Færsluflokkur: Bloggar

Sólskinsdrengurinn

Tengdó bauð okkur tengdadætrunum á Sólskinsdrenginn í gær. Það er full ástæða til að mæla með myndinni. Hún er einstaklega áhugaverð sem og upplýsandi. Myndin fjallar um einhverfu, hún er leit móður að meðferðarúrræðum fyrir einhverfa sólskinsdrenginn sinn. Í henni er talað við fjölda fræðifólks, rætt við fjölskyldur þar sem einn eða fleiri meðlimur er einhverfur og einnig er rætt við meðferðaraðila. 

Í myndinni kemur í ljós að það er heilmargt hægt að gera fyrir einhverfa - og þau hafa einnig heilmargt fram til samfélagsins að færa. Hún vekur einnig upp spurningar hvort verið sé að gera nóg. Það á svo að heita að við búum í velferðarsamfélagi en ég held að við vitum flest inn við beinið að það er brotalöm í ýmsu. Nærtækast t.d. að nefna dæmi um nýlega hreppaflutninga á öldruðum þar sem þau eru flutt úr einbýli yfir í tvíbýli gegn eigin vilja. Síðan má velta fyrir sér hversu framarlega við stöndum í meðferðarúrræðum s.s. gagnvart einhverfu og hvort yfirhöfuð sé fylgst nægilega vel með framförum á því sviði.

Kvikmyndin sem slík er öflugt fyrirbæri sem hægt er að beita á ýmsan hátt - til fræðslu eða heilaþvottar, og allt þar á milli. Sólskinsdrengurinn vel gerð mynd sem fræðir, eykur skilning og kveikir von. Vona að RUV muni taka hana til sýningar og að sem flestir muni sjá hana. 

*

Viðbót:  Slóð á vefsíðu myndarinnar og hér er líka brot úr myndinni:


Einstefna

Fór á borgarafundinn í gær og skemmti mér ágætlega í reykfyllta bakherberginu - sem er bara önnur leið til að segja að ég mætti of seint og húkti í litla herberginu sem hýsir barinn og kók vélina. Það heyrðist ekki allt þangað fram svo ég meðtók fundinn í bútum. Lagði við hlustir þegar hitnaði í mannskapnum en spjallaði þess á milli við aðra mæta fundargesti sem mættu seint...

Það er ekki vanþörf á að ræða mismunandi mótmælaaðferðir; hvað er árangursríkt, hvað ekki, hvað virkar vel saman, hvað þarf, hvað er óþarfi og síðast en ekki síst - hvað þjónar hagsmunum okkar best. Miðað við það sem ég heyri í kringum mig þá eru mörkin mismunandi hjá fólki. Þó eigum við það flest sameiginlegt að draga línuna við ofbeldi. Ég myndi flokkast þar, þ.e. ég tel að ef markmiðið er að útrýma ofbeldi þá verði það að vera grundvallaregla að ofbeldi sé aldrei réttlætanlegt. Ef við dettum í þá gryfju að réttlæta ofbeldi því annars fáum við ekkert í gegn þá erum við komin inn í þann hugsunargang sem leiðir af sér og „réttlætir“ stríð. 

Það sem hefur komið mér á óvart er hins vegar hvað umburðarlyndi fyrir fjölbreyttri flóru mótmæla er lítið í raun. Flestir meðtaka að það sé „í lagi“ að standa á Austurvelli með skilti en mér finnst fullmargir fordæma alls kyns gjörninga og uppákomur. Persónulega er ég mjög hrifin af gjörningum eins og að draga Bónusfánan við hún á Alþingishúsinu og að líma skuldaupphæð á barnamyndirnar á horni Lækjargötu og Austurstrætis - og alls kyns fleiri uppákomum sem felast í borgaralegri óhlýðni. 

Á borgarafundinum í gær komu mörkin til umræðu. Hversu langt má ganga? Hvað er löglegt? Hvað ekki? Ein af anarkistunum endaði fundinn með því að lesa upp yfirlýsingu þar sem hún sagði einfaldlega að bylting væri alltaf ólögleg en það væri það sem við þyrftum hér - byltingu. Og þá kem ég að kjarna málsins. Það eru til lagarammar um hvernig má mótmæla. Hins vegar veit ég ekki til þess að til séu lagarammar um það hvenær stjórnvöldum ber að hlusta og fara að vilja þjóðarinnar. Hvað þarf margar undirskriftir til að ríkisstjórnin segi af sér? Hvað þurfa mótmælin að ganga langt til að fólk segi af sér? Lýðræði getur aldrei falist í því að fólki sé skammtaður (of) þröngur stakkur til mótmæla, ráðamenn tali fjálglega um rétt fólks til þess en hunsi síðan algjörlega kröfur fólksins. Hlusti ekki á eitt né neitt heldur haldi bara áfram sínu striki eins og ekkert hafi í skorist. Alvöru lýðræði felst í því að þjóðin hafi eitthvað um örlög sín að segja og þá er lykilatriði að örlagaríkar og afdrifaríkar ákvarðanir séu ekki teknar af þröngum hópi fólks sem búið er að sýna og sanna að hugmyndafræðin sem það starfar eftir virkar ekki. Kjarni málsins er sem sagt að hér ríkir ekki lýðræði í reynd og lögin virka bara í eina átt.


STOPP

Ég man eftir að hafa „lært“ í skóla að heimurinn myndi aldrei aftur sitja aðgerðarlaus hjá þegar um sambærileg grimmdarverk væri að ræða og helförina. Það er töluvert síðan ég gerði mér ljóst að þetta var kjaftæði. Grimmdarverkin halda áfram að gerast og heimurinn situr aðgerðarlaus hjá og hristir síðan hausinn eftir á og spyr „hvernig gat þetta gerst?“ Núna eru það fórnarlömb helfararinnar sem endurtaka leikinn. Samviskulaust og blákalt. Við fylgjumst með í fréttum og sjáum viðbjóðinn í beinni. Við grátum og finnum hvernig maginn hringsnýst og okkur langar til að æla. Mannkynið á að vera skynsamt, fjandinn hafi það - þó við séum auðvitað löngu búin að sjá að skynsemin og mannúðin nær skammt. Það þvælast alltaf einhverjir aðrir „hagsmunir“ fyrir.

Það minnsta sem við getum gert er að mótmæla. Í dag kl. 17 verða mótmæli fyrir utan Bandaríska sendiráðið. Ég vona að það verði fjölmennt. Við verðum líka að þrýsta á ríkisstjórn okkar að fordæma fjöldamorð Ísraela á Palestínumönnum. Þetta er hreinn og klár viðbjóður - grimmdin verður ekki meiri en sú sem við horfum upp á þessa dagana. Engin lyf, enginn matur, ekkert rafmagn - gegndarlaus fjöldamorð á saklausum borgurum; börnum sem fullorðnum. Þetta verður að stoppa. Verður.


Hver er sparnaðurinn?

Ok. Ég er litlu nær um hvað á að gera í sparnaðarskyni. Hvernig sparar það t.d. að færa verkefni frá ríki til sveitarfélags? Jú það er um breytt fyrirkomulag að ræða en í hverju felst sparnaðurinn er verkið er unnið af jafnmörgu fólki, fyrir sömu laun og þjónustan sú sama? Spyr sú sem ekki veit... Er gert ráð fyrir einkavæðingu í þessu ferli? Er það falið undir orðagjálfri um tilfærslu til sveitarfélaga og heilsugæslustöðva? Hvað þýðir það að nýta eigi betur hjúkrunarrými út á landi? Þýðir það ekki bara það sama og síðast þegar öldruðu fólki „gafst kostur á“ að fara út á land, fjarri ættingjum, vinum og maka? Mökum jafnvel boðið að fara á sitthvort hjúkrunarheimilið í sitthvorum landshlutanum og í báðum tilfellum fjarri öllum sem þau þekkja?

Í fréttinni er einnig talað um að „eftir samruna stofnana verði til sex öflugar einingar.“ Hvaða stofnanir eru verið að tala um???? Eitthvað hefur verið fjallað um St. Jósefsspítala í fréttum, að loka eigi honum. Mér sýnist sem sagt að verið sé að tala um að henda uppsafnaðri sérþekkingu út um gluggann, yfirfæra kostnað yfir á sveitarfélög frá ríki (og ekki er rætt um hvernig tekjur eigi að yfirfærast á móti) og síðan á að eyða fullt af peningum í sameingar og einhverjar skipulagsbreytingar... sé ekki alveg hvaðan sparnaðurinn á að koma en treysti núverandi ríkisstjórn fyllilega til að klúðra þessu rækilega eins og öllu öðru.

*

Viðbót - fór að lesa mbl.is betur eftir þetta blogg og sé að þar eru fleiri fréttir um svokallaðar sparnaðarleiðir og m.a. fjallað um hvaða einingar sameinast - vona að ég verði einhverju nær eftir þann lestur...  


mbl.is Hagræðing um 1,3 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Best að vera stærðfræðingur

Það er best að vera stærðfræðingur, samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins. Shit er besta orðið sem mér dettur í hug... þegar ég var í fimmta bekk í Verzló var ég harðákveðin í því að verða stærðfræðingur, enda fannst mér fátt jafn skemmtilegt og að diffra og tegra. Aðalmálið var samt ánægjan yfir því að glíma við og leysa erfiða þraut. Það var samt tvennt sem truflaði þessa fögru framtíðarsýn. Annars vegar að mér fannst mengjafræði full leiðinleg og hins vegar að ég sá ekki fyrir mér glæsta möguleika á atvinnumarkaði. Vissi fátt um hvað stærðfræðingar tóku sér fyrir hendur nema ef vera skyldi að mæta í kosningasjónvarp á fjögurra ára fresti... Ég skipti því um gær og skellti mér í viðskipta- og markaðsfræði í staðinn! Miðað við niðurstöður rannsóknarinnar sem Viðskiptablaðið vitnar í hefði ég nú samt frekar bara átt að skella mér í stærðfræðina!

Takk

Takk fyrir að gefa upp heildarfjárhæð styrkja í þennan mikilvæga málaflokk. Kynbundið ofbeldi er smánarblettur á þjóðfélaginu og því er veitt allt of lítil athygi. Tölur um t.d. kynferðislegt ofbeldi eru skuggalegar háar, bæði hvað varðar börn og fullorðna. Þá er tiltakanlegt hversu lítið er vitað um heimilisofbeldi og nánast ekkert til af rannsóknum í þeim efnum þó mér skiljist að það standi til bóta.

Miðað við útbreiðslu og alvarleika ofbeldisins er furðanlega litlu fé veitt í málaflokkinn. Svona fyrst við erum að ræða um Nýja Ísland og hvernig við viljum sjá samfélagið í framtíðinni væri ekki úr vegi að stefna að ofbeldislausu samfélagi og gera allt hvað við getum til að svo megi verða. 8,5 milljónir duga skammt í það verkefni en það er allavega hugmynd fyrir sitjandi ríkisstjórn að ef veita á fé til atvinnusköpunar þá væri tilvalið að ráða fólk til að sinna forvarna- og fræðslustarfi um kynbundið ofbeldi ásamt því sem auka mætti starfsemi þeirra sem taka að sér að aðstoða þolendur við að takast á við afleiðingarnar.


mbl.is 8,5 milljónir í styrki gegn kynbundnu ofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„Boys will be boys“

Þá er Bjarni Ármanns stiginn fram með það sem hann kallar einlægt uppgjör við bankahrunið. Jújú, það er allt í lagi að gefa Bjarna plús fyrir að stíga fram. Ég hallast þó á sveif með henni Jenný í þessu máli. Það vantar mikið upp á að uppgjörið geti í raun reynst bæði einlægt og nothæft. Það er afar fátt nýtt sem kemur fram í máli Bjarna. Jú hann er sorrý. Minna má það ekki vera.

Ég hallast að því að Bjarni búi yfir mun meiri upplýsingum en hann kemur fram með - upplýsingum sem gætu í alvörunni orðið að gagni. Þeim hefur hann þagað yfir. Hvað með alla spillinguna, svo ég tali nú ekki um strákastemninguna í þessum bransa. Þegar Femínistafélagið var nýstofnað héldum við morgunverðarfund um launamál þann 24. október (þetta var árið 2003). Þangað mættu 200 konur - og 2 karlar ef frá eru taldir þeir karlar sem voru þarna tilneyddir, þ.e. sem hluti af pallborði eða sem blaðamenn. Bjarni var annar af þessum tveimur. Hann sýndi sem sagt lit. Eftir bankahrunið hafa m.a. borist fréttir af launakjörum í bönkunum. Þá kemur í ljós að þar er gífurlegur launamunur á milli kynja og eru til dæmi um allt að 100% launamun hjá fólki sem vann hlið við hlið sama starf. Ekki veit ég hvort þetta dæmi sé frá Glitni eða einhverjum öðrum banka en í það minnsta hafa ekki borist fréttir af því að einn bankinn sé undanskilinn í fréttum um launamun kynjanna.

Allir bankarnir voru alræmdir fyrir kynjamisrétti í stöðuveitingum. Konur voru fáséðar í stjórnum bankanna sem og í hæstu stjórnunarstöðum. Til marks um það má árétta að fyrir bankahrun hafði kona aldrei gegnt stöðu bankastjóra hjá viðskiptabanka á Íslandi. (Kona varð ekki bankastjóri í neinum banka fyrr en Auður Capital var stofnað - af konum). Ekki nóg með að konur ættu ekki sjens í bankastjórastólinn voru konur afar sjaldséðar í framkvæmdastjórastólum. Eins og ég hef áður bloggað um þá var mantran líka sú að í bankana þyrfti áhættusækið fólk með killer instinct. Þetta er með öðrum orðum ein leið til að útiloka konur frá þessum stöðum því ef staðalmyndir kynjanna eru skoðaðar þá á þessi ímynd ekki við um kvenímyndina en passar hins vegar ljóandi vel við karlímyndina og möntruna um að boys will be boys - þeir muni vera uppátækjasamir, baldnir, óþekkir og sleppa því að hugsa um alfeiðingar gjörða sinna - langtímahugsun er ekki inn í myndinni, hvað þá ábyrgð. Þetta smellpassar við lýsingar Bjarna á þeim bisness sem bankarnir stunduðu. Ég tek fram að með þessu er ég ekki að segja að konur væru sjálfkrafa betri í þessum bisness, hér þarf að skoða hugmyndafræðina sem unnið er eftir en ekki einblína of sterkt á líkamlegt kyn. Konur eru alveg fullkomlega jafnvel færar og karlar að vinna eftir karllægri hugmyndafræði eins og lýst er hér að ofan, rétt eins og sumir karlar eru gjörsamlega „ófærir“ um það, þ.e. þetta hentar sumum konum og alls ekki sumum körlum. Hugmyndafræði jafnréttissamfélags hefur því miður ekki átt nógu mikið upp á pallborðið hér en hún snýst ekki um kynjahlutföllin per se heldur að stórum hluta um gildismat og samfélagsgerð.

Ef Bjarna væri í alvörunni alvara með að gera upp bankahrunið þá er tvennt sem hann þarf að gera:

1. Tala afdráttarlaust um allt sem gerðist á bakvið tjöldin.

2. Skila peningunum - hann getur haldið því sem sanngjarnt væri að ætla að hann hefði getað unnið sér inn sem launamaður í þess að vera sjálftökumaður. Auðæfi hans eru ekki fengin með heiðarlegum hætti. Hann gæti átt ágætt hús, skuldað ca helminginn í því, hann mætti þess vegna eiga tvo bíla og 10 milljónir í sparifé. Þá ætti ekki að væsa um hann. Restinni ætti hann að skila til þjóðarinnar í stað þess að ætlast til að við borgum fyrir hans klúður.


Ekkert er ókeypis

Money makes the world go around segir máltækið og víst er eitthvað til í því, allavega miðað við hvernig samfélög hafa þróast. Flest er háð peningaöflum á einn eða annan máta og eru fjölmiðlar eitt dæmi - hvort sem það er í gegnum áskriftar- eða auglýsingasölu. Nú er nokkuð algengt að hafa aðgang að „ókeypis“ fjölmiðlum sem reknir eru að mestu í gegnum auglýsingatekjur eða einhvers konar kostun. Eins og flest annað hefur þetta fyrirkomulag bæði kosti og galla. Það er ekki hægt að segja að neytendur hafi aðgang að ókeypis fjölmiðlum á meðan t.d. auglýsingar fylgja með í pakkanum. Neytandinn borgar fjölmiðlinum þá einfaldlega eitthvað annað en peninga, þ.e. tíma og athygli í auglýsingar - sem auglýsendur vonast til að þýði að neytandinn setji sína peninga til þeirra í staðinn, þ.e. peningurinn fer þá frá neytendum til auglýsenda. Við borgum sem sagt þegar upp er staðið í beinhörðum peningum. En við borgum líka í fleiru og akkúrat í augnablikinu er mér efst í huga sá fórnarkostnaður sem af hlýst þegar auglýsingar ganga gegn t.d. jafnrétti eða öðrum mannréttindum. Einnig getur falist í auglýsingum áreiti sem fólk nennir ekki endilega að standa í eða hefur ekki áhuga á. Þannig er ég t.d. ekki stemmd til að lesa fréttir um fjöldamorð Ísraela á Gazasvæðinu með beran bossa blikkandi við hliðina á fréttinni - eins og hefur verið í boði á visir.is undanfarnar vikur. Ég skil ekki af hverju auglýsendur geta ekki sleppt þátttöku í klámvæðingu og öðru þvílíku. Þar að auki þarf varla að geta þess að það er að sjálfsögðu kvenmannsbossi sem flashar framan í fréttalesendur en ekki karlmannsbossi. Það er engin tilviljun heldur og er partur af kúgun kvenna í okkar samfélagi - smætta konur niður í líkamsparta til að ekki þurfi að koma fram við konur eins og hugsandi verur (svona í anda Aristótelesar og fleiri). 

Góðu fréttirnar eru að fréttalesendur þurfa ekki að búa við þetta ef þeir ekki vilja. Til eru add-ons fyrir flesta vafra sem gera okkur kleift að slökkva á þessu. Ég fann t.d. eitt fyrir Firefox sem mér líkar ágætlega. Það stoppar sjálfskrafa spilun á öllum flash skrám. Í staðinn birtist play takki og ef mig langar til að skoða hvað býr í skránni get ég einfaldlega smellt á play.

Þeir auglýsendur sem ekki velja þessa leið í auglýsingamennsku líta ekki endilega svo á að þeirra hagsmunir séu í húfi þegar um er að ræða auglýsingar sem þessar. Það er hins vegar oft svo að gjörðir fárra bitna á fjöldanum. Add-onið hér að ofan stoppar allar flash auglýsingar - líka frá þeim sem auglýsa á hátt sem er fullkomlega laus við kynjamisrétti eða klámvæðingu. Ég sem neytandi get hins vegar ekki gengið inn á óorðaðan samning um að ég þurfi að samþykkja hvað sem er gegn því að fá náðarsamlegast að fylgjast með því sem er í fréttum.

 

 

 

 

 


Gleðilegt nýtt ár

Þjóðin var ekki á borgarafundinum um daginn. Þjóðin var ekki að mótmæla fyrir utan Hótel Borg í dag. Þjóðin mótmælir ekki. Punktur. Hver er þá þjóðin? Þessi spurning hefur leitað á mig en auðvitað lá svarið í augum uppi allan tímann. Þjóðin eru peningamenn og stjórnmálamenn. Við hin erum bara skríllinn ;) Þetta útskýrir auðvitað margt. 

Gleðilegt nýtt ár. Óska öllum farsældar á komandi ári. Takk fyrir allt gamalt og gott.  


Lúxus?

Skandall. Þarf að segja meira um þetta mál? Nú þegar við erum ekki lengur rík þurfum við að forgangsraða og þá skiptir máli að við forgangsröðum rétt. Til að okkur takist að rétta úr bakinu sómasamlega þurfa vissar grunnstoðir að vera til staðar í samfélaginu, svona eins og heilbrigðiskerfi, menntakerfi og velferðarkerfi. Niðurskurður í þessum efnum er afar varasamur - nú nema ef um einhvern lúxus er að ræða. Hann má svo sem fjúka á krepputímum. Ég vona þó að fáum detti í hug að geðheilbrigðisþjónusta sé lúxusvara. Er það nokkuð? Það væri þá helst að heilbrigðsráðherra og fjármálaráðherra myndi detta slík vitleysa í hug! Miðað við allar þær röngu ákvarðanir sem nú er verið að taka er það kannski einmitt málið - að það verði lúxus að halda geðheilsunni í kreppunni?
mbl.is Uppsagnir á geðdeild FSA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband