Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Hver er munurinn á bókaútgáfu og bókabrennu?

Spurning: Hver er munurinn á því að gefa út bók sem byggir á rasisma og að brenna sömu bók? Er annað partur af tjáningarfrelsi en hitt ekki?

Hvað er aðgerð og hvað er tjáning? Að brenna bók er vissulega aðgerð - en gildir það sama ekki um bókaútgáfu? Er það ekki aðgerð?

Tjáningarfrelsið er ekki annaðhvort/eða dæmi með skýru upphafi og endi. Tjáningarfrelsinu eru alls staðar settar skorður - spurningin er engan veginn fólgin í því hvort við ætlum að setja tjáningarfrelsinu einhverjar skorður - það er löngu komið samkomulag um að gera slíkt (eins og sést t.d. á lögum um ærumeiðingar og alls kyns mannréttindarákvæðum). Spurningin er mun fremur hvar liggja mörkin? Getur verið að mörkin liggi frekar í þá átt að það sé meira frelsi til að kúga heldur en til að svara fyrir sig?

Bara að spá...  

** 

Spurningarnar hér fyrir ofan eru partur af mínu málfrelsi og ætlaðar sem umræðugrundvöllur. Ég býst þó við að sumir eigi ekki eftir að greina á milli þess að hvetja til einhvers athæfis og að velta upp spurningum  - og tek því fram að ég er hvorki að mæla með útgáfu á bókum sem byggja á rasisma né bókabrennum.  


Gáta

Marel auglýsir eftir forritara í Viðskiptablaðinu í dag. Þetta er heilsíðuauglýsing og yfirskriftin er "Forritun og ferðalög". Í starfslýsingunni:

Þú færð að:

  • glíma við fjölbreytt og spennandi verkefni.
  • sýna hvað í þér býr í hvetjandi umhverfi.
  • vinna með færustu sérfræðingum landsins á sviði hátækniiðnaðar.
  • vinna í öflugu þróunarumhverfi: Visual Studio, C# og SQL Server.  
  • ferðast um allan heim vegna starfsins.

Einnig er sagt:

Í boði er:

  • góð vinnuaðstaða og mötuneyti.
  • mikið sjálfstæði í vinnubrögðum.
  • sveigjanlegur vinnutími
  • opið og fjölskylduvænt vinnuumhverfi.
  • styrkir til símenntunar og íþróttaiðkunar.

Hljómar vel... en það er eitt sem ekki stenst. Hver er þversögnin, þetta tvennt sem ekki fer saman? 


Það sést hverjir eru í hjólastól...

Fór á ráðstefnu Femínistafélagsins "Kynblind og litlaus" á laugardaginn. Var mjög áhugavert, eins og við var að búast. Þarna komu saman nokkrir margbreytileikahópar að ræða hvað hver hópur glímir við og finna sameiginlega fleti á baráttunni. Um morguninn voru þær Þorgerður Þorvalds og Þorgerður Einarsd með fyrirlestra auk þess sem þarna var leikþáttur um staðalmyndir/fordóma nokkurra hópa og nokkrir strákar úr Götuhernaðinn kynntu sketcha sem þeir hafa unnið í sumarvinnu. Sketchana má skoða á öryrki.is og mæli ég sérstaklega með "Egils Kristal" (frá í fyrra) og "Diet Coke" sketchunum. Nokkuð ljóst að ég gæti ekki búið til sketch með punch línunni "það sést hverjir eru í hjólastól" en það geta hressir strákar í hjólastól gert! Segir okkur enn og aftur að hlutirnir eru afstæðir og það er ekki sama hver segir hvað - eða hvernig.  

**

Eftir hádegi voru málstofur. Ég var málstofustýra í hópnum sem fjallaði um hver er normal. Freyja Haraldsdóttir sagði okkur þar frá sinni reynslu og fannst mér setningin hennar "mitt líf er mitt norm" afskaplega góð. Okkur finnst okkar líf vera normið...af því að það er eðlilegt fyrir okkur. Næsta manneskja á síðan sitt norm, sem er frábrugðið okkar, og svo koll af kolli. Þannig er margbreytileikinn - samansafn af ólíkum normum. Tatjana Latinovic, formaður félags kvenna af erlendum uppruna sagði okkur síðan frá þeim málum sem þær kljást við. Á eftir ræddum við málin og það var mjög fróðlegt. Eftir hlé var síðan pallborð. Mjög skemmtilegt - og ágætis upprifjun um aðdraganda Kvennafrídagsins. Finnst eins og hann hafi verið fyrir óralöngu en það eru víst bara 2 ár síðan...

** 

Nú er bara málið að halda áfram. Hvað gerum við næst? Er einhver möguleiki á að við náum að útvíkka "normið" til að samfélagið meti allan þann margbreytileika sem mannfólkið býr yfir á jafnréttisgrundvelli? Við hljótum allavega að geta gert betur. Ein af spurningunum sem við glímdum við var hvernig við náum eyrum valdhafanna - hvernig er hægt að fá þá sem hafa skilgreiningarvaldið til að hlusta á "norm" annarra og útvíkka skilgreininguna á hvað er að vera normal? 

**

Eitt að lokum - hér er frábær grein eftir Gauta B. Eggertsson um 10 litla negrastráka - skyldulesning fyrir þá sem halda að það sé í lagi að gefa bókina út árið 2007. Þarna er bókin sett í sögulegt samhengi - og uppruna sinn. Ég held svei mér þá eftir lesturinn að ég væri til í bókabrennu! Halo


Heilræði dagsins

Ef þú skilur bílinn þinn eftir niður í bæ og þér er skutlað daginn eftir til að ná í hann þá er mjög gott að taka bíllykilinn með! 

Kaupþing hugsar styttra

Í nýjustu auglýsingaherfð KB banka, nánar tiltekið fyrir fyrirtækjaþjónustuna, er fullyrt að Kaupþing hugsi lengra. Samt eru þau með eintóma karla í auglýsingaherferðinni - 3 karlmenn í viðskiptum (örugglega ágætiskarla og ekkert við þá að sakast í þessu máli heldur beinist gagnrýnin að Kaupþingi).

Nú veit ég ekki alveg hvort ég eigi að segja að Kaupþing hugsi styttra, hreinlega bara afturábak til þess tíma þegar konur máttu ekki eiga neinar eignir... eða hvort ég á að líta svo á að Kaupþing spái massívu bakslagi þar sem framtíðin beri í skauti sér að konum verði útrýmt úr viðskiptaheiminum? 

Í öllu falli er ljóst að Kaupþing er þarna að staðfesta það sem sýnt hefur verið fram á fyrir löngu: Konur í viðskiptalífinu eiga ekki eins greiðan aðgang að fjármagni og karlar. 

 

 


Fréttir vikunnar

Það hringdi í mig blaðamaður frá DV í gær og bað mig um að segja mitt álit á fréttum vikunnar. Ég byrjaði á að tiltaka hversu ánægjulegt mér þótti að sjá laun starfsfólks á leikskóla hækka um 10%. Eins stóð upp úr hversu margir atburðir tengdir jafnrétti voru á dagskrá þessa vikuna og síðan þjóðkirkjan og hjónabandið. Þó ég geri mér grein fyrir að þjóðkirkjan er að ganga lengra en margar aðrar kirkjur þá er þetta engan veginn ásættanlegt. Misrétti er misrétti, þó í mismunandi miklu mæli sé. Ég er reyndar á því að það sé ekki nóg að leyfa samkynhneigðum að ganga í hjónaband. Ég vil líka að gagnkynhneigðum sé leyft að ganga í staðfesta samvist, enda finnst mér staðfest samvist fallegri en hjónaband. Ástæðan er sú að það er nýtt form sem byggir ekki á kúgun frá fornu fari heldur er frá upphafi byggt á jafnræði og jafnrétti á milli þeirra sem kjósa að staðfesta samvist sína. Sama hversu mikið hugmyndir á bakvið hjónabandið breytast þá er aldrei hægt að taka tilbaka að uppruni þess byggir á eignarétti karla yfir konum og hjónabandið yfirfærlsa á eign dóttur frá föður yfir til eiginmanns. Þess vegna giftast konur en karlar kvænast - þær gefast, þeir eignast konu. 

**

En það er heilmikið annað í fréttum sem vert hefði verið að minnast á líka. Ég var t.d. svo ljónheppin að  vera boðuð á fund borgarráðs í gær. Ég fékk sem sagt að vera hluti af 5000. borgarráðsfundi Reykjavíkurborgar og var fundurinn í Höfða af því tillefni. Það var gaman. Sérstaklega þegar ég las í fréttum í gær að hinn sami fundur hefði samþykkt að leggjast gegn nektardansi á þeim stöðum sem alla jafna eru kenndir við súludans en nær væri að kenna við kvenhatur.

Annað mál. Ég á ekki orð út af endurútgáfu bókarinnar 10 litlir negrastrákar. Ég gúddera alveg þau rök að þetta sé hluti af "menningararfi" okkar Íslendinga en það breytir ekki að þetta er hluti af rasískum menningararfi okkar Íslendinga og á að meðhöndla sem slíkt. Síðast var bókin gefin út 1975. Þá var ég 5 ára og ég man vel eftir bókinni og að hafa sungið lagið hástöfum. Verst að ég mundi ekki eftir því þegar ég 15 árum seinna fór til Bandaríkjanna í nám og fyrsta ritgerðarverkefnið mitt var að skrifa um kynþáttafordóma út frá eigin reynslu. Ég fór til kennarans í örvæntingu og útskýrði fyrir honum að þetta væri eitthvað sem ég gæti ómögulega skrifað um - á Íslandi væru hér um bil allir hvítir og ég þekkti engan sem væri af öðrum kynþætti. Hann sagði mér að skrifa ritgerðina engu að síður og eina sem mér datt í hug var að skrifa um hversu fjölbreyttari flóru veitingahúsa við hefðum eftir að hingað kom flóttafólk frá Víetnam. Í dag væri ég mun betur í stakk búin til að skrifa þessa ritgerð - ekki út frá því sem hefur breyst eftir að ég skrifaði ritgerðina heldur vegna þess að nú átta ég mig betur á kynþáttafordómunum sem birtust í íslensku samfélagi fyrir þann tíma. Hér þótti sjálfsagt mál að segja alls kyns brandara um t.d. litlu börnin frá Eþíópíu o.s.frv. Einsleitni samfélagsins gerði það að verkum að hér fengu viðhorfin að grassera í friði og fáir hugsuðu út í hvern væri verið að særa - eða á hvers hlut væri verið að brjóta.

Í dag erum við ekki lengur einsleitt samfélag hvítingja. Við eigum líka að vera upplýstari - svo lengi lærir sem lifir og allt það... Það er óþarfi að brenna eldri útgáfur bókarinnar á brennu. Hins vegar ætti að skoða hana með þeim augum að þarna er birtingarmynd kynþáttafordóma. Ætti að vera bannað að endurútgefa bókina? Kannski ekki. En í minnsta falli ætti að kalla hlutina sínum réttu nöfnum og segja að þarna er hvítt fólk að sýna kynþáttafordóma sína í verki. Það er ekki í lagi.


MK fær jafnréttisviðurkenninguna

Til hamingju MK með jafnréttisviðurkenninguna 2007. Á vef Félagsmálaráðuneytisins má sjá rökstuðning fyrir valinu. Eru t.d. með jafnréttisstefnu, jöfn kynjahlutföll (þó væntanlega ekki á öllum námsbrautum???), hafa haldið jafnréttisviku og tekið þátt í verkefni um að gera nemendur meðvitaða um kyn og kynímyndir. Greinilega eitthvað að gerast í MK og vonandi heldur svo áfram. 

** 

Sjálf tilnefndi ég Stígamót, enda finnst mér tími til kominn að verðlauna fyrir baráttuna gegn kynferðisofbeldi. Kannski næst? Happy


Ertu til í að styrkja KEA um nokkrar krónur?

Ekki verður betur séð af þessari fyrirsögn á RUV að KEA biðli nú til þjóðarinnar að styrkja sig:

KEA aulglýsir eftir styrkjum.

KEA auglýsir eftir styrkumsóknum úr Menningar- og viðurkenningasjóði félagsins. Styrkúthlutun að þessu sinni tekur til tveggja flokka (öll fréttin hér)

Úff - já svo aulgýsa þeir þar að auki...  

Viðbót - nú er búið að laga þetta inn á ruv... Nú auglýsir KEA styrki :) 

** 

Annars bíð ég núna spennt eftir að fá að vita hver hlýtur jafnréttisviðurkenninguna í ár. Afhendingin byrjaði kl. 3 og nú klukkutíma síðar eru fréttir ekki enn komnar á vefinn. Það er slæmt fyrir óþolinmóða...


Gleymdi einu...

Það er við hæfi að hvetja atvinnurekendur til að hækka laun kvenna um ca 15% í dag. Með því móti myndi nást að jafna út launamun fyrir sömu störf - og uppfylla þar með lagaskyldu sem hefur verið við lýði frá 1961 og atvinnurekendur fengu 6 ára aðlögunartíma til að gera bragarbót á. 

Hvet líka konur til að fara fram á launaviðtal í dag og fara fram á kauphækkun. Er reyndar aðeins að velkjast með þessi 15%. Sýnist að útvarpsstjóri hafi gefið það fordæmi að nær lagi sé að biðja um 90% hækkun.

Ef við komum þessu í framkvæmd í dag þá er bara eftir að jafna út laun fyrir sambærileg störf og fyrir aðstöðumun á vinnumarkaði og skipta jafnar á milli kynja launuðum og ólaunum störfum. Þá er þetta komið! Finnst við eigum nú að koma þessu í framkvæmd á innan við 627 árum! 


Til hamingju með daginn!

Full ástæða til að fagna í dag - 24. október. Ekki bara dagurinn sem við minnumst fyrir Kvennafrídagana heldur einnig dagur Sameinuðu þjóðanna - þær eiga afmæli í dag. Birti af því tilefni pistil dagsins sem ég skrifaði fyrir Viðskiptablaðið - og óska Viðskiptablaðinu um leið til hamingju með nýja vefinn! 

**

Til hamingju með afmælið
Sameinuðu þjóðirnar eiga afmæli í dag. Þær voru stofnaðar þann 24. október 1945 og frá árinu 1948 hefur 24. október verið dagur Sameinuðu þjóðanna. Árið 1971 var samþykkt að leggja til að aðildarríki SÞ gerðu daginn að hátíðisdegi.

Þjóðabandalagið
Sameinuðu þjóðirnar eru arftakar Þjóðabandalagsins, en hlutverk þess var að tryggja að stríð brytist aldrei aftur út. Þjóðabandalagið var stofnað 10. janúar 1920 í kjölfar fyrri heimstyrjaldarinnar. Á Wikipediu er því haldið fram að þáverandi utanríkisráðherra Breta, Edward Grey, sé hugmyndasmiður Þjóðabandalagsins. Á öðrum stað er Woodrow Wilson, þáverandi Bandaríkjaforseta eignaður heiðurinn. Frakkinn Léon Victor Auguste Bourgeois er oft nefndur „andlegur faðir“ Þjóðabandalagsins, ásamt því að vera fyrsti forseti þess.

Framlag kvenna
Svo virðist sem hlutur kvenna í þessari sögu sé rýr. Þegar betur er að gáð gegna þær stóru hlutverki. Á þessum tíma var mikil barátta í gangi fyrir kosningarétti. Nátengd þeirri baráttu var friðarbarátta kvenna. Árið 1915 skipulögðu nokkrar konur alþjóðlegan kvennafund í Hollandi og lágu þær undir ámæli um landráð fyrir vikið. Þangað mættu 1200 fulltrúar auk 700 gesta. Markmið fundarins var tvíþætt; berjast fyrir kosningarétti og setja á fót gerðardóm í lausn alþjóðlegra deilna. Á fundinum var samþykkt 18 punkta plagg til að enda fyrri heimstyrjöldina og stuðla að heimsfriði. Þetta plagg fékk Wilson Bandaríkjaforseti afhent ásamt öðrum þjóðarleiðtogum.

Friðarverðlaunahafar Nóbels
Árið 1918 lagði Wilson fram 14 punkta sem tillögu að hvernig ætti að stuðla að heimsfriði. Augljóst er að sumar af tillögum kvennanna frá 1915 hafa ratað inn í tillögur Wilsons. Óneitanlega mætti gera þessum hlut sögunnar hærra undir höfði. Wilson hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1919 og Bourgeois árið 1920. Fyrsta konan sem hlaut friðarverðlaunin var Jane Addams árið 1931. Jane Addams var einn af skipuleggjendum og fundarstýra alþjóðlega kvennafundarins í Hollandi 1915.

Kynbundin mótun
Þjóðabandalagið leið undir lok í apríl 1946, stuttu eftir að SÞ voru stofnaðar. Konur eiga mun stærri þátt í heimsskipan sem byggir á friðsamlegum baráttuaðferðum en þær fá heiður fyrir. Ef hugsað er til hefðbundinna kynhlutverka karla og kvenna er stríð nátengt karlmennskuhugtakinu á meðan sátta- og samningaleiðin er nátengd kvenleikanum. Þrátt fyrir að ég gangi ekki með neinar grillur í kollinum um að konur séu í eðli sínu friðsamlegri en karlar þá er ekki hægt að líta fram hjá þeirri kynbundnu mótun sem byggir á ofbeldisdýrkun tengdri karlmennskunni og þar með talið stríði sem samþykktri aðferð til að leysa deilur. Reynsluheimur kvenna byggir á öðrum væntingum, væntingum um að leysa málin í sátt og samlyndi án ofbeldis.

Völd til kvenna
Samkvæmt SÞ voru 90% fórnarlamba stríðs hermenn og 10% almennir borgarar í upphafi 20. aldarinnar. Nú, 100 árum síðar, hafa hlutföllin snúist við og eru meirihluti fórnarlamba konur og börn. Konur eru samt sem áður enn að mestu fjarverandi þegar kemur að ákvarðanatöku um stríð. Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri SÞ, lét nýlega þau orð falla að „Í dag skiljum við, jafnvel betur en stofnendur SÞ, að völd til kvenna er grundvallarskilyrði ef við eigum að ná árangri í átt að þeim markmiðum sem SÞ byggja á“. Er ekki kominn tími til að koma því í framkvæmd?
 


Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband