Svona býr maður til flughræðslu...

Fyrir nokkrum árum var ég svo „heppin“ að lenda í svokölluðu útsýnisflugi yfir Reykjavík, ekki ósvipuðu því og nú er sagt frá í frétt á visir.is:

Icelandair hefur í dag beint áætlunarflug milli Íslands og Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna.

Í tilefni dagsins munu Boeing 757-200 þotur Icelandair sem eru að koma til landsins frá Evrópu fljúga hringflug yfir höfuðborgarsvæðið. Flugleiðin liggur yfir Mosfellsbæ og síðan verður ströndinni fylgt í rólegri beygju umhverfis Reykjavík til Keflavíkur. Þristurinn mun heiðra vélar Icelandair með nærværu sinni yfir höfuðborginni á sama tíma.

Yfirflugið mun verða á milli klukkan 15.00 og 15.40 í dag, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Icelandair.

Mitt útsýnisflug átti sér stað árið 2001. Ég var á leið heim frá Rhodos eftir fína afslöppun og hlakkaði til að koma heim eftir 6 tíma flug. Þegar við nálguðumst landið tilkynnti flugstjórinn að veðrið væri svo gott í Reykjavík svo ákveðið hefði verið að fara í smá útsýnisflug yfir höfuðborgina. Ég kippti mér svo sem ekki upp við það. Hafði aldrei verið flughrædd heldur þvert á móti - fannst afskaplega gaman að taka á loft og lenda og ef það var ókyrrð í loftinu var það extra bónus - eins og að fara í tívolí. Þegar við nálguðumst Reykjavík lækkaði vélin flugið. Við það jókst hristingurinn en í þetta skiptið fannst mér það ekkert sérstaklega spennandi - fannst vélin full lágt á lofti. Síðan hófst fjörið fyrir alvöru. Til að sýna okkur höfuðborgina almennilega tók flugstjórinn alls kyns beygjur til hægri og vinstri, hallaði flugvélinni svo við ættum hægara um vik að kíkja inn um gluggana hjá fólkinu sem bjó fyrir neðan... eftir nokkrar slíkar sveigjur og beygjur tók flugvélin að rugga óþyrmilega mikið, kipptist alveg sitt á hvað til hægri og vinstri. Á þessum tímapunkti var ég orðin frávita af hræðslu. Flugstjórinn hafði misst stjórn á vélinni og næsta sem hlyti að gerast væri að hrapa til jarðar - go out in flames, eins og sagt er. En... það var ekki öll nótt úti enn. Skyndilega hætti vélin að hristast, flugstjórinn gaf rækilega í og vélin skaust upp á við af fullum krafti. Hjúkkit hugsaði ég með mér. Hann hefur þá náð stjórn á vélinni. Nú hlýtur hann að hætta þessari vitleysu og fljúga beinustu leið til Keflavíkur. Því var þó ekki að heilsa. Það næsta sem gerðist er að flugstjórinn tilkynnti að nú værum við búin að skoða Reykjavík öðrum megin frá og nú ætluðum við að skoða hana hinum megin frá. Að því búnu tók hann snarpa 180° beygju og steypti vélinni aftur niður. Við tóku viðlíka beygjur og sveigjur og áður... í þetta sinn án hristingsins í lokin. Þegar hér var komið við sögu var komin töluverð ókyrrð í farþegarýmið. Ég var ekki sú eina með ónot í maganum heldur heyrðust skelfingarópin víðs vegar úr vélinni. Ein flugfreyjan sá sér þann kost vænstan að rísa úr sæti sínu (en flugfreyjurnar höfðu fengið fyrirmæli um að sitja með beltin spennt á meðan á útsýnisfluginu stæði) og ganga um á meðal farþega til að reyna að róa fólk niður. Þegar þessu var loks aflokið kom yfirflugfreyjan í hátalarkerfið og sagði að það væri nú sennilega best að útskýra aðeins hvað væri í gangi. Þannig væri mál með vexti að flugstjórinn væri að fara á eftirlaun og þetta væri síðasta flugferðin hans. Þess vegna yrðum við farþegarnir þeirrar ánægju aðnjótandi að fá þetta ókeypis útsýnisflug í farþegaþotu yfir byggð... 

Jæja, það var svo sem léttir að vita að flugstjórinn væri ekki nýútskrifaður peyji sem hefði nýlega farið á myndina Pearl Harbor sem þá var verið að sýna í bíó! Hefði þó verið fínt að útskýra þetta áður en æfingarnar hófust... og þá hefði líka mátt fylgja með sögunni hvort flugstjórinn væri lífsglaður eður ei... aldrei að vita nema hann hefði verið sáttur við að ljúka ferlinum með stæl! :-þ

Eftir þetta hélt ég að leiðin lægi beinustu leið til Keflavíkur til lendingar. En því var nú ekki að heilsa. Ó nei. Næst kom flugstjórinn í hátalarakerfið og tilkynnti að nú værum við búin að skoða Reykjavík - næst ætluðum við að kíkja aðeins á Keflavík. Þegar þangað var komið upphófust svipaðar kúnstir og í Reykjavík nema í þetta sinn var útsýnið ekki inn um gluggana hjá fólkinu fyrir neðan heldur klettarnir við ströndina.

Að lokum drattaðist flugstjórinn þó til að lenda. Þegar ég kom út úr vélinni beið móttökulið eftir honum með risastóra blómvendi. Ég sé ennþá eftir að hafa ekki hrifsað vendina úr höndunum á þeim og hoppað einhvern viðeigandi stríðsdans á þeim.

Nokkrum dögum eftir að ég kom heim var mér sagt að þessi svakalegi veltingur til hægri og vinstri hefði bara verið flugstjórinn að nota vélina til að vinka bless... hefði verið gott að vita það fyrirfram!

Eftir þetta „skemmtilega útsýnisflug“ varð ég brjálæðislega flughrædd. Hef skánað eitthvað með árunum en er enn langt frá því að endurheimta gleðina við að fljúga. Einstöku sinnum næ ég að horfa út um gluggann við flugtak og lendingu en tívólí stemningin er fokin út í veður og vind. 

Ég á enn eftir að skilja hvers vegna veitt eru leyfi fyrir svona útsýnisflugum. Þarna er verið að láta farþegaþotur gera alls kyns hundakúnstir yfir byggð. Það er einnig vitað mál að í hverri flugvél eru flughræddir farþegar og farþegar eru ekki spurðir hvort þeir vilji eða gefi samþykki sitt fyrir svona flugferð. Ég keypti mér miða til og frá Rhodos. Ég keypti ekki miða í útsýnisflug og gaf aldrei samþykki mitt fyrir því að fara í slíka ferð. Velti því fyrir mér hvort þoturnar sem munu fljúga yfir Reykjavík í dag muni fara í sama pakka eða hvort farið verði varlegar í sakirnar. Geri hins vegar ráð fyrir því að farþegarnir hafi ekki verið spurðir og að enginn þeirra hafi veitt samþykki fyrir fluginu. Í mínum huga ætti þetta ekki að vera leyfilegt. Mér finnst það engan veginn í lagi að neyða fólk í útsýnisflug í farþegaþotu þegar keyptur var flugmiði í þeim tilgangi að komast á milli A og B - og ekkert annað en það. Vona að Icelandair eigi ekki eftir að búa til marga flughrædda farþega í dag.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Heiða Valbergsdóttir

Ég sá vél frá Icelandair í útsýnisflugi áðan og hugsaði einmitt með mér að ekki vildi ég vera í vélinni. Hún lallaði áfram á stall hraða og þurfti því stöðugt að vera að gefa í annað slagið til að hún myndi ekki hrapa. Ég tek undir það með þér að mér finnst að það eigi ekki að standa í svona brasi með farþegaþotur

Kolbrún Heiða Valbergsdóttir, 22.7.2009 kl. 15:43

2 Smámynd: Guðmundur Benediktsson

Það má alls ekki gera lítið úr flughræðslu fólks en það er ekki verið að tefla á tæpasta vað í svona yfirflugum og alls engin hætta á ferð. Hins vegar finnst mér að það mætti alveg taka tillit til hvort flugið hefur staðið yfir í tvo klukkutíma eða sex, ekki eru þægindin það mikil fyrir þá sem eru ekki á SAGA CLASS. Annars ætti að vera lítið mál að hafa svona low pass sem hluta af aðflugi til KEF ef vel liggur við og allir ættu að geta notið.

Guðmundur Benediktsson, 23.7.2009 kl. 00:33

3 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Það er overstatement að segja að engin hætta fylgi - öllu flugi fylgir einhver áhætta, rétt eins og það fylgir því áhætta að voga sér út í umferðina á bíl... það getur alltaf komið upp bilun eða eitthvað annað. Hins vegar veit ég alveg að vélarnar eiga að þola þetta - en það er ekki þar með sagt að það sé réttlætanlegt að skikka fólk í útsýnisflug. Þetta er ekki bónus í hugum allra. N.b. að þá var ég ekki flughrædd fyrir þetta flug heldur varð það eftir að hafa lent í þessu. Hugsanlega spilar skortur á upplýsingum einhvern þátt líka.

Ég fer hins vegar ekki ofan af því að það er ekki í lagi að skikka fólk í svona flug. Fólk verður að hafa einhvern sjálfsákvörðunarrétt varðandi þetta eins og annað.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 23.7.2009 kl. 11:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband