar í sama launaflokk, ég með reynslu af skrifstofuvinnu, önnur ný komin úr skóla með sitt próf og svo fékk sú þriðja það metið að hafa verið að reka heimili í nokkur ár. Þetta fannst okkur bara sanngjarnt að hver og ein fengi sitt metið á þennan hátt og höfðum ekkert út á það að setja að vera metnar sem jafn verðmætir starfskraftar og lenda í sama launaflokki.

Nema hvað.... Það voru tveir karlmenn ráðnir á sama tíma og við. Þeir voru í samskonar störfum og við "stelpurnar". Annar hafði útskrifast með stúdentspróf á sama tíma og sú okkar sem það gerði. Hinn maðurinn var að koma úr einhverju verslunarstarfi og ekki með neina reynslu að öðru leyti sem var meiri en okkar hinna. Allt gott um það að segja nema hvað að einhvern veginn komst það upp að þeir, kallarnir, voru ráðnir á hærri launum en við konurnar. Það var á engan hátt hægt að réttlæta það. Þeir voru ekki með meiri reynslu eða á neinn hátt hæfari starfskraftar en við konurnar. Vegna gríðarlegrar ákveðni og eftirfylgni einnar úr "hópi" okkar þriggja, fékkst þetta leiðrétt. Við vorum hækkaðar upp í sama launaflokk og þeir.

Hér er komið dæmi um það sem verið er að tala um þegar krafist er jafnra launa fyrir sömu störf. Það er ekki flóknara en þetta.

Þórhildur (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 14:57

12 identicon

Þetta átti auðvitað að vera sömu laun fyrir sömu eða samskonar störf. Svona er það þegar maður les ekki yfir það sem maður er að skrifa.

Þórhildur (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 16:20

13 identicon

Nú er ég eftir nokkra ára þras við Katrínu Önnu búinn að átta mig á að það er kynbundinn launamunur. Þess vegna finnst mér alltaf gaman að sjá menn nota gömlu rökin sem ég var vanur að nota hérna.

En af hverju eru alltaf svona fundir haldnir á tímum sem atvinnurekendur eru flestir í vinnunni? Mín reynsla af atvinnurekendum er að þeir finnist þeir með öllu ómissandi fyrir vinnustaðinn og taka því sjaldnast "frí" nema í ýtrustu neyð.

manuel (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 17:45

14 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Svona fundur er auðvitað ekki frí heldur partur af vinnunni. Mín reynsla er sú að atvinnurekendur mæta frekar ef svona er á vinnutíma... þegar þeir eru að vinna. Það er miklu frekar að ferðir á leikskóla trufli þennan fundartíma... Fundir hjá ýmsum fagfélögum þar sem menn fjölmenna eru haldnir á þessum tíma þannig að í raun ætti fátt að vera í veginum ef áhugi er fyrir hendi!

En það er búið að vera virkilega gaman að þrasa við þig þessi ár  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.4.2007 kl. 17:57

15 identicon

  • "Dæsus Kalli, þér er ekki viðbjargandi. Það eru til fjölmargar kannanir sem sýna fram á launamisrétti kynjanna."

Nei.  Þau sýna fram á Launamun á milli kynjanna.

Þú aftur á móti tekur það þér það bessaleyfi að álykta að fyrst það er Launamunur á kynjunum þá hlýtur að vera Launamisrétti!

Vissir þú t.d. að það er Launamunur á milli landshluta á Íslandi?  Er það Launamisrétti líka?

Kalli (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 18:40

16 identicon

Hvað hefurðu um þetta að segja ungfrú góð  http://www.hi.is/~helgito/gildrur.pdf  og hvað er málið með að tala alltaf um launamun án tillits til vinnustunda. Er það þá launamisrétti að ég skuli hafa helmingi hærri mánaðarlaun heldur en kona, þegar ég vinn að meðaltali 350 tíma í mánuði en hún 170? Það er málstaðnum klárlega ekki til framdráttar að hagræða staðreyndunum. En þess fyrir utan er fáránlegt ef að konur eru að fá lægri laun heldur en karlar fyrir sömu störf þegar vinnustundir, starfsaldur, ábyrgð og allt það hefur verið tekið með í reikninginn enda leyfi ég mér að efast stórlega um að svo sé

Baldur Þór (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 20:21

17 Smámynd: Björn Heiðdal

Frekt fólk fær hærri laun.  Sem þýðir þá að karlar eru frekari en konur.  Svokallaðir frekjuhundar.  Ef kona fengi hærri laun en karl væri hún þá frekjudolla.  En dollur eru einmitt góðar til að geyma peninga í.

Björn Heiðdal, 16.4.2007 kl. 20:46

18 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Baldur Þór: Helgi gerir þau grundvallarmistök að gera ráð fyrir að við störfum á frjálsum markaði. Samt segir hann: "Á frjálsum vinnumarkaði
með aðgengilegum upplýsingum hljóta vinnuveitendur að hafa hámarkshagnað að leiðarljósi
og beina vinnuaflseftirspurn sinni að hópi A sem er reiðubúinn að vinna fyrir lægri laun en
hópur B." 

Launaleynd er augljóslega andstæð forsendum frjáls markaðar og mörg hans rök falla um sjálf sig.

Annað - hann heldur því fram að ekki sé leiðrétt fyrir ýmsum skýribreytum í útreikningi á launamun. Það er einfaldlega rangt hjá honum. Mér finnst ágætt að nota þrenns konar viðmið í umræðu um launamun:

1. hreinar atvinnutekjur - ekki kannanir - heldur rauntölur m.v. skattframtöl.

2. Launamunur þegar búið er að taka tillit til mismunandi atvinnustunda.

3. Launamunur fyrir sömu störf.

Allar þessar tölur útskýra mismunandi hluti.

Ef að þú ert að vinna 350 launaða tíma á mánuði en konan þín 170 launaða tíma og 180 tíma ólaunaða við að þvo þvottinn þinn, elda matinn þinn og ala upp börnin þín þá er það kynjamisrétti ;) Sérstaklega þegar annað kynið er alltaf alið upp til að vera í fyrra hlutverkinu og hitt kynið til að vera í því seinna... þannig að mynstrið verður kynbundið en ekki einstaklingsbundið.

Björn: frekja er ekki sanngjarn grundvöllur til að ákveða laun... 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.4.2007 kl. 21:05

19 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Mætið annars bara á fundinn í fyrramálið og fáið nánari upplýsingar!

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.4.2007 kl. 21:06

20 identicon

Ég má til með að svara þessu.

 Sú hagfræði sem feministum finnst gaman að velta sér uppúr hefur verið kölluð á íslensku "villandi hagfræði", þar sem ekki eru allar breytur teknar inn í jöfnuna. Til dæmis nefnir þú að konur séu með 62% af launum karla. 

Það er einfaldlega ekki rétt að segja svona, þar sem þessar tölur eru unnar beint frá skattskýrslum og ekkert tillit er tekið til vinnuframlags eða menntunar. Hins vegar, þegar tillit er tekið til þessara aðstæðna kemur í ljós að (þótt sum fyrirtæki séu með e-a launaskekkju) konur eru bara með ósköp sambærileg laun á við karla.

 Svo er það annað, er það ekki miðaldahugsun að gera ráð fyrir því að karlmaðurinn geri ekki neitt á heimilinu?  

Jósep Birgir Þórhallsson (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 11:52

21 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Jósep - þarna ferðu þú ekki með rétt mál. Femínistar hafa aldrei haldið því fram að þegar verið sé að tala um hreinar atvinnutekjur þá sé verið að tala um sömu laun fyrir sömu störf, heldur einmitt bent á að þá þurfi að tala um málið í víðara samhengi. Þú getur skoðað athugasemd hérna fyrir ofan þar sem ég setti inn þær 3 tölur sem oft er talað um. Eins sérðu í tilkynningunni um fundinn í morgun að þar er talað um tvær af þessum þrem breytum - annars vegar um mun á atvinnutekjum og hins vegar um tölur um launamun fyrir sömu störf - þar sem tekið er tillit til vinnutíma, menntunar, reynslu og fleiri þátta. 

Ég á bágt með að trúa því að fólk sem er að velta fyrir sér hagfræði sé svo einstrengislegt að það sé ekki fært um að tala um hlutina út frá mörgum sjónarhornum og þar sem verið er að skoða mismunandi áhrifaþætti! 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 17.4.2007 kl. 12:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 332539

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband