Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Gott að vera í forystu

Hjartað í mér tók kipp þegar ég las í Fréttablaðinu í morgun að búið væri að jafna verðlaunafé kvenna og karla á Wimbletonleikunum. Ekki að þetta hafi verið nýjar fréttir - það eru nokkrir dagar síðan þetta birtist fyrst í fréttum. Gleðin stafaði af því að ég hugsaði um þegar verðlaunaféð var jafnað í Landsbankadeild kvenna og karla hérna heima. Það er gaman að vera í forystu í jafnréttismálum. Það er eitthvað sem gerir mig stolta af því að vera Íslendingur... 

Við höfum sama tækifærið upp á borðum núna varðandi klámið - getum tekið forystu í baráttunni gegn kláminu. Það er undravert að nást skyldi þverpólitísk samstaða um málið, bæði í borgarstjórn og á alþingi. Ég held að pólitíkusar séu kannski að átta sig á alvöru málsins og að þetta sé lykilatriði í baráttunni gegn vændi, mansali og kynferðisofbeldi.

En það er skrýtið að fylgjast með fjölmiðlum. Nokkrir hafa barið sér á brjóst og lýst því yfir að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar hafi viljað fá klámhópinn til landsins í kjölfar þess að Fréttablaðið birti niðurstöður úr könnun sinni. Það er hins vegar rangt að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar hafi viljað fá hópinn til landsins. Á meðal kvenna var skiptingin nokkuð jöfn. Rétt tæpur meirihluti sammála ákvörðun Hótel Sögu og rétt rúmlega helmingur kvenna á móti. Hjá körlum var skiptingin hins vegar þannig að þar er hægt að tala um yfirgnæfandi meirihluta - mig minnir að þar hafi skiptingin verið ca 70/30. Segir sitt um mismunandi afstöðu kynjanna...

Heildarniðurstaðan úr könnuninni, óháð kyni, var að 61% voru á móti ákvörðun Hótel Sögu. Þetta er kallaður yfirgnæfandi meirihluti af sumum. Ég vona að þeir hinir sömu muni það næst þegar talið berst að kynjaskiptingu í þrískiptu valdi lýðræðisins - þar sem karlar eru með yfirgnæfandi meirihluta - og sumir stefna á 60/40 skiptingu sem "sanngjarna" skiptingu...

En annars gaman að sjá að stjórnmálamenn eru að taka á þeirri vá sem stafar af klámiðnaðinum - án þess að vera með popúlismann efst á blaði... það er slæmt að fylgja fordæmi klámhundanna í hvort gripið skuli vera til aðgerða eða ekki. Það er einfaldega of mikið í húfi. 

Má svo til að bæta því við að ég er sannfærð um að niðurstöður könnunar Fréttablaðsins hefði orðið allt öðruvísi ef fólk hefði vitað hvers konar efni var að finna á heimasíðum væntanlegra þátttakenda. Fjölmiðlar mega gjarnan taka til umhugsunar hvort þeir hafi komið því til skila...  


Tekjur ekki nauðsynlegar

Sem betur fer eru þeir dagar liðnir þegar fólk þurfti að fara bónleið til bankastjórans, útlista nákvæmlega hvað þeim vantaði pening í og vera svo upp á náð og miskunn bankastjórans komin varðandi lán. Því miður eru hins vegar þeir dagar komnir að við erum komin akkúrat á hinn enda öfgana. Ég frétti um helgina að einn bankinn sendir bréf til þeirra sem verða 18 ára. Hamingjuóskir eru auðvitað við hæfi þegar fólk stígur sín fyrstu skref inn í fullorðinsárin. Hins vegar fylgir með hamingjuóskinni tilboð um 40.000 kr yfirdrátt á engum vöxtum í 3 mánuði. Þvílíkur happafengur fyrir fólk daginn sem það verður fjárráða - sérstaklega fólkið sem er í skóla, ekki með neinar tekjur heldur býr heima hjá foreldrum og er á framfærslu þeirra. Bankinn gerir nefnilega engar kröfur um tekjur... 

Kvenhetjur

Ég horfi venjulega á Heroes og finnst þættirnir bara ansi skemmtilegir. Það er samt eitt sem ég er ekki alveg að fíla við þáttinn - og það er þetta með að bjarga klappstýrunni. Eins og þættirnir eru nýjir og ferskir að mörgu leyti þá eru 2 fyrstu kvenhetjurnar sem kynntar eru til sögunnar klappstýra sem þarf að bjarga og kona sem situr fáklædd fyrir í gegnum webcam.  Í þættinum í kvöld var kynnt til sögunnar rosalega klár kvenhetja - gat munað allt. Hún var drepin... Tom Cruise hvað ég vona að þetta fari batnandi eftir því sem lengra líður á þættina.

Misskilin minnimáttarkennd

Átti fína helgi - nokkuð normal helgi fyrir utan að hér var hvorki tekið til né horft á klám! En það var bakað, eldað, passað, horft á sjónvarpið, sett upp útiljós og tekið á móti gestum!

Ungur Sjálfstæðismaður setti inn tengil á grein eftir unga Sjálfsstæðiskonu í kommentakerfið. Ég auðvitað kíkti á greinina en get ekki sagt að ég hafi verið neitt sérstaklega hrifin. Fyrir það fyrsta þá segir ungi Sjálfsstæðismaðurinn að greinin sé um okkur í Femínistafélaginu. Greinin hins vegar fjallar um femínískar jafnaðarkonur - sem eru yndislegar, æðislegar og allt þar á milli, en FÍ er hins vegar þverpólitískt félag með konur (og körlum) úr öllum flokkum innanborðs. Meira að segja líka með konur í öllum flokkum - eða allavega í mörgum flokkum... En það er nú önnur saga. Í greininni fjallar unga konan um minnimáttarkennd... Svo ég vitni beint í greinina:

Jafnrétti er fyrst og fremst hugarfarsbreyting. Þess vegna ættu femínískar jafnaðarkonur að hefja málefnalega jafnréttisbaráttu sína á því að losa sig við þá minnimáttarkennd sem einkennir málflutning þeirra. Konur verða hafa trú á sjálfum sér svo aðrir geti einnig haft trú á þeim. Eins og staðan er í dag þá viðurkenna femínískar jafnaðarkonur fyrir sjálfum sér að það sé veikleiki að vera kona með því að halda því fram að samfélagið eigi að koma öðruvísi fram við þær en karla.

Miðað við stöðuna í dag - þar sem karlar eru með meirihlutavald í öllum þrem hornsteinum lýðræðisisn - löggjafarvaldinu, framkvæmdarvaldinu og dómsvaldinu - og karlar fara líka með meirihluta peningavaldsins (nema ráðstöfunartekjur heimilisins) og eru með yfirgnæfandi meirihlutavald í viðskiptalífinu... miðað við þessa stöðu finnst mér svolítið fyndið að kalla það minnimáttarkennd að ætla að konur eigi að hafa meira af þessum völdum. Hefði frekar kallað það minnimáttarkennd að sætta sig við að karlar fari með öll þessi völd... ef þið skiljið hvað ég meina. 


Veistu?

Veistu muninn á:

Klámi, klámvæðingu, kynlífsvæðingu, erótík, nekt, hlutgervingu, staðalímyndum, kynlífi, kynferðislega opinskáu efni?

Spurning hvort þetta þurfi ekki að vera næsta umræðuefni...


Make love, not porn

Í dag er góður dagur fyrir kynfrelsið og ástina! Til hamingju.

Frábært :)

Konur dæma saman í fyrsta skipti

Fyrr í vetur gerðist það að kona dæmdi í fyrsta skipti leik í efstu deild í körfubolta á Íslandi. Það var þegar Indíana Sólveig Marquez dæmdi leik ÍS og Keflavíkur í Iceland Express deild kvenna. Eftir það hefur Indíana dæmt fleiri leiki í þeirri deild og einnig hefur Georgía Olga Kristiansen dæmt nokkra leiki þar.

Í kvöld mun það svo gerast að þær tvær munu dæma saman leik Hauka og Breiðabliks í Iceland Express deild kvenna og mun þetta vera í fyrsta skipti sem tvær konur með dómarapróf dæma saman körfuboltaleik á Íslandi.

Ps. Gleymdi að geta heimildar! Leiðréttist hér með...


Ertu á móti kynlífi?

Ég fékk sms í kvöld þar sem mér var bent á afspyrnu lélega fréttaflutning Stöðvar 2 af fyrirhuguðu klámþingi. Ég fór að sjálfsögðu á netið til að kíkja á fréttina og verð að segja að ég hef sjaldan séð jafn óvandaðan fréttaflutning af nokkru máli. Ég sendi bréf á Sigmund Erni og Heimi Már og skildi jafnframt eftir skilaboð upp á Stöð 2 til Sigmundar Ernis um að hringja í mig. Hann hringdi - því miður. Áður en ég gat útskýrt málið greip hann fram í og við vorum ekki búin að tala saman lengi þegar hann spurði að þessari klassísku spurningu:

Ertu á móti kynlífi?

Viðurkenni alveg að þetta sló mig gjörsamlega út af laginu og Sigmunur náði með þessu að gera mig reiðari en ég hef verið í langan tíma. Við rifumst um fréttaflutninginn í smá stund en ég skil mjög vel á þessari stundu af hverju fréttaflutningurinn þeirra er svona óvandaður... og af hverju það eru harla litlar líkur á að hann breytist...

Já og best að bæta því við - í fréttinni um klámið sem er til staðar á Íslandi var ekki minnst á klámið sem 365 selja í sínum sjónvarpspakka! Tilviljun? Ja, þegar stórt er spurt... 


Þrjár góðar fréttir á einum degi

Valgerður Sverrisdóttir er heldur betur að slá í gegn sem utanríkisráðherra. Hún byrjaði á því að hleypa konum inn og nú talar hún um hvernig það er að vera kona í pólitík - og að hún þekki margar konur sem eru mjög hæfar í öll ráðherraembættinn sem konur hafa aldrei gengt. Mun minna bar á jafnréttisáherslum Valgerðar þegar hún var iðnaðar- og viðskitparáðherra. Ég man samt eftir þegar ég las jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar að mér fannst stefnan í ráðuneyti Valgerðar einna best. En hvað ætli valdi þessari skyndilegu breytingu? Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki einfaldlega að nú er stutt eftir af valdatíma Valgerðar og að hún geri ekki ráð fyrir að halda áfram sem ráðherra eftir kjörtímabilið. Kannski er málið einmitt að nú er hún ekki hrædd um að tapa völdum og þar af leiðandi finnist henni hún geta talað hreint út - og kemst svo bara að því að það að tala hreint út og fylgja sinni hugsjón er einmitt það sem slær í gegn Smile Anyways... er mjög ánægð með Valgerði!

DV virðist vera hætt að birta súlustaðaauglýsingar í blaðinu. Segi nú bara eins og Beta. Bravó! Sigurjón hlaut að taka til eftir að hann tók við.

Þriðja góða fréttin frá því í gær er að borgarstjórn samþykkti ályktun gegn kláminu. Annað Bravó fyrir því. Þetta er mjög stór áfangi í jafnréttisbaráttunni - enda er þessi málaflokkur einna þyngstur í vöfum í baráttunni í dag.


Stefnubreyting

Áhrif klámvæðingarinnar eru greinilega komin í ljós. Hér hefur hver drengurinn á fætur öðrum reynt að réttlæta tilvist ofbeldisfulls kláms og tilvísana í barnaklám. Mér finnst æði fjarstæðukennt að ætla að rökræða við þessa drengi um hvort þessi tegund af klámi sé skaðlaus og í lagi. Bendi þeim bara á að setjast niður með mæðrum sínum og systrum - sýna þeim efnið (ekki ungum systrum samt - verða að vera yfir 18 og vinsamlegast látið aðvörun um efnisinnihald fylgja og samþykki um að ræða málið) og spyrja þær hvort það er í lagi. Hafa síðan í huga að ef þær segja nei þá ættu þeir að hlusta án þess að efna til rifrildis eða rökræðna - svona til að sýna þeim að þeim þyki nú ogguvænt um konur.

Þar sem klámiðnaðinum hefur greinilega tekist að heilaþvo þessa einstaklinga gjörsamlega ákvað ég að breyta um stefnu. Ég hef uppfært athugasemdakerfið upp á security level 2 - nú þurfa óskráðir notendur að gefa upp netfang og staðfesta slóðina til að geta sett inn athugasemdir. Bið skemmtilega, heilbrigða og óheilaþvegna notendur að fyrirgefa þetta aukastúss. 


Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband