Fréttir vikunnar

Það hringdi í mig blaðamaður frá DV í gær og bað mig um að segja mitt álit á fréttum vikunnar. Ég byrjaði á að tiltaka hversu ánægjulegt mér þótti að sjá laun starfsfólks á leikskóla hækka um 10%. Eins stóð upp úr hversu margir atburðir tengdir jafnrétti voru á dagskrá þessa vikuna og síðan þjóðkirkjan og hjónabandið. Þó ég geri mér grein fyrir að þjóðkirkjan er að ganga lengra en margar aðrar kirkjur þá er þetta engan veginn ásættanlegt. Misrétti er misrétti, þó í mismunandi miklu mæli sé. Ég er reyndar á því að það sé ekki nóg að leyfa samkynhneigðum að ganga í hjónaband. Ég vil líka að gagnkynhneigðum sé leyft að ganga í staðfesta samvist, enda finnst mér staðfest samvist fallegri en hjónaband. Ástæðan er sú að það er nýtt form sem byggir ekki á kúgun frá fornu fari heldur er frá upphafi byggt á jafnræði og jafnrétti á milli þeirra sem kjósa að staðfesta samvist sína. Sama hversu mikið hugmyndir á bakvið hjónabandið breytast þá er aldrei hægt að taka tilbaka að uppruni þess byggir á eignarétti karla yfir konum og hjónabandið yfirfærlsa á eign dóttur frá föður yfir til eiginmanns. Þess vegna giftast konur en karlar kvænast - þær gefast, þeir eignast konu. 

**

En það er heilmikið annað í fréttum sem vert hefði verið að minnast á líka. Ég var t.d. svo ljónheppin að  vera boðuð á fund borgarráðs í gær. Ég fékk sem sagt að vera hluti af 5000. borgarráðsfundi Reykjavíkurborgar og var fundurinn í Höfða af því tillefni. Það var gaman. Sérstaklega þegar ég las í fréttum í gær að hinn sami fundur hefði samþykkt að leggjast gegn nektardansi á þeim stöðum sem alla jafna eru kenndir við súludans en nær væri að kenna við kvenhatur.

Annað mál. Ég á ekki orð út af endurútgáfu bókarinnar 10 litlir negrastrákar. Ég gúddera alveg þau rök að þetta sé hluti af "menningararfi" okkar Íslendinga en það breytir ekki að þetta er hluti af rasískum menningararfi okkar Íslendinga og á að meðhöndla sem slíkt. Síðast var bókin gefin út 1975. Þá var ég 5 ára og ég man vel eftir bókinni og að hafa sungið lagið hástöfum. Verst að ég mundi ekki eftir því þegar ég 15 árum seinna fór til Bandaríkjanna í nám og fyrsta ritgerðarverkefnið mitt var að skrifa um kynþáttafordóma út frá eigin reynslu. Ég fór til kennarans í örvæntingu og útskýrði fyrir honum að þetta væri eitthvað sem ég gæti ómögulega skrifað um - á Íslandi væru hér um bil allir hvítir og ég þekkti engan sem væri af öðrum kynþætti. Hann sagði mér að skrifa ritgerðina engu að síður og eina sem mér datt í hug var að skrifa um hversu fjölbreyttari flóru veitingahúsa við hefðum eftir að hingað kom flóttafólk frá Víetnam. Í dag væri ég mun betur í stakk búin til að skrifa þessa ritgerð - ekki út frá því sem hefur breyst eftir að ég skrifaði ritgerðina heldur vegna þess að nú átta ég mig betur á kynþáttafordómunum sem birtust í íslensku samfélagi fyrir þann tíma. Hér þótti sjálfsagt mál að segja alls kyns brandara um t.d. litlu börnin frá Eþíópíu o.s.frv. Einsleitni samfélagsins gerði það að verkum að hér fengu viðhorfin að grassera í friði og fáir hugsuðu út í hvern væri verið að særa - eða á hvers hlut væri verið að brjóta.

Í dag erum við ekki lengur einsleitt samfélag hvítingja. Við eigum líka að vera upplýstari - svo lengi lærir sem lifir og allt það... Það er óþarfi að brenna eldri útgáfur bókarinnar á brennu. Hins vegar ætti að skoða hana með þeim augum að þarna er birtingarmynd kynþáttafordóma. Ætti að vera bannað að endurútgefa bókina? Kannski ekki. En í minnsta falli ætti að kalla hlutina sínum réttu nöfnum og segja að þarna er hvítt fólk að sýna kynþáttafordóma sína í verki. Það er ekki í lagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Ein lítil spurning,ég játa vanþekkingu mína á hvar skilin liggja á milli kynþáttafordóma og ekki fordóma,hvers vegna er orðið Negri niðrandi átta mig ekki heldur á því.ER víst að höfundar mynda og texta í umræddri bók hafi stjórnast af kynþáttafordómum???

Ari Guðmar Hallgrímsson, 26.10.2007 kl. 11:41

2 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Mjög góð umræða um staðfesta samvist. Hafði ekki fattað þetta sjónarhorn.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 26.10.2007 kl. 12:14

3 identicon

Góðar pælingar með staðfesta samvist. Held að hugtakið hjónaband hafi nú þróast í átt að jafnrétti. Allavegana lít ég aðila í hjónabandi jöfnum augum. 

Það er erfitt að segja hvort höfundur umræddrar bókar hafi stjórnast af kynþáttafordómum. Held samt að ef einhver myndi semja lag og bók um 10 litla homma að deyja myndi vera tiltlaður með hommafóbíu. 

Jón Gunnar Ásbjörnsson (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 12:37

4 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Já Ari - skilin geta verið óljós. Hins vegar ef rýnt er í efnisinnihald bókarinnar - þar sem strákarnir deyja hver á fætur öðrum út af einhverjum "göllum" þá er ansi erfitt að stimpla þetta ekki sem rasisma. Negri þótti einhvern tímann vera samþykkt orð - en eins og með mörg orð að þegar þau eru notuð ítrekað í niðrandi merkingu þá fá þau á sig neikvæðan stimpil. Annað dæmi úr íslenskunni er orðið kerling - sem var einu sinni fallegt orð yfir eldri konu en er nú það oft notað sem skammaryrði að orðið hefur fengið á sig neikvæðan blæ.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 26.10.2007 kl. 12:48

5 identicon

Þetta er áhugavert og ágætt að benda fólki á að rasismi þreifst ekki aðeins í íslenskum barnabókum.

Skemmst er að minnast Ævintýrabókanna eftir Enid Blyton þar sem vondu körlunum var undantekningalaust lýst sem útlenskum, dökkum á hörund og heimskum. Grófasta tilfellið sem ég man eftir var held ég í bókinni Ævintýrafjallið þar sem faðirinn í fjölskyldu söguhetja, tók sér svartan þræl sem kallaði hann í sífellu húsbónda sinn.

Brynja Björk (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 15:25

6 identicon

Ég nenni ekki að röfla þannig að ég set bara inn brandara í staðinn:

Eftir 3 erfiða mánuði umsækjenda um stöðu í Bandarísku leyniþjónustunni CIA, voru bara 3 umsækjendur eftir. 2 Karlar og ein kona.

Þeim var öllum skipað út á æfingaskotsvæði þar sem þau stóðu fyrir framan líkön af húsum.

Við fyrsta karlmanns umsækjandann var sagt:  Lokaprófið gengur út á að athuga hvort við getum treyst því að þú farir í einu og öllu eftir öllum skipunum. Hérna er byssa, farðu inn í þetta hús þarna.  Í einu herberginu finnur þú konuna þína bundna við stól.  Við viljum að þú drepir hana.

Það kom undrunar svipur á manninn sem fór með semingi inn í húsið.

Eftir  10 mínútur kom hann til baka með tárin í augunum og sagðist elska konuna sína og bara ekki geta þetta með nokkru móti.

"Allt í lagi við skiljum þetta fullkomlega" sagði CIA yfirmaðurinn sem var með þeim. "Þú ert bara einfaldlega ekki gerður fyrir þessa vinnu"

Það sama var sagt við karlmann nr. 2 og með semingi fór hann inn í húsið.  

Eftir 30 mínútir kom hann grátandi út og sagðist elska konuna sína, þau væru búin að vera gist í 20 ár og hann bara gæti þetta ekki.

"Allt í lagi við skiljum þetta fullkomlega" sagði CIA yfirmaðurinn sem var með þeim. "Þú ert bara einfaldlega ekki gerður fyrir þessa vinnu"

Þá sveri hann sér að seinasta umsækjandanum, einu konunni í hópnum og sagði.  "Hérna er byssa, þú þekkir þetta, í einu herberginu finnur þú eiginmann þinn bundinn í stól, þú veist hvað þú átt að gera".

Konan sýndi engin svipbrigði, tók við byssuni,  sagði lágum rómi "Yes Sir" og gekk gekk róleg en einbeitt af stað inn í húsið.

Eftir aðeins 30 sekúndur heyrðust 2 skot með stuttu millibili, og síðan alveg ógurleg öskur, bæði karlmanns og kvennamanns.

Þeir sem stóðu fyrir utan litu hvern á annan, en stuttu síðar hljóðnaði allt.

Konan kemur síðan gangandi út, með úfið hárið, móð og másandi og löðursveitt.

"Þið eruð nú meiri ógeðslegu svínin" öskraði hún.  "Það voru púðurskot í byssunni og ég þurfti að berja hann til bana með byssuskeftinu."

Fransman (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 16:17

7 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Brynja Björk: já, það væri mjög áhugavert að sjá úttekt á bæði kynjamisrétti og kynþáttafordómum í barnabókmenntum... bæði í fortíð og nútíð.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 26.10.2007 kl. 16:40

8 identicon

Fransman--ekki fyndið, bara ógeð.

Margrét (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 17:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband