Færsluflokkur: Bloggar
9.2.2007 | 11:09
Hvort er markmiðið að börnin séu mjó eða heilbrigð?
Ég get ekki séð að þessi börn þjáist af offitu. Þetta orðalag "offita" er ekki nógu gott orð og því þarf að skipta út. Ef börn hreyfa sig of lítið þá er það vandamál en það er algjör óþarfi að búa til fordóma gagnvart fitu. Þetta er kannski enn eitt dæmið um hversu órökrétt hugsun mannfólksins er. Fitan er þægilegur mælikvarði af því að hún sést. Hún er hins vegar ekki réttur mælikvarði því í raun og veru sést ekki utan á börnum hvort þau séu að hreyfa sig nóg eða ekki. Þau geta verið tágrönn. Sama á við um fullorðna fólkið. Granna fólkið er ekki endilega að borða hollt og hreyfa sig nóg og feita fólkið að borða óhollt og hreyfa sig ekki neitt.
Stór hluti ungra barna er þegar farið að spá of mikið í megrun. Þegar áherslan er á fituna en ekki heilsuna er hætt við að leiðirnar til að losna við (eða forðast) fituna verði óheilsusamlegar. Það þarf því að spá í hvert markmiðið er:
1. Er markmiðið að börnin séu mjó?
2. Er markmiðið að börnin séu heilbrigð?
Ef svarið er nr. 1 - þá er það útlitsdýrkunin sem ræður för en ekki heilsan.
Ef svarið er nr. 2 - þá á orðalagið að endurspegla það. Fréttin ætti þá að snúast um að "Gáfnahjól" væru notað til að tryggja börnum hreyfingu sem er nauðsynleg heilbrigði.
![]() |
Gáfnahjól til höfuðs offitu barna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
8.2.2007 | 20:08
Konur í framboði
Sé að einhverjir hafa verið duglegir að kjósa Geir í skoðanakönnuninni hér til hliðar. Hann rauk alltí einu upp í vinsældum en áður hafði Halla haft öruggan sigur á þá Geir og Jafet. Kosningarnar eru á laugardaginn. Ég vona auðvitað að Halla vinni. Ástæðurnar má lesa á blogginu hans Hrafns Jökulssonar og hjá Silju Báru. Hrafn birtir áhugaverðan lista með rembulegum kommentum um framboð Höllu. Þau byggjast flest á því að Halla er kona. Silja Bára fer síðan yfir áherslur hinna frambjóðendanna í jafnréttismálum...
Halla er einfaldlega besti kandídatinn... það er ekki flóknara en það. Ég er mest hissa á landsliðskonum að hafa ekki flykst fram og stutt Höllu. Hún er eini kandídatinn sem þær geta verið vissar um að fá stuðning frá.
ps. Mér finnst flott þegar konur standa saman - þetta er ég búin að fá frá nokkrum Samfylkingarkonum í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.2.2007 | 14:26
Loksins
Þetta eru einar þær ánægjulegustu fréttir sem birst hafa í langan tíma. Loksins er Ísland að taka sig á. Er enn í fersku minni þegar ég sótti fund fyrir nokkrum árum um málefni innflytjenda. Þar héldu erindi hópur embættismanna um ferlið gagnvart útlendingum sem koma hingað sem flóttamenn. Eftirminnilegast er orðfærið sem var notað en það var eitthvað á þá leið að ef við gætum ekki notað þetta lagaákvæði til að hafna þeim um dvalarleyfi þá gætum við reynt þetta úrræði og þar fram eftir götum. Af orðalaginu var augljóst að "þetta fólk" var ekki velkomið hér.
Þrátt fyrir að hafa setið þennan fund varð ég orðlaus í fyrra þegar umræða hófst í fjölmiðlum um konur sem beittar voru heimilisofbeldi af hálfu maka síns en var neitað um dvalarleyfi. Kerfið reyndist ekki sérlega hjálplegt en tók sig svo að lokum á og nú er komin niðurstaða. Verð þó að segja að mér finnst þetta langur tími. Ég las fréttina um þetta þegar ég var út í Hrísey í sumarfríi síðasta sumar. Ef kerfið gæti verið ögn skilvirkara hefði Julie getað verið úti á vinnumarkaði og staðið á eigin fótum. Ef mig minnir rétt eru fleiri svona mál í vinnslu. Vonandi verða þau afgreidd með hraði - með sömu niðurstöðu og mál Julie.
![]() |
Nú get ég loksins lagt fortíðina að baki og hafið nýtt líf" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.2.2007 | 11:39
Tölvur í staðinn fyrir dómara?
Nú hafa bæði Lögmannafélag Íslands og Dómarafélagið lýst því yfir að þau eru mótfallin myndbirtingu Moggans af hæstaréttardómurum. Ég er enn að reyna að skilja af hverju. Hæstiréttur er æðsta dómsvald okkar og skiptir því gríðarlega miklu máli. Harðar deildur í kringum skipan hæstaréttardómara síðustu ár hafa varla farið fram hjá neinum. Og af hverju ætli það skipti svona miklu máli hverjir veljast í Hæstarétt? Jú, vegna þess að niðurstöður dóma fara eftir þeim dómurum sem þar sitja. Pistillinn minn fyrir Viðskiptablaðið í gær fjallaði um þetta. Þar benti ég á að þau fordæmi sem Hæstiréttur er nú að fara eftir eru tilkomin frá Hæstarétti sjálfum. Löggjafarvaldið úthlutaði dómurum mun rýmri refsiheimildir en dómarar eru að nýta. Persónurnar koma því heilmikið við sögu - enda væri annars ekki þörf á Hæstarétti. Ef dómararnir sjálfir skiptu ekki máli væri hægt að búa til tölvuforrit í stað dómara, mata tölvuna á málsgögnum og ýta á takka til að fá niðurstöðuna.
Vona að Lögmannafélag Íslands og Dómarafélagið átti sig smátt og smátt á því að í Hæstarétti liggur mikið vald - vald sem skiptir máli að vel sé farið með - og að það eru manneskjur á bak við hvern dóm. Það hlýtur að þykja eðlilegt og sjálfsagt að þeir sem fara með eitt æðsta vald þjóðarinnar séu sýnilegir og axli ábyrgð á sínum verkum en séu ekki einhverjar andlitslausar verur á bakvið tjöldin. Mér sýnist þessi afstaða Lögmannafélagsins og Dómarafélagsins vera helst fólgin í því að frýja dómara ábyrgð.
![]() |
Lögmannafélagið harmar myndbirtingu af hæstaréttardómurum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.2.2007 | 01:57
Jæja, spennan búin
Jæja, þá er komið á hreint að Framtíðarlandið fer ekki fram. Ég er búin að bíða spennt eftir niðurstöðunni í allt kvöld. Ég bjóst við að fleiri myndu taka þátt í kosningunni en raun bar vitni. Greinilegt að bara þau "eldheitu" hafa mætt. Áhugavert að sjá hvað var mjótt á munum.
Á heimasíðu Framtíðarlandsins er pistill eftir Ósk Vilhjálmsdóttur. Þar segir hún:
"Það eru skiptar skoðanir um framboð. Svo er einnig innan stjórnar Framtíðarlandsins enda er hún skipuð fjölbreyttum hópi fólks. En það þótti rétt og í anda lýðræðis að kynna þessar framboðshugmyndir fyrir félögum Framtíðarlandsins á opnum fundi í Kornhlöðunni fimmtudaginn fyrsta febrúar og að boða síðan til félagsfundar á Hótel Loftleiðum þar sem félagar fá sjálfir að kjósa hvaða leið þeir vilji fara. Það er ljóst að framboðsleiðin verður ekki farin nema hún hljóti afgerandi stuðning félaga Framtíðarlandsins."
Miðað við kröfu um að 2/3 þurfi að samþykkja framboð, umræðuna undanfarna daga og að skiptar skoðanir eru í stjórninni kemur niðurstaðan ekki á óvart. Nýtt framboð felur í sér áhættu og eðlilegt að sumir séu hræddir við að framboð styrki núverandi stjórn í sessi - þessa sem hefur komið stóriðustefnunni í framkvæmd. Þess vegna hallast ég að því að ef til framboðs hefði komið hefði það þurft að vera hægra megin. Það eru engir valkostir í boði fyrir fólk sem er hægra megin en er á móti stóriðjustefnunni á meðan vinstra fólkið hefur valkosti.
Nú verður fróðlegt að sjá í framhaldinu hvort framboðshópurinn býður sig samt sem áður fram - bara ekki í nafni Framtíðarlandsins. Miðað við alla þá grósku sem er búin að vera í umræðu um ný framboð væri leitt að sjá þau öll detta upp fyrir. Ætli Margrét Sverris verði sú eina sem fer fram með nýjan lista?
![]() |
Fellt á fundi Framtíðarlandsins að bjóða fram til Alþingis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2007 | 13:03
Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin
Það var athyglisverð grein um Ingibjörgu Sólrúnu í Mogganum í dag. Í fyrradag var líka fín grein eftir Ernu Indriðadóttur. Innihald beggja greina er að benda á þá aðför sem hefur verið gegn Ingibjörgu Sólrúnu eftir að hún færði sig yfir í landsmálapólitík.
Mér hefur oft á tíðum virst sem Ingibjörg Sólrún megi varla opna munninn án þess að það sem hún segir sé tekið og snúið á versta veg. Vísvitandi misskilningur er orðalag sem mætti gjarnan kalla margt af því sem sagt er. Nærtækasta dæmið kannski orðin um traustið gagnvart þingflokknum. Árásir og útúrsnúningur eins og þá urðu komu í veg fyrir hreinskilna umræðu um það sem í raun og veru var sagt.
Ég velti því fyrir mér hvaða áhrif svona lagað hefur í raun á veru á stjórnmálamenn. Ég til dæmis gagnrýndi Ingibjörgu fyrir að hafa talað um sterka framboðslista þegar hver karlalistinn á fætur öðrum leit dagsins ljós í prófkjörum. Þá var mér bent á að hún gæti ekki sagt annað um framboðslista í eigin flokki. Ég er reyndar ósammála því. Tel að það sé mjög einfalt að rökstyðja gagnrýni á listann ef stefna flokksins er skýr. Ef flokkurinn segir að það sé mikilvægt að kynin sitji í jöfnum hlutföllum á þingi er hægt að benda á að þrátt fyrir að sterkir kandídatar séu á listanum þá séu listarnir ekki í samræmi við jafnréttishugsjónir eða stefnu flokksins.
Hins vegar er næsta öruggt að ef Ingibjörg hefði valið þá leið sem ég hefði verið sátt við þá hefðu andstæðingar hennar gripið það á lofti og snúið því á versta veg. Enn hefði verið komið í veg fyrir málefnalegu umræðu en hvert tækifæri notað til að koma höggi á Ingibjörgu. Þar sem Ingibjörg á sér langa sögu hjá Reykjavíkurborg og að hafa þar stuðlað að fjölgun kvenna í stjórnunarstörfum finnst mér mjög líklegt að hún sé óánægð með þessi ójöfnu kynjahlutföll á framboðslistum Samfylkingarinnar. Og þá kannski komum við að kjarna málsins - hafa þessar stanslausu árásir á allt sem hún segir þaggandi áhrif á raunverulega og lýðræðislega umræðu um stöðu mála?
Þar sem Ingibjörg er eina konan sem er formaður stjórnmálaflokks á Íslandi er ekki ólíklegt að litið sé á hana sem alvöru ógn - ógn við yfirráð karla og ríkjandi norm. Það virðist allavega vera einhver ótti í loftinu um að hleypa konu upp á dekk. Það kannski útskýrir hvers vegna jafnvel sumir karlmenn innan Samfylkingarinnar virðast vinna markvisst gegn henni - sem er engan veginn flokknum til framdráttar.
Allavega - bara svona smá pæling um stöðu kvenna innan stjórnmála. Konur í stjórnmálum, sérstaklega konur í forystu, eru engan vegin hafnar yfir gagnrýni frekar en aðrir. Hins vegar finnst mér gagnrýnin á Ingibjörgu oft snúast um útúrsnúninga en ekki málefnalega gagnrýni. Það er næstum því hægt að tala um skipulagða aðför gegn henni þar sem öll hjól snúast á eitt. Vonandi fer fólk að átta sig á þessu og leggja eyrun við hlustir á hvað hún er að segja - kannski hægt að orða það þannig að sé ágætt að "hlusta fallega" en ekki í árásargír og reyna að sjá eitthvað út úr orðunum sem hægt er að snúa út úr og rakka niður.
Ég á eftir að lesa bókina Krónprinsessan en mér heyrist á mörgum sem hafa lesið hana að það sé hægt að finna margar samlíkingar þar á milli gagnvart aðförinni að Ingibjörgu og þeim aðförum sem lýst er gegn aðalsöguhetju bókarinnar. Ég held að það sé allavega gott fyrir okkur öll - hvar í flokki sem við stöndum - að standa vörð um málefnin og ræða þau en forðast að falla í þá gildru að gera sérstaka aðför að konum í forystu í stjórnmálum - aðför sem aðrir flokksformenn sleppa við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
7.2.2007 | 11:02
Jafnréttislög í 30 ár
Á föstudaginn verður málþing um jafnréttislögin. Eins og flestir vonandi vita er nú verið að endurskoða jafnréttislögin og vonandi verða gerð á þeim róttækar breytingar. Núgildandi lög eru svo sem ósköp falleg. Vandamálið við þau er að þau eru ekki sérlega róttæk og það eru nánast engin viðurlög við að framfylgja þeim ekki. Stemninginn í kringum lögin er eins og fólki sé í sjálfsvald sett hvort það fylgir þeim eða ekki. Svo verða þau fyrirtaks alibi fyrir suma sem telja að jafnrétti sé náð af því að við höfum jú jafnréttislög og þar með sé jafnrétti tryggt fyrir lögum. Ég hef alltaf lúmskt gaman af þversögnum í umræðunni - þegar Femínistafélagið var að stíga sín fyrstu skref mátti oft lesa á netinu umsagnir hinna og þessa sem töldu ófært að félagið væri að kæra hitt og þetta... Sem félagið, by the way, gerði aldrei. Þversögnin er fólgin í því að rökstyðja að jafnrétti sé náð því við höfum jafnréttislög en vilja svo meina að það sé algjört tabú að kæra þegar lögin eru brotin!
En allavega - það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr fundinum á föstudaginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2007 | 00:39
Boycott = viðskiptaval
Jæja. Þetta er búinn að vera busy dagur. Í dag var síðasti dagurinn í kennslu í LHÍ, síðan fundurinn með MBA nemum og endað á Hittinu.
MBA nemarnir kynntu 4 tillögur til að minnka launamun kynjanna. Sú fyrsta var að setja á laggirnar Jafnréttiseftirlit sem starfaði á svipaðan hátt og Samkeppniseftirlitið. Sú næsta var að verðlauna Jafnréttisfyrirtæki ársins samhliða vali á fyrirtæki ársins hjá VR. Þriðja að afnema launaleynd með lögum og sú fjórða að upplýsa nemendur sem leita til námsráðgjafar HÍ um laun í þeirri starfstétt sem þeir eru að velta fyrir sér. Að auki voru nemendur með 4 aðrar tillögur sem ekki voru kynntar: fræðsla um laun starfa til efstu bekkja grunnskóla, kynjakvóti í stjórnir fyrirtækja og upplýsingar um launamun í ársskýrslur fyrirtækja.
Hvernig væri að koma af stað tilraunaverkefni með því að hrinda öllum þessum hugmyndum í framkvæmd í 5 ár og mæla stöðuna á undan og eftir? Ég er nokkuð viss um að það yrði framför :)
Ég væri svo til í að skrifa langt og ítarlegt innlegg um Hittið. Held samt ég verði að fara að sofa svo þetta verður stutt... Áður en ég byrja - við komum með þá snilldarþýðingu á boycott að kalla það viðskiptaval. Nýyrði sem vonandi festist í sessi og ég ætla að prófa að nota það í textanum.
Páll Ásgeir Davíðsson, lögfræðingur hjá SÞ og stundakennari hjá HR fjallaði um viðskiptaval á gagnrýnu nótunum - þ.e.a.s. fór yfir heildarmyndina í alþjóðlegu samhengi. Við fengum gott sögulegt yfirlit yfir uppruna og hvernig viðskiptaval hefur verið notað, bæði með góðum og slæmum árangri. Mjög fínt innlegg. Ég fór síðan yfir viðskiptaval út frá markaðsstarfi fyrirtækja og einblíndi meira á íslenska markaðinn. Umræður voru fjörugar að venju - og greinilega margir neytendur á fundinum sem standa ráðalausir gagnvart því sem hér er að gerast varðandi auglýsingar og markaðsmál. Við ræddum stöðuna líka þónokkuð út frá einstaklingsaðgerðum vs skipulögðum fjöldaaðgerðum. Niðurstaðan af fundinum var að viðskiptaval væri raunhæfur kostur til að skoða - en að sjálfsögðu ekki nema að undangengnum vandlegum undirbúningi.
Og til að enda aðeins á Fréttablaðinu - nafnið mitt var á 3 stöðum í Fréttablaðinu í dag. Hefur aðeins einu sinni gerst áður og það var eftir 19. júní í fyrra - þegar við máluðum bæinn bleikan. Jóhanna tók viðtal við mig út af Hittinu og skrifaði um það mjög fína frétt. Síðan var sett inn tilkynningin okkar um Hittið og fundinn með MBA nemunum - og svo auðvitað listinn yfir fyrirtækin á svarta listanum mínum sem Jakob Bjarnar skrifaði. Ef Freyr Gígja hefði skrifað um það sem hann hringdi í mig út af í gær hefði ég verið á 4 stöðum í blaðinu - þá hefði kannski verið í lagi að kvarta yfir overflowi...og eins gott að það datt uppfyrir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.2.2007 | 10:55
Hefndin er sæt
Jakob Bjarnar, stórvinur minn á Fréttablaðinu hringdi í mig seinni partinn í gær. "Hefurðu tekið eftir hvað þú ert vinsæl hjá okkur á Fréttablaðinu?" var fyrsta spurningin. "Já, allavega í dag" svaraði ég - enda var hann þriðji blaðamaðurinn sem hringdi í mig í gær frá Fréttablaðinu.
Erindið hans var að forvitnast um hvaða fyrirtæki ég væri með á svörtum lista. Ég sagði honum að Jóhanna hefði nú þegar hringt til að spyrja út í Hittið sem er í kvöld. Jakob vildi nú samt fá að vita hver þessu óláns fyrirtæki væru. Það var svo sem sársaukalaust að telja það upp, krossa svo fingur og vona að Jakobi tækist að koma þessu sómasamlega frá sér - við Jakob eigum okkur nefnilega smá sögu... sem hófst þegar hann skrifaði grein um helstu álitsgjafa þjóðarinnar og taldi þar upp fjöldan allan af karlmönnum, minnir að þeir hafi verið í kringum þrjátíu en engin kona taldist nógu góð á listann. Ég skrifaði pistil í Viðskiptablaðið um þetta í kjölfarið - við litla hrifningu Jakobs Bjarnar.
En nú er hann sem sagt búin að ná að hefna sín - og útkomuna má sjá á öftustu opnu Fréttablaðsins í dag. Fyrst telur hann samviskusamlega upp fyrirtækin sem ég boycotta og svo hleypur hann til og nær í álitsgjafa. Álitsgjafinn er að sjálfsögðu karlkyns enda engin ástæða til að brjóta út af hefðinni...
Karlkyns álitsgjafinn birtist í líki Mikaels Torfasonar. Ég sé fyrir mér í anda hvernig símtalið þeirra á milli hefur farið fram:
JB: Heyrðu Mikael hvað finnst þér nú um að hún Katrín Anna femínisti fer ekki í viðtal við DV og kaupir ekki tímaritin þín af því að þar eru auglýsingar frá Geira klámsjúkdómi?
MT: Ha, Katrín Anna hver? Ég hef ekki hugmynd um hver þessi kona er.
JB: Æ, þú veist, hún er femínisti og notar boycott. Geturðu ekki sagt eitthvað djúsí um það. Ég er á deadline sko, okkur vantar uppfyllingarefni í blaðið.
MT: Já þú meinar. Þú getur sagt að boycott sé betri leið en bókabrennur til að skapa einsleitt samfélag.
***
Í framhaldinu velti ég fyrir mér hver þeirra mælikvarði er á fjölbreytt samfélag? Er það þegar misréttið er allsráðandi? Felst fjölbreytnin í kvenhatri, hommafóbíu og rasisma? Það er kannski málið í samfélagi þar sem allir eiga að líta eins út og allar konur að passa í sama kjólinn...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
5.2.2007 | 23:28
Ertu búin/n að kjósa?
Nú styttist í hina æsispennandi kosningu hjá KSÍ - formannskosninguna! Á vefnum fotbolti.net er skoðanakönnun í gangi - þar getur þú merkt við hvern þú myndir kjósa ef þú hefðir atkvæðisrétt. Ég agitera auðvitað fyrir því að við sýnum Höllu stuðning og kjósum hana - enda er hún langhæfust og mun koma með nýja og ferska sýn inn í KSÍ.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tenglar
Félög og fleira
- Femínistafélag Íslands Uppáhaldsfélagið
- Kynjafræði HÍ
- RIKK
- the f-word
- Bríet
- Kvenréttindafélagið
- Kvennasögusafn
- Femínistafélag Akureyrar
- Ungfemínistar
- Kvennaslóðir
- http://
Í uppáhaldi
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Nota bene
Stopp
Stopp
Spurt er
Bloggvinir
-
konur
-
soley
-
vglilja
-
salvor
-
andreaolafs
-
kristinast
-
thelmaasdisar
-
ingibjorgelsa
-
truno
-
bryndisisfold
-
vefritid
-
poppoli
-
hlynurh
-
margretsverris
-
annapala
-
hafmeyja
-
ugla
-
halla-ksi
-
kamilla
-
ingibjorgstefans
-
feministi
-
stebbifr
-
hrannarb
-
aas
-
bjorkv
-
ibbasig
-
ingo
-
matthildurh
-
emmus
-
svartfugl
-
gattin
-
saedis
-
gurrihar
-
afi
-
kennari
-
eddaagn
-
steindorgretar
-
fanney
-
brisso
-
gudfinnur
-
rungis
-
730
-
killerjoe
-
kosningar
-
id
-
orri
-
kjoneden
-
halkatla
-
vilborgo
-
tommi
-
jenfo
-
tryggvih
-
heiddal
-
almapalma
-
hrafnaspark
-
fletcher
-
klaralitla
-
lauola
-
maple123
-
ruthasdisar
-
alfholl
-
heidathord
-
siggisig
-
kjarninn
-
bjorgvinr
-
ingolfurasgeirjohannesson
-
paul
-
arh
-
bleikaeldingin
-
astamoller
-
bene
-
bergruniris
-
hrolfur
-
hrafnhildurolof
-
temsaman
-
oskvil
-
handsprengja
-
baddinn
-
begga
-
abg
-
elvabjork
-
lks
-
super
-
athena
-
perlaheim
-
thorak
-
hallarut
-
malacai
-
almaogfreyja
-
volcanogirl
-
sabroe
-
astan
-
bjargandiislandi
-
rustikus
-
evags
-
sannleikur
-
zeriaph
-
hildurhelgas
-
drum
-
minos
-
kerla
-
stjaniloga
-
larahanna
-
lotta
-
mariataria
-
manisvans
-
sigurjonsigurdsson
-
joklasol
-
snj
-
saethorhelgi
-
tara
-
toshiki
-
sverdkottur
-
ver-mordingjar
-
tharfagreinir
-
thorsteinnhelgi
-
thuridurbjorg