Færsluflokkur: Bloggar

Þingfundi frestað

Nú er búið að fresta þingfundi sem vera átti eftir hádegi. Ég vona að það sé vegna þess að mynda eigi neyðarstjórn með fagfólki og sérfræðingum sem stýri landinu þangað til búið er að kjósa.

Gula kjólamálið

Ímyndum okkur að Hillary hefði unnið kosningabaráttuna og að í gær hefði hún orðið forseti Bandaríkjanna. Hvort ætli fólk og fjölmiðlar hefðu:

a) fjallað um hennar fatnað af ákefð

b) fjallað um fatnað Bill af sömu ákefð og fatnað Michelle? 

Út frá sögulegu samhengi er næsta víst að svarið sé a. Þrátt fyrir langa og stranga baráttu fyrir jöfnum rétti og jöfnum tækifærum fyrir karla og konur þá er staðan enn sú að fatnaður kvenna er aðalmálið. Ástæðan sú að hlutverk kvenna í samfélaginu er enn að uppfylla skyldur sem skrautmunir í stað þess að vera metnar sem manneskjur. „Áður en hún varð forsetafrú var hún lögfræðingur“, segir wikipedia um Michelle. Sem sagt - hún er ekki lengur lögfræðingur heldur almannaeign. Það hlýtur að vera erfitt fyrir leiftrandi gáfaða, vel menntaða konu í góðri stöðu að breytast allt í einu í viðfang sem fjallað er um eingöngu út frá því hvernig hún er klædd! Þetta eru ekki örlög til eftirbreytni.  

Ég hef ekki séð neina frétt um fatnað forsetans sjálfs, eflaust eru þau hönnuð af frægum hönnuði og væntanlega fór töluverð orka í að velja rétta litinn á bindið... eða kannski ekki. Það var rautt - litur valdsins en ekki litur vonar.

Forsetaembætti eru formlega séð enn gerð fyrir eina manneskju þrátt fyrir að oft fylgi maki með í för. Þetta kerfi er hannað utan um karlkyns forseta með kvenkyns maka sem á að uppfylla hinar hefðbundnu skyldur góðrar eiginkonu og húsmóður. Hún á ekki að hafa sjálfstætt starf og vera á eigin framabraut. Þetta breyttist eitthvað með tilkomu Hillary Clinton en ég get ekki ímyndað mér að hún hefði getað komist á þing á meðan maðurinn hennar var forseti. Ég hef ekkert fylgst neitt sérstaklega með Michelle en hennar bíða fjölmargar opinberar skyldur. 

Hér frá Íslandi höfum við reynslu af sjálfstæðri móður í embætti forseta. Mikið væri gaman að sjá það sama gerast í BNA - einnig væri skemmtilegt að sjá t.d. samkynhneigt par í þessari stöðu. Pointið er sem sagt að það mætti alveg kryfja þetta fyrirkomulag og aðlaga það að breyttu samfélagi. 


mbl.is Klæðnaður Michelle Obama umdeildur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarstjórn núna

Kallast þetta ekki að vera upptekin af smáatriðunum og látu stóru málin eiga sig? Það skýtur skökku við að eftir bankahrun hafa einungis mótmælendur verið handteknir og þó er ekki hægt að segja annað en að mótmælin hér hafi farið einstaklega kurteislega fram. Öðru máli gegnir um auðmennina sem komu okkur á hausinn. Þeir hljóma gjörsamlega siðblindir eins og yfirlýsingin frá Ólafi Ólafssyni ber vitni. Þar fjallar hann um að hann hafi ekkert hagnast á að „lána“ skúffufyrirtæki sitt (lygi), færslurnar hafi farið í gegnum Jómfrúareyjarnar vegna skattahagræðis (s.s. til að þurfa ekki að borga sína skatta hér eins og við, sbr skattsvik) og það sé ekkert óeðlilegt við að fjárfestar geti keypt hlutabréf fyrir háar fjárhæðir án nokkurar áhættu og fyrir fé bankans (stýring á verði hlutabréfa, siðlaust og örugglega ólöglegt alls staðar nema hér - eða þ.e. ólöglegt hér en látið afskiptalaust). Yfirvöld hafa ekki afskipti af þessum mönnum heldur einblína á mótmælendur og skuldara, sbr fréttina um fjöldahandtökurnar í Árnessýslu.

Ísland bezt í heimi er sem sagt staðurinn þar sem siðblindan er algjör í viðskiptum, það er látið óáreitt af yfirvöldum en fólk með réttlætiskennd sem mótmælir ástandinu er handtekið... Öfugsnúið eins og svo margt annað. Ríkisstjórnin á að hafa vit á að segja af sér og hér á að mynda neyðarstjórn. Það átti að gera strax í október. Þá eigum við sjens á að fá fólk að stjórn sem hefur dug til að taka á málunum og lætur handtaka þá sem það verðskulda.


mbl.is Piparúði og handtökur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Operation World Smudge

Operation WORLD SMUDGE
Help clear the air for a new administration!
 
 
Smudge where you are! Participate from home!

Smudging is a Native American tradition that involves the burning of herbs such as: sage, sweet-grass, tobacco and cedar for the purpose of purification. Join in the WORLD SMUDGE event and smudge your home, office or land on Inauguration Day. Help clear out the old administration and prepare a clear space for change.

**

Tilvalið að „smudga“... fyrir eða eftir mótmæli - þau hefjast kl. 1 fyrir framan alþingi og kostur er ef þau eru hávær

 


Svooo 2007

Það er ekki gaman að fylgjast með því að nota á kreppuna til áframhaldandi mistaka. Í Kastljósinu í kvöld boðaði Sigmundur Davíð, nýji formaður Framsóknarflokksins, nýja tíma. Hann styður 2 ný álver með þeim rökum að nú sé kreppa og þá... já þá bara verðum við að byggja álver. Í viðskiptafræðinni lærði ég að stærstu mistökin eru yfirleitt gerð á góðum tímum, í góðæri sem sagt. Það er þá sem fólk verður kærulaust og hugsar ekki nógu vel um fjöreggið. Álvershugmyndirnar kviknuðu eiginlega í blöndu af kreppu og góðæri. Kreppu á landsbyggðinni og góðæri í höfuðborginni. Síðast en ekki síst - í góðæri hjá auðvaldinu. Nú á að nota kreppuna sem ástæðu til að byggja álver - fá fólk sem ekki myndi samþykkja álver ef atvinna og valkostir væru til staðar til að segja já svo auðvaldið geti grætt og flutt hagnaðinn úr landi. Það er hvorki skynsemi né vit í því að slátra mjólkurkúnni.

Það skynsamlegasta sem við getum gert núna er að fjárfesta í störfum sem byggja á starfsfólki. Þó svo að álver geti við fyrstu sýn virst mannaflsfrek því það þarf slatta af fólki til að byggja þau þá er það samt ekki raunin í reynd. Þó nokkuð stór hluti af fjármagninu fer í efni, tæki o.s.frv. þannig að fjárfestingin er ekki mannaflsfrek í raun. Það væri hægt að skapa mun fleiri störf fyrir mun minni pening - þar sem peningurinn færi að mestu í launakostnað en ekki vélar... Við megum heldur ekki við meiri skuldsetningu auk þess sem það er ekki skynsamlegt að setja öll eggin í eina körfu. Þrjú álver er yfirdrifið fyrir lítið 300 þús manna land. Fimm álver er algjört overkill - sérstaklega fyrir þjóð sem vill státa sig af hreinu og fögru landi.

Eitt af því sem við verðum bráðnauðsynlega að læra af kreppunni er að það er ekki bæði hægt að halda og sleppa. Við þurfum líka að læra að það þarf að vera innistæða fyrir stóru orðunum. Ímynd án innihalds er svoooooo 2007, eins og sagt er. Við getum ekki bæði verið hreint og fagurt land og stóriðjuland. Við þurfum að velja annaðhvort. Til framtíðar er fyrri kosturinn án efa betri og þó ég sé ekki með smáatriðin á hreinu þá er ég alveg viss um að hann sé líka betri út frá skammtímahagsmunum. Við þolum ekki meiri lántöku og hvað þá svona áhættusama og stórtæka lántöku. Við eigum ekki að leggja landið að veði í kreppunni, sumt veðsetur maður hreinlega ekki. Sú áhættusækni sem einkenndi útrásina og gróðærið er eitthvað sem við ættum að kveðja fyrir fullt og allt. Okkur væri nær að setja fjármagnið í mörg lítil fyrirtæki og skapa þannig atvinnu. Slík fyrirtæki eru mun betri fjárfesting og þar með aukast líkurnar á því að við dettum niður á eitthvað sniðugt til framtíðar. 

Við státum okkur af kjarki, þori og dugnaði. Við státum okkur af vinnusemi, útsjónarsemi og ýmsu fleiru. Nú er akkúrat rétti tíminn til að hafa kjark og þor til að segja bless við þetta gamla „góða“ sem við þekkjum svo vel og halda inn á nýjar brautir. Endurvinnsla er fín hugmynd fyrir framtíðina af umhverfisástæðum. Það sem er endurunnið má nýta til að skapa eitthvað nýtt. Það að dressa gamlar hugmyndir í ný jakkaföt og segja að það sé nýtt er hvorki nýsköpun né endurvinnsla. Það er einfaldlega sama gamla tóbakið. 


Ekki fótboltamót

Í dag sem aðra laugardaga verða mótmæli á Austurvelli kl. 3. Ég vona að mætingin verði góð. Í mínum huga snúast laugardagsmótmælin um samstöðu - að ólíkir hópast sameinist í friðsamlegum mótmælum og sýni þannig að okkur er ekki sama og hvaða kraftur býr í fjöldanum. Í dag verða Svanfríður Anna Lárusdóttir og Gylfi Magnússon með ræður. Ég hlakka til að heyra hvað þau segja.

Ástþór Magnússon er ekki alveg á sama máli. Nú hefur hann skipulagt fund á Austurvelli á sama tíma. Hann er eitthvað ósáttur við að fá ekki að tala á þessum fundum og kemur því með hefndaraðgerð. Reyndar er hálf spaugilegt að sjá slagorðið hans, vitnun í Jón forseta um „sameinaðir stöndum við - sundraðir föllum vér“ því augljóslega og grímulaust er Ástþór að stuðla að sundrungu - og þar með falli skv hans eigin slagorði. Ef Ástþóri er svona mikið í mun að tjá sig og stuðla að sameiningu þá er honum í lófa lagið að halda sinn fund annað hvort beint á undan eða beint á eftir fundi Radda fólksins. Sennilega veit hann þó sem er að fólk lítur ekki á hann sem sameiningartákn og það er því hræðslan sem knýr hann til að halda fundinn á sama tíma og hinn... svona eins og að fyrst hann nái ekki samstöðunni þá megi enginn annar ná henni heldur... þess vegna kýs hann að tala ofan í aðra. Annars er fleira spaugilegt í yfirlýsingunni - eins og að hópurinn tengist hvorki Herði Torfa né Vinstri grænum... 2 helstu grýlurnar í samfélaginu í dag. Ég hef reyndar ekki heyrt Hörð notaðan sem grýlu áður en VG stimpillinn er óspart settur á allt sem ekki er skilyrðislaus hlýðni við yfirvaldið. VG er til dæmis notuð sem grýla til að fæla konur frá Neyðarstjórn kvenna, hef heyrt að konur í öðrum flokkum en VG sé sagt að þær eigi ekkert að láta sjá sig þar því þetta sé VG... Ég verð líka að fara að hlera hvað er þá sagt í VG - hvort þar sé konum sagt að þetta sé Samfylkingin eða Sjálfstæðisflokkurinn - nú eða Frjálslyndi! Sjálf er ég óspart sett í VG við ýmis tækifæri þrátt fyrir ítrekaðar opinberar yfirlýsingar um að vera þverpólitísk.

Það sem er umhugsunarvert hér er hvort fólk hlustar bara á aðra svo framarlega sem það er í ákveðnum stjórnmálaflokki eða sé ekki í ákveðnum flokki? Einnig hvort það útiloki að fólk sé sammála því sem sagt er af viti ef sú manneskja sem segir orðin er í flokki sem er viðkomandi ekki þóknanlegur? Og er útilokað að fólk með mismunandi stjórnmálaskoðanir geti unnið saman að sameiginlegum markmiðum? (og hér má ég til með að bæta við að ég hef góða reynslu úr FÍ um samstarf kvenna og karla úr mismunandi flokkum þannig að þetta er alveg hægt og meira að segja ekkert mál þegar fólk er ekki of upptekið af því að það spili með ákveðnu liði og þetta sé allt eitt allsherjar fótboltamót...).

Hvað um það... Vonandi sýnum við samstöðu um að mótmæla ástandinu - burtséð frá því hvort við séum sammála um aðferðir og baráttumál að öðru leyti. Sjáumst á Austurvelli.


Jafnrétti - lykillinn að uppbyggingu til framtíðar

Hildur Jónsdóttir formaður Jafnréttisráðs sagði í lokaorðum sínum á Jafnréttisþinginu í dag að Steinunn Gyðu og Guðjónsdóttir ætti setningu þingsins. Steinunn var í pallborði þar sem spurt var „Hvernig tryggjum við jafnrétti í uppbyggingu til framtíðar?" Steinunn svaraði þessu með því að segja að spurningin ætti frekar að vera „Hvernig stöndum við að uppbyggingu til framtíðar?“ og svarið væri „með jafnrétti“. Ég er sammála þeim báðum. Lykillinn að góðu samfélagi felst í jafnrétti og ég er sammála Hildi í því að þessi setning stóð upp úr eftir þingið.

Í dag var sem sagt haldið hið fræga jafnréttisþing. Fyrsta mál á dagskrá eftir hrun var að fresta þinginu, það átti að vera 7. nóvember á síðasta ári. Neyðarstjórn kvenna varð til m.a. út af þessari ákvörðun. Við fjórar sem komum henni á laggirnar hittumst upphaflega til að ræða hvernig við ættum að bregðast við frestuninni. Við vissum nefnilega sem var að það mikilvægasta sem við þurfum til að byggja hér upp gott samfélag til framtíðar er jafnrétti. Að mínu mati voru það stór mistök að fresta þinginu, sérstaklega á þeim forsendum sem það var gert - að það fólk sem ætti að mæta hefði öðrum mikilvægari hnöppum að hneppa. En það þýðir víst ekki að sýta hið liðna svo snúum okkur aftur til dagsins í dag - eða næstum því. Fyrst jafnréttisþinginu var frestað á sínum tíma bjóst ég við að dagskráin bæri keim af því ástandi sem við búum við í dag, þ.e. kreppunni. Allt breytist í kreppu og kreppa hefur heilmikil áhrif á jafnrétti - til hins verra. Því miður tók dagskráin ekki nægjanlegt tillit til þessa. Aðeins ein málstofa var á dagskrá sem beinlínis tók á kreppunni. Það sem stóð upp úr af dagskrárliðum var án efa erindi Kristínar Ástgeirsdóttur framkvæmdastýru Jafnréttisstofu. Kristín er ekki aðeins viskubrunnur heldur einnig mikill reynslubolti og ræða hennar bar þess vott. Ræða hennar tók á ýmsum þáttum jafnréttis, líka í kreppu og fór líka yfir söguna. Það er ýmislegt sem við getum lært af henni. Vona að ræðan birtist á netinu innan tíðar því hún getur nýst okkur vel í leit að lausnum út úr kreppunni. 

Ég saknaði þess sárt að sjá ekki dr. Þorgerði Einarsdóttur dósent í kynjafræði við HÍ á dagskránni. Allir sem hafa þó ekki sé nema oggulítið vit á jafnréttismálum vita að þekking og fræðsla eru lykilatriði í jafnréttismálum. Stjórnvöld hafa lengi verið gagnrýnd fyrir að gefa skít í þá þekkingu. Nú er í það minnsta komið inn í opinbera stefnumótun að gera eigi fræðslu hátt undir höfði og gera kröfu um sérfræðiþekkingu í jafnréttismálum. Það skýtur því skökku við að okkar helsta fræðimanneskja í þessum málaflokki er ekki með erindi á þinginu. Hins vegar voru 2 karlar úr atvinnulífinu með erindi og erindi gesta voru aðeins fjögur. Karlar úr atvinnulífinu fengu því helming af ræðunum (erlendur karlkyns sérfræðingur fékk 1 og Kristín Ástgeirsdóttir 1 - ég tel erindi Jóhönnu ekki með hér því hún er ráðherra og þetta er hennar þing - hitt voru gestir). Karlarnir 2 voru Þórólfur Árnason hjá Skýrr og Ólafur Stephensen ritstjóri Morgunblaðsins. Ég geri ráð fyrir að Þórólfi hafi verið boðið vegna þess að hann er einn af fáum karlkyns stjórnendum sem tala um að það séu lélegir stjórnunarhættir að ráða ekki konur í æðstu stöður. Hann átti nokkra ágæta punkta í sinni ræðu en honum vantar sárlega að fá betri kynjafræðifræðslu því hann fellur í fjölmargar gildrur feðraveldisins (sem er pen leið til að segja að þegar ræðan hans er orðræðugreind þá er þar að finna margskonar karlrembu sem einkennt hefur opinbera umræðu of lengi...). Þórólfur má eiga það að hann er fyrirtaks sölumaður og skemmtilegur ræðumaður en hann fer líka einfaldar leiðir - hann taldi t.d. upp þá kosti sem prýða fyrirmyndarfyrirtækið og þar á meðal var að vera með vel menntað starfsfólk í hálaunuðum störfum. Gallinn á þessu er að þetta á ekki við um öll fyrirtæki. Taka þarf tillit til margbreytilegra þarfa samfélagsins og lykillinn ætti auðvitað að vera sanngjörn laun fyrir sanngjarnt framlag í stað háu launanna, sérstaklega nú þegar ósanngjörn og sjálftekin ofurlaun eru á allra vörum. Þetta var bara eitt dæmi en þau eru fleiri. Hann þarf sem sagt aðeins að slípa til fyrirlesturinn sinn. 

Ólafur Stephensen var ágætur. Sérstaklega líkaði mér að hann fjallaði um líkindin í útrásarvíkingarímyndinni og karlmennskuímyndar, sem hann sagði hafa keyrt okkur út í skurð. Ég hef einmitt saknað þess hversu lítið hefur verið fjallað um þátt karlmennskuímyndar í hruninu því hvað eru útrásarvíkingarnir að elta annað en skaðlegar karlmennskuímyndir? Sömu sögu má segja um bankamennina og hina ýmsu stjórnmálamenn. Karlmennskuímynd sem byggir á áhættusækni, græðgi, stéttskiptingu og fleiru. Ólafur líkti víkingunum við sjóræningja og það er ekki fjarri lagi. Hvað voru víkingarnir annað en ræningjar og nauðgarar? (svona þegar fólk fer að líta fram hjá glamúrímyndinni sem búin var til í kringum þessa arfleifð okkar?) Síðan fjallaði hann mikið um feðraorlof en þar er ekki um ný sannindi að ræða þó það hafi verið ágætt líka. En, og það er alltaf en... hafa ber í huga að þó Ólafur hafi sagt að þeir karlarnir væru ekki allir útrásarvíkingar þá er ágætt að halda því til haga að Morgunblaðið er síst þekkt fyrir að vera jafnréttisfyrirtæki og á það við bæði um sem vinnustaður og sem fjölmiðill.

Ég verð því að segja eins og er að áherslan í dagskránni fannst mér á skjön við bæði þarfir og þekkingu í dag. Þórólfi hefði auðveldlega mátt skipta út fyrir Þorgerði Einarsdóttur sem hefði átt mun meira erindi. Ég læt erindi erlenda sérfræðingsins liggja á milli hluta þar sem ég mætti í því miðju en get ekki varist þeirri hugsun að ég hefði verið áhugasamari um að fá erlendan sérfræðing sem hefði getað fjallað um reynslu síns lands af kreppu og hvað þarf að gera til að jafnréttið fari ekki til fjandans... 

Eftir hádegi var pallborðið, eða heyrslan eins og það var kallað, málstofur og pallborð með fulltrúum stjórnmálaflokkanna. Heyrslan hefði mátt vera róttækari. Þau sem voru í pallborði fengu heila (!!!) mínútu til að segja hvað þeim finndist að ætti að gera til að tryggja hér jafnrétti til framtíðar. Áberandi munur var á fólki varðandi þekkingu og það er óskaplega pirrandi að hlusta á fólk státa sig af verkum sem eru bara hreinlega ekki til fyrirmyndar. Þannig voru bæði Gylfi frá ASÍ og Hrafnhildur frá SA alls ekki með á nótunum. Verkalýðshreyfingin hefur alls ekki staðið sig í stykkinu eins og sést á fáránlegum launamun kynjanna hér á landi - sem er mun meiri hér en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. SA getur heldur ekki montað sig mikið... Tilgangurinn er væntanlega að leyfa röddum frá sem flestum áttum að heyrast svo ég ætla ekki að kvarta mikið meira yfir þessu en sný mér að málstofunum í staðinn. Ég komst að því í minni málstofu að skv jafnréttislögum ber að hafa umræðu á jafnréttisþinginu til hliðsjónar við gerð framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Miðað við það hefði verið sniðugt að hafa nokkurs konar vinnustofur þar sem þátttakendur á þinginu gætu látið rödd sína heyrast - umræður á málstofunum voru of stuttar til að 500 þátttakendur í 6 málstofum gætu komið sínu á framfæri. Ég veit þó ekki hvað gert var ráð fyrir í upphafi að margir sæktu ráðstefnuna en finnst líklegt að þátttaka hafi verið framar vonum og dagskráin miðuð við það. Erindin í minni málstofu (sem fjallaði akkúrat um kreppu) voru fín. Hildur Jóns upplýsti okkur síðan um það í lok ráðstefnunar að við hefðum tækifæri til að senda hugmyndir til hennar eftir ráðstefnuna og það finnst mér frábært og vil hrósa mikið fyrir það, þ.e.a.s. ef tillögurnar verða teknar alvarlega og rata inn í framkvæmdaáætlun! ;)

Um pallborðið með stjórnmálamönnunum er ekki mikið að segja. Dagskráin var þétt og reynt að smella öllu inn á einum degi. Pallborðið var stutt og lítill tími til spurninga. Ég græddi ekkert á því en velti fyrir mér eftir það hvort Guðlaugur Þór viti hvað austurríska leiðin er?

Á heildina litið þá er ég ánægð með að hið lögbundna jafnréttisþing var haldið fyrir rest. Dagskráin var þó full karlmiðuð í stað þess að vera þekkingarmiðuð. Meiri tími hefði mátt vera fyrir umræður og ráðstefnan hefði þurft að vera kraftmeiri og róttækari ef ég hefði átt að labba þaðan út með þá von að stjórnvöld fari loks að snúa við blaðinu og láta verkin tala þegar kemur að jafnréttismálum. Einhver sagði í erindi sínu að við hefðum ekki efni á að vera ekki með jafnrétti. Þjóðin áttar sig vonandi fyrr en síðar á því að eitt af því sem kynjamisréttið hefur kostað okkur er þessi hræðilega staða sem við erum í núna. Ef hér hefði ríkt alvöru jafnrétti væri staðan ekki svona. Jafnrétti fylgir hugmyndafræði sem byggir á réttlæti, virðingu, margbreytileika, sanngirni, jöfnum tækifærum og ótal margt fleira. Jafnrétti er eitthvað sem við höfum aldrei upplifað í íslensku samfélagi en við getum vonað og barist fyrir því að það sé eitthvað sem komandi kynslóðir kynnist á endanum. 


mbl.is Launamisréttið bitnar á körlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland er í Evrópu

Mál málanna núna er „vel meint“ aðvörun um fólki sé hollast að halda sig á mottunni ef það vill hljóta frama á opinberum vettvangi. Ég velti samt fyrir mér af hverju þetta vekur þessa miklu athygli. Vitum við ekki öll að þetta er satt? Vitum við ekki öll að þetta er hluti af vandamálinu? Höfum við ekki vitað það lengi? Vitum við ekki að hér er embættismannakerfi sem byggt er upp á tengslum (hvort sem það eru pólitísk tengsl, vinatengsl, fjölskyldutengsl eða kynjatengsl) og hlýðni við ríkjandi valdhafa hverju sinni? Í mínum huga voru þessi „vel meintu“ varnaðarorð bara að segja hið augljósa upphátt, svona eins og ISG hefði hringt í vinkonu sína til að segja henni að Ísland væri í Evrópu. Hér er ekki virkt lýðræði einmitt að hluta til vegna þess að fólk þorir ekki að gagnrýna opinberlega eða takast á við kerfið því það veit að því verður refsað á einn hátt eða annan - t.d. með því að útiloka það frá störfum. Símtal frá utanríkisráðherra er engin sérstök opinberun í þeim efnum.


Getuleysi

Ein vísbendingin um að ekki sé verið að taka þetta nógu föstum tökum er að enginn hefur verið látinn sæta ábyrgð. Það er alveg ljóst að þau sem eru nú við störf eru ekki fær um að takast á við stór og krefjandi verkefni - annars hefði verið griptið til fyrirbyggjandi aðgerða fyrir kreppu en ekki eftir á. Aðgerðarleysi eftir kreppu segir sína sögu. Það er því alveg ljóst að það þarf að láta þessar „linkindur“ fara og setja inn í staðinn fólk sem er ekki hrætt við að axla ábyrgð. Fólk sem getur látið þau sem eiga að sæta ábyrgð axla þá ábyrgð og sýn dug í að taka á málunum á hátt sem kemur þjóðinni til góða. Enn sem komið er eru valdhafar á fullu að tryggja hagsmuni þeirra sem komu okkur á hausinn, þ.e. hagsmunni þeirra sjálfra og auðmanna. Þjóðin situr á hakanum. Ef þau væru í alvörunni hæf til að takast á við verkefnið þá væri búið að skipta út bæði stjórn og æðstu stjórnendum Seðlabankans. Forstjóri FME og stjórn hefðu verið látin víkja. Miklu meiri mannabreytingar hefðu orðið í Landsbankanum (og þar hefði Tryggvi Jónsson ekki fengið að vera - hvað þá heldur að koma nálægt Baugsmálum) sem og öðrum bönkum og síðast en ekki síst hefðu í það minnsta nokkrir ráðherrar fengið að taka pokann sig. Það að þetta fólk sitji enn þægilega í sínum sætum sýnir að það er ekki dugur til að taka á málunum. Í staðinn eru skúringakonurnar reknar (í bókstaflegri merkingu) og fólki boðin 70 ára íbúðalán. Þetta heitir á kjarngóðri íslensku gunguháttur, dugleysi og vanmáttur.  Með öðrum orðum - getuleysi til að takast á við vandamálin.
mbl.is Kreppan getur dýpkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsi án ábyrgðar

Ein af möntrum frjálshyggjunnar er að með auknu frelsi komi sjálfkrafa aukin ábyrgð. Nú súpum við seyðið af þessu svokallaða frelsi. Frelsi sem var ekki frelsi í raun heldur miklu frekar frelsi til sjálftöku, siðblindu og ábyrgðaleysis (eða landráða eins og sumir myndu kalla það). Við höfum séð menn taka stöðu gegn krónunni og þar með þjóðinni. Við höfum séð menn skammta sér fáránleg laun og svívirðilega bónusa án þess að blikna, og þeim finnst í alvörunni að þetta sé þeirra réttur af því að „frelsið“ er til staðar.

Við höfum hins vegar ekki séð að þessu aukna frelsi fylgi ábyrgð. Menn hafa ekki axlað þá ábyrgð sem frjálshyggjan sagði að þeir myndu sjálfkrafa gera án laganna. Nú hins vegar bregður svo við að ekkert á að skoða nema ef til vill ef einhver hefur gerst brotlegur við lög. Af hverju ekki að skoða hugmyndafræðina og siðfræðina? Af hverju ekki að skoða lýðræðið og rannsaka aðgerðir þessara manna út frá lögum um landráð? Af hverju ekki að láta menn axla ábyrgð fyrir gjörðir sínar óháð því hvort þær flokkist sem löglegar eða „bara“ siðlausar? Sú hugmyndafræði sem hefur ríkt hér er frjálshyggja og óheftur kapítalismi. Fyrst sú hugmyndafræði gerir út á að nafninu til að ávinningur, áhætta og ábyrgð fari saman þá eigum við að nota það til að kippa hlutunum aftur í lag. Ekki hengja okkur í lagabókstafinn heldur segja við þá sem græddu í óhófi að það hafi verið vegna þess að þeirra hugmyndafræði gekk ekki upp - lögin heftu þá ekki og nú megum við heldur ekki láta lögin hefta okkur í því að taka tilbaka það sem fengið er með siðlausum og óréttlátum hætti. Það er ekkert mál að taka til baka peninga auðmanna sem gátu komið þjóðinni á hausinni í krafti frelsis. Þetta er auðvitað verkefni stjórnvalda... þeirra sömu og létu sjálfstökuna og siðblinduna óáreitta, eða réttara sagt, þeirra sömu og voru í klappliðinu.  

Mæli svo með eftirfarandi lesningu - snilldarræður þarna á ferð:

Ræða Evu Hauksdóttur á Borgarafundi, fimmtudaginn 8. jan

Ræða Lilju Mósesdóttur á Austurvelli, laugardaginn 10. jan.

Hér er líka tengill á þáttinn Okkar í milli í morgun. Þar var Sigríður Ingibjörg í viðtali en hún er eina manneskjan sem hefur axlað ábyrgð á bankahruninu. Það gerði hún með því að segja sig úr stjórn Seðlabankans.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband