Alltaf í boltanum... þ.e.a.s. fótboltanum en ekki handboltanum!

Hér er pistillinn minn úr Viðskiptablaðinu frá því 24. janúar: 

Alltaf í boltanum
KSÍ var stofnað 26. mars 1947. Eggert Magnússon er fæddur 20. febrúar 1947. KSÍ og Eggert fagna því bæði sextugsafmæli á árinu. KSÍ ber þess á margan hátt merki að vera sextugt félag. Viðhorf sem þar hafa birst til jafnréttismála eru barn síns tíma og löngu kominn tími til að hrista almennilega upp í sportinu. Sem kunnugt er mun Eggert láta af starfi formanns á næsta ársþingi. Til skamms tíma leit út fyrir að baráttan yrði á milli tveggja miðaldra karlmanna en í síðustu viku bættist við valkostur úr allt annarri átt. Halla Gunnarsdóttir, þingfréttaritari Morgunblaðsins, ákvað að taka slaginn og bauð sig fram á móti Geiri Þorsteinssyni og Jafeti Ólafssyni.

Gáleysi í tíðarandanum
Fyrirfram hefði Halla þótt ósennilegur kostur. Fyrir það fyrsta er hún kona og konur hafa nú ekki náð sérstökum framgangi innan KSÍ hingað til. Það sést vel á hverjir skipa stjórn KSÍ. Í aðalstjórn eru 8 karlar og 1 kona. Til viðbótar eru 4 landsfjórðungsfulltrúar og eru það allt karlmenn. Varamenn bæði aðalstjórnar og landsfjórðungsfulltrúa eru allt karlar. Aðalsmerki félagsins er karlaboltinn. Þangað fer megnið af peningunum, áhorfið og peppið. Það er ekki nema rúm vika síðan að stjórn KSÍ ákvað að jafna dagpeningagreiðslur kvenna til jafns á við karla. Eggert Magnússon sagði í viðtali við Morgunblaðið um helgina að ástæðan fyrir því að dagpeningagreiðslurnar væru ójafnar stafaði af gáleysi og að menn hefðu ekki áttað sig á tíðarandanum. Þarna liggur einmitt kjarni málsins – í tíðarandanum.

Útsending rofin fyrir vítaspyrnukeppni
Það er margt sem sýnir svart á hvítu að jafnrétti í íþróttum er jafnvel enn minna en á flestum öðrum sviðum þjóðfélagsins, jafnt innan KSÍ sem utan. Fjölmiðlaumfjöllun um íþróttir er mjög vilhöll karlmönnum. Í rannsókn sem gerð var árið 2004 kom fram að einungis 16% íþróttafrétta fjölluðu eingöngu um konur. Flestum er einnig í fersku minni þegar RUV ákvað að stöðva útsendingu í úrslitaleik bikarkeppni kvenna þegar vítaspyrnukeppnin var að hefjast vegna þess að klukkan var 7 og fréttir áttu að byrja þá. Svona gerist aldrei í karlaboltanum. Þá munar ekki um að færa fréttatímann eins og hann leggur sig yfir á nýjan tíma.

Hvernig á að draga úr virðingu fyrir boltanum?
Kynferðislegur undirtónn í sportinu er á karlrembulegu nótunum. Á síðasta ári var KR með “herrakvöld” þar sem þeir fengu nokkrar konur til að vera berbrjósta innan um 300 karlmenn. Fleiri fótboltafélög eru sek um viðlíka uppákomur. Myndbirtingar í fjölmiðlum af íþróttakonum eru mun oftar með kynferðislegum undirtóni heldur en myndbirtingar af körlum. Síðast en ekki síst ber að nefna að KSÍ neitaði að taka undir gagnrýni vegna vændis og mansals á HM í Þýskalandi á síðasta ári. Allt þetta hefur áhrif. Bæði ýtir þetta undir staðalmyndir kynjanna og dregur úr virðingu fyrir íþróttinni. Í þessu andrúmslofti er kannski ekki furða að meira að segja landsliðskonurnar ákváðu að prófa þá leið fyrir nokkrum árum að sitja fáklæddar fyrir og auglýsa landsleik undir kjörorðinu “stelpuslagur”.

Margt vel gert
Staðan er þó ekki svo svört að ekkert hafi verið að gert. Íslenskar knattspyrnukonur hafa verið ötular í baráttunni og tekist að lyfta grettistaki þrátt fyrir að hafa mætt mikilli andstöðu. KSÍ var til dæmis ekki tilbúið til að jafna verðlaunafé í Landsbankadeildinni þegar upp komst árið 2004 að sigurliðið í kvennaflokki átti að fá töluvert lægri upphæð heldur en þau 2 lið í karladeildinni sem voru í fallsæti. Eftir miklar umræður frá knattspyrnukonum og afhendingu Bleiku steinanna frá Femínistafélaginu var verðlaunaféið að lokum jafnað fyrir tilstuðlan stærsta styrktaraðila deildarinnar, Landsbankans. Aðstæður í kvennaboltanum eru mun betri nú en fyrir nokkrum árum. Lögð er meiri áhersla á að fá stelpur til að æfa fótbolta og kvennalandsliðið hefur staðið fyrir hugmyndaríkum auglýsingaherferðum til að auglýsa landsleiki, ef frá er talin ofangreind auglýsing. Með sinni baráttu hefur þeim tekist að vekja athygli þjóðarinnar á mikilvægi þess að auka jafnrétti í boltanum. 

Rétti tíðarandinn
Það er einmitt í þessum tíðaranda sem Halla býður sig fram. Tíðarandanum þar sem almenningur er farinn að átta sig á karlaslagsíðunni í boltanum. Og fólk vill breytingar. Þær breytingar eru líklegastar til að gerast með Höllu í formannssætinu vegna þess að þá mun andstaðan við jafnrétti hverfa úr formennskunni. Í staðinn mun skipa sætið kona sem hefur hugsjónir til að breyta boltanum í þá átt að slagorðið “fótbolti fyrir alla” verði að veruleika fyrir alla þjóðinna en ekki bara helming hennar. Markmið íþrótta er ekki einöngu að útvega hreyfingu og efla liðsheild. KSÍ hefur það markmið að fótbolti eigi að stuðla að líkamlegum, félagslegum og sálrænum þroska barna og unglinga. Í öllu bakslaginu sem nú á sér stað í jafnréttismálum er framboð Höllu bjartasta vonin um að hægt sé að stíga stórt skref fram á við. Í sönnum keppnisanda vona ég að Halla mali formannslaginn – svo hægt verði að tala um Ísland best í heimi í boltanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Er sanngjarnt að kvennaboltinn fái minna fé þegar peningarnir koma frá utanaðkomandi aðila eins og Landsbankanum? Er sanngjarnt að kvennaboltinn fái minna fé þegar peningarnar koma frá opinberum aðilum eins og t.d. Reykjavíkurborg? Er sanngjarnt að konur sem vinna sína deild fái minna verðlaunafé en þau 2 karlalið sem falla niður um deild? Er sanngjarnt að karlar njóti forréttinda út á kyn sem til kemur vegna þess að hér hefur aldrei ríkt jafnrétti? 

Bara pæling 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 30.1.2007 kl. 09:23

2 identicon

Djöfull ertu massíf Kata!

Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 19:27

3 identicon

Mér finnst að tekjur ættu að vera svipaðar á milli kvk og kk deilda. EN þá er ekki verið að mismuna útfrá kyni heldur eftir áhuga þjóðarinnar, sem að veldur því að auglýsingatekjur aukast á þá sem ná meiri athyggli.

sigfur (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 22:54

4 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Þjóðin er fullfær um að mismuna eftir kyni

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 31.1.2007 kl. 23:21

5 identicon

Áhugi er eitthvað sem þú gerir þér ekki bara upp þannig að í því felst engin mismunun að horfa frekar á annað kynið frekar í íþróttum en hitt.

Hvað næst?? Fara feministar að mótmæla enskaboltanum, NBA deildinni eða NHL?? Það væri eftir öðru hjá ykkur.

sigfús (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 07:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 332714

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband