Eru hinir sterku að vernda hina veikburða?

Eftirfarandi pistill birtist í Viðskiptablaðinu 8. mars 2006 

bushweb

Eru hinir sterku að vernda hina veikburða?

Fyrstu lögin sem heimiluðu fóstureyðingar á Íslandi voru samþykkt á alþingi árið 1935. Lögin tóku einhverjum breytingum næstu árin en þau heimiluðu fóstureyðingu ef líf móður væri í hættu, ef líkur væru á að barnið væri vanheilt eða ef um nauðgun væri að ræða. Skilyrði fyrir því síðastnefnda voru að konan hefði kært strax og sökudólgurinn hefði náðst og játað glæpinn. Núgildandi lög um fóstureyðingar eru frá árinu 1975. Þau voru samþykkt að undangenginni einni erfiðustu jafnréttisbaráttu á Íslandi. Þær konur sem í forsvari stóðu máttu þola ýmsar svívirðingar, allt upp í það að vera kallaðar barnamorðingjar. Að lokum náðist þó sátt á þingi um að heimila fóstureyðingar á fyrstu þrem mánuðum meðgöngu ef um félagslegar eða læknisfræðilegar ástæður væri að ræða eða ef konunni hefði verið nauðgað.

Fóstureyðingar bannaðar

Ástæðan fyrir því að ég rifja þetta hér upp eru lög sem voru undirituð í vikunni af Mike Rounds, ríkisstjóra Suður-Dakota fylkis í Bandaríkjunum. Lögin eru í andstöðu við hæstaréttardóminn Roe v. Wade, sem heimilaði fóstureyðingar í Bandaríkjunum fyrir 33 árum. Með nýju lögunum verða allar fóstureyðingar ólöglegar í Suður-Dakota nema þar sem lífi móður stafar bein hætta af þungun. Konum er ekki heimilt að láta eyða fóstri verði þær fyrir nauðgun eða ef um sifjaspell er að ræða. Það mun eflaust verða látið á þessi lög reyna fyrir hæstarétti Bandaríkjanna og þá reynir á að lögleiðingin frá 1973 haldi.

Kvenmannslausir í kulda og trekki

Lögin í Suður-Dakota eru ekki eina aðförin að rétti kvenna til að ráða yfir eigin líkama. Eitt fyrsta verk Bush Bandaríkjaforseta eftir að hann tók við embætti var að afnema alla opinbera fjármögnun til alþjóðlegra samtaka sem greiddu leið kvenna að fóstureyðingu. Árið 2003 takmarkaði hann enn frekar rétt kvenna til fóstureyðinga er hann undirritaði lög um bann við ákveðinni tegund fóstureyðinga (Partial Birth Abortion Ban). Fréttaljósmynd af þessum viðburði barst eins og eldur í sinu um heimsbyggðina en þar má sjá Bush forseta umkringdan níu brosandi karlmönnum að undirrita lögin. Engin kona er á myndinni.

Við undirritun laganna tók Bush forseti það fram að nauðsynlegt væri að hinir sterku vernduðu hina veikburða. Mike Rounds viðhafði svipuð orð þegar hann skrifaði undir lögin í Suður-Dakota og sagði að ófædd börn væru varnarlausust allra í þjóðfélaginu og það væri skylda að vernda þau. Það vekur hins vegar upp spurningar þegar hinir sterku eru augljóslega allir  karlmenn og konur eru þar hvergi nærri. Eru þessir karlmenn að vernda hin varnarlausu börn gegn hinum illu mæðrum? Afstaða Bush til fóstureyðinga er skýr. Hann er á móti fóstureyðingum nema þegar um nauðgun, sifjspell eða ógn við líf móður er að ræða. Hann var einnig á móti því að notkun “frönsku pillunar” (RU486) væri leyfð í Bandaríkjunum.

Jafnrétti eða bræðralag?

Bush hefur lýst því yfir að eitt af mikilvægustu embættisverkum forseta Bandaríkjana sé að útnefna hæstaréttardómara. Hann hefur haft tækifæri til að útnefna tvo í sinni forsetatíð og hefur hann í bæði skiptin útnefnt íhaldssama karlmenn sem eru á móti fóstureyðingum. Annar þeirra kom í staðinn fyrir fyrstu konuna sem tók sæti í Hæstarétti Bandaríkjanna en hún var ötul í að gæta hagsmuna kvenna. Í Hæstarétti Bandríkjanna sitja níu hæstaréttardómarar og því er ljóst að þessar tvær útnefningar Bush forseta munu hafa mikil áhrif og munu þær styrkja karlaveldið í sessi. Í fyrsta sinn í 33 ár er nú gerð aðför að Roe v. Wade en jarðvegurinn hefur verið undirbúinn með útnefningum manna með “réttar” skoðanir í Hæstarétt.

Kyn skiptir máli

Í dag er mikið talað um bakslag í jafnréttisbaráttunni og að framundan sé mikil varnarbarátta. Staðan í Bandaríkjunum sýnir okkur að þetta er raunin. Eftir harða baráttu kvenna fyrir réttinum til fóstureyðinga er smátt og smátt verið að reyna að afnema þann rétt. Það er ljóst að í Bandaríkjunum er í gangi herferð gegn rétti kvenna til að ráða yfir líkama sínum sjálfar. Aðförin sýnir glöggt hversu mikilvægt það er að bæði kyn sitji við stjórnvölin. Á meðan karlar eru í meirihluta þeirra sem með völdin fara eru konur í raun undir hæl karlmanna því þeir hafa möguleikann til þess að setja lög og reglur sem takmarka réttindi kvenna yfir sínum eigin líkama. Það er ekki þar með sagt að karlar notfæri sér þann möguleika en hann er engu að síður til staðar. Þegar við hugsum um hvort það sé mikilvægt að konur og karlar eigi jafnmarga fulltrúa í hinu þrískipta valdi lýðræðisþjóðfélagsins er ágætt að hafa mál eins og þessi í huga.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér verður nú hugsað til barnanna sem fæðast í fjölskyldur þar sem eru félagsleg vandamál, þetta verður orðið mikið issue þegar þau börn fara að vaxa úr grasi með lélegan bakgrunn því mæðurnar fengu ekki að láta eyða fóstrum sem þær treystu sér ekki til að ganga með. Atvinnuleysi og/eða slæmar félagslegar aðstæður er ekki eitthvað sem foreldrar eiga að þurfa að bjóða börnum sínum uppá.
Að ég tali ekki um höfnunina sem foreldrar sýna oft börnum sem "áttu ekki að fæðast".
Hver skyldi græða á þessum lögum? Nákvæmlega enginn.

Maja Solla (IP-tala skráð) 21.4.2007 kl. 09:53

2 identicon

Góð grein. Þessi mynd af Bush að undirrita lögin er í besta falli skandall. Ég vil samt benda þér á að það er margt að í Bandaríkjunum og sérstaklega er margt að bandarískri stjórnskipun. Þeir eru einfaldlega eftir á hvað varðar mannréttindi og hefðbundna skiptingu ríkisvalds.

Jón Gunnar Ásbjörnsson (IP-tala skráð) 21.4.2007 kl. 12:38

3 identicon

Mér er samt spurn, hér heima má kona fara í fóstueyðingu án samþykkis föður en ef hún á barnið hefur hann ekkert að segja um það hvort hann greiðir með því eða ekki.

Þetta er að stórum hluta kynja misrétti að karlar skuli ekkert fá að segja um þetta.

Sigfús (IP-tala skráð) 21.4.2007 kl. 17:26

4 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Ja, hvernig viltu hafa það? Að kona sem ekki vill eignast barn verði skikkuð til þess???? Auðvitað er best ef báðir aðilar eru sammála um lausn en ef ekki er samkomulag þá ræður úrslitum að þetta er líkami konunnar og hann er nauðsynleg forsenda fyrir meðgöngu. Endanleg ákvörðun þegar um ágreining er að ræða liggur því hjá henni og eins leiðinlegt og það er fyrir karlmenn sem vilja taka ákvörðun þá gengur ekki að þeir fái yfirráðarétt yfir líkama konunnar. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 21.4.2007 kl. 18:53

5 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

ps. við fyrstu setninguna mætti bæta líka bæta við hvort að þú myndir vilja að konur sem ekki vildu fara í fóstureyðingu yrðu skikkaðar til þess...?

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 21.4.2007 kl. 18:54

6 identicon

Er nú með sögu af þessu úr siðfræði. Þannig var að í framhaldsskólanum fór ég og félagi minn í siðfræði. Kynjahlutföllin hafa verið svona 3 strákar á móti 10 konum. Eitthvern tímann var umræðan um fóstureyðingar og svo skoðanakönnun í lok tíman um hverjir væru með/móti fóstureyðingum. 10 vildu banna þær. 3 vildu leyfa. Þ.e. 10 konur vildu banna þær og 3 strákar leyfa. Kom okkur nokkuð á óvart og þær voru harðar á þessu.

Birgir Guðmundsson (IP-tala skráð) 22.4.2007 kl. 15:20

7 identicon

Fóstureyðingar ættu að vera neyðarúrræði, þeas, óhæfir foreldrar eða nauðgun. Báðir aðilar eiga að vita hvað getur gerst þegar þeir stunda kynlíf, og vera tilbúnir til að taka ábyrgð á því.

Mér finnst að ef konur hafa rétt til að segja "ég ætla í fóstureyðingu því ég vil ekki barnið" ætti farðirin að geta sagt "ég ætla ekki að sinna eða borga með barninu, því ég vil það ekki" (en helst ætti hvorugt að vera hægt.

Sigfus (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 12:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 332714

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband