Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Já!

Undanfarna daga er ég búin að lesa fréttir um nóbelsverðlaunahafa - útnefnda og líklega - og hef alltaf verið jafn svekkt yfir að hafa ekki séð eitt einasta kvenmannsnafn í þeim hópi. Þetta kom því ánægjulega á óvart. Gott að akademían er ekki alveg eins kynblind og spámennirnir... Wink

Ps. Fyrirsögnin er í anda nýrra frétta um að stjórnarskrárbinda íslensku sem tungumál - og ég að reyna að leggja mitt af mörkum með því að hrópa ekki upp "Yes"... Það er komin ný skoðanakönnun hér til hliðar - hefurðu lesið stjórnarskrána?  


mbl.is Doris Lessing hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jesús hvað?

Frelsinu til að velja verða að fylgja valmöguleikar. Þess vegna er ég hlynnt því að börn fái fjölbreytta kennslu í skólum og fái að prófa sig áfram á ýmsum vettvangi. Nám á að innihalda bóklegt nám, verknám, listnám, íþróttir, trúabragðafræðslu, heimspeki, kynjafræði, lífsleikni... og margt fleira. Ef við náum að prófa sem flest þá eru líka meiri líkur á að við tökum upplýsta ákvörðun þegar við veljum hvað við ætlum að verða þegar við verðum stór... 

Að vissu leyti skil ég vel þá áráttu að vilja láta börn byrja sem allra fyrst á ævistarfinu. Það er kannski erfitt að ætla að verða píanósnillingur ef fólk byrjar ekki að æfa fyrr en við 15 ára aldurinn (það er samt alveg góður aldur upp á hobbýið að gera). Það er kannski þess vegna sem við sjáum svona mikið af börnum sem er ýtt út í ævistarfið við 7 ára aldurinn eða þar um bil.  Íþróttir nærtækt dæmi sem og alls konar listnám. Ég gúddera það upp að vissu marki - á meðan börnin fá samt að leika sér og vera til og æfingarnar eru ekki of margar eða of stífar - eða byggjast á niðurbroti. 

En mér var nóg boðið í gærkveldi. Ég horfði á þátt á RUV sem heitir Jesus Camp. Hann fjallaði um sumarbúðir fyrir krakka þar sem þau eru þjálfuð í að vera hermenn guðs. Þar fá þau alls kyns "fræðslu" um Guð, kölska og helvíti - ásamt dágóðum skammti af áróðri gegn fóstureyðingum og samkynhneigðum. Börnin eru gjörsamlega heilaþvegin og svo send út af örkinni. Þau voru m.a. sýnd spyrja einhvern hvar hann myndi enda þegar þessi vist væri búin. Þegar hann svaraði "á himnum" spurðu þau "ertu viss?" Skokkuðu svo í burtu og ein sagði "ég er viss um að hann er múslimi". Aðstandendur sumarbúðanna dásömuðu krakkana í hástert og sögðu sífellt að þau væru sannfærð um að unga kynslóðin myndi færa Bandaríkin aftur í hendur Guðs. Ég er hins vegar langt í frá að vera sannfærð... og ef ég væri trúuð myndi ég eflaust biðja Guð um að frelsa börnin frá þessum voða. 


Áhugavert í hádeginu!

Kvenréttindafélag Íslands stendur fyrir hádegisfundi  miðvikudaginn 10. október nk. kl. 12:00-13:00 í samkomusal Hallveigarstaða við Túngötu. Á fundinum munu Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra, Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Hlér Guðjónsson frá Háskólanum á Bifröst ræða jafnlaunamálin.

Launamál kynjanna hafa verið í umræðunni að undanförnu. Félagsmála- og fjármálaráðherra vinna að undirbúningi nefndar sem á að vinna að þeim markmiðum ríkistjórnarinnar að minnka hinn óútskýrða kynbundna launamun. Á fundinum verða ræddar aðgerðir ríkistjórnarinnar, tölulegar upplýsingar um launamun kynjanna og jafnréttiskennitalan. Eftir stutt framsöguerindi verða pallborðsumræður og fyrirspurnir úr sal.

Allir  velkomnir. Léttur hádegisverður í boði Kvenréttindafélags Íslands.



Kosningarétturinn og einkavinavæðingin

Er nýbúin að horfa á uppáhaldsmyndina mína - Iron Jawed Angels. Þetta er í þriðja sinn sem ég horfi á hana og alltaf finnst mér hún jafn áhrifamikil. Hún er um baráttu bandarískra kvenna fyrir kosningaréttinum en hann fengu þær árið 1920 eftir 70 ára baráttu. Baráttan hér var 30 ár og gekk mun átakalausara fyrir sig. Hér voru konur ekki fangelsaðar á pólitískum forsendum, þær fóru ekki í hungurverkfall og matur var ekki neyddur ofan í þær í gegnum magaslöngu. 

**

Annars er ég búin að fylgjast agndofa með rugli síðustu daga. Á textavarpinu er núna þessi frétt:

Ísrael: Olmert vændur um spillingu

Ísraelska lögreglan tók forsætisráðherra Ísraels, Ehud Olmert, til yfirheyrslu í morgun en hann er grunaður um spillingu. Olmert er sakaður um að hygla vini sínum við einkavæðingu annars stærsta banka Ísraels.

Olmert var yfirheyrður í margar klukkustundir en hann er grunaður um margvíslega spillingu auk bankasölunnar m.a. að hafa þegið mútur.
Hér eru nú sem betur fer engar ásakanir um mútur - en einkavinavæðingin er greinileg - og viðurkennd. Á enginn að axla þá ábyrgð? 
Pistillinn minn í Viðskiptablaðinu á morgun er annars um þetta mál - kynjavinkilinn, að sjálfsögðu! 

 


Óbeisluð fegurð

Fór á heimildarmyndina Óbeisluð fegurð á föstudaginn. Þetta var frumsýningin og því mættu aðstandendur myndarinnar og sögðu okkur frá myndinni og svöruðu spurningunum. Ég fylgdist spennt með "fegurðarsamkeppninni" Óbeisluð fegurð sem haldin var í apríl á þessu ári. Þetta er flott koncept og það er mikill fengur að heimildarmyndinni. Hún er mjög skemmtileg og fangar vel kraftinn, gleðina og fegurðina sem fólst í þessari aðgerð. Alveg hreint yndislegt og ég vona eindregið að RUV sjái sóma sinn í því að sýna myndina.

Mér skilst að það sé mikill áhugi fyrir myndinni erlendis - mun meiri áhugi en er hér heima... Sagan á bak við heimildarmyndinna er líka sérlega falleg. Önnur kvikmyndagerðarkonan, Tina Naccache, var heima hjá sér í Beirút að vaska upp og hlusta á BBC. Þá heyrir hún frétt um að til standi að halda fegurðarsamkeppnina Óbeislaða fegurð á Íslandi. Hún hringir í Hrafnhildi Gunnarsdóttur og segir henni að þær verði að gera mynd um keppnina. Og það var það sem þær gerðu. Sem betur fer. Kærar þakkir.


Dómar í kynferðisbrotamálum

Mæli með umfjöllun um kynferðisbrotadóma í Blaðinu í dag. Þar er borið saman hvernig refsiramminn er nýttur í fíkniefnadómum annars vegar og hins vegar í kynferðisbrotamálum. Það munar töluverðu þar á og í raun furðulegt hversu lítt refsiramminn er nýttur í kynferðisbrotamálum. Dómar eru hlægilega lágir miðað við alvarleika brotanna. 

Kynferðisbrot eru ein alvarlegasta og skýrasta birtingarmynd kynjamisréttis í okkar samfélagi. Miðað við fjölda þeirra sem brotið er á er hægt að tala um kerfisbundna beitingu ofbeldis. Ofbeldisverkin eru þó ekki skipulögð sem partur af einhverju allsherjar samsæri, langt í frá. Þeim er hins vegar leyft að viðgangast af arfamáttlausum stjórnvöldum og dómskerfi sem er á engan hátt í stakk búið til að taka á þessum málum. Ein birtingarmynd kynjamisréttis er einmitt að konur og börn geta ekki treyst á þá vernd sem stjórnvöld eiga að veita gegn brotum sem þessum.  


Kringlubæklingurinn

Kringlubæklingurinn kom í hús í morgun. Margt þar sem er athyglisvert að stúdera með kynjagleraugun á nefinu... eins og vænta mátti. Ég bíð ennþá spennt eftir því að tískuiðnaðurinn gerist jafnréttissinnaður í alvörunni í stað þess að troða konum endalaust í hlutverk hinnar undirgefnu konu. Merkilegt nokk virðast framleiðendur Kringlubæklingsins gera sér grein fyrir þessu - en bara í orði, ekki á borði. Hér eru nokkur dæmi:

Framakonan. Fyrirsagnir: Vinnugallar, Hún er með stjórn á hlutunum og Þessi dama er algjör dama.

Texti sem fylgir með er t.d.:

Stundum fær orðið kvenlegt (ranglega) á sig neikvæða merkingu. Þá er það tengt við eitthvað gamaldags, konur sem ná litlum árangri í starfi, konur sem hugsa bara um útlitið eða einfaldlega óspennandi og undirgefnar konur sem vantar allan karakter. Í dag þurfa konur ekki að velja, þær geta verið kvenlegar og afgerandi í senn og fötin í vetur hjálpa til við það.

Miðað við samspil myndefnis og texta verður ekki betur séð en skilaboðin séu að það sé hægt að vera bæði undirgefin og afgerandi. En só sorry. Það er ekki hægt. Augnaráð konunnar á öllum myndunum er algjörlega í takt við hið undirgefna augnaráð sem sést svo víða - m.a. er það allsráðandi í kláminu. Höfðinu hallað örlítið niður og síðan litið upp. Líkamstellingarnar eru síðan í stíl - og athyglisvert að bera saman kven- og karlímyndina. Karlinn ætlar með krakkana í bíó og honum er kalt. Honum stekkur ekki bros á vör, hann lítur út eins og honum leiðist og hann horfir beint fram. Honum er skítsama hvort hann falli í kramið hjá hinu kyninu. Hans aim er ekki endilega to please... akkúrat öfugt við hana.

Daniel Chandler lýsir þessu meðal annars svona:

Stereotypical notions of masculinity are strongly oriented towards the active. Dyer argues that the male model feels bound to avoid the ‘femininity’ of being posed as the passive object of an active gaze.

Og það er einmitt munurinn - konunni er stillt upp sem viðfangi en karlinum ekki.  

Skilaboðin sem birtast í þessu er að konur nái stjórn á hlutunum með því að vera undirgefnar...

Barnakaflinn er síðan sér kapítuli út af fyrir sig.

Í vetur ætla ég að vera vel klæddur

Það var og. Best að hvetja börnin ekki of mikið til að læra og leika sér... Væntanlega kemur mörgum það líka á óvart Errm að ein stelpan er sett í hlutverk klappstýrunnar. Það er greinilega hlutverk sem stúlkur eiga að læra snemma... að hvetja strákana áfram í staðinn fyrir að afreka sjálfar. Grease er síðan notað sem þema hjá börnunum. Grease er ástarsaga - en það er ekki seinna vænna en að byrja að hamra inn hjá börnunum strax að þau eiga að verða gagnkynhneigð þegar þau verða stór. Aðrir valmöguleikar eru ekki í boði... Sumum finnst þetta afskaplega krúttlegt. Mér finnst það ekki. Notkun barna í auglýsingar er afar ábyrgðamikið hlutverk. Sérstaklega þegar um er að ræða geira eins og tískubransann og "trendsetting".


Góð nýting á fjármagni?

Enn eru margir staðir í dreifbýlinu sem ekki hafa aðgang að ljósleiðaratengingu. Ég er með 2 tengda inn í hús hjá mér. Er þetta ekki eitthvað skakkt? 

Peningar tala oft hæst af öllum. Það væru mistök að ætla þeim að vera skynsamir, réttsýnir eða jafnréttissinnaðir. Peningar taka oft skammtímahagsmuni fram yfir langtímahagsmuni.


Skilgreiningarvaldið

Málþingið um hvaða sannleika sé að finna í íslenskum kvikmyndum var mjög skemmtilegt. Ég er afskaplega glöð að Beta skyldi bjóða mér að vera með því ég lærði heilan helling af áhugaverðum erindum og umræðunum á eftir. Ég hef t.d. ekkert spáð í eða heyrt um heimildarlegt gildi kvikmynda - sérstaklega heimildarmynda og það var mjög áhugavert að heyra Írisi fjalla um það. Heimildarmyndir eru kannski ekki sérlega góð sagnfræðileg heimild um "sannleikann" en geta engu að síður sagt mikið til um tíðarandann og alls kyns aðra hluti. Ég hugsaði mikið til þess þegar ég fór á heimildarmyndina Fabulous: The Story of Queer Cinema í gærkvöldi. Ef sagnfræðingar framtíðarinnar myndu nota hana sem heimild gætu þeir ekki komist að annarri niðurstöðu en að lesbíumyndir væru meira og minna soft-porn myndir en hommamyndir snúast að mestu leyti um vináttu, baráttu og kannski í mesta lagi að kyssast - en án þess að nota tunguna! Verð að segja eins og er að þarna þótti mér Queer samfélagið missa af úrvals tækifæri til að gera samlíf homma sýnilegt... myndin er eins og sniðin að kröfu gagnkynhneigðra karlmanna með hommafóbíu. Sem er sorglegt en segir sitthvað um tíðarandann og skilgreiningarvaldið. Það skiptir máli hver segir söguna en það skiptir líka máli að kynjakerfið í kringum okkur er svo sterkt að meira að segja hópar sem berjast gegn hinu ríkjandi normi leggja sig í líma við að festa það í sessi. 

Hér er annars bútur úr mínu erindi:

Focoult talaði um hið allt um lykjandi vald. Vald felst ekki bara í kosningarétti og öðrum formlegum réttindum heldur á sér ýmsar birtingarmyndir. Eitt af því er skilgreiningavaldið. Sá sem býr til kvikmyndir hefur í hendi sér ákveðið skilgreiningavald um hvernig konur og karlar birtast, í hvaða hlutverkum þau eru, hvernig við horfum á þau og svo framvegis. Þær ímyndir sem við sjáum hafa síðan töluverð áhrif á hvernig við hugsum og hvað okkur finnst eðlilegt og sjálfsagt. Það skilgreinir að vissu leyti líka okkar mörk – hvað við teljum leyfilegt að gera og hvað ekki. Kynímyndir sem birtast í bíómyndum eru gjörólík og þess vegna eru birtingarmyndir kynjanna í kvikmyndum, sem og annars staðar, ekki eitthvað sem ber að líta á sem afþreyingu heldur er það í raun hápólitískt mál.

Fræðikonan Margret Marshment hefur stúderað þetta töluvert og meðal þess sem hún segir er að kynímyndir séu m.a. notaðar til að halda fólki á ákveðnum bás. Þess vegna skiptir máli að konur hafi þetta vald sjálfar – og að við stúderum sjálfar hvernig við viljum vera sýndar og kynntar til sögunnar í kvikmyndum og á öðrum vettvangi. Að öðrum kosti erum við háðar skilgreiningum og ákvörðunum annarra.
 


« Fyrri síða

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 332499

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband