Færsluflokkur: Bloggar
5.2.2007 | 11:26
Stefnir allt í skemmtilegan morgundag
Á morgun verður Femínistafélagið með sitt mánaðarlega Hitt. Í þetta sinn verður umræðuefnið eitt af mínum uppáhalds - boycott. Eins og allir sem þekkja mig vita er ég þokkalega dugleg að beina viðskiptum mínum frá fyrirtækjum sem mér mislíkar... Hingað til hafa þó ekki verið neinar samræmdar aðgerðir um boycott sem verkfæri til að ná fram auknu jafnrétti.
Umræðan um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og neytendavald er alltaf að verða sterkari og sterkari - sem betur fer. Ég hlakka því mikið til á morgun. Páll Ásgeir Davíðsson lögfræðingur verður með erindi um leiðir, undirbúning og takmarkanir. Ég skírði mitt erindi "hvað ertu að kaupa?".
Hittið er á Bertelstofu, Thorvaldsen - kl. 20 á þriðjudaginn. Aðgangur er ókeypis og öllum opið.
*****
Femínistafélagið er líka með fleira á prjónunum á morgun. MBA nemar unnu verkefni um hvernig á að minnka launamun kynjanna. MBA námið og Femínistafélagið standa sameiginlega fyrir opnu málþingi um launamuninn á morgun. 4 hópar munu kynna tillögur sínar. Sjá hérna. Nemendur í fyrra gerðu samskonar verkefni og þá var líka opið málþing. Ég fór á það sem gestur og það var mjög áhugavert - enda er um að ræða stjórnendur framtíðarinnar og um að gera að kynna sér hvað þau eru að pæla! Fundurinn er kl. 16:30 í stofu 132 Öskju.
Er ekki tilvalið að mæta fyrst á málþingið og skella sér svo á Hitt á eftir?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.2.2007 | 09:38
Hin hliðin á peningnum
Það eru ekki bara konur sem verða fyrir óraunhæfum útlitskröfum. Yfirmáta massaðir karlar eru í tísku hjá ákveðnum hópi - þetta útlit er þó ekki það sem er hampað í tískublöðum karla. Þar eiga þeir vissulega að vera þokkalega skornir en ekki svo massaðir - eru frekar grannvaxnir. En massaða ímyndin er til staðar og hefur verið talað um að bigorexía sæki á stráka. Strákar með bigorexíu sjá sjálfan sig í speglinum sem algjöran væskil (þó sú sé ekki raunin) og allt gengur út á að byggja upp meiri massa.
Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af steranotkuninni. Ég hef fylgst aðeins með fréttum um helgina út af þessu máli og ég veit ekki betur en KRAFT hafi neitað að senda félagsmenn í lyfjapróf. Ástæðan kannski skýr eftir atburði föstudagsins. Afleiðingarnar af steranotkun geta verið geigvænlegar og snerta ekki aðeins þann sem tekur inn sterana. Um helgina hefur verið rætt um hlut stera í ofsaakstri, líkamlegu ofbeldi og nauðgunum.
Útlitsdýrkun í okkar samtíma hefur leitt fátt gott af sér. Við virðumst lifa á einhverjum öfgatímum þar sem fátt er innan skynsamlegra marka. Útlitskröfur á stráka fara sífellt vaxandi og fyrir rest munu þeir sitja í sömu súpunni og konur - enda hafa fyrirtæki uppgötvað að það er líka hægt að selja strákum alls kyns útlitsdót. Sú forsenda byggir auðvitað á því að ná fram þeirri hugsun fyrst að útlit sé gífurlega mikilvægt - síðan þarf að grafa undan sjálfsálitun og búa til gallaðar sjálfsímyndir hjá strákum... eftirleikurinn er svo auðveldur.
Annað mál með sterana er áherslan á afreksíþróttir. Samkeppnisstaðan er að sjálfssögðu ójöfn ef sumir eru á sterum og aðrir ekki. Einnig er leitt að horfa upp á að keppnisandinn sé svo mikill að fólk er til í að leggja líf og limi í hættu til að vera bestur í einhverri keppni... Ég hef hallast að því hin síðustu ár að afreksíþróttir eru ekki heilsusamlegar fyrir líkama og sál. Íþróttir eru kannski hollar - en afreksíþróttir byggja á svo miklu álagi á líkamann að oftar en ekki er hann orðinn slitinn og skaddaður langt fyrir aldur fram.
![]() |
Ný kraftlyfingastjórn í skugga sterahneykslis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
3.2.2007 | 19:41
Hvað er klám?
Einhver spurði hvað er klám? Var að fletta í gömlu prófi sem ég tók í inngangi í kynjafræði og fann þetta svar:
Hvað er klám, hvernig lýsir það sér og hvaða rök setja fræðimenn fram með og á móti því að leyfa eða banna klám? Hver er afstaða feminsta til kláms?
Hvað er klám?
Til eru margar skilgreiningar á klámi en sú sem er hvað mest notuð er skilgreining Diana Russell. Hún hljóðar á eftirfarandi hátt:
Klám tengir kynlíf og/eða kynfæri við niðurlægingu eða misnotkun þannig að það virðist afsaka, styðja eða ýta undir þess konar hegðun.
Erótík er kynferðislega örvandi efni sem er laust við kynjamismunun, kynþáttafordóma og fordóma gegn samkynhneigðum og sett þannig fram að virðing er borin fyrir öllum þeim manneskjum og dýrum sem sýnd eru.
Fólk hefur löngum deilt um hvað er klám og hvað er erótík. Fræg eru orð bankarísks dómara sem sagði eitthvað á þá leið að hann gæti kannski ekki sagt hvað klám væri en hann þekkti það þegar hann sæi það. Klám á sér margar birtingarmyndir. Það sem þeir femínistar sem eru á móti klámi virðast vera sammála um er að klám feli í sér niðurlægingu fyrir konur, að í klámi séu konur hlutgerðar, konur látnar líta út fyrir að njóta kynlífsathafna sem þær njóta í raun og veru ekki, að í klámi sé ofbeldi gegn konum gert sexý. Meirihluti kláms er framleitt fyrir gagnkynhneigða karla. Í klámi birtast völd karla yfir konum, allavega er það látið líta út þannig. Karlinn er ávallt við stjórnvölinn og konan/konurnar tilbúnar til að gera allt sem hann vill. Í klámi er sjónarhóll karlsins alsráðandi (the male gaze). Í klámi birtast einnig oft ýktar myndbirtingar af konum. Algengt er að myndir af konum sé breytt (airbrushed), þær eru með sítt hár, mikið málaðar, langar, málaðar neglur, mjög grannar og með stór brjóst, iðullega sílíkonbrjóst.
Í bók sinni Agains Pornography, The Evidence of Harm, kafla What is Pornography, lýsir Russell niðurstöðum rannsókna sem leiddu í ljós áhrif kláms á konur. Efninu var skipt í 3 flokka:
a) ofbeldisfullt klám
b) klám án ofbeldis (en bar vott um karlrembu og ómennsku)
c) erótískt efni (engin karlremba og ekkert ofbeldi)
Í ljós kom að fyrstu tveir flokkarnir höfðu neikvæð áhrif á líðan kvenna en þriðji flokkurinn jákvæð áhrif.
Hvaða rök setja fræðimenn með og á móti því að banna klám?
Það er ekki nekt og kynlíf sem andstæðingar kláms eru á móti heldur hvernig konur eru sýndar og vegna þeirra áhrifa sem klám hefur á viðhorf karla til kvenna. Russell heldur því fram að klám beinlínis leiði til ofbeldis gegn konum. Hún segir að það séu jafn sterkar sannanir fyrir því að klám leiði til nauðgana eins og að reykingar valdi lungnakrabba (Making the Harm Visible, http://www.echonyc.com/~onissues/russell.htm). Raðmorðinginn Ted Bundy lýsti því hvernig klám leiddi til þess að hann tók upp á því að drepa konur. Hann segist hafa byrjað að horfa á klám og smátt og smátt hafi hann sóst í ofbeldisfyllra efni. Það kom að því að það að horfa á klám var ekki nóg og hann fór að velta fyrir sér hvernig væri að framkvæma ofbeldið í alvörunni. Á meðan sumir telja þetta vera sönnun þess að klám beinlínis setji konur í hættu þá benda önnur sjónarmið á að það gæti líka verið að klám væri notað sem afsökun fyrir að fremja glæpi, þ.e. að skuldinni væri skellt á klámið en ekki sé víst að það hafi leitt til glæpsins. Það eru til frásagnir ofbeldismanna, kvenna og barna sem hafa lýst því hvernig ofbeldismenn hafa sýnt þeim klámfengið efni og síðan framkvæmt það sem var sýnt. T.d. er frásögn frá manni sem sýndi drengjum barnaklám þar sem fullorðin karl var í kynlífsathöfnum með ungum drengjum. Hann notaði þetta efni til að nálgast drengina, auka á sektarkennd þeirra og fá þá til að halda að athafnir hans væru eðlilegar, að aðrir gerðu þetta líka (Pornography: Denegration of Woman or Exploration of Fantasy and Transgression?).
Því er líka haldið fram að klám sé notað sem valdatæki gegn konum. Þannig birtist þrá/þörf karla til að drottna yfir konum í klámi. Einnig er því haldið fram að karlar séu í raun hræddir við konur og völd þeirra. Klámið sé notað til að strípa konur niður í kjötið eitt, hlutgerðar og afmanneskjaðar til að sýna að konur séu ekki ógnandi. Í klámi er karlinn við stjórnvölinn og í klámi klikkar karlinn ekki, hann hefur ómanneskjulegt úthald og það virðist vera sama hvað hann gerir við konur þær njóta þess alltaf. Í klámi er karlinn því hinn fullkomni elskhugi, ef svo má að orði komast. Þetta getur átt að höfða til hræðslu karla um að standa sig ekki í raunveruleikanum, það getur líka gengt því hlutverki að ala á óánægju karla með eigin frammistöðu og gert það að verkum að það er auðveldara fyrir þá að flýja á vit klámsins en að horfast í augu við raunveruleikann. Í grein sem birt var í The Guardian og nefnist Men and Porn er fjallað um áhrif kláms á karla. Það er talað um að karlar sem horfa mikið á klám geti lent í því að eiga í erfiðleikum með að tengjast konum tilfinningaböndum, þeir haldi að konur séu alltaf til í tuskið og að kynlíf snúist um hvað karlar geti gert við konur. Þetta geti síðan tekið karla langan tíma að aflæra þegar þeir átta sig á sannleikanum. Klámið hefur djúpstæð áhrif á færni þeirra í samböndum við konur. Klám getur verið ávanabindandi og klámfengnar ímyndir af konum geta orðið ávanabindandi þannig að karlar verða ófærir um að stunda kynlif nema sjá fyrir sér ímyndir úr klámi. Því fylgir síðan oft sektarkennd og tómleiki. Í greininni í Guardina er vísað í ummæli sem Bill Margold, klámmyndaleikari sagði í viðtali. Þar segir hann að ástæðan fyrir því að hann sé í klámbransanum sé að uppfylla þrá karlmanna sem í kæra sig ekki mikið um konur og vilja sjá karla í klámbransanum ná sér niður á konum sem þeir gátu ekki fengið í uppvexti sínum. Svo að við fáum það yfir andlit konu eða misþyrmum henni kynferðislega: Við erum að hefna okkar fyrir óuppfyllta drauma.
Áhyggjur margra af áhrifum kláms tengjast áhrifum kláms sem kennslutækis barna og unglinga um kynlíf og viðhorf kynjanna til hvors annars. Í greininni Pornography: Denigration of Woman or Exploration of Fantasy and Transgression? er vitnað í Susan Griffin sem heldur því fram að klám hlutgeri konur, sýni konur eins og hvern annan dauðan hlut án sálar sem aðeins sé hægt að elska líkamlega.
Önnur stór ástæða fyrir andstöðu við klám er aðstæður fólks sem situr fyrir/leikur í klámi. Þegar klám er ofbeldisfullt, t.d. sýnir konu sem er með lim í öllum götum (leggöngum, endaþarmi og munni), þá sé verið að beita þá konu raunverulegu ofbeldi. Linda Lovelace, konan sem lék aðalhlutverkið í frægustu klámmynd allra tíma, Deap Throat, skrifaði bók þar sem hún sagði frá því að hún hefði verið beitt miklu ofbeldi af hálfu manns síns, hann hefði neytt hana í vændi og til að leika í klámmyndum. Hann hefði nauðgað henni, ógnað henni með byssu og beitt hana alls kyns hræðilegu ofbeldi. Refsingin sem vofði yfir ef hún ekki gerði eins og henni var sagt gerði það að verkum að hún tók þátt í myndinni.
Fræðimenn sem eru fylgjandi klámi halda því fram að það að banna klám sé ritskoðun og því eigi klám að vera leyfilegt. Önnur rök sem haldið er fram er að klám leiði ekki til ofbeldis, karlar geti jafnvel fengið útrás fyrir ofbeldisþörf með því að neyta kláms. Því er einnig haldið fram að ástæðan fyrir því að konur eru oft á móti klámi sé vegna þess að kynhvöt kvenna hefur verið bæld síðustu aldir. Konur séu aldar upp til að vera góðar stelpur og að þess vegna trúi þær að klám sé slæmt. Þessu til stuðnings er bent á klám sem framleitt hefur verið af konum fyrir konur. Bent er á dæmi um lesbíuklám og að þar komi oft sömu hvatir fram og í klámi sem framleitt er fyrir gagnkynhneigða karla. Þar sé að finna drottnunarklám og jafnvel klám þar sem samkynhneigðir karlar og samkynhneigðar konur séu saman. Þetta sjónarmið segir að klám sé útrás fyrir fantasíur og að konur eigi að vera óhræddar við að kanna kynhvöt sína í gegnum klám. Þeir fræðimenn sem aðhyllast þetta sjónarmið segja þó ekki endilega að allt klám eigi að vera leyfilegt heldur að fólk geti sammælst um að banna ofbeldisfullt klám, barnaklám og dýraklám. Í greininni eru lýsingar á lesbíuklámi (fyrir lesbíur ekki gagnkynhneigða karla sem líta á það sem forleik) þar sem er drottnun eða ofbeldi. Mín skoðun á þessum lýsingum er að sumar þeirra eru ekki til þess fallnar að vekja betri viðbrögð heldur en lýst er sem ástæðum fyrir því að vera á móti klámi.
Hver er afstaða femínista til kláms?
Femínistar eru ekki allir sammála um klám. Á meðan sumir femínistar telja að klám leiði til ofbeldis gegn konum og viðhaldi ójafnrétti í þjóðfélaginu þá eru aðrir femínistar sem eru hlynntir klámi og hvetja konur til að neyta kláms sem part af kynfrelsi. Margir femínistar eru þó sammála um að hvort sem klám sé leyfilegt eða ekki þá vaði nú yfir okkur klámvæðing sem beri að stöðva. Áhersla kvennabaráttu er á það að útrýma klámvæðingunni. Gefa fólki raunverulegt val þannig að hægt sé að velja sig frá klámi. Áhrif klámvæðingarinnar eru orðin það sýnileg í samfélaginu að margir sem ekki kalla sig femínista hafa verulegar áhyggjur. Áhrifa klámvæðingarinnar er farið að gæta hjá börnum og þol samfélagsins virðist alltaf verða meira og meira. Ég held að samfélagið í heild upplifi sig valdalaust gagnvart áhrifum frá klámvæðingunni. Femínistar telja klámvæðinguna vera aðför að kynfrelsi kvenna þar sem konur eru sviptar þeim möguleika að stunda kynlíf á eigin forsendum.
Sumir róttækir femínistar eru á því að konur geti ekki verið í kynferðislegu sambandi við karl án þess að vera kúgaðar. Bara með því að eiga samfarir með karl þýði undirgefni. Konur eru því hvattar til að láta karla eiga sig og vera annaðhvort einar eða í sambandi við aðarar konur. Þetta er full róttækt sjónarmið fyrir mína parta þó svo að ég telji að slík afstaða geti skilað mjög skjótum árangri ef samstaða næst um aðgerðir !
Mín afstaða til kláms er sú að ég er sannfærð um að það sé skaðlegt. Mér finnst grundvallaratriði að klám sé ekki viðurkennt sem partur af neyslu. Forgangsverkefni finnst mér vera að sporna við klámvæðingunni og síðan gegn kláminu sjálfu. Það getur vel verið að hægt sé að framleiða kynlífstengt efni sem ekki hlutgerir manneskjuna en sem virkar fyrir bæði kynin (eða fyrir samkynhneigða, eftir því sem við á). Mín skoðun er þó sú að framleiðsla á slíku efni eigi að vera í höndum fagfólks ekki fagfólks í klámiðnaðinum heldur fagfólks í kynjafræðum, sálfræði, samskiptum kynjanna. Aðilar sem geta framleitt kynlífstengt efni þar sem manneskjan fær að njóta sín og virðing er í hávegum höfð, bæði gagnvart þeim sem að koma og gagnvart kynlífinu sjálfu. Stóra spurningin er hvort að slíkt efni sé ekki nú þegar til í listum en að það hreinlega sé ekki að virka.
Mér finnst það ekki vera sjálfkrafa gæðastimpill á klám þó að það sé framleitt af konum og styð því ekki það sjónarmið að konur eigi bara að skella sér í framleiðslu. Konur eru jafn ólíkar og þær eru margar, þeirra siðferðiskennd er ekkert betri en karla og þær hafa sömu hvatir og karlar. Kynið gefur því ekki til kynna að konur séu sjálfkrafa hæfari til að framleiða klám.
Ég er á því að kynlíf sé það stór partur af lífi fólks að það beri að umgangast það af virðingu. Kynlíf á ekki að nota sem afsökun fyrir útrás á bældum hvötum. Fólk sem starfar í kynlífsiðnaðinum er í raun svipt því að eiga kost á nánum samskiptum við einn aðila í gegnum kynlíf. Kynlífsiðnaðurinn þykir líka ekki eftirsóttur starfsvettvangur og ljóst er að margir starfa þar af nauðung eða út af mansali. Slík er að sjálfsögðu ólíðanlegt og eitthvað verður undan að láta. Annaðhvort þarf að samþykkja kynlífsiðnaðinn sem sjálfsagðan hlut, vega hann til vegs og virðingar þannig að fólk sjái það sem ákjósanlegan starfsvettvang fyrir börn sín þegar þau verða stór, maka, foreldra og aðra ættingja eða þá að það þarf að draga úr eftirspurn. Mér finnst síðari kosturinn vænlegri.
Ég held þó að femínistar og kvennahreyfingar eigi eftir að ræða og rannsaka kynhegðun, kynhvöt og kynlíf mun betur. Kynlíf á ekki að vera tabú í þjóðfélaginu, kynfræðsla þarf að vera mun öflugri en hún er í dag þannig að unglingar læri um kynlíf af fullorðna fólkinu en ekki í gegnum klám. Kynfræðsla á ekki að samanstanda eingöngu af upplýsingum um kynsjúkdóma, getnvaðarvarnir og samfarir. Kynfræðsla þarf að taka á öllum þáttum tilfinningum, hvötum, ást, o.s.frv. Kynfræðsla þarf einnig að kenna unglingum um klám, áhrif þess og til hvaða hvata er verið að höfða. Kenna þarf unglingum að klám og kynlíf eru tveir aðskildir hlutir.
Þrátt fyrir að ein staðalímynd af femínista segi að femínisti sé kynköld kona þá er ég á því að femínisminn hafi mun opnari, víðsýnni og fordómalausari afstöðu til kynlífs heldur en flest önnur hugmyndafræði. Femínisminn berst fyrir kynfrelsi manneskjunnar, réttinum til að stunda kynlíf á eigin forsendum. Femínisminn styður samkynhneigða í sinni réttindabaráttu, bæði til kynlífs, giftingar, barneigna og til að sýna ástúð á almannafæri. Femínisminn viðurkennir mörg, mismunandi fjölskylduform og lífsstíl. Þannig er ekki settur þrýstingur á fólk að ganga í hjónaband eða stunda eingöngu kynlíf innan hjónabands. Mörkin sem femínisminn setur eru þau að virðing, jafnrétti, jafnræði og sjálfræði eigi að einkenna samskipti fólks. Andstaða femínista við klám er því ekki byggð á þröngsýni eða andúð á kynlífi heldur á þeirri kúgun sem klám felur í sér og viðheldur í samfélaginu.
Breytt 28. feb 2007: Setti inn betri þýðingu á skilgreiningu Diana Russell + lét skilgr. á erótík fljóta með...
Bloggar | Breytt 28.2.2007 kl. 12:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
2.2.2007 | 15:59
Segðu svo að kyn skipti ekki máli
Þetta hefði aldrei gerst ef 5 konur hefðu skipað hæstarétt! Það hefur verið hörð barátta í gangi út af kynferðisbrotamálum. Kerfið hefur verið gagnrýnt frá a-ö. Í jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar kveður á um færðslu fyrir dómara um kynferðisbrotamál (ef mig minnir rétt). Greinilegt að sú fræðsla hefur ekki farið fram. Hvað gengur svona mönnum til? Þeir hafa náð það miklum framgangi að þeir sitja í hæstarétti - æðsta dómsvaldi þjóðarinnar og þetta er niðurstaðan? Dóminn má lesa hér: http://www.haestirettur.is/domar?nr=4348
Innleggi breytt: Tók út óviðurkvæmilegt orðalag til að særa ekki blygðunarkennd sumra...
![]() |
Hæstiréttur styttir dóm yfir kynferðisglæpamanni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
2.2.2007 | 15:34
Soldið fyndið
Nýlega var opnuð ný bloggsíða hér á moggablogginu undir heitinu Feministinn. Ég fékk beiðni um að verða bloggvinur - og samþykkti það að sjálfsögðu. Var pínku hugsi yfir því hvort þetta væri alvöru femínisti eða einhver á allt öðrum nótum en ákvað að það kæmi bara í ljós. Játa samt að ég var pínku spæld yfir því að einhver hefði tekið nafnið feministinn því slóðin á heimasíðu Femínistafélagsins er feministinn.is - og hefði verið gaman að hafa möguleikann á moggabloggi með sama nafni. En skítt með það...
Nú er sem sagt komið í ljós að síðueigendur skilgreina sig sem andfemínista. Reyndar segjast þeir aðhyllast stefnu iFeminisma - sem er ein tegund femínisma og þess vegna er and- forskeytið soldið skrýtið. Það sem mér finnst hins vegar alltaf soldið fyndið við ifeminsmann á sér sögu. Þegar Femínistafélagið var stofnað hélt þar ræðu fyrirmyndarfemínisti sem nefndi ýmsa drauma á nafn. Meðal þess sem hún sagði var að hana dreymdi um að ef að einhver nauðgaði konu þá færi hópur kvenna og stæði fyrir utan heimili nauðgarans og starði á hann.
Þetta er auðvitað brjálæðislega róttæk og stórhættuleg aðgerð - að dreyma um að horfa á nauðgara. Enda varð það fljótlega svo að ungir karlmenn sem af einhverjum ástæðum fannst það lýsa mikilli grimmd og óréttlæti í garð nauðgara að horfa á þá fóru í mikla herferð á netinu þar sem þeir úthúðuðu viðkomandi femínista og Femínistafélaginu. Í nafni frelsis var bannað að dreyma um að horfa á nauðgara. Það var of hræðilegt og í staðinn vildu þeir meina að þeir ættu til betri lausn. Lausnin var iFeminist. Þar sem ég er nógu forvitin ákvað ég að tékka á síðunni - og hver var lausnin? Jú, konur áttu einfaldlega að ganga með byssur og ef einhver gerði tilraun til að nauðga þeim átti einfaldlega að skjóta hann!
Ég tek skýrt fram að ég aðyllist ekki ifemínisma.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.2.2007 | 15:05
HÍ og jafnrétti
Fór á fund Í Háskóla Íslands í hádeginu þar sem umræðuefnið var ráðningar hjá stofnuninni - í ljósi þess að kærunefnd jafnréttismála skilaði tvisvar á síðasta áliti þess efnið að Háskólinn hefði gerst brotlegur við jafnréttislög í ráðningu við störf.
Í öðru tilfellinu var um að ræða ráðningu í tölvunarfræði og hinu stærðfræði. Fundurinn í dag var á lögfræðilegu nótunum - farið yfir ferlið, lög og aðferðir. Brynhildur Flóvenz og Eiríkur Tómasson voru bæði með þessi fínu erindi. Það sem kom mér á óvart voru afdráttarlausar yfirlýsingar um að fólk var sammála niðurstöðum kærunefndar og hafði ekkert út á þær að setja faglega. Þetta er þvert á þau skilaboð sem rektor hefur komið með í fjölmiðlum. Hún samþykkti ekki niðurstöðuna heldur ákvað að velja þá leið að gagnrýna kæruaðila. Kristrún Heimis var á fundinum, en hún var einmitt lögfræðingur annarar konunnar sem kærði. Hún benti á mikilvægi þess að kæruleiðin sé opin þeim umsækjendum sem telja á rétti sínum brotið. Þetta er gífurlega mikilvægur punktur. Það er til lítils að hafa jafnréttislög en hafa svo engin úrræði þegar þau eru brotin. Þá verða þau merkingarlaus orð á pappír sem fólk getur valið hvort það fer eftir eða ekki. Að sama skapi er mikilvægt að það fólk sem velur kæruleiðina eigi ekki á hættu að vera hreinlega úthúðað opinberlega af þeim sem eru kærð...
En hvað um það - fundurinn var ágætur og frábært að sjá að fólki innan skólans stendur ekki á sama um niðurstöðu kærunefndar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2007 | 11:59
Hver er þá djöfullinn?
Við getum alltaf treyst á að Putin skandaliseri með reglulegu millibili. Um daginn var hann afskaplega öfundsjúkur út í forseta Ísraels fyrir að hafa nauðgað nokkrum konum... Nú eru það samkynhneigðir sem eru vandamálið. Svo er víst búið að útnefna vændiskonuna sem "verk djöfulsins". Ég fór nú í framhaldi af því að spá í hver skapaði vændiskonuna. Var það ekki kaupandinn?
Ekki að þetta hafi nokkur áhrif á pólitískan feril Pútins... nema síður sé.
![]() |
Pútín segir samkynhneigða í Rússlandi lýðfræðilegt vandamál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.2.2007 | 00:26
Sjáðu
Sumir vilja meina að jafnrétti náist ef konur gera allt eins og karlar. Svar þeirra við klámvæðingunni er að klámvæða karla... svarið við vændi að konur kaupi meira vændi... svarið við ofbeldi - tja ætla ekki út í þá sálma enda vona ég að við getum verið sammála um að útrýma ofbeldinu. Vændi er reyndar ofbeldi ef út í það er farið en samt skiptar skoðanir um leiðir til að útrýma því - eða hvort það beri að útrýma því yfirhöfuð.
En - aftur að kjarna málsins. Konur eru víða hlutgerðar og stillt upp sem "fallegum blómum" - skoðanalausar og undirgefnar. Sumum finnst þetta afskaplega fallegt og sjá ekkert athugavert við þessa helstu birtingarmynd kvenna - og ekki heldur að þetta er allt saman á karllægum forsendum (hvort sem framkvæmdin er í höndum karla eða kvenna). Konum á bara að finnast það sama flott og körlum - engin þörf að taka gagnkynhneigð kvenna með í reikninginn þar, hvað þá heldur margbreytileika.
Sumar konur verða leiðar á þessari einhæfu birtingarmynd kvenna. Ein þeirra tók sig til og ljósmyndaði karla á sama hátt og konur. Afraksturinn og söguna má sjá hér http://www.playtheman.info/. Kannski ágætt fyrir marga að skoða þetta og spá í hvort þeir vilji sjá umhverfi sitt skreytt svona myndum - hvert sem þeir fara, mörgum sinnum á dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.1.2007 | 18:52
Hvað finnst þér?
Ég er stundum að velta fyrir mér þátttöku karla í baráttunni fyrir jafnrétti. Allt í einu fannst mér tilvalið að spyrja einfaldlega hér - kommentakerfið fínt til að taka á móti svörum.
Spurningin er:
Hvert finnst þér að eigi að vera framlag karlmanna til baráttunnar fyrir jafnrétti kynjanna?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
31.1.2007 | 11:42
Ungfrú heimur og SuperGirl
Hvað á þetta dagatal skylt við klámkeppnina á Pravda um helgina? Jú, allt er þetta af sama meiði - bara stigsmunur. Eitt markar veginn og hitt fylgir í kjölfarið.
Blaðið fjallar í dag um superman.is keppnina á Pravda. Endilega kíkið á það. Pistillinn minn í Viðskiptablaðinu fjallar um tengingu á milli dagatalsins og keppninnar á Pravda. Rósa Erlings er með flotta líkingu um tengslin á milli en hún segir á blogginu sínu:
En svona í allri alvöru er mér efst í huga kvennaárið 2005 en í lok þess var ungfrú Ísland sem er í aðalhlutverki á þessu dagatali krýnd ungfrú heimur. Við vorum þrjár sem gagnrýndum opinberlega að forsætisráðherra landsins skildi óska henni til hamingju í nafni íslensku þjóðarinnar. Það voru ekki allir ánægðir með þá gagnrýni okkar ekki einu sinni margar af helstu baráttukonum fyrir kynjajafnrétti í íslensku samfélagi. Þjóðarstoltið er oft sterkara en hugsjónir á borð við femínisma. Við fjölluðum einmitt sérstaklega um staðalmyndir og hættulegar fyrirmyndir fyrir ungar stúlkur á tímum klámvæðingar í gagnrýni okkar.
Ég var ein af þessum 3 sem skrifaði undir skeytið - við mikla vinsældir Ég hef ekki skipt um skoðun. Ef Unnur Birna er á þeirri skoðun að það eigi ekki við hana að halda kjafti og vera sæt (eins og hún hefur lýst yfir í viðtölum) þá vaknar sú spurning hvers vegna hún samþykkir að sitja fáklædd fyrir á dagatali sem selt er fyrir skitna 4 dollara undir þeim formerkjum að þarna sé um "himneska líkama" að ræða. Manneskja með sál skiptir þar engu máli - hvað þá hennar skoðanir. Eru þetta óskafyrirmyndirnar fyrir ungar stúlkur í dag? Eru skilaboðin sem þær eiga að fá að það flottasta sem þær geta gert í lífinu sé að sitja hálfnaktar fyrir á dagatali? Klárlega ef þetta þykja bestu fyrirmyndirnar. Stúlkurnar sem beruðu sig á Pravda gera það í kjölfarið á ofur dýrkun á fáklæddum konum.
Er svo einhver hissa á að kona hafi aldrei verið forsætisráðherra, fjármálaráðherra, biskup eða bankastjóri?
![]() |
Íslenskar fyrirsætur kallaðar "sjóðheitar" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (75)
Tenglar
Félög og fleira
- Femínistafélag Íslands Uppáhaldsfélagið
- Kynjafræði HÍ
- RIKK
- the f-word
- Bríet
- Kvenréttindafélagið
- Kvennasögusafn
- Femínistafélag Akureyrar
- Ungfemínistar
- Kvennaslóðir
- http://
Í uppáhaldi
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Nota bene
Stopp
Stopp
Spurt er
Bloggvinir
-
konur
-
soley
-
vglilja
-
salvor
-
andreaolafs
-
kristinast
-
thelmaasdisar
-
ingibjorgelsa
-
truno
-
bryndisisfold
-
vefritid
-
poppoli
-
hlynurh
-
margretsverris
-
annapala
-
hafmeyja
-
ugla
-
halla-ksi
-
kamilla
-
ingibjorgstefans
-
feministi
-
stebbifr
-
hrannarb
-
aas
-
bjorkv
-
ibbasig
-
ingo
-
matthildurh
-
emmus
-
svartfugl
-
gattin
-
saedis
-
gurrihar
-
afi
-
kennari
-
eddaagn
-
steindorgretar
-
fanney
-
brisso
-
gudfinnur
-
rungis
-
730
-
killerjoe
-
kosningar
-
id
-
orri
-
kjoneden
-
halkatla
-
vilborgo
-
tommi
-
jenfo
-
tryggvih
-
heiddal
-
almapalma
-
hrafnaspark
-
fletcher
-
klaralitla
-
lauola
-
maple123
-
ruthasdisar
-
alfholl
-
heidathord
-
siggisig
-
kjarninn
-
bjorgvinr
-
ingolfurasgeirjohannesson
-
paul
-
arh
-
bleikaeldingin
-
astamoller
-
bene
-
bergruniris
-
hrolfur
-
hrafnhildurolof
-
temsaman
-
oskvil
-
handsprengja
-
baddinn
-
begga
-
abg
-
elvabjork
-
lks
-
super
-
athena
-
perlaheim
-
thorak
-
hallarut
-
malacai
-
almaogfreyja
-
volcanogirl
-
sabroe
-
astan
-
bjargandiislandi
-
rustikus
-
evags
-
sannleikur
-
zeriaph
-
hildurhelgas
-
drum
-
minos
-
kerla
-
stjaniloga
-
larahanna
-
lotta
-
mariataria
-
manisvans
-
sigurjonsigurdsson
-
joklasol
-
snj
-
saethorhelgi
-
tara
-
toshiki
-
sverdkottur
-
ver-mordingjar
-
tharfagreinir
-
thorsteinnhelgi
-
thuridurbjorg