Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Bleikir dagar framundan

IMG_4205 (WinCE)Á morgun er 24. október! Smile Afmælisdagur Sameinuðu þjóðanna og kvennafrídaganna okkar íslensku. Hér er póstur sem ég fékk frá Femínistafélaginu sem tiltekur ýmislegt sem er í gangi af þessu tilefni:

Femínistafélag Íslands vekur athygli á fjölda viðburða í tengslum við femínistavikuna 2007. Tvær ráðstefnur um jafnréttismál verða haldnar á morgun, 24. október. Annars vegar: Erum við hrædd við jafnrétti? sem fer fram í ráðstefnusal Keilis á Keflavíkurflugvelli, og hins vegar: Jafnrétti og skóli, sem jafnréttisnefnd Kennaraháskólans stendur fyrir og fer fram í Skriðu, fyrirlestrasal KHÍ. Um kvöldið verður svo kvennas(t)und í Vesturbæjarlauginni, þar sem ÍTR býður konum ókeypis í sund og sturtusöng milli 19 og 22. Úthlutun úr Jafnréttissjóði og afhending árlegrar viðurkenningar Jafnréttisráðs fara einnig fram 24. október að vanda.

Á fimmtudag, 25. október stendur Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands fyrir hádegisrabbi um Doris Lessing, nýbakaðan nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum. Það er Sigfríður Gunnlaugsdóttir, bókmenntafræðingur, sem heldur erindið sem hún kallar “Að hafa töglin og hagldirnar: Doris Lessing og feminisminn”. Erindið verður haldið í fyrirlestrasal Þjóðarbókhlöðunnar kl. 12-13. Síðar sama dag stendur jafnréttisnefnd Kópavogs fyrir málþingi um konur í sveitarstjórnum, í tilefni af því að nú eru 50 ár liðin frá því að fyrsta konan varð sveitarstjóri á Íslandi, en það var Hulda Jakobsdóttir sem var bæjarstjóri í Kópavogi. Málþingið heitir “Ég þori get og vil!” og fer fram á neðri hæð Gerðarsafns í Kópavogi kl. 17-19.

Á föstudagsmorgun stóð til að hafa fund með handhöfum bleiku steinanna, en þeir eru hvatningarverðlaun Femínistafélagsins. Handhafar bleiku steinanna í ár eru þingmenn norðvesturkjördæmis, en þegar verðlaunin voru afhent sat engin kona á þingi fyrir kjördæmið. Vegna kjördæmaviku hjá Alþingi verður að fresta þessum fundi um viku þannig að hann verður haldinn föstudaginn 2. nóvember. Í staðinn hvetur Femínistafélagið femínista um allt land til að láta til sín taka.

Á laugardag, 27. október lýkur Femínistavikunni. Þá stendur Femínistafélagið fyrir ráðstefnunni “Kynlaus og litblind? Samræða um margbreytileika”. Þar kemur saman fólk úr ýmsum áttum, sem á það sameiginlegt að vera virkt í einhvers konar jafnréttisbaráttu, hvort sem er út frá kyni, kynhneigð, uppruna, fötlun, eða öðru. Ráðstefnan er haldin í tilefni af Evrópuári jafnra tækifæra með styrk frá félagsmálaráðuneytinu. Þarna gefst tækifæri til að hitta fólk, sem hefur áhuga á réttlátara samfélagi. Markmiðið er að sýna sig og sjá aðra, mynda tengsl og læra af reynslu annarra, eða í stuttu máli að deila hugmyndum og sýn á samfélagið. Um kvöldið verður svo femínistateiti á efri hæð Café Viktors, þar sem femínistar eru hvattir til að stíga á stokk og láta í sér heyra. Nánari dagskrá er að finna á www.feministinn.is.


En er þetta sama mjólkin?

Af hverju fylgja ekki upplýsingar með svona skýrslum (og fréttum) um muninn á mjólkinni? Mjólk er ekki sama og mjólk... íslenska mjólkin er t.d. margfalt bragðbetri en sú bandaríski (mitt hlutlausa mat! Halo). Man ekki hvernig sú sænska er en get ekki ímyndað mér að hún sé betri - eða jafngóð. Síðan væri líka ekki vitlaust að skoða næringargildi og ýmislegt annað, t.d. stærð próteina.


mbl.is Nýtt kúakyn gæti sparað rúman milljarð á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvers að fórna meiri hagsmunun fyrir minni?

Ég get ekki betur séð en að sala áfengis í matvöruverslunum þjóni litlum tilgangi öðrum en þeim að auka neyslu almennings og hagnað matvöruverslana. Skil vel að matvöruverslanir vilji fá bita af kökunni... en mér finnst að ekki eigi að taka minni hagsmuni fram yfir þá meiri. ÁTVR hefur staðið sig vel í að bjóða fjölbreytt úrval vína. Eflaust mætti einhverju breyta varðandi hvaða vín komast í sölu og ég sé ekki að það þjóni t.d. hagsmunum heildsala að vín verði seld í matvöruverslunum. Það er að segja, ekki heildarinnar þótt eflaust muni þeir fáu útvöldu maka krókinn feitt. 

Sjálfri finnst mér ekkert mál að gera mér sérferð í ríkið eftir víni og bjór. Þrátt fyrir að mér þætti þægilegt að kippa með mér flösku um leið og ég versla í matinn þá er það algjört aukaatriði miðað við þá hagsmuni sem eru í húfi varðandi áfengisvandann. Þegar ég bjó í Bandaríkjunum fékk ég smjörþefinn af þessu fyrirkomulagi. Minnir að reglurnar hafi verið þannig að matvöruverslanir máttu ekki selja áfengi eftir kl. 9 á kvöldin og ekki á sunnudögum! Skipti tiltölulega litlu máli hvort kona kippti með sér flösku þar eða leitaði uppi áfengisverslun. Hér á landi er ekki óalgengt að 16 ára krakkar vinni á kassa í matvöruverslunum - og allt niður í 14 ára. Hvað á að gera í því ef sala á áfengi verður leyfð? Varla á að leyfa börnum að afgreiða áfengi sem þau ekki mega drekka fyrr en þau verða 20 ára? Ég hugsa að á þessum aldri hefði ég nú verið dugleg að afgreiða bæði sjálfa mig og vinkonurnar um áfengi ef það hefði verið í boði...!

Ég er sem sagt hlynnt því að ÁTVR sjái áfram um einkasölu áfengis og er á því að það auki vöruúrval og aðgengi að öðrum víntegundum heldur en þeim sem seljast mest. Eins þrífst fjölbreyttari flóra heildsala fyrir vikið þar sem matvöruverslanir munu pottþétt ekki selja vín í sama úrvali og ÁTVR. 


mbl.is Landlæknir: Afnám einkasölu ÁTVR mun auka áfengisneyslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjúkratryggingasjóður atvinnulífsins

Í 24 stundum í dag er umfjöllun um þær hugmyndir að færa almannatryggingakerfið að einhverju leyti yfir í hendur atvinnulífsins. Nánar tiltekið er verið að spá í nýjan sjúkratryggingasjóð. Öryrkjabandalagið mótmælir þessari þróun, enda mun kerfið ekki ná yfir þá sem ekki tilheyra atvinnulífinu. Það er full ástæða til að taka undir mótmæli Öryrkjabandalagsins og eru nokkrar ástæður fyrir því. Velferðarsamfélag sem byggir á því að allir séu jafnir verður að finna aðrir leiðir. Kerfi þar sem sumir eru jafnari en aðrir gengur ekki upp á slíkum stundum. Hætt er við að stéttskipting verði meiri og að félagslega verði erfiðara fyrir suma að vera á bótum en aðra þar sem mismunandi viðhorf mun fylgja, eftir því hvernig bætur um ræðir. 

Það er ekki hægt að segja að t.d. öryrkjar og ellilífeyrisþegar hafi það gott um þessar mundir. Bæturnar eru of lágar, þær eru enn tengdar að einhverju leyti við tekjur maka og meira að segja verða öryrkjar fyrir því að þegar börn þeirra ná 18 ára aldri þá ekki einungis falla bætur niður heldur teljast tekjur "barnsins" þá til tekna heimilisins og við það skerðast tekjurnar. Eins á fólk á hættu að bætur þeirra falli niður þurfi það að vera lengur en 6 mánuði á ári inn á sjúkrastofnun. Þetta er skelfileg staða fyrir suma - sem þurfa að standa skil á húsaleigu eða afborgunum af íbúðalánum (og jafnvel sjá fyrir börnum) hvort sem þeir eru heima hjá sér, á spítala eða í endurhæfingu. Ég veit um tilfelli þar sem 6 mánaða reglan varð viðkomandi alvarlegt tilefni til íhugunar um hvort henni væri hreinlega kleift að fá þá umönnun sem hún þarfnaðist. Ofan á þetta bætast málin sem Ásdís hefur bent á (undirskriftasöfnun hér). 

**

En það eru fleiri mál sem þarf að íhuga varðandi almannatryggingakerfi sem er beintengt við atvinnuþátttöku. Við höfum reynslu af slíku í gegnum lífeyrissjóðina. Hugsið ykkur allar þær heimavinnandi húsmæður sem ekki áttu rétt á lífeyri þar sem hann var bundinn við launaða vinnu en hið ólaunaða framlag kvennanna var bæði ósýnilegt og til einskis metið. Þetta var sannkölluð fátækragildra sem enn sést á meðal ellilífeyrisþega á Íslandi.

Ríkisstjórnin á að vinna samkvæmt samættingu jafnréttissjónarmiða. Það þýðir að skoða þarf alla svona ákvarðanatöku út frá því hvaða áhrif hún mun hafa á kynin. Augljóst er af stöðu kynjanna á vinnumarkaði að þau munu ekki sitja við sama borð. Karlar fá hærra greitt fyrir sömu störf og þeir fá líka meira greitt fyrir sitt vinnuframlag til samfélagsins því það fer að stærri hluta í gegnum atvinnulífið heldur en framlag kvenna (sbr lengri vinnudagur). Karlar njóta líka meiri framgangs í starfi og eru mun fleiri en konur í hæst launuðu hópunum. Konur eru t.d. ekki með nema um 64% af atvinnutekjum karla. Konur taka líka lengra fæðingarorlof en karlar, vinna oftar hlutastörf og taka sér meira hlé frá vinnu vegna barna. Sem sagt - ólaunaða vinnan er enn að stærstum hluta á herðum kvenna. Tekjutengdar sjúkratryggingar munu því ekki nýtast öllum jafnvel. Þær munu vera bestar fyrir útvinnandi karlmenn. Það er sá hópur sem hefur tögl og haldirnar í samfélaginu í dag (eins og tölfræðin sýnir). Sjúkratryggingar sem tengdar eru atvinnulífinu en ekki almannakerfinu eru bakslag í jafnréttisbaráttunni. Þær munu auka enn frekar á þann aðstöðumun sem er á milli karla og kvenna í þjóðfélaginu. Þær munu jafnframt auka mun á milli útivinnandi og annarra hópa. Þetta er bakslag en ekki framfaraskref. 


Stundum er hæfasti maðurinn í jobbið...

Hlustaði á einhvern í útvarpinu í morgun fjalla um síðasta landsleik karlaliðsins í fótbolta. Hann var nú ekki par sáttur við frammistöðu liðsins og vildi að ráðinn yrði erlendur þjálfari fyrir liðið. Einhver sem hefði náð alvöru árangri með lið! 

Ég sting nú upp á að Íslendingar gerist enn róttækari en það og ráði konu í jobbið! (Jamm árið 2007 þykir enn róttækt að ráða konur í sum störf Shocking) Nánar tiltekið sting ég upp á Helenu Ólafsdóttur. Hún náði þrusugóðum árangri með kvennaliðið. Stundum er það nú bara þannig að hæfasti maðurinn í jobbið er kona.  


Unifem að gera góða hluti!

Svona fyrst UNIFEM átakið er búið tók ég út myndbandið. Ástæðan sú að það spilast sjálfkrafa í hvert skipti sem síðan er opnuð - með tónlist og tilheyrandi. En gott málefni og UNIFEM að gera góða hluti nú sem endranær.
Screenshot_24

Skaðlegar staðalmyndir kynjanna

Í framahaldi af umræðunni um stöðu foreldra hér fyrir neðan og í samhengi við framtíðarsýnina er ekki úr vegi að fjalla aðeins um kynhlutverkin og skaðleg áhrif staðalmynda. Mynd segir meira en 1000 orð og því ætla ég að setja hér inn jafngildi yfir 2000 orða um þau kynhlutverk sem haldið er að kynjunum. Örugglega óþarfi að taka það fram að ég tel þetta vera skaðlegar staðalmyndir sem haldið er að börnunum... Fleiri en ég til í að berjast gegn þessu?

oskudagsbuningar


Framtíðarsýnin

Það er engin ástæða til að finna upp hjólið aftur... hér er framtíðarsýn vinnuhóps á vegum Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti. Finnst hún bæði falleg og góð... akkúrat það sem ég vil berjast fyrir og stefna að!

The Task Force’s vision is of a world in which men and women work together as equal partners to secure better lives for themselves and their families. In this world, women and men share equally in the enjoyment of basic capabilities, economic assets, voice, and freedom from fear and violence. They share the care of children, the elderly, and the sick; the responsibility for paid employment; and the joys of leisure. In such a world, the resources now used for war and destruction are instead invested in human development and well-being; institutions and decision-making processes are open and democratic; and all human beings treat each other with respect and dignity. 

Ef ég ætti að umorða þetta myndi ég ekki hafa þetta alveg svona gagnkynhneigt - og láta koma fram viðurkenningu á fjölbreyttari fjölskylduformum (fyrsta setningin). En að öðru leyti er það bara ansi gott!


Skaðleg efni í snyrtivörum

Eftirfarandi frétt er núna inn á ruv.is:

Blý í mörgum varalit

Blý er í meira en helmingi þekktra tegunda af varalit, og yfir hættumörkum í mörgum þeirra. Neytendasamtök í Bandaríkjunum segja að sérfræðingar í Santa Fe í Kalíforníu hafi athugað hvort blý væri í 33 þekktum tegundum varalits. Rannsóknin hafi ekki aðeins leitt í ljós að blý væri í tæplega tveimur þriðju þeirra, í þriðjungi væri meira af efninu en Matvæla-og lyfjaeftirlitið heimilaði að væri í sælgæti og öðrum neysluvörum barna. Ekkert blý hefði hins vegar verið í rúmum þriðjungi. Mest blý var í varalit frá Cover Girl, L 'Oreal og Christian Dior.

Af og til birtast fréttir um skaðsemi snyrtivara. Konur nota mun meira af snyrtivörum en karlmenn, þ.m.t. alls kyns krem o.þ.h. sem borið er á allan kroppinn. Húðin er eitt stærsta (eða stærsta?) líffæri líkamans. Húðin drekkur í sig efnin og þaðan komast þau í sumum tilfellum út í blóðrásina. Sumir viðurkenna þetta, aðrir en ekki. Nýlega sá ég auglýsingu fyrir sápur sem áttu að hafa ýmis áhrif með þessu móti, þ.e. út af upptöku efna í gegnum húðina. Önnur sápan var með koffíni og átti að hjálpa fólki að vakna og ég man ekki hvað var í hinni. Bent hefur verið á ýmis krabbameinsvaldandi efni í snyrtivörum, t.d. efnið paraben sem finnst í nær öllu; sápum, förðunarvörum, húðkremum, sjampóum o.s.frv.

Sumir reyna að komast hjá þessum aukaefnum með því að kaupa snyrtivörur sem merktar eru paraben free, náttúrulegar vörur eða með því að snúa sér að eldhússkápunum. Haframjöl og sykur, blandað með smá vatni er t.d. fyrirtaks scrub og olífuolía og kókosfeiti tilvalin body-lotion. Í Iron Jawed Angels sjást söguhetjurnar búa sér til varalit úr rósablöðum. Hef nú ekki prófað það og get því ekki kvittað upp á hversu árangursríkt það er... en það má alltaf prófa. 

Við sem neytendur treystum því oft að framleiðendur gæti sín á því að nota ekki skaðleg efni í þær vörur sem við kaupum. Því miður er sumum slétt sama og aðrir annaðhvort kjósa að hunsa upplýsingar um skaðsemi eða vita hreinlega ekki um hana (enda á örugglega eftir að koma mun meira í ljós um áhrif allra þeirra aukaefna sem við látum í okkur og á).    


Allt að gerast!

Stundum gerast hlutirnir hratt... Ég væri alveg til í að vera með fleiri hluti á hreinu og held að sumir sleppi vel sem ekki ættu að sleppa vel og að sumir séu blórabögglar. Eða hvað? Einhver þarf að axla pólitíska ábyrgð á REI málinu - ég bara er á því að það sé ekki einn heldur margir.

Ásakanir hafa gengið á víxl en það er ekki þar með sagt að sannleikurinn sé kominn fram. Í raun er þetta eitt af þeim málum sem væri skynsamlegt að rannsaka og komast til botns í. Þá er hægt að láta þá sem eru ábyrgir axla ábyrgðina. Í öllu falli er ljóst að þetta er klúður...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 332474

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband