Hver er munurinn á bókaútgáfu og bókabrennu?

Spurning: Hver er munurinn á því að gefa út bók sem byggir á rasisma og að brenna sömu bók? Er annað partur af tjáningarfrelsi en hitt ekki?

Hvað er aðgerð og hvað er tjáning? Að brenna bók er vissulega aðgerð - en gildir það sama ekki um bókaútgáfu? Er það ekki aðgerð?

Tjáningarfrelsið er ekki annaðhvort/eða dæmi með skýru upphafi og endi. Tjáningarfrelsinu eru alls staðar settar skorður - spurningin er engan veginn fólgin í því hvort við ætlum að setja tjáningarfrelsinu einhverjar skorður - það er löngu komið samkomulag um að gera slíkt (eins og sést t.d. á lögum um ærumeiðingar og alls kyns mannréttindarákvæðum). Spurningin er mun fremur hvar liggja mörkin? Getur verið að mörkin liggi frekar í þá átt að það sé meira frelsi til að kúga heldur en til að svara fyrir sig?

Bara að spá...  

** 

Spurningarnar hér fyrir ofan eru partur af mínu málfrelsi og ætlaðar sem umræðugrundvöllur. Ég býst þó við að sumir eigi ekki eftir að greina á milli þess að hvetja til einhvers athæfis og að velta upp spurningum  - og tek því fram að ég er hvorki að mæla með útgáfu á bókum sem byggja á rasisma né bókabrennum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Langar afskaplega mikið til að byrja á að benda þér á að læra að lesa... er orðin drulluþreytt á þeim sem hingað koma til að gera mér upp alls konar skoðanir. Spurning hvort um sé að kenna slæmri leskunnáttu eða einbeittum brotavilja? 

**

En þetta með bókabrennuna - af hverju er það endanleg ákvörðun sem gefur bókinni ekki færi á að koma fyrir augu almennings? Gildi það ekki bara ef hvert einasta eintak af bókinni er brennt? Hvað með útgáfu bókarinnar núna - eru ekki til eintök af fyrri útgáfum og því er á engan hátt verið að gera eitthvað nýtt sem á að koma fyrir augu almennings heldur mun frekar ítrekun skilaboða - sem fólk gæti sótt sjálft á bókasafn ef það vill? Er það ekki ærumeiðandi að ráðast að hópi fólks sem eiga eitthvað sameiginlegt (t.d. að vera af svörtum kynþætti), rétt eins og að vega að einstaklingum? Eru hópar ekki samansafn af einstaklingum? Er það sem sagt mismunandi hvort ráðist er á 1 einstakling, 10 eða 100? (fyrsta bannað en hitt í lagi?)

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 31.10.2007 kl. 15:05

2 identicon

Katrín: Ég held að þetta geti líka verið spurning um að læra að koma frá sér hugsunum sínum.

Við gætum talað um skilning þinn á orðinu "tjáningarfrelsi" (frelsi er réttur sem þú hefur, ekki eitthvað sem þú gerir, þ.e. aðgerðin sjálf er ekki frelsið) en ég hef meiri áhuga á því hvað þú átt við með "bókabrennu" ?

Minn skilningur á "klassískri" bókabrennu er þegar einhver hópur (stjórnvöld t.d.) bannar viðkomandi bók með lögum og lætur síðan brenna opinberlega öll þau eintök sem næst i.    Þetta getur ekki með nokkru móti flokkast undir neins konar "frelsi", hvorki tjáningar né annars konar, þannig að ég geri ráð fyrri að það sé ekki þetta sem þú áttir við, eða hvað ?

Ef þú kaupir 1 eintak (eða fleiri) og brennir þau, til að sýna andúð þína á innihaldi viðkomandi bókar í verki, þá er það vissulega "tjáning" og þar sem það er ekki bannað þá hefur þú vissulega frelsi til að gera það.

Ef tilgangurinn hjá þér með bókabrennunni er ekki að koma í veg fyrir að fólk geti kynnt sér innihaldið (t.d. með því að kaupa sitt eigið eintak), þá held ég að þessi bókabrenna þín sé alveg jafn mikið *yfirlýsing* eing og þegar fólk brennir þjóðfána fyrir framan sendiráð.

Ef ég er að misskilja eitthvað stórlega af því sem þú skrifaðir, endilega leiðréttu mig þá.  

Fransman (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 15:54

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Mótvægisaðgerðir: Fyrir mér er þetta einfalt mál.  Þessi pistill er fínn og fær mann til að hugsa.  Það er flott aðgerð, að hugsa sko.

Takk Katrín Anna.

Jenný Anna Baldursdóttir, 31.10.2007 kl. 15:59

4 identicon

Ég skil þig þannig að það að brenna bók (ekki endilega öll útgefin eintök) sé yfirlýsing - Ég er hjartanlega sammála þér.  Gott innlegg.

Guðjón Atlason (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 16:06

5 identicon

Já mér finst að fólk eigi að hafa réttinn til að gefa eitthvað efni út en ekki brenna það. Mér finnst það mikilvægara að efni fái að vera fyrir augum allara, bæði fyrir þá sem vilja sjá það og þá sem vilja ekki sjá það. Að eitthver skuli vilja halda frá mér uppýsingum með því að brenna þær, þá með því að eyða efninu eða láta það líta út að það sé ekki boðlegt fyrir mig að lesa það, það finnst mér vera glæpur. Það gefur mér þau skilaboð að ég egi ekki að lesa það sem er í bókinni og það finnst mér glæpur.

Svo finnst mér þú vera ansi dugleg að gera fólki upp skoðanir og oftúlka það sem það segir, gat ekki séð að Laissez hafi verið að gera þér upp skoðanir nema þú hafir tekið því sem hann sagði sem þínum skoðunum

Bjöggi (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 16:52

6 Smámynd: 365

Eftir alla þessa umfjöllun um þeldökku strákana 10 þá er ég svo handviss um það að þessi umræða hefði farið fyrir ofan garð og neðan ef ræðan um útlendingana væri ekki svona sterk eins og hún er í dag.   

365, 31.10.2007 kl. 16:54

7 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Ég hef nú ekki heyrt marga tala um eða skrifa, að það eigi að brenna ruslbókmenntir sem eru illkvittnar gagnvart hópum sem hafa þurft að ganga í gegnum miklar ofsóknir á liðnum öldum né önnur umdeilanleg rit, held að fáir á íslandi láti slíkt hvarfla að sér.

 Sjálfur finnst mér að bókabrennur séu fráleit aðgerð og að fólk eigi að fá að gefa hvað sem er út...nema að sjálfsögðu barnaklám og annað þvíumlíkt, síðan er öllum frjálst að ýmist gagnrýna eða lofa viðkomandi verk...nú eða einfaldlega sýna því fálæti.

Öll umræða um kynþáttahyggju og aðra hættulega og vafasama hluti er alltaf til góða, þannig er helst hægt að kveða í kútinn misskilning firrts fólks sem telur t.d einn kynþátt öðrum fremri og aðrar álíka heimskulegar og varasamar bábiljur sem hafa oft leitt þjóðir á villigötur með skelfilegu afleiðingum yfirleitt.

Georg P Sveinbjörnsson, 31.10.2007 kl. 17:54

8 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Þessi umræða er framlenging á 10 litlum...

Ég er hlynntur því að Mein Kampf sé gefin út, þótt hún byggi á fasisma og rasisma. Það góða við frelsið er að fólk kemst sjálft að niðurstöðu. Ég geri ráð fyrir að Mein Kampf sé lesinn af fræðimönnum og öðrum áhugamönnum um söguna. Það sama má segja um áróðurskvikmyndir Hitlers, að sjálfsögðu á að varðveita myndefnið. Ég er líka hlynntur því að hin eldgamla bók 10 litlir...sé gefinn út. En útgefendur hennar bjuggust greinilega ekki við svona sterkum viðbrögðum. En sú umræða sem leystist úr læðingi er bara til góðs og kannski var aðeins tímaspursmál hvenær hún kæmi upp á yfirborðið. Kannski hefði önnur bók eða önnur "útgáfa" af einhverri sort komið henni af stað.

Það á ekki að vera neinar hindrun í bókaútgáfu, hins vega geta þeir sem eru ósáttir við bækur sem þeir telja brjóta í bága við lög kært útgáfu hennar. Það er bar svo einfalt. Við getum ekki sett reglur um smekkvísi, tillitsemi eða varfærni. Listamenn eru stöðugt að brjóta ramman.  Það verðir að gefa rithöfundum fullt frelsi til að skrifa það sem þeim sýnis og bókaútgefendum að gefa út það sem þeim sýnist. Svo kemur bara í ljós hvort bækurnar séu keyptar, hvað dóma þær fá, hvort þær enda upp í hillu eða fara í endurvinnslu, það verður hver að gera það upp við sig.

Benedikt Halldórsson, 31.10.2007 kl. 17:56

9 identicon

Frábær pistill hjá þér Katrín.

Þegar svona hlutir eru bornir á borð eins og þessi meinti menningararfur þá er manni brugðið. Ég hélt við fyrstu sýn að hér væru rasistar komnir í bókaútgáfu. En sá svo í viðtali að bókaútgáfan er bara að færa okkur listaverk og menningu svo við gleymum ekki (hmm....hverju megum við ekki gleyma?)

Finna Jóns (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 21:43

10 identicon

Voðalega eru margir með flókin huga. "Intelectualisminn" er að gera marga af fávitum þessa dagana. Það er hreinlega ekki gott að gera lítið úr öðrum á fölskum forsendum. Fólk þroskast andlega af góðum verkum en hnignar af slæmum. Það þarf engan orðflækjuhátt um kvæðið "Tíu litlir negrastrákar". Það skilja það allir að í kvæðinu er ómaklega verið að gera lítið úr vitsmunum svartra manna. Auðvitað á þetta að vera grín, en er að mínum dómi ekki alveg meinlaust grín. Það geta allir brennt sínum bókum ef þeir vilja. Að gera það opinberlega er oft táknræn mótmæli. Fyrir kemur að dreifing bóka er bönnuð af dómsvaldinu, eftir að bók hefur verið gefin út. 

Guttormur Sigurðsson (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 21:48

11 identicon

Bækur brenna ekki.

Búlgakov (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 21:58

12 identicon

Já mér finnst glæpsamlegt að allir þessi útgefendur og peningamenn geti ákveðið hvað við fáum að lesa. Mér finnst að hugsanir þeirra sem vilja að aðrir sjái þær fái að spretta fram þegar fólk kærir sig um að opinbera hugsanir sínar. Bloggið er því ein mensta snilldaruppfinning sem hefur komið fram að mínu mati, þótt núna sé fólk farið að reyna ritstýra opnum bloggum.

Ef ég vill að skoðanir mínar verði opinberar þá finnst mér að það ætti engin að stoppa mig í því, sérstaklega með brennum. Svo er líka bara glæpsamlegt að mínu mati að brenna bækur. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 22:07

13 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Góð pæling, Katrín Anna.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 31.10.2007 kl. 22:41

14 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Mér finnst þetta ósköp einfalt. Að gefa út bók er að opna fyrir umræðu. Að brenna bók er að loka á umræðu.

María Kristjánsdóttir, 1.11.2007 kl. 00:19

15 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

En af hverju mætti ekki snúa því við og segja:

Að gefa út rasíska bók er að loka á jafnrétti. Að brenna sömu bók í táknrænni athöfn er að opna fyrir umræðu um hvernig samfélagi við viljum búa í og með því að hafna hlutum sem eru fordómafullir opnum við á jafnrétti? 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 1.11.2007 kl. 00:32

16 Smámynd: Vendetta

Ég er alfarið á móti því, að beinlínis banna og/eða brenna bækur og tímarit, jafnvel niðurlægjandi og hatursfullar bækur eftir rasistann Mugg. En mér finnst lúalegt að vera að hampa kynþáttahatri á þennan hátt. Bókin hefði aldrei átt að vera gefin út aftur. Og þetta hefur ekkert með pólítískan rétttrúnað að gera.

Hins vegar vil ég leyfa útgáfu á öllum bókum og tímaritum, líka þeim sem hafa verið bannaðar eða ritskoðaðar á Íslandi eftir tilstuðlan femínista.

Og ef þú, Katrín Anna ert ekki hlynnt bókabrennum að eigin sögn, af hverju varstu þá hlynnt því að femínistafélagið lét brenna málsháttarbækur, og síðan þvingaði fram stöðvun á útgáfunni. Er þetta ekki hræsni hjá þér.

Eða finnst þér gamlir málsættir eða nektarmyndir verri en rasískar sögur um svört börn sem eru drepin, Evrópubúum til skemmtunar? Athugaðu, að afrísk börn voru í raun og veru drepin í rönnum á sínum tíma, aðallega af múslímskum þrælahöldurum (lítt þekkt staðreynd), en það er engin ástæða til að hreykja sér af því eins og talsmaður forlagsins Skruddu gerði.

Vendetta, 1.11.2007 kl. 01:38

17 identicon

Það álit sem ég hafði á þér Katrín mín er gjörsamlega horfið.  Þegar skoðanakúgunin er farinn að taka á sig þá mynd að þú viljir brenna allar bækur sem ganga gegn þínum rétttrúnaði, þá ert komin í far Adolfs nokkurs Hitler og áróðursmeistara hans, Göbbels.  

Sýnir vel hvert þu myndir vilja færa þetta þjoðfélag ef þu fengir einhver völd til þess.  En svona yfirlýsingar sjá líka til þess að þu munir aldrei komast í valdastöðu.  Þú ert allt of mikil öfgamanneskja, sem er trúandi til alls.  

Skarphéðinn (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 01:47

18 identicon

Sæl Vill endilega benda á greinina hjá Gauta Eggertssyni hagfræðingi ef ég man rétt á vísir.is. Eftir að hafa lesið greinina þá er er þetta ekki einu sinni umræðuefni fyrir mína parta. Ég eins og svo margir fleiri hafa raulað þessa vísu í fullkominni fáfræði, án þess að gera mér nokkra grein fyrir af hvaða grunni þessi vísa/bók er komin af.

 Þessi bók kemur aldrei inná mitt heimili og ég treysti því að kennarar hafi dómgreind til að sýna ekki barninu mínu þessa bók. Þessi bók á heima á safni, rétt eins og aðrar menjar um fornar syndir en sem barnabók, þá er þessi bók einfaldlega ekki við hæfi barna. kv Alda

Alda (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 01:53

19 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Skarphéðinn - enn eina ferðina - ekki gera mér upp skoðanir. Ef þú heldur fast í þann leiðindasið þá skiptir mig nákvæmlega engu máli hvort þú hafir álit á mér að ekki - það álit er hvort sem er byggt á þínum tilbúnu skoðunum en ekki mínum. 

Vendetta. Hvaða færðu þessa fáránlegu hugmynd að femínistar hafi brennt málsháttarbækur og þvingað fram stöðvun á útgáfunni? Þetta er algjör fjarstæða og Femínistafélagið hefur aldrei komið nálægt slíku - og Oddabækurnar voru ekki brenndar. Hið rétta í málinu er að eftir að Oddi gaf út bækurnar og þeim var dreift á ýmsa vinnustaði höfðu margir samband við Odda til að lýsa óánægju sinni með bækurnar. Umræður um bækurnar sköpuðust líka á umræðulista Femínistafélagsins og væntanlega hafa einhverjir einstaklingar þar haft samband við Odda líka. Oddi sá síðan að það var ekkert vit í þessum bókum og ákvað að eigin frumkvæði að hætta dreifingu á bókunum. Fréttastofa RUV hafði í kjölfarið samband við Femínistafélagið og ein ráðskonan fór í viðtal hjá RUV til að fjalla um málið (eftir að Oddi hafði tekið sína ákvörðun án nokkurra afskipta frá Femínistafélaginu). Það er nú allt og sumt sem þessi saga snýst um - óneitanlega ekki nærri eins krassandi og þín útgáfa... Ég hafði síðan sjálf samband við Odda og falaðist eftir eintaki af bókinni - sem minjagrip. Þau voru svo væn að gefa mér nokkur eintök.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 1.11.2007 kl. 02:17

20 Smámynd: Marvin Lee Dupree

,,Búlgakov" - orðatiltækið er handritin brenna aldrei

Spurðu samt Gógol um það. 

Marvin Lee Dupree, 1.11.2007 kl. 02:48

21 identicon

Orðið "bókabrenna" hefur hingað til verið notað yfir það þegar öllum eintökum af óæskilegum bókum sem næst til er safnað saman og þær brenndar en ég geri ráð fyrir því að þú getir notað það yfir það að brenna eina bók í mótmælaskyni.

Viljir þú kaupa þér eintak til þess að brenna það þá geri ég engar athugasemdir en ég efast að um að það verði til þess að hefta útbreiðslu hennar.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 04:58

22 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Mér líst hvorki á bókabrennur né bönn á bókum,end skil ég þig svo að það sé ekki þín meining.

Ef ætti að banna eða brenna bækur sem ekki samrímast einhverjum tilteknum hugsanagangi,held ég að lítið yrði eftir af bókum í heiminum,það er svo misjafnt hvernig menn bregðast við og túlka það sem þeir lesa.

Síðan er annað fólk sem virðist fast í því að gera höfundum bóka upp ákveðnar skoðanir og lesa gjarnan af handahófi það sem skrifað er,en þeim mun meira á milli lína.

Ari Guðmar Hallgrímsson, 1.11.2007 kl. 09:36

23 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Táknræn brenna á bók í Evrópu til að lýsa fyrirlitningu sinni á henni getur aldrei vísað nema í bókabrennur nasista sem eru Táknið um ofbeldi gegn vitsmunum í okkar hugum.

María Kristjánsdóttir, 1.11.2007 kl. 09:46

24 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Sammála spekingnum i Kastljósinu í gærkvöldi, man ekki hvað hann heitir.   Allt í  lagi að kaupa bókina eða gefa hana út, fyrir þá sem vilja eiga hana í bókasafni sínu.  Hún er til vitnis um þau gildi og viðhorf sem viðgengust á ákveðnum tíma sagði hann, en þetta er ekki bók sem þú lest fyrir börnin þín. Hún á heima í fullorðinsbókahillunni ekki í barnabokahillunni.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 1.11.2007 kl. 10:56

25 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

María - ok gúddera þetta með að vera tákn sem vísar í eitthvað sem við erum mótfallinn. En... þá komum við aftur að þessu með hver er munurinn á þessu tvennu? Nasistar brenndu ekki bara bækur - og þeir eru ekki upphafsmenn bókabrenna, þær eiga sér árþúsunda langa sögu. Nasistar gáfu út bækur sem hluta af sínu propaganda. Þeir gerðu líka kvikmyndir og plaköt, svo dæmi séu tekin. Af hverju verður þetta ekki líka táknrænt - eða tilefni til mótmæla? Er ekki hægt að segja að nasistar gáfu út bækur sem part af sínu gyðingahatri og að sama skapi séu 10 litlir negrastrákar partur af kynþáttafordómum hvítra og þess vegna sé það táknrænt um aðferðir nasista? Og - brenndu nasistar einhvern tímann 1 bók af einhverju sem táknrænum mótmælum? Miðuðust þeirra aðgerðir ekki við útrýmingu tiltekinnar útgáfu í heild? 

Pointið er ennþá - af hverju verjum við frekar frelsi til að kúga en frelsi til að berjast á móti kúguninni? Svo virðist sem flestar kúgunaraðferðir séu varðar með frelsisrökum en að sama skapi er andsvörum mótmælt og þau "bönnuð".  Boð og bönn ná því ekki allan hringinn heldur bara hálfa leið. Það er það sem ég er að velta fyrir mér. 

Þórdís - já ég er sammála því að bókin á heima í fullorðinsbókahillunni en ekki barnabókahillunni (samt með þeim formerkjum að þetta sé kynþáttahatur, það er ekki eins og allt fullorðna fólkið hafi skilið það við sig) - en ég er líka á því að fólk hefði átt að hafa vit á því að gefa hana ekki út. Útgáfan er vitnisburður um rasisma og sorglegt að sjá að þau hafi í alvörunni ætlað að heiðra minningu einhverra með því að endurútgefa kynþáttafordóma eftir þá... 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 1.11.2007 kl. 11:25

26 Smámynd: Upprétti Apinn

Hver er tjáningin?

Ef þú ert ósammála einhverjum boðskap í ritmáli, þá gefur tjáningarfrelsið þér rétt til að skrifa mót-boðskap og gefa út af list.  Með því að brenna bókina ert þú að segja að boðskapurinn skuli eyddur úr ritmálinu.  Bókabrennur eru sterkasta árásin á tjáningarfrelsið.

 Hvað með að brenna fólk?  Er í lagi að brenna einn kynþáttahatara í nafni tjáningar gegn öllum öðrum kynþáttahöturum.  Þú ert þar með ekki að útrýma kynþáttahöturum, heldur bara að tjá þig um skoðanir þeirra.

Allir Fasískir hópar byrja bókabrennur almenning til góða, og fyrstu brennurnar eru alltaf gerðar af fólki sem telur það tjáningu sína gegn boðskap bókana.  Tjáningarfrelsið og lýðræðið er ekki gefið, og þú sannar það að við sem metum það frelsi sem við höfum getum ekki sofnað á verðinum.

Upprétti Apinn, 1.11.2007 kl. 12:29

27 identicon

Mér finnst samt ótrúlegt að fólki finnist dauðdagi dregnjanna 10 vera eitt aðalmálið. Í usa er þetta kvæði enn sungið, bara 10 litle teddy bears. Í usa er það bara orðið nigger sem fer fyrir brjóstið á fólki. Eru allir á því að orðið negri svona rosalega slæmt á Íslensku, hélt að orðið negri væri komið að negro en orðið niggari væri komið að orðinu nigger. Ég veit ekki til þess að negro sé slæmt orð neinstaðar í neiminum nema í kannski í usa.

Skil ekki alveg kúgunina sem er í gangi með að gefa út umdeilda bók. Það eru bara fávitar sem setja bókina í bandarískt samhengi og halda að þeir eigi heima í bandríkjunum sem finnst þessi bók svona slæm. Mér fannst t.d. miklu verra þegar ég var að lesa um börn sem sprungu úr ofáti eða fuku til tunglsins afþví að þau borðuðu ekki matinn sinn.

Bjöggi (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 12:30

28 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Bjöggi - ég minni þig á að hér eru gerðar kröfur um að fólk sé kurteist. Eyddi því út síðasta kommenti frá þér. Var líka á mörkunum með kommentið á undan - fólk sem vill láta taka sig alvarlega í umræðu kallar ekki þá sem eru ósammála manni fávita. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 1.11.2007 kl. 12:55

29 identicon

Sæl,

Góð pæling. Nú langar mig persónulega til þess að eignast þessa bók. Ég las hana þegar ég var lítill. Fyrir mér fjallaði bókin ekki um rasistma gagnvart einhverju einu kyni. Það er þannig sem að bókin er í minningunni hjá mér. Katrín, þú svarar nokkrum færslum hér að ofan á þann hátt að það sé verið að "gera þér upp skoðanir". Persónulega þá þykir mér þessi umræða öll vera soldið á þeim nótunum. Með því að útmála þessa bók sem áróðursrit gagnvart blökkumönnum er verið að gera þeim upp skoðanir sem hafa haft gaman af henni á þann barnslega hátt sem að ég hafði gaman af henni. Svo finnst mér bókin líka flott, þ.e. myndirnar. Önnur bók sem hefur verið í fréttunum út af svipuðu máli er "Tinni í Kongó". Ég hef lesið þá bók. Ég hafði gaman af henni. Mér persónlega finnst ég samt ekki vera rasisti né kynþáttahatari. Kannski er ég bara svona einfaldur. En svona er það.

kv.

Kristinn 

kristinn (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 13:13

30 identicon

Svo ég haldi mig samt við þráðinn þinn.

Þá sé ég ekki mun á bókaútgáfu og bókabrennu hvað tjáningu varðar. Auðvitað er hvort tveggja form af tjáningu. Svo er það spurning hvort menn vilji og séu tilbúnir að standa í slíku. Auðvitað kostar fé að gefa út bók. Vilji konur og menn brenna hana þarf væntanlega að kasta öðru fé til.

En nú spyr ég. Er bannað að brenna bækur ???   Mér finnst þú setja þessa pælingu þannig fram.

kv.

Kristinn 

kristinn (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 13:22

31 identicon

Elstu grímsævintýri er uppfull af ofbeldi og óhugnaði sem hafa verið fegruð í takt við tíman. Grímsævintýrin höfðu þá aðalega það gildi að vera dæmisögur eða uppfræðslurit forreldra til þess að mennta börn sín.

Ef okkar ástkæru Hávamál eru skoðuð impra þau aðalega á fordómum gagnvart fólki sem við þekkjum ekki og eru öðruvísi en við.

Þetta minnir mig einnig á hina klassísku sögu um Stikkilsberja Finn sem átti að breyta í nýjust útgáfum þar sem átti að eyða út orðum sem voru niðrandi til blökkumanna. Bókinni var þó ekki breytt og tel ég það vera af hinu góða, því þetta er í raun oftast bestu heimildirnar um þann tíðaranda sem var upp á því tímabili sem þessi bókmenntaverk eru skrifuð.

Að mínu mati á alls ekki að brenna bækur né að breyta sögunni með fölsunum eða áróðri eins og er enn vinsælt þrátt fyrir að bæði nasistar og sovétmenn hafi brennt sig illa á þannig aðgerðum.

Sagan er til þess að læra að gera ekki sömu mistökin aftur og aftur. 

Davíð Halldór Lúðvíksson (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 13:28

32 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Já Kristinn - þetta er meðal annars pælingin.

Davíð Halldór - þú kemur einmitt inn á mjög góðan punkt. Sagan er til þess að læra að gera ekki sömu mistökin aftur og aftur. En nú virðumst við vera að endurtaka sömu mistökin aftur - með útgáfu á bókinni. Hún er gefin út sem barnabók, seld sem barnabók og lesin fyrir krakka sem barnabók (og lagið sungið af börnum). Það er sem sagt verið að endurtaka mistökin. Þó að sumir sjái ekki fordómana í bókinni er ekki þar með sagt að fordómarnir séu ekki til staðar (svo ég svari Kristni).  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 1.11.2007 kl. 13:36

33 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

ps. Kristinn - pælingin er samt ekki bara um hvort bannað sé að brenna bækur - heldur að skoða þetta í samhengi við valdatengsl - hver má hvað? Hvaða andóf er leyfilegt og hvernig er andóf bælt?

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 1.11.2007 kl. 13:37

34 identicon

Ágæta Katrín. 


Ég vil taka það fram að ég kýs að standa utan við negrastrákaumræðuna og ver þá útgáfu ekki. Hvað mér brennur á hjarta eru það sem mér finnst virkilega vafasamar túlkanir á lögmæti bókabrenna. Þykir mér þá skipta engu máli hvort ein bók eða fleiri eru brenndar. Bókabrenna er alltaf í mínum huga vopn í höndum öfgahyggju.

Ég leyfi mér að klippa út úr þínum eigin ummælum:

"Að brenna sömu bók í táknrænni athöfn er að opna fyrir umræðu um hvernig samfélagi við viljum búa í..."

"[...] brenndu nasistar einhvern tímann 1 bók af einhverju sem táknrænum mótmælum? Miðuðust þeirra aðgerðir ekki við útrýmingu tiltekinnar útgáfu í heild?"

Nasistarnir brenndu yfirleitt ekki heilu upplögin af einhverri tiltekinni bók á opinberum bálköstum. Á hinum frægu bókabrennum höfðu háskólastúdentar safnað saman þeim bókum sem þóttu and-þýskar og köstuðu á bálið. Skipti þá engu hvort um eitt eða fleiri eintök var að ræða. Í ræðu sinni yfir bálkestinum í Berlín, 10. maí 1933 hafði Göbbels sjálfur einmitt þessi orð um atburðinn:

"It is a strong, great and symbolic undertaking, an undertaking, which shall prove to all the world that the intellectual basis of the November Republic is here overturned; but that from its ruins will arise victorious the lord of a new spirit."

Táknræn brenna á rusli fortíðarinnar; úr öskunni mun rísa nýr maður. Af orðum hans að dæma þá voru aðgerðir nasistanna í mjög svo göfugum tilgangi. Allir þeir sem brenna bækur gera það líka ávallt í göfugum tilgangi. Hvort sem það er Thomas Mann eða J.K. Rowling sem fleygt er á bálið.

Ég efast ekki um göfugan tilgang þinn en ef þú telur þig vera lausa við öfgar hvernig dettur þér þá í hug að beita slíku vopni í þinni baráttu? Þetta er ekki rétta leiðin að þeirri umræðu eða samfélagi sem þú vilt.

Með bestu kveðju.

Ásgeir Þorvaldsson (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 14:58

35 identicon

Talaði aldrei um að þeir sem væru ósammála mér væru fávitar, það er bara fólk sem heldur að það sé í usa. Mér finnst fólk fávitar sem keyra yfir á rauðu ljósi eða fá lánaða peninga og vita ekkert hvernig þeir ætla að borga þá. Fullt af fólki sem er fáfrótt, get ekki séð neitt að því að vera fáfróður um eitthvað, get sjálfur játað þá skömm að vita ekki allt og því fáfróður um ákveðin málefni(við erum öll svolitlir fávitar). Mér finnst þetta bara vera skoðun sem ég á rétt á að hafa þótt hún móðgi eitthvern, sama hversu ósammála þú ert. Er bannað að móðga fólk eða ?

Svo kemur síðasta komment frá mér ritskoðað(ala feminsti):

Mér fanst glæpsamlegt að brenna jafn góða bók og Brennunjálssögu, en svo finnst mér alltí lagi að brenna (ritskoðun) rusl eins og ljóðin hennar Elísabetar Jökuls. Þetta er bara eitthvað röfl sem hún er búin að setja niður á blað og ætlar svo að reyna matreyða ofaní okkur fyrir peninga. Þú sérð nú hvað hún er desperate að fá athyggli svo að fólk lesi ljóðinn hennar, nema hún sé bara sammála mér að það sem hún skrifi er bara rusl, og þessvegna brenni hún ljóðin sín. Það er ekki einusinni hægt að deila um það sem stendur í bókunum hennar af því að það er bara rugl.

(þetta getur ekki lengur verið mógandi, hlýt að hafa rétt á því að finnast verkin hennar Elísabetar vera rusl, rugl og ekki manni bjóðandi, og það lítur allt út fyrir að þér sé sama þótt bækur séu brenndar þannig að ekki getur það farið fyrir brjóstið á þér)

Bjöggi (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 17:04

36 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Stöðugt á hlaupum! Ásgeir Þorvaldsson kemur inná mína afstöðu. Ég er talsmaður borgaralegrar óhlýðni og hef alltaf verið svo sem að hlekkja sig við vinnuvélar, klifra upp í krana og sletta skyri, en með árunum hef ég komist á þá skoðun að þeir sem mótmæla kúgurum eigi ekki að taka upp aðferðir kúgarana nema þá í algerri nauðvörn svosem  til að bjarga lífi sínu eða annarra. Listrænir gjörningar - eru svo annað mál- þar hverfum við að einhverju marki úr veruleikanum förum að nota tákn og líkingar. Ég var ekki vitni að þessum gjörningi Elísabetar en var hún ekki einmitt að minna á að aðförin gegn landinu mætti líkja við bókabrennur nazista? Og ef við færum að brenna Tíu litla negrastráka væri það þá táknrænt fyrir nokkuð annað en að okkur þætti rétt að brenna bækur? Ég held einmitt að sú umræða sem hefur skapast um bókina verði til þess að menn verði meðvitaðri um kynþáttahyggju og það er eina leiðin til að útrýma henni. Bönn og íkveikjur breyta ekki hugarfari, en umræða gerir það.

María Kristjánsdóttir, 1.11.2007 kl. 17:44

37 identicon

Já verð að vera 100% sammála henni Maríu.

 Mér finnst aldrei í lagi að brenna bækur, meira að segja þó ég sjái þær ekki verðmætara en ruslið í ruslatununni minni og finnst að bækurnar ætu að fara sömu leið og það. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 17:54

38 Smámynd: Upprétti Apinn

I disapprove of what you say, but I will defend to the death your right to say it.  ~Voltaire

Upprétti Apinn, 1.11.2007 kl. 18:12

39 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Ásgeir og María - Ég er ekki að hvetja til þess að fólk brenni bækur og er ekkert á leiðinni að brenna neinar bækur sjálf - en mig langar að kryfja þetta svolítið nánar. Ég get ekki tekið t.d. eitthvað eitt sem nasistar gerðu og dæmt það sem táknrænt fyrir allt annað. Ef ég ætti að gera það myndi ég hljóta að verða að fordæma t.d. bókaútgáfu, plaköt og kvikmyndir - allt saman áróðurstæki nasista. Einnig er spurning hvað segja á um gott ræðufólk - er það ekki að nota aðferðir Hitlers? Þar fyrir utan eru bókabrennur engan veginn uppfinning nasista heldur eiga sér árþúsunda sögu. Spurningin er mun frekar af hverju sumar aðgerðir eru teknar út og verða táknrænar og hvernig orðræðan er tengd valdatengslum - hvað má og hvað má ekki. 

Mér finnst margt áhugavert í þessari umræðu varðandi hvar mörkin liggja. Eins og t.d. varðandi tjáningarfrelsi. Ef við erum að tala um frelsi til að tjá sig, eins og tilvitnunin í Voltaire segir, að fólk sé kannski ósammála en muni verja rétt annarra til að segja það - af hverju ver fólk þá ekki bókabrennur af sama offorsi og það ver útgáfu á rasískri barnabók? Er þetta ekki sitthvor hliðin á sama peningnum? Það er táknrænt að brenna bók (um það erum við sammála) en það er líka táknrænt að endurútgefa rasíska bók árið 2007. 

Ein spurningin er kannski hvers vegna bókabrennan er svona táknræn. Ef hún er aðför gegn tjáningarfrelsinu, ok þá er ég sammála því að það slæmt, en ef hún er táknræn sem fordæming á þeim skilaboðum sem bókin inniheldur - þá skil ég ekki alveg hver er munurinn á boðum og bönnum (fyrir utan að eitt hefur verið gert að tabúi en hitt ekki). M.ö.o. þá er kannski ekki hægt að setja allar bókabrennur undir sama hatt heldur ætti að vera hægt að túlka þær á mismunandi hátt. 

Og hvers vegna er tjáningarfrelsið svona mikilvægt? Er það ekki m.a. til að fólk geti barist á móti þeim sem kúga það? Og hvernig stendur þá á því að rétturinn til að kúga er varinn af ráðum og dáð - í stað þess að það sé fordæmt? Það er heljarinnar ritskoðun í gangi í samfélaginu. Nasistar brenndu bækur gyðinga. Íslendingar (hvíta fólkið) gefur út rasíska barnabók sem er til þess fallinn að setja þá skör hærra en þá sem eru af öðrum húðlit. Hver er munurinn á því - og af hverju erum við ekki að bera saman kúgunina sem liggur að baki frekar en að velta fyrir okkur hvaða aðferð kúgarinn notar? Undirliggjandi ástæða fyrir mikilvægi tjáningarfrelsinu hlýtur að vera mat á mikilvægi manneskjunnar og hennar frelsi. Hins vegar er baráttuaðferðum gegn kúguninni settar skorður. 

Ein spurning í þessu samhengi - miðað við að ekki má setja tjáningarfrelsinu skorður og allir svona svaðalega líbó... Segjum sem svo að Hitler væri hér í dag. Hvað væri hægt að gera til að stoppa hann frá því að komast til valda? Eina sem virðist vera tabú miðað við þá umræðu sem hefur verið hér er að hann yrði stoppaður í bókabrennunni - sem eftir allt saman bliknar í samanburði við allt annað sem hann gerði.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 1.11.2007 kl. 20:03

40 identicon

Mér finnst ofbeldi í því að brenna bækur, ekki skrifa þær eða gefa þær út. Þú er að beita tjáningarfrelsinu ofbeldi ef þú brennir bók, ég get alveg lamið einhvern ef ég er reiður eins og bókabrenna lemur á tjáningarfrelsinu.

ÉG get heldur ekki séð útgáfu umdeildar bókar ofbeldi, þótt hún gæti verið rasísk. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 20:12

41 identicon

Mér langar að játa gamla synd á mig.

Þannig er mál með vexti að fyrir nokkrum árum var það til siðs á heimili foreldra minna að kveikja upp í arninum á laugardagskvöldum. Til að fá viðinn til að brenna var notað eitthvað af þeim dagblöðum sem við vorum áskrifendur af. Þá var það til siðs að taka úr blaðsíður með myndum af fólki eða greinar sem fjölluðu um eitthvað sem fór illa í heimilisfólkið og nota þær til að tendra eldinn. 

En hér með viðurkenni ég að hafa brennt grein sem fjallaði um eitthvað er varðar feminista eða feminisma (meðvituð ákvörðun). En það var að sjálfsögðu áður en ég fór eitthvað kynna mér málefni feminista. 

manuel (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 21:19

42 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Bjöggi - það er ekki hægt að beita dauða hluti ofbeldi - og það er móðgun við fólk sem hefur verið beitt ofbeldi að ætla að líkja þessu tvennu saman. 

manuel... gat skeð!  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 1.11.2007 kl. 21:50

43 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Þessi bókabrennu pælingar eru tóm vitleysa vegna þess að ekki er hægt að stöðva umræður, samræður, tjáningu með því að kveikja í henni, hvorki í merkingunni að brenna hana til ösku eða stöðva hana. Það er engin leið að brenna blogg, nema þá helsta að kveikja í tölvunni sinni. Það er álíka gáfulegt að kveikja í bók og skjóta sjónvarpstækið sitt. Það er kannski einskonar tjáning þegar maður er ósáttur við dagskrána en ákaflega máttlaus aðgerð. Það er áhrifaríkara að blogga um vonda dagskrá eða vondar bækur. Mannfólkið hefur ekki komið sér saman í eitt skipti fyrir öll, hvað er vont, gott, viðeigandi, særandi eða útgefanlegt, þess vegna tölum við saman, tjáum okkur með orðum sem ekki verða stöðvuð vegna þess að orðinn eiga upptök sín í heilanum. Þess vegna eru bókabrennur ekki táknræn tjáning, heldur byrjun á ofsóknum. Fyrst er kveikt í bókunum, síðan er höfundurinn handtekinn og að lokum eru heilarnir, þaðan sem hugsunin á upptök sín gerðir upptækir af stormsveitum ríkisins.  

Benedikt Halldórsson, 2.11.2007 kl. 08:41

44 Smámynd: Jón Sigurður

Í gegnum alla þessa umræðu um bókabrennur þá er ég búinn að vera að hugsa um það þegar suðurríkjamenn í Bandaríkjunum hófu að brenna bítlaplötur í miklum mæli um miðbik sjöunda áratugarins. Allt vegna þess að John Lennon sagði að Bítlarnir væru vinsælli en Jesú.

Ætli þeir hjá Skruddu séu ekki að hugsa það sama og Paul McCartney lét hafa eftir sér á þessum tíma.

"They've got to buy them before they can burn them."

Jón Sigurður, 2.11.2007 kl. 11:02

45 Smámynd: Guðrún Egilson

Aldrei var að ætlun mín að blanda mér frekar inn í þá móðursýkislegu umræðu sem orðið hefur í kjölfar útgáfu 10 lítilla Negrastráka. En þá þykir mér skörin vera farin að færast upp á bekkinn þegar varaþingmaður og aðstoðarmaður borgarstjóra, Guðmundur Steingrímsson, leggur  til í pistli í Fréttablaððinu að bókin verði brennd. Þeir sem veljast til áhrifa fyrir ríki og sveitarfélög ættu að sjá sóma sinn í að gæta tungu sinnar því að einhvers staðar segir að eftir höfðinu dansi limirnir. Bókabrennur tíðkast í einræðisríkjum og hafa mér vitanlega ekki verið stundðar hér. Guðmundur Thorsteinsson hafði næmt skopskyn og fulltrúar kristinnar trúar fengu að kenna á því, t.d. Sankti Pétur og María mey. Mér vitanlega gerði kirkjan ekki tillögu um að þær myndir hans yrðu brenndar á báli. Og svona rétt í lokin, þar sem ýmsar mannvitsbrekkur hafa lýst því yfir að þessi ástsæli  kosti  heimsvaldasinni langar mig að geta þess að í bréfi frá New York, sem birt er í ævisögu hans finnst honum fátt heillandi þar í borg annað en tónlist svarta mannsins. Þar finnur hann yndislegan og tregablandinn lífsneista sem höfðar til viðkvæmrar lundar.

Að svo mæltu hef ég ekki meira um málið að segja en aðförin að bókinni hefur borið þann árangur að hún trónir efst á sölulista bókabúðanna. 

Guðrún Egilson, 3.11.2007 kl. 10:05

46 Smámynd: Guðrún Egilson

Það duttu þarna úyr nokkur orð sem ég vildi laga. -að þessi ássæli listamaður hafi verið kynþáttahatarieðaað minnsta kosti heimsvaldasinni..

Guðrún Egilson, 3.11.2007 kl. 10:14

47 identicon

Katrín " Ef við erum að tala um frelsi til að tjá sig, eins og tilvitnunin í Voltaire segir, að fólk sé kannski ósammála en muni verja rétt annarra til að segja það - af hverju ver fólk þá ekki bókabrennur af sama offorsi og það ver útgáfu á rasískri barnabók?"

Ef þú ferð niður á lækjartorg, til að brenna 1 eintak af einhverri bók sem er ennþá til sölu einhverstaðar í mörgum eintökum,  þá skal ég verða fyrsti maður til að verja rétt þinn til að gera slíkt.

Hins vegar, þá er bókabrenna óafturkallanleg eyðilegging, og verður því að skoðast í því ljósi.

Ég persónulega, mundi aldrei brenna bók til að tjá mig, ekki frekar en ég myndi fela mig í runna og kalla eitthvað að fólki sem kemur út úr húsi um miðja nótt einhvers staðar. 

Fransman (IP-tala skráð) 3.11.2007 kl. 22:25

48 identicon

Er bókabrenna ekki alveg nákvæmlega jafn merkingarhlaðin eins og orðið „nigger“? Snýst þetta ekki um það?

Annars nefna margir að ritskoðun geti eingöngu verið framkvæmd af hinu opinbera eða með valdboði (þ.e.a.s. fyrirfram bannað). Þetta er að mínu mati kolrangt, enda er máttur almenningsálitsins (eða sjálfsskipaðra málsvara þess) alveg jafn kúgandi. Það mætti hafa það í huga þegar ráðist er með ofstæki að mönnum og málefnum. Manni sýnist að Mill hafi jafnvel haft meiri áhyggjur af þess lags kúgun heldur en ríkisins sbr. rit hans Frelsið.

Andri (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 08:33

49 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Fransman - fordómar, mismunun, misrétti - oft eru þetta líka óafturkallanlegar eyðileggingar - og það á fólki, ekki dauðum hlutum. En gott að vita að þú munir styðja tjáningarfrelsi fólks...

Andri - jú, bókabrenna er mjög merkingarhlaðin. Hins vegar ekki á sama hátt og orðið "nigger". Enn og aftur - dauður hlutur vs. manneskja. There is a big difference... svona for the record.

Ritskoðun er framkvæmd á hverjum einasta degi, hjá hverjum einasta fjölmiðli, hjá hverri einustu bókabrennu og hjá hverri einustu manneskju. Ritskoðun er því engan veginn eitthvað ríkisfyrirbæri. Varðandi almenningsálitið þá segir Boudieu að það sé ekki til... áhugaverður punktur. 

Mill skrifaði afar góða bók sem heitir Kúgun kvenna. Mæli með henni fyrir alla, sérstaklega frjálshyggjumenn sem átta sig ekki alveg á hvað frjálshyggja er - eins og t.d. allir frjálshyggjumenn á Íslandi. Það er t.d. ekki hægt að vera alvöru frjálshyggjumaður og vera fylgjandi launaleynd. Þetta tvennt fer einfaldlega ekki saman.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 6.11.2007 kl. 15:21

50 identicon

Dort, wo man Bücher verbrennt, verbrennt man auch am Ende Menschen.

Heinrich Heine (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 06:34

51 identicon

Ég held að upphafning bókabrennu sem tjáningar geti allt eins haft særandi áhrif á einstaklinga, rétt eins og orðið „nigger“. T.d. verið særandi fyrir gyðinga. Ég tel allavega bókabrennu vera mjög vont form tjáningar vegna sögu þess. Rétt eins og „nigger“ er ekki gott orð til að nota um þá sem eru dökkir á hörund.

Varðandi að frjálshyggjumenn á Íslandi skilji ekki alvöru frjálshyggju þá skil ég ekki alveg punktinn um launaleynd. Við erum ábyggilega sammála um að launaleynd á ekki að vera lögboðin, en þegar því sleppir er einstaklingum þá ekki frjálst að semja um hvort trúnaður gildi um samning eða ekki? Frá frjálshyggjusjónarmiði? Nú er ég ekki að segja að samfélagið megi ekki banna launaleynd, ég bara náði ekki þessu með frjálshyggjuna.

Andri (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 10:39

52 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Já bókabrenna (eða upphafning) getur haft særandi áhrif á einstaklinga. Það er hins vegar ekki það sama og að fólk verði fyrir fordómum, misrétti eða ofsóknum á grundvelli kynþáttar. Þess vegna er þetta tvennt ekki það sama.

**

Varðandi frjálshyggjuna þá heyrast þau rök oft að lögmál hins frjálsa markaðar muni leiða til þess að launamunurinn hverfi. Hef margoft heyrt frjálshyggjumenn halda þessu fram. Grundvallarforsenda fyrir að það gerist er að markaðurinn sé í raun og veru frjáls - annars eiga lögmálin ekki við. Eitt af grundvallaratriðunum er að fólk hafi aðgang að upplýsingum. Launaleynd heftir þennan aðgang og þýðir þar af leiðandi að lögmálin eiga ekki við. Þess vegna ættu frjálshyggjumenn sem í raun og veru vilja jafnrétti og trúa í alvörunni á mátt hins frjálsa markaðar að vera fremstir í flokki í baráttunni fyrir afnámi launaleyndar, þ.e. til að stuðla að frjálsum markaði. Þess vegna segi ég oft að ég sé mun frjálshyggjulegar sinnuð en íslenskir frjálshyggjumenn... ég vil að launin séu upp á borðum - ekki bara að fólk megi segja frá heldur að það hafi í raun og veru aðgang að launaupplýsingum. Þá er fólk komið með forsendur til að taka upplýstar ákvarðanir. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 7.11.2007 kl. 12:54

53 identicon

Þetta er að mestu rétt hjá þér með upplýsingar. Þarna rekast tvö grunnsjónarmið á í frjálshyggjunni. Annars vegar aðgangurinn að upplýsingum og hins vegar frelsi til að semja um hvort samningur sé trúnaðarmál eða ekki. Sjálfur hallast ég að því að síðara atriðið sé mikilvægara, en það skiptir ekki öllu hér. Reyndar held ég að frjálshyggjumönnum alls staðar sé almennt meira annt um hið síðarnefnda og því kannski full langt gengið hjá þér að telja þig meira frjálshyggjusinnaða en íslenska frjálshyggjumenn. Ég tel alveg ljóst að ég myndi ekki telja mig meiri feminsta en þú, þó ég tryði því einlægt að konur væru svo öflugar að engrar lagasetningar væri þörf til þrýsta fram jöfnuði á stöðu þeirra.

Ef við berum þetta saman við mannréttindi þá rekast þau líka á, t.d. tjáningafrelsið og friðhelgi einkalífs. Þó einhver telji hið fyrrnefnda mikilvægara en hið síðarnefnda myndi ég ekki segja að hann væri minni baráttumaður fyrir mannréttindum, eins og þú virðist gefa í skyn með frjálshyggjuna. Það veltur síðan oft á einstaka samfélögum og auðvita góðum rökum hvar mörkin liggja milli tveggja ólíkra mannréttinda í þeim tilvikum sem þau rekast á.

Andri (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 13:45

54 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Varðandi samninga sem eru trúnaðarmál þá væri ekki úr vegi að setja það í samhengi við aðstæður. T.d. þætti eflaust fáum vit í því að hafa samning um verð á matvöru úr stórmarkaði trúnaðarmál. Samkeppnisforsendan er að fólk geti borið saman verð, bæði á milli sömu/svipaðrar vöru frá mismunandi framleiðendum sem og á milli stórmarkaða. Held að fæstir frjálshyggjumenn myndu af einhverri alvöru fara að verja samningaleynd sem frelsi í þeim aðstæðum heldur einmitt tala um að slíkir samningar kæmu í veg fyrir að lögmál hins frjálsa markaðar fengju að njóta sín.

Einstaka samningar um einstaka verk lúta kannski öðrum lögmálum.

Launamálin falla svo kannski þarna einhvers staðar á milli. En þar sem samningarnir eru það margir þá myndi ég segja að launaleyndin hafi samkeppnishamlandi áhrif og að lögmál hins frjálsa markaðar eigi í raun og veru ekki við. Í það minnsta er ekki hægt að segja að hinn frjálsi markaður muni leiða af sér að launamunur muni hverfa - einfaldlega af þeirri ástæðu sem ég sagði áðan - að aðgangur að upplýsingum er forsenda fyrir að þau virki. Frjálshyggjumenn standa því frammi fyrir vali - og mér hefur þetta val ekki þótt bera neinn vott um frjálsan markað hingað til, þ.e. þetta með að verja launaleyndina. 

**

Varðandi það að hafa trúa í einlægni á að konur séu öflugar - þá vefst það ekki fyrir femínistum. Hins vegar er ekkert nýtt að konur séu öflugar. Konur hafa verið mjög öflugar í gegnum aldirnar. Það hefur ekki breytt því að það hefur verið mismunað á grundvelli kyns. Í því felst misréttið, bæði í dag og í fornöld - mismunun á grundvelli kyns - óháð hæfni eða getu. Orðræða um að konur í dag séu svo frábærar að við þurfum ekki jafnréttisbaráttu gefur til kynna að konum hafi verið mismunað í gegnum tíðina vegna þess að þær voru óhæfari eða ekki eins og góðar og karlar. Það er bara alls ekki málið - ekki frekar en að svertingjum hafi verið mismunað vegna þess að einu sinni voru þeir óæðri hvíta manninum en séu nú orðnir jafnir. Eða að samkynhneigðir hafi einu sinni verið verri en séu nú jafngóðir... mismunun felur í sér mismunun - ekki að einstaklingurinn sé betri eða verri.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 7.11.2007 kl. 14:00

55 identicon

Þetta er rétt, ég held að dæmið sem ég nefndi hafi ekki verið nógu skýrt. Ég átti við að ef ég myndi aðhyllast einhverja ákveðna stefnu eða hafa ákveðna skoðun, sem rúmast innan feminisma (nú veit ég t.d. ekkert hvort þetta komment um öflugar konur eigi heima innan þess) en kannski ekki megin viðhorfið í þeim fræðum, þá væru vart skilyrði fyrir mig til að telja mig meiri feminsta en þig, eins og þú gerir gagnvart frjálshyggjunni. Annars er þetta alls ekkert hitamál, bara áhugaverð röksemdarfærsla.

Takk fyrir ágæt svör. Við verðum tæpast sammála með mörk samningsfrelsisins innan frjálshyggjunar eða hvort bókabrennur séu æskileg tjáning. Ég hafði gaman af og fæ vonandi að kommenta síðar. Gangi þér allt í haginn.

Andri (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 16:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband