Tjáningarfrelsi

Tjáningarfrelsi er einn af hornsteinum lýðræðisins. Hins vegar er ekki nóg að hafa það sem stjórnarskrárbundinn rétt, ef tjáningarfrelsið á virkilega að þrífast þá þarf að vinna að því að skapa umhverfi þar sem fólk þorir að tjá skoðanir sínar. Það eru til ýmsar leiðir til að þagga niður í fólki án þess að ríkisvaldið komi þar nokkurs staðar nálægt. Ayaan Hirsi Ali skilgreindi tjáningarfrelsið sem réttinn til að móðga aðra... og mér finnst allt í lagi að taka undir að það er einn af þáttum tjáningarfrelsisins - þó það sé auðvitað mun víðtakara en rétturinn til að móðga. Tjáningarfrelsið ætti samt ekki að vera án ábyrgðar eða án skoðana. Við höfum t.d. höft á tjáningarfrelsi hér varðandi ærumeiðingar. 

Síðan má líka velta fyrir sér hversu langt tjáningarfrelsið nær. Segjum sem svo að ég fái inn um lúguna persónulegt sendibréf sem er ætlað nágranna mínum. Er það partur af mínu tjáningarfrelsi að opna bréfið, lesa það og birta það hér á blogginu, hvort sem er í heild sinni eða valda kafla?

Ástæðan fyrir því að ég spyr er að nú eru í gangi mjög áhugaverðar umræður um íslam, kristni, karlaveldi og annað því tengt í tilefni af heimsókn áðurnefndar Hirsi Ali og Maryam Namazie. Reglur póstlistans kveða skýrt á um að ekki megi birta efni af póstlistanum annars staðar. Það hafa hins vegar 2 bloggarar gert og eru hvorugir búnir að fjarlægja færslurnar þrátt fyrir beiðnir slíks efnis þar birtingin er brot á reglunum. Það kæmi mér síðan ekki á óvart ef fjölmiðlar tækju þetta upp líka og birtu. Allt er þetta síðan tilraun til að þagga niður í einni konu. Femínista. Og jú, kannski fleirum femínistum líka. Allavega lýsa þeir ekki aðdáun sinni á þeirri frábæru og gáfulegu umræðu sem þarna á sér stað. Kemur það á óvart í karlaveldi þar sem raddir kvenna í fjölmiðlum eru rétt rúm 20%? Skyldi þöggunin vera ein af ástæðunum fyrir því? Ég vona allavega að viðkomandi menn setji tjáningarfrelsi sitt líka í samhengi við siðferði og traust - og æru (sína og annarra). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafrún Kristjánsdóttir

Afhverju dregur þú þá ályktun að þeir vilji þagga niður í henni?  Ef maður er ósammála einhverju, finnst eitthvað heimskulegt etc þá vill maður samt ekki sjálfkrafa þagga niður í því.

Held reyndar að þeir félagar vilji að Sóley tjái sig sem mest. 

Hafrún Kristjánsdóttir, 14.9.2007 kl. 02:31

2 Smámynd: Sleggjan

hehe, soley tja sig sem mest, goður punktur=)

Sleggjan, 14.9.2007 kl. 10:05

3 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Þeir sem taka þátt í að vera inni á póstlistum félagssamtaka og ætla sér að nota efni þaðan hvort sem er birting skeytis eða fjalla um umræður sem þar fara fram eiga að fá leyfi viðkomenda til birtingar annars staðar. Það sem er óhuggulegt við svona póstlista sem í raun er öllum opin með ákveðnum skilmálum, eru einskonar gluggagægjar sem misnota aðstöðu sína.

Þetta er argasti dónaskapur og segir líka margt um þessa bloggara sem eru karlmenn. Það er gaman að leggjast í einfalda rannsóknamennsku eins þegar gangandi vegfarendur stoppa á rauðu ljósi og athuga hverjir fara yfir á rauðu, það eru ca 7 karlmenn á móti einni konu.

Edda Agnarsdóttir, 14.9.2007 kl. 11:36

4 Smámynd: Heiða  Þórðar

Í sannleika sagt er ekki alveg inn í þessum málum....en sammála þér með tjáningafrelsið! Klárlega! :) Eigðu góðan dag.

Heiða Þórðar, 14.9.2007 kl. 14:29

5 Smámynd: Steinar Örn

Edda: "Það er gaman að leggjast í einfalda rannsóknamennsku eins þegar gangandi vegfarendur stoppa á rauðu ljósi og athuga hverjir fara yfir á rauðu, það eru ca 7 karlmenn á móti einni konu."

Ha?  Veit ekki alveg hvað þú ert að reyna að koma til skila

Steinar Örn, 14.9.2007 kl. 14:58

6 identicon

Sóley er stjórnmálamaður, hefur sett sig fram sem frambjóðanda með áherslu á kynjamál og hefur fengist við kynjamál sem varaborgarfulltrúi. Þetta innlegg hennar fjallaði um kynjamál.

Ef einhver annar kjörinn fulltrúi  hefði sent öðrum kjörnum fulltrúa tölvupóst þar sem hann hefði lýst þeirri skoðun að nauðgun væri svo sem slæm en að nauðgarar bæru ekki verri menn fyrir að nauðga og blaðamaður síðan komist yfir þann tölvupóst, hefði þér þá ekki þótt eðlilegt að hann segði frá því? Hvað þá ef þeir hefðu verið að spjalla saman á einhverjum hálf opinberum, pólitískum póstlista?

Annars er þessi póstlisti ósköp aumingjalegur hlutur. Það er eitt að tala nafnlaust, enda veltur fæst sem maður segir um pólitík á trúverðugleika og hugmyndir nafnleysingja má gagnrýna eins og aðrar. Það er annað að viðra pólitískar skoðanir á einhverskonar vernduðum vettvangi þar sem fólki er hlíft við gagnrýni annarra en þeirra sem fallast á sömu grundvallarhugmyndafræði.

Til hvers er málfrelsið annars ef allir mega ekki fjalla gagnrýnið um allar hugmyndir?

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 15:21

7 identicon

Málfrelsið & tjáningarfrelsið, já er það ekki rétturinn til þess að hafa skoðun og koma henni á framfæri. Þrátt fyrir það að hún sé hugsanlega ekki rétt?

Má þá ekki segja að það að hafa fordóma sé hluti af því að hafa mál og tjáningarfrelsi? Rétturinn til að hafa rangt fyrir sér á sama hátt og rétturinn til að hafa rétt fyrir sér?

Málið er einfaldlega að það sem er kannski talið rétt í dag, endar svo með því að vera rangt á morgun!

Því er Þessi elskulega pólitíska rétthugsun sem öllu tröllríður þess valdandi að hamla þessu tjáningarfrelsi. Um leið og við erum búin að skapa umhverfi þar sem einstaklingar verða fyrir fordómum og úthrópunum fyrir það eitt að tjá eigin skoðanir, erum við komin á hála brautir. Tökum sem dæmi það sem oft er flokkað undir fordóma. Hvort sem það eru fordómar gagnvart mat, kynþáttum, kyni, uppruna, ætt eða hverju því sem mönnum dettur í hug. Af hverju má fólk ekki hafa fordóma gagnvart því sem því sýnist? Af hverju ávalt þessa tilfinningasemi gagnvart sumu en ekki öðru?

Persónulega vil ég fá að hafa fordóma mína í friði, fá að tjá mig um mín hugðarefni burtséð frá því hvort einhverjum finnist það vera fordómar eða ekki. Burtséð frá því þó einhver sé með ósammála.

Lykilatriðið er að halda skoðunum og tilfinningum aðskildum og rugla sjálfan sig ekki í ríminu á þeim grundvelli, líkt og svo mörgum hættir til að gera.

Ef við lítum á samfélög s.s. þýskaland nasismans, kommúnisma Sovétsins. Þá höfðu þessu samfélög á sínum tíma mjög svo  mikla pólitíska rétthugsun sem bældi tjáningu (að viðlögðum dauðarefsingum!). En þetta þótti á þeim tíma í þeim samfélögum vera rétt skoðun, aðrar skoðnir voru rangar. Líkt og við gerum í okkar samfélagi í dag (kannski ýkt dæmi og minni viðurlög en samt, sama prinsipp). Þá eru sumar skoðanir að því er virðist réttari en aðrar, að sumra mati. Og því er um ákveðna bælingu á tjáningarfrelsi að ræða þegar komið er í veg fyrir að fólk tjái sig, bælingu sem hamlar skoðana skipti í þjóðfélaginu.

Það er beinlínis hættulegt. Af hverju má ég ekki tala um það ef ég hef aðra skoðun en hin háværi pólitískt rétthugsandi minnihluti um konur, fatlaða, homma, lesbíur, bændur, alþingismenn eða yfir höfuð hvað sem er?

Annað eru óæskilegar hömlur á tjáningarfrelsi eða hvað?

Kv

Óskar

Óskar Nafnleyndar (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 16:26

8 identicon

Tjáningarfrelsi á að vera 100%, svo einfalt er það. Um leið og það eru gerðar undantekningar þá er stutt í næsta skref á skerðingu þess.  Í Sýrlandi, Íran og Kína þá loka yfirvöld á heimasíður eins og Youtube, vegna þess að þar er hægt að finna efni sem þeim finnst ósiðferðislegt eða ógnar þeirra pólitík. Hinsvegar eru þessir herramenn sem stjórna örugglega búnir að sannfæra sjálfa sig að þetta sé réttlætanlegt, að það þurfi að vernda múgann frá skítnum. Í dag er bannað að tala illa um homma eða svertingja, hvenær verður bannað að tala illa um feminista eða vinstrisinnaða? Ég er sjálfur samkynhneigður, hinsvegar gleður það hluta af mér þegar ég sé að fólk fær að skrifa blaðagreinar gegn kynhneigðinni (þó ég sé ósammála þeim efnislega).

Ef ég móðgast eitthvað þá er mér t.d. frjálst að rökræða á móti eða sniðganga fjölmiðilinn. En ég ætla ekki að biðja um ritskoðun í anda fasisma og þvinga alla fjölmiðla og einstaklinga til þess að beygja sig undir mín siðferðismörk. Ef mig grunar að nágranni minn sé barnaníðingur þá vil ég geta vakið athygli að því þó ég sé ekki 100% viss, ef mig grunar að stjórnmálamaður sé að stela peningum þá vil ég einnig geta vakið athygli að því án þess að vera viss. Ég vil geta tjáð mig um aðra án þess að vera í hættu á að vera kærður. "Rétturinn til að móðga" er svo satt, fólk getur annað hvort sniðgengið viðkomandi aðila/fjölmiðil sem móðgaði þá eða svarað fyrir sig. Það á ekki að vera hlutverk stjórnvalda að koma á útópiu þar sem allir eru vafðir í bómul. Stundum þarf maður að verja mannorð sitt, það er eðlilegur hluti af lífinu. 

Geiri (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 16:54

9 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Hans það er augljóst af skrifum þínum að þú hefur ekki skilið orð af því sem Sóley var að segja. Sóley, þrátt fyrir að vera opinber persónu, er líka persóna með réttindi í okkar samfélagi. Póstarnir sem einhver stal og setti út á netið eru partur af mjög svo áhugaverðri umræðu þar sem málin eru krufin frá mörgum hliðum. Skoðanirnar sem svo margir eru að eigna Sóley eru komnar úr svari Hirsi Ali sem svaraði spurningu frá Agli Helgasyni að fjölskylda hennar hefði ekki gert henni hræðilega hluti heldur hefðu þau verið að starfa innan samfélags þar sem þessir hlutir væru bundnir inn í menninguna - hræðilegir hlutir engu að síður - og ættu að sýna okkur hversu mikil áhrif menning og hefðir hafa á hegðun einstaklinga. Einstaklingurinn er ekki eyland og það er ekki einstaklingsbundið að konur eru umskornar í löndum eins og Sómalíu. Það er kerfisbundið. Einstaklingar fæðast inn í það kerfi og haga sér þannig. Við sjáum ýmsa svona kerfisbundna kúgun í öllum samfélögum. Hér áður fyrr voru fætur reyrðar í Kína - framkvæmt af einstaklingum en partur af kerfisbundinni limlestingu á konum - framkvæmt af góðu, vel meinandi fólki. Sama á við um umskurð. Hann er ekki framkvæmdur af illgjörnum mæðrum sem hata börnin sín heldur af mæðrum og konum ( stundum fyrirskipað af feðrum) sem alast inn í samfélag þar sem kúgun kvenna er slík að þetta er "menningin". Við hér á Vesturlöndum eigum afskaplega auðvelt með að úthrópa þetta - og skiljum flest að þetta er partur af samfélaginu - en það er samt hræsni að úthrópa þetta og vera síðan fylgjandi öllum þeim limlestingum sem konur á Vesturlöndum verða fyrir í nafni hins fúsa og frjálsa vilja ("fegrunaraðgerðir" þ.m.t. skapabarmaaðgerðir). 

Nauðgun er af sama meiði en samt ólík. Hún er ólögleg og viðurkennd sem ofbeldisverk. Hins vegar eru til ýmsar kenningar um nauðganir, þ.m.t. að það sé eitthvað í samfélagsgerðinni sem annaðhvort ýti undir eða dragi úr nauðgunum. Í samfélögum jafnréttis er minna um nauðganir en í samfélögum þar sem misrétti ríkir. Hér á Íslandi eru til tölur úr rannsóknum allt upp í 1 af hverjum 3 konum séu beittar kynferðisofbeldi. Þetta eru fáránlega háar tölur og tíðni nauðgana er einmitt tengd við samfélagsgerðina - og að hægt sé að draga úr nauðgunum með því að breyta samfélagsgerðinni.

En aftur að póstlistaumræðunni - það er einfaldlega dónaskapur og siðferðislega rangt að taka umræðu úr samhengi af lokuðum póstlista, sem er með skýrar reglur um að ekki sé leyfilegt að birta bréfin annarsstaðar, að gera slíkt. Auðvitað gerir fólk sér grein fyrir því að það er alls konar fólk á listanum sem getur brotið reglurnar - það breytir því hins vegar ekki að það er lágkúrulegt og plebbalegt að gera slíkt. Ef fjölmiðlafólk er áhugasamt um skoðanir Sóleyjar á þessum málum, þá er um að gera að boða hana í viðtal og spyrja hana út í þau.   

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 14.9.2007 kl. 19:14

10 identicon

Ég var ekki að líkja þessum skoðunum (umskurðar og nauðgana) saman í öðru en því að ummælin væru bæði fréttnæm. Það er mjög róttæk og óvenjuleg afstaða að ganga svona langt í því að hafna ábyrgð einstaklinga á athöfnum sínum og síðast þegar ég vissi var það fréttnæmt þegar stjórnmálamenn taka róttæka og óvenjulega afstöðu til mála.

Annars sé ég ekki nokkuð líkt með því að skera kynfæri af barni og að leyfa fullorðnu fólki að undirgangast fegrunaraðgerðir á eigin líkama kjósi það slíkt.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 10:05

11 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Nei það er munur á börnum og fullorðnum. Ef við hins vegar gefum okkur nákvæmlega sama menningarheim - sama þrýsting, sömu ástæður fyrir umskurði og þar fram eftir götum - með einni undantekningu sem væri að í staðinn fyrir að umskera börn þá myndu konur gangast undir umskurð um leið og þær kæmust á fullorðinaldur - þá er er nokkuð ljóst að margar þeirra myndu fara. Það er ekki frjálst val einstaklingsins heldur val sem afurð þess samfélags sem þær búa í. Rétt eins og "fegrunaraðgerðir" hér eru afurð okkar samfélags. Ein birtingarmynd kvennakúgugunar er þessi brjálaða pólitík sem umlykur líkama kvenna - bara á mismunandi hátt.

Baráttan gegn umskurði getur ekki falist í því að gera einstakar konur ábyrgar og hunsa samfélagsgerðina. Hvað t.d. með karlana sem ekki vilja giftast konum sem ekki hafa verið umskornar - í samfélagi þar sem afkoma kvennanna er jafnvel háð því að komast í "örugga höfn hjónabandsins", eins og það er kallað?

Baráttan þarf að felast í því að breyta samfélaginu - með fræðslu, með öðrum valkostum og þar fram eftir götum. Fá fólk til að rísa upp gegn kúguninni og gera umskurð eins fjarstæðukenndan og það þykir í dag að reyra fætur ungra stúlkubarna. 

Óskar: já því miður á karlremban upp á dekk hjá allt of mörgum. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 15.9.2007 kl. 11:39

12 identicon

Það væri þó skömminni skárra ef konur í þessum löndum hefðu eitthvað svigrúm til þess að taka ákvörðun um umskurð sjálfar þegar þær eru orðnar fullorðnar. En, eins og þú kemur sjálf inn á, væru þær langt því frá í sömu stöðu og vestræn kona sem tekur ákvörðun um að fara í fegrunaraðgerð. Kona a vesturlöndum er ekki háð hjónabandi um það að hafa einhverja lífsbjörg.

Það má svo sem tala um einhvern félagslegan þrýsting á vestrænu konuna en hún hefur meira en nóg svigrúm til þess að talist taka frjálsa ákvörðun. Þ.e nema þú skilgreinir frjálst val með þeim hætti að það felist í að gera nákvæmlega það sem þú myndir gera.

Hvað varðar umskurð stúlkubarna, sem Sóley fjallaði um, þá er það mjög róttæk og röng afstaða að kasta svo miklu af ábyrgðinni á samfélagið. Við erum ekki passív viðföng samfélagsins. Hvernig myndir þú þá útskýra súffagretturnar til dæmis? Eða nútímafemínismann, þess vegna? Ekki spratt þetta úr engu.

Ábyrgð foreldra Hirsi Ali er ekki sú sama og ef einhver vesturlandabúi tæki upp á því að misþyrma barni en auðvitað höfðu þau val og bera þar með ábyrgð. Það er til fólk í Sómalíu sem ekki umsker dætur sínar. Einstaklingar eru ekki fall af samfélaginu.

Þessar hugmyndir sem Sóley setti fram eru hættulegar vegna þess að þegar fólk hafnar ábyrgð fólks þá er það líka að hafna frelsi þeirra. Eða hvernig getur annað verið án hins? Og það er frétt ef að stjórnmálamaður gefur það í skyn að fólk sé lítið meira en viljalausar afurðir samfélagsins.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 13:03

13 identicon

Hans. Af gefnu tilefni, þá hafna ég ekki ábyrgð einstaklinganna. Mér finnst bara mikilvægt að setja hana í samhengi við aðstöðu þeirra í samfélaginu.

-Og hvað súffragetturnar varðar, nú eða okkur nútímafemínista, þá ætlarðu varla að halda því fram að það sé einfalt að standa í þeirra sporum, hvorki þá né nú? -Pétrar, Andrésar og Aglar hafa alltaf verið til í öllum samfélögum. Standa vörð um normin og gildin sem einhverra hluta vegna má hvorki gagnrýna né breyta.

Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 14:01

14 identicon

Af praktískum ástæðum er alltaf mikilvægt að skilja samfélagslegan bakgrunn athafna. Hann hefur líka eitthvað vægi þegar siðferðisdómar eru felldir. En fyrr má nú rota en dauðrota: 

Alveg er það fráleitt að ætla einhverjum að kúga aðra af mannvonsku einni saman (nema kannski heimsvaldarsinnunum sjálfum :o/ ). Þetta kom t.a.m. skýrt fram þegar Egill Helgason fullyrti fyrir fullum sal af fólki að fjölskylda Hirsi Ali hefði gert henni hræðilega hluti. Hún þvertók fyrir það, enda gerði fjölskylda hennar það sem hún taldi vera henni fyrir bestu. Vegna ríkjandi hugmyndafræði samfélags þeirra.

Annars sýnast mér þau gildi sem Pétrarnir, Andrésarnir og Aglarnir standa fyrir í þessu máli (aðallega heilbrigð skynsemi) líklegri til þess að leiða til framfara í samfélaginu en þessi ummæli sem jaðra við afstæðishyggju og/eða "félagslega nauðhyggju". Eins og þú veist vonandi leiða þessar hyggjur okkur bara út í buskan.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 15:41

15 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Hans - væri nú ágætt ef þú myndir túlka fyrir okkur orð Sóleyjar og hvað er svona slæmt við þessi orð. Í fyrstu setningunni segir þú að það sé mikilvægt að skilja samfélagsgerðina en svo segirðu að Sóley sé að dauðrota þegar hún talar um hugmyndafræði samfélags. Ég get ekki betur séð en að þið kumpánar séuð í herferð gegn Sóley - sem sést ágætlega á innlegginu þínu. 

Hvaða almennu skynsemi ertu síðan að tala um? Hefur lítið farið fyrir henni í umræðum þeirra sem þú nefnir um jafnréttismál og seint verða þeir kallaðir forkólfar í þeim málum. Nær væri að nefna argasta afturhald.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 15.9.2007 kl. 15:54

16 identicon

Tókstu ekki eftir því að ég gerði greinmun á því hvort að sjónarhornið væri praktískt eða siðferðilegt? Það er gagnlegt að reyna að finna tengsl á milli morðtíðni og félagslegra þátta en það er ekki sami hluturinn og að bera í bætifláka fyrir morðingja. Ég ítreka:

enda gerði fjölskylda hennar það sem hún taldi vera henni fyrir bestu. Vegna ríkjandi hugmyndafræði samfélags þeirra.

Almenn skynsemi ætti að segja okkur að gera mun á líkindum og nauðung. Fjölskylda Hirsi Ali tilheyrir hópi sem er líklegur til þess að gera einhvern hlut. það þýðir ekki að þau hafi verið knúin til þess. Hafi þau val þá bera þau ábyrgð. 

Hérna fyrir ofan segist hún ekki hafna ábyrgð einstaklinga en gerir litla grein fyrir því í hverju hún fellst. Það er erfitt að greina mikla einstaklingsábyrgð í þessu fræga innleggi hennar.

Segjum að við séum allir í herferð gegn Sóleyju, launaðir útsendarar karlrembufélagsins þess vegna. Hverju myndi það breyta? Hefði gagnrýnin eitthvað minna gildi fyrir það? Eins sé ég ekki hvað það sem Pétur, Egill og Andrés hafa áður sagt um jafnréttismál komi þessu ákveðna máli við.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 17:31

17 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Hans - ef þú lest innleggið frá Sóley að þá sérðu að þar er Sóley að vitna í svar Ayaan Hirsi Ali sjálfrar. Ef þú ert ekki í herferð gegn Sóley ættirðu nú að geta gert greinarmun á milli hennar orða og orða Hirsi Ali sjálfrar, er það ekki? Svona þegar reiðin ekki blindar...

Mæli svo með að þú kynnir þér betur það samfélag sem þú ert að tala um. Hér er smá af Wikipedia:

FGM provides a proof of virginity, a guarantee against premarital sex, which is a necessary condition for marriage in many FGM societies. Parents may then demand a high bridal price, and hence in an socio-economic context circumcised women have an advantage over uncircumcised. Additionally, in some of these societies, men are forbidden to marry uncircumcised women. Yet other FGM practicing societies like Mossi of Burkina Faso and the Ibos of Nigeria believe that babies die if they touch the clitoris during birth. Removal of the clitoris is believed to decrease the risk of female promiscuity, since it reduces or removes sexual pleasure. Some FGM societies believe that FGM enhances beauty. This stems from their belief that male foreskin is removed for aesthetic reasons, and that the clitoris thus should be removed for the same reason since it is the counterpart to the penis. FGM is believed to prolong sexual pleasure of men, because it is believed that the clitoris increases sexual stimulation. Circumcised women are considered of higher status than those who are not and are entitled to positions of religious, political and leadership nature.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 15.9.2007 kl. 17:46

18 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

ps. til viðbótar er ágætt að hafa í huga að talið er að 90% kvenna í Sómalíu séu umskornar. Hér er viðbótarlesning frá UNICEF yrir þá sem hafa áhuga.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 15.9.2007 kl. 17:55

19 identicon

Enn og aftur:

Alveg er það fráleitt að ætla einhverjum að kúga aðra af mannvonsku einni saman (nema kannski heimsvaldarsinnunum sjálfum :o/ ). Þetta kom t.a.m. skýrt fram þegar Egill Helgason fullyrti fyrir fullum sal af fólki að fjölskylda Hirsi Ali hefði gert henni hræðilega hluti. Hún þvertók fyrir það, enda gerði fjölskylda hennar það sem hún taldi vera henni fyrir bestu. Vegna ríkjandi hugmyndafræði samfélags þeirra

Sóley setur þarna fram sína eigin hugmynd og vitnar í orð Hirsi Ali, eða sína túlkun á þeim, máli sínu til stuðnings. Eða hvað lest þú úr undirstrikuðu orðunum?

Ég veit alveg hvað umskurður kvenna er, þekki það ágætlega hvers vegna hann er stundaður og hversu algengur hann er. Ég veit vel að umskurður er mjög slæmur hlutur.Ég get hinsvegar ómögulega skilið hvernig það rennir stoðum undir málflutning Sóleyjar, nema síður sé.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 19:45

20 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Jájá Hans. Auðvitað notar Sóley orð Hirsi Ali máli sínu til stuðnings. Þetta er úr umræðu sem snýst m.a. um Hirsi Ali. Sóley er að lýsa því yfir að hún líti á umskurð sem samfélagsmein en ekki mannvonsku. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvers vegna það er slæmt. Þess vegna lít ég á þessi blogginnlegg hjá Pétri og félögum sem aðför að Sóley - tilraun til að þagga niður í henni - kannski ekki með því að fá hana til að þegja - heldur með því að fá aðra til að hlusta ekki á það sem hún er að segja. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 15.9.2007 kl. 20:48

21 identicon

"Hans - ef þú lest innleggið frá Sóley að þá sérðu að þar er Sóley að vitna í svar Ayaan Hirsi Ali sjálfrar. Ef þú ert ekki í herferð gegn Sóley ættirðu nú að geta gert greinarmun á milli hennar orða og orða Hirsi Ali sjálfrar, er það ekki?"

Áðan var hún bara að vitna í Hirsi Ali, núna er hún að tjá skoðun...

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 23:01

22 Smámynd: Egill og Snorri Birgissynir Flóvenz

Það er ekki skrýtið að komi upp ágreiningur um þessi mál (s.s. ábyrgð einstaklinga vs. ábyrgð stjórnvalda) þar sem ég held að við eigum ekki auðvelt með að setja okkur í spor t.d. Sómalíubúa sem vill umskera dóttur sína. Við getum engan veginn gert okkur grein fyrir þrýstingi samfélagsins eða álíka hefðum sem (okkur þykir) gera fólki illt í slíkum málum. Við höfum ekki slíkar hefðir til að bera okkur saman við og því notum við það eina sem við þekkjum - almenna skynsemi. Auðvitað umskerum við ekki stúlkubörn því við vitum hvað það gerir þeim.

Slíkar hefðir eru einfaldlega ofar okkar skilnings.

Auðvitað bera einstaklingar ábyrgð á hegðun sinni, en málið er jú að þessi einstaklingar skilja málið ekki þannig að þeir séu að gera eitthvað rangt. Og afhverju ættu þeir að taka ábyrgð á einhverju sem þeim finnst vera rétt? Að því leytinu til er nauðsynlegt að stjórnvöld grípi í taumana og reyni að sporna við þessum hefðum og uppfræða fólk um alvarleika málsins.

Ábyrgðin liggur því hjá báðum.

-Ýrr Geirsdóttir

Egill og Snorri Birgissynir Flóvenz, 16.9.2007 kl. 11:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband