Jafnrétti - lykillinn að uppbyggingu til framtíðar

Hildur Jónsdóttir formaður Jafnréttisráðs sagði í lokaorðum sínum á Jafnréttisþinginu í dag að Steinunn Gyðu og Guðjónsdóttir ætti setningu þingsins. Steinunn var í pallborði þar sem spurt var „Hvernig tryggjum við jafnrétti í uppbyggingu til framtíðar?" Steinunn svaraði þessu með því að segja að spurningin ætti frekar að vera „Hvernig stöndum við að uppbyggingu til framtíðar?“ og svarið væri „með jafnrétti“. Ég er sammála þeim báðum. Lykillinn að góðu samfélagi felst í jafnrétti og ég er sammála Hildi í því að þessi setning stóð upp úr eftir þingið.

Í dag var sem sagt haldið hið fræga jafnréttisþing. Fyrsta mál á dagskrá eftir hrun var að fresta þinginu, það átti að vera 7. nóvember á síðasta ári. Neyðarstjórn kvenna varð til m.a. út af þessari ákvörðun. Við fjórar sem komum henni á laggirnar hittumst upphaflega til að ræða hvernig við ættum að bregðast við frestuninni. Við vissum nefnilega sem var að það mikilvægasta sem við þurfum til að byggja hér upp gott samfélag til framtíðar er jafnrétti. Að mínu mati voru það stór mistök að fresta þinginu, sérstaklega á þeim forsendum sem það var gert - að það fólk sem ætti að mæta hefði öðrum mikilvægari hnöppum að hneppa. En það þýðir víst ekki að sýta hið liðna svo snúum okkur aftur til dagsins í dag - eða næstum því. Fyrst jafnréttisþinginu var frestað á sínum tíma bjóst ég við að dagskráin bæri keim af því ástandi sem við búum við í dag, þ.e. kreppunni. Allt breytist í kreppu og kreppa hefur heilmikil áhrif á jafnrétti - til hins verra. Því miður tók dagskráin ekki nægjanlegt tillit til þessa. Aðeins ein málstofa var á dagskrá sem beinlínis tók á kreppunni. Það sem stóð upp úr af dagskrárliðum var án efa erindi Kristínar Ástgeirsdóttur framkvæmdastýru Jafnréttisstofu. Kristín er ekki aðeins viskubrunnur heldur einnig mikill reynslubolti og ræða hennar bar þess vott. Ræða hennar tók á ýmsum þáttum jafnréttis, líka í kreppu og fór líka yfir söguna. Það er ýmislegt sem við getum lært af henni. Vona að ræðan birtist á netinu innan tíðar því hún getur nýst okkur vel í leit að lausnum út úr kreppunni. 

Ég saknaði þess sárt að sjá ekki dr. Þorgerði Einarsdóttur dósent í kynjafræði við HÍ á dagskránni. Allir sem hafa þó ekki sé nema oggulítið vit á jafnréttismálum vita að þekking og fræðsla eru lykilatriði í jafnréttismálum. Stjórnvöld hafa lengi verið gagnrýnd fyrir að gefa skít í þá þekkingu. Nú er í það minnsta komið inn í opinbera stefnumótun að gera eigi fræðslu hátt undir höfði og gera kröfu um sérfræðiþekkingu í jafnréttismálum. Það skýtur því skökku við að okkar helsta fræðimanneskja í þessum málaflokki er ekki með erindi á þinginu. Hins vegar voru 2 karlar úr atvinnulífinu með erindi og erindi gesta voru aðeins fjögur. Karlar úr atvinnulífinu fengu því helming af ræðunum (erlendur karlkyns sérfræðingur fékk 1 og Kristín Ástgeirsdóttir 1 - ég tel erindi Jóhönnu ekki með hér því hún er ráðherra og þetta er hennar þing - hitt voru gestir). Karlarnir 2 voru Þórólfur Árnason hjá Skýrr og Ólafur Stephensen ritstjóri Morgunblaðsins. Ég geri ráð fyrir að Þórólfi hafi verið boðið vegna þess að hann er einn af fáum karlkyns stjórnendum sem tala um að það séu lélegir stjórnunarhættir að ráða ekki konur í æðstu stöður. Hann átti nokkra ágæta punkta í sinni ræðu en honum vantar sárlega að fá betri kynjafræðifræðslu því hann fellur í fjölmargar gildrur feðraveldisins (sem er pen leið til að segja að þegar ræðan hans er orðræðugreind þá er þar að finna margskonar karlrembu sem einkennt hefur opinbera umræðu of lengi...). Þórólfur má eiga það að hann er fyrirtaks sölumaður og skemmtilegur ræðumaður en hann fer líka einfaldar leiðir - hann taldi t.d. upp þá kosti sem prýða fyrirmyndarfyrirtækið og þar á meðal var að vera með vel menntað starfsfólk í hálaunuðum störfum. Gallinn á þessu er að þetta á ekki við um öll fyrirtæki. Taka þarf tillit til margbreytilegra þarfa samfélagsins og lykillinn ætti auðvitað að vera sanngjörn laun fyrir sanngjarnt framlag í stað háu launanna, sérstaklega nú þegar ósanngjörn og sjálftekin ofurlaun eru á allra vörum. Þetta var bara eitt dæmi en þau eru fleiri. Hann þarf sem sagt aðeins að slípa til fyrirlesturinn sinn. 

Ólafur Stephensen var ágætur. Sérstaklega líkaði mér að hann fjallaði um líkindin í útrásarvíkingarímyndinni og karlmennskuímyndar, sem hann sagði hafa keyrt okkur út í skurð. Ég hef einmitt saknað þess hversu lítið hefur verið fjallað um þátt karlmennskuímyndar í hruninu því hvað eru útrásarvíkingarnir að elta annað en skaðlegar karlmennskuímyndir? Sömu sögu má segja um bankamennina og hina ýmsu stjórnmálamenn. Karlmennskuímynd sem byggir á áhættusækni, græðgi, stéttskiptingu og fleiru. Ólafur líkti víkingunum við sjóræningja og það er ekki fjarri lagi. Hvað voru víkingarnir annað en ræningjar og nauðgarar? (svona þegar fólk fer að líta fram hjá glamúrímyndinni sem búin var til í kringum þessa arfleifð okkar?) Síðan fjallaði hann mikið um feðraorlof en þar er ekki um ný sannindi að ræða þó það hafi verið ágætt líka. En, og það er alltaf en... hafa ber í huga að þó Ólafur hafi sagt að þeir karlarnir væru ekki allir útrásarvíkingar þá er ágætt að halda því til haga að Morgunblaðið er síst þekkt fyrir að vera jafnréttisfyrirtæki og á það við bæði um sem vinnustaður og sem fjölmiðill.

Ég verð því að segja eins og er að áherslan í dagskránni fannst mér á skjön við bæði þarfir og þekkingu í dag. Þórólfi hefði auðveldlega mátt skipta út fyrir Þorgerði Einarsdóttur sem hefði átt mun meira erindi. Ég læt erindi erlenda sérfræðingsins liggja á milli hluta þar sem ég mætti í því miðju en get ekki varist þeirri hugsun að ég hefði verið áhugasamari um að fá erlendan sérfræðing sem hefði getað fjallað um reynslu síns lands af kreppu og hvað þarf að gera til að jafnréttið fari ekki til fjandans... 

Eftir hádegi var pallborðið, eða heyrslan eins og það var kallað, málstofur og pallborð með fulltrúum stjórnmálaflokkanna. Heyrslan hefði mátt vera róttækari. Þau sem voru í pallborði fengu heila (!!!) mínútu til að segja hvað þeim finndist að ætti að gera til að tryggja hér jafnrétti til framtíðar. Áberandi munur var á fólki varðandi þekkingu og það er óskaplega pirrandi að hlusta á fólk státa sig af verkum sem eru bara hreinlega ekki til fyrirmyndar. Þannig voru bæði Gylfi frá ASÍ og Hrafnhildur frá SA alls ekki með á nótunum. Verkalýðshreyfingin hefur alls ekki staðið sig í stykkinu eins og sést á fáránlegum launamun kynjanna hér á landi - sem er mun meiri hér en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. SA getur heldur ekki montað sig mikið... Tilgangurinn er væntanlega að leyfa röddum frá sem flestum áttum að heyrast svo ég ætla ekki að kvarta mikið meira yfir þessu en sný mér að málstofunum í staðinn. Ég komst að því í minni málstofu að skv jafnréttislögum ber að hafa umræðu á jafnréttisþinginu til hliðsjónar við gerð framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Miðað við það hefði verið sniðugt að hafa nokkurs konar vinnustofur þar sem þátttakendur á þinginu gætu látið rödd sína heyrast - umræður á málstofunum voru of stuttar til að 500 þátttakendur í 6 málstofum gætu komið sínu á framfæri. Ég veit þó ekki hvað gert var ráð fyrir í upphafi að margir sæktu ráðstefnuna en finnst líklegt að þátttaka hafi verið framar vonum og dagskráin miðuð við það. Erindin í minni málstofu (sem fjallaði akkúrat um kreppu) voru fín. Hildur Jóns upplýsti okkur síðan um það í lok ráðstefnunar að við hefðum tækifæri til að senda hugmyndir til hennar eftir ráðstefnuna og það finnst mér frábært og vil hrósa mikið fyrir það, þ.e.a.s. ef tillögurnar verða teknar alvarlega og rata inn í framkvæmdaáætlun! ;)

Um pallborðið með stjórnmálamönnunum er ekki mikið að segja. Dagskráin var þétt og reynt að smella öllu inn á einum degi. Pallborðið var stutt og lítill tími til spurninga. Ég græddi ekkert á því en velti fyrir mér eftir það hvort Guðlaugur Þór viti hvað austurríska leiðin er?

Á heildina litið þá er ég ánægð með að hið lögbundna jafnréttisþing var haldið fyrir rest. Dagskráin var þó full karlmiðuð í stað þess að vera þekkingarmiðuð. Meiri tími hefði mátt vera fyrir umræður og ráðstefnan hefði þurft að vera kraftmeiri og róttækari ef ég hefði átt að labba þaðan út með þá von að stjórnvöld fari loks að snúa við blaðinu og láta verkin tala þegar kemur að jafnréttismálum. Einhver sagði í erindi sínu að við hefðum ekki efni á að vera ekki með jafnrétti. Þjóðin áttar sig vonandi fyrr en síðar á því að eitt af því sem kynjamisréttið hefur kostað okkur er þessi hræðilega staða sem við erum í núna. Ef hér hefði ríkt alvöru jafnrétti væri staðan ekki svona. Jafnrétti fylgir hugmyndafræði sem byggir á réttlæti, virðingu, margbreytileika, sanngirni, jöfnum tækifærum og ótal margt fleira. Jafnrétti er eitthvað sem við höfum aldrei upplifað í íslensku samfélagi en við getum vonað og barist fyrir því að það sé eitthvað sem komandi kynslóðir kynnist á endanum. 


mbl.is Launamisréttið bitnar á körlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband