Nýja frumvarpið um breytingar á Jafnréttislögum

Þá er ég búin að renna í gegnum frumvarpið um breytingar á jafnréttislögum. Líst ljómandi vel á og margt gott að finna í breytingunum. Femínistafélagið á til dæmis að fá sæti í Jafnréttisráði Smile Flottasta tillagan held ég að sé að gera jafnréttisumsögn með öllum stjórnarfrumvörpum - allavega ef hún verður gerð. Það að atvinnurekendur geti ekki bannað fólki að segja öðrum launin sín er líka af hinu góða, 2 tilnefningar í ráð og nefndir (1 af hvoru kyni) er góð, auknar heimildir Jafnréttisstofu, Jafnréttisþing... og svo mætti lengi áfram telja. Ég held að það sé ekkert í frumvarpinu sem ég myndi taka út. Ferlið í kringum vinnuna var til fyrirmyndar. Leitað eftir umsögnum um víðan völl og samvinna við marga aðila. 

Ég var samt spæld að sjá Bjarna Ben nota tækifærið og þylja upp allt sem hann vill ekki samþykkja - sem eru flestar aðgerðirnar sem ýta á eftir breytingum. Launaleynd er ekki í anda alvöru frjáls markaðar og því óskiljanlegt að þeir sem eru þannig þenkjandi séu fylgjandi launaleyndinni. Þar finnst mér augljóst að það er ekki jafnréttishugsjónin sem ræður för heldur valdatengslin - að tryggja atvinnurekendum völd umfram launþega. Það er ekki jafnréttisgrundvöllur að atvinnurekandi hafi allar upplýsingar um laun en launþegi eingöngu upplýsingar um sín laun.

En nefndin sem skilaði tillögunum á hamingjuóskir skildar. Við erum búin að prófa allar mildu leiðirnar og þær skila litlum árangri. Það er kominn tími til að stíga næsta skref og sjá hvort það beri meiri árangur. Ef frumvarpið nær í gegn er það bara nokkuð stórt skref í rétta átt Smile 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Kristinsson

ég er fullur efasemda um svona kynjajöfnuð, finnst að þið eigið bara að berjast fyrir auknum völdum á eigin verðleikum, ekki að neyða atvinnurekendur til að ráða ykkur,svo með að opinbera launin, er það ekki bara ávísun að lækka laun karla sem eru fyrirvinnur á mörgum heimilum?

Haukur Kristinsson, 8.3.2007 kl. 22:12

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Líst ljómandi vel á og margt gott að finna í breytingunum. Femínistafélagið á til dæmis að fá sæti í Jafnréttisráði," segirðu, Katrín Anna. En hvernig ætlið þið að skipa þá konu í ráðið?! Já, upphrópunarmerki! -- því að dómskerfið á Íslandi gerir mjög strangar hæfniskröfur til dómaraefna, þeir þurfa að hafa mjög góða lögfræðimenntun og/eða lögmanns/dómaraferil. Munuð þið gera slíkar kröfur til ykkar konu (því að kona verður það, svo mikið þykist ég vita)??? -- Nú, hvers vegna í ósköpunum ættuð þið að gera það, er ekki nóg að manneskjan sé inni í jafnréttismálum og góður femínisti? Nei, ekki aldeilis, heillin mín! -- En er þetta nú ekki dæmigerð frekja karlmanns og íhlutun í mál kvenna? Nei, góða mín, heldur er ég að taka fullt mið af því, að í tillögum nefndarinnar hennar Guðrúnar Erlendsdóttur er gert ráð fyrir, að Jafnréttisráð fái úrskurðarvald í deilum og að úrskurðir þess verði "bindandi í stað álita, eins og nú er" (Mbl.8/3, s. 26), já, endanlegir, m.ö.o.: þeim verði ekki áfrýjað til æðra dómsvalds. Jafnfréttisráð fái þannig bæði lögreglu- (rannsóknar-) og dómsúrskurðarvald, svona eins og sýslumenn höfðu hér áður fyrr á 14.-20. öld, þangað til hjólreiðamaður á Akureyri og Mannréttindadómstóllinn í Strasbourg kollvörpuðu því afleita fyrirkomulagi -- og eins og barnaverndaryfirvöld höfðu bæði rannsóknar- og endanlegt dómsvald í "sínum (!) málum" og enginn fekk við neitt ráðið (sbr. opnugrein vesalings móður drengs, sem sendur var til Breiðavíkur, í Mogganum í gær [1]).

Þú skilur væntanlega hvað ég er að fara. Ef dómstólar landsins eiga ekki með neinum hætti að fá að segja síðasta orð um þau mál, sem fara fyrir Jafnréttisráðið, heldur verði þar endanlegt, bindandi dómsvald, þá á auðvitað að gera afar strangar kröfur til "dómaranna" í því ráði. Það er t.d. ekki uppörvandi fyrir fyrirtæki að verða dæmd í 50.000 króna dagsektir vegna meintra "brota" á jafnréttislögum (= ein og hálf milljón í mánaðarsekt!), ef þau geta ekki sagt múkk eftir þann dóm og hvergi áfrýjað máli sínu -- og sízt eru það spennandi horfur, ef stækur eða fordómafullur femínisti getur (eða geta í fleirtölu) ráðið þar úrslitum í atkvæðagreiðslu innan ráðsins. Þá hjálpar það heldur ekki til bjartsýni í þessum efnum, ef viðkomandi femínisti teldist alls óhæfur til að taka sæti í nokkrum dómstól öðrum á öllu landinu.

Þetta asnalega kosningabeitumál Framsóknarflokksins verður að hugsa alveg upp á nýtt. Og spyrja má t.d.: Fæst einhver trygging fyrir því, að pólitískar hagsmunakonur verði ekki í yfirgnæfandi meirihluta skipaðar í þetta ráð? Mun ekki sérhver hinna þókknunargjörnu, vinsældaleitandi flokka skipa KONU í ráðið? Verður þetta ekki bara nákvæmlega eins og ástandið er í s.k. Mannréttindanefnd Reykjavíkur, þar sem bara konur virðast komast að?

Já, "hugsaðu" er mottó þitt, Katrín Anna (flott mottó), og hugsaðu nú!

[1] Mbl. mvd. 7/3, bls. 27: "Aftaka fjölskyldu í Hafnarfirði".

Jón Valur Jensson, 9.3.2007 kl. 00:34

3 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Jón Valur: Hugsaðu - og lestu frumvarpið yfir aftur Þú ert að rugla saman Jafnréttisráði og Kærunefnd jafnréttismála. Það er Kærunefnd sem mun geta skilað bindandi úrskurði ef að frumvarpið verður samþykkt. Kærunefnd mun eftir sem áður verða skipuð 3 lögfræðingum og Femínistafélagið mun ekki koma þar nærri... þannig að þú getur andað rólega Þrátt fyrir að kærunefnd skili nú bindandi úrskurði er ekki búið að loka fyrir þann möguleika að málsaðilar taki málið lengra og fari fyrir dómstóla... Það að hugsa stendur alltaf fyrir sínu - en menn verða líka að gæta þess að rugla ekki saman eplum og appelsínum!

Haukur: En hvað finnst þér um karla - finnst þér ekkert að þeir eigi að komast áfram á eigin verðleikum? Eða finnst þér þeir kannski bara svona miklu hæfari en konur að það sé ástæðan fyrir því að þeir komast frekar til valda?

Þetta með karla sem fyrirvinnur er líka orðin úrelt klisja. Veistu hversu margar konur eru fyrirvinnur á sínu heimili? Fyrir utan hvað hér eru margar einstæðar mæður (lesist kvenkyns fyrirvinnur) þá er atvinnuþátttaka kvenna með allra hæsta móti hér á Íslandi - og alls ekki neitt svo mikið minni en karla. Það er fáránlegt að karlar séu með hærri laun fyrir sitt framlag til samfélagsins heldur en konur.

Konur halda uppi hálfum himninum!

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 9.3.2007 kl. 01:24

4 Smámynd: Jason

Kæru konur og karlar.

VR var með auglýsingaherferð fyrir nokkrum árum.  Þar var sýnt þegar kona fór í atvinnuviðtal og hverjar launakröfur hennar vorur.  Svo var sýnt þegar karlmaður fór i sama atvinnuviðtal og launakröfurnar hans voru örugglega 50% hærri.  Spurt er því:  Getur verið að kvenmenn í þessu þjóðfélagi vanti kjark, þor og sjálfstraust til þess að fara einfaldlega fram á hærri laun ?  Held nefnilega að raunveruleikinn sé ekkert langt frá þessarri auglýsingu, því miður.

Ég tel að ungir kvenmenn sem eru að alast upp í dag muni ekki skorta þennan kjark, þor og hugrekki, enda munu þær telja það sjálfsagt að krefjast réttlátra launa fyrir vinnu sína, og ekki semja um annað. Því miður þá held ég að það sé vantrú kvenna á vinnumarkaði  í dag á sjálfum sér sem geri stóran launamun, því einhverja hluta vegna sættast þær á lægri laun en karlmenn.  Semjið um hærri laun stelpur, biðjið um 50% meira en þið þorið að biðja um, og ykkur mun takast það.  Þið þurfið ekki lagasetningu sem á að neyða fyrirtæki og stofnanir til þess að greiða ykkur há laun, þið þurfið sjálfstraust til þess að sækja um alvöru stöður og biðja um alvöru laun.  Enn og aftur hafið trú á sjálfum ykkur, ekki lagasetningum.

Mín skoðun, Jason.

Jason, 9.3.2007 kl. 02:04

5 Smámynd: Jason

Þetta er punkturinn.  Það verður ekkert mál að setja kynjakvóta á stöður hjá ríkisreknum fyrirtækjum, enda er arðsemi ekki meginkrafa opinberra stofnana eða fyrirtækja.

En eins og Einar bendir á, þá er íslenskt viðskiptalíf og fyrirtæki ekki svo vitlaus að ráða karlmenn (og það á hærri launum), einungis út af því að þeir eru karlmenn.  Þar gildir krafa um háa arðsemi, og ef kona er hæfari en karlmaður í starfið (og ég tala nú ekki um ef hún er tilbúin að vinna fyrir lægri laun) þá að sjálfsögðu verður hún ráðin.  Hins vegar held ég eins og ég sagði í fyrri færslu minni, að hæf kona fái alveg eins mikil laun og hana lystir, þeas sækist eftir, enda vilja fyrirtæki ekki missa hæfa konu frekar en þau vilja missa hæfan karlmann.  Að trúa öðru konur er að hafa vantrú á sjálfum sér.

Jason, 9.3.2007 kl. 02:25

6 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Stákar ef þið lesið yfir það sem þið eruð að segja... sjáið þið ekkert athugavert við framsetninguna? Í hnotskurn eru ykkar skilaboð þessi:

"Fólk mismunar aldrei eftir kyni. Ástæðan fyrir því að konur eru með minni völd og lægri er konum að kenna. Konur eru gallaðar og ekki eins hæfar og karlar. Það útskýrir stöðuna."

Svo segið þið að konur eigi bara að hafa trú á sjálfum sér! Málið er að konur hafa trú á sjálfri sér. Við vitum fullvell að við erum jafnhæfar og karlar. Við vitum að við eigum að hafa sama aðgang að völdum og sömu laun fyrir okkar framlag til samfélagsins. En "einhverjir" virðast telja að karlkynið sé betra og hæfara - og kjósa því frekar karla og greiða þeim frekar hærri laun...

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 9.3.2007 kl. 09:42

7 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

ps. átti að vera lægri laun í 2. málsgrein.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 9.3.2007 kl. 09:43

8 Smámynd: Jason

Katrín, meiningin mín er ekki sú að aldrei hafi verið mismunað eftir kyni, það hefur öruggega gerst, á báða bóga.  Ég vil meina að launamunur sé til vegna einstaklinga samfélagsins.  Þeas einstaklingurinn sækir sér ekki hærri laun.  Hér skiptir í raun og veru ekki hvort um sé verið að ræða að kona sé á hærri launum en karlmaður (sem er nú líka til), eða karlmaður á hærri launum en kvenmaður.  Það er einstaklingurinn sem á að hafa trú á sjálfum sér, bæði karlar og konur, og sækja sér sínar launahækkanir.  Ég spyr, þegar búið er að ná því fram að konur eigi að hafa sömu laun og karlmenn í ákveðnum stöðum, munu þær síðan sækja launahækkanir eða eiga karlmennirnir í svipuðum stöðum að sjá um það og konurnar svo að fylgja á eftir í launum út af lagasetningu ?  Pæling.

Og Katrín eins og þú sérð að þá finnst mér þetta svo absúrd.  Ef ég ætti sjálfur og ræki fyrirtæki, þá myndi mér ekki detta það í hug að ráða karlmann bara út af því að hann væri karlmaður.  Ég mundi ráða hæfasta einstaklinginn með tilliti til launakrafna.  Sé það kona mundi ég að sjálfsögðu ráða hana.  Og ef ég fyndi bara hæfar konur en engir hæfir karlmenn mundu sækja um hjá mér, þá mundi ég bara ráða hæfar konur (nema auðvitað að lagasetningin væri nú orðin þannig að ég þyrfti að ráða helming karla, hummm).  Enn og aftur, held að þetta breytist með komandi kynslóðum.  Ekki er ég upptekin af kyni eins og þú sérð og ég er viss um að stelpur sem eru að alast upp í dag séu ekki heldur uppteknar af kyni sínu.  Þær vita að það er hæfasti einstaklinguinn sem lfiir af, og vilja taka þátt í þeirri samkeppni, en ekki vera ráðnar út af því að lögin segja það, frekar en að nokkur karlmaður vilji láta ráða sig út af því að lögin segja það.

Jason, 9.3.2007 kl. 10:27

9 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Já en málið er Jason að mismunun þarf ekki að vera meðvituð til að eiga sér stað. Tek sem dæmi rannsókn sem gerð var á dómnefndarálitum í HÍ. Þar kom fram að önnur orð voru notuð til að lýsa umsóknum kvk og kk þátttakenda. Einnig voru notuð karlæg orð til að lýsa "góðum" umsækjendum af báðum kynjum, en ef átti að lýsa þeim neikvætt var notað kvenlægt orðfæri. Mjög áhugavert... En málið er að hæfni er ekki eitthvað algilt, hlutlaust mat og við höfum öll verið þjálfuð til að sjá t.d. leiðtoga sem karlkyns... rétt eins og við höfum verið þjálfuð til að sjá hjúkkur sem kvenkyns... o.s.frv. o.s.frv. Allt þetta hefur áhrif - og þess vegna skiptir máli að við skoðum kynjakerfið og þekkjum birtingarmyndir misréttis.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 9.3.2007 kl. 10:31

10 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Ps og af hverju er endalaust í lagi að segja að konur eigi að breyta hinu og þessu en ekki í lagi að segja að karlar eigi að breyta hinu og þessu???

Mín skoðun er sú að við þurfum öll að breyta ef við ætlum að ná jafnrétti...  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 9.3.2007 kl. 10:32

11 Smámynd: Jason

Mikið rétt að mismunun þarf ekki að vera meðvituð, en ég er að tala um meðvitaðan launa- og ráðningarmismun sem ég held að sé nú varla til lengur og hafi jafnvel aldrei verið til (konur voru bara jafnvel ekki eins samkeppnisfærar áður en eru það vissulega í dag).

Katrín skrifar: og af hverju er endalaust í lagi að segja að konur eigi að breyta hinu og þessu en ekki í lagi að segja að karlar eigi að breyta hinu og þessu ?

Það er allt í lagi að segja að karlar eigi að breyta hinu og þessu, en konur eru nú örruglega (vonandi) þær sem eru í meirihluta að berjast fyrir réttindum sínum.  Vona að við séum  svo öll að berjast fyrir réttlæti en ekki kynbundnu réttlæti eingöngu.

Katrín skrfar: Mín skoðun er sú að við þurfum öll að breyta ef við ætlum að ná jafnrétti.

Já breyta hverju til að byrja með ?  Konur eru nú þegar orðnar í meirihluta að ég held í háskólanámi hér við land, og áður en langt um líður verða þær komnar í valdastöður innan fyrirtækja, svo lengi sem þær sæki um þau störf.  Þannig að ég tel að kynjahlutfall muni jafnast út með komandi árum, eingöngu vegna þess hve kvenmenn eru sjálfir orðnir samkeppnishæfir, og verða hæfari og hæfari með hverju árinu.  Þess vegna tel ég afturför að setja lagasetningu um kynjakvóta, það mun draga úr hæfni kvenmanna, eldmóðnum sem drífur þær áfram í dag, og gera það að verkum að þær munu fá störf sem þær jafnvel fengju annars ekki, kyns síns vegna eingöngu.  Og það gerir hvorki þeim gott, né systrum þeirra, né karlmönnum.

Jason, 9.3.2007 kl. 11:04

12 Smámynd: Jason

Ps.  Eitt að lokum.  Eins og þú sérð að þá er ég bara ekki að ná þessarri kynbundnu umræðu endalaust.  Heldur trúi ég einfaldlega á einstaklinginn, og hef meira en mikla trú á honum, hef FULLA TRÚ Á HONUM.  Það er til fullt af fólki sem vantar kraft, eldmóð, sjálfstraust og þor, sem skiptist bæði í kvenmenn og karlmenn.  Og það fólk fær ekki há laun og getur kennt sjálfu sér um að vera ekki nógu samkeppnishæft.  Og svo eru til fullt af kvenmönnum og karlmönnum sem hafa þetta allt, fullt af einstaklingum sem geta gert allt í krafti sjálfs síns, en ekki kyns síns vegna.  Það er HÆFNI OG MÁTTUR EINSTAKLINGSINS, en tengist hvorki mætti kvenna né karla.

 Áfram einstaklingar !

Jason, 9.3.2007 kl. 11:16

13 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Ég er búinn að grunnlesa frumvarpið og er sáttur með það. Ég hef séð bæði karla og konur fara "fram" vegna kyns síns og líkar það ekki. Ég vil jafnrétti, allra, óháð kyni. Verðleikar eiga að standa efst, ekki eitthvað annað.

Ragnar Bjarnason, 9.3.2007 kl. 14:57

14 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Jason: Hér koma groundbreaking news... vona að þú sért sitjandi Konur hafa alla tíð verið jafnhæfar og jafngáfaðar og karlar! Konur hafa alla tíð lagt jafnmikið til samfélagsins og karlar! Konur hafa alltaf haldið uppi hálfum himninum - og karlar hinum helmingnum. Það er því ekki nóg að hafa fulla trú á einstaklingnum - það verður líka að passa að mismuna ekki eftir kyni. Konur hafa í gegnum tíðina mátt þola það að vera t.d. vísað frá vinnu vegna þess að karlar áttu að vera í forgang. Til voru 2 launataxtar hér í den - karlataxti og kvennataxti. Taxtarnir voru fyrir sömu störf - en mönnum fannst ástæða til að borga konum lægri laun bara vegna þess að þær voru konur... Það var ekki óvart, það var ekki ómeðvitað - það var kerfisbundið og viðurkennt. 

Í bókinni Strá í hreiðri - sem er um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, má lesa um hvernig henni sveið misréttið í launakjörum. Þar kemur líka fram að vinnudagur kvenna var lengri en karla. Þegar karlarnir komu þreyttir heim var það hlutverk kvennanna að draga af þeim skítuga skóna og stjana við þá. Þeir gátu farið og hvílt sig eftir langan vinnudag en þeirra vinna hélt áfram - þrátt fyrir að þær væru í alveg jafn mikilli erfiðisvinnu og voru alveg eins þreyttar og þeir.

Það er langt síðan konur fóru að fá sömu menntun og karlar og ef það væri eina málið þá væru konur nú með jöfn laun og í sömu valdastöðum og karlar. Það er bara ekki að gerast - og í ljós er komið að menntun er ekki lykillinn sem leysir allt.

Eftir stendur að við höfum alla tíð búið við mismunun á konum og körlum eftir kyni. Sú mismunun viðgengst enn í dag. Það er til fullt af hæfileikaríkum og flottum konum í dag og það er fáránlegt að halda því fram að ástæðan fyrir því að konur séu ekki með jafn mikil völd og karlar sé vegna þess að þær eru ekki nógu góðar! En málið er líka að það hefur alltaf verið til fullt af hæfileikaríkum og flottum konum - síðan er bara spurning hversu lengi samfélagið ætlar að meta karlmenn sem "hæfari" og konur sem minna hæfar eða gallaðar. Ég vona að það viðhorf hverfi fljótt - en greinilegt að enn er þetta viðhorf er enn við lýði.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 9.3.2007 kl. 16:07

15 Smámynd: Jason

Katrín, konur hafa því miður ekki verið jafnhæfar til starfa ávallt eins og þú talar um, nema ef vera skildi í verksmiðjustörf eða láglaunastörf sem ekki hefur verið krafist mikillar menntunar í.  Og sé það rétt þetta með launataxtana sem ég geri nú ráð fyrir að sé, þá er það alger hneisa auðvitað, skil ekki kví konur mættu þá yfirhöfuð til vinnu, því miður, enda hlýtur þetta að hafa breyst og hækkað til jafns við karla því þær hafi hætt að láta bjóða sér þetta, annars væri þetta enn gert í dag.

En þegar ég segi að konur hafi ekki ávallt verið jafnhæfar og karlmenn, þá er ég meina þegar kemur að menntun og hæfni í eftirsótt stjórnunarstörf.  Við höfum alltaf verið jafngáfuð, en kvenþjóðin nýtti sýna hæfileika á öðru sviði en til menntunar framan af.  Þannig að þetta voru nú engar groundbreaking news :)  Konur hafa nú sótt sér menntun og eru jafnhæfar karlmönnum, jafn samkeppnisfær, og er það bara frábært.

Við getum amk sammælst um það að þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að ég verði forstjóri í mínu fyrirtæki í framtíðinni, þar yrði hæfum konum svo sannarlega veitt tækifæri til jafns karlmönnum, allt eftir hæfni hvers einstaklings en ekki hvort viðkomandi sé kk eða kvk.  Ég mundi aldrei láta frá mér góðan starfsmann, og það kemur því engu við hvort það sé kona eða karlmaður.

Jason, 9.3.2007 kl. 20:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband