Misskilin minnimáttarkennd

Átti fína helgi - nokkuð normal helgi fyrir utan að hér var hvorki tekið til né horft á klám! En það var bakað, eldað, passað, horft á sjónvarpið, sett upp útiljós og tekið á móti gestum!

Ungur Sjálfstæðismaður setti inn tengil á grein eftir unga Sjálfsstæðiskonu í kommentakerfið. Ég auðvitað kíkti á greinina en get ekki sagt að ég hafi verið neitt sérstaklega hrifin. Fyrir það fyrsta þá segir ungi Sjálfsstæðismaðurinn að greinin sé um okkur í Femínistafélaginu. Greinin hins vegar fjallar um femínískar jafnaðarkonur - sem eru yndislegar, æðislegar og allt þar á milli, en FÍ er hins vegar þverpólitískt félag með konur (og körlum) úr öllum flokkum innanborðs. Meira að segja líka með konur í öllum flokkum - eða allavega í mörgum flokkum... En það er nú önnur saga. Í greininni fjallar unga konan um minnimáttarkennd... Svo ég vitni beint í greinina:

Jafnrétti er fyrst og fremst hugarfarsbreyting. Þess vegna ættu femínískar jafnaðarkonur að hefja málefnalega jafnréttisbaráttu sína á því að losa sig við þá minnimáttarkennd sem einkennir málflutning þeirra. Konur verða hafa trú á sjálfum sér svo aðrir geti einnig haft trú á þeim. Eins og staðan er í dag þá viðurkenna femínískar jafnaðarkonur fyrir sjálfum sér að það sé veikleiki að vera kona með því að halda því fram að samfélagið eigi að koma öðruvísi fram við þær en karla.

Miðað við stöðuna í dag - þar sem karlar eru með meirihlutavald í öllum þrem hornsteinum lýðræðisisn - löggjafarvaldinu, framkvæmdarvaldinu og dómsvaldinu - og karlar fara líka með meirihluta peningavaldsins (nema ráðstöfunartekjur heimilisins) og eru með yfirgnæfandi meirihlutavald í viðskiptalífinu... miðað við þessa stöðu finnst mér svolítið fyndið að kalla það minnimáttarkennd að ætla að konur eigi að hafa meira af þessum völdum. Hefði frekar kallað það minnimáttarkennd að sætta sig við að karlar fari með öll þessi völd... ef þið skiljið hvað ég meina. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Alveg er ég sammála þér, er það ekki líka minnimáttarkennd karla að vilja ekki mæta okkur á jafnréttisgrundvelli án þessarar forgjafar sem þeir hafa.  Er það ekki niðurlæging fyrir unga menn að fá stöður og betri laun upp í hendurnar án þess að vinna til þeirra.  

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 26.2.2007 kl. 16:37

2 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Frjálshyggjufélagið er vissulega nýbúið að kúka á sig með því að kalla þennan vibba sem var að finna í tengslum við klámstefnuna "erótík". Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar stóð sig í stykkinu og greip til aðgerða Ég er því afskaplega viðkvæm fyrir gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn í augnablikinu... en mín sýn á frjálshyggjuna er sú að hún á allt sitt undir því að boða ábyrgð og sterka siðferðiskennd samhliða frelsinu... annað verður henni að falli...

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 26.2.2007 kl. 21:46

3 identicon

Sammála með frjálshyggjumenn. Ég áfellist þá ekki fyrir að vera últra hægrisinnaðir og vilja einkavæða allt og allt, þar sem það eru einfaldlega ákveðin sjónarmið. Að öðru leyti gæti ég alveg tekið undir með þeim í ýmsu, þar sem ég tel sjálfa mig vera að mörgu leyti mjög frjálslynda, til dæmis varðandi frjálst fræði innflytjenda, jafnrétti kynþátta, kynja og kynhneigðar -en vandamálið er bara það að íslenskir frjálshyggjumenn velja sér svo hræðilega ósympatísk málefni.

 Hvers vegna í ósköpunum skyldu þeir þrástagast á blaðri um frelsi fólks til að kaupa vændi og fíkniefni og dreifa klámi? það finnst mér óskiljanlegt.

hee (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 09:54

4 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Það er vegna þess að þeir eru að verja sinn rétt til að kaupa konur en ekki rétt kvenna... sem sést glögglega á hvað allar jafnréttisáherslur og -aðgerðir eru fjarverandi í þeirra málflutningi. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 27.2.2007 kl. 10:06

5 Smámynd: Ólafur Örn Nielsen

,,Það er vegna þess að þeir eru að verja sinn rétt til að kaupa konur en ekki rétt kvenna... sem sést glögglega á hvað allar jafnréttisáherslur og -aðgerðir eru fjarverandi í þeirra málflutningi."

Finnst þér allt í lagi að fullyrða svona um frjálshyggjufólk? Þú segir einnig :"þeir eru að verja". Það eru nú líka til frjálshyggjukonur sem tala fyrir lögleiðingu vændis.

Rök frjálshyggjunar fyrir lögleiðingu vændis eru ekki eingöngu að þar sé bara um viðskipti tveggja aðila að ræða heldur einnig þau að ef vændi er löglegt er mun auðveldara að fylgjast með því. Vændiskonur sem starfa ólöglega hafa engan/minni rétt gagnvart dómstólum þegar þær eru sviknar í viðskiptum og/eða brotið er á þeim á annan hátt. Þannig er t.a.m. með miklu markvissari hætti hægt að útrýma mansali.

Frjálshyggjan hefur einnig skýr markmið hvað jafnrétti varðar og leyfi ég mér hér að benda á stefnu Frjálshyggjufélagsins svo það er nokkuð fyndið að þú skulir kasta því fram hér að "allar jafnréttisáherslur og -aðgerðir eru fjarrverandi í þeirra málflutningi".

Já það er allt í lagi að kynna sér málstað sem þú ætlar að gagnrýna!

Ólafur Örn Nielsen, 27.2.2007 kl. 16:34

6 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Auðvitað á ekki að setja allt frjálsyggjufólk undir sama hatt... John Stuart Mill var til dæmis mjög flottur frjálshyggjumaður - en því miður hefur sá boðskapur sem hann var með glutrast niður í skilaboðum nútímafrjálshyggju. Það má til dæmis benda á að jafnrétti er talin stafa mest hætta af þrennu í heiminum: bókstafstrú, stíðsrekstri og frjálshyggju... Til að frjálshyggjan virki þarf að fara samhliða mjög sterkur boðskapur um ábyrgð og siðferði. Því miður hefur frjálshyggjan í dag skilgreint sig einna helst sem "allt sem er ekki ólöglegt það má". Eins og ég hef margoft tilgreint þá er þetta hugsunarháttur sem myndi ganga upp í lögregluríki þar sem fólk þarf ekki að hugsa sjálft. Því meira frelsi - því meiri ábyrgð - og því meira veltur á einstaklingum að hafa skoðun á því sem er í gangi í kringum sig - líka því sem er löglegt - en kannski siðlaust. Því mikilvægara einnig að fólk hafi frelsi til að hafna því sem það ekki vill og að hvetja fólk til að breyta í samræmi við gildismat. 

Frjálshyggjufélagið er að mínu mati afar grunnhyggið í sinni frjálshyggju. Þau eru t.a.m. með þessa "snilld" í stefnuskránni sinni:

"Nektardans fyrir framan áhorfendur skaðar ekki þriðja aðila. Nektardansmeyjum finnst slíkur dans ekki bara skaðlaus, heldur góð tekjulind. Áhorfendum finnst hann gjarnan skemmtilegur. Þessar skoðanir ber að umbera."

Þarna er kynjaskiptingin augljós - konurnar eru í nektardansinum og karlinn er áhorfandi - sem finnt þetta gjarnan skemmtilegt. Einnig er fullyrt að þetta skaði ekki þriðja aðila. Þvílík yfirlýsingagleði og þvert á alla þekkingu. Þarna er algjörlega litið fram hjá öllu sem er skaðlegt í kringum kynlífsiðnaðinn - öll hjónaböndin sem hafa farið í vaskinn, traust á milli hjóna sem er brotið, traust á milli barna og feðra sem er brotið, fjárhag fjölskyldunnar sem er ráðstafað í nektardansinn en ekki nauðsynjar heimilisins og svo mætti lengi telja. Einnig hafa fjölmargar konur skaðast af að vera í nektardansinum - og svo má ekki gleyma tengslunum við klám, vændi og mansal. Þessi skilgreining um þriðja aðila sem ekki skaðast er því gjörsamlega út í hróa... og einmitt fínn vitnisburður um hvernig Frjálshyggjufélagið hefur tekið að sér að standa vörð um "réttindi" karla að líkömum kvenna en ekki kynfrelsi kvenna. 

Jafnréttisstefnan sem þú vísar í er annars frekar skrýtin. Gengur aðallega út á að telja upp aðferðir sem ekki á að beita í jafnréttisbaráttunni og tala gegn fæðingarorlofi. Ekkert bitastætt í henni um hvernig á að ná jafnrétti en afhjúpar mikinn þekkingarskort á stöðu jafnréttis. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 27.2.2007 kl. 17:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband