Færsluflokkur: Bloggar

Það er víst bloggið sem blívur...

Hef ekki verið sérstaklega dugleg við að blogga síðan ég færði mig yfir á blogspot - og enn síður eftir að kreppan skall á. Um daginn fór ég á fund með Colleen P. Graffy sem ber þann stutta og látlausa starfstitil: Deputy Assistant Secretary for Public Diplomacy Bureau of European & Eurasian Affairs hjá United States Department of State. Auk mín voru á fundinum bloggararnir Silja Bára Ómarsdóttir, Jón Axel Ólafsson og Reynir Jóhannesson. Fundurinn var hinn skemmtilegasti og kveikti aftur hjá mér löngunina til að blogga. Er búin að hugsa um þetta síðan og ákvað að láta vaða. Svo skemmir auðvitað ekki fyrir að nú get ég sagt „vegna fjölda áskorana!“. Setti nefnilega inn á facebookið hjá mér í morgun að ég væri að spá í að byrja aftur að blogga og fékk heil 3 viðbrögð á stuttum tíma ;) sem voru öll á einn veg - og þar sem ég er einstaklega hlýðin að eðlisfari er bloggið hér með aftur komið í loftið - auglýsingalaust, að sjálfsögðu. 


Takk fyrir mig

Ein af ástæðunum fyrir því að ég færði mig yfir á moggabloggið á sínum tíma var að hér voru ekki auglýsingar á bloggsíðum. Nú hefur það breyst og þar af leiðandi færi ég mig aftur yfir á blogspot. Ég er hvorki til í að blogga ókeypis til að auglýsa fyrirtæki sem ég hef mismunandi miklar mætur á né vera með auglýsingar sem mér mislíkar inn á blogginu. Ég veit að það kemur að því að einhver setur inn auglýsingu sem ég tel skaðlega fyrir jafnrétti kynjanna. Það er nóg af slíkum auglýsingum í gangi. Ég þakka því fyrir mig hér á þessum stað. Gamla bloggið mitt er hugsadu.blogspot.com og ég mun halda áfram að blogga þar.

Ciao! 


Góð spurning

cartoon

Best að borða fíl í mörgum litlum bitum

Heyrði þessa sögu fyrir nokkru síðan og finnst hún góð. Eftirlæt þó hverjum og einum að sannreyna hana upp á eigin spýtur.

Í Slóveníu er tungumálið kynjað og m.a. er sitthvort orðið yfir kven- og karlkyns bílstjóra. Nú bregður svo við að lögreglan stöðvar konu eina fyrir of hraðan akstur. Sú var ekki sátt og fór í mál á þeirri forsendu að lögin um ökuhraða ættu ekki við hana þar sem karlkynsheitið yfir bílstjóra var bara notað í lögunum en kvenkyns bílstjórar komu þar hvergi við sögu. Styst er frá því að segja að konan vann málið og var ekki sektuð. Í kjölfarið var stjórnarskrá landsins breytt og kveðið á um að framvegis skyldu lög vera skrifuð á máli beggja kynja.

Þessi saga rifjast upp fyrir mér núna þegar Steinunn Valdís hefur lagt fram tillögu um að starfsheitinu ráðherra verði breytt svo það nái yfir bæði kyn. Þetta er löngu tímabær tillaga, enda sjálfsagt að bera jafn mikla virðingu fyrir báðum kynjum - og sýna þá virðingu í verki með því að ætlast ekki til þess að konur breyti sér í herra. Málið vekur að sjálfsögðu upp andstöðu og sumir eru duglegir við að benda á að önnur stærri mál séu í forgang. Málið er nú samt bara þannig að þjóð sem ekki getur leyst úr litlu málunum hratt og örugglega er örugglega ekki heldur fær um að leysa stóru málin. Það er auðveldara að borða fílinn í mörgum litlum bitum heldur en að gleypa hann í heilu lagi. Common sense myndu sumir segja...


Karla- og kynjakvótar

Setti inn nýja spurningakönnun í tilefni af umræðum gærdagsins: Hvort er skárra - samfélagslegir karlakvótar eða lagalegir kynjakvótar?

Finnst áhugavert að fylgjast með hvernig umræðan fer úr böndunum um leið og orðið kynjakvóti ber á góma. Það orð er pottþétt á bannlista yfir það sem má ræða. Sennilega þess vegna sem ég setti skoðanakönnunina inn... bara af því að það er bannað Wink enda held ég að það sé langt þangað til einhver alvöru umræða um kynjakvóta í stjórnir fyrirtækja eigi sér stað hér á landi og skil því ekki þetta panik.

Veit ekki um neitt afl sem er að berjast fyrir kynjakvótum í stjórnir, eina sem ég veit er að viðskiptaráðherra segist ekki útiloka þá leið sem allra síðustu leið þegar allt annað hefur verið þrautreynt (eða eitthvað í þá áttina). Já, full ástæða til að hræðast slík orð. Tek fram að ég útiloka ekki forsetaframboð eða að ég sækist eftir borgarstjórastólnum í næstu kosningum. Það þýðir ekki að annaðhvort muni gerast. Ég útiloka ekki heldur að hinir samfélagslegu karlakvótar í stjórnir fyrirtækja sem nú eru við líði muni líða undir lok. En mér finnst það afar ólíklegt. 


2 spurningar

Jæja, held ég sé búin að vera í pásu nógu lengi og er að hugsa um að byrja aftur að blogga - en í smættaðri mynd og ekki með eins skemmtilegum umræðum. Athugasemdakerfið verður bara opið á einstaka innleggi.

Hér eru tvær „pælingaspurningar“ í tilefni af bók sem ég er að klára að lesa um fitufordóma og kúgun sem feitar konur verða fyrir. Spurningarnar eru:

1. Er siðferðislega rangt að vilja vera mjó/r?

2. Er siðferðislega rangt að vilja vera feit/ur? 


Gleðileg jól

Óska ykkur gleðilegra jóla, jafnréttis og friðar á komandi ári. Takk fyrir allt gamalt og gott Smile

askasleikir


Nýtt frumvarp til jafnréttislaga

Er hætt að blogga í bili. Ætla að enda með pistlinum mínum sem birtist í Viðskiptablaðinu síðasta miðvikudag. Takk fyrir góðar stundir. Happy

**

Er jafnrétti íþyngjandi?
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra kynnti nýlega nýtt frumvarp um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla fyrir Alþingi. Mörgum finnst tímabært að dusta rykið af eldri lögum, því segja má að þau hafi verið nokkurs konar skraut. Þau líta vel út á pappír en ekki er sérstaklega ætlast til að fólk, fyrirtæki og stofnanir framfylgi þeim.

Er hættulegt að leyfa launþegum að tjá sig?
Nýja frumvarpið er mikil framför frá núgildandi lögum þó ekki sé hægt að kalla þetta róttækt frumvarp. Í fjölmiðlaumræðu hefur umræðan um launamálin verið áberandi. 46 árum eftir að lög um jöfn laun fyrir sömu störf eru samþykkt og 40 árum eftir að aðlögunartíma atvinnurekenda til að kippa launamálum í lag lauk, eru Íslendingar að íhuga þá róttæku aðgerð að leyfa „lýðnum“ að tala um launin sín, hvorki meira né minna. Ekki er þó hægt að segja að full samstaða sé um þetta ákvæði og gott ef rökin eru ekki áþekk þeim sem heyrðust í gamla daga þegar það var beinlínis talið skaðlegt heilsu kvenna að mennta sig. 

Íhaldsamari unglingar
Andstaða við hvers konar aðgerðir í jafnréttismálum virðist sífellt vera að aukast og sönnunargögn um að við séum að upplifa bakslag eru margvísleg. Eitt dæmi er viðhorfskönnun sem Andrea Sigrún Hjálmsdóttir gerði á síðasta ári á meðal grunnskólanema í 10. bekk. Til samanburðar var sambærileg könnun frá árinu 1992 og viðhorfskönnun frá árinu 2003. Þarna kemur fram, svart á hvítu, að unglingar í dag eru íhaldsamari en jafnaldrar þeirra 15 árum árum áður.

Maðurinn með heftið getur keypt nýja þvottavél handa konunni
Bakslagið virðist vera mest á meðal ungra stúlkna en einnig er merkjanlegt bakslag hjá drengjum og þeirra viðhorf eru íhaldssamari en hjá stúlkunum. Staðan er þó ekki alsvört og í flestum tilfellum eru yfir helmingur bæði stúlkna og drengja á því að verkaskipting eigi að vera jöfn á milli kynja ef bæði kyn vinna úti. Ef einungis svör þeirra sem voru á því að annað kynið ætti að sjá um ákveðin verk eru skoðuð sést að konur eiga að þvo þvottinn, þrífa heimilið og fara á foreldrafundi á meðan karlar eiga að hirða um bílinn og sjá um fjármálin. Fleiri unglingar af báðum kynjum velja að annað kynið sjái um þessi mál á okkar tímum en árið 1992. Það er bakslag.

Eru upplýsingar skaðlegar?
Í þessu bakslagi birtist frumvarp um lög til að jafna stöðu kynjanna. Sumum þykir ekki fínt á okkar tímum að bregðast eigi við misrétti, t.d. með því að veita Jafnréttisstofu auknar heimildir til að kalla eftir upplýsingum frá fyrirtækjum um meint misrétti. Halda mætti að Jafnréttisstofa myndi meðhöndla þau gögn á skaðlegan hátt þegar tilgangurinn er sá einn að ganga úr skugga um hvort brotið hafi verið á rétti einstaklinga til að fá jafna meðhöndlun og jöfn tækifæri óháð kyni.

Jafnrétti og samkeppnisforskot
Á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins er sagt að jafnrétti kynja sé mikið hagsmunamál fyrirtækja. Ef aðilar SA trúa því í raun og veru er erfitt að skilja hvers vegna aðgerðir og úrræði sem auka eiga jafnrétti eru sögð íþyngjandi. Nær væri að taka allri hjálp sem eykur jafnrétti, og þar með samkeppnisforskot viðkomandi fyrirtækja, fagnandi. Þannig er hægt að gera bæði góð jafnt sem slæm fyrirtæki enn betri.
 


Kynjafræðiráðstefna - fyrir fróðleiksfúsa og forvitna

1012630RÁÐSTEFNA RANNSÓKNASTOFU Í KVENNA- OG KYNJAFRÆÐUM. 9. OG 10. NÓVEMBER Í AÐALBYGGINGU HÁSKÓLA ÍSLANDS

Dagskrárspjald (pdf, 80k)

Föstudagur:

13:15-13:20:   Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður RIKK
13:20-13:30:   Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands
13:30-14:10:   Drude Dahlerup, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann í Stockholm – "The glass ceiling" Why the Nordic countries are no longer the model for the whole world.
14:10-14:50:   Þorgerður Einarsdóttir – Vangaveltur og umræður 

Fundarstjóri:   Rósa Erlingsdóttir 

14:50-15:10:   Kaffihlé

15:10-17:10:   Málstofur I, II, III og IV

17:10-17:30:   Kaffihlé 
 
17:30-19:00:   Málstofur V, VI, VII og VIII

Laugardagur:

09:00-12:15:   Málstofur IX, X, XI og XII 

12:15-13.00:   Matarhlé 

13:00-15:30:   Málstofur XIII, XIV, XV og XVI 

15:30-15:45:   Kaffihlé

15:45-17:00:   Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra – Femínismi í samskiptum ríkja 
                         Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur 
                         Sigríður Þorgeirsdóttir, heimspekingur 
                         Silja Bára Ómarsdóttir, stjórnmálafræðingur 
                         Brynhildur Flóvenz, lögfræðingur 

                         Guðbjörg Lilja Hjartardóttir stjórnar umræðum.

17:00:              Ráðstefnulok – móttaka í boði félagsmálaráðherra

Sjá nánari dagskrá (pdf, 80k) 


Takk Bríet Bjarnhéðinsdóttir

Screenshot_8Í gær var afhjúpaður minnisvarði um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Mér finnst hann megaflottur! Smile Fréttablaðið er með umfjöllun um þetta á forsíðunni í dag. Myndin er þaðan. Íslenskar konur og karlar eiga Bríeti ótal margt að þakka. Hún var óþreytandi baráttukona og kom fjölmörgu í verk. Hún var fyrsta konan sem hélt opinberan fyrirlestur á Íslandi. Hún var ein af þeim fjórum konum sem fyrstar voru kjörnar í bæjarstjórn í Reykjavík. Hún var einn af stofnendum Kvenréttindafélags Íslands árið 1907. Félagið var stofnað heima hjá henni og hún var fyrsti formaður þess. Við minnumst hennar oftast í sambandi við kosningaréttinn sem við konur fengum árið 1915.

Stundum þegar rætt hefur verið um að kvenmannsleysi hrjái nafngreindar styttur bæjarins segja sumir að það skipti engu þó það séu hér um bil eintómir karlar... styttur skipti hvort sem er engu máli. Ég er á því að slík rök séu sett fram í viðleitni til að viðhalda óbreyttu óstandi. Styttur hafa nefnilega áhrif. Skemmst er að minnast uppþotsins þegar færa átti minnisvarðann um rússnesku hermennina í Tallin. 

Nú þegar minnisvarðinn um Bríeti er uppsettur hellist yfir mig gleði. Minnisvarðinn um Bríeti skiptir máli. Hann er loksins kominn upp, 151 ári eftir að hún fæddist. Til hamingju með það og takk Bríet. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband