Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Allt of mikið af hormónum

Tilkoma getnaðarvarna er eitt mikilvægasta og stærsta skref í kvenfrelsisbaráttunni. Það hefur skipt konur ótrúlega miklu máli að geta stjórnað barneignum og vera ekki óléttar nánast út allan barnseignaraldurinn... Því miður byggir rosalega mikið af getnaðarvörnum á inngripi í hormónastarfsemi líkamans. Aukarverkanirnar eru margvíslegar og sumar hverjar alvarlegar. Margar konur eru tilbúnar til að taka þá áhættu til þess að geta komið í veg fyrir getnað - og reyndar líka til að draga úr blæðingum, eins og fram kemur í greininni (gott dæmi um sjúkdómsvæðingu á því að vera kona...).

Það er nokkuð merkilegt að ekki skuli vera til getnaðarvarnarpilla fyrir karla. Hún hefur nefnilega verið þróuð. Ekki þótti ásættanlegt að setja hana á markað vegna aukaverkana - sem n.b. voru þær sömu/svipaðar og aukaverkanir sem konur þurfa að þola. Sama gengur því ekki yfir bæði kyn í þessum málum. Í samböndum þar sem konan getur ekki tekið pilluna út af aukaverkunum gæti það munað mjög miklu ef karlinn gæti tekið pillu í staðinn... þ.e.a.s. ef hann finnur ekki svona fyrir aukaverkunum eða er í áhættuhópi.

Annars er tvennt í fréttinni sem stakk mig. Annars vegar að fullyrt er að hormónalykkjan sé góð fyrir konur sem ekki geti verið á pillunni. Þessu er ég gjörsamlega ósammála - og tala þar af eigin reynslu. Þó að talað sé um að hormónarnir séu staðbundnir þá berast þeir út í blóðið og geta valdið þar aukaverkunum, rétt eins og pillan.

Hitt er varðandi hettuna. Ef ég skil fréttina rétt var hún tekin af markaði fyrst hún var óvinsæl. Þar með er tekinn úr umferð einn af fáum valkostum sem konur sem annaðhvort ekki geta eða vilja inngrip í hormómastarfsemi líkamans. Þeir valkostir eru allt of fáir og því leiðinglegt að sjá slíkan valkost tekinn út af borðinu.

Vona annars að einhverjum detti í hug snilldargetnaðarvörn sem er auðveld, þægileg og byggir ekki á hormónainngripi...


mbl.is Ef ekki pillan, hvað þá?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt í boði...

stjmalaflokkurÞar sem nýjasti kaflinn í lífi mínu er nú hafinn er við hæfi að skoða niðurstöðurnar úr könnuninni um í hvaða stjórnmálaflokk ég á að ganga, enda er mínu þverpólitíska starfi hér með lokið. Auðvitað endar með því að ég þarf að finna mér flokk til að vera virk í... Það er greinilegt að fólki finnst ég helst eiga heima í Samfylkingunni eða Sjálfstæðisflokknum, þó VG sé þarna ekki langt undan.

Samkvæmt Bifrastarprófinu um stjórnmálaskoðanir stóð ég fyllilega undir nafni sem þverpólitísk talskona. Þess vegna koma líka fleiri en einn flokkur til greina. Ég er nú heitust fyrir 2 flokkunum. Spurning hvort þeir 2 séu jafn spenntir fyrir mér... Tounge Svo er líka auðvitað alltaf spurning hvort ég vilji yfir höfuð stefna á pólitískan frama. Gæti nefnilega vel hugsað mér að byggja upp öflugt einkafyrirtæki í jafnréttisgeiranum og hef víst ekki tíma fyrir bæði!


Stutt hæ

Fór í viðtal hjá Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í gær í tilefni þess að ég hætti sem talskona. Hér er viðtalið fyrir þá sem vilja hlusta.

Blogga meira um lífið eftir talskonuhlutverkið þegar ég hef betri tíma. Er að spá í hvort ég eigi ekki loksins að gerast róttækur femínisti Wink

Þakka þeim sem mættu á aðalfundinn í gær fyrir frábæran fund. Er ennþá skellihlægjandi að uppistandi femínistamafíunnar!


Fótbolti

Hér voru fjörugar umræður í hádeginu um fótbolta, þá sér í lagi danska fótboltann... Ef ég skil atburðarásina rétt þá hófst þetta á því að danskur landsliðsmaður kýldi mótherja sinn í kviðinn inn í vítateig þegar 3 mínútur voru eftir af leiknum - og staðan 3:3. Dómarinn dæmir víti (auðvitað!) og við það verður einn danski áhorfandinn svo reiður að hann stekkur inn á völlinn og ræðst á dómarann. Eftir smá stund ákveður dómarinn að flauta leikinn af og dæmir Svíum sigur.

Mér skilst líka að danski dómsmálaráðherrann hafi sagt að reka ætti ofbeldisfulla landsliðsmanninn úr liðinu. Búið er að kæra hann fyrir ofbeldið. Sem er auðvitað rökrétt. Það að vera inn á fótboltavelli á ekki að vera friðhelgur staður þar sem menn geta brotið lög án þess að það hafi afleiðingar. Ofbeldi á ekki að vera hluti af "leiknum".

Annars heyrðist mér að danski fótbloltaáhugamaðurinn sé kominn í felur. Búinn að biðja dönsku þjóðina afsökunar og allt í volli... enda honum kennt um tapið! Umhugsunarvert hvers vegna áfengi og fótbolti er svona samofið hjá áhangendum. Leikurinn löngu hættur að snúast um heilsu og hreysti. Núna er þetta atvinna og fyllerísbrölt... og í sumum tilvikum vændisbrölt, eins og vill verða í kringum stórmót, sbr heimsmeistarakeppnina í Þýskalandi. Dregur óneitanlega úr gildi íþróttarinnar sem fjölskylduskemmtun eða eitthvað sem eflir og þroskar líkama og sál! Það á við hér, eins og um svo margt annað. Það sem manni þykir vænt um á maður að hugsa vel um og passa upp vel upp á svo það skemmist ekki eða glati tilgangi sínum.


Tímamót

Á morgun verða stór tímamót í mínu lífi. Á morgun er síðasti dagurinn minn sem talskona Femínistafélagsins. Hugsa að ég verði með fráhvarfseinkenni langt fram eftir sumri... Happy

Spennandi framundan

Framundan eru 2 fundir um vændismál. Hingað koma sterkir erlendir fyrirlesarar svo það er um að gera að grípa tækifærið og heyra hvað þær hafa spennandi að segja Smile

Þessi ráðstefna verður á Grand Hótel á föstudaginn:

Fara vændi og virðing saman í jafnréttisþjóðfélagi?

Dagskrá
Kl.
13:00          Guðrún Jónsdóttir fundarstjóri og talskona Stígamóta opnar ráðstefnuna
13:10          Erindi pallborðsþátttakenda:
                   Rosy Weiss (Austurríki), forseti International Alliance of Women (IAW)
                   Marit Kvamme (Noregur), í stjórn Womens Front of Norway, Network Against
                   Prostitution and Trafficking in Women og FOKUS
                   Ágúst Ólafur Ágústsson (Íslands), alþingismaður
                   Rachael Lorna Johnstone (Skotland/Ísland), lektor við Háskólann á Akureyri
14:15          Umræður pallborðsþátttakenda
15:00          Kaffihlé
15:15          Umræður pallborðs og ráðstefnugesta
15:30          Niðurstöður frá pallborðsþátttakendum


Ráðstefnan fer fram á ensku, Aðgangur ókeypis, Kaffiveitingar

**** 

Fyrir þau sem búa fyrir norðan og vilja ekki skella sér til höfuðstaðarins er hægt að kíkja á annan fund á Akureyri:

Kvenréttindafélag Íslands, Jafnréttisstofa, Akureyrarbær og Háskólinn á
Akureyri standa fyrir opnum fundi í húsnæði Jafnréttisstofu að Borgum við
Norðuslóð á Akureyri, fimmtudaginn 7. júní kl. 12:00.

Erindi flytja:

*         Rosy Weiss, forseti alþjóðlegu kvenréttindasamtakanna
           International Alliance of Women (IAW): Kynning á IAW

*         Þorbjörg Inga Jónsdóttir, formaður KRFÍ:              
           Alþjóðasamstarf KRFÍ

*         Margrét María Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu:
           Staða jafnréttismála

Fundarstjóri er Katrín Björg Ríkarðsdóttir framkvæmdastjóri samfélags- og
mannréttindadeildar Akureyrarbæjar.

Fundurinn er öllum opinn og fer fram á ensku. Boðið verður upp á súpu og
brauð.


Flott hönnun

stollFór á mjög áhugaverðan fyrirlestur í dag um hlutverk hönnunar í verðmætasköpun þjóða. Fundurinn var byggður á skýrslu eftir Sóley Stefánsdóttur og Halldór Gíslason sem heitir "Hönnun - auðlind til framtíðar" og er hluti af samstarfsverkefni LHÍ og fleiri listaháskóla á Norður- og Eystrasaltslöndunum.

Í skýrslunni er farið yfir hvað hönnun er, hvernig hún skapar verðmæti, talað um samkeppnisforskot þjóða út á hönnun... meiri arð og velgengni hjá fyrirtækjum sem nota hönnun og tekin fjölmörg dæmi. Alls konar hönnun kemur við sögu. Grafísk hönnun, vöruhönnun og þetta sem við þekkjum - þ.e. allt það sem okkur dettur í hug þegar við hugsum um hönnun. Til viðbótar eru síðan fjölmargar nýjungar sem fólk tengir ekki endilega við hönnun. T.d. þjónustuhönnun. Slíkt er að ryðja sér til rúms í æ ríkari mæli. Sóley nefndi dæmi um þjónustu fyrir aldraða, fyrir sykursjúka og hönnun gegn glæpum. Sem dæmi um það síðastnefnda er stóll þar sem búið er að gera ráð fyrir að geta smeygt veskinu (ólinni) upp á setuna og koma þar með í veg fyrir að því verði stolið! Mjög smart. Læt fylgja með mynd af annarri hönnun sem mér finnst rosalega flott.  Þetta er hönnun eftir Ragnheiði Ösp Sigurðardóttur - Ikea stóll sem borað er í og svo saumað...  Mig langar í svona. Smile

 


Einmitt

Þetta er klassík:

"Feminism has fought no wars. It has killed no opponents. It has set up no concentration camps, starved no enemies, practiced no cruelties. Its battles have been for education, for the vote, for better working conditions.. for safety on the streets... for child care, for social welfare...for rape crisis centers, women's refuges, reforms in the law."

(If someone says) 'Oh, I'm not a feminist,' (I ask) 'Why? What's your problem?'"

- Dale Spender, author of For the Record: The Making & Meaning of Feminist Knowledge, 1985


Til hamingju með Kvennaathvarfið

Kvennaathvarfið var 25 ára í gær. Athvarfið er skýrt dæmi um árangur í jafnréttismálum. Fyrir 25 árum gátu konur sem beittar voru heimilisofbeldi hvergi leitað. Nú fá þær bæði skjól og ráðgjöf. Í kjölfarið á Kvennaathvarfinu komu svo Stígamót. Kristín Ástgeirsdóttir skrifaði mjög flottan pistil um aldarfjórðungafmælið og ég er að hugsa um að vísa bara á hennar pistil í staðinn fyrir að skrifa meira sjálf. Enjoy!

Til hamingju með afmælið.  


Fallegt

Til hamingju með sjómannadaginn! Smile Ég hef nú ekki tekið þátt í hátíðarhöldum öðruvísi en að hlusta á spurningakeppni um sjómannalög í útvarpinu í gær þar sem Gerður G. Bjarklind fór á kostum. 

**

Ætla að deila með ykkur 2 stórgóðum ráðum sem ég fékk um helgina. Hið fyrra er að líta á það sem merki um sjálfstraust að þora að viðurkenna að vita ekki það sem öðrum finnst að þú eigir að vita... Hitt er að ef þú ert stressuð/aður yfir einhverju sem þú gerir að líta á það sem merki um að þú þjáist ekki af hroka... ennþá! Wink Þessi ráð eru í boði gáfaðasta fólks landsins - 1 karls og 1 konu. 

**

Ég fór í 50. afmæli á föstudaginn. Það var engin önnur en dr. Þorgerður Einarsdóttir, dósent í kynjafræði, sem náði þessum áfanga. Þorgerður er án efa einn mesti hugsuður landsins og einn uppáhaldsfemínistinn minn, enda stórkostleg kona. InLove Afmælið var rosalega skemmtilegt og á eftir brá ég mér á Ölstofuna (reyklausu og fann enga tá-, svita- eða prumpufýlu.... eins og eigandinn hélt fram í fréttum. Kom meira að segja ágætlega ilmandi heim... í fyrsta skipti eftir Ölstofuferð og þakka ég það alfarið reykleysinu). En - á Ölstofunni varð ég vitni að einu afskaplega fallegu. Andlegri samkynhneigð karla, eins og Sigurður Guðmundsson myndlistarmaður kallar það. Ég stóð og talaði við mann þegar annar maður vindur sér upp að okkur. Slær á öxl viðmælanda míns og rumsar upp úr sér lofræðu um hann. Það verður að segjast eins og er að þetta var afskaplega fallegt og til eftirbreytni. Karlar mættu í ríkari mæli vera tvíkynhneigðir á andlega sviðinu og gera þetta líka við konur Smile og konur geta einnig tekið þennan fallega sið upp í meira mæli... 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 332541

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband