Til hvers að fórna meiri hagsmunun fyrir minni?

Ég get ekki betur séð en að sala áfengis í matvöruverslunum þjóni litlum tilgangi öðrum en þeim að auka neyslu almennings og hagnað matvöruverslana. Skil vel að matvöruverslanir vilji fá bita af kökunni... en mér finnst að ekki eigi að taka minni hagsmuni fram yfir þá meiri. ÁTVR hefur staðið sig vel í að bjóða fjölbreytt úrval vína. Eflaust mætti einhverju breyta varðandi hvaða vín komast í sölu og ég sé ekki að það þjóni t.d. hagsmunum heildsala að vín verði seld í matvöruverslunum. Það er að segja, ekki heildarinnar þótt eflaust muni þeir fáu útvöldu maka krókinn feitt. 

Sjálfri finnst mér ekkert mál að gera mér sérferð í ríkið eftir víni og bjór. Þrátt fyrir að mér þætti þægilegt að kippa með mér flösku um leið og ég versla í matinn þá er það algjört aukaatriði miðað við þá hagsmuni sem eru í húfi varðandi áfengisvandann. Þegar ég bjó í Bandaríkjunum fékk ég smjörþefinn af þessu fyrirkomulagi. Minnir að reglurnar hafi verið þannig að matvöruverslanir máttu ekki selja áfengi eftir kl. 9 á kvöldin og ekki á sunnudögum! Skipti tiltölulega litlu máli hvort kona kippti með sér flösku þar eða leitaði uppi áfengisverslun. Hér á landi er ekki óalgengt að 16 ára krakkar vinni á kassa í matvöruverslunum - og allt niður í 14 ára. Hvað á að gera í því ef sala á áfengi verður leyfð? Varla á að leyfa börnum að afgreiða áfengi sem þau ekki mega drekka fyrr en þau verða 20 ára? Ég hugsa að á þessum aldri hefði ég nú verið dugleg að afgreiða bæði sjálfa mig og vinkonurnar um áfengi ef það hefði verið í boði...!

Ég er sem sagt hlynnt því að ÁTVR sjái áfram um einkasölu áfengis og er á því að það auki vöruúrval og aðgengi að öðrum víntegundum heldur en þeim sem seljast mest. Eins þrífst fjölbreyttari flóra heildsala fyrir vikið þar sem matvöruverslanir munu pottþétt ekki selja vín í sama úrvali og ÁTVR. 


mbl.is Landlæknir: Afnám einkasölu ÁTVR mun auka áfengisneyslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Sæl og blessuð Katrín!

Ég verð að lýsa áhyggjum mínum yfir áhyggjum af áhyggjum margra yfir því að ekki verði seldar jafn margar tegundir af salan verður gefin frjáls.

Bónus er í margra augum ekki sá aðili sem selur mesta gæðavarninginn í matvælum og vöruúrvalið þar er mjög knappt. Samt er verslun með mat enn frjáls.

Ástæðan er m.a. sú að fólk getur keypt vörur sem eru í sérstökum gæðaflokki í sérverslunum, t.d. í Gallerí kjöti, ostabúðum, og jafnvel í aðeins dýrari búðum eins og Hagkaupum.

Ég sé enga ástæðu til annars en að upp spretti sérverslanir ef fólk er almennt á því að úrvalið í matvöruverslunum mæti ekki þörfum þeirra, rétt eins og hefur gerst með matvæli.

Oddgeir Einarsson, 19.10.2007 kl. 12:23

2 Smámynd: Oddgeir Einarsson

kannski fullmargar áhyggjur í fyrstu setningunni :)

Oddgeir Einarsson, 19.10.2007 kl. 12:23

3 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Hehe, já það er vandlifað í þessum heimi með allar þessar áhyggjur! Annars er vöruúrvalið ekki aðaláhyggjuefnið í mínum huga. Aðalmálið er þetta með aukið aðgengi og tengsl við aukna neyslu. Öl er böl, er stundum sagt - ekki að nauðsynjalausu. Það er nú aðallega þess vegna sem ég er hlynnt áframhaldandi einkarétti ÁTVR á sölu. Einnig finnst mér að fólk sem á við áfengisvanda að stríði eigi að geta verslað í matinn án þess að þurfa að glíma við áfengisvandann í leiðinni. Matur er lífsnauðsyn og mér finnst skipta máli að fólk geti verslað í matinn án þess að sumt sé að þvælast fyrir. Samfélag á að þjóna hagsmunum margra - ekki bara þeirra frekustu eða þeirra sem vilja mest. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 19.10.2007 kl. 12:41

4 Smámynd: Guðmundur Geir Sigurðsson

Það virðist vera að vinstrisinnað fólk sé frekar þeirrar skoðunar að fólk hafi ekki dómgreind til að kaup sitt brennivín án aftskipta stóra bróður. Eruð þið vinstri menn sona slæmar fyllibyttur að þið getið ekki keypt vín þar sem ykkur hentar án afskipta einhvers annars? þetta skil ég ekki.

Guðmundur Geir Sigurðsson, 19.10.2007 kl. 13:49

5 identicon

Svolítið sérstakt að þetta frumvarp skuli nú líta dagsins ljós aftur, á sama tíma og lögreglan er farinn að herða tökinn á fulla fólkinu í miðbænum. Viss tvískinungur að herða tökin á smáglæpum eins og brotum á þessari óskýru lögreglusamþykkt þ.e. míga úti, vera til ama, og að ógleymdu að trufla lögreglu við skyldustörf ( sem er að vera erfitt að gera ekki enda er hún allstaðar í miðbænum).

Ég held að þetta sé í eina skipti sem að ég get sagt að ég sé sammála Katrínu.  

Ólafur (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 15:36

6 identicon

Ég er nokkuð sammála flestu. En þú gleymir að taka með í reikninginn lækkað vöruverð. Þannig þegar þú talar um að fórna meiri hagsmunum fyrir minni þá ertu í raun að tala um mikla hagsmuni fárra einstaklinga vs. minni hagsmuni margra einstaklinga. Getur verið erfitt að gera þarna upp á milli.

Jón Gunnar Ásbjörnsson (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 16:25

7 identicon

Við höfum ekkert með að gera að selja þetta í matvöruverslunum og er ég sammála þér Katrín Anna. Ef litið er á tölur alkahólisma yfir norðurlöndin þá ber Danmörk höfuð og herðar yfir okkur öll, enda vín og bjór selt í matvöruverslunum þar á meðan Ríkið er til í öllum hinum löndunum. Það gefur auga leið, áfengisvandinn mun aukast. Eigum bara að hafa þetta eins og það er í dag, sé ekkert að því fyrirkomulagi, alveg eins og við þurfum að fara´a bensínstöðvar til að næla okkur í eldsneyti.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 19:44

8 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Ég hef búið í nokkrum löndum þar sem áfengi er selt í matvöruverslunum, og hef ekki séð annað en að það sé ágætt fyrirkomulag. Einu sinni voru sér mjólkurbúðir og sér fiskbúðir, þannig að fólk þurfti að fara á a.m.k. þrjá staði til að kaupa í matinn. Eigum við kannski að taka það upp aftur?

Svala Jónsdóttir, 19.10.2007 kl. 19:48

9 identicon

Ég vill heldur ekki sjá vín í matvöruverslunum. En er það eitthvað atriði að ríkið eigi að halda áfram að sjá um þetta? Væri ekki bara ágætt að vínbúðirnar yrðu einkavæddar? 

manuel (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 22:12

10 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Skil ekki afhvernju þetta skiptir svona miklu máli fyrir þessa menn sem endilega vilja koma þessu frumvarpi  í gegn.  Er eitthvað mál að fara í séverslanir eftir áfengi, eki finnst mér það.  Má ekki ríkið hafa hagnað af þessu frekar en einkaðilar?

Þórdís Bára Hannesdóttir, 20.10.2007 kl. 21:52

11 identicon

Veistu ég er ósammála þér Katrín Anna. Mér finnst þessi umræða svo oft snúast um það að valið standi á milli þess að hafa frjálsa áfengissölu og mikil áfengisvandamál annars vegar og ríkiseinokun í áfengissölu og lítil áfengisvandamál hins vegar. En það þarf ansi mikinn vilja til þess að horfa þannig á hlutina. Ríkið má eitt selja áfengi, en þýðir það að áfengisvandamál séu lítil hér á landi? Nei. Væru  þau meiri ef áfengissala væri frjáls? Kannski og kannski ekki. En forsendan fyrir því að beita neyslustýringum og ríkiseinokun í áfengissölu er að mínu viti sú að það virki. Sem það virðist ekki gera.

Þú talar um ungt afgreiðslufólk. Ég held að allir hljóti að vera sammála um að 16 ára krakkar eigi ekki að fá að afgreiða áfengi. En það er alveg hægt að gera þá kröfu til verslana að ef þau vilji selja áfengi sé það einungis gert af fólki sem hefur náð 18 ára aldri. Ef þær fá ekki svo gamalt fólk til starfa, nú þá bara geta þær ekki selt áfengi!

Hildur Edda (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 21:59

12 Smámynd: birna

Rökin með frumvarpinu er að ríkið eigi ekki að standa í smásöluverslun.
Rökin á móti eru að það hefur sýnt sig annarsstaðar að aukið aðgengi eykur vandamál (sbr. ástralska doktorinn sem vinnur hjá WHO og talaði í Kastljósinu um daginn)

Væri ekki hægt að einkavæða áfengisverslanirnar, en hafa það sem skilyrði að það væru sérverslanir.

birna, 21.10.2007 kl. 10:09

13 Smámynd: Steinar Örn

MaggaÖ: "Ef litið er á tölur alkahólisma yfir norðurlöndin þá ber Danmörk höfuð og herðar yfir okkur öll..."

Geturu nokkuð vísað í þessar tölur?

Steinar Örn, 22.10.2007 kl. 19:12

14 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég vil bara hafa þetta eins og það er í dag en að fleiri smærri bæjarfélög fái til sín svona skot innaf bensinstöðinni eins og við Hvergerðingar.

Þetta með að mega selja einhvern hlut í matvöruverslun en bara þeim sem hafa tiltekin (13 til 18,30) opnunartíma fannst mér aulallega orðað hafi viðkomandi ræðumaður verið að umskrifa minnismiða frá JÁJ.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 22.10.2007 kl. 23:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 332485

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband