Um höfðatölujafnrétti

Á vefritinu eggin.is er að finna áhugaverða grein (í ísl. þýðingu) eftir Zoe Williams. Greinin gagnrýnir áherslu á höfðatölujafnrétti í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna. Í greininni eru margir góðir punktar - þó mér finnist höfundur full sofandi fyrir þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um að höfðatölujafnrétti er ekki forsenda fyrir jafnrétti heldur þurfi heilan helling annað til. Hér eru nokkrar hugleiðingar varðandi það:

Þetta er áhugaverð grein – fullt af góðum punktum. Finnst hún reyndar full hörð á því að femínistar einblíni eingöngu á höfðatölujafnréttið. Mér finnst það ekki eiga við hér í það minnsta... Hefur m.a. verið rætt á umræðupóstlista FÍ nokkrum sinnum. Þorgerður Einars hefur líka verið ötul í fræðilegri umræðu um akkúrat þetta. Annars er mín forgangsröðun svona þegar kemur að ýmsu, sérstaklega röðun á prófkjörslista og þess háttar:

Kvenkyns femínisti
Karlkyns femínisti
Kona sem ekki er femínisti
Karl sem ekki er femínisti

Hins vegar er ég alveg sammála því að höfðatalan ein og sér þarf ekki að þýða mikið fyrir jafnrétti. Væri t.d. gaman að rannsaka hvernig konur það eru sem komast í gegnum glerþakið – eru það konur sem eru líklegastar til að rugga ekki karlakerfinu, konur með karllæga eiginleika eða konur sem komast áfram á eigin forsendum? Þetta síðasttalda er ekki einfalt – enda er ég mótfallin því að eigna karlkyninu karllæga eiginleika á máta sem segir að sumir karllægir eiginleikar séu ekki á forsendum sumra kvenna (og öfugt).

Ef að höfðatala tryggði okkur jafnrétti þá væri jafnrétti á Íslandi – eru kynin hér í nokkurn veginn jöfnum hlutföllum. Það væri einnig jafnrétti í heiminum því kynjahlutföllin eru líka ca í jafnvægi í heildina litið. Eins væri jafnrétti í gagnkynhneigðum samböndum því þar er höfðatalan líka í jafnvægi. Hvort sem við lítum á smæstu eða stærstu eininguna þá er höfðatalan í lagi – en samt er ekki jafnrétti (eða kynjaréttlæti, sem er orð sem ég verð alltaf hrifnari og hrifnari af).

Ég vil reyndar halda því fram að innan femínismans sé besta vitundin um að kynið eitt skiptir ekki öllu máli. Sjaldan, ef nokkurn tímann, grípa femínistar til réttlætinga eins og “en það var kona sem gerði þetta og þar af leiðandi hlýtur þetta að vera bæði jafnréttissinnað og í lagi”. Þvert á móti útskýra femínistar valdamisræmið í gegnum kynjakerfið þar sem bæði konur og karlar taka þátt í að viðhalda kerfinu. Femínisminn gerir því kynin samábyrg fyrir breytingum á kerfinu á meðan hið fyrrnefnda finnst mér vera smitað af eðlishyggju og þeirri hugsun að karlar séu vondir en konur góðar – eða hvað annað þýðir það ef konur geta ekki gert neitt rangt? Ef konur sem gerendur eru notaðar sem réttlæting á hlutum sem eru í anda kynjamisréttis þá er þar með ýjað að því að aðeins karlar geti beitt kynjamisrétti – sem er alrangt.

En, að þessum orðum sögðum, þá finnst mér líka að umræðan sé stundum notuð til að varpa allri ábyrgð yfir á konur en fría karla sömu ábyrgð. Konur þurfa bara... Konur gætu breytt þessu ef þær bara... Það er leyfilegt að segja upphátt allt sem konur geta gert til að breyta stöðunni en ef minnst er á hvað karlar geta gert er það umsvifalaust stimplað sem karlahatur. Þessi sameiginlega ábyrgð vill því þvælast fyrir mörgum.

Sem sagt – mjög áhugavert umræðuefni með alls kyns flækjum og krúsídúllum :)


Tilnefning til jafnréttisviðurkenningar

Jafnréttisráð er nú að auglýsa eftir tilnefningum til Jafnréttisviðurkenningar 2007. Linda Blöndal hjá Síðdegisútvarpi Rásar 2 bjallaði í mig áðan til að tékka á hverja ég myndi tilnefna. Ég var nú reyndar aðeins búin að spá í að senda inn tilnefningar en þetta var kærkomið tækifæri til að tékka á fyrri handhöfum og rifja upp það sem vel hefur verið gert. Mér brá smá þegar ég sá að það hefur ekki enn verið veitt viðurkenning fyrir baráttuna gegn kynferðisofbeldi. Þar eru Stígamót fremst í flokki og þau eru númer 1 á listanum mínum. Nú er bara að krossa fingur...

En þó Stígamót séu efst á blaði þá eru fleiri sem eiga viðurkenninguna skilið að mínu mati. Rúna á Stígamótum væri t.d. vel að viðurkenningunni komin sem einstaklingur. Sömuleiðis Dr. Þorgerður Einarsdóttir, dósent í kynjafræði hjá HÍ. RIKK mætti líka alveg fá viðurkenningu - þó það sé kannski ólíklegt akkúrat í augnablikinu í ljósi þess að HÍ fékk viðurkenninguna fyrir 2 árum.

Fleiri samtök sem vinna að jafnrétti eru líka ofarlega í huga. Femínistafélagið, að sjálfsögðu! Smile, Kvennaathvarfið, Kvennahreyfingin eins og hún leggur sig fyrir magnaða samstöðu... og margir fleiri. Hins vegar duttu mér engin fyrirtæki í hug!

En... það er Jafnréttisstofa sem tekur á móti formlegum tilnefningum - netfang jafnretti@jafnretti.is. Sjá nánar á heimasíðu Jafnréttisstofu.

ps. og fyrst talið berst að Jafnréttisstofu - aldeilis frábært viðtal við Kristínu Ástgeirsdóttur í Fréttablaðinu á sunnudaginn.  

 


Fallegt

Ég verð seint sökuð um að vera mikill Eurovision aðdáandi. Það gæti þó breyst með tilkomu danskeppninnar. Horfði á keppnina í endursýningu á sunnudaginn og var yfirmáta ánægð með vinningshafana. Lang flottasta atriðið. Yndislega fallegt.

 


Ísland best í heimi

Hér er pistillinn minn sem birtist í Viðskiptablaðinu síðastliðinn miðvikudag. Birti hann hér til að bæta mér aðeins upp allt sem ég missti af að blogga um í fríinu! 

Ísland best í heimi?
Þjóðarstolt okkar Íslendinga getum við að hluta til útskýrt með því að við teljum okkur komin nokkuð langt í átt að siðmenntuðum heimi í samanburði við aðrar þjóðir. Viljum við þó ekki að innistæða sé fyrir þjóðarstoltinu? Að það sé byggt á bjargi en ekki sandi? Nokkra atburði síðustu daga má líta á sem beina atlögu að þjóðarstoltinu.

Í hverju felst frelsið?
Öll viljum við vera frjáls og teljum það til grundvallarmannréttinda. Við verjum hins vegar ekki nægum tíma í að ræða hvað frelsi er. Á stundum virðist umræðan snúast upp í að lög og reglur séu hömlur á frelsi. Sumir vilja líka meina að frelsi sé að geta gert allt sem ekki er ólöglegt og hafna þannig gagnrýnni hugsun og ábyrgð einstaklingsins. Með öðrum orðum að frelsinu fylgi engin ábyrgð. 

Sjálfsbjargarviðleitni?
Kannski vegna þess að við viljum trúa á hið góða eða einfaldlega vegna þess að við erum of löt þá dettur manneskjan stundum í að vilja réttlæta ranglæti heimsins á þeirri forsendu að kannski sé það ekki svo slæmt, eða hreinlega af hinu góða. Það gengur jafnvel svo langt að sumu vel meinandi fólki dettur í hug að réttlæta valdbeitingu við þvagsýnatöku. Tilgangurinn helgar meðalið er sagt. Hins vegar gleymist að ein af meginástæðunum fyrir baráttunni gegn kynferðisofbeldi er að það hefur langvarandi áhrif á þann sem fyrir verður. Vissulega gætum við leyst fjölmörg mál með pyntingum. Hversu margir grunaðir kynferðisbrotamenn myndu halda fast í sakleysi sitt við yfirheyrslur ef þeir væru pyndaðir til frásagnar? Mannréttindasamningar sem Ísland er aðili að kveða á um að tilgangurinn helgar ekki meðalið, sama hversu alvarlegur glæpurinn er. Stjórnarskráin okkar kveður á um að hér megi aldrei innleiða dauðarefsingu og ekki virðist vanþörf á að bæta við að hér megi heldur ekki innleiða kynferðisofbeldi sem refsingu fyrir ölvunarakstur.

Stærstu mistökin iðulega gerð þegar vel gengur
Annar atburður sem kemur við kauninn á þjóðarstoltinu eru erlendu verkamennirnir sem lentu í rútuslysi. Þeir eiga á hættu að fá ekki sjúkratryggingar og bætur vegna þess að atvinnurekendur þeirra skráðu þá ekki með löglegum hætti. Hér koma hin neikvæðu áhrif hnattvæðingarinnar til sögunnar. Við Íslendingar, sem töldum okkur vera búna að berjast fyrir og ná mannsæmandi árangri í verkalýðsbaráttunni, beitum nú okkar víðfræga „þetta reddast einhvern veginn“ hugsunarhætti á aðstæður. Aðstæður sem ætti að vera löngu búið að grípa inn í. Oft er sagt að stærstu mistökin séu iðulega gerð þegar vel gengur og það á svo sannarlega við hér. Smátt og smátt erum við að skipta bjarginu út fyrir sand.

Nógu gáfuð…
Áunninn réttindi og hugarfar eru ekki endilega komin til að vera. Leiðin fram á við er búin alls kyns hindrunum og stundum villumst við, förum í hringi eða hröpum. Áttaviti, GPS staðsetningartæki og leiðsögukort geta komið að ómetanlegu gagni, rétt eins og lög, reglur og almenn skynsemi. Við þurfum að fara eftir þeim leikreglum sem við erum búin að koma okkur saman um og halda áfram að semja um hvernig er sanngjarnast að halda áfram. Niðurstaðan verður sú að mannkynið er nógu gáfað til að geta skapað paradís á jörð en ekki nógu viturt til að hrinda því í framkvæmd.
 


Fréttastofa í sjálfsmorðshugleiðingum

Orðið hæfni er mikið notað í jafnréttisumræðunnu - og ekki að ástæðulausu. Í jafnréttissinnuðum heimi væri hæfnin látin ráða. Í anda kynjamisréttis fá karlar stöðuhækkun fyrir að vera með munninn fyrir neðan nefið. Konur eru hins vegar reknar fyrir sama eiginleika og þannig heldur heimurinn áfram að vera karllægur þar sem kynin fá ekki sömu tækifæri.  Miðað við þá ástæðu sem gefin er fyrir uppsögninni í fréttinni er Þóru Kristínu refsað fyrir að vera ekki nógu undirgefin og segja já og amen við því sem hennar yfirmenn gera.  

Er fréttastofa Stöðvar 2 í sjálfsmorðshugleiðingum? Bara spyr...


mbl.is Þóru Kristínu sagt upp á Stöð 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fríið búið

Þá er sumarfríið búið og hversdagsleikinn tekinn við. Náðum að afreka slatta í grindverkasmíði í fríinu og getum ekki annað en verið ánægð með það. Hins vegar náðum við ekki vikufríi út úr bænum og er kaldavatnsleysi alfarið kennt þar um! Andinn er endurnærður, enda náði ég að lesa 4 bækur síðustu 2 vikurnar. Mæli með þeim öllum en þó sérstaklega bókinni Fjarri hlýju hjónasængur eftir Ingu Huld Hákonardóttir. Sú bók er einfaldlega snilld - og öðruvísi Íslandssaga, eins og segir á bókarkápunni. Bókin fjallar um viðhorf til barneigna í Íslandssögunni og örlög þeirra kvenna (og jú, karlanna líka) sem voru svo "óheppnar" að eignast barn/börn fjarri hlýju hjónasængur. 

Eftir þá lesningu er tilvalið að lesa hina frábæru bók Kristínar Marju Baldursdóttir, Karítas án titils. Síðan er það A short history of tractors in Ukrainian og tilvalið að enda á bókinni Middlesex - sem fjallar um Cal/Callie - sem var stelpa fyrstu 14 ár ævinnar en óx upp í að verða karlmaður - en samt ekki alveg. Bókin hlaut Pulitzer Prize sem besta skáldsagan 2003 og er afskaplega vel skrifuð og grípandi. Ég átti þó í nokkrum vandræðum með ástæðuna sem var gefin fyrir því að höfuðpersónan var "middlesex".

ps. verð að segja að mér finnst það jaðra við dónaskap að efna til keppni um besta bloggarann þegar ég er í fríi... Whistling


Sumarfrí

Jæja. Þá er kominn tími til að fara í sumarfrí. Á reyndar eftir að klára eitt verkefni svo fríið smellur ekki á strax - en svo ég geti klárað það sem fyrst byrjar bloggfríið mitt fyrr. Sem sagt núna. Hugsa að ég verði í ca mánaðar pásu frá blogginu.

Hafið það sem allra best það sem eftir er af sumri. Hlakka til að "hitta" ykkur aftur hér á blogginu seinna.


Mesta karlremban verðlaunuð

Stundum er sagt að ein af ástæðunum fyrir því hversu hægt gengur í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna sé sú að kynjamisrétti sé svo samþykkt í samfélaginu og hefðirnar svo rótgrónar. Ein sönnun þess birtist í Morgunvakt Rásar 1 í morgun. Ólöf Rún tók þar viðtal við karlmann sem var afskaplega stoltur af því að hafa unnið bikar - sem mesta karlremban. Mörgum finnst þetta eflaust léttvægt. Bara gott grín... Hins vegar myndu hinum sömu ekki finnast það léttvægt ef bikarinn snerist um annað misrétti. Segjum sem svo að hann hefði unnið bikar sem mesti rasistinn, mesti hommahatarinn eða sá sem níðist hvað mest á öryrkjum og fötluðum. Hvað með þann sem brýtur mest á börnum? Neibb, flestum þætti þetta langt yfir strikið og alls ekki við hæfi. Enda dytti fáum í hug að verðlauna fólk fyrir þess konar mismunun og fordóma. Hins vegar dettur fólki í hug að verðlauna þann sem hatar konur mest, sýnir mestu kvenfyrirlitninguna og lítur á konur sem annars flokks. Það er samþykkt í okkar samfélagi. Það er ein af ástæðunum fyrir því að jafnrétti er ekki handan við hornið heldur eigum við óravegu í land - og stundum er eins og við höfum ekki einu sinni árar til að róa með. 

Beint á eftir viðtalinu við stoltu karlrembuna var kaffispjallið frá því fyrr um morguninn endurtekið. Þar var sagt frá alheimsmóti skáta á Englandi sem miðar að því að kenna börnum að þetta sé einn heimur og auka þeirra víðsýni og umburðarlyndi þannig að allir geti búið í sátt og samlyndi. Mikið væri nú gott að þetta væri gert fyrir kynin líka. Samfélagið ætlast nefnilega til þess að kynin búi í sátt og samlyndi - eitt af hvoru kyni saman. Eignist saman börn. Ali þau upp saman. Í sátt og samlyndi. Sem jafningar er sagt - en samt þykir sniðugt að vera karlremba.  


Mæli með...

Mæli með frábærri grein Silju Bára í Fréttablaðinu í dag. Þar fjallar hún um mansal. Kann að koma mörgum á óvart að skv Sameinuðu þjóðunum er mansal ekki lítið á Íslandi og ekki heldur ekki neitt - heldur miðlungs. Væri ágætt að hafa það bak við eyrað... sérstaklega þeir sem telja að frelsisskerðing í 8 klst eftir hefðbundin vinnudag sé hluti af "eðlilegum" ráðningarsamningi. 

Hvað er hið sanna í málinu?

Screenshot_10Nýlega var sagt frá því í fréttum að bíómyndin um Simpson fjölskylduna verður heimsfrumsýnd í Springfield, Vermont. Í Fréttablaðinu í dag er auglýsing þar sem fullyrt er að myndin verði heimsfrumsýnd með íslensku og ensku tali þann 27. júlí. Hvað er í gangi? Er verið að meina að myndin verði heimsfrumsýnd með íslensku tali þennan dag? Shocking

Spurning hvort verið er að ganga aðeins og langt í markaðssetningu í þessu tilviki? Heimsfrumsýning verður ekki nema einu sinni og spurning hvort Springfield eða Reykjavík er staðurinn?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.8.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 332919

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband