Óbeisluð fegurð

Fór á heimildarmyndina Óbeisluð fegurð á föstudaginn. Þetta var frumsýningin og því mættu aðstandendur myndarinnar og sögðu okkur frá myndinni og svöruðu spurningunum. Ég fylgdist spennt með "fegurðarsamkeppninni" Óbeisluð fegurð sem haldin var í apríl á þessu ári. Þetta er flott koncept og það er mikill fengur að heimildarmyndinni. Hún er mjög skemmtileg og fangar vel kraftinn, gleðina og fegurðina sem fólst í þessari aðgerð. Alveg hreint yndislegt og ég vona eindregið að RUV sjái sóma sinn í því að sýna myndina.

Mér skilst að það sé mikill áhugi fyrir myndinni erlendis - mun meiri áhugi en er hér heima... Sagan á bak við heimildarmyndinna er líka sérlega falleg. Önnur kvikmyndagerðarkonan, Tina Naccache, var heima hjá sér í Beirút að vaska upp og hlusta á BBC. Þá heyrir hún frétt um að til standi að halda fegurðarsamkeppnina Óbeislaða fegurð á Íslandi. Hún hringir í Hrafnhildi Gunnarsdóttur og segir henni að þær verði að gera mynd um keppnina. Og það var það sem þær gerðu. Sem betur fer. Kærar þakkir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Mér finnst þetta uppátæki með betri innleggjum í "fegurðarkeppnisumræðuna" sem fram hefur komið, til þessa.  Hreint frábært alveg.

Takk fyrir pistil.

Jenný Anna Baldursdóttir, 8.10.2007 kl. 11:52

2 Smámynd: Landamaeravordurinn

Er að halda fegurðarsamkeppni sem gengur út á eitthvað annað en fegurð ekki eins og að halda sundkeppni fyrir þá sem ekki kunna að synda? Er ekki viðeigandi að halda "ekki-það-fegurðarsamkeppni"?

Landamaeravordurinn, 8.10.2007 kl. 15:40

3 identicon

Spurningin er mikið frekar, hvað er fegurð, það sem þér þykir fegurð Landamæravörður verður aldrei neitt annað en þín skoðun og við hin höfum líka skoðanir á því, er þín skoðun endilega réttari en mín ?

Sigurbjörg (IP-tala skráð) 8.10.2007 kl. 15:48

4 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Keppnin gekk út á fegurð - óbeislaða fegurð. Var mjög fallegt. Mæli með myndinni.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 8.10.2007 kl. 15:48

5 identicon

Já keppnin gekk klárlega út á fegurð. eða öllu heldur skort á henni.

Mér var verulega skemmt að lesa ummæli fólks um að "það sé ekki hægt að keppa í fegurð" og síðan koma "keppendurnir" fram sem greinilega hafa verið bornir saman við sama skala og keppendur í alvöru fegurðarsampennum, nema hvað þessir voru allir á lægri endanum.

Það sem þessi keppni gerði var fyrst og fremst að undirstrika að það sé hægt að keppa í fegurð og brandarinn var allur á kostnað þeirra sem létu hafa sig í að taka þátt í þessari vitleysu.  Svona eins og þegar þingmenn kvennalistans töldu sig vera að mótmæla "hlutgervingu kvennalíkamans" með því að mæta í sundbolum á þingfund.

Fransman (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 08:18

6 identicon

Er það niðurstaðan að við eigum dásama ljótleikann og hylja það sem er fagur & sexy

DoctorE (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 09:05

7 identicon

DoctorE. Ertu að segja að þessar konur sem tóku þátt í "Óbeislaðri fegurð" séu ljótar?

Guðrún (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 10:13

8 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Ágæti Fransman þú hefur alveg misskilið uppákomuna eða kannski ekki kynnt þér málið.  Vinningshafinn var dregin úr hatti því ekki er hægt að keppa í fegurð. Umgjörðin og aðrir vinningar voru til þess geriði að gera grín að verðlaunum og titlum í hinum hefðbundnu keppnum.  Sem dæmi má nefna titla eins og hr og fr. Nói og Góa í stað LCN stúlkan og Oroblu stúlkan. 

Kæri DoctorE hugmyndin var að dásama það fallega í okkur öllum enda er fegurðarskyn mjög persónulegt.  Það sem einum kann að finnast fallegt finnst öðrum einfaldlega ekki heillandi.

Keppnin og myndin er háðsádeila á útlitsdýrkun nútímans.  Gerð til að vekja upp spurningar og sýna fram á að Það er ekki til nein ein rétt fegurð.   

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 9.10.2007 kl. 10:27

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þeir herramenn sem hér leggja dóm á myndina hafa örugglega séð hana og kynnt sér efnið og tilurðina.  Það getur ekki verið að menn dæmi svona út frá einstaka punkti eða bara af umfjölluninni.  Eða hlýtur þetta bara að vera ómögulegt vegna þess að hér hefur feministi umræðu um myndina ?   Nei svoleiðis gera menn ekki.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.10.2007 kl. 10:41

10 Smámynd: Harpa Oddbjörnsdóttir

Fransman og DoctorE, aaaarrrg!! Kynnið ykkur málið áður en þið tjáið ykkur um það í guðanna bænum.

Ég held að Áshildur hafi hitt naglann á höfuðið þarna, einungis vegna þess að feminsti hefur umræðu um myndina þá sér fólk eins og Fransman og DoctorE sig knúið til að koma með athugasemdir byggðar á fáfræði.

Góðar stundir

Harpa Oddbjörnsdóttir, 9.10.2007 kl. 10:45

11 identicon

"fangar vel kraftinn, gleðina og fegurðina sem fólst í þessari aðgerð"

"Sagan á bak við heimildarmyndinna er líka sérlega falleg."

Ég er svolítið á báðum áttum. Ef þessi orð eru notuð í háði þá finnst mér þetta nokkuð sniðugt hjá þér. Ef ekki þá set ég stórt spurningamerki. 

Jón Gunnar Ásbjörnsson (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 12:42

12 identicon

Jón. Af hverju þarf þetta að vera í háði? Hvað er að því að finnast þessi aðgerð falleg? Eða að hugmyndin á bak við myndina sé falleg?

Guðrún (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 13:29

13 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Fransman og DoctorE - týpískt hjá ykkur að koma hingað og kalla fólk ljótt - nafnlaust. Gunguháttur myndi þetta kallast hjá sumum... 

Jón Gunnar - nei það er ekkert háð í þessu. Myndin er virkilega falleg og frábær. Mæli með að þú tékkir á henni.

Einu sinni fór ég í viðtal hjá Fréttablaðinu þar sem ég var spurð út í bestu og verstu kaupin mín. Verstu kaupin tilgreindi ég að væru þegar ég hefði á unglingsaldri keypt þá hugmynd að fegurðarsamkeppnir væru sniðugt og skaðlaust fyrirbæri. Sem betur fer áttaði ég mig tiltölulega snemma á fullorðinsárum - ca um 22 ára aldurinn. Fegurð sem er takmörkuð við að vera kona á aldrinum 18 - 24 ára, undir kjörþyngd, ógift og barnlaus og yfir 170 á hæð er bara absúrd skilgreining... sannkallaðir öfgar.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 9.10.2007 kl. 16:17

14 identicon

"Jón. Af hverju þarf þetta að vera í háði? Hvað er að því að finnast þessi aðgerð falleg? Eða að hugmyndin á bak við myndina sé falleg?"

Ég hélt að Katrín Anna hefði verið í háði að notfæra sér afstæðu hugtaksins "fallegur" þar sem hugtakið varðar mjög málefnið í bæði fegurðarsamkeppnum og myndinni sem bloggið er um. En auðvitað má Kartín Anna nota orðið yfir það sem henni finnst fallegt. Ég var meira að velta þessu fyrir mér. Efast ekki um ágæti myndarinnar.

"Myndin er virkilega falleg og frábær. Mæli með að þú tékkir á henni." 

Ég efast ekkert um ágæti myndarinnar og eflaust á ég eftir að horfa á hana einhverntíman. Sjálfum finnst mér fegurðarsamkeppnir svo hallærislegar að  aulahrollurinn leynir sér ekki þegar ég sé þetta í sjónvarpinu. Svo eru skilyrðin sem þú bendir á alveg fáranleg. Þetta væri skömminni skárra ef matið yrði á geðþótta einhvers út í bæ en það mega greinilega ekki allir taka þátt. Fegurðasamkeppni karla gefur keppni kvenna lítið eftir þegar kemur að fáranleika og hallæri.

Jón Gunnar Ásbjörnsson (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 17:33

15 identicon

Finnst engum nema mér og Jóni það skrýtið að nota hugtakið "fallegt" um mynd sem snýst að mestu leyti um það að ekki skuli vera hægt að mæla fegurð?

Guðmundur Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 20:17

16 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Guðmundur held þú sért gjörsamlega að missa af pointinu með aðgerðinni og myndinni... Vona að fáum finnist skrýtið að finnast margt í heiminum fallegt. Ég myndi frekar gagnrýna það sjónarmið sem kemur fram hjá nafnlausu gaurunum sem hafa ekki kjark til að koma fram undir nafni - en sem afhjúpa að þeim finnst fátt í heiminum fallegt - ekkert nema konur á aldrinum 18 - 24 ára, ógiftar, barnlausar, undir kjörþyngd og yfir 170 á hæð... það er eitthvað sem mér finnst afskaplega fjarstæðukennd túlkun á fegurð - og í raun ekki mannfólkinu sæmandi. Við segjumst jú hafa heila... Samt eru sumir ginkeyptir fyrir þessari skrýtnu fegurðarskilgreiningu og finnst bara afskaplega sniðugt í að keppa í hver er sætust... og margir á sama tíma og þeir segja líka að það sé afskaplega grunnhyggið að vera svona upptekin/n af útlitinu... allt mjög þversagnarkennt. 

Margir misskilja gagnrýni á fegurðarsamkeppnir og túlka það sem árás á fegurð. Það er hin mesta fásinna, enda bendum við marg oft á að markmiðið sé að meta margbreytileikann.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 9.10.2007 kl. 22:29

17 identicon

Katrín og aðrir Femínistar : fegurðarskyn manna er innbyggt, það varð til þegar forfeður okkar og mæður notuðu útlit fólks til að leggja dóm á hversu heppilegur viðkomandi einstaklingur væri til að búa til með honum afkvæmi.

Ef þið skoðið hvað það er sem telst "fallegt" þá er það t.d. slétt, mjúk og hrein húð, hreint og glansandi hár, heilar tennur, samhverft andlit, sem er merki um gott genamengi og að að viðkomandi beri sig vel, sem er merki um ynnri stöðugleika.

Allt þetta hérna fyrir ofan var, fyrir 200.000 árum og líklega áður, merki um að viðkomandi einstaklingur væri laus við sjúkdóma, borðaði vel og væri að öðru leyti heppilegur uppalandi.  Það er líka þess vegna sem okkur körlunum þykja yngri konur, sem eru ennþá með líkamleg merki frjósemi meira aðlaðandi en þær sem eru komnar af þeim aldri.

Við karlarnir erum aftur á mót frjóir mun lengur en konurnar þannig að konur leita oftar að "félagslegri stöðu" heldur en líkamlegu útliti.

Þið sem setjið á ykkur snyrtivörur til að fá fram eða leggja áherslu á þessi líkamlegu "fallegu" atriði, svo sem mjúka húð eða rauðar varir, eruð að spila á þetta meðfædda fegurðarmat fólks.

Fransman (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 11:26

18 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Fransman - og hvað með okkur hin sem höfum ekki eins takmarkað fegurðarskyn? Erum við kannski bara sjúk?  

Fegurðarskyn er eflaust að vissu leyti innbyggt en það þarf ekki nema smá athugun á hvað hefur þótt fallegt í gegnum tíðina - og hvað þykir fallegt í mismunandi menningarsamfélögum til að sjá að fegurð er einnig að stórum hluta til menningarlega skilgreint fyrirbæri.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 10.10.2007 kl. 11:47

19 identicon

Katrín: vissulega eru tískusveiflur og þrístingur frá samfélaginu hefur áhrif á það hvernig fólk vil líta út. En þetta sem ég nefndi hérna að ofan hefur ekkert breyst í gegnum tíðina.. Það hefur aldrei þótt fallegt að vera bólugrafinn og ganga hokinn í herðum eða vera með þurrar og sprungnar litlausar varir.

Þið Femínistar eruð að gera marga góða hluti, og það að berjast gegn Anorexíu er einn þeirra, þó svo maður fái stundum á tilfinninguna að þið hafið meiri áhuga á að nota sjúkdóminn sem barefli í stríðinu gegn "staðalímyndum".

Elísabet: nú held ég verði að segja eins og Katrín "hugsaðu".. Silíkon brjóstastækkanir voru ekki til þegar forfeður okkar mótuðu sitt "fegurðarskin".. Þá voru stór brjóst alvöru, og karlmenn gátu verið vissir um um hvað þeir fengju fyrri afkvæmi sín.

Tískusveiflur eins og "Twiggy" koma og fara, og meðfætt fegurðarmat mun alltaf snúa aftur.

En Elísabet, af hverju hefurðu þennan áhuga á mér og hvað ég sé gamall ?

Fransman (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 13:13

20 identicon

Brjóstastærð hefur lítið að gera með frjósemi, nema viðkomandi sé svo grönn að hún hafi ekki brjóst.  Það sem ég skrifaði var að í þá tíma voru afkvæmin fyrst og fremst fóðruð á því sem kom úr brjóstunum.  Þessvegna er hæfilegur skammtur af brjóstum álitinn eftirsóknarverður. (ég er ekki að tala um ýktar blöðrur sem maður sér stundum myndir af)

1) Af hverju þykir þér það vera hringskýring að samfélagið geti haft áhrif á fegurðarmat okkar ?  Ég er ekki alveg að skilja þig ?  Hlutir eins og brjóst, rauðar varir, hrein og mjúk húð hafa alltaf þótt fallegir.  Það litla sem samfélagið hefur haft áhrif á í gegnum tíðina er holdarfar, en ef sú skoðar myndir af "fallegum konum" frá þeim tíma þá hafa þær allar allt þetta sem ég nefndi að framan.

2)  Fegurðarsamkeppnir taka alltaf mið af meðfæddu fegurðarmati okkar, og bæta svo við því sem er í tísku hverju sinni, sem oftast er nú ekki mikið meira en einhverar smá sveiflur í holdarfari og önnur hárgreiðsla.

Fransman (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 13:51

21 identicon

Fransman. Þetta er ekki rétt hjá þér. Það hefur ekki "alltaf" verið einhver lína að hár þurfi að vera glansandi eða að varir þurfi að vera rauðar, eða brjóst stór. Komdu með sannanir fyrir þessum fullyrðingum þínum.

Og varðandi fegurðarsamkeppnirnar, ertu þá að segja að sílíkonaðgerðirnar séu ekki hluti af þessum tískusveiflum? Hvort myndir þú setja þær með "einhverjum smá sveiflum í holdafari" eða "hárgreiðslu"?

Guðrún (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 15:08

22 identicon

Elísabet: "Þar að auki hafa rannsóknir sýnt að fólk notar helst lyktarskinið til að velja sér maka."

Ég væri til í að fá link á þessar rannsóknir... hvar.is er góður staður fyrir þig til þess að byrja... eða þá fá heiti á greinum og í hvaða tímariti þær eru.

Langlois (1987) fann gögn sem benda til þess að börn kjósa frekar að líta á andlit sem fullorðnir meta fögur eða aðlaðandi (attractive), sem bendir til þess að við höfum meðfædda eiginleika sem við sækjum þangað (Gleitman et al., 2004)... Þessi staðreynd finnst mér styðja málsstað Fransman að einhverju leiti að fegurðarskynið er okkur meðfætt!

Í Psychology eftir Henry Gleitman og fl. (2004) er sagt: "Across ages, generations, and cultures, attractive people are almost always those with clear skin, shiny hair, and no visible deformities". Sér til stuðning vitnar hann í fjölda heimilda.

Einnig er talað um líffræðilegan grunn fyrir þessari staðhæfingu og þá nefnt að þessir eiginleikar hafi allir gefið vísbendingu um frjósemi.

Þannig Fransman hefur alveg rétt fyrir sér að segja það sem hann sagði varðandi þetta, allaveganna miðað við þau gögn sem ég fann.

Hvort að fegurðarsamkeppnir mæli þessa fegurð veit ég ekki, en eitt er víst að standardinn á fegurðarsamkeppnum hefur breyst með tíðarandanum. Vildi bara benda á að það sem Fransman sagði hefur við rök að styðjast! 

Guðmundur Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 18:41

23 identicon

Það eru vísindaleg sannanir fyrir því að stór brjóst og stórar mjaðmir séu heillandi fyrir karlpeninginn. Stórar mjaðmir þýða að konan er vel fær um að eiga barn, fitan í kringum mjaðmirnar er góð mæling á því hve frjósöm konan er og hversu vel hún er líkamlega búin til að bera barn. Brjóst gefa körlum til kynna að þær séu vel færar um að fæða börn þegar þau koma í heiminn. Dýrslega eðlið í karlinum horfir á þessa hluti þar sem að dýrið í okkur er að reyna koma genum sínum áfram, skapa afkomendur.

Að sama skapi eru vísindalegar sannanir fyrir því, egindleg og megindleg gögn að konur vilja frekar stóra eða búttaða karla þar sem þeir eru líklega betri að færa björg í bú og verja hana og barnið fyrir

Svo eru konur sem framleiða mikið af kynhormónum eru með þrúttnar og glansandi varir og rauðar kynnar gefa til kynna að þær séu frjóar. aðsteðjandi hættum.

Við tengjum flesta þessa hluti við kynþörf, en hún er til að við höfum löngum til að koma genum okkar á framfæri. Við erum bara dýr og hegðum okkur eins og hin dýrin í skóginum. Þetta eru hlutir sem eru inritaðir í genin okkar.

Núna halda allir að ég sé að bulla af því að karlar vilja bara konur sem eru undir meðalþyngd og 170cm á hæð. En ég hef séð niðurstöður kannan sem sýna að körlum finnst lang best að það sé eitthvað til að klípa í. Það eru bara hommar í tískuheiminum sem vilja hafa þær með anorexiu, mjaðma og brjóstlausar svo þær líti út eins og litlir strákar.

Núna halda eitthverjir að karlar hugsi bara um líkamann á konum, en það er ekki satt. Rannsóknir hafa leitt í ljós að fyrsti staðurinn sem karlar horfa á á konu þegar þær eru naktar eru augun, þau segja margt. Karlar hugsa ekki bara um  brjóst, mjaðmir og rassa. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 18:44

24 identicon

Það er allt á ferð og flugi hérna. aðsteðjandi hættum í lok þriðju málsgreinar á að koma aftast í lok annar málsgreinar. Svo það sem ég er að vísa í eru þættir af discovery, treysti þeim vel. Þar kom líka fram að konur meta mest þá þætti í karlmanninum sem eru lílegir til að vernda hana og barnið eða tryggja framtíð þeirra á eitthvern hátt(peningar, stærð, hreysti osfrv.) Svo kom líka í ljós að lykt spilar alveg ótrúlega stórt hlutverk í makavali, sérstaklega hjá konum.

Bjöggi (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 18:50

25 identicon

Svo meikar þetta allt saman sens þegar ég skoða nýjustu færslu kötu, myndirnar af því sem hefur verið kallað fegurð. Reirðar lappir og lengdir hálsar blekka akkúrat augað og ýtir undir aðrar kvennlegar lýnur, s.s brjóst og mjaðmir.

Bjöggi (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 18:54

26 identicon

Bjögga til frekar stuðnings þá mæli ég með að þeir sem áhuga hafa lesi bls. 417-424 í Psychology eftir Gleitman og fleiri (6. útgáfa).

Guðmundur Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 19:03

27 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Bjöggi - það er til fullt af "rannsóknum" sem byggja á ekkert sérlega traustum vísindalegum grunni um þetta allt saman... hlutleysi er ekki til í vísindum frekar en annars staðar þótt reynt sé að nálgast hlutina á hlutlausan hátt. Tek sem dæmi rannsókn sem birtist í virtu læknatímariti um fegurðarstaðal - byggða á einkunnagjöf 40 háskólastráka á andlitslausum myndum úr Playboy og sambærilegum tímaritum. Út frá þeirra einkunnagjöf var búin til formúla sem konur gátu sett inn hæð og þyngd og fengið einkunn um hversu aðlaðandi þær væru... Svo mikið bullshit að það hálfa væri nóg... en því miður er allt flæðandi í þessum rannsóknum. Tek sem annað dæmi þessa tilhneigingu vísindamanna til að túlka niðurstöður í samræmi við að konur vilji láta vernda sig og blablabla... sem er byggt á eðlishyggjukenningum, tilgátum, kynjamisrétti í gegnum tíðina og einhverjum hugmyndum sem nútímamaðurinn hefur um eðli og hlutverk kynjanna... Stundum sjást þessar kenningar meira að segja yfirfærðar í dýraríkið og mér er sérlega minnistæður einn þáttur sem ég sá á Discovery um risaeðlur þar sem fyrst var giskað á hvernig þær hefðu hagað sér og það svo sett í samhengi við eðlishyggjuhugmyndir um manninn. Mjög marktækt...

Sama segi ég um túlkun þína á myndunum. Þær eru í samræmi við þínar hugmyndir um að karlar vilji brjóst og mjaðmir sem óbreytanlegt fakta. Það fittar bara alls ekki inn í fegurðarhugmyndir mismunandi menningarheima. Legg til að þú kynnir þér söguna á bak við reyrðu fæturnar t.d. Eins sérðu að Venus myndin - frjósemistáknið sjálft - myndi í dag jafnvel vera neitað um ættleiðingu eða tæknifrjóvgun á grundvelli þess að vera of feit... Twiggy var mjög vinsæl á sínum tíma - akkúrat andstæðan. Mér skilst líka að þú finnir samfélög þar sem hangandi brjóst eru málið. Ástæðan sú að þá eru konurnar búnar að eignast börn og sýna og sanna þar með að þær eru frjósamar. 

Brjóstastærð segir síðan ekkert um mjólkurframleiðslu - enda eru brjóst fituvefur.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 10.10.2007 kl. 19:39

28 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

ps - Bjöggi - en hvað með hárið? Konan með rakaða kollinn myndi aldrei vera hleypt í Ungfrú Ísland keppnina? Alveg ljóst að kenningin um að draga athygli að brjóstum og mjöðum fittar ekki þar heldur... Eða eru vestrænar konur að reyna að draga athyglina að eða frá þessum líkamspörtum með hárinu? Hárið er ultimate kvenleikatákn okkar og ekki langt síðan afar þekkt kvenpersóna var talin endanlega hafa misst vitið af þeirri ástæðu að hún rakaði af sér hárið. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 10.10.2007 kl. 19:47

29 identicon

Fræðimennirnir ættu að vita meira heldur en við þar sem við erum ekki sérfræðingar á þessu sviði. En mér finnst dálítið skrýtið Katrín að þú haldir að þetta sem Bjöggi var að halda fram sé byggt á "ekkert sérlega traustum vísindalegum grunni"... það eru margir vísindamenn sem hafa rannsakað þetta meðal annars konur og eftir því sem þau best komast þá eru þetta niðurstöðurnar. Auðvitað er alltaf hægt að setja spurningamerki við túlkanir, þá treystir maður sérfræðingunum til þess að gera þær best.

Auðvitað á maður ekki að gleypa við öllu sem maður les, en ef það sem maður les er bakkað upp af sérfræðingum og vísindamönnum þá liggur smá áreiðanleiki bakvið það. 

Guðmundur Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 20:09

30 identicon

Ég tek undir með Elísabetu að það er útilokað að eðlislægt fegurðarskin (fegurðarskyn, hvað er rétt?) sé undirstaðan að fegurðarmati fegurðarsamkeppna.

Ég vitnaði ekki í Langlois því til stuðnings, heldur til þess að undirstrika að fegurðarmatið er ekki afstætt og hver og einn skilgreini það fyrir sjálfan sig. Svona eftir á fór ég að spá afhverju ég tók þetta dæmi fram og var að leyta í umræðunni sem fór á undan fram til þess að athuga hvort ég fyndi kveikjuna, en fann hana ekki:s.

Ég er gjörsamlega á móti því að keppa í fegurð (hefur ekki komið fram held ég). Fegurðarskin/yn okkar fer eftir hverjum og einum, þó bundið við ákveðin grunn sem mér fannst Langlois sýna fram á. Ég vona bara að félagslega pressan fari að minnka á því hvað er fallegt, því hún er að gera slæma hluti.

Elísabet: Ég hef ekki athugað makaval mikið, en það fáa sem ég hef lesið (úr Psychology eftir Gleitman) hefur verið bent á að líkamleg aðlöðun (háð fegurðarmati hvers og eins) sé einn þáttur, svo að nálægð (proximity) sé annar þáttur. Þetta er kannski ekki tæmandi listi en þó eitthvað til þess að hnoða úr, sannar ekkert og afsannar ekkert;)

Spennandi að sjá hvernig fegurðarsamkeppnir munu þróast, persónulega held ég að þær munu fylgja okkur í langan tíma, en kannski verða þær bærilegri þegar líður á tímann! 

Guðmundur Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 21:51

31 identicon

Twiggy þótti aldrei neitt sexy, hún var tískusimbol sem er búið til af hommum, eins og ég var að segja þarna áðan. Líkamsþyngd eða hvernig brjóstinn hanga þurfa heldur ekki að vera málið.

Mér finnst bara ekkert skrítið að karlmönnum finnist æsandi sem gefur til kynna kynþroska eða frjósemi. Þá er maður bara að neyta því að maður hafi eðlislæga kynhvöt, ef maður hefði ekki eðlislæga kynhvöt þá væri t.d. ekki hægt að telja samkynhveigð eðlilega þar sem hún væri tilbúin. Náttúran batta bara svona um hlutina og mér finnst soldið erfit að ætla að fara rífast við hana eða segja að hún hafi ekki rétt fyrir sér. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 22:35

32 identicon

Ef við hefðum ekki eðlislæga kynhneigð og eðlislæga hluti til að merkja að hitt kynið er kynþroska eða frjósamt þá væri maðurinn ekki til

Bjöggi (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 22:36

33 identicon

Svo eru simmetrísk andlit ekki ávísun á fegurð, það hefur verið gerð rannsókn á þessu og þær hafa sýnt að fólk með ósimmetrískt andlit þykir oft fallegra, model eins og cyndy crawford er t.d. með mjög ósimmetrískt andlit.

Bjöggi (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 22:39

34 identicon

Mér hefur sjaldan fundist ungfrú Ísland vera það svakalega flott, þetta eru oft stelpur sem passa inn í eitthvað form sem einvherjir hommar og tískufrömuðir út í heimi kalla fallegt. Þær hafa fæstar eitthvað til að klípa í, eru allar appelsínugular á litinn(ekki merki um heilbrigði eða frjósemi að mínu viti) getur velverið að einhverjum finnist það fallegt, ætla ekki að dæma um það. Mér finnst bara að þær konur sem vilja taka þátt í svona megi það og karlar og konur sem vilja horfa á það megi það. 

En svo hefur það bara sýnt sig að það eru aðalega konur sem horfa á fegurðuarsamkeppnir þannig að ég held að sigurvegarinn í svoleiðis keppnum er sú kona sem aðrar konur haldi að karlmönnum finnist flottastar. Sama má segja um tískublöðin, konur að horfa á konur búnar til af konum sem halda að þetta sé eitthvað sem karlmönnum finnst flott. 

Konur virðast bara vera uppteknari af útliti en karlar, kannski er það afþví að konur hafa oftast næmari skynfæri en karlar og því hefur sjónræn skynjum meiri áhrif á þær en okkur. 

Og ef það er hægt að mæla hversu mikið kona æsir karlmann upp þá findist mér ekkert að því að halda keppni í því hvaða kona er mest kynæsandi. Þá væri mælitækið kannski tæki sem mældi aukningu á blóðstreymi til litla vinarins eða hækkun á líkamshita eða eitthvað annað sem gæti gefið til kynna að karlmaðurinn væri að æsast kynferðilega upp. Það væri líka hægt að halda svipaðar keppnir fyrir kvennmenn. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 10:23

35 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Já Bjöggi þú segir nokkuð... 

Ég held reyndar að þú sért að gefa hommum allt of mikið kredit fyrir aðkomu þeirra að fegurðarsamkeppnum, og gott ef ekki örlar á svolítilli fóbíu þarna hjá þér  

Áhugaverð pælingin hjá þér um keppnina um mest kynæsandi konuna/karlinn... Sé í anda karla bjóða sig fram í að láta mæla blóðflæðið...!

Konur eru ekkert uppteknari af útliti en karlar - þær eru bara hlýðnar... og vita til hvers er af þeim ætlast. Karlar eru líka hlýðnir í þessum efnum eins og sést á því að þeir kaupa helst ekki neitt nema hálfber kona fylgi með í kaupbætti... (jbs auglýsingarnar ágætis dæmi - jú og kók zero og ... og ... og ...)

Prófaðu annars að bera saman myndir í kvennatímariti við myndir í karlatímariti (t.d. FHM og Cosmopolitan). Merkilegt nokk eru þar oft á tíðum svipaðar ímyndir - en seldar á sitthvorri forsendunni.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 11.10.2007 kl. 10:35

36 identicon

Ég held ég verði að taka undir með Katrínu að Bjöggi hefur mikinn áhuga á Hommum og hvernig þeir hafa komið að tískuiðnaðinum.

En ástæðan fyrir því að konur eru uppteknari af útliti heldur en karlar er einmitt sú ástæða að karlar velja sér frekar maka eftir útliti og konur eru í keppni hver við aðra um áhuga karlmanna, sem svo er ástæðan fyrir því að falleg kona hefur hærri félagslega stöðu heldur en minna falleg kona í hópi jafningja.

Konurnar sem fletta Cosmopolitan eru að fá skilaboðin "Svona ættirðu að líta út", en karlarnir sem skoða jafnvel sömu myndir fá skilaboðin "Svona konu ættirðu að ná þér í" 

Athugið að hérna er ég að tala um "tilfinningar" sem urði til fyrir hundruðum þúsunda ára.  Raunveruleikinn í dag er sá að falleg kona þarf ekkert að vera hærra sett félagslega, í hópi jafningja, heldur en minna falleg kona.  En það er samt þannig sem okkur líður.

Annars held ég að þið konurnar skiljið þetta seint, þið hafið ekki þessa tilfinningar sem fylgja þessu hjá okkur körlunum. 

Fransman (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 11:37

37 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Fransman þannig að ef ég skil þig rétt þá hafa karlar minna áhuga á útliti kvenna en velja sér samt konu eftir útliti og hafa svaðalegar tilfinningar í kringum útlit kvenna sem konur hafa ekki? Eru þetta ekki eintómar þversagnir?  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 11.10.2007 kl. 12:05

38 identicon

FHM og Cosmopolitan: Hef oft borið þessi blöð saman, allt öðruvísi myndi í þessum blöðum. Ekki hægt að líkja þessu saman, ef maður gerir það þá er maður ekki nógu læs á myndmál.

Svo hef ég ekkert á móti hommum, eða konum. Mér finnst bara leiðinlegt þegar það er verið að koma þeirra smekk og því sem þeim finnst sexy á framfæri og þá sér verið að kenna okkur körlunum um. Ef þið ætlið að segja mér að blöð eins og cosmo séu ekki stíluð inn á homma og konur, gerð af hommum og konum þá vitið þið ekki neitt um tískuheiminn, allavegna ekki high fasion.

Svo velja karlar sér ekkert frekar konur eftir útliti, maður er alltof vanur að sjá myndaleg karla með ljótum kellingum, myndaleg kona er eiglega aldrei með ljótum karl, nema hann sér ríkur. Reyndar er það konan sem hefur mest að segja í makavali kynjana, það er hún sem hleypir karlinum upp á sig. Þetta er svona hjá flestum dýrategundum.

Reyndar pæla konur meira í lykt, hljóðum og útliti þar sem þær hafa næmari skynfæri. Rannsónir hafa sýnt að við metum alla þessa hluti þegar við erum að vela okkur maka þessvegna er ekkert skrtíð að konur hugsi meira um þessa hluti og hafi betri tilfinningu fyrir þessum hlutum en karlar. 

Ég hef séð svona kepni þar sem blóðflæðið var mælt, nema þegar þeir sáu mat. Og niðurstaðan var að karlar verða alveg ótrúlega örvaðir kynferðilega þegar þeir sjá mat eða finna lykt af honum. Matur er leiðin að hjarta mans, og við vitum hvar hjarað þeirra slær. Jú í buxunum þeirra.

Bjöggi (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 13:20

39 identicon

Svo kaupi ég ekkert ef það er hálfber kona í kaupbæti af því að ég held alltaf að það sé verið að stíla vöruna á konur og horfi þess vegna ekki á auglýsinguna. Ef ég sé eitthvað til að horfa á þá er það oftast eitthvað á konunni og ég tek ekkert eftir því hvað er verið að auglýsa.

Koke zero var náttúrlega algjörlega stílað á konur. Var í markaðsfræði þegar þessa auglýsingu bar á góma og það höfðu allar konurnar tekið eftir þessu en eignlega einginn strákur. 

Sykurlausir gosdrykkir eru algjörlega stílaðir á konur, það eru bara konur sem hugsa nógu mikið um útlitið til að vera ekki sama um nokkra sykurmola eða nokkur auka kíló. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 13:28

40 identicon

"Fransman þannig að ef ég skil þig rétt þá hafa karlar minna áhuga á útliti kvenna en velja sér samt konu eftir útliti og hafa svaðalegar tilfinningar í kringum útlit kvenna sem konur hafa ekki? Eru þetta ekki eintómar þversagnir?"'

Þannig ég taki upp hanskann fyrir Fransman (ekki það að hann þurfi það)... þá sagði hann ekki að karlar hafi minni áhuga á útliti kvenna, heldur bara útliti almennt: "En ástæðan fyrir því að konur eru uppteknari af útliti heldur en karlar"

Konurnar eru uppteknari af útliti almennt vegna þess að karlar velja sér maka eftir útliti. Engin þversögn í þessu.

Í sambandi við tilfinningar þá er hann held ég alveg örugglega að tala um það að við höfum tilhneigingu til þess að meta "fagurt" fólk meira en "ekki eins fagurt" fólk í hópi jafningja. Ekkert "svaðalegar" tilfinningar, heldur ómeðvitað mat sem fer í gang. 

Guðmundur Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 13:32

41 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Bjöggi markhópur coke zero eru karlmenn - ungir karlmenn. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 11.10.2007 kl. 13:33

42 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Og völd og yfirráð... enda er brjáluð pólitík um líkama kvenna.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 11.10.2007 kl. 13:59

43 identicon

Elísabet: Ég gerðist nú ekki túlkur Fransman (ef þú átt yfir höfuð við mig), heldur var ég bara að beina því sem ég sagði að Katrínu, því mér fannst hún misskilja það sem hann sagði.

Ég skal ekki gerast túlkur;) en gefa mitt álit á: "Nú er best að spyrja túlkinn hans Fransmans  hvort það sé þá þannig að karlar séu ómeðvitað uppteknir af útliti kvenna og konur meðvitað uppteknar af sínu eigin útliti?"

Ok það er nokkuð víst að konur hugsa meira um útlitið, sem ég held að flestar konur geta verið sammála um. Þær hugsa um útlitið bæði meðvitað og ómeðvitað. Karlar hins vegar eru ekki eins uppteknir af útlitinu, hjá sjálfum sér það er að segja, þeir eru samt uppteknir af útliti kvenna og það er alveg meðvitað og ómeðvitað. Það sem greinir konur og karla að ég held, er að konur eru uppteknar af útliti sínu og en karlar af útliti kvenna. Ekki lesa þó úr þessu að karlar séu ekki að spá í sínu útliti, því auðvitað fá þeir enga kvennmenn ef þeir líta illa út.

Ég semsagt tel að karlar og konur hugsa meðvitað um útlit, en bara á öðrum forsendum. Ástæðan fyrir því að konur hugsa meira um útlit er örugglega vegna þess að þær meðvitað vita það að karlar dæma þær oftast fyrst eftir útliti. Hvort þetta megi flokkast undir hlýðni eða bara löngun til þess að ná sér í karlmann, það er ekki fyrir mig að dæma.

En pæling: Hvernig er þetta hjá samkynhneigðum konum? Ættu þær ekki að vera ónæmar fyrir þessu ef þær hafa enga tilhneigingu til þess að hlýða körlum og karlstöðlunum?

Guðmundur Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 14:26

44 identicon

Þegar ég sagði að konur væru uppteknari af útliti heldur en karlar, þá átti ég við "sínu útliti".  Ég held að það sé almennt viðurkennt að konur eyða meiru í að bæta eigið útlit heldur en karlar.

Bjöggi: ég veit ekki hvar þú hefur séð þessa "keppni" þar sem karlmönnum stóð af því að finna lykt af mat, ég man ekki eftir því að hafa fengið neinn bóner af því að hafa fundið matarlykt, nema í þeim tilfellum þar sem ég sá um leið konuna mína standa í eldhúsinu.

Guðmundur: já við metum öll fólk mikið eftir útliti, og konur eru alveg sérstaklega góðar í því.  Ef karlmaður gengur inn á stað þar sem er hópur af konum þá sigtar hann strax út 2-3 sem eru "girnilegar" í hópnum.   Konur eru líka meðvitaðar um sína eigin stöðu í hópnum og það er hægt að sjá einfaldlega af ljósmyndum, hver er hvar í goggunarröðinni.

Svo þetta misskiljist ekki eins og það sem ég skrifaði áður: konur leggja bæði meira í eigin útlit heldur en karlmenn og eru betri í að "dæma" fólk eftir útliti.  Hins vegar skiptir útlit kvenna karlmenn meira máli heldur en útlit karlmanna skiptir konur.

Elísabet: karlar eru meðvitaðir um útlit kvenna, og hafa áhuga á hvernig þær líta út, ég veit ekki hvað þú áttir við með því að setja orðið "uppteknir" þarna inn.

Karlar hafa engan sérstakan áhuga á meðvituðum áhuga kvenna á sjálfum sér. 

Tilfinningar hjá körlum um "hvað er sexy" eða fallegt eru ekki meðvitað.  Þ.e. karlar hugsa ekki " hmm, hún er svona 90cm um mittið, hrein húð, engar bólur, rauðar varir,  bein í baki.  Best að láta sér standa við þessa sjón."  Þess í stað nægir okkur að horfa á konuna og tilfinningin kemur ásamt líkamlegum viðbrögðum ef það er viðeigandi.

Karlmaður getur ákveðið á innan við einni sekúndu hvort hann væri til í að sofa hjá konu, en konan þarf meiri upplýsingar heldur en bara útlitið. 

Fransman (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 15:24

45 identicon

Hérna kemur frétt af Vísi.is sem styður mitt mál. Karlar heillast meira af frjóum konum, reyndar strippurum í greininni. Mér finnst það samt styðja það að komur sem eru frjóar bera það utan á sér og þykja meira spennandi fyrir karlpeninginn en hinar sem eru það ekki. Svo aðrar rannsóknir sem segja að hægt sé að merkja frjósemi konu á útlitinu. http://visir.is/article/20071011/FRETTIR05/71011065 

Bjöggi (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 17:07

46 identicon

Ef markhópurinn fyrir kók zero voru karlar þá var það mjög misheppnuð auglýsingarherferð, við karlarnir tókum ekki jafn vel eftir henni og konurnar.

Bjöggi (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 17:19

47 identicon

Þannig að án þess að vera uppteknir af útliti velja karlar sé kvenkynsmaka eftir útlitinu og þess vegna eru konur meira uppteknar af útliti heldur en karlar....

Þetta meikar sens fyrir mig, ef konur eru næmari á þessa hluti(sem koma að útliti) en karla þá dæma þær sig harðar en karlar dæma þær. Þær sjá sig sterkar í spegli samfélagsins en samfélagið sér þær.  Þessvegna verða konur meira uppteknar af þessum hlutum en karlar.

Þessveng held ég að uppbyggjandi áróður í garð kvenna sé betri en niðurrífandi árróður í garð karla þegar kemur að þessum málum. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 17:28

48 Smámynd: Guðmundur Gunnlaugsson

Markhópur Coke Zero voru karlar, Coke Light eða Diet Coke markhópurinn var konu.

http://en.wikipedia.org/wiki/Coca-Cola_Zero 

Guðmundur Gunnlaugsson, 11.10.2007 kl. 18:11

49 identicon

Konur eru bara mikið uppteknari af útliti sínu en karlar af útliti þeirra. Veit að feminískum konum sem þykjast hugsa ekkert um útlitið þykir þetta eitthvað skrítið en svona er þetta bara.

Bjöggi (IP-tala skráð) 12.10.2007 kl. 12:16

50 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Repeat loop indefinitely...

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 12.10.2007 kl. 17:55

51 identicon

Notið þið ekki allar snyrtivörur ?

Til hvers ? 

Fransman (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 15:04

52 identicon

Mér varð hugsað til ykkar: 

WASHINGTON — Science is confirming what most women know: When given the choice for a mate, men go for good looks.

And guys won't be surprised to learn that women are much choosier about partners than they are.

"Just because people say they're looking for a particular set of characteristics in a mate, someone like themselves, doesn't mean that is what they'll end up choosing," Peter M. Todd, of the cognitive science program at Indiana University, Bloomington, said in a telephone interview.

Researchers led by Todd report in Tuesday's edition of Proceedings of the National Academy of Sciences that their study found humans were similar to most other mammals, "following Darwin's principle of choosy females and competitive males, even if humans say something different."

Their study involved 26 men and 20 women in Munich, Germany.

Participants ranged in age from 26 to their early 40s and took part in "speed dating," short meetings of three to seven minutes in which people chat, then move on to meet another dater. Afterward, participants check off the people they'd like to meet again, and dates can be arranged between pairs who select one another.

 

Fransman (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 15:46

53 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Já Fransman. Þetta eru mjög áreiðanlegar niðurstöður - enda kjósa flestir maka á hlaðborði á 3 - 7 mínútum. Gifta sig svo og lifa happily ever after... Úrtakið líka ægistórt og óhætt að alhæfa um allt mannkyn út frá þessum 46 hræðum í Þýskalandi... Sérlega gaman að sjá hvað fólk gleypir hrátt við svona "alvöru" vísindum...

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 18.10.2007 kl. 21:43

54 identicon

Einstaklega málefnalegt svar Katrín.

Fransman (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 07:29

55 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Fransman það er verðugt umhugsunarefni af hverju "rannsókn" sem er svona fáránleg skuli rata inn á alla helstu fjölmiðla. Íslenskir fjölmiðlar eru m.a. búnir að birta þessar niðurstöður, ef niðurstöður skyldi kalla. Svona rannsóknir eru miklu meiri pólitík heldur en vísindi. Gagnrýnin hugsun er af hinu góða í þessu sem öðru.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 19.10.2007 kl. 09:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 332536

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband