Hvað er að gerast?

Bíð í ofvæni eftir fréttum um að dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá í síðustu viku verði áfrýjað til hæstaréttar. Ég afber ekki tilhugsunina um að nauðganir verði lögleiddar á Íslandi. Hvað er að gerast? Akkúrat núna hræðir mig sú staðreynd að Ísland er karlaveldi í þeim skilningi að karlmenn eru í meirihluta á þingi, ríkisstjórn og hæstarétti - og í öllum stjórnmálaflokkum. Hvort sem fólki líkar betur eða ver að horfast í augu við það þá mun það verða karlmannsverk að ákveða hvort nauðganir verði lögleiddar hér eða ekki. Það er að segja ef dómnum verður áfrýjað. Vonandi standa þeir undir ábyrgðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Ég er einmitt núna að horfa á umræður um þetta í Kastljósi og það sem slær mig mest er að HÚN SAGÐI EKKI NEI! En hún sagði bara ekki heldur já... Það er bara horft á það að hún hafnaði manninum ekki, en ekki minnst á það að kona þurfi að veita manni samþykki áður en kynmök hefjast. Þ.e. SEGJA JÁ. Skv. mínum skilningi er þögn sama og höfnun í kynlífi.

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 9.7.2007 kl. 23:54

2 Smámynd: Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

A.m.k. þegar fólk þekkist ekki..

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 9.7.2007 kl. 23:55

3 Smámynd: Þarfagreinir

Hún sagðist reyndar vilja fara, þegar hún hafði áttað sig á því hvað var að gerast, en þá sagðist hinn ákærði 'ekki vera búinn' og reyndi að varna henni útgöngu. Er þetta sumsé ekki ásetningur um nauðgun í augum laganna? Merkilegt að Sveinn Andri skuli alveg sleppa þessu atriði í framburði stelpunnar, þegar hann tekur að sér að verja gjörðir skjólstæðings síns á opinberum vettvangi. Ég minni á að í dómnum er fallist á að framburður stelpunnar sé réttur, enda kemur ekkert fram sem hrekur hann, á meðan framburður hins ákærða er lítið annað en hriplekt hrímald, óstaðfestur af nokkru öðru, á skjön við sönnunargögn og annan vitnisburð í málinu. 

Því meira sem ég skoða þennan dóm, þeim mun bitrari verð ég. Hann er ekkert annað en forkastanlegt rugl; ég er tilbúinn að rökræða það við hvern sem er og skjóta í kaf. 

Þarfagreinir, 10.7.2007 kl. 00:59

4 Smámynd: Þarfagreinir

Annars finnst mér hálfgerður óþarfi hjá þér að vera að pólarísera hlutina svona, Katrín Anna. Ég er til dæmis karlmaður, en ég er algjörlega ósammála þessum dómi og bálreiður yfir slælegri nauðgunarlöggjöf hérlendis. Körlum er ekkert sjálfkrafa síður treystandi en konum til að taka rétta afstöðu í þessum málum; ég minni á að einn dómarinn í málinu er kona. Vissulega er það gilt sjónarmið að það vantar fleiri konur í áhrifastöður, en það er svona huglæg kynjaskipting sem gerir það að verkum að allt of margir líta á feminisma sem tortryggni í garð karla; að einungis konum sé treystandi til að gera ákveðna hluti. Góð löggjöf snýst um gott siðferði, rökrétta hugsun, yfirlegu, og almenna skynsemi - en ekki um kyn.

Þarfagreinir, 10.7.2007 kl. 01:06

5 identicon

Sæl Katrín Anna

Ég er tengdur fórnarlambinu mjög sterkum fjölskylduböndum og þekki hana mjög vel og lenti í að skjóta konu minni, frænku henar niður á neyðarmóttöku til að ver hjá henni og koma henni svo heim. Þetta var einhver sú ömurlegasta nótt sem ég hef upplifað. Ég á tvær ungar dætur, frænkur fórnarlambsins, og ég fyllist viðbjóði og langar helst að gubba þegar ég sé og heyri málflutning Sveins Andra Sveinssonar af þessu máli.

Því spyr ég þig sem einn af okkur mestu kvennréttindaskörungum þessa lands. HVAÐ ER TIL RÁÐA, EF ÞETTA VERÐUR ENDANLEG NIÐURSTAÐA. OG MUNU FEMINNISTAR LÁTA KRÖFTUGLEGA Í SÉR HEYRA. Ég treysti á ykkur

Með bestu kveðju Sigurbrandur

Sigurgbrandur Jakobsson (IP-tala skráð) 10.7.2007 kl. 01:34

6 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Það er nú það Katrín. Áfrýjun! Dómsniðurstaðan byggir á sönnunarmati héraðsdóms. Samkvæmt dómstólalögum getur Hæstiréttur ekki breytt því mati. Sakfelli Hæstiréttur hinsvegar, er það klárt brot á 6. gr. ME.

Svona er þetta.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 10.7.2007 kl. 05:14

7 identicon

Kristján. Hvað ertu eiginlega að meina? Ertu að segja að Hæstiréttur geti ekki snúið við dómi Héraðsdóms? Auðvitað getur hann það, og hefur oft gert.

Guðrún (IP-tala skráð) 10.7.2007 kl. 09:10

8 Smámynd: Sædís Ósk Harðardóttir

Þetta er hræðilegur dómur og ég ætla rétta að vona að þessu verði vísað til hæstaréttar og fái þar rétta meðhöndlun.  Maður verður svo reiður og orðlaus yfir svona löguðu.

Sædís Ósk Harðardóttir, 10.7.2007 kl. 09:10

9 identicon

Það er reyndar minn skilningur Kristján að hér sé fyrst og fremst byggt á því að við túlkun ofbeldishugtaksins hafi dómararnir í héraði komist að þeirri niðurstöðu að sú atburðarás sem þeir telja sannaða (og líta þá heldur til vitnisburðar þolandans) samrýmist ekki þeirra skilningi á ofbeldishugtakinu.

Hæstiréttur getur lagt annan skilning í hugtakið en hérað, og enn fremur getur Hæstiréttur hnekkt sönnunarmati ef hann gerðist svo frjálslegur að hlýða á sönnunarfærslu sjálfur.

Sigríður Vilhjálmsdóttir (IP-tala skráð) 10.7.2007 kl. 09:44

10 identicon

Þarfagreinir. Það er mikilvægt að Kata pólaríseri hlutina, en jafnframt mikilvægt að þú takir henni ekki persónulega.

Það sem hún er að segja er að það eru karlmenn sem munu taka ákvarðanir um þetta mál, þeir settu lögin, þeir dæma og þeir ákveða hvað er rétt og hvað er rangt. Ekki þú - en kynbræður þínir.

Kata er að greina frá þessu til að sýna fram á ósanngirnina í lýðræðisríkinu Íslandi. Að konur hafi ekki völd til að taka á kynbundnu ofbeldi - sem þó bitnar í flestum tilfellum á þeim.

Þú ert skýr strákur og ættir vel erindi í pólítík. Fyrst og fremst þurfum við þó fleiri sterkar konur.

Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 10.7.2007 kl. 09:55

11 Smámynd: Þarfagreinir

Ég þakka hólið, Sóley ...

Ég var ekki að taka þessu sérstaklega persónulega, heldur bara að taka mig sem nærtækt dæmi ... en það er rétt hjá þér að það er munur á kynjunum, og að betra og réttlátara væri ef þessi munur endurspeglaðist betur í stjórnkerfinu. Ég er einn þeirra sem horfir iðulega meira í það sem sameinar fólk en í það sem gerir það ólíkt, en fyrst þú minnist á það, þá er til dæmis sú einfalda staðreynd að konur eru oftast þolendur kynferðisofbeldis nú bara ágætisrök fyrir því að þær eigi að fá meira um það að segja hvernig tekið er á því. Takk fyrir að árétta þetta einfalda atriði.

Þarfagreinir, 10.7.2007 kl. 10:46

12 identicon

Þetta er mjög óvarlega orðaður pistill hjá þér

HH (IP-tala skráð) 10.7.2007 kl. 11:52

13 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

 Úr lögum um meðferð obinberra mála nr. 19/1991 159. gr.

"4. Hæstiréttur getur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu þar fyrir dómi.
5. Nú telur Hæstiréttur líkur fyrir að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls og vitni eða ákærði sem eiga í hlut hafa ekki gefið munnlega skýrslu fyrir Hæstarétti og getur þá Hæstiréttur fellt úr gildi héraðsdóm og meðferð málsins í héraði í þeim mæli að munnleg sönnunarfærsla geti farið þar fram eftir þörfum og leyst verði úr máli á ný."

Svona er þetta. Samt hefur Hæstiréttur farið frjálslega með þetta, en ekki veit ég til að rétturinn hafi breytt sýknu í sekt síðan rétturinn fékk áminningu frá Mannréttindadómstóli Evrópu fyrir slíkt.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 10.7.2007 kl. 12:45

14 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

Já ég vona að þetta mál fari fyrir hæstarétt. Niðurstaðan getur ekki verið þessi dómur, þá eru þolendur nauðgana illa staddir á Íslandi í dag.

Thelma Ásdísardóttir, 10.7.2007 kl. 13:42

15 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Þuríður - já þetta er skelfilegt - eins og það sé réttur karlmanna að ganga að hvaða konu sem er og nauðga - og síðan á ábyrgð kvenna að mótmæla og berjast á móti til að það teljist ekki vera kynlíf. Minnir á hellisbúamyndirnar af körlunum að draga konurnar á hárinu í hellana. Hræðilegt.  

Kristján - það er einmitt hlutverk Hæstaréttar að hafa úrslitavald um hvernig lögin eru túlkuð. Það er nákvæmlega málið hér. Málið snýst um hvort nauðganir verða lögleiddar eða ekki, í lagalegum skilningi og það er Hæstaréttar að skera úr um það.

Þarfagreinir - held að Sóley hafi svarað því sem ég var að meina... eins og staðan er í dag eru karlar með meirihlutavald - því fylgja ekki bara réttindi heldur líka skyldur - og ábyrgð. Staða kynjanna er öðruvísi þegar kemur að kynferðisbrotum og þó það séu fjölmargir karlmenn sem finnst kynferðisofbeldi viðbjóðslegur glæpur þá endurspeglast það ekki í okkar löggjöf eða dómaframkvæmd. Ég er ein af þeim sem er sannfærð um að staðan þar væri öðruvísi ef kynjahlutfall hefði verið jafnara - en er þó á því að það skiptir meira máli að hafa femínista í þessum stöðum heldur en akkúrat hausatalninguna - og því miður hafa verið afar fáir karlkyns femínistar á þingi - mun fleiri kvenkyns femínistar þó ekki sé hægt að segja það um allar þingkonur. En bottom line er að konur eiga allt sitt undir körlum í þessum efnum. Karlar hafa meirihlutavaldið - og þar með verða þeir líka að axla ábyrgðina og það er mjög súrt í broti að horfa upp á að kynin mætast ekki á jafnréttisgrundvelli, hvorki í setningu laganna né dómaframkvæmd.

Sigurbrandur - þú getur treyst því að femínistar munu láta kröftuglega í sér heyra ef þetta verður lokaniðurstaðan. Ekki spurning. Innilegar samúðar- og baráttukveðjur. Varðandi hvað er til ráða - best af öllu væri að fá betra orðalag á umrædda lagagrein. Það er fáránlegt að tengja nauðgun við líkamlegt ofbeldi þegar nauðgunin sjálf er ofbeldi og líkamlegt ofbeldi er í fæstum tilvikum líka til staðar. Hæstiréttur þarf líka að úrskurða í málinu - og á þann veg að nauðganir verði ekki liðnar. Dómarar þurfa greinilega mjög mikla fræðslu um kynferðisofbeldi. Getur vel verið að þeir séu sérfræðingar í lögunum - en greinilega gjörsamlega úti að aka varðandi hvað er nauðgun og hvað ekki. Meðvirkni samfélagsins með kynferðisbrotamönnum þarf líka að minnka. Það ætti að vera sjálfsagt mál að þeir hljóti réttláta refsingu/dóm fyrir sinn glæp. Þolendur þurfa að fá betri stuðning. Skömmin þarf að færast þangað sem hún á heima - á nauðgarann. Margt þarf líka að breysta í viðhorfum - og við þurfum aukið jafnrétti á milli kynja til að geta dregið úr kynferðisglæpum.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 10.7.2007 kl. 15:06

16 identicon

Arngrímur. Það er bara ekki aðalmálið. Katrín er auðvitað að tala hérna heildstætt en ekki í sambandi við eitt einstakt mál. Það er auðvitað vitað að meirihluti dómara eru karlmenn, meirihluti þingmanna og ráðherra eru karlmenn og það eru þessir hópar sem hafa með löggjöf og úrvinnslu á þessum málum að gera. Þótt þú finnir einhverjar konur í þessum hóp þá breytir það ekki kynjaskekkjunni.

Guðrún (IP-tala skráð) 10.7.2007 kl. 16:02

17 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Samfarir undir hótun um ofbeldi eru auðvita nauðgun í réttarskilningi almennings. Ef lögin segja annað þá þarf að breyta þeim.

Andlegt ofbeldi er ekki síður alvarlegt og skemmandi en það líkamlega en einhverra hluta vegna er því sópað undir teppið. Það vantar algerlega áreiðanleg mælitæki á tíðni, grófleika og afleiðingar andlegs ofbeldis – frábært verkefni í doktorsritgerð.

Ég er að leyta að áhugasömum nema sem hefur réttar forsendur og áhuga á að gera þetta að sínu doktorsverkefni hér á Karolinska, gjarna íslenska rannsókn og tengsl við einhvern háskóla á Íslandi.

Ásgeir Rúnar Helgason, 10.7.2007 kl. 17:19

18 identicon

skh. Það er alltaf auðvelt að benda á aðra. Segja öðrum hvað þeir eigi að gera.

Hvernig væri nú að þú gerðir sjálfur eitthvað? Ef þetta mál ofbýður þér svona þá skaltu bara endilega reyna að gera eitthvað sjálfur. Nema þér finnist bara einfaldlega auðveldara að láta aðra sjá um þetta fyrir þig. Og þá er spurning hver er músin ekki satt?

Guðrún (IP-tala skráð) 10.7.2007 kl. 18:43

19 Smámynd: Þarfagreinir

skh; smá athugasemd - það var dæmt samkvæmt gömlu lögunum, þar sem hin nýju höfðu ekki öðlast gildi þegar verknaðurinn var framinn.

Þarfagreinir, 10.7.2007 kl. 19:01

20 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

skh - já ég er að segja að dómararnir séu að túlka lögin rangt og þvert á vilja löggjafans. Ég byggi það á þeirri umræðu sem átti sér stað í kringum breytingar á kynferðisbrotakafla hegningarlaganna varðandi orðalagsbreytingar. Þrátt fyrir að kona hafi samið frumvarpið þá byggir hún það á fyrri kynferðisbrotakafla og heldur orðalaginu svo til óbreyttu hvað varðar þennan lið en útskýrir í greinargerð hvernig túlka beri ofbeldisákvæðið. 

Þó að kona hafi samið breytingarnar þá er frumvarpið lagt fram af dómsmálaráðherra - karlmanni. Þó að konur komi að grundvallarstoðum lýðræðisins þá er ekki hægt að þræta fyrir það að allar samþykktir sem fara í gegn eru háðar því að karlar samþykki þær líka. Karlar eru í meirihluta á þingi, ríkisstjórn og hæstarétti. Það þýðir einfaldlega að þegar til kastanna kemur þá eru allar breytingar háðar því að karlar samþykki þær. Það er ekki ásættanlegt, t.d. í kynferðisbrotamálum þar sem konur eru meirihluti þolenda og karlmenn meirihluti þeirra sem fremja brotin, að kynin skuli ekki sitja jafnt til borðs í að semja lögin og sjá um framkvæmd og dómaframkvæmd þeirra. Svo skil ég ekki þriðju málsgreinina hjá þér þannig að ekki er hægt að svara því...

Það er rétt skilið hjá þér að ég segi að dómaframkvæmdin eins og hún birtist í dómi héraðsdóms "leyfi" nauðganir. Það kemur skýrt fram í dómnum að allt ferlið var gegn vilja þolandans. Með öðrum orðum var brotið gegn kynfrelsi hennar og sjálfsákvörðunarrétti - sem er nauðgun. Ég veit hins vegar ekki hvað þú meinar með að fórnarlambinu sé bannað að fara í lost... því auðvitað er ekki hægt að banna það og verður aldrei raunhæft - dómar eiga að taka mið af hvernig glæpirnir eru framdir en ekki setja ábyrgðina yfir á þolandann. Skiptir engu máli hvort þolandi frýs eða ekki - nauðgun er eftir sem áður nauðgun. Það virðast þessir 3 héraðsdómarar hins vegar hvorki skilja né vita.  

Við þurfum auðvitað ekki að sýna að við séum konur en ekki mýs. Flestir félagar í Femínistafélaginu eru konur. Restin er karlmenn. Engar mýs hafa skráð sig í félagið.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 10.7.2007 kl. 19:08

21 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Já - og auðvitað rétt hjá Þarfagreini að nýju lögin höfðu ekki öðlast gildi þegar nauðgunin er framin. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 10.7.2007 kl. 19:10

22 Smámynd: Svala Jónsdóttir

skh spyr: "Það var kona sem samdi breytingarnar, sem alþingi samþykkti. Hverjum er þá um að kenna? Konunni sem samdi breytingarnar? Alþingismönnum fyrir að samþykkja þær? Eða þessum 2 karlkynsdómurum."

Lög um breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga voru samþykkt 17. mars 2007 og öðluðust þá þegar gildi. Mér sýnist skv. Alþingisvefnum að atkvæðagreiðsla um lögin hafi farið fram rétt fyrir miðnætti laugardagskvöldið 17. mars, en Alþingi var slitið 18. mars.

Atburðurinn á Hótel Sögu átti sér stað aðfaranótt laugardagsins 17. mars sl., þ.e. á föstudagskvöldið. Því hlýtur dómurinn að hafa fallið skv. eldri gerð laganna og breytingin á hegningarlögunum sem var samþykkt rétt um sólarhring EFTIR að árásin átti sér stað spilar þar ekkert inn í.

Svala Jónsdóttir, 10.7.2007 kl. 19:20

23 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

skh! þú birtir ekki greinina alla, en hún breytir ekki því að Hæstiréttur getur ekki sakfellt í þessu máli til þess verður ný sönnunarfærsla að fara fram fyrir sjálfum Hæstarétti sem yrði stórfrétt.

Katrín sem betur fer hefur Hæstiréttur Íslands ekki seinasta orðið, það ástand varði aðeins frá 1920 til 1989 eða 69 ár af 1059.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 10.7.2007 kl. 19:28

24 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Reyndar sé ég ekki að það skipti öllu máli þó að dæmt hafi verið eftir hegningarlögunum fyrir breytingu, því að þannig hljóðaði nauðgunarkafli þeirra:

"

194. gr. [Hver sem með ofbeldi eða hótun um ofbeldi þröngvar manni til holdlegs samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti."

Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun... eða öðrum sambærilegum hætti.

Hvað er það að elta einhvern inn á klósett, ýta inn í klósettklefa, læsa og ýta niður á gólf, annað en ofbeldi í þessum skilningi?

Svala Jónsdóttir, 10.7.2007 kl. 20:59

25 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Orðalagið í nýju og eldri greininni er lítið breytt þannig að út frá þeim skilningi skiptir lagagreinin ekki öllu máli. Hins vegar eru skýringar með "nýju" lögunum sem útskýra vilja löggjafarvaldsins - og ætti að vera ljóst að héraðsdómur var ekki að dæma í takt við hvað á að vera inntak laganna. 

Varðandi að treysta eða treysta ekki karlmönnum fyrir því að setja almennileg lög og sjá um almennilega dómaframkvæmd þá tel ég ekkert því til fyrirstöðu að karlmenn geti sett almennileg lög og séð um almennilega dómaframkvæmd í kynferðisbrotum, sem og öðrum málum. Staðreyndin samt sú að hvorugt er alveg í lagi... og t.d. var það að nauðga meðvitundarlausri konu ekki skilgreint sem nauðgun í lagalegum skilningi fyrr en á þessu ári. Áður hét það misneyting. Hvort helmingshlutfall kvenna myndi breyta öllu þar um þyrfti nú bara að koma í ljós - og við getum komist að því með að jafna kynjahlutföllin. Hver svo sem niðurstaðan úr því yrði þá breytir það því ekki að sjálfstæðar konur vilja ekki vera háðar karlmönnum með allt sitt - og karlaveldi þýðir að konur eru háðar karlmönnum með allt sem fæst í gegn. Það eru engin lög samþykkt nema karlarnir samþykki þau... Það er óásættanlegt, eins og ég hef sagt áður... 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 10.7.2007 kl. 22:29

26 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

ps. með "skiptir lagagreinin ekki öllu máli" á ég við hvort dæmt var eftir nýju eða gömlu lögunum. Hvort lögin eru meingölluð eða ekki fer kannski svolítið eftir því hvort dómsstólar dæma eftir því hver er vilji löggjafarvaldsins með lögunum eða ekki. Ef það er fyrir ofan skilning dómara að mál eins og það sem fjallað er um hér er nauðgun þá þarf greinilega að breyta lögunum. Ég myndi því segja að það þarf að bíða eftir úrskurði Hæstaréttar og ef þeirra túlkun á lögunum gefur til kynna jafn mikla vanhæfni og hjá dómurum héraðsdóms þá þarf klárlega að breyta lögunum. Ef ekki, og ef fleiri dómar falla þar í kjölfarið sem eru fordæmisgefandi og taka mið af hvernig glæpur nauðgun er, þá þurfum við ekki að stressa okkur eins mikið á orðalaginu. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 10.7.2007 kl. 22:36

27 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

ps.ps. Og kannski líka gott að taka fram að karlar geta komið öllum sínum málum í gegn án þess að vera háðir samþykki kvenna á einn né neinn hátt... konurnar eru sem sagt háðar samþykki karla en karlar geta haft hlutina eftir eigin höfði... Jamm... sumir kalla þetta jafnrétti. Ég kalla þetta karlaveldi...

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 10.7.2007 kl. 22:41

28 Smámynd: Sylvía

veit ekki hvad er ad gerast. Karldomarar med issue gagnvart konum kannski??

Sylvía , 11.7.2007 kl. 01:50

29 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Ég hjó eftir einu hjá Sveini Andra í Kastljósinu.  Þar gaf hann sterklega í skyn að maðurinn teldi sig ekki hafa nauðgað konunni því hún sagði ekki afdráttarlaust nei, og hann væri hræddur í varðhaldinu og leiður yfir þessu öllu saman.  Það er gott að hann sér eftir hlutunum en það gerir hann ekki minna sekan.  

Þessi niðurstaða héraðsdóms sýnir enn og aftur að það þarf að endurskoða lögin þannig að nauðgarar sleppi ekki.  Ég er alveg bálreið yfir þessari niðurstöðu en trúi því enn að dómnum verði áfríað  

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 11.7.2007 kl. 10:06

30 identicon

Þakka þér kærlega fyrir svarið Katrín Anna. Mér líst mjög vel á þetta. Það er jú frestur fram að mánaðarmótum til að taka ákvörðun um áfrýunn og verði að henni snýst þetta vonandi við. Það er rétt hjá þér að dómararnir þurfa á kynfræðslu að halda, því þeir virðast ekki gera sér greinarmun á afbrigðilegu kynlífi og eðlilegu. Sama á við um lögfræðinginn sem nú veður um allar jarðir og predikar að það að beita konur ofbeldi við kynmök sé eðlilegt þangað til þeim fer að finnast það sárt. Þá er kannski mál að hætta. Maður veltir því ósjálfrátt fyrir sér hvernig samlíf hans með sínum maka er!!

 Bestu kveðjur og þakkir Sigurbrandur

Sigurbrandur Jakobsson (IP-tala skráð) 11.7.2007 kl. 14:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 332534

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband