Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Öðruvísi mér áður brá...

Iceland Express tilkynnti fyrir helgi fyrirætlanir um innanlandsflug frá Reykjavíkurflugvelli auk þess að hefja flug til erlendra borga þaðan. Ok - innanlandsflugið er eflaust fín hugmynd. Væri gott að hafa smá samkeppni þar. Hins vegar á ég erfiðara með að skilja yfirlýsingar um flug til útlanda. Nú er mikið rætt um staðsetningu flugvallarins og það ónæði sem af honum hlýst. Ég sé því ekki tilganginn með að "efla" Reykjavíkurflugvöll með þessum hætti. Einnig finnst mér skrýtið að Iceland Express spái ekki í hvaða áhrif þetta hefur á ímynd flugfélagsins. 

Annað mál þessu skylt eru umhverfisáhrifin. Ég held að í nánustu framtíð munum við sjá auknar hömlur á flugi og hvatningu um að ferðast minna - styttra og sjaldnar.  


Gaman!

Svakalega fannst mér gaman að heyra um fjárfestingarsjóðinn sem Halla Tómasdóttir og Kristín Pétursdóttir ætla að koma á laggirnar í haust og nýta þar bæði þekkingu og fjármagn kvenna. Smile

Allt í köku... eða klessu

Mér líður eins og ég stundi áhættuíþróttir í augnablikinu. Búin að fljúga tvisvar á hausinn það sem af er sumri... Samt er ég ekki að gera neitt sem er eins hættulegt og Formúlu 1 gaurinn sem ég sá tvisvar í sjónvarpinu í kvöld. Á sama tíma og landinn er í þjóðarátaki gegn ofsaakstri, Sniglarnir henda fyrrverandi formanni úr samtökunum fyrir ofsaakstur og heilbrigðisstarfsfólk gengur gegn umferðarslysum hampar Ríkisjónvarpið íþrótt sem gengur út á ofsaakstur og þeim sem hana stunda sem ofurhetjum... Jamm rökrétt! Shocking Ekki nóg með að gaurinn sé "hetja" - hann á afmæli og af því tilefni er hringt í Ungfrú Ísland og hún fengin á staðinn með köku. Er engin PR manneskja í kringum þetta batterí? Á sama tíma og þau eru að reyna að sannfæra þjóðina um að þátttaka í fegurðarsamkeppni sé góður stökkpallur fyrir lífið þá láta þau þá sem er svo ótrúlega "heppin" að vinna poppa upp hjá einhverjum gaur með köku - eins og um fylgdarþjónustu sé að ræða. Er ekki einhver til í að gauka að þeim að það sé ekki rétta leiðin til að afla keppninni virðingar heldur ýti undir að litið sé á keppnina sem gripasýningu og kúgun kvenna? 

Og jújú... mér finnst konusýningar fáránlega hallærislegt fyrirbæri sem alvöru þenkjandi þjóð væri búin að dissa fyrir löngu... og er svo sem ánægð á meðan þau skjóta sig í fótinn... en samt! 


Yrðum við sátt?

Segjum sem svo að einhver ríkisstjórnin myndi ákveða að banna áfengi og klám í Reykjavík í þeim tilgangi að stemma stigu við kynferðisofbeldi gegn börnum. Í öðrum sveitarfélögum yrði ekki gripið til sömu aðgerða. Segjum sem svo að Reykvíkingar yrðu óánægðir með leiðina sem er valin og ákvæðu í framhaldinu að banna ferðamönnum að koma til Reykjavíkur. Segjum sem svo að í kjölfarið af því birtust fréttir út um allan heim sem segðu að Reykvíkingar bönnuðu ferðamenn í Reykjavík vegna þess að þeir væru ósáttir við að reynt væri að stemma stigu við kynferðisofbeldi gegn börnum.

Værum við sátt við svona fréttaflutning? Þætti okkur hann sanngjarn og lýsandi fyrir ástæður óánægjunnar? Ekki það... Er nokkuð ástæða til að ætla að því sé öðruvísi farið með frumbyggja í Ástralíu þar sem nákvæmlega þetta gerðist?

Frétt af ruv.is:

Ástralía: Frumbyggjar bregðast við áætlun stjórnvalda

Ástralskir frumbyggjar hafa hótað að meina ferðamönnum aðgang að fjallinu Uluru vegna nýrrar áætlunar ástralska stjórnvalda sem stemma á stigu við misnotkun á börnum í samfélögum frumbyggja. Fjallið Uluru er eitt helsta aðdráttaraflið í augum margra sem ferðast um Ástralíu.

Í nýrri skýrslu sem unnin var fyrir þarlend yfirvöld kemur fram að misnotkun sé mjög útbreidd í samfélögum frumbyggja. Við það bætist þættir eins og fátækt, áfengis og eiturlyfjaneysla sem auki enn á þennan vanda og þá er einnig fundið að heilbrigðis- og félagsþjónustu innan samfélaganna. Þó sumir frumbyggjaleiðtogar hafi lýst ánægju sinni með tillögur stjórnvalda segja aðrir þær óframkvæmanlegar. Hinir sömu fullyrða að þessar áætlanir séu í raun dulbúin leið ríkisstjórnarinnar til að ná á ný yfirráðum yfir landsvæðum frumbyggjanna.


Getum betur

Stóð og spjallaði við vin minn áðan, rétt hjá Landakotsspítala. Við tökum eftir því að 2 konur í hvítum sloppum eru að reyna að fá gamlan karlmann til að fara inn á spítalann en hann streitist á móti og vill greinilega ekki fara inn. Skömmu seinna geng ég þarna fram hjá. Þá hefur hersingin færst nær innganginum en nú eru konurnar orðnar 3. Þær reyna að tala manninn til. Klappa honum vinalega á bakið og reyna að ýta honum varlega í átt að innganginum. En hann vill ekki inn. Hann vill vera úti. Ekki veit ég hvort hann langaði bara til að spóka sig um í sólinni eða hvort hann hafði einhvern áfangastað í huga en það nísti í hjartað að sjá hversu slæm aðstaða fyrir aldraða er. Mér fannst eins og maðurinn væri fangi. Hann átti að vera inni á sjúkrastofnunni og greinilegt að ekki er nægilegt starfsfólk til að rölta með sjúklingana um hverfið í veðurblíðunni. Ég vorkenndi öllum þeim sem stóðu þarna fyrir utan. Konunum fyrir að þurfa að reyna að fá manninn inn og manninum fyrir að vera ekki frjáls ferða sinna. Í eitt augnablik hvarflaði að mér að bjóðast til að fara með manninn í gönguferð um hverfið. Hætti þó fljótt við það. Ég þurfti að fara að vinna og vissi engin deili á manninum né hvers konar umönnunar hann þarfnast. Hann var samt greinilega nógu hress til að vera úti þó hann væri kannski ekki nógu hress til að geta verið einn á ferð. Ég skoðaði umhverfi spítalans og sá að þar er garður. Hann er opinn og eitthvað af fólki sat í garðinum. Ég veit ekki hvort það voru sjúklingar eða starfsmenn - eða bæði. Þar sem ég veit að á spítalanum er gamalt fólk í alls konar ástandi sem þarf að hafa eftirlit með, m.a. fólk sem er heilabilað og er lokað inn á deild, fór ég að velta því fyrir mér af hverju í ósköpunum það væri ekki verndað svæði úti við svo fólk geti notið veðurblíðunnar. Ætti ekki að vera slík aðstaða alls staðar þar sem fólk sem ekki er í standi til að sjá um sig sjálft er? Það er hreinlega mannvonska að ætla gömlu fólki að húka inni síðustu ævidagana, -mánuðina eða -árin. Við getum alveg gert betur.

Af hverju ekki sérfræðiþekking?

Nú er búið að auglýsa laust til umsóknar starf framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu. Auglýsinguna má lesa hér.  Það sem vekur athygli mína er að á sama tíma og í gangi eru auknar kröfur um að þeir sem starfi að jafnréttismálum hafi aflað sér þekkingar á málaflokknum, þá er engin krafa um sérfræðiþekkingu í auglýsingunni. Vona nú samt að þetta þýði ekki að það verði bara einhver ráðinn - með sérþekkingu á bönunum eða eitthvað álíka. Ætla sem sagt að vera bjartsýn þangað til annað kemur í ljós... en finnst það ekki eins faglegt og það ætti að vera að gera ekki kröfu um þekkingu á jafnréttismálum. Er næstum eins og að auglýsa eftir lögfræðingi án lögfræðimenntunar Shocking 


Innbyrðum 2 kg af eiturefnum árlega...

Í fréttum RUV um helgina var sagt frá því að konur sem nota mikið af snyrtivörum geti verið að innbyrða 2 kg af eiturefnum árlega í gegnum húðina. Viðkomandi sérfræðingur sem hélt þessu fram (minnir að það hafi verið bandarískur karlmaður) vill meina að eiturefni sem eru innbyrt inn um húðina séu okkur hættilegri en það sem er innbyrt í gegnum fæðu.

Frelsinu fylgir ábyrgð

Fyrst eftir að Femínistafélagið var stofnað hefði ég að öllum líkindum sagt að ég vildi ekki svona lög. Ég myndi frekar vilja að hægt væri að vinna bug á þessu með því móti að fólk myndi ákveða sjálft að hafna misréttinu og kúgununni. Núna 4 árum seinna er ég hlynnt lögunum. Þegar fólki virðist skítsama þó að svona staðir séu bendlaðir við vændi og mansal og þegar pólitíkus kemst upp með að halda verndarhendi yfir staðnum sem bæjarstjóri... og sem tíður gestur á staðnum... þá er eitthvað verulega mikið að og þörf á harðari aðgerðum. Ég er líka á því að það sé sjálfsagt að binda mannréttindi í lög. Mér hefur sýnst að þeir sem gala hvað hæst um frelsi gali líka hæst um ábyrgðarleysi. Á sama tíma og barist er fyrir meira frelsi í samfélaginu er eins og hér ríki lögregluríkisshugsunarháttur hjá sumum - þ.e þeim finnst að allt sem er löglegt sé sjálfkrafa bæði leyfilegt og siðlegt. Alvöru frelsi virkar hins vegar ekki þannig - frelsinu fylgir nefnilega mikil ábyrgð um að fólk setji sér sjálft siðferðismörk og gæti þess að mismuna ekki fólki eða beita það misrétti. Súlustaðir eru staðir þar sem karlar geta komið saman og stundað kvenfyrirlitningu - og keypt sér konur. Á tímum mannréttinda mun það ekki tíðkast. Því miður eru þeir tímar ekki komnir enn. 
mbl.is Einkadansinn líður undir lok
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjúklingum skóflað út á land

Nú berast fréttir af því að einhver hafi fengið þá "brilliant" hugmynd að flytja sjúklinga af höfuðborgarsvæðinu út á land. Ég velti fyrir mér hvernig á að velja sjúklingana? Þá sem eiga enga aðstandendur? Þá sem er illa við aðstandendur sína eða aðstandendum er illa við þá? Þá sem eru dauðvona? Þá sem eru alvarlega veikir eða þá sem eru bara með eitthvað smá svo þeim er enginn vorkunn þó enginn komi og styðji við bakið á þeim í veikindum? Börn svo foreldrar geti einbeitt sér ótruflað að vinnunni? Aldraða sem eru of veikburða til að mótmæla??? Bara spyr.

Önnur lausn væri að hækka laun hjá hjúkrunarfræðingum, ljósmæðrum og sjúkraliðum svo þær vilji vinna á spítalanum. Wink

Stundum hef ég á tilfinningunni að það sé verið að rústa heilbrigðiskerfinu viljandi svo það verði hægara um vik að einkavæða! 


Til hamingju

Óska landsliðinu í fótbolta til hamingju með sigurinn. Sá fyrri part leiksins og það var augljóst að "stelpurnar okkar" báru af! Smile

Næsta síða »

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 332481

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband