Sármóðguð!

Þrátt fyrir leit á vef Háskólans í Reykjavík tókst mér ekki að finna rannsóknina sem var kynnt á 19. júní og er að gera allt vitlaust. Ég ætla að tjá mig sem minnst um þá rannsókn þangað til ég er búin að skoða framkvæmdina og spurningar. Eina sem ég ætla að segja þangað til að er að það ætti ekki að koma neinum á óvart að konur taki þátt í að viðhalda kynjakerfinu. Það eru engin ný sannindi og allir sem hafa tekið einhverja kynjafræði ættu að vera með það á hreinu. 

Hins vegar er annað sem gerist þegar svona rannsókn er birt. Hið óskilgreinda batterí tekur við sér og nú má sjá frasann "konur eru konum verstar" út um allt. Ég hef oft bloggað um þennan frasa áður, enda fer hann rosalega mikið í taugarnar á mér. Ég hef reynt að útskýra þetta en fann nýjan vinkil á þessu áðan. Ég fór að skoða meiðyrðakaflann í hegningarlögum. Þessa klausu finnst mér fínt að draga fram í tilefni af "konur eru konum verstar" umræðunni:

233. gr. a. Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á [mann eða hóp manna]1) vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, [kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar]1) sæti sektum …2) eða fangelsi allt að 2 árum.

Þarna vantar auðvitað tilfinnanlega kynferði í upptalninguna... Ef kynferði væri með í þessar klausu held ég að það væri vel hægt að rökstyðja að frasinn "konur eru konum verstar" sé rógur og smánun gagnvart konum.  

Hér er önnur grein:

234. gr. Hver, sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, skal sæta sektum eða [fangelsi]1) allt að 1 ári.

Svo er líka þessi klausa:

Ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út, þá varðar það sektum eða [fangelsi]1) allt að 1 ári

Ef við ímyndum okkur nú í eitt augnablik að konur séu maður... Virðing kvenna bíður hnekki við að segja að þær séu öðrum konum verstar.  Ég er líka sármóðguð vegna þess að ég þekki svo margar stórkostlegar konur sem eru alltaf að gera stórkostlega hluti fyrir hver aðra.

Anyways... vona að fólk íhugi að með því að nota þennan frasa er verið að taka þátt í að viðhalda ríkjandi ástandi og kynjakerfinu - rétt eins og ef konum eru ráðlögð lægri laun...  og staðreyndin er bara sú að við tökum öll þátt á einhvern hátt. Síðan er bara spurning hvort við viljum leggja eitthvað á okkur til að breyta... Að henda út þessari ósönnu klisju um grimmd og illvirki kvenna gagnvart hvor annarri væri gott skref.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

konur eru bara menn, sumir viðhalda kynjamismunum og aðrir ekki. Rannsóknin hvítþvær alla nema "konur" af ábyrgðinni á því að hér sé enn svona fáránlega mikill launamunur. Mér finnst einmitt að þú eigir að gera mál úr þessu, það skiptir varla máli hvernig framkvæmdin er þegar framsetningin sýnir og sannar að þetta er mjög greinilega bull og sennilega pólitískur áróður. núna er ekki tíminn fyrir málefnanlegheit mín kæra.

halkatla, 22.6.2007 kl. 02:11

2 identicon

Ef kynferði væri með í þessar klausu held ég að það væri vel hægt að rökstyðja að frasinn "konur eru konum verstar" sé rógur og smánun gagnvart konum. 

Það er þetta held ég.. Það að taka eitthvað sem hefur sess og tilgang í samfélaginu og teygja á því þangað til það nær yfir tilfinningar ykkar femínistana, jafnvel þó svo merkingin sé löngu týnd, sem fólk kallar öfgar.

Í fyrsta lagi: er ástæða til að setja "konur", sem eru helmingur þjóðarinnar,  í hóp með  jaðarhópum í þjóðfélaginu og veita þeim sérstaka vernd gegn því að vera kallaðar nöfnum ? 

Í öðru lagi þá efast ég um að vandamálið hverfi ef fólk hættir að tala um það ?  Raunverulega vandamálið hérna er ekki orðatiltækið "konur eru konum verstar", heldur það að það sé satt.  Ekki rétt ?

Fransman (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 07:59

3 identicon

Katrín, ég er almennt mjög áhugalaus um blogheiminn, með einni undantekningu, það eru oft fjörugar og áhugaverðar umræður um jafnréttismál. Ég les gjarnan blog þitt, sökum þess að mér finnst það oft rísa yfir þennan skotgrafarhernað ,,feminista“ vs. ,,karlrembur“. Þessi færsla þín í dag finnst mér samt hreint ótrúleg og svo klárt merki um það að þröf er á öðrum röddum í jafnréttisbaráttuna.

Ég verð að taka undir með Manuel úr fyrri færslu þinni um hlýðni kvenna, um þann málflutning sem felst í því að stilla okkur upp í tvær fylkingar, annað hvort með stefnu ykkar feminsta, sem á köflum er mjög umdeild svo ekki sé meira sagt eða þá á móti. Ég sagði það í fyrri færslu á síðu þinni að Feminstafélagið hefur að vissu leyti tekið sér einkaleyfi á jafnréttisumræðunni, þegar ýmis mál eru rædd t.d. í fjömiðlum kemur Feministafélagið eða fulltrúar þess oft fram sem málsvari fólksins í jafnréttismálum. Mögulega er það vegna skorts á öðrum frambærilegum samtökum.

Það er enginn að tala um það að feministar eigi að þegja eða ,,hlýða karlaveldinu“ eða samtök ykkar að ,,rétta út hendina" til karlmanna frekar en þið viljið, alls ekki, það er gott að þið stuðið og vekjið fólk til umhugsunar. Það er hins vegar þannig að mjög stór hópur þjóðfélagsins er sammála þeim málsstað sem þið berjist fyrir en alls ekki aðferðum ykkar. Mér finnst endilega að þið eigið að hafa sem hæst, en jafnframt hvet ég annað það fólk sem les pistlana hér hjá þér og mörgum þeim öðrum áhugaverðum blogum um jafnrétti kynjanna, til þess að íhuga möguleikan á annars konar samtökum, Jafnréttissamtökum, málsvara fyrir þann hluta þjóðarinnar sem vill sjá jákvæðari baráttu beggja kynja í sameiningu í átt að jafnrétti. Altént að reyna að halda á lofti jákvæðari og uppbyggilegri umræðu um jafnréttismál. Ég held að það sé stór hópur.

nafe (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 08:41

4 identicon

Nafe. Ertu ekki í svolítilli mótsögn við sjálfan þig? Í einu orðinu talar þú um að femínistar eigi að stuða og hafa hátt en í öðru að aðferðir femínista séu ekki nógu jákvæðar.

 Hvernig fer þetta saman?

Guðrún (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 09:23

5 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

nafe sumir nenna bara ekki að hlusta. Femínistar hafa t.d. talað mikið um kynjakerfið og þátttöku beggja kynja í að viðhalda því. Við höfum sagt margsinnis að jafnréttismál sé alls ekki bara kvennamál heldur hagnist karlar heilmikið á jafnréttinu. Við höfum sagt að okkur þyki vænt um karlmenn og að við séum bara að fara fram á að kynin mætist á jafnréttisgrundvelli. 

Þetta er meira en margur þolir og að mínu mati þá eru þeir sem stilla þessu upp í 2 andstæðar fylkingar þeir sem sjá skrattann í hverju orði sem femínisti lætur út úr sér og eyðir öllum sínum kröftum í að reyna að fá okkur til að þegja eða vera stilltari í staðinn fyrir að berjast gegn misréttinu.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 22.6.2007 kl. 09:49

6 identicon

Sæl Guðrún, nei það finnst mér alls ekki ef þú rýnir í orð mín. Það er oft þröf á því að stuða fólk til þess að fá það til umhugsunar, en mér finnst málflutningur Feministafélagsins á köflum vera að verða úr sér genginn, hann byggir oft á tíðum einvörðungu á því að stuða. Mér finnst að það mætti breytast, vissulega með jákvæðari aðferðum. Það sem ég átti við með færslunni er, að ef Feministafélagið vill ekki gera samtök sín aðgengilegir karlmönnum, ungum sérstaklega eða færa sig meira í átt að því sem ég kýs að kalla raunverulegri Jafnréttisstefnu, þá er það gott og vel. Þetta eru frjáls samtök sem geta markað þá stefnu sem félagsmenn vilja. Á þeim forsendum hvet ég þær til að halda áfram á nákvæmlega þeirri braut sem þær eru.

Ég vil hins vegar hvetja aðra til umhugsunar. Feministafélagið á ekki þann einkarétt sem mér finnst það oft taka sér í þessari umræðu og hvatningu minni beindi ég því til áhugafólks um jafnrétti, sem telur sig ekki eiga samleið með félaginu, samanber sjálfan mig, en telur að jöfn kjör kynjanna eigi að vera sjálfsögð. Mér finnst bara tími til kominn að það sé til annar og stærri málsvari fyrir jafnréttið, samtök eða hópur fólks sem færir þessa umræðu upp á jákvæðara plan, hópur fólks sem feministar, ungir karlmenn og aðrir geta verið í. Það er í því sem þessi sundurgreining mín liggur. Ég vona að þetta skýri færslu mína eitthvað.

nafe (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 09:56

7 identicon

Samkvæmt hagstofunni eru 151.096 konur og 156.576 karlar á Íslandi (miðast við árið 2006). Hvernig stendur á því að það geti verið "karlaveldi" hér þegar 49,1094% af fólk hér eru konur? Ráða karlar því við erum 0,89056% fleiri? Ættu konur ef allar stæðu saman að ná að vera með nákvæmlega sömu réttindi og karlar? Eða eru svona margar konur sem vilja að halda stöðunni einsog hún er? Eða er 'vondi' karlmaðurinn að eyða konur til að fylgja þeim? Ég myndi skilja þetta allt ef konur væru í miklu minnihluta (20-25%), það væri þetta reikningsdæmi barnaleikur einn. Afhverju eru ekki fleiri konur sem kjósa konur og vinna hjá fyrirtækum sem konur eiga og stunda viðskipti við fleiri konur og svo framvegis... Afhverju er ekki til Baugur í eigu kvenna? Eða banki rekinn af konu sem konur eru með viðskipti hjá? Nú er ekkert sem bannar það, allavega svo að mér vitandi. Ætti ekki að það ekki að vera einfaldara því konur eru nánast 50%, í stað þess að vera 20%?

Geiri.is (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 10:29

8 identicon

Afsakið, karlmenn eru víst 1,7812% fleiri. En það bítar litlu.

Geiri.is (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 10:37

9 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Geiri ef þú myndir leggja það á þig að lesa það sem ég og fleiri höfum skrifað um kynjakerfið, m.a. í nýlegum færslum þá myndir þú kannski átta þig á þessu... 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 22.6.2007 kl. 10:37

10 identicon

Sæl Katrín. Í fyrsta lagi bið ég þig velvirðingar á að samsama þig Feminstafélaginu, en í mínum huga eruð þið mjög tengd. Ég get ekki annað en haldið við þá skoðun mína að röksemdarfærslur ykkar séu að mörgu leyti úr sér gengnar. Þrátt fyrir að vera einhver ákveðnasti talsmaður jafnréttis þá er Feministafélagið enginn staður fyrir mig, því að í allri framsetningu málflutnings ykkar, á heimasíðu félagsins, skipun í hópa og ráð þess, á bloggsíðum félagsmanna og miklu af því sem frá félaginu stafar verður ekki annað lesið út en ,,óbilgjörn kvennréttindabarátta, oft umfram og á tillits til réttinda annarra“. Jafnframt þá mætir félagið karlmönnum oft með yfirlæti, segið að svona eigi jafnréttisfélög að vera og að vera jafnréttissinni sé að vera feministi. Þetta má jafnframt lesa úr færslu þinni hér áðan, ,,að þykja vænt um karlmenn“, frábært, en ég hef litla þröf fyrir þá væntumþykju, ég vil sjá jafna stöðu kynjanna. Hvað þá að við karlmenn getum hagnast á jafnrétti eða að taka þátt í Karlahópi Feministafélagsins, mér finnst í raun ótrúlegt að hann skuli vera til.

Ég held að feminstar vanmeti karlmenn stórlega og geri þeim auk þess upp skoðanir, því í flestum tilvikum eru þetta feður, sem blessunarlega eiga jafnt drengi sem stúlkur og vilja sjá veg þeirra sem mestan í framtíðinni og reyna að stilla saman strengina með mökum sínum heima fyrir og við vinnu til þess að dæmið gangi upp, líkt og leikmenn í tvíliðaleik. Jafnrétti er ekki til að hagnast á, það eru sjálfsögð mannréttindi, sem konur og karlar eiga að njóta jafnt og á þeim forsendum eigum við að mætast.

Ég get ekki ímyndað mér að nokkur vilji að feministar þegi, en ég held að þið kallið fram mikið af þeim neikvæðu viðbrögðum sem þið fáið, vegna þess hve neikvæður málflutningur ykkar er oft á tíðum, miklu frekar en að þið séuð að stinga á kýli í samfélaginu sem fólk vill ekki að þið komið nálægt. Ef þú stingur í einhvern, þá er hæpið að hans fyrstu viðbrögð séu að þakka þér fyrir. Ég veit það hins vegar að það er stór hópur fólks, sem vill kryfja þessi mál til mergjar, með upplýstri og jákvæðri umræðu og vinna að raunverulegri lausn þessara mála. Að því leyti held ég að þið vinnið gegn málstaðnum og tel þröf á öðrum skoðunum.

nafe (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 10:49

11 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Sæll nafe. Mér finnst fínt að ræða þessi mál og gott að fá punkta en flestu sem þú segir er ég ósammála - og ég sé líka hjá þér misskilning varðandi stefnu og skoðanir Femínistafélagsins (sem er reyndar ekki bara ein skoðun enda margar mismunandi skoðanir innan félagsins sem utan). 

Við í Femínistafélaginu höldum því ekki fram að félagið sé hin eina rétta uppskrift að félagasamtökum sem berjast fyrir jafnrétti kynjanna. Þvert á móti hafa mörg okkar einmitt talað um að þörf sé á mörgum mismunandi félögum vegna þess að það er þörf á mismunandi nálgunarleiðum. Innan félagsins reynum við líka að koma til móts við mismunandi skoðanir t.d. með hópaskiptingu þannig að fólk geti valið sér hópa eftir áhugasviði. Fólk getur farið í hóp til að berjast gegn ofbeldi - annan til að berjast fyrir launajafnrétti o.s.frv. 

Karlahópurinn er til að skoða jafnréttismál út frá karlmönnum. Hópurinn er ekki ætlaður sem "geymsla" fyrir karlmenn þar sem öllum karlmönnum er hrúgað - en ég fæ á tilfinninguna að þú lítir þannig á hópinn. Nafnið kemur út frá málefninu en hópurinn, rétt eins og allir aðrir hópar í félaginu, er opinn báðum kynjum.

Varðandi neikvæðan málflutning þá finnst mér við bæða tala um jákvæða hluti og neikvæða. 19. júní ætti t.d. að vera enn í fersku minni en sá dagur fókusar einmitt á það jákvæða. Vissir hlutir sem við tölum um ná hins vegar betur eyrum fólks en aðrir. Þannir er það bara. Þegar við sendum frá okkur stuðningsyfirlýsingu við konur í setuverkfalli á dvalar- og hjúkrunarheimilum þá slepptu margir fjölmiðlar að birta hana.Svoleiðis hefur farið fyrir fleiri stuðningsyfirlýsingum frá okkur. Og jafnvel þó þær séu birtar þá fara þær fyrir ofan garð og neðan hjá sumum því sumir vilja einungis sjá og heyra það sem þeim finnst vera neikvæður málflutningur af okkar hálfu - eða málefni sem hentar til að geta sett okkur inn í eitthvað box. Ágætt dæmi um það er klámumræðan - sem allir taka eftir - en halda stundum að við tölum ekki um neitt annað þó að fullt af aðgerðum sé í gangi. Nefni sem dæmi stjórnmálaskólann sem haldinn var á síðasta ári. Kvennafrídagurinn 2005, sem við vorum að sjálfsögðu með í og margt, margt fleira.

En mér líst vel á að þú stofnir nýtt félag með eintómum jákvæðum málflutningi. Ég mun pottþétt fylgjast með því... en ég spái því jafnframt að fljótlega rekir þú þig á marga veggi og komist að raun um að það sem þér finnst jákvætt og málefnaleg framsetning finnst öðrum vera væl og tuð þar sem það gengur út á að breyta ríkjandi ástandi... 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 22.6.2007 kl. 11:05

12 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

ps. nafe - máli mínu til stuðnings bendi ég á kommentaleysi við hamingjuóskafærsluna mína fyrir ofan þessa

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 22.6.2007 kl. 11:11

13 identicon

Sæl Katrín. Takk fyrir svörin og skal ég reyna að hafa þetta styttra en hið fyrra, enda eins og sést af tímafærslunum ætti ég að vera að gera eitthvað allt annað. Vissulega miðast skoðanir mína á Feministafélaginu á því hvernig það kemur fram í fjölmiðlum og fjölmiðlaumræðunni og oft á tíðum er það eini málsvarinn. Það endurómar enn í höfuðinu á mér slagorð úr kosningunum, sem snerti jafnrétti kynjanna, þar sem við kjósendur vorum spurðir hvort við værum feministar, eins og það sé hið eina rétta svar. Altént hefur félagið eða félagsmenn oft komið fram sem málsvarar jafnréttis undanfarin ár. Hvort sem um er að kenna framtaksleysi fréttamanna eða annarra áhugahópa um jafnrétti skal ósagt látið. Þetta er samt það sem mér finnst augljóst, málflutningur ykkar felur í sér stranga kvennréttindabaráttu en í umræðunni þá er félagið tekið sem eini vænlegi viðmælandinn um jafnrétti.

Auðvitað ert þú sem fyrrverandi talskona Feministafélagsins sjóuð í viðureign við fjölmiðla, ,,sex og ofbeldi selur”. Ég er ekki heldur svo naive að halda að svar við ójafnri stöðu kynjanna sé stofnun samtaka jafnréttissinna, þar sem öll dýrin eru vinir og saman muni þau leysa úr þessum vanda fyrirhafnarlaust. Mér finnst komment þitt í þá veru svolítið ómálefnanlegt. Ég vil sjá fjölbreyttari, jákvæðari og uppbyggilegri umræðu, því mér fundust þessi mál vera í allt öðrum og að mínu mati betri farvegi fyrir kannski 5 árum síðan. Það er sú afstaða og nálgun sem ég að kalla eftir til að rétta þessa stöðu, hvort sem það er í formi samtaka eða almennt að fólk tjái sig meira á þeim uppbyggilegu nótum. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að jafnréttismál, umfram önnur þjóðfélagsmál verða ekki ,,leyst” með þessum hætti vegna stöðugrar þróunar, en ég held að við séum öll sammála um að betur má ef duga skal.

Mér finnst gott að þið stuðið fólk og vekjið athygli á ykkar sjónarmiðum en haldið ykkur við það og komið þið hreint fram, undir merkjum kvennréttindabaráttu, því þið eru sannanlega ekki málsvari fyrir mig, sem tel mig jafnréttissinna. Það eru margir sem lesa bloggið þitt og ég vona sannanlega að fréttamenn og þeir sem standa fyrir umræðum á opinberum vettvangi grafi aðeins dýpra og fái fram fleiri sjónarmið og afstöður.

Góða helgi og Áfram Ísland.

nafe (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 12:59

14 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Ég er nú reyndar á því að fjölmiðlar tali við fjölmarga um jafnréttismál kynjanna - langt í frá bara við Femínistafélagið. Kvenréttindafélagið er oft spurt álits, þær hjá Stígamótum, Kvennaathvarfinu, UNIFEM, kynjafræðin upp í HÍ, Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum, Jafnréttisstofa, stjórnmálamenn, Félag ábyrgra feðra og margir fleiri. 

Ég er sammála þér í því að umræðan hefur breyst ansi mikið á undanförnum 5 árum og hún er mun virkari. Ég held að tilkoma FÍ eigi þó nokkurn hlut í því. Hins vegar hvað varðar stöðuna sem slíka að þá er talað um það í alþjóðasamhengi að við erum á leið aftur á bak en ekki áfram og baráttan í dag sé að stórum hluta til varnarbarátta þar sem standa þarf vörð um þau réttindi sem hafa áunnist. Aukning á mansali er t.d. klárlega vísbending um bakslag.   

Að lokum - mér finnst pínkulítið skrýtið hvað fólk er með mikið óþol gagnvart orðinu femínisti. Þetta er orðið sem er notað yfir jafnrétti kynjanna í dag - nær yfir bæði karla og konur og stendur fyrir réttindum beggja kynja. Þú ert harðákveðinn í því að FÍ sé ekki á þinni línu í baráttunni - væri fróðlegt að fá að heyra hvaða mál það eru sem þér finnst að taka þurfi á?

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 22.6.2007 kl. 13:15

15 identicon

Sæl aftur. Ég ætlaði sannanlega ekki að verja stórum hluta dagsins í þetta. Nei það er rétt hjá þér, það koma fram fleiri aðilar en einvörðungu FÍ. Ef þú skoðar samt þann lista sem þú setur fram, þá er það mín skoðun í það minnsta, að FÍ gefi mörgum hinna tóninn eða þeir taki upp málflutning þeirra t.d. hvað snertir VG í kosningabaráttunni í vor. Einnig eru þetta mikið til kvennréttindafélög eða félög um hagsmuni þeirra.

Eins og ég sagði að framan þá held ég að við séum að mörgu leyti sammála, markmiðið er hið sama, það er frekar aðferðinar, framkoman og tillögur að úrræðum sem greinir á um. Ég kann ekki formlega skilgreiningu á hugtakinu Feminist en það er náskylt enska orðinu Feminine. Skoðað í ljósi þess að ég tel baráttu FÍ snúast meira um kvennréttindabaráttu en annað, þá finnst mér sem ástæður mínar fyrir því að fella mig ekki við þetta hugtak eiga að liggja í augum uppi. Ég átta mig á því að við erum svolítið farin að tala hér í hring, en ég tel að það sem standi FÍ til dæmis verulega fyrir þrifum er sú staðreynd að félagið nær ekki til ungra karlmanna, heldur þvert á móti ýtir þeim frá sér, m.a. með því að vilja gera okkur að feministum. Það væri gaman að útlista ástæður fyrir bættu jafnrétti í mun lengra máli, en á föstudagseftirmiðdegi er það ekki hægt. Grunnástæða mín fyrir ágreiningi við stefnu FÍ er þessi ,,confrontation” aðferð félagsins, vegna skorts á betra orði á íslensku, kannski ,,stál í stál”. Ástæður fyrir hinum óútskýrða launamun tel ég að liggi svo djúpt í þjóðarvitundinni að hann verður ekki leystur nema af þjóðinni allri, ekki með því að annar helmingurinn neyði hinn til að dansa eftir sínu eyra.

Enn og aftur góða helgi.

nafe (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 13:47

16 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Góða helgi... og nú ætla ég líka að drífa mig í önnur verkefni - en langar samt að setja inn smá um orðið femínisti.

Orðið á uppruna sinn að rekja til lok nítjándu aldarinnar og var þá tengt baráttu kvenna fyrir kosningaréttinum. Það er því hægt að segja sem svo að baráttan sé tengd inn á kvenréttindabaráttu að því leytinu til. Hins vegar hafa önnur orð líka vakið upp jafnmikla andstöðu án þess að vera tengd beinlínis við kvenréttindi í orðinu sjálfu - dæmi súffragettur og rauðsokkur (sem upphaflega voru rauðsokkar - en bæði virðast notuð í dag).

Bríet Bjarnhéðinsdóttir talaði á sínum tíma um andstöðu ungra karlmanna gagnvart kosningarétti kvenna. Árið 2003 var gerð viðhorfskönnun um jafnrétti á meðal fólks. Niðurstaðan var sú að fólk á aldrinum 18 - 30 ára var neikvæðara út í jafnrétti en aldurshópurinn fyrir ofan. Ég er því á því að það sé mjög mikil einföldun að ætla að FÍ sé ábyrgt fyrir andstöðu ungra karlmanna gagnvart jafnrétti kynjanna - eða orðinu.  Stuttu eftir að FÍ var stofnað fór hópur ungra karlmanna í herferð gegn femínistum á netinu. Þeir voru með mjög neikvæð viðhorf, bjuggu til lógo með mynd af karli að henda einhverju bleiku í ruslafötu og stimpluðu þetta "feministi free". Þangað er kannski hægt að rekja slatta af andstöðunni. Þessum ungu drengjum líkaði ekki barátta femínista gegn klámi á þeirra vefjum - enda skilgreina þeir það sem sinn rétt að mega gera við konur það sem þeir vilja óháð skaðlegum áhrifum þess á konur. 

Varðandi launajafnrétti þá þætti mér vænt um að þú rökstyddir betur hvernig FÍ hefur verið "stál í stál" í þeirri baráttu? Held einmitt að við höfum verið með ótrúlega dipló leiðir, sérstaklega í þeim málaflokki.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 22.6.2007 kl. 14:07

17 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

ps. gleymdi einu. Skilgreiningin á femínista er: Femínisti er karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því.

Ein spurning að lokum - hefurðu sömu skoðun á orðinu ráðherra fyrir konur og á orðinu femínisti fyrir karl?

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 22.6.2007 kl. 14:08

18 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Guð hvað mig dauðlangar að heyra skilgreiningu nafe á orðinu og hugtakinu feministi.

þetta er átakanleg athugasemd eftir alla þá umræðu og útskýringar sem þú hefur verið svo ötul við að setja fram á mjög diplómatískan háttt hér á síðunni þinni Kata mín.

"ég tel að það sem standi FÍ til dæmis verulega fyrir þrifum er sú staðreynd að félagið nær ekki til ungra karlmanna, heldur þvert á móti ýtir þeim frá sér, m.a. með því að vilja gera okkur að feministum".

Hvernig getur nokkrum manni dottið til hugar að taka þátt í jafnréttisstarfi án þess að vera feministi? Af hverju eru karlmenn (sumir) svona skíthræddir við þetta orð? 

Andrea J. Ólafsdóttir, 22.6.2007 kl. 17:06

19 identicon

Í dag er sá dagur sem ég heyrði eða sá í fyrsta skipti feminsta viðurkenna það að konur eiga stóran þátt í að viðhalda "kynjakerfinu". 

Feminsmi er ekki jafnréttisstefna, það liggur meira að segja í orðinu, eða FEMIN. 

Ég er hlintur jafnrétti en ekki því sem feminstar segja.  Mér finnst t.d. ekkert jafnrétti í kynjakvótum eða krefjast þess að það séu jafn margar konur og karlar í ákveðnum stöðum.  Mér finnst t.d. ekki rétt að horfa á kynin og mismun þeirra sömu augum og feminstar. Ég get ekki verið sammála því að vera róttækur skili mestum árangri. Ég get ekki verið sammála feministum um alveg ótrúlega marga hluti þrátt fyrir að ég sé mjög fylgjandi jafnrétti. 

Feminismi að mínu mati stuðlar að því að skipta fólki í tvær fylkingar, þrátt fyrir að tilganguinnn akkúrat öfugur.  Feminmi styrkir þá hugmyndir fólks að það sé til eitthvað sem sé karlmennskuímynd og kvennímynd. Feminismi gerir konur að fórnarlömbum samfélagsins og jaðarhóp. Feminsmi er sjónarhorn á heiminn sem er algjört jaðarsjónarhorn, og þegar konur komast að því að fullt að því sem þið segið sé bull þá missa þær trú á feministum og því sem þær eru að segja.  Er að vinna með mörgum konum og ég hef heyrt margar þeirra tala illa um feminsmafélag Íslands og aðferðum þeirra.  

Þegar fólk eins og Andrea telur sig, hugmyndir sínar og málstað svo ósnertanlegan að það megi ekki taka neitt til endurskoðunar þá kemur þetta út sem versti hroki sem stykir ekki trú fólks á feminstum. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 18:18

20 identicon

Líka það sjónarhorn feminista að vera annaðhvort með eða á móti er heimska. Þetta er svarthvítur hugsunarháttur en rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk sem hugsi "svart hvítt" sé með lægri greindarvísitölu og minni félagslegan þroska en fólk sem er "dipló" í hugsun.

Bjöggi (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 18:21

21 identicon

Setningin "Konur eru konum verstar" fer í taugarnar á mér enda finnst mér það vera ódýr tugga sem fólk grípur til til þess að réttlæta misréttið í samfélaginu og þagga niður í mótmælum. Það er líka svo skrítið að fólk sem segir þetta bætir því gjarnan við að konur eigi bara að taka sig saman og berjast fyrir rétti sínum, en mótmælir um leið femínistum. Hvað eru femínistar að gera annað en akkúrat það?

Hins vegar hef ég fyrir löngu séð það að það gerskortir upp á samstöðu kvenna á milli og ég held satt að segja að ég þekki jafn margar konur  og karla sem verja karlaveldið grimmilega. Til dæmis með því að rakka niður konur með skoðanir, kalla hverja aðra "druslur" vegna fjölda rekkjunauta (ég gersamlega hata að heyra kynsystur mínar kalla hverja aðra druslur) og réttlæta almennt misrétti kynjanna. Því miður. Sökina á karlaveldinu eiga ekki bara karlar og ekki bara konur heldur ýmsir rótgrónir þættir í samfélaginu.  Mikið væri það mikið framfaraskref ef samstaða milli kvenna yrði snöggtum meiri heldur en hún er núna, og þá er ég að tala á almennum nótum. Og því miður kemur það mér ekki á óvart að konur jafnt og karlar geri ráð fyrir því að konur þiggi lægri laun fyrir sömu vinnu.

Fyrir hann Bjögga hérna að ofan má ég annars til með að benda á að ég er femínisti og þoli heldur ekki þetta "annað hvort eru með okkur eða á móti" viðhorf. Ég er heldur ekkert sammála öllum femínistum í ýmsum málum, fyrr má nú aldeilis fyrr vera, við erum eins misjöfn og við erum mörg og það held ég að allir femínistar viti og skilji. 

hee (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 18:59

22 identicon

Í tilefni að síðustu færslu þinni Katrín og spurningu, þá eins og sést kannski af textanum vafðist mér svolítið tunga um tönn eða mús um lyklaborð. Það sem ég var að reyna að koma að, er þessi uppstilling kvenna vs karla í umræðunni. Það var það sem ég átti við með ,,confrontation”. Ég tel að ójafnvægið í launum og stöðu kynjanna eigi sér djúpar rætur í öllu samfélaginu og því séu þetta breytingar sem vinna þarf að saman til að raunveruleg lausn náist. Vona að þetta sé skýrara.

Hvað hugtakið ,,feminista” snertir þá hræðist ég það engan veginn, hér er aftur snert þessu yfirlæti í garð karlmanna. Þetta er bara ekki hugtak sem ég tel geta átt við um mig og þær skoðanir sem ég hef á jafnrétti kynjanna. Ég sé auk þess enga annmarka á því að hafa ákveðnar skoðanir á jafnrétti eða taka þátt í jafnréttisstarfi án þess að vera feministi.

Um önnur komment sem fram komu þar á eftir hef ég sem fæst orð, sökum þess að þetta er dæmi um þann skotgrafnarhernað sem ég var að tala um. Að mínu mati er hann óþarfur, að sjálfsögðu eigum við og megum hafa mismunandi skoðanir og jafnréttismál þurfa ávallt að vera til umfjöllunar, en þetta er eitt dæmi þessarar neikvæðu umræðu sem ég var að tala um. Það er ekki annað en lýjandi að fylgjast með þeim og taka þátt í og er málstaðnum ekki til framdráttar. Ég tel að við séum sammála um markmiðin, gætum nýtt orkuna betur og lyft umræðunum hærra.

nafe (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 22:45

23 Smámynd: Hilmar

Ég ætla bara að nota tækifærið meðan þetta er ennþá löglegt:

Konur eru konum verstar.

Ég er það lífsreyndur að ég sé það alveg gerast að þetta verði ólöglegt. Það er bara eitt sem vefst fyrir mér, þegar þetta verður orðið ólöglegt, verða bæði karlar OG konur saksóttar fyrir brot? 

Ég hef verið velta fyrir mér öðrum málsháttum, t.d.: lítil typpi lengjast mest. Fer óskaplega í taugarnar á mér, og finnst þessi málsháttur gera lítið úr körlum með stór typpi. Er ekki hægt að setja klásúlu í tvöhundruðþrítugustuogþriðju að bannað sé að gera lítið úr stærð typpa?

Hvar er allt fólkið sem gerði lítið úr þörf VG fyrir netlöggu? 

Hilmar, 23.6.2007 kl. 03:42

24 identicon

Ímyndum okkur að konur séu menn, ertu frá þér? Hvar myndi slík vitleysa enda. Eigum við þá að ímynda okkur að karlar séu menn líka? Eða börn? Tré, fuglar og skordýr?

Þá þyrftum við að fara að búa til bullhugtök á borð við kvenn-menn, karl-menn, barn-menn, fugl-menn o.s.frv.

... og mann-réttindi þyrftu þá að koma í stað karlréttinda og kvennréttinda, mannréttindadagur yrði haldinn hátíðlegur í stað karl- og kvenréttindadagsins, kvenna- og karlahlaupunum yrði aflýst.

Óþolandi þegar fólk reynir að steypa kynjunum saman, eins og þau séu nægilega lík til þess að hægt sé að tala um þau sem eina heild.

Þetta er auðvitað tóm steypa.

Kári Geir (IP-tala skráð) 23.6.2007 kl. 19:18

25 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

nafe - þú átt það sameiginlegt með femínistum að vera á því að kynjamisréttið eigi sér djúpstæðar rætur í samfélaginu. Þær verða ekki upprættar nema fólk leggi eitthvað á sig til þess. 

Varðandi að vera svona confrontational að þá er búið að leiða ansi margar leiðir í jafnréttisbaráttunni hér á landi. Þessar leiðir hafa verið mjög friðsamlegar en hreint ótrúlegt hvað minnstu smáatriði eru stundum tekin og snúið á versta veg. Það gengur ekki að karlmenn setji þá kröfur að konur verði undantekningalaust að orða hlutina á yfirmáta mjúkan og sætan hátt til að karlar láti sig jafnréttismálin varða - en noti það að öðrum kosti sem ástæðu til að gefa skít í jafnréttismálin. Málið er nefnilega að það virðist skipta afskaplega litlu máli hvort eitthvað sé sagt ljúft eða miðlungs... viðbrögðin tilbaka verða oft harkaleg - og oft mun harkalegri en það sem femínistar létu frá sér. 

Femínistar tala oft um kynjakerfið og sameiginlega ábyrgð kynjanna á að viðhalda því eða brjóta það upp. Vinsælustu "femínistarnir" virðast hins vegar vera þeir sem segja að það sé ekkert misrétti á landinu.... Það útskýrir kannski hvers vegan við hinir femínistarnir erum ekkert svo hrifin af uppástungum um að við þurfum að vera blíðmálgar út í eitt. Hljómar nefnilega eins og krafa um að við segjum að allt sé í himnalagi og enginn þurfi að gera neitt, sérstaklega ekki karlmenn. 

Annars væri gaman að fá ykkar útgáfu af eftirfarandi - sett fram eins og ég sé stöðuna en þið gætuð viljað gauka að mér mjúkri útgáfu sem segir það sama en án þess að styggja jafnréttissinnaða karlmenn:

Í aldanna rás hefur Ísland verið karlaveldi. Karlar fóru hér með öll völd á öldum áður og konur höfðu nánast engin réttindi. Þær máttu ekki kjósa, ekki mennta sig, ekki eiga eignir né vera fjárhagslega sjálfsstæðar. Laun kvenna voru mun lægri en laun karla og framlag þeirra til samfélagins ekki metið nema sem brot af framlagi karla. Smátt og smátt hefur þetta breyst undanfarin 100 ár eða svo. Konur hafa öðlast heilmikil lagaleg réttindi til jafns á við karlmenn. Hins vegar er Ísland enn karlaveldi þar sem karlmenn fara með meirihluta valdsins á öllum opinberum sviðum. Ef litið er til hornsteina lýðræðis okkar, löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvalds eru karlar í meirihluta. Karlar eru líka í meirihluta í fjármálafyrirtækjum, viðskiptalífinu almennt, verkalýðsfélögum og svo mætti lengi áfram telja. Þetta þýðir að sjálfsögðu ekki að allir karlar hafi völd en þetta þýðir að kynin sitja ekki við sama borð þegar kemur að því að móta samfélagið okkar. Ísland er karlaveldi einfaldlega vegna þess að menning og sjónarmið karla eru allsráðandi. Kynjakerfið okkar endurspeglar þetta og bæði kyn taka þátt í að viðhalda því. Kynjakerfið birtist okkur enn þann dag í dag á þann hátt að kynin eru alin upp öðruvísi - bæði til að hafa önnur áhugamál, hegða sér á mismunandi hátt, hafa annað gildismat. Þegar út á vinnumarkað er komið hafa karlar greiðari aðgang að völdum, auðveldari framgang í starfi og eru frekar kosnir í pólitíkinni. Konur enn þann dag í dag uppi með megnið af ólaunuðum störfum samfélagsins og kynferðisofbeldi gagnvart konum er mjög útbreitt og alvarlegt vandamál. Kynin fá enn ekki greidd sömu laun fyrir sömu störf og hefðbundin kvennastörf eru metin til lægri launa en hefðbundin karlastörf. Yfirráð karla sjást líka í birtingarmyndum kynjanna í fjölmiðlum. Það sem karlar gera þykir mun fréttnæmara en það sem konur gera og endurspeglast það í ca 25 vs 75% hlutfalli kynjanna í fréttum - og endalausu framboði af myndum af konum í hlutverki kynlífshjálpartækja fyrir karla en ekki vice versa. Kannanir hafa leitt í ljós að karlar eru neikvæðari út í jafnréttismál en konur. Atvinnurekendur neikvæðari en launþegar og ungt fólk neikvæðara en kynslóðin á undan þeim. 

+++

Kári Geir. Ef þú lest það sem ég skrifaði þá skilurðu kannski í hvaða merkingu ég sagði að við gætum ímyndað okkur að KONUR væru MAÐUR... eins og stendur í lögunum - 1 maður en ekki hópur. Passaðu þig annars á að vera kurteis annars gætu manuel og nafe tekið þig í nefið

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 23.6.2007 kl. 23:30

26 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Eins og ég sagði áður þá er ekki sérstök karladeild innan félagsins. Það er karlahópur - en sá hópur er opinn bæði körlum og konum, rétt eins og aðrir hópar félagsins. Sá hópur hins vegar skoðar málefni sem snúa að körlum og jafnrétti. Karlahópurinn hefur verið mest áberandi fyrir Nei átakið sitt - karlmenn segja nei við nauðgunum - en hópurinn hefur líka tekið fyrir fjölmörg önnur mál eins og karlmennskuímyndir, föðurhlutverkið, barnalög o.fl.

Eins og staðan er í okkar samfélagi þá skiptir kyn ansi miklu máli og hefur víðtæk áhrif á allt okkar líf. Þess vegna er eðlilegt að skoða kynjakerfið út frá mismunandi breytum - m.a. kyni. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 24.6.2007 kl. 13:43

27 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Karlarnir geta verið með í öllum hópum. Það er enginn hópur í félaginu sem útilokar annað kynið.

Ráðið er opið bæði konum og körlum. Þó eru mun fleiri konur í félaginu og mun fleiri sem eru tilbúnar til að leiða hópana - og mun fleiri konur sem eru femínistar á Íslandi en karlar. Það hefur verið karlmaður í ráðinu frá upphafi en aldrei fleiri en einn í einu.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 24.6.2007 kl. 15:19

28 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Aðalfundur félagsins er einu sinni á ári og þá er kosið í ráðið. Karlmaður hefur aldrei boðið sig fram sem talsmaður félagsins þannig að ekki hefur reynt á hvort hann myndi hljóta kosningu. Því miður eru alltof fáir karlkyns femínistar á Íslandi og við erum alltaf að reyna að fjölga þeim... rétt eins og við reynum líka að fjölga kvenkyns femínistum. Það hefur ekki verið gerð könnun á hversu margir femínistar eru á Íslandi svo ég viti til. Félagið hefur ekki staðið að slíku. Um 10% stofnfélaga félagsins eru karlmenn. 

Hér er stefna félagsins og lög ef þú vilt kynna þér þetta betur. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 24.6.2007 kl. 16:13

29 identicon

Hvað finndist feminstum um það að það yrðu sett lög um kynjakvóta í feminstafélaginu ? Haldið þið að það standi eitthvað í veginum að það séu jafn margir karlar og konur í feminstafélaginu eða telja feminstar karlmenn ekki "jafn hæfa" til að sinna jafnréttismálum ?

Miðað við málfuttning feminsta í sambandi við stjórnir í fyritækum eða á alþingi þá gæti maður ályktað að feminstar telji karla ekki jafnhæfa og konur í þessum málum.

Og líka miðað við málflutting feminsta þá ættu að vera jafn margir karlar sem leiða hópa í feminstafélaginu og konur, þrátt fyrir að aðsókn eða áhugi karla á þessum málum sé miklu minni en hjá konum. Kynin eiga jú að vera jafnhæf

Bjöggi (IP-tala skráð) 24.6.2007 kl. 16:30

30 identicon

Nei datt þetta bara svona í hug þar sem að feminstar krefjast jafn kynjahlutfalls í stjórnunarstöðum. Afhverju taka feminstar á skarið og sýna að þetta sé hægt á þeim sviðum sem enn hafa kynjaímyndina á sér eins og viðskipti eða jafnréttismál. Þá væru feminstar fyrst búina að sýna fólki að það sé hægt að brjóta upp kynjaímyndir.

Bjöggi (IP-tala skráð) 24.6.2007 kl. 16:34

31 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Þætti gaman að sjá hvaða heimildir þú hefur fyrir því allir femínistar eða Femínistafélagið sé hlynnt kynjakvótum í stjórnir fyrirtækja.... Sumir eiga það nefnilega til að gaspra án þess að kynna sér hlutina

Femínistafélagið hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort mæla eigi með þessari leið eða ekki. Innan félagsins eru skiptar skoðanir um kynjakvótana. Þýðir því lítið fyrir þig að koma með svona athugasemdir...

Ef þú vilt hins vegar setja undir sama hatt að karlar ættu að vera í sama hlutfalli í ráði FÍ þegar þeir eru einungis 10% félagsmanna og það að allir stjórnarmenn séu karlar (eða kannski í mesta lagi ein kona) í verkalýðsfélagi þar sem 70% félagsmanna eru konur þá... ættirðu kannski að prófa að reikna dæmið upp á nýtt... 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 24.6.2007 kl. 16:34

32 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Skh kannski fylgist þú bara ekki nógu vel með

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 24.6.2007 kl. 17:09

33 identicon

Ég sagði að feminstar krefðust jafns kynjahlutfalls í stjórnunarstöðum og þá á ég við hjá hinu opinbera og hjá fyrirtækum, málfuttingur ykkar hefur gert öllum það ljóst. Sagði aldrei að  allir femisntar væru hlintir lögum um kynjakvóta þótt að margar séu það, spurði bara hvað ykkur findist um það ? 

Svo er ég að setja þesa hluti undir sama hatt af því að mér hefur fundist á málfuttningi feminista og þar á meðal þér að þeir setji alla undir sama hatt þegar kemur að jöfnu hlutfalli kynjana í stjórnunarstöðum. 

Svo vill ég árétta að feminstar sýndu mikið frumkvæði með því að hafa jöfn kynjahlutföll í félaginu, þá á ég við að félagsmenn og stjórnendur séu jafnt karlar og konur eða 50/50 hlutföll. Sama hvernig sem þið farið að því. Þá myndu feminstar sýna að þetta er hægt, að fá bæði kynin til að taka þátt í eitthverju sem hefur ákveðna kynjaímynd á sér eins og viðskipti eða jafnréttismál.  

Bjöggi (IP-tala skráð) 24.6.2007 kl. 18:34

34 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Bjöggi í lýðræðisríki ætti að vera sjálfsagt að bæði kyn komi að völdum og ákvarðanatöku. Væri annars gaman að heyra þína skilgreiningu á karlaveldi... í mínum huga er skilgreiningin nefnilega sú að karlmenn fari með meirihluta valdsins - eins og staðan er nákvæmlega hér. 

skh. Ef þú ert að fylgjast með að þá ættirðu að vita að hugmyndin að feðraorlofinu og aukinni þátttöku feðra í umönnun og uppeldi er frá kvenréttindahreyfingunni komin - nánar tiltekið frá rauðsokkunum. Femínistar hafa stutt jafna þátttöku foreldra í uppeldi og umönnun þannig að ég veit nú ekki alveg hvaðan þú hefur þínar heimildir...

Legg annars til að þú gangir í félagið og beitir þér fyrir þessum málum. Það gerist ekkert af sjálfu sér og það þýðir ekkert að sitja út í horni og benda á aðra ef maður gerir ekkert sjálfur... 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 24.6.2007 kl. 19:36

35 identicon

Ríkir þá kvennaríki í feminstafélaginu ? Auðvitað eiga bæði kynin að koma að ákvörðunartöku, líka í feminstafélaginu. En það sem ég er aðalega að hugsa um er að það eru ástæður fyrir misjöfnum hlutföllum kynja á hinum og þessum ábyrgðarstöðum.  

Hlutfall kynjana í stjórnunarstöðum ætti að miðast við ásókn þeirra í þessi störf, ekki miðað við hlutföll kynja í félaginu og sama ætti að gilda um alþingi. Feminstar ættu frekar að leita orsaka þess afhverju konur leita ekki meira í þessi störf í stað þess að gagnrína karlkynsstjórnendur eins og þeir séu þeir sem haldi kynjakerfinu við líði.

Reyndar er ekki til neitt sem heitir karlaveldi í minni orðabók, ég vill kalla þetta kynjakerfi. Það er það kerfi sem er við líði í þjóðfélaginu núna. Konur hafa jöfn völd í þjóðfélaginu en virðast kjósa( t.d. í kosningum) að láta það í hendur karlmanna. Þessvegna á ég bágt með að segja að það sé karlaveldi við líði. 

Ég er samt ekki að segja að það megi ekki brjóta upp kynjakerfið þar sem að ég er oftast hlyntur breytingum þar sem ég tel flestar breytingar af hinu góða.   

Bjöggi (IP-tala skráð) 24.6.2007 kl. 21:12

36 identicon

Það á lika við um karla að kjósa völd í hendurnar á karlmönnum en þar er hluti af kynjakerfinu, ekki karlaveldinu. Ég hef t.d engin völd framyfir konur sem ég þekki þrátt fyrir að vera karlmaður. Atkvæði mitt gildir  t.d. alveg jafn mikið og atkvæði konu í kosningum. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 24.6.2007 kl. 21:19

37 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Bjöggi - kynjafræðin ganga akkúrat út á að skoða kynjakerfið og skoða þá margvíslegu þætti sem vinna saman og stuðla að því að við hjökkum alltaf í sömu hjólförunum.

Ég og margar fleiri sem stöndum í þessari baráttu höfum margoft bent á að það þarf að byrja strax frá fæðingu. Það þarf ekki annað en að fletta einum leikfangabæklingi til að sjá að samfélagið er staðráðið í því að ala kynin upp við sitthvort hlutskiptið - en ætla síðan eingöngu öðru kyninu völdin þegar komið er á fullorðinsaldur. Stelpurnar eiga að vera hlýðnar, sætar og góðar - í mömmuhlutverkinu. skh verður örugglega glaður að heyra að ég nota þessa leikfangabæklinga oft í fræðslu og bendi á það að strákar fá ekki sama undirbúning fyrir föðurhlutverkið og það er ekki tengt þeirra sjálfsmynd á sama hátt og hjá stelpum. Hvoru tveggja er sjaldséð í leikfangabæklingum - strákar að leika sér með dúkkur eða strákadúkkur. Merkilegt nokk þá fer nokkuð stór hópur fólks á límingunum ef minnst er á að leyfa börnunum að velja sér leikföng sjálf eftir áhugasviðum - fyrir utan að auðvitað ætti að undirbúa bæði kyn fyrir foreldrahlutverkið. 

Svo finnst mér þú full neikvæður skh. Finnst þú ættir að kanna betur um hvað þú ert að tala áður en þú kemur með svona leiðindakjaftæði. Skal lofa þér því að þú finnur hvergi nokkurs staðar í neinum fræðum eins eindreginn stuðning við að báðir foreldrar sinni umönnun og uppeldi barna sinna eins og í kynjafræðunum.

Varðandi hvort að þetta sé allt undir okkur sjálfum komið... þá er málið flóknara en svo. Ef fólk væri metið á einstaklingsgrundvelli óháð kyni væri þetta satt. Við búum hins vegar í samfélagi sem metur fólk á grundvelli kyns og margra annarra þátta sem koma hæfni ekki beinlínis við - eins og hverjir voru saman í skóla. Leiðtogahlutverkið hefur mjög sterka karlkyns ímynd, sem rekja má langt aftur í aldir. Það er því varla sanngjarnt að ala stelpur upp til að vera prúðar og stilltar prinsessur og segja þeim síðan þegar þær verða fullorðnar að það sé þeim að kenna að strákurinn sem er alls ekkert hæfari en þær sé frekar kosinn eða komist frekar áfram - og segja þeim síðan að þetta sé allt undir einstaklingnum komið... Ekki mjög ábyrgt uppeldi það... ekki heldur sérstaklega ábyrgt að segja að konur eigi að verða eins og karlar til að komast að völdum.... Sanngjarnast að mínu mati er að viðurkenna að reynsluheimur karla og kvenna er mismunandi og að það felist auðlind í báðum kynjum - og eina vitið sé að bæði kyn sitji jafnt að völdum.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 25.6.2007 kl. 00:54

38 Smámynd: Sigurður Jökulsson

Það er svo skemmtileg þversögn að gagnrýna kynjahlutverkin villivekk.. og halda kvennadaginn bleikann. Það kann að eiga að vera ádeila á litinn eða eitthvað þannig, en það er eingöngu staðfesting fyrir litla krakka að konur eiga bara að vera í bleiku, svo einfalt er það. Þá verða sjálfkrafa öll bleik leikföng bara fyrir stelpur... ekkert hugsað út í það?

Það eitt að halda kvennadaginn bleikann, viðheldur kynjaímyndinni: Stelpur eru fyrir allt bleikt. Og í leikjum barna, þá, skiljanlega, spila bara stelpur mömmó (pabbó er ekkert voða algengt). Eru prinsessur almennt ekki aldar upp til að stjórna? verða flestar þeirra ekki drottningar þegar þær eldast?

Svo er spurningin, ætti þá að klæða stráka í kjóla?-nei það er bölvuð þvæla, það er bara fyrir stelpur.

Sigurður Jökulsson, 25.6.2007 kl. 08:55

39 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

skh það er ekki málefnið sem ég stimpla sem leiðindakjaftæði heldur athugasemdir eins og þessar: "Ertu kannski á því að uppeldishlutverkið eigi enn að vera hlutverk kvenna? 

Þú telur þetta kannski ekki falla undir þessar stefnur feminsta félagsins."

Finnst þetta óþarfi. Varðandi rök þín um að allt sé undir einstaklingnum komið þá er ég sammála því að breytingar komist ekki á nema að barist sé fyrir því. Hins vegar er ég engan veginn sammála því að staða kynjanna í samfélaginu sé ójöfn vegna þess að karlar leggi meira á sig en konur eða séu eitthvað hæfari en konur. Kyn skiptir máli - eins og þú segist sjálfur hafa reynslu af varðandi forræði og það er ekkert öðruvísi að segja við þig að þetta sé bara allt undir þér sjálfum komið eða segja við konur að þetta sé bara undir þeim sjálfum komið hvort þær komist á þing eða í stjórnunarstöður. Þetta eru bara mismunandi birtingarmyndir á hvar kynin eiga greiðari aðgang að vissum hlutverkum.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 25.6.2007 kl. 15:11

40 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Ég hef nú ekki kíkt á lögin nýlega en skilst að búið sé að binda sameiginlegt forræði í lög. Ætla þó ekki að fullyrða um það og hef ekki tíma til að fara að leita að lögunum akkúrat í augnablikinu en það væri gott ef þú settir krækjur á þau svo hægt sé að skoða.

Varðandi foreldrahlutverkið þá er það stór partur af því að uppræta staðalímyndir og hefðbundin kynhlutverk að fjalla um og stuðla að jafnari skiptingu í umönnun, uppeldi og heimilisstörfum. Hélt þetta hefði komið alveg skýrt fram. Fyrir utan ýmsa almenna umræðu og fræðslu þar sem tekið er á þessum málum, þá hefur karlahópurinn okkar gefið út bækling þar sem feðrahlutverkið kemur mikið við sögu, haldið opna fundi þar sem bæði feðrahlutverkið og t.d. barnalög eru skoðuð og rædd.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 25.6.2007 kl. 16:27

41 identicon

S.s. konur sem nota frasan "Konur eru konum verstar" eru sem samt konum verstar? Hehe. ;-)

Geiri.is (IP-tala skráð) 28.6.2007 kl. 10:47

42 identicon

Sigurður Jökulsson, kjánaprik, málið með bleika deginum er einmitt að það eigi allt fólk, karlkyns og kvenkyns, að fara í bleikt EKKI bara stelpur!

Silja (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 16:08

43 identicon

ps - fæstar prinsessur verða drottningar og ég lék mér alltaf í pabbaleik, aldrei mömmuleik.

Silja (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 16:11

44 Smámynd: Sigurður Jökulsson

Ég er bara að segja, Silja, að kvennadagurinn sé haldinn bleikur. Það er það sem að krakkarnir sjá... ef að bleikt er í lagi þann dag fyrir bæði kyn, þá virkar það eins og að strákar sé að fagna kvennadeginum með því að klæðast stelpulitnum.

Fæstir prinsar verða líka kóngar. Uppeldið er samt eftir því að möguleikinn sé til staðar (ef dauðsföll ber að garði, eða eitthvað í þá áttina). Nú er ég alveg týndur í krakkaleikjunum. Hver er munurinn á mömmó og pabbó? Man bara að stelpurnum fannst voða gaman að þykjast vera mömmur og ala upp einhverja krakka. 

Sigurður Jökulsson, 29.6.2007 kl. 17:57

45 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Skoðaði þetta á sínum tíma - þegar þú settir linkinn hingað inn. Þetta er hins vegar of flókið og margþætti til að það dugi að renna yfir þetta. Krefst meiri yfirlegu og umræðna við þá sem til þekkja - hreinlega til að skilja sumt af þessu. Sé samt ekki betur heldur en að sameiginleg forsjá sé orðin að meginreglu - sem ég er reyndar ekki hrifin af. Sameiginleg forsjá krefst góðs samkomulags á milli foreldra og þar sem slíkt er til staðar eru foreldrar fullfærir um að komast að þessu samkomulagi saman - sem mér skilst að sé yfirleitt staðan. Sameiginleg forsjá sem meginregla verður hins vegar slæm þegar um ofbeldissambönd er að ræða og það er eitthvað sem taka ætti tillit til.

En það væri vel þegið ef þú gæfir þér tíma til að útskýra lagastöðuna betur. Þú hefur legið yfir þessu, er það ekki?

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 3.7.2007 kl. 11:18

46 identicon

Þegar ég var lítill var mér sagt að bleikur væri litur fyrir homma og kerlingar en blár væri strákalitur. Þannig að það er í lagi að skipta fólki upp í hópa eftir kyni og í framhaldi koma fram með fullyrðingar eins og konur eru betri uppalendur og karlar hafa vit á viðskiptum.  Alltaf verið á móti þessum bleika lit þar sem mér finnst hann halda við kynjaímynd, eða vera hluti af kynjakerfinu þar sem fólk og hæfileikar þess eru flokkaðir eftir kyni.  

Svo þetta með forræðið. Það er vitleys að það sé bara í ofbeldissamböndum sem konum er dæmt forræði.  Konur nota ásakanir um ofbeldi í miklum mæli til að hnekkja á fyrrverandi sambýlis eða eiginmönnum. Þá þurfa þær ekki að kæra þá eða þeir sakfelldir en hafa samt orðið fyrir því að vera sakaðir um ofbeldi og þeim dæmt í óhag þess vegna. Systir gerði þetta en hún lærði þetta af vinkonum sínum og svo hafa nokkrar vinkonur mínar gert þetta líka.  

Mér finnst ósanngjarnt að umræðan hafi orðið þess valdandi að konur hafi meira vald en karlar í þessum málum þar sem þær geta sakað karla um eitthvað og öllum finnst það trúlegt þar sem að sú ímynd(kynjaímynd) sem fólk hefur segir því að þetta sé svona. Konur eru jú alltaf fórnarlömbin eins og feminstar vilja halda fram. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 3.7.2007 kl. 18:30

47 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Bjöggi af hverju er þér bara illa við bleika litinn en ekki þann bláa?

Varðandi ofbeldið þá eru upplognar kærur mjög sjaldgæfar.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 3.7.2007 kl. 23:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband