Færsluflokkur: Bloggar

Bleikar konur á bleikum degi

 

Til hamingju með daginn. Í dag eru liðin 92 ár síðan íslenskar konur, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt. Mig langar að tileinka daginn í dag 2 konum sem eru mér kærar. Það er auðvitað hún Auður Magndís sem er gáfuð, skemmtileg, málefnaleg, kjörkuð og svo ótal margt fleira. Hún tók við af mér sem talskona. Reyndar verður hún meira og minna í útlöndum þar til í september, en það er allt í lagi. Nægur tími samt til að láta til sín taka Smile Núna er hún samt á fróninu í sumarfríi. Síðan er það hún Benedikta mín sem var sú besta vinkona sem kona getur eignast. Hugmyndarík, áræðin, hreinskilin og sagði það sem hún var að hugsa. Eiginleiki sem ég met mikils. Svo var hún auðvitað líka gáfuð og skemmtileg. Smile

Reyndar á þriðja konan skilið að við höldum upp á daginn fyrir hana. Það er hún Elín sem á hugmyndina að Málum bæinn bleikan. Það er rosalega gaman að sjá hvað fólk er samstíga í að sýna hug sinn til jafnréttis í verki í dag með því að bera eitthvað bleikt eða gera eitthvað bleikt. mbl.is er bleikt í dag. DV gerir deginum góð skil, Morgunútvarpið var með frábæra umfjöllun í morgun. Meira að segja morgunþátturinn Zúber var bleikur í morgun. Ég heyrði reyndar ekki umræðurnar þar en náði þegar þau voru að kveðja og skilst að sitthvað hafi gengið á í umræðunni þar. Bleikar kveðjur til Siggu Lund! Heyrðist henni ekki veita af Wink


Það er næstum kominn 19. júní...

Hér er dagskráin fyrir bleikasta dag ársins - 19. júní:

Svona fögnum við 19. júní – auk þess að bera eitthvað bleikt allan daginn!

10:00 Afhending Bleiku steinanna, hvatningarverðlauna Femínistafélagsis
13:00 Opið hús á Jafnréttisstofu, Borgum á Akureyri
16:15 Kvennasöguganga undir leiðsögn Kristínar Ástgeirsdóttur, sagnfræðings. Gangan hefst við Kvennaskólann í Reykjavík, gengið verður um Þingholtin og Kvosina og endað á Hallveigarstöðum
17:15 Hátíðardagskrá í samkomusal Hallveigarstaða í boði Kvenréttindafélags Íslands, Kvenfélagasambandisins og Bandalags kvenna í Reykjavík. Ávörp flytja Þorbjörg Inga Jónsdóttir, formaður KRFÍ, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Steingerður Steinarsdóttir, ritstjóri 19. júní
18:00 Veitingar og kaffispjall á Hallveigarstöðum
20:30 Kvennamessa Kvennakirkjunnar í samvinnu við Kvenréttindafélag Íslands og Kvenfélagasamband Íslands. Messan er haldin við þvottalaugarnar í Laugardal
22:00 Samkoma Ungliðahóps Femínistafélagsins á Cultura, Hverfisgötu

Kvenréttindafélag Íslands dreifir tímaritinu 19. júní frítt
UNIFEM selur bleik armbönd til styrktar kvennamiðstöðvum í Afghanistan

Aðstandendur Málum bæinn bleikan eru:
Bríet, Kvenréttindafélag Íslands, Stígamót, Femínistafélag Íslands, Kvennaráðgjöfin, Kvenfélagasamband Íslands, Samtök um Kvennaathvarf, Kvennasögusafn, Kvennakirkjan, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræði (RIKK) og UNIFEM

***

En svo er líka fleira í gangi. Dagný Matthíasdóttir ætlar t.d. að opna myndlistarsýninguna "19" í tilefni dagsins! Sýning er á DaLí Gallery á Akureyrir. Lesa má allt um sýninguna hér.  


Ímyndir karla og kvenna

Las í Fréttablaðinu í dag að ofbeldi gegn samkynhneigðum er að aukast. Þó er tekið fram að það sé ekki endilega að marka vegna þess að ofbeldi sé að aukast í samfélaginu almennt. Skyldi einhvern undra í okkar ofbeldisdýrkandi umhverfi? Ég veit að það er viðkvæmt mál að brydda upp á ofbeldi og karlmennskuímyndum á sama tíma. Það er hins vegar ekkert öðruvísi heldur en að brydda upp á t.d. gegndarlausri útlitsdýrkun og kvenleikaímyndum. Okkar samfélag reynir sitt besta til að troða kynjunum í sitthvort boxið og úthluta okkur hlutverkum samkvæmt því. Á meðan stelpur eiga að vera stilltar og sætar eiga strákar að vera ágengir og ofbeldisfullir. Rétt eins og það er full ástæða til að berjast gegn því að stelpur eigi að vera skoðanalausir skrautmunir er full ástæða til að berjast gegn því að strákar eigi að vera ofbeldisfull óargardýr. Það hefur ekkert með það að gera að vera alvöru karl eða kona. Það er nefnilega allt annað að vera karl eða kona eða taka upp ímyndir af því hvað það er að vera karl eða kona. Ímyndir eru ekki samofnar okkar eðli eða náttúrulögmál. Ímyndir eru tilbúið fyrirbæri sem við höfum getu til að hugsa um, móta, taka þátt í eða berjast á móti. 

Konur halda uppi hálfum himninum

Ég óska nýjum fálkaorðuhandhöfum til hamingju. Ég er hins vegar óhress með að forseti Íslands skuli aldrei meta framlag kvenna og karla til samfélagsins jafnt. 4 konur og 6 karlar fá orðuna að þessu sinni. Það er allt í lagi þó slík slagsíða sé endrum og eins - en hún ætti þá líka að vera í báðar áttir, stundum fleiri konur, stundum fleiri karlar. Mynstrið að útnefna fleiri karla en konur er hins vegar fast í sessi sem segir okkur að framlag karla til samfélagsins er metið meira en framlag kvenna. Þetta sjáum við víða. Karlar fá hærri laun, fleiri orður, meiri styrki og fleiri nafngreindar styttur, svo dæmi séu tekin. 

Er ekki kominn tími til að breyta? Konur halda uppi hálfum himninum og það á að sjást þegar framlag fólks til samfélagsins er viðurkennt með einhverjum hætti. 


mbl.is Fálkaorðan veitt á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eintóm gleði og hamingja

Gleðilegan þjóðhátíðardag! Smile Eftir 2 daga er svo annar í þjóðhátíð, 19 júní, dagurinn sem konur 40 ára og eldri fengu kosningarétt... Þá ætlum við að mála bæinn bleikan. Of course Smile Uppáhaldsauglýsingin mín er komin á youtube. Hún er hér: 

Á ferð og flugi

Hvað tekur langan tíma að ferðast frá Reykjavík til Helsinki? Ja, ef vélinni seinkar til landsins, bilar síðan og bilar síðan aftur þannig að þú missir af tengifluginu þá er svarið 16 tímar! Aðeins of langt fyrir minn smekk en því betra að komast á hótelið Smile

Það ætti að vera aðvelt að giska á hvar ég er... og hvers vegna lítið heyrist í mér þessa dagana. Ég kem heim á morgun svo þetta er stutt stopp.

Keypti mér bókina "Það er staður í helvíti fyrir konur sem ekki styða hvor aðra" í fríhöfninni. Skemmtilegasta lesning. Hún er frekar beisik fyrir lengra komna en ég mæli sérstaklega með henni fyrir fólk sem vantar fljótlesna aðgengilega bók um helstu málefni. Bókina skrifa þær Lisa Marklund og Lotta - sem ég man ekki eftirnafnið á. Þær taka fjölmarg dæmi um eigin reynslu og flétta það saman við stöðuna, mýtur og rannsóknir - allt mjög aðgengilegt og á mannamáli eins og sagt er.

Það er oft skondið að skoða hvernig vel meðvitað jafnréttissinnað fólk getur dottið í kynjagryfjurnar. Í bókinni er tekið dæmi um að önnum kafið fólk geti hugsanlega fengið ræstingarkonu heim. KONU nota bene, ekki karl!


Ennþá saman

Grétar og ég erum ekki skilin. Sumum gætu þótt það fréttir. Gasp
mbl.is Britney og Kevin saman á ný?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitthvað að gerast í auglýsingamálum

Screenshot_14Fyrir nokkrum árum setti ég fram þá spá að til að hlutirnir gætu orðið betri þyrftu þeir að verða verri fyrst. Samhengið var augýsingar. Konur eru iðulega hlutgerðar og kynlífsgerðar í auglýsingum og margir eru orðnir svo vanir þessum auglýsingum að þeim dettur ekki í hug að mótmæla þó slíku efni sé dælt í okkar í tonnatali. Álíka myndir af körlum hafa verið sjaldséðnari þó þær hafi dúkkað upp kollinum af og til. Hins vegar hefur þeim fjölgað síðustu ár. Ég keypti t.d. karlablaðið FHM fyrir 2 árum til að nota í kennslu og þá brá mér nokkuð við að sjá hversu langt "þróunin" er komin varðandi karlmenn. Það er nefnilega ekki bara valdaójafnvægið og kynjamisréttið sem spilar rullu í hlutgervingu og kynlífsgervingu manneskjunnar í öllu mögulegu og ómögulegu samhengi heldur á markaðurinn stóran hlut líka. 

Undanfarið hafa 2 dæmi vakið athygli mína. Annars vegar auglýsingin sem sést hér til hliðar og hins vegar auglýsingar Símans um að við eigum nú öll að fara í sund. Á þeim bregður svo við að myndefnið er ungur karlmaður og eldri kona. Venjulega er þessu mótívi snúið við - eldri karl og ung kona virðist hafa verið ófrávíkjanleg regla - þar til nú (og væntanlega með örfáum undantekningum í viðbót). Ungi karlmaðurinn sem prýðir strætóskýlin er nokkuð vel hærður á bringunni - sem ég spái að heyri sögunni til eftir 10 - 15 ár. Þá held ég að enginn sem vill vera maður með mönnum geti látið sjá sig opinberlega með bringuhár, ekki frekar en konur geta látið sjá sig með loðna leggi...

Að mínu mati höfum við 2 valkosti. Við getum valið að berjast gegn hlutgervingunni eða við samþykkjum að bæði kyn verði hlutgerð, stöðluð og stíliseruð. Ég hef valið fyrri kostinn. Svo er bara spurning hversu margir velja hinn. Þeir sem ákveða að velja ekkert eða sitja hlutlausir hjá eru þó ekki hlutlausir í raun því þeirra atkvæði mun falla seinni valkostinum í vil.  


Víst kemur þetta íþróttunum við

Í fyrra var gerð tilraun til að fá FIFA og KSÍ til að berjast gegn vændi og mansali í tengslum við heimsmeistaramót karla í fótbolta sem fram fór í Þýskalandi. Þeirra svör voru að þeim kæmi þetta ekki við. Verður forvitnilegt að sjá hvernig íþróttahreyfingin bregst við þessu og hvort hún telji að barnaþrælkun í tengslum við stórviðburði sé yfirhöfuð á þeirra könnu. ÍSÍ bókaði andmæli út af vændi og mansali í Þýskalandi í fyrra þannig að ég hef nú allnokkuð meiri mætur á þeim en KSÍ.


mbl.is Börn í þrældómi búa til vörur fyrir Ólympíuleikana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vændi er ofbeldi

Fór á málþing KRFÍ á föstudaginn um vændi. Á málþinginu voru kynnt mismunandi sjónarhorn femínista á vændi. Þarna var hún Rosy, formaður alþjóðlegra samtaka kvennahreyfinga. Held það sé óhætt að kynna hana til sögunnar sem pro-prostitution. Henni finnst óþarfi að eyða orkunni í að berjast gegn vændi. Í staðinn finnst henni að við eigum að berjast fyrir aukinni fræðslu og getnaðarvörnum! Ætli það sé til þess að allar konurnar sem eru í vændi af fúsum og frjálsum vilja neyðist ekki til að fara reglulega í fóstureyðingar? Hvernig ætli það sé annars með karla sem kaupa vændi - ef vændiskonan verður ólétt og ákveður að eiga barnið - er þá ekki sjálfgefið að þeir borgi meðlag og séu með sameiginlegt forræði og forsjá?

Síðan var hún Rachael líka með erindi. Rachael er einstaklega vel máli farin og smart kona. Einhvern veginn heyrðist mér á máli hennar að hún væri líka pro-prostitution en það var víst misskilningur. Hins vegar varpaði hún nokkrum sprengjum - eins og til dæmis að það ætti að bera virðingu fyrir þeim sem selja konur og börn í mansal... og fyrir dólgunum... og fyrir kaupendunum. Einnig spurði hún hver væri munurinn á að selja líkama sinn í íþróttir eða veita nudd og á því að selja kynlíf þar sem typpi og píka koma við sögu? Mér finnst þetta næstum eins og brandarinn um muninn á milli kynlífs og legókubba sem var voða vinsæll fyrir tuttugu árum eða svo...  Rachael kom með nokkra góða punkta. Eins og t.d. að það þarf að spá í efnahagsaðstæður á svæðum þar sem vændi (og jafnvel mansal) er neyðarúrræði til að komast af. Þessir valkosti eiga hreinlega ekki að vera í boði.

Ágúst Ólafur var með ágætt erindi þar sem hann fordæmdi vændi og agiteraði fyrir sænsku leiðinni. Ég vona að hann og hans flokkur berjist fyrir því að sænska leiðin nái fram að ganga. Það vill nefnilega svo til að ekkert var um þetta mál í stjórnarsáttmálanum... Gasp

Marit frá Noregi fannst mér lang best. Sennilega af því að við erum sammála en líka vegna þess að hún kom með lang bestu rökin og hafði lag á að orða hlutina á sniðugan hátt. Hún benti á að ekki er hægt að greina á milli vændis og mansals - ef ekki væri vændi þá væri heldur ekki mansal - og hinn löglegi kynlífsiðnaðurinn er aðgangshliðið að ólöglega iðnaðinum, vændi og mansali. Hún véfengdi líka þá mýtu að karlar hafi einhverja óstjórnlega þörf fyrir kynlíf. Hver var það aftur sem benti á að enginn hefur drepist úr skorti af kynlífi hingað til? Hún sagði líka eitthvað á þessa leið "Ef karlar geta ekki haft stjórn á eigin kynhvöt, af hverju í ósköpunum fá þeir þá að stjórna landinu?" Góður punktur... og reyndar er ég nokkuð viss um að flestir karlar vilja ekkert láta skilgreina sig sem bremsulausa bíla í brekku... Hún svaraði líka Rachael varðandi virðinguna með því að segja að best væri að segja karlmönnum að hætta að kaupa vændi - það væri að bera virðingu fyrir þeim í raun.

Á málþinginu var tekist á um skilgreiningar á vændi. Einhver sagði að vændi væri að selja líkama. Önnur sagði að það væri að selja kynlíf. Mér finnst hvorug þessi skilgreining ná yfir hvað vændi er. Í mínum huga er skýrasta skilgreiningin að segja að vændi sé sala á nauðgun. Uppskar að mín er getið í leiðara Fréttablaðsins í dag fyrir vikið... Því miður erum við ekki komin svo langt að vera öll sammála um að vændi sé ofbeldi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband