3. í byltingu

Í dag ku vera 3. í byltingu. Ég vona að mótmælin í dag verði jafn fjölmenn og í gær. Hins vegar þurfa að vera skýrar reglur um mótmælaaðferðir. Við þurfum byltingu. Það er alveg ljóst - en sú bylting þarf líka að vera án ofbeldis. Það er alveg hægt. Hvort sem valdstjórnin fer fram með of miklu offorsi og beitir táragasi að tilefnislausu þá réttlætir það ekki ofbeldi á móti. „Hún reitti hann til reiði“ er ekki boðleg afsökun hér frekar en annars staðar.

Ef löggan beitir aftur táragasi er sniðugast að mæta aftur til leiks og stilla sér upp fyrir framan hana. Án ofbeldis. Við verðum nefnilega líka að muna ALLTAF fyrir hverju við erum að berjast. Við erum að berjast fyrir réttlátara Íslandi. Við viljum ekki þá spillingu, siðblindu, græðgi, valdníðslu, efnahagslega ofbeldi og landráð sem hér hafa viðgengist. Við viljum Ísland án ofbeldis. Það þýðir líka að við þurfum að vera uppfinningasöm þegar kemur að mótmælaaðgerðum og borgaralegri óhlýðni. Ofbeldi er aldrei lausnin á vandanum. Ofbeldi leiðir af sér stríð og styrjaldir. Það er ekki það sem við berjumst fyrir - sama hversu mikilli valdníðslu stjórnvöld ákveða að beita. Við erum öll að berjast fyrir betra Íslandi og við þurfum að sjá til þess að útkoman verði betri en ekki verri. 

Ég fór á mótmælin í gær og í fyrradag. Það er æðsilegt að standa með fjöldanum, hlusta á dúndrandi trommusláttinn og kalla „vanhæf ríkisstjórn“ og finna samstöðuna. Þetta virkar. Veit að yfirgnæfandi meirihluti mótmælenda vill mótmæli án ofbeldis. Hinir verða að taka sig saman í andlitinu. Öll verðum við að passa upp á að láta þetta ekki draga úr okkur kjarkinn, baráttuandann eða kraftinn í mótmælunum.

Fyrir mér er þetta líka hluti af jafnréttisbaráttunni. Konur og börn á Íslandi búa við mikið ofbeldi og stór hluti af jafnréttisbaráttunni er gegn kynbundnu ofbeldi. Að glíma við vandamál með ofbeldi er hluti af karlmennskuímynd - kynhlutverki sem haldið er að litlum strákum jafnt sem fullorðnum karlmönnum. Það er nóg að skoða eins og einn leikfangabækling til að sjá ofbeldistenginuna. Öskudagsbæklingar eru sérstaklega gott sýnidæmi. Þar eru strákarnir í búningum  sjóræningja, tortímanda, hermanna og ýmiskonar „súpermanna“. Stelpurnar eru hins vegar í pastellituðum prinsessukjólum. Hvorug ímyndin er holl ofbeldislausu jafnréttissamfélagi. Í mótmælunum skulum við því hvorugt hlutverkið leika - hvorki vera ofbeldisfullir tortímendur né undirgefnar prinsessur.

Til eru ýmsar uppskriftir að mótmælum og borgaralegri óhlýðni. Hér hafa t.d. verið haldin námskeið í borgaralegri óhlýðni. Ég hef ekki borið gæfu til að sækja þessi námskeið en hef heyrt ýmsa punkta. Eins og t.d. að streitast ekki á móti við handtökur. Ef löggan vill handtaka einhvern þá er það bara allt í lagi. Ef löggan reynir að æsa mótmælendur upp til að rjúfa samstöðuna þá er það allt í lagi - en látum henni ekki takast það - hvort sem einstaka óeirðaseggir bregðast við með ofbeldi eða ekki. Við höldum bara okkar striki.

Skilyrðislaus stuðningur er eitt af þeim vandamálum sem við glímum við. Kannski að hluta til vegna þess að það þykir merki ósamstöðu þegar fólk tekst á um aðferðir. Það á ekki að vera svoleiðis. Hér sést þetta vel á flokkunum - þingmenn kjósa eftir flokki, eftir því í hvaða liði þeir eru, en ekki eftir eigin sannfæringu. Sem betur fer er þetta aðeins að breytast eins og sjá má á Samfylkingarfundinum í gær. Við sem erum mótmælendur skulum líka ganga á undan með góðu fordæmi og ræða baráttuaðferðir - fordæma ofbeldið og hvetja til ofbeldislausra en háværra mótmæla. Löggan kannski hefur það í huga líka - að hlýða ekki valdstjórninni þegar hún fær fyrirmæli um að beita mótmælendur óþarfa hörku. Löggan samanstendur ekki af maurum sem ber skilyrðislaust að framfylgja valdníðslu yfirboðara sinna. Mannkynssagan hefur kennt okkur að þjóðir eru verr settar eftir á þegar sú er raunin. Þó dómsmálaráðherra vilji her er ekki þar með sagt að löggan eigi að taka að sér það hlutverk að vera hermenn. Hér er ekki stríð - hér er bylting.

**

Viðbót: shit - held ég hafi tengt þetta við vitlausa frétt... gleymdi að setja inn efni um fréttina. Það þarf að koma fram í fréttinni hverjir standa á bakvið mótmælin á sunnudaginn. Það þýðir ekkert að boða til einhverra nafnlausra mótmæla. Auk þess finnst mér hálf skrýtið að boða til mótmæla gegn mótmælendum. Eru þessi mótmæli þá til stuðnings ríkisstjórninni? Eða hvað er málið? Fólki væri nær að mæta bara í almenn mótmæli. Þau eru ofbeldislaus að lang mestu leyti og það er einmitt hugur langflestra mótmæla. Að halda að það sé hægt að búa til ný mótmæli og að þau verði ekki eins er naive að mínu mati - býður upp á tvær fylkingar og eykur hættuna á átökum þeirra á milli. Trúi ekki að reyndir mótmælendur standi á bakvið mótmælin á sunnudaginn.


mbl.is Mótmæli gegn ofbeldi og eignaspjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband