Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Hvað er að gerast?

Bíð í ofvæni eftir fréttum um að dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá í síðustu viku verði áfrýjað til hæstaréttar. Ég afber ekki tilhugsunina um að nauðganir verði lögleiddar á Íslandi. Hvað er að gerast? Akkúrat núna hræðir mig sú staðreynd að Ísland er karlaveldi í þeim skilningi að karlmenn eru í meirihluta á þingi, ríkisstjórn og hæstarétti - og í öllum stjórnmálaflokkum. Hvort sem fólki líkar betur eða ver að horfast í augu við það þá mun það verða karlmannsverk að ákveða hvort nauðganir verði lögleiddar hér eða ekki. Það er að segja ef dómnum verður áfrýjað. Vonandi standa þeir undir ábyrgðinni.


Ekki allt í fína í Kína

Í Kína ríkir ekki jafnrétti á milli kynja, frekar en í öðrum heimshlutum. Drengir eru í hærri metum en stúlkur og þess vegna eru þeir eftirsóttari sem einkabarnið. Sums staðar leyfist foreldrum að eignast annað barn ef þau eru svo óheppin að fyrsta barnið er stúlka - eða ef barnið er fatlað. Það er hálfgerð fötlun að eignast stelpu. Ef hjón eru svo óheppin að eignast stelpu glatast ættarnafnið. Stelpurnar giftast nefnilega og taka upp nafn eiginmannsins. Það þykir ekki gott að glata ættarnafninu - þó það þyki í lagi fyrir konur að glata sínu nafni við giftingu. 

Í sumum héruðum í Kína tíðkast að veita vel menntuðu og efnuðu fólki undanþágu frá "eitt barn á mann" reglunni. Stéttskiptingin skiptir því máli í þessu, eins og mörgu öðru. Konur eru neyddar í fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Kvenkyns fóstrum er eytt.

Vegna þess að drengir eru eftirsóknarverðari hefur skapast ójafnvægi í kynjahlutföllum þar sem mun fleiri karlmenn en kvenmenn eru í Kína. Ég hef heyrt tölur allt upp í að á næstu 15 árum verði um 30 milljón fleiri karlar en konur í Kína. Hvað gerist þá í baráttunni um kvonfang? Sumir foreldrar gefa stúlkurnar sínar til ættleiðingar svo þau geti gert aðra tilraun til að eignast strák. Ég las á netinu að stjórnvöld hygðust jafnvel banna ættleiðingar stúlkna úr landi til að tryggja fleiri karlmönnum brúðir. Sel það ekki dýrara en ég keypti það, enda ekki búin að fletta því upp til að staðfesta heimildir...  

Er ekki frá því að ef í Kína væri jafnrétti milli kynja væru vandamálin ekki svona mörg...


mbl.is Barneignalögin skapa spennu á milli stétta í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Ísland...

... með að Beta er hér!

Ekki fór það svo að 07.07.07 skyldi ekki bera með sér gleðifréttir! Smile Til hamingju Beta og öll hin sem komuð að Mýrinni. En ég er nú svo hlutlaus að ég veit alveg að Beta á stóran hlut í þessu... Wink Vá hvað ég er montin - af Betu - ef það skyldi hafa verið eitthvað óljóst!!! 


Í sorg

Það hefur nokkrum sinnum komið fyrir að ég hef skammast mín fyrir að vera Íslendingur. Í dag er einn slíkur dagur. Dagurinn var reyndar afbragðsgóður framan af. Alveg þangað til ég frétti um sýknudóm Héraðsdóms yfir nauðgara. Nú er ég búin að lesa dóminn. Mig langar til að öskra. Allar mínar innilegustu sorgar-, samúðar- og baráttukveðjur til konunnar sem var svo óheppin að þurfa að fara að klósettið á árshátíðinni sinni... sem var svo óheppin að rekast á karlmann sem virðir kynfrelsi og sál kvenna að vettugi... sem var svo óheppin að þetta skyldi gerast árið 2007 þegar dómarar á Íslandi skilja ekki enn hvað nauðgun er... sem var svo óheppin að dómsmálaráðherra var ekki tilbúinn til að ganga skrefi lengra og hlusta á ábendingar um að lagaákvæði þyrfti að orða öðruvísi vegna þess að dómarar sem ekki eru starfi sínu vaxnir myndu hamast við að finna allar mögulegar og ómögulegar ástæður til að sýkna nauðgara - rétt eins og þeir hafa gert síðustu áratugi. Staðreyndin er nefnilega sú að íslenskt réttarkerfi er handónýtt þegar kemur að kynferðisbrotum. Árið 2007. Við búum í fornöld. Við erum ekki upplýst, siðmenntað samfélag. Því miður. Ekki ennþá. Ég veit ekki hvað þarf að gerast til að breyta þessu. Ég hef það stundum á tilfinningunni að íslenskir dómarar séu að ögra fólkinu í landinu og mana það til að taka lögin í sínar eigin hendur. Skilaboðin eru svo skýr dóm eftir dóm eftir dóm eftir dóm. Dómskerfið ætlar sér ekki að dæma nauðgara. Svei mér þá ef ég er ekki tilbúin til að grípa til jafn róttækra aðgerða eins og að horfa á nauðgara... eins og suma hefur dreymt um. 

Góðar fréttir fyrir dr. Gunna

Dr. Gunni ætti að verða hoppandi glaður að komast að því að geirvörturnar á honum eru ekki eins gagnslausar og hann heldur... það er nefnilega hægt að láta karlmenn mjólka. Ekki kann ég aðferðina en þetta hefur verið gert - og mér skilst að hægt sé að gúggla til að fá leiðbeiningarnar. 

Annars er Gísli Hrafn góður sem endranær í Fréttablaðinu í dag. Ég er svo heppin að vera með Gísla í þessu skemmtilega verkefni að hitta krakkana í vinnuskólanum og spjalla við þau um jafnréttismál.

Annað í Fréttablaðinu í dag sem ég hafði gaman af... pistillinn um hvernig fegrunaraðgerðir stuðla að fjölgun á ljótu fólki! W00t


Dagurinn

Vaknaði upp í morgun við þær fréttir að fötluðum ungmennum eru ekki greidd laun fyrir alla þá tíma sem þau inna af hendi. Ég myndi gjarnan vilja fá nánari fréttir af því máli og hvers vegna svo er. Finnst verulega slæmt til þess að hugsa ef ætlast er til að fólk vinni ókeypis bara vegna þess að það býr við fötlun. Fötlun er ekki það sama og skert starfsgeta fyrir öll störf - og á alls ekki að vera ávísun á ókeypis vinnuafl. Það skiptir máli fyrir sjálfsvirðinguna að fá greitt fyrir alla tímana og það er eitthvað sem ætti að vera vitað og viðurkennt á okkar tímum. 

**

Leist mjög vel á pistilinn hans Steingríms J. í Fréttablaðinu. Ánægjulegt að sjá að hlutgerving kvenna er komin inn á fundi Evrópuráðsins sem jafnréttismál. Þýðir vonandi aðgerðir og aukna vitundarvakningu í kjölfarið um að þetta hefur allt áhrif.

**

Óska Landsbankanum í Smáralind til hamingju með jafnréttisviðurkenningu Kópavogsbæjar! Fannst hins vegar hálf skondið að sjá Gunnar Birgisson í púlti af því tilefni... Passar einhvern veginn ekki eftir umfjöllun Ísafoldar og Mannlífs um súlustaðaferðirnar hans. 

**

ps. er einhver sem veit um ofnæmislyf sem kona verður ekki dauðþreytt af? auðvitað væri samt best að fá góð ráð til að losna við þetta yndislega ofnæmi! InLove


Fyrsti bæjarstjórinn

Enginn tími til að blogga í sólinni... en í dag er góður dagur. Ekki endilega bara af því að það er 4. júlí heldur sérstaklega af því að nú eru liðin 50 ár síðan Hulda Jakobsdóttir, fyrst kvenna, varð bæjarstjóri... þar sem einu sinni var gott að búa! Wink

Í rökkrinu

Las viðtal við nýja viðskiptaráðherrann um daginn og sá þar að til stendur að efla réttindi/úrræði neytenda. Eitt af brýnustu málunum þessa dagana eru merkingar á matvæli. Það er algjör skandall að hér skuli vera leyfilegt að selja erfðabreytt matvæli án þess að á það sé minnst á umbúðum. Einnig þyrfti að bæta til muna upplýsingar um meðhöndlun matvæla. Ég heyri reglulega hryllingssögur um t.d. meðhöndlun ávaxta og grænmetis. Ég myndi gjarnan vilja vita meira um matinn og finnst ótækt að neytendur séu, ja segi kannski ekki í algjöru myrkri, en pottþétt í rökkri... varðandi hvað við erum að borða.

Alltaf að hjóla...

Fátt betra á sólbrunnum degi en fara í hjólandi í heimsókn til góðra vina Smile Er að uppgötva ýmsa hluti um landann í gegnum hjólatúrana - eins og þetta tvennt:

1. Ótrúlega margir stúta flöskum á gangstéttum. Sama hvort við erum að hjóla í Grafarholtinu, Mosó, Grafararvogi, Árbæ eða niður í bæ - alls staðar eru glerbrot. Ótrúlegt. 

2. Öllu ánægjulegra er hversu margir bílstjórar stoppa til að hleypa okkur yfir götur. Undantekning ef ekki er stoppað. Áðan brunaði sendibíll áfram... kannski í vinnunni... en um daginn stoppaði strætó! 


Finnst þessi bara nokkuð góð...

Áhugaverður fréttavinkill að nota ástralskar forvarnarauglýsingar sem útgangspunkt. Hugmyndafræði auglýsinganna er þó gjörólík. Ég er t.d. ekki hrifin af áströlsku auglýsingunum sem ganga út þau skilaboð að stærðin skipti öllu máli... og að mikill hraði sé merki um lítil typpi. Fyrst þegar ég sá að verið var að tengja auglýsingarnar saman í fréttinni hélt ég að eitthvað sambærilegt væri upp á teningnum hér. Var fegin að sjá að svo var ekki Smile og hefði reyndar verið hissa ef svo hefði verið því Hvíta húsið hefur síðustu ár gert nokkrar frábærar auglýsingar fyrir Umferðarstofu. Hér er t.d. ein sem er í algjöru uppáhaldi hjá mér.

Með nýju auglýsingunum er verið að tengja saman áhrif umhverfisþátta á hegðun. Loksins. Enginn er eyland og það er skrýtið til þess að hugsa að enn þann dag í dag heldur fólk að við séum ónæm fyrir áreitinu og pressunni í kringum okkur. Ökuníðingum er hampað víða. Nægir að nefna ýmsar bílaauglýsingar sem ganga út á hversu kraftmiklir og hraðskreiðir bílarnir eru, sjónvarpsþætti eins og þá sem sýndir eru á Skjá 1 þessa dagana, hasarmyndir og síðan auðvitað tölvuleikirnir. Auglýsingarnar eru settar upp svipað og tölvuleikur sem breytast síðan í kaldan raunveruleikann, eða réttara sagt, hvernig raunveruleikinn verður kaldur og grár þegar veruleikafirringin er framin í raunveruleikanum.


mbl.is Hraðinn drepur - getuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 332491

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband