Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Söguleg stund

Ok - ég ætla ekki að halda niður í mér andanum þangað til það verður að veruleika en ef úr rætist að Jóhanna Sigurðardóttir verði forsætisráðherra og jafnt kynjahlutfall verði í ríkisstjórn þá er það ansi stór söguleg stund.

Það yrði í fyrsta skipti kona sem forsætisráðherra.

Það yrði í fyrsta skipti sem samkynhneigð manneskja væri forsætisráðherra (allavega sem er opinberlega samkynhneigð - getur vel verið að einhver áður hafi ekki þorað að segja frá...)

Það yrði í fyrsta skipti sem jafnt kynjahlutfall yrði á ráðherrum í ríkisstjórn.

Þrjár flugur í einu höggi!!! Þetta er söguleg stund og ánægjulegt að fá góðar fréttir í kreppunni. :) 


Allt að gerast

Fréttatilkynning - stofnfundur nýrrar stjórnmálahreyfingar kvenna

Neyðarstjórn kvenna er stofnuð vegna þeirrar efnahagskreppu sem við stöndum nú frammi fyrir. Afleiðingar kreppunnar munu ráðast að miklu leyti af því hvernig við tökumst á við hana. Jafnrétti, virðing og velferð eru mikilvæg gildi í enduruppbyggingu samfélagsins. Neyðarstjórnin stefnir að markvissri uppbyggingu samfélags þar sem borin er virðing fyrir mannréttindum, lífinu, náttúrunni, umhverfinu og jafnrétti. Neyðarstjórn kvenna mun vinna að þessum markmiðum með öllum tiltækum ráðum, þar á meðal með kvennaframboði í komandi alþingiskosningum.

Á fundinum verður Neyðarstjórn kvenna formlega stofnuð og kosið verður í stjórn hennar, lagður verður fram nýr samfélagssáttmáli ásamt kröfugerð.

Sérstakir gestir fundarinns verða;
Hólmfríður Garðarsdóttir, dósent í spænsku við Háskóla Íslands, mun flytja erindi en Hólmfríður hefur m.a. kynnt sér efnahagskreppuna í Argentínu og aðgerðir argentínskra kvenna.
Ellen Kristjánsdóttir söngkona mun syngja nokkur lög.
Kristín Ómarsdóttir skáldkona mun flytja ljóð fyrir stofnfundargesti
Allar nánari upplýsingar liggja fyrir hjá:
Bryndísi Bjarnarson, s. 891 8206 og
Ragnhildi Sigurðardóttur, s. 847 7164


Neyðarstjórnin byggir á grasrót sem spratt upp í október 2008 en nú eru um 2200 konur skráðar í hópinn hér á Fésbók. Hreyfingin er opinn öllum konum sem vilja leggja sitt af mörkum til að byggja upp samfélag þar sem jafnræði kvenna og karla ríkir á öllum sviðum.
Þegar hafa verið haldnir nokkrir fundir og hafa þeir verið fjölsóttir og þátttakendur skipt hundruðum. Við finnum að mikil þörf er fyrir slíka hreyfingu og afar brýnt að rödd kvenna sé ekki kæfð í því mikla þjóðfélagsumróti sem nú er ríkjandi. Það er markmið okkar að styðja konur til áhrifa m.a. í stjórnmálum og atvinnulífi. Verið er að vinna samfélagssáttmála samtakanna en hann verður eins konar stefnuskrá þeirra. Hreyfingin er þverpólitísk og hyggst taka þátt í því mikla uppbyggingarstarfi sem framundan er með jafnréttishugsjónina að leiðarljósi og mun því bjóða fram til Alþingis í komandi kosningum.

Tunglið er úr osti

Ég vona að einhver taki saman lista yfir öll þau gullkorn sem fallið hafa af vörum ráðamanna síðustu mánuðina. Hér er eitt skondið. Björgvin segir sem sagt að þeim hafi tekist að forða þjóðargjaldþroti. Hann er líka bjartsýnn á framhaldið. Hið rétta er að ráðamönnum þjóðarinnar tókst ekki að forða okkur frá þjóðargjaldþroti. Þeim tókst akkúrat hitt - að koma okkur á hausinn með dyggri aðstoð útrásarvíkinganna. Jújú, tæknilega séð erum við ekki gjaldþrota. Tæknilega. Skuldsetningin er hins vegar slík að auðvitað erum við gjaldþrota. Við fáum bara brjálæðislega mikið af lánum sem kemur í hlut komandi kynslóða að borga ásamt því sem við munum sjá stórfelldan niðurskurð í heilbrigðis-, mennta- og velferðakerfum okkar. Ráðamenn ættu því að spara að slá sér á brjóst fyrir þann hetjuskap að hafa forðað okkur frá þjóðargjaldþroti. Það er álíka satt og að tunglið sé úr osti.

Þetta er besti kosturinn

Vona að valdhafar fari að átta sig á að nú vantar okkur fólk sem er ekki í sérhagsmunagæslu - nýtt fólk með þekkingu. Neyðarstjórn kvenna er auðvitað löngu búin að stinga upp á besta kostinum. Held hlutaðeigandi aðilar hafi bara ekki séð þetta þegar ég setti þetta fyrst inn:

Neyðarstjórn kvenna skorar á forseta, ríkisstjórn og Alþingi Íslendinga að skipa utanþingsstjórn yfir landinu hið fyrsta. Ráðamenn þjóðarinnar verða að axla ábyrgð á því efnahagslega hruni sem hér hefur orðið með því að setja stjórn ríkisins í hendurnar á færustu sérfræðingum sem völ er á fram að kosningum. Nauðsynlegt er að tryggja þrískiptingu valdsins og utanþingsstjórn sem skipuð er fagfólki og sérfræðingum sem ekki sitja á þingi er kjörin leið til þess. Til að tryggja lýðræðislegt fyrirkomulag er jafnframt nauðsynlegt að utanþingsstjórn sé skipuð jafnmörgum konum og körlum.


Sjálftöku hinna ríku verður að linna

Sjálftöku hinna ríku verður að linna. Það er gjörsamlega óverjandi að gera starfslokasamning við mann sem hefur brugðist í sínu starfi upp á heilt ár. Skv frétt á visir.is er Jónas með 1,7 milljónir í laun á mánuði sem þýðir að hann fær 20,4 milljónir fyrir að gera ekki neitt.

Nú þegar kreppan skellur á og „allir eiga að leggja sitt af mörkum“, eins og tíðrætt er um, þá verður að hafa réttlætis- og sanngirnissjónarmið efst á blaði. Það er engin sanngirni í því að flest þeirra sem missa vinna eru með þriggja mánaða uppsagnarfrest en síðan eru sérsamningar fyrir hina ríku og útvöldu. Þetta er almannafé og það er hægt að gera heilan helling fyrir þennan pening - t.d. að halda geðdeild FSA opinni.  Niðurskurðurinn þar var upp á 17,5 m - lægri upphæð en Jónas fær fyrir að sitja og bora í nefið.  


mbl.is Jónas hættir 1. mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgvin sniðugur!?

Get ekki annað en dáðst að þessu pólitíska útspili Björgvins G. Sigurðssonar - segir af sér korteri áður en átti að reka hann!!! Nú getur hann sagst hafa axlað sína pólitísku ábyrgð og á mun betri möguleika í komandi prófkjöri fyrir vikið.

Ef Björgvin hefði gert nákvæmlega þetta fyrir 3 mánuðum - já eða 2 - þá hefði þetta verið alvöru. Þá hefði líka verið komið nýtt fólk í fjármálaeftirlitið sem hefði getað látið til sín taka. Fyrrverandi forstjóri og stjórn eru auðvitað búin að sýna og sanna hversu ómögulegir þeir eru í að taka á málum. Vonandi stendur nýtt fólk sig betur. 

Þó mér finnist þessi afsögn koma fullseint þá tók ég nú samt gleðikipp við tíðindin. Þetta er til marks um að mótmælin eru að skila sínu. Nú er búið að boða til kosninga, einn ráðherra hefur sagt af sér og forstjóri og stjórn FME víkja. Loksins erum við að sjá að það er ekki hægt að koma heilu þjóðfélagi á hausinn án þess að einhver axli ábyrgð. Baráttan er samt ekki búin enn. Það er margt eftir og mun fleiri eiga eftir að viðurkenna og axla sína ábyrgð.

Að lokum er hér áskorun frá Neyðarstjórn kvenna sem send var út í gær:

Neyðarstjórn kvenna skorar á forseta, ríkisstjórn og Alþingi Íslendinga að skipa utanþingsstjórn yfir landinu hið fyrsta. Ráðamenn þjóðarinnar verða að axla ábyrgð á því efnahagslega hruni sem hér hefur orðið með því að setja stjórn ríkisins í hendurnar á færustu sérfræðingum sem völ er á fram að kosningum. Nauðsynlegt er að tryggja þrískiptingu valdsins og utanþingsstjórn sem skipuð er fagfólki og sérfræðingum sem ekki sitja á þingi er kjörin leið til þess. Til að tryggja lýðræðislegt fyrirkomulag er jafnframt nauðsynlegt að utanþingsstjórn sé skipuð jafnmörgum konum og körlum.

Um Neyðarstjórn kvenna
Neyðarstjórn kvenna er stofnuð vegna þeirrar kreppu sem þjóðin stendur nú frammi fyrir. Neyðarstjórnin hefur það markmið að stuðla að uppbyggingu þjóðfélagsins þar sem í heiðri eru höfð viðhorf og gildi sem fela í sér virðingu fyrir manneskjunni, samfélaginu, lífinu, náttúrunni og umhverfinu. Nú þegar hafa nokkur hundruð konur komið að starfi Neyðarstjórnarinnar og á þriðja þúsund konur eru skráðar í nethóp félagsins.

 


mbl.is Björgvin segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt kvennaframboð?

Mig langar aðeins til að forvitnast um hvaða hug fólk ber til nýs kvennaframboðs. Við Íslendingar eigum langa sögu um slíkt. Árið 1908 var kvennalisti í bæjarstjórnarkosningum hér í Reykjavík. Bríet Bjarnhéðinsdóttir var þar á lista ásamt þrem öðrum kvenskörungum; Guðrúnu Björnsdóttur, Katrínu Magnússon og Þórunni Jónassen*. Þær hlutu glimrandi góða kosningu og hefðu komið fimmtu konunni að í bæjarstjórn ef hún bara hefði verið á lista! Árið 1922 var Ingibjörg H. Bjarnason kosin á alþingi fyrst kvenna. Það var einnig fyrir tilstilli kvennalista. Árið 1982 voru síðan tvö kvennaframboð - í sveitarstjórnarkosningum á Akureyri og í Reykjavík. Síðan er það auðvitað Kvennalistinn sjálfur sem bauð fram í alþingiskosningum 1983. Það ár fjölgaði konum á þingi úr 5% í 15%.

Þar sem nú gengur mikið á í íslenskum stjórnmálum og ljóst er að jafnrétti er hér í mörgu ábótavant, okkur öllum til skaða þá vaknar upp sú spurning hvort nú sé kominn tími á nýtt kvennaframboð. Hvað segið þið?

Setti inn nýja spurningakönnun hér hægra megin en svo er líka fínt að tjá sig í athugasemdakerfinu.

 

* Sjá nánar á heimasíðu Kvennasögusafns 


Karlaveldið Ísland

Nú hefur Hagstofan gefið út skýrslu sem staðfestir enn og aftur hversu slæm staða hér er í jafnréttismálum. Málin hafa sem sagt ekkert þokast áfram síðustu tvo áratugi eða svo. Þetta eru reyndar ekki nýjar fréttir fyrir þau okkar sem erum á kafi í þessari baráttu en engu að síður er bráðnauðsynlegt að fá þessa staðfestingu í opinberri skýrslu, sem og að fá heildaryfirlit yfir stöðuna.

Ég vona að nú á þessum síðustu og verstu tímum staldri fólk sem að öllu jöfnu hefur talið stöðuna ágæta aðeins við og setji jafnréttismálin í samhengi við þá lýðræðisumræðu sem nú er hafin. Margir hafa talað um að hér ríki ekki lýðræði í reynd heldur flokksræði. Önnur útgáfa á þessu er að skoða þetta út frá kynjasjónarhóli og segja að hér ríki ekki heldur eingöngu flokksræði heldur búum við í karlaveldi. Með öðrum orðum, við búum í samfélagi þar sem karlar hafa enn tögl og haldir og það sést svart á hvítu á tölfræðinni. Í þeirri lýðræðisumræðu sem nú er í gangi er þjóðfélaginu lífsnauðsynlegt að skoða lýðræði í orðsins fyllstu merkingu og hvað það þýðir. Það gengur ekki í samfélagi sem kynin byggja til jafns að karlar séu alls staðar í meirihlutastöðum valds. Það þýðir ekki einungis að karlar ráði heldur einnig að karllæg hugmyndafræði (heimurinn skilgreindur út frá sjónarhóli karlmannsins) verður ríkjandi hugmyndafræði. Ef við tökum þetta aðeins út frá hefðbundnum kynhlutverkum þá er t.d. borðleggjandi að tengja græðgisvæðingu síðustu áratuga beint við fyrirvinnuhlutverkið - eitt helsta og áhrifamesta karlmennskuhlutverkið. Kyn skipti gríðarlega miklu máli þegar kemur að vonum og væntingum í lífinu - og hvaða hlutverk okkur er ætlað að uppfylla. Kynið og ríkjandi hugmyndir um kynhlutverk verður því að taka til gagngerrar endurskoðunar ef okkur á nokkurn tímann að takast að nálgast einhverjar lýðræðishugmyndir. Sömu sögu má segja um ýmsa aðra hópa. Lýðræðið er lítið í reynd ef það er þaulskipulagt í kringum einn eða tvo ríkjandi hópa. Byggja þarf upp sanngjarnt og réttlátt samfélag fyrir alla sem hér eru - fólk af erlendum uppruna, samkynhneigða, aldraða, öryrkja, börn, karla, konur o.s.frv. 

Sem stendur er allt of margt miðað við of fáa og út frá valdatengslum - völdum og yfirráðum, stéttskiptingu og óréttlæti. Það þarf að breyta mun fleiru en bara flokksræðinu eigi framtíðin að líta nokkurn veginn út eins og við viljum. 

Hér er Hagstofuskýrslan - fyrir þau sem vilja skoða

 


mbl.is Mun fleiri karlar en konur í áhrifastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til stuðnings Geirs???

Í fyrri færslu minni gagnrýndi ég frétt mbl.is fyrir að þar kæmi ekki fram hver er að baki mótmælunum gegn mótmælendum á sunnudaginn. Fyrst fjölmiðlar ætla ekki að standa sig í stykkinu við að upplýsa almenning þá skal ég taka það að mér í bili ;) Svo virðist sem aðalsprautan að baki mótmælum gegn mótmælendum sé maður að nafni Andrés Pétur. Hann stofnaði grúppu á facebook sem ber nafnið „Fordæmum mótmælendur sem beita ofbeldi og ógnandi aðferðum ". Sami Andrés Pétur stofnaði líka aðra grúppu á facebook. Sú nefnist „Stuðningsmenn Geirs H Haarde “.

Hér virðist því vera um meðvitaða tilraun að ræða til að etja mótmælendum saman - kljúfa samstöðuna. Sunnudagsmótmælin mætti því túlka út frá orðum Þorgerðar Katrínar sem sagði að mótmæli mættu ekki snúast upp í andhverfu sína - og Fréttablaðið velti fyrir sér hvort mótmæli sem gerðu það væri þá ekki meðmæli! Sem má alveg túlka sunnudagsmótmælin fyrir að vera. Friðsamir mótmælendur ættu einmitt að velta vel og vel vandlega fyrir sér hvort slíkt sé ekki einmitt tilraun til að etja tveim hópum saman - og draga þannig athygli frá málstaðnum en eykur aftur á móti líkurnar á óeirðum.

Friðsömum mótmælendum bendi ég á annan skýran og góðan valkost - appelsínugulan. Hér er heimasíða þeirra. Hér er málið einfalt. Vertu í appelsínugulu þegar þú mætir á mótmæli og segðu þannig að þú sért friðsamur mótmælandi. Ofbeldi er aldrei valkostur. Hef reyndar ekki hugmynd um hver er á bak við appelsínugulan - en hér er þó um friðarboðskap að ræða... en ekki að stefna fólki á fund.

Bendi hér líka á flotta grein í tímaritinu Nei, „Að lifa eins og skepna."

 

 

 


Þreföld kreppa

Össur segir að við búum við tvöfalda kreppu - gjaldeyris- og bankakreppu. Hann gleymir þeirri þriðju. Við erum líka í lýðræðiskreppu.

Tek undir með honum að mótmælendur hafa sýnt mikla stillingu fram að þess - en jafnframt er furðulegt að sjá í næstu setningu að þrjú erlend fyrirtæki hafi sýnt áhuga á að fjármagna virkjanir hér á landi. Ég er ekki að mótmæla til þess að virkja meira eða taka meira af háaum erlendum lánum. Það er komið nóg af þeirri vitleysu. Tími græðgi á að vera liðinn og okkar kynslóð er búin með sinn virkjanakvóta. Komandi kynslóðir verða að eiga eitthvað eftir til að taka ákvarðanir um.  


mbl.is Erlend fyrirtæki sýna áhuga á virkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband