Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin

Það var athyglisverð grein um Ingibjörgu Sólrúnu í Mogganum í dag. Í fyrradag var líka fín grein eftir Ernu Indriðadóttur. Innihald beggja greina er að benda á þá aðför sem hefur verið gegn Ingibjörgu Sólrúnu eftir að hún færði sig yfir í landsmálapólitík. 

Mér hefur oft á tíðum virst sem Ingibjörg Sólrún megi varla opna munninn án þess að það sem hún segir sé tekið og snúið á versta veg. Vísvitandi misskilningur er orðalag sem mætti gjarnan kalla margt af því sem sagt er. Nærtækasta dæmið kannski orðin um traustið gagnvart þingflokknum. Árásir og útúrsnúningur eins og þá urðu komu í veg fyrir hreinskilna umræðu um það sem í raun og veru var sagt.

Ég velti því fyrir mér hvaða áhrif svona lagað hefur í raun á veru á stjórnmálamenn. Ég til dæmis gagnrýndi Ingibjörgu fyrir að hafa talað um sterka framboðslista þegar hver karlalistinn á fætur öðrum leit dagsins ljós í prófkjörum. Þá var mér bent á að hún gæti ekki sagt annað um framboðslista í eigin flokki. Ég er reyndar ósammála því. Tel að það sé mjög einfalt að rökstyðja gagnrýni á listann ef stefna flokksins er skýr. Ef flokkurinn segir að það sé mikilvægt að kynin sitji í jöfnum hlutföllum á þingi er hægt að benda á að þrátt fyrir að sterkir kandídatar séu á listanum þá séu listarnir ekki í samræmi við jafnréttishugsjónir eða stefnu flokksins.

Hins vegar er næsta öruggt að ef Ingibjörg hefði valið þá leið sem ég hefði verið sátt við þá hefðu andstæðingar hennar gripið það á lofti og snúið því á versta veg. Enn hefði verið komið í veg fyrir málefnalegu umræðu en hvert tækifæri notað til að koma höggi á Ingibjörgu. Þar sem Ingibjörg á sér langa sögu hjá Reykjavíkurborg og að hafa þar stuðlað að fjölgun kvenna í stjórnunarstörfum finnst mér mjög líklegt að hún sé óánægð með þessi ójöfnu kynjahlutföll á framboðslistum Samfylkingarinnar. Og þá kannski komum við að kjarna málsins - hafa þessar stanslausu árásir á allt sem hún segir þaggandi áhrif á raunverulega og lýðræðislega umræðu um stöðu mála?

Þar sem Ingibjörg er eina konan sem er formaður stjórnmálaflokks á Íslandi er ekki ólíklegt að litið sé á hana sem alvöru ógn - ógn við yfirráð karla og ríkjandi norm. Það virðist allavega vera einhver ótti í loftinu um að hleypa konu upp á dekk. Það kannski útskýrir hvers vegna jafnvel sumir karlmenn innan Samfylkingarinnar virðast vinna markvisst gegn henni - sem er engan veginn flokknum til framdráttar. 

Allavega - bara svona smá pæling um stöðu kvenna innan stjórnmála. Konur í stjórnmálum, sérstaklega konur í forystu, eru engan vegin hafnar yfir gagnrýni frekar en aðrir. Hins vegar finnst mér gagnrýnin á Ingibjörgu oft snúast um útúrsnúninga en ekki málefnalega gagnrýni. Það er næstum því hægt að tala um skipulagða aðför gegn henni þar sem öll hjól snúast á eitt. Vonandi fer fólk að átta sig á þessu og leggja eyrun við hlustir á hvað hún er að segja - kannski hægt að orða það þannig að sé ágætt að "hlusta fallega" en ekki í árásargír og reyna að sjá eitthvað út úr orðunum sem hægt er að snúa út úr og rakka niður.

Ég á eftir að lesa bókina Krónprinsessan en mér heyrist á mörgum sem hafa lesið hana að það sé hægt að finna margar samlíkingar þar á milli gagnvart aðförinni að Ingibjörgu og þeim aðförum sem lýst er gegn aðalsöguhetju bókarinnar. Ég held að það sé allavega gott fyrir okkur öll - hvar í flokki sem við stöndum - að standa vörð um málefnin og ræða þau en forðast að falla í þá gildru að gera sérstaka aðför að konum í forystu í stjórnmálum - aðför sem aðrir flokksformenn sleppa við. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ásbjörnsson

Hið augljósa er að andstæðingarnir óttast hana mjög.  Sjallarnir hafa tapað fyrir henni í þrígang í Reykjavík.  Þeir beita því óspart svívirðingum og tortryggni til að reyna að rýra traust fólks á henni.  Mér finnst það hins vegar með ólíkindum ef þeir sem hafa notið hennar sem málssvara síns á liðnum árum láta þetta skítkast hafa áhrif á afstöðu sína.

Sigurður Ásbjörnsson, 7.2.2007 kl. 13:18

2 Smámynd: Ingibjörg Stefánsdóttir

Góð grein Katrín Anna.

Ingibjörg Stefánsdóttir, 7.2.2007 kl. 14:15

3 Smámynd: Björg K. Sigurðardóttir

Af hverju kallast það aðför þegar kvenkynsstjórnmálamaður á í hlut, en eitthvað allt annað þegar karlkynsstjórnmálamaður á í hlut?

Greinilegt að Samfylkingin er að reyna að ná sér í samúðaratkvæði fram að kosningum með því að nota orðið "aðför" nógu oft.

Björg K. Sigurðardóttir, 7.2.2007 kl. 15:06

4 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Ég skrifa þessar hugleiðingar ekki sem Samfylkingarkona heldur sem femínisti. Eins og ég sagði þá er hvorki Samfylkingin né IS hafin yfir gagnrýni - en gagnrýni er eitt og aðför er annað. Við megum ekki láta það gerast, enn eina ferðina, að gerð sé aðför að konu í forystu með ómálefnalegum hætti. Pointið hjá mér er ekki að segja fólki að hætta að gagnrýna Sf heldur að hvetja fólk til að passa að gagnrýnin sé byggð á málefnalegum forsendum - og sama látið yfir alla ganga. Ekki taka þátt í þeim leik að grafa undan einu konunni sem er í forystu  bara vegna þess að það myndast einhver "stemning" um það.

Það er með ólíkindum að fylgjast með hvernig orð Ingibjargar eru tekin og snúið í marga hringi og rangtúlkuð með hætti sem ég sé ekki vera að gerast með hina flokksformennina. Þegar sú er staðan er kyn farið að skipta máli - verulegu máli. 

Þessi sandkassaleikur sem er í gangi í kringum flest sem Ingibjörg segir og gerir er hins vegar ekki málefnalegt og einmitt kannski ástæðan fyrir því að sumar konur þola ekki pólitík. Það er full ástæða fyrir alla - sama í hvaða flokki fólk er - til að staldra við og skoða hvort það vilji virkilega stunda svona "pólitík".

Ég geri mér hins vegar alveg grein fyrir því að málið er flókið - og inn í þetta blandast alls kyns önnur málefni. Breytir því samt ekki að svo virðist vera sem skipulögð aðför hafi verið gegn IS síðustu mánuði - sem vonandi fer að snúast við en ég held að það gerist ekki nema um málið sé rætt og tekið á því.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 7.2.2007 kl. 16:01

5 identicon

Ef það hefur verið skipulögð aðför gegn Ingibjörgu Sólrúnu síðustu mánuði þá ætti ekki að vera mikið mál fyrir þig að taka dæmi um gagnrýni sem hún hefur fengið sem er ósanngjörn og ekki í takti við það sem gengur og gerist hjá hinum flokksforingjunum.

Ef þú getur hinsvegar ekki fundið nein dæmi þá er engin aðför í gangi, heldur einungis eðlilegt aðhald við forsvarsmanneskju stjórnmálaflokks.

Jón Sigurður (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 16:39

6 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Get tekið sem dæmi umræðuna eftir að hún talaði um að fólk treysti ekki þingflokki Sf ennþá. Þá var öllu snúið á hvolf. Annað dæmi er þegar IS ákvað að bjóða sig fram til landsmála. Borgarnesræðurnar  eru ágætisdæmi eins og þær leggja sig. Umræður varðandi fylgi Sf og hvernig öllum pakkanum er skellt á IS eru líka umhugsunarefni.

Svo eru önnur dæmi - ekki endilega úr opinberri umræðu. Hef ekki tíma til að fara að grúska og tína til en fólki er frjálst að tína til og setja hér í athugasemdarkerfið :)

Ég sjálf flokkast ekki sem saklaus af því að hafa gagnrýnt IS og Sf. Mun eflaust halda áfram að fjalla um það sem ég tel vera gagnrýnivert - en halda mig innan þeirra marka að fjalla um málefnin og stefnu. Sama gildir um aðra flokka.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 7.2.2007 kl. 18:06

7 Smámynd: Björg K. Sigurðardóttir

Ég er innilega sammála þér Katrín að gagnrýni á stjórnmálafólk og flokka á að vera málefnaleg. Stjórnmálaumræða er bara ekkert alltaf sérstaklega málefnaleg, hvorki í fjölmiðlum, á þingi, né í samtölum fólks út í bæ - alveg sama hvort umræðan beinist gegn stjórnmálakonum eða stjórnmálakörlum. Mér finnst t.d. eins og á meðan Halldór Ásgrímsson var forsætisráðherra þá hafi verið snúið út úr öllu sem hann hafði fram að færa. Ekki er hann kona og ekki man ég eftir að talað hafi verið um "aðför" gegn honum. 

Björg K. Sigurðardóttir, 7.2.2007 kl. 20:42

8 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

hmmmm myndiru þá lika kalla það sem átti sér stað með Davíð Oddsson fyrir síðustu kosningar, aðför vinstri manna að honum Katrín? Því ef það er aðför sem á sér stað í dag að Ingibjörgu þá var það rógsherferð sem átti sér stað þá ef ekki eitthvað verra. Og gert með hjálp Fréttablaðsins í þokkabót, en þá helgaði tilgangurinn meðalið ekki satt.

Guðmundur H. Bragason, 7.2.2007 kl. 20:59

9 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Frábær grein hjá þér. Þessi aðför byrjaði frá Sjálfsstæðismönnum þegar hún var í borginni. Þegar hún fer yfir í landsmálin urðu allir þar á bæ mjög skelkaðir, enda fór fylgi Samfylkingarinnar í könnum í byrjun árs 2003 (þegar ISG var búinn að taka sæti) upp í tæp 40%. Síðan hefur konan ekki mátt opna munninn, þá er allt tekið úr samhengi og snúið á hvolf. Þessi aðför, sem hófst hjá Sjálfsstæðismönnum er nú útbreiddari og gerir það að verkum að Ingibjörg á erfitt uppdráttar, allavega samkv. skoðanakönnunum.

Skrítið ef menn hlusta á Steingrím J og hans blammeringar að þær séu ekki teknar út samhengi og snúið á alla kanta eins og gert er við KONUNA.

Þjóðin hefði gott á að fá konu sem forsætisráðherra og ISG og frábær kandídat í það verkefni.

Eggert Hjelm Herbertsson, 7.2.2007 kl. 22:49

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Voðalega er þetta eitthvað bleik síða.

Jón Valur Jensson, 7.2.2007 kl. 22:50

11 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Björg og Guðmundur: Halldór varð illa úti á tímabili. Þá var hann kominn til valda og orðinn forsætisráðherra þjóðarinnar með ca 10% fylgi á bak við sig. Davíð fékk það líka óþvegið á köflum - þegar hann var forsætisráðherra. Þrátt fyrir að líf karla í pólitík sé ekki dans á rósum breytir það ekki að það er kynjamunur á hvernig komið er fram við fólk í stjórnmálum. Aðförin að Ingibjörgu byrjar áður en hún er komin í forsætisráðherrastólinn - og er að finna bæði utan og innan Sf. Eins og ég sagði, þetta er ekki einfalt mál, enda koma bæði kynjamál, pólitík og mismunandi skoðanir við sögu. Engu að síður er hollt að skoða stöðuna með kynjagleraugun á nefinu.

Jón Valur: Já það er meiri kraftur í bleika litnum en í kókómjólk! 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 8.2.2007 kl. 01:30

12 identicon

ég er algjörlega sammála þér með aðförina að Ingibjörgu Sólrúnu, ég tel að undirróðurinn komi frá Sjálfstæðismönnum.   Það er nokkuð ljóst að þeir hafa alla tíð óttast hana mjög. 

Alveg eins og kynnt er undir rasismastimplinum á Frjálslyndum, þó enginn hafi getað bent á neitt því til stuðnings.  ´

Ég hef sagt það áður og segi það enn, ef við viljum koma þessari ríkisstjórn frá, þá verðum við í stjórnarandstöðunni að fara að ganga í takt.  Leggja áherslu á þau mál sem við eigum sameiginleg og allt það góða sem við viljum gera.  Þannig getum við talað fylgi stjórnarandstæðinga upp, og fengið fólk til að treysta því að við viljum og getum starfað saman af heilindum. 

Það er ömurlegt að horfa upp á menn níða skóinn niður hver af öðrum.  Við verðum að fara að skilja að hér þarf að hugsa stórt og líta yfir einstaka flokkshagsmuni og venda sér í að hugsa um hag heildarinnar þ.e. fólksins í landinu sem þarf á breytingum að halda í vor.  Við sameinuð erum það afl.  Ekki glutra því niður með sundurþykki og rígi. 

Ásthildur Cesil Þórðardottir (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 11:16

13 identicon

Ég skal ekki segja varðandi Ingibjörgu Sólrúnu en ég er algerlega ósammála því aðandmælendum Frjálslynda flokksins sé ómögulegt að benda á sitthvað því til stuðnings að hann er orðinn rasistaflokkur eftir að Hvítt afl kom til sögunnar. Mér finnst það fyrir neðan virðingu vinstriflokkanna að vera í hálfgerðu bandalagi með frjálslyndum og þeir ættu frekar að biðla til Framsóknarflokksins eða Sjálfstæðisflokksins.

hee (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 12:16

14 identicon

Ég held reyndar að Ingibjörg sé eins og svo margir aðrir stjórnmálamenn heima fórnarlamb þessarar eilífu persóngeringu í stjórnmálum heima. Staðreyndin er einfaldlega sú að það er miklu erfiðara að ræða málefnin heldur er persónuna. Þess vegna er öll stjórnmálaumræða heima á þessa leið. Ef ég segi að flugvöllurinn eigi að fara eða að vera, þá er tvennt í stöðunni annaðhvort að ræða kosti og galla þess sem ég segi, eða enfaldlega reina að grafa undan mér og gera mig ótrúverðugan, seinni aðferðin er einfaldari. ( flugvallamálið var dæmi )

Það sem ég er að reyna að segja er að Ingibjörg er ekki endilega að verða verr úti en margir aðrir en hún hefur margoft reynt að ræða málefni og þá er untantekningalaust farið í einhvert skítkast og reynt að sannfæra mann um að ISG sé djöfullinn.  Tuggan helvítis vinstrimenn og kommi er ansi vinsæl.

Ég hvet alla til að skoða aðeins stóru málin í þjóðfélaginu og velta því fyrir sér hvort umræðan um þau hafi einhverntíman náð því að vera annað en skotgrafa hernaður, ég nefni sem dæmi, Skipulagsmál í Reykjavík, Kosning um deiliskipulag í Hafnafirði, Flugvöllurinn í Reykjavík, Innganga Íslands í EU, Gríðarlega háir stýrivextir á íslandi, Krónan sem gjaldmiðill, Baugsmálið og nú nýjasta dæmið Seta forseta í Þróunarráði Indlands. Nærtækast þessari umræðu væri t.d. umræðan um Jafnrétti sem er afgreitt sem eitthvert væl í kellingum og mussukarlmönnum.

Íslensk stjórnmál eru einfaldlega viðbjóðsega ómálefnaleg og heimskuleg oft á tíðum.  Félagar mínir hér úti skemmta sér iðulega konunglega þegar ég segi þeim frá því að fjölmiðlar séu að tapa sér vegna þess að Forsetinn tók setu í Þróunarráði Indlands, eða þegar ég þíði fyrir þá greinar um hvað davíð sé frábær og mikið æði og að allir þeir sem sjái eitthvað skrýtið við það að maðurinn ráði sig í seðlabankann 20 mín eftir að hann var búinn að hækka launin þar séu bara kommar.

 Ég veit að ég virka mjög neikvæður og fúll á þessum ummælum en það er ekki meint þannig, en í alvöru talað næst þegar þið horfið á fréttirnar reynið að sjá hversu mikill tími fer í raunverulega að ræða málið og hversu mikill tími fer í gera andstæðinginn minna trúverðugan.

Atli Þór Fanndal (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 12:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 332501

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband