Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Jörðin er flöt

Það er ánægjulegt að Sjálfstæðisflokkurinn gleymir ekki jafnréttismálum á landsfundinum. Þessi partur finnst mér hins vegar óborganlega fyndinn:

Þess má einnig geta að lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna, sem í daglegu tali nefnast jafnréttislög, sem sett voru árið 2000 var einmitt ætlað að treysta jafnrétti kynjanna í sessi. Það er umdeilt hvort slíkt hafi tekist til fulls.

Umdeilt hvort slíkt hafi tekist til fulls? Það eru sem sagt enn til þeir sem trúa því að jörðin sé flöt! 


mbl.is Vilja breyta skilgreiningu hjónabandsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott mál hjá da Silva - hrista aðeins upp í hlutunum

Einmitt. Það hlaut að koma að því að bent yrði á önnur hugmyndakerfi en eingöngu frjálshyggjuna sem undirliggjandi þætti í efnahagskreppunni. Það er ástæða fyrir því að það er ekki bara varasamt heldur beinlínis stórhættulegt þegar völd safnast á fárra hendur. Mannkynið kann nefnilega ekki með völd að fara. Það er bara þannig og hefur margsýnt sig í gegnum mannkynssöguna. Það vantar réttlæti, sanngirni, jafnrétti og virðingu í völdin. Valdhafar eiga til að skoða heiminn út frá naflanum á sjálfum sér og skara eld að sinni eigin köku. Aðrir hópar koma þeim ekki við og þeim finnst ekki ástæða til að hlusta... nema svona til málamynda. Auðvitað eru til undantekningar og allt það... en í hnotskurn þá leggja valdhafar sig yfirhöfuð ekki fram við að tryggja jafnrétti og réttlæti öllum til handa.

Nei, það hlaut að koma að því að fleiri hugmyndakerfi en frjálshyggjan ættu undir högg að sækja, opinberlega á alþjóðavettvangi. Ég býst svo sem ekki við því að hvítu bláeygðu mennirnir sem bent er á í þetta sinn kinki kolli og viðurkenni sinni þátt. Það er ekki hefð fyrir því. Frelsi til að kúga og frelsi án ábyrgðar eru nefnilega einkenni okkar tíma. 


mbl.is Bláeygðir bankamenn ollu kreppunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fögur fyrirheit

Þetta finnst mér spennandi: 

Fögur fyrirheit: Kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna í 30 ár

Málþing í Gyllta salnum á Hótel Borg föstudagurinn 27. mars kl. 14-16.

Dagskrá:

Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu

Kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna: Sátt um samfélagsbreytingar.

Brynhildur Flóvenz, lektor í lögfræði við Háskóla Íslands

Eru konur ekki menn?: Mikilvægi sértækra mannréttindasamninga á borð við Kvennasáttmálann

Guðrún Dögg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands

Skuggaskýrslur: Aðhaldshlutverk frjálsra félagasamtaka

Rachael Lorne Johnstone, lektor í lögfræði við Háskólann á Akureyri

Going Private: State responsibility for domestic violence under the CEDAW

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, framkvæmdastýra UNIFEM á Íslandi

Hvers vegna þarf kvennasáttmála? UNIFEM í myndum.

Fundarstjóri: Gréta Gunnarsdóttir, sviðsstjóri alþjóða- og öryggissviðs í utanríkisráðuneytinu.    

Allir velkomnir, frítt inn og kaffi á boðstólnum.

Femínistafélag Íslands, afnréttisráð, Jafnréttisstofa ,Kvennaathvarfið , Kvenréttindafélag Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum, Stígamót ,UNIFEM á Íslandi.

 


Nei þetta er ekki frétt

screen-capture-121Nei þetta er rangt hjá visir.is. Það telst ekki til frétta þegar konur láta sjá sig ómálaðar út úr húsi. Hins vegar telst þetta til kvennakúgunar. Vestrænir fjölmiðlar hafa í síauknum mæli tekið að sér að gerast útlitslöggur, í bókstaflegum skilningi. Fjölmiðlar nýta sér mátt sinn sem fjórða valdsins til hins ítrasta til að smætta konur, gera lítið úr þeim og viðhalda þannig kynjakerfi sem byggir á yfirráðum karla og undirgefni kvenna; samfélagi sem byggir á því að líta á konur sem óæðri verur, ekki mennskar heldur sem hluti. Með þessu móti er hægt að „réttlæta“ að fréttaflutningur (þá ég við alvörufréttir, ekki þessa kúgun sem fjölmiðlar rembast við að kalla fréttir en eru það ekki) snýst nær eingöngu um karla, þ.e.a.s. þessa sem fjölmiðlar líta á sem vitsmunaverur. Skrautmunirnir - hlutirnir - fá svo pláss í flokknum „kúgun“ sem fjölmiðlar í einhverjum súrrealísma tóku upp á því að kalla „fólk“. Þar er stanslaust skellt framan í okkur fyrirsögnum um hvaða kona fór ómáluð út úr húsi, hvaða kona er með appelsínuhúð, hvaða kona sást einhvers staðar drukkin, hvaða kona sást einhvers staðar „útglennt“ (orð „fréttamanns“ visir.is) og svo framvegis og svo framvegis.

Tilgangurinn með þessum ekki fréttum er svo sannarlega ekki til að flytja okkur fréttir. Þetta er okkur heldur ekki til ánægju og yndisauka. Þetta er hrein og klár kúgun. Ekkert annað. Svona fyrst við erum að leitast við að kalla hlutina sínum réttu nöfnum... 


Ísland án ábyrgðar

Mörg einkenni íslensku þjóðarsálarinnar eru nú að koma í ljós. Eitt þeirra er Ísland án ábyrgðar. Það er sama hvað gengur á, enginn ber ábyrgð og enginn axlar ábyrgð.

Það kemur greinilega ýmislegt í ljós þegar hlutirnir eru upp á borðum sem sýnir og sannar nauðsyn þess. Reyndar er sú hætta líka fyrir hendi að þó hlutirnir séu uppi á borðum þá verði þeir bara að normi sem viðgengst án athugasemda þrátt fyrir vafasamt innihald. En... fátt er gallalaust og gegnsæjið er tvímælalaust besti kosturinn. 

Stjórnmálaflokkunum ber að sjálfsögðu að skila því fjármagni sem þeir tóku ólöglega á móti en er það nóg? Hvað með þá sem létu peninginn af hendi? Er enginn ábyrgð þar á bæ? Mér finnst engan veginn forsvaranlegt að forsvarsmenn fyrirtækja í opinberri eigu og stéttarfélög séu að greiða í kosningasjóði. Það er gjörsamlega út í hött.  


mbl.is Samfylkingin bætir fyrir mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er þetta með afsökunarbeiðnina...

Fyrir mörgum árum fór ég út að borða með nokkrum vinkonum. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema að minningin um þjónustuna þetta kvöld hefur iðulega vakið hjá mér nokkra kátínu. Þannig er mál með vexti að þegar réttirnir komu á borðið kom í ljós að ég fékk annan rétt en ég pantaði. Ég nefni það við þjóninn og hún svarar að bragði „Ég skal athuga það.“ Að því sögðu hverfur hún og sést ekki aftur fyrr en kom að því að panta eftirrétti... Ég borðaði réttinn sem ég fékk með bestu lyst, enda var hann afar bragðgóður þó ég hafi verið pínku spæld yfir að fá ekki það sem ég pantaði. Þegar kom að pöntun eftirrétta vildi ein vinkonan fá breytta útgáfu af einum réttinum og spurði hvort það væri hægt. „Ég skal athuga það“ sagði þjónninn aftur en kom aldrei aftur að borðinu með svarið.

Þegar kom að því að borga reikninginn segi ég aftur við hana að ég hafi fengið vitlausan rétt. Segi líka að það hafi nú reddast því rétturinn hafi verið góður en ég myndi gjarnan vilja fá afsökunarbeiðni fyrir að fá vitlaust afgreitt. Þjónninn leit á mig og svaraði hiklaust „Ég skal athuga það!“

Af einhverjum ástæðum skaut þessari minningu upp í kollinn á mér þegar ég heyrði fyrrverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde segja í spjallinu hjá Sölva nú fyrr í kvöld að þetta með afsökunarbeiðnina... það væri flókið mál.


Hvað er þjóð?

Ég hef verið að velta fyrir mér hvaða merkingu hugtakið þjóð hefur í hugum fólks. Nú eru auðvitað til skilgreiningar á fyrirbærinu en ég er ekki að spá í hvaða skilgreiningin segir heldur kannski frekar hvaða réttindi og skyldur fylgja því að tilheyra þjóð. Nú er t.d. ljóst að við, íslenska þjóðin, er stórskuldug upp fyrir haus án þess þó endilega að hafa stofnað til þessara skulda sem þjóð. Þ.e. skuldamyndunin fór ekki fram í gegnum ríkið eða ákvarðanir af hálfu hins opinbera heldur mikið til í gegnum einkageirann og í raun örfáa einstaklinga. Við sem þjóð erum samt ábyrg, svona alveg eins og fjölskylda er ábyrg þegar einn meðlimur fjölskyldunnar gamblar öllum eigum fjölskyldunnar í burtu að henni forspurðri. Og nú er kallað eftir samstöðu - samstöðu um að borga. En það á samt ekki að gera eignir þeirra sem komu okkur í skuldafenið upptækar og þess vegna velti ég því fyrir mér hvað er eiginlega þjóð? Ef við eigum að vera ábyrg sem þjóð - eiga þeir þá ekki að vera ábyrgir sem hluti af þjóðinni? Er það ekki hluti af þeirra ábyrgð að skila öllum sínum eignum - þessum sem eru fengnar í gegnum „viðskipti“ sem skilja þjóðina eftir gjaldþrota?

Hvar eru skilin á milli þess að vera einstaklingur og þess að vera hluti af þjóðarheild? Ef þjóðarheildin á að gilda, þ.e. að við eigum að borga - af hverju má þá ekki nota það concept líka yfir eignamennina sem eru búnir að sanka að sér öllum verðmætum á kostnað okkar sem þjóðar? Erum við þjóðin en ekki þeir? Eru þeir einstaklingar sem geta bara gengið í burtu en við þjóð sem getur ekki neitað að borga?

Ég spyr vegna þess að við erum sjálfstæð þjóð og sem slík hljótum við að þurfa að bera ábyrgð á okkur sjálf - líka þegar það þýðir að við erum í djúpum... En á móti kemur að það að tilheyra þjóð hlýtur að fela í sér bæði réttindi og skyldur. Og það kannski felur líka í sér að okkur vantar þá betra kerfi sem gerir okkur kleift að haga okkur eins og þjóð en ekki bara eins og einstaklingar þar sem hver og einn er óupplýst eyland sem veit ekki hvert stefnan liggur og hefur fá sem engin úrræði til að gera eitthvað í því hvort sem er - þangað til kemur að skuldadögum og þá virðist eini valkosturinn vera að borga en samt á eignarétturinn að gilda hjá þeim einstaklingum sem með sanni er hægt að segja að hafi stofnað til skuldanna.


Arðgreiðslur - hver á að ákveða?

Í tilefni frétta um arðgreiðslur HB Granda finnst mér ekki úr vegi að rifja upp færsluna um lýðræði innan fyrirtækja - væri ekki ráð að hrista aðeins upp í fyrirtækjaforminu, sérstaklega hjá stærri fyrirtækjum? Hér er valin kafli úr færslunni:

Þessa dagana tölum við um lýðræði út í eitt. Við viljum stjórnlagaþing, brjóta upp fjór-flokkakerfið, þjóðin vill hafa eitthvað að segja um sín mál. Ég er í raun sammála þessu öllu, er ein af þeim sem vil aukið lýðræði en mig langar líka til að útvíkka hugtakið og skoða rekstrarform fyrirtækja út frá lýðræðishugsjónum. Hlutafélög eru byggð upp sem valdapýramídi. Hluthafafundur er æðsta vald - og það felst n.k. lýðræði í honum en ekki nándar nærri nóg þar sem auðvelt er að mynda valdablokkir þegar einhver hópur krúnkar sig saman. Stjórnin er fámennur hópur og sama á við um forstjóra og framkvæmdastjóra. Það er því í raun fámennur hópur á toppnum sem getur tekið allar mikilvægar ákvarðanir og starfsmenn eru hálfgert aukaatriði. Launaleynd hvílir yfirleitt á launastrúktúr fyrirtækja og það er toppunum í sjálfsvald sett hvað þeir skammta sér í laun. Síðustu árin höfum við einmitt séð að þessi fámenni hópur sem skammtar sjálfum sér eins stóran bita af kökunni og þeim sýnist hefur gerst ansi stórtækur í sjálftökunni. Launabil hefur aukist og laun og hlunnindi eru úr takt bæði við raunverueikann og það sem réttlátt eða sanngjarnt er.

Tilgangurinn með þessari færslu er sem sagt að velta upp þeim möguleika að farið sé í hugmyndavinnu um hvernig mætti auka lýðræði í reynd innan fyrirtækja þar sem starfsfólk væri skilgreindur sem hagsmunahópur sem ætti að hafa eitthvað um málin að segja, þ.e. formlegt vald þó svo að enginn eignarhlutur sé til staðar. Það er ekki nóg að starfsfólk geti kosið með fótunum og skipt um vinnustað ef það er óánægt, sérstaklega þegar um stórfyrirtæki er að ræða.

Hér er gamla færslan í heild.  

 


Jafnrétti á pappír - af hverju ekki í raunveruleikanum?

Nú er u.þ.b. ár síðan jafnréttislög gengu í gildi og það er tímabært að láta reyna á þau. Í gegnum tíðina hefur kona heyrt ýmislegt skemmtilegt og eitt af því „skemmtilegra“ eru rökin um að hér ríki jafnrétti vegna þess að við erum með jafnréttislög. Sama fólkið og notar þessi rök er hins vegar síður en svo kátt með að kært sé þegar jafnréttislögin eru brotin... Röksemdarfærslan virðist sem sagt vera sú að af því að jafnréttislög séu í gildi þá ríki hér fullkomið jafnrétti á milli kynja og það sé lífsins ómögulegt að brjóta lögin!

Skemmtilegt, eins og ég sagði. Jafnréttislög hafa löngum verið gagnrýnd fyrir að vera mest megnis falleg orð á blaði því lítið fari fyrir því að lögunum sé fylgt og hvað þá að kært sé þegar þau eru brotin. En það er löngu tímabært að láta reyna á þetta. Eftir að Ísland hrundi hefur verið skipað í fjölmargar nefndir og ráð sem ég tel vera klárt brot á jafnréttislögum, þ.e. kynjahlutföllin í nefndunum hafa verið þannig. Þó það sé kvartað og bent á brotið þá er ekkert um að nefndarskipan sé breytt í kjölfarið, hvað þá að passað sé upp á að þetta sé í samræmi við lög í næstu skipan. Þess vegna fagna ég því mjög að Silja Bára skuli hafa tekið það frumkvæði að láta reyna á jafnréttislög varðandi þessa skipun. Takk!

Það eru margvíslegar ástæður fyrir því að ég er hoppandi kát með að á þetta sé látið reyna. Ég er reyndar algjörlega á því að höfðatölujafnrétti sé engan veginn það sama og jafnrétti kynjanna. Það sést best á því að ef við lítum á stærstu og smæstu einingar samfélagsins, þ.e. landið allt og heimilin, þá er höfðatalan jöfn þar. Konur og karlar byggja landið í ca jöfnu hlutfalli og algengt heimilisform er 1 kona og 1 karl. Samt ríkir hvorki jafnrétti í landinu í heild né inn á heimilum. Vandinn er því mun stærri og víðtækari en höfðatala. 

Höfðatalan skiptir samt einhverju máli. T.d. með því að skipa mestmegnis karla í seðlabankaráð og í stjórnarskrárnefnd eru gefin út þau skilaboð að karlar séu hæfari en konur. Það er hugsunarháttur sem ætti að tilheyra fortíðinni en er því miður ríkjandi í nútíð og fátt sem bendir til að verði víkjandi í framtíð. Undirliggjandi ástæður fyrir þessari skekktu höfðatölu byggja sem sagt á þeirri sömu hugsum og Aristóteles fannst við hæfi á sínum tíma - að karlar ættu að stjórna og konum ætti að vera stjórnað. Þessi hugmyndafræði um völd og yfirráð - að vera efstur í fæðupíramýdanum er einmitt ein af ástæðunum fyrir því að við sitjum í súpunni núna. Það er ekki nóg að tala um að græðgin hafi verið allsráðandi, það þarf að skoða af hverju tók græðgin yfir og af hverju var hún látin viðgangast? Svörin fást með því að leggja margar hugmyndafræðir saman og skoða samverkandi áhrif þeirra. Ég hef verið að sanka að mér hugmyndum um hvaða hugmyndafræðir hafa unnið saman að þessu - akkúrat í augnablikinu samanstendur listinn af 5 atriðum: Nýfrjálshyggju, kynjakerfinu (karlaveldi), stéttskiptingu, survival instinct og þjóðernishyggju. Þetta hefur reynst vera banvæn blanda fyrir Ísland og megnið af hinum vestræna heimi. Lausnin felst í að taka þetta til gagngerrar endurskoðunar - en hingað til virðumst við ætla að hjakka í sama gamla hjólfarinu - þessu sem kom okkur á hausinn. Eða, við nánari athugun, réttara væri að segja að við séum í bakkgír. Við erum ekki á leiðinni áfram heldur aftur á bak. Vonandi vaknar fólk þó upp fyrr en seinna og verður til í að skipta um gír - og fara áfram. Til þess þarf að skapa hér jafnréttissamfélag - í því felst bæði virðing, réttlæti, sanngirni og jafnræði. Til að við náum þessu þarf að afmá valdatengslin og meta hæfileika og getu beggja kynja, en ekki bara það heldur þarf einnig að meta margbreytileikan og kraftinum sem felst í honum. Einsleitar nefndir og einsleitar lausnir sem byggja á sama gamla tóbakinu eru ekki svarið. Þess vegna vona ég að niðurstaðan verði sú að jafnréttislögum verði framvegis framfylgt!


mbl.is Bankaráð Seðlabanka ólöglega skipað?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögbrot

Velti fyrir mér hvað búið er að brjóta jafnréttislög oft síðan 6. október?
mbl.is Nýtt bankaráð Seðlabankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband