Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Sorglegt

Jæja, þá er yfir hundrað manna hópur væntanlegur til landsins til að gera klámmyndir, skemmta sér og networka. Verða hér 8. mars - á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Sorglegt. Skv 210. gr. hegningarlaga er klám bannað á Íslandi, þar með talið að búa til klám. Á samt ekki von á að yfirvöld geri neitt í málinu - þetta er ekki þeirra deild og þau virðast velja hvaða lögum þeim finnst að fólk þurfi að fara eftir.

Ég hef mestar áhyggjur af hvernig umfjöllun fjölmiðla verður - sérstaklega fjölmiðla sem vilja höfða til unga fólksins. Sumir þessara fjölmiðla virðast hafa það að markmiði að klámvæða ungu kynslóðina svo kyrfilega að þau bíði þess aldrei bætur... 


Ekki allt að fara til helvítis

Félag kvenna í atvinnurekstri stóð fyrir fundi í morgun um krónuna og evruna. Það var Edda Rós Karlsdóttir hjá Landsbankanum sem leiddi okkur í allan sannleikann um kosti, galla og valmöguleika. Ég hafði lítið kynnt mér umræðuna um evruna og krónuna þannig að ég er rosa fegin að Silja Bára taldi mér trú um að það væri sniðugt að leggja það á sig að vakna eldsnemma og vera mætt kl. 8 á fundinn! Nú er ég allavega aðeins fróðari um málið...

Evran

Leiðir til meiri aga í ríkisfjármálum - einfaldlega verðum ef evran er tekin upp.

Minni sveigjanleiki til að bregðast við kosntaðarhækkunum, t.d. ef laun hækka - gengið verður bara óbreytt... ein áhættan er að fyrirtæki þurfi að leggja upp laupana og hér verði atvinnuleysi.

Áfram verða gengissveiflur á milli evru og annarra gjaldmiðla, t.d. dollara - slatti af fyrirtækjum sem verða enn háð gengissveiflum. Á móti kemur að væntanlega flytur einhver hluti þeirra sig yfir í evrur ef það er gjaldmiðillinn okkar 

Krónan

Sveiflast - gera þarf ráð fyrir ca 20% gengissveiflum í fjárahagsáætlunum.

Utanaðkomandi aðilar geta hæglega haft áhrif á gengi með gjaldeyrisbraski...

Og svo var sitthvað fleira sem ég man ekki í augnablikinu. Kom mér skemmtilega á óvart að teknir voru þættir eins og fólksfjölgun og lífsgæði inn í umræðuna um hagvöxt - og hvort við þyrftum hagvöxt yfir höfuð. 

Niðurstaðan sú að bæði krónan og evran þurfa sömu forsendur til að ganga upp; stöðugleika - við þurfum að stöðva þensluna - og það er ekki allt að fara til helvítis!


Fleiri en ég

Las í Blaðinu í dag tilvitnun í blogg þar sem viðkomandi var afar ósáttur við mig. Líkti mér við Kolbrúnu Halldórs og Hannes Hólmstein. Mér finnst Kolbrún æði svo ég tek því nú bara sem hóli :)

Tilefni óánægjunnar er örugglega margt og mikið en þá sérstaklega að ég kaupi ekki tímarit frá Birtíngi og fer ekki í viðtöl hjá DV á meðan þar eru súlustaðaauglýsingar (fletti reyndar í gegnum helgarblaðið og það voru engar súlustaðaauglýsingar - kannski blaðið sé komið með breytta stefnu :) Kona getur allavega alltaf haldið í vonina!) 

Ég er hins vegar á því að ég sem neytandi ber vissa ábyrgð og eins á því að ég hafi val til að kaupa það sem ég vil og sleppa því að kaupa það sem ég vil ekki... Komst síðan að því þegar ég var að skrifa síðasta pistil fyrir Viðskiptablaðið að það eru mun fleiri en ég sem velja hvern þau versla við. Margir sem hafa gengið enn lengra en ég og hvatt skipulega til að fólk sniðgangi ákveðnar vörur. Hér eru nokkur dæmi (úr pistlinum sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag):

Skipulagðar aðgerðir sem beinast að því að sniðganga ákveðin fyrirtæki hafa ekki verið áberandi á Íslandi þó þær stingi upp kollinum af og til. Sem dæmi má nefna að fyrir ári síðan hvatti Samband íslenskra auglýsenda (SÍA) auglýsendur til að sniðganga DV þar sem það taldi að ímynd fyrirtækja myndi beinlínis skaðast af að auglýsa í blaðinu. Krafa SÍA var að DV myndi samræma siðareglur sínar til samræmis við siðareglur Blaðamannafélagsins. Nokkrar herferðir hafa gengið á internetinu þar sem neytendur eru hvattir til að sniðganga olíufélögin, ýmist vegna verðsamráðs eða of hás bensínverðs. Neytendasamtökin hafa hvatt fólk til að sniðganga verslanir sem ekki skipta vörum á því verði sem þær voru keyptar, ráðamenn voru hvattir til að sniðganga heimsókn fyrrverandi forsætisráðherra Kína til landsins og leiðsögumenn voru hvattir til að sniðganga skemmtiferðaskip sem ekki var með viðurkennda kjarasamninga við áhöfn sína. Viðskiptaval hefur því verið notað með ýmsum hætti hér á landi síðustu árin. 


Naglarnir á Andríki

Á andriki.is er grein þar sem fjallað er um minnkaðan trúverðugleika Morgunblaðsins í kjölfar þess að birta myndir af hæstaréttardómurunum á forsíðu. Þar er málið kallað tilfinningaklám - eina klámið sem er leyfilegt innan femínismans, að þeirra sögn. "Væmni og vandamálamas, öðru nafni femínismi" er annar skemmtilegur frasi úr greininni. 

Pistillinn sem er skrifaður á Andríki er nafnlaus en vefritið er með nafngreinda ritstjórn. Miðað við ofangreint kemur kannski engum á óvart að ritstjórnina skipa 5 karlmenn og 0 konur. Tónninn er líka slíkur. Dómar fyrir kynferðisbrot gegn börnum eru afgreidd sem tilfinningaklám og baráttan fyrir jafnrétti "væmni og vandamálamas". Gaurarnir á Andríki eru greinilega "hörkunaglar" eða þannig sko... 

Ég fór á námskeið út í Finnlandi í nóvember sem bar heitið "Feminist approaches to analyzing visual cultures". Mjög skemmtilegt námskeið og einn dagurinn var einmitt tileinkaður tilfinningavæðingu hins opinbera rýmis (emotionalization of public space). Þetta var skemmtilegasti dagurinn að mínu mati, enda efnið nýtt og ferskt - hefur ekki verið mikið í umræðunni. Dómar fyrir kynferðisbrot voru reyndar ekki meðal námsefnis en mikið var fjallað um raunveruleikasjónvarp, sjónarhorn myndavélarinnar (sýna viðbrögð áhorfenda) og hvernig við lærum "emoting" eins og það var kallað. Þ.e. hvernig fólk lærir að sýna "réttu" tilfinningaviðbrögðin við hinum og þessum uppákomum í gegnum sjónvarpið.

Eins og gefur að skilja fylgja þessu bæði slæmar og góðar hliðar. Góðu hliðarnar eru að í gegnum þessa talk show þætti öðlast hinir raddlausu rödd. Þetta er fólkið sem er hvorki á forsíðu né innsíðum Moggans eða annarra fjölmiðla. Neikvæðu hliðarnar eru hins vegar hvernig vandamál eru gerð að skemmtiefni svo áhorfandinn geti velt sér upp úr tilfinningakláminu.

Þetta er auðvitað einföldun en eftir að hafa lesið pistilinn á Andríki (sem Viðskiptablaðið vitnaði í í morgun) þá finnst mér allt í lagi að velta fyrir sér mörkunum á milli frásagnar (eða frétta) og tilfinningakláms. Ég get ekki fallist á það með "nöglunum" á Andríki að þetta sé tilfinningaklám. Fréttamat hefur verið gagnrýnt fyrir karllægni og það er greinilega erfitt fyrir suma að brjótast út úr viðjum vanans. Konur eiga afar litla rödd í fréttum fjölmiðlans - á milli 20-25%. Fjölmiðlar segjast oft vera spegill þjóðfélagsins. Ég komst einhvern tímann að þeirri niðurstöðu að sú mynd sem fjölmiðlar endurspegli sé feðraveldið, þ.e.a.s. sú ósk feðraveldisins að það sem karlar geri sé miklu merkilegra og mikilvægara en það sem konur gera. Til að komast nær því að endurspegla þjóðfélagið þarf fréttamatið að breytast. Mogginn tók skref í þá átt og það er mjög jákvætt. Þeir hjá Andríki ættu bara að hætta þessari væmni og vandamálamasi - hætta að farast úr fortíðarþrá og vilja að Mogginn taki aftur upp að hafa erlendar fréttir á forsíðunni - eitthvað sem er að gerast nógu langt í burtu til að það þurfi ekki að snerta einhverja strengi hjá nöglunum á Andríki. 


Áfram kennarar

Skrýtið hvað kennarastéttin virðist alltaf þurfa að hafa mikið fyrir sínum kjaramálum. Síðast þurftu hún að fara í verkfall á meðan aðrar stéttir fengu sambærilegar eða jafnvel meiri hækkanir með minni fyrirhöfn. Nú á að neita þeim um hækkanir í takt við tímann þrátt fyrir ákvæði í kjarasamningum. Lítur út fyrir að kennarar þurfi að fara í hart til að vinnuveitendur standi við sinn hluta samningsins. Stend með kennurum í þessu. Kennarastarfið er vanmetið. Þetta er eitt mikilvægasta og mest krefjandi starf sem til er. Kennarastéttin er líka kvennastétt.
mbl.is Mörg hundruð grunnskólakennara mótmæltu launamisrétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að treysta og vera traustins verður

Sá stjórnmálamaður sem nýtur mest fylgis á Íslandi og er forsætisráðherra vor lét þessi orð falla í Silfri Egils um helgina: 

Erfitt að fullyrða um að þessar stúlkur hefðu ekki orðið barnshafandi hvort eð var

 197. gr hegningarlaga er svohljóðandi:

Ef umsjónarmaður eða starfsmaður í fangelsi, geðsjúkrahúsi, vistheimili, uppeldisstofnun eða annarri slíkri stofnun hefur samræði eða önnur kynferðismök við vistmann á stofnuninni varðar það fangelsi allt að 4 árum.

Hvað er eitt barn á milli "vina" í huga forsætisráðherra? Barn sem þarf að axla ábyrgð á til 18 ára aldurs, framfleita, þykja vænt um og ala upp. Barn sem verður til vegna misnotkunar á trúnaðarsambandi. Auðvitað getur vel verið að í sumum tilfellum heilsist móður og barni vel - og að allt gangi upp. Það breytir málavöxtum nákvæmlega ekki neitt. Orð forsætisráðherra afhjúpa vanþekkingu á eðli málsins, því broti sem konurnar urðu fyrir og afleiðingunum. Gagnrýni á meðferð kynferðisbrotamála af hálfu hins opinbera verður kannski skiljanlegri í þessu ljósi... Það er ekki samasemmerki á milli þess að vera treyst og að vera traustsins verður. Það á jafnt við hvort sem maður er forsætisráðherra eða starfsmaður á Byrginu. 


Kemur að því...

Einhvern tímann ætla ég að gera eitthvað sem maður en ekki kona... 


Ábyrgð og áfengi

Bann við áfengisauglýsingum er allt of oft brotið og það hefur verið ömurlegt að fylgjast með hverju fyrirtækinu á fætur öðru reyna að finna leiðir til að komast fram hjá lögunum. Hugsunarhátturinn einhvern veginn í takt við lögregluríkisshugsunarhátt - allt sem ekki er ólöglegt það er í lagi. Með þessu er ábyrgðinni varpað yfir á yfirvöld og enginn vill axla ábyrgð á eigin siðferði - eða siðferðisbrestum. Í mínum huga er einfaldlega rangt að herja á unglinga með áfengi. Þetta er samt stór markhópur og því miður fylgir klámvæðingin oft með. Nokkur dæmi sem ég man eftir:

1. Ölgerðin og kossakeppnin til að auglýsa Smirnoff og Jagermeister - Ölgerðin áttaði sig sem betur fer á því að þeir fóru yfir strikið og drógu sig tilbaka.

2. Ölgerðin og Egils Lite auglýsingin. Þarf varla að segja meira um það. 

3. Tuborg og blautbolskeppnin.

4. Faxe: Besti vinurinn? Með mynd af litlum víkingi sem var að losa brjóstahaldarann á stelpu. Mjög auðveldlega hægt að lesa út úr þessu þau skilaboð að bjórinn hjálpi strákum að beita stelpur kynferðisofbeldi sbr misneytingarákvæði hegningarlaga (sem verður nauðgunarákvæði ef nýja frumvarpið hans BB nær í gegn).

5. Man ekki hvað bjórinn heitir - en þar er stákur - svo er sagt + bjór = vinir. Ömurlegu sálfræðihernaður sem beint er að ungum og óöruggum sálum. 

6. Áfengisauglýsingar á alls kyn vefjum sem höfða til ungs fólks. 

7. Cult Shaker og Bavaria. Auglýsingar Cult Shaker þóttu meira að segja of grófar í Danaveldi - þar sem klámvæðingin ræður ríkjum. 

8. Thule auglýsingarnar. 

Og listinn er mun lengri þó ég muni ekki eftir öllum í svipinn.

Skv upplýsingum á heimasíðu SÁÁ munu 27% kk og 11%kvk eiga við áfengisvanda að stríða á lífsleiðinni. Mér skilst að konur séu að draga á karlana hvað þetta varðar.

Þó ég sé ekki á móti áfengisneyslu per se og finnist fínt að fá mér vín eða bjór með matnum af og til þá er engin ástæða til að herja vísvitandi á ungan markhóp. Með auglýsingum er verið að hafa áhrif - og í þessu tilfelli er verið að herja á unga fólkið með drykkju. Það væri hægt að kalla þetta forræðishyggju - þ.e. markaðsaðilar að reyna að stýra drykkju unga fólksins - ekki í þá veru að þau forðist áfengi heldur þvert á móti til að fá þau til að drekka. Er það hlutverk sem fólk er almennt stolt af? 


mbl.is Rætt um börn og áfengisauglýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur á toppnum

Nú er búið að velja konu sem næsta rektor Harvard. Mér finnst það mjög flott - sérstaklega í ljósi þess að fyrrum rektor var mjög yfirlýsingaglaður um meinta vangetu kvenna í raungreinum. Það er ekki skólanum til framdráttar ef slík viðhorf eru ráðandi á toppnum. 

Hér heima hafa líka borist ýmsar jákvæðar fréttir af ráðningum kvenna á toppinn. Þær sem ég man eftir í fljótu bragði: Birna Einarsdóttir var ráðin framkvæmdastjóri hjá Glitni, Ellý Katrín var ráðin forstjóri Umhverfisstofnunnar og Eva Magnúsdóttir var ráðin forstöðumaður heildsölusviðs Símans. 

Nú fer að styttast í aðalfundartímabilið og þá verður spennandi að sjá hvort fyrirtæki ákveði að vera skynsöm og velja bæði kyn til stjórnarsetu :)

ps. Var að komast að því að til er bandarískt fyrirtæki sem heitir Glitnir Ticketing. Væri gaman að vita hvernig þeim datt nafnið í hug...  


Baráttuaðferðir

Námskeið í borgaralegri óhlýðni var haldið hér á landi fyrir 1 eða 2 árum síðan. Ég komst ekki á námskeiðið en reyndi að fá upplýsingar hjá þeim sem fóru því ég held það sé margt spennandi sem hægt er að gera með borgaralegri óhlýðni. Ég er t.d. hrifin af þeirri aðferð að setjast fyrir framan gröfu til að stöðva framkvæmdir - og dauðsé eftir að hafa ekki gert það sjálf þegar friðað holtið var grafið í sundur hér fyrir aftan húsið mitt. 

Hins vegar er ég ekki jafn hrifin af öllum aðferðum. Ég er t.d. ekki hrifin af því þegar fólk stofnar öðrum í hættu eða slettir sýru.  


mbl.is Japanskt hvalveiðiskip og skip Sea Shepherd rákust saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 332491

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband